Liverpool – Sheffield United

Sheffield, Sheffield, Sheffield. Hvar á maður að byrja? Lélegasta liðið í sögu ensku úrvaldseildarinnar? Nei kannski ekki alveg. Örugg þrjú stig? Sennilega, best að jinxa engu samt.

Sheffield

Sheffield er nokkuð stór borg í Suður Jórvíkurskíri, rétt austan við Manchester.

Borgin á, eins og flestar stærri borgir Englands, ansi ríka sögu. Fyrstu merki um mannabústaði eru tæplega 13.000 ára gömul og í gegnum aldirnar og árþúsundin hefur auðvitað verið rifist og slegist um rétt til búsetu á svæðinu. Á miðöldum var borgarstæðið á landamærum Merciu og Norðumbralands, þeir sem hafa horft á ákveðnar Netflix seríur vita hvað um er rætt.

Á 14. öld var Sheffield þegar orðin þekkt fyrir hnífaframleiðslu sína, rétt eins og Stoke fyrir leirkeraiðn og Luton fyrir hattagerð svo eitthvað sé nefnt. Merkilegt nokk að félögin á þessum stöðum taki gælunöfn sem tengjast fornri iðn staðarins.

Hnífagerðin, sem var reyndar búin að þróast yfir í almenna járn- og stálsmíði, fékk síðan dæmalausa innspýtingu þegar hnífagerðarmenn Sheffieldborgar fundu upp á nýrri leið til að gera hnífapör. Þeir náðu að bræða saman þunnt lag af silfri ofan á koparplötu sem varð síðan þekkt undir nafninu Sheffield plate. Ég veit svo sem ekki hvort þetta sé enn gert, efast reyndar um það, en hver veit nema við séum að nota hnífapör frá Sheffield daglega? Gæti vel verið. Og vel að merkja, gælunafn félagsins er The Blades.

Í Seinni heimsstyrjöldinni réðust nasistar rækilega á Sheffield, sem hafði þá verið breytt í hergagnaframleiðsluborg með sínum öflugu verksmiðjum. Eftir stríðið byggðist borgin svo hratt upp með fjölbýlishúsavæðingu. Í febrúar gerði svo rok í Sheffield, sem kallaðist The Great Sheffield Gale, en orðið gale er oftast notað yfir strekkingsvind. Strekkinsvindur þessi náði 156 km/klst hraða, eða heilum 43 metrum á sekúndu. Það er talið slæmt en ekki endilega ófært undir Hafnarfjalli nema bílar séu með hestvagna eða hjólhýsi aftan í sér. Húsin voru þó ekki betur byggð en það að rokið skemmdi 2/3 af byggingum borgarinnar.

21.öldin hefur verið borginni nokkuð góð, svona til þess að gera. Borgin stendur á bökkum ánna Don og Sheaf og þar eru flóð regluleg, síðast urðu flóð árið 2019 en mikil uppbygging hefur átt sér stað, svona rétt eins og í mörgum enskum borgum.

Fótboltinn

Þeir sem komnir eru á miðjan aldur tengja Sheffield miklu frekar við Miðvikudagsdrengina í Sheffield Wednesday. Á níunda áratuginum voru þeir nokkuð erfiðir, með Howard nokkurn Wilkinson sem framkvæmdastjóra. Skagamaðurinn knái, Sigurður Jónsson lék með þeim um stund, ég held þó að leikstíllinn hafi ekki beint hentað honum enda var kannski ekki þörf fyrir miðjumenn í þeim bolta – route 1, kick and run af bestu gerð gamla skólans. Það skilaði þeim Deildarbikarmeistaratitli árið 1991. Sheffield United var í efstu deild frá 1990-1994.

Mesti harmleikur í sögu ensku knattspyrnunnar varð í Sheffield, á Hillsborough-vellinum þann 15. apríl árið 1989.

Sheffield United hafa átt skárra gengi að fagna á 21. öldinni. Þeir hafa komist nokkrum sinnum upp í úrvalsdeildina og náðu meira að segja að halda sér þar og enda í efri helmingnum tímabilið 2019-2020. Næsta tímabil féllu þeir svo með stæl, eins og þeir eru á leiðinni að gera núna.

Lið Sheffield United

Það er ekki eins og maður bíði súperspenntur að horfa á þetta lið um hverja helgi. Þeir eru rígfastir, langneðstir í deildinni og eiga ekkert erindi í þessa deild og de fakto skítfallnir. Þeir eru með 15 stig að 29 leikjum loknum, fá rúmlega hálft stig að meðaltali í leik, sem mun skila þeim 19 stigum í lok tímabilsins. Á heimavelli hafa þeir fengið 9 af þessum stigum en það sem er merkilegt þar er að þeir hafa fengið á sig 45 mörk í 15 heimaleikjum, þrjú mörk að meðaltali í leik. Þeir fengu á sig 6 mörk gegn Arsenal, 5 gegn Brighton en hafa þó gert jafntefli í síðustu tveimur leikjum, 2-2 gegn Bournemouth og svo 3-3 gegn Fulham.

Chri Wilder er aftur kominn í stjórasætið hjá þeim en ég held að leikmannahópurinn sé bara svo vonlaus að það er bara lítið hægt að gera í þeirra málum.

Líklegt byrjunarlið þeirra er svona (liðið í síðasta leik):

Grbic

Holgate – Ahmedhodxic – Jack “okkar” Robinson

Bogle – Souza – Arblaster – Hamer – Osborn

Brereton – McBurnie

Eitthvað er um meiðsli hjá þeim, veit ekki hvort það breyti miklu, en þynnir vissulega möguleikana hjá slöku liði. Rhian “okkar” Brewster, Tom Evertonmaður Davies, George Baldock og nokkrir fleiri eru meiddir.

Okkar menn

The march goes on!! Poetry in motion!! Top of the league!!

Hvað er hægt að segja um okkar menn. Þeir standast hverja raun, þeir styrkjast við hvert mótlæti og gera það sem þarf. Klopp er búinn að berja saman þvílíkt lið, þvílíkan hóp, þvílíka karaktera. Það hefur gerst trekk í trekk, núna síðast gegn Brighton, að maður skilur hvorki upp né niður í ákvörðunum dómara og VAR-herbergisins. Nunez rifinn niður, Salah bara pjúra felldur, Doku með takka í öxl(!!!) – allt innan teigs og ekkert dæmt. Sumt virðist varla vera skoðað. En áfram höldum við þó að vinna leikina. Ég held að við værum með svipaða markatölu og Arsenal ef við fengjum einhvern tímann eitthvað dæmt með okkur. En, nóg af dómarvæli, liðið:

Nokkurn veginn það sama og gegn Brighton, Konate kemur inn fyrir Quansah.

Þetta er bara feykisterkt lið þótt enn vanti mikilvæga leikmenn. MacAllister var geggjaður gegn Brighton, Endo og Szoboszlai ekki síður. Salah og Nunez voru ekki á skotskónum (þótt Salah hafi skorað) en verða það heldur betur í þessum leik. Ég myndi vilja sjá Tsimikas í vinstri bakverðinum en ég er ekki viss um að Klopp sé sammála mér með það.

Þetta verður 6-0 fyrir Liverpool. Strikerarnir verða allir funheitir, Salah skorar þrjú, Nunez tvö og svo skorar Joe Gomez fyrsta markið sitt í meistaraflokki!!

We´re gonna win the league, we´re gonna win the league

and now you gotta believe us, and now you gotta believe us

and now you gotta believe us

We´re gonna win the league!!

19 Comments

 1. Takk fyrir frábæra upphitun en nú kemur fyrsti bw af sennilega mörgum og bendir á að þetta er heimaleikur. Við förum því ekki í rútu lengra en á Anfield og þessi merkilegi fróðleikur um hnífaborgina … ja við erum víst ekki að fara þangað!

  En mikilvægast er að spáin rætist með öfugum formerkjum þó, 6-0 (bara alls ekki 0-6!).

  jessör.

  4
 2. Sælir félagar

  Takk fyrir upphitunina Ívar Örn, hún er skemmtileg og fróðleg eins og ykkar er von og vísa kop-arar. Þessi leikur væri dæmigert bananahýði ef leikurinn væri ekki á Anfield. Ég spái okkar mönnum sigri og býst við að seinni hluta leiksins verði menn látnir spila sig í form sem lítið sem ekkert hafa spilað undanfarið. Ég veit ekki hvaða tölur verða á stigatöflunni en mundi þiggja að hafa þær nokkuð stórar okkar megin.

  Það er nú þannig

  YNWA

  4
  • Með þessum rökum eru allir leikir á útvelli bananahíði.

   Sheff Utd sér lélegasta liðið í deildinni og við tókum þá 0-2 á útivelli. Sigurinn hefði vissulega mátt vera stærri.

   Þrátt fyrir að maður sé alltaf sáttur við sigur þá vil ég stórsigur á morgun.

   Markatalan gæti skipt máli.

   4
   • Gapko er alltaf ad fara byrja á móti sheffield. Diaz eda Nunez verdur bekkjadur ef ekki badir.

   • Liverpool hefur bara komið sér í þá stöðu að geta látið ólíklegustu útileiki verða að einhverju bananahýði. Alveg magnað hvað sumt hefur vafist fyrir okkur í gegnum tíðina.

    Hinsvegar vona ég að sigur komi í kvöld og að hann verði stór – annað væri ekki sæmandi liði sem er í dauðafæri að verða enskur meistari!

    Áfram að markinu – YNWA!

    1
  • Hann og Nunez eru líka báðir með 8 spjöld og mega alls ekki fá tvö í viðbót í næstu þremur leikjum (fá þá tveggja leikja bann). Þetta fellur út í loka umferðunum.

   1
   • held að við höfum alveg efni á að bekkja Endo á morgun.

    Slíkir verða yfirburðirnir.

    3
 3. Vönduð og efnisrík umfjöllun sem ber að þakka fyrir, Ívar Örn. Kvótinn af sagnfræðilestri dagsins vel fylltur. Ekkert síðra að fá smá fróðleik um Sheffield þótt leikurinn fari fram á Anfield. Svo má ekki gleyma því að Sheffield er höfuðborg snókersins, þeirrar skemmtilegu íþróttar. Vonandi fara kúlurnar frá Liverpool jafn ítrekað í netmöskva Sheffield í komandi leik og þær gera þegar Ronnie O’ Sullivan er í stuði við græna borðið. Vonumst eftir stórsigri, en tökum hvaða sigri sem er.

  9
 4. Verð á þessum leik og vonast eftir flugeldasýningu ! Fer svo á eftir og ætla að hvetja Villa til sigurs. Koma svo !

  6
 5. Mikið yrði nú gaman að sjá Jayden Danns fá tækifæri í þessum leik. Það er svo mikill kraftur og áræðni í honum.

  4
 6. Númer 1, 2 og 3 er að fólk fari ekki inn í þennan leik með væntingar um að hann eigi að vinnast 8-0, og ef staðan verður ekki orðin 3-0 eftir korter að þá sé það merki um að allt sé á leið til fjandans og það sé ekkert nema dauði og djöfull í kortunum. Þetta lið okkar hefur verið duglegt að fá á sig mark snemma leiks, en líka alveg jafn duglegt að snúa því svo við og skora gjarnan á lokamínútunum. Ég yrði bara ekkert hissa þó akkúrat það myndi gerast í kvöld, þó ég vonist auðvitað eftir þægilegum leik þar sem verður hægt að nýta breiddina og þess vegna að gefa Jayden okkar Danns séns eins og Henderson14 kallar eftir.

  From doubters to believers.

  17
  • Sælir félagar

   Ég er fullkomlega sammála Daníel. Sjáum til hvernig leikurinn þróast, sjáum hverju fram vindur. Ef staðan verður 3 – 0 eftir korter þá er hægt að fara að hyggja að breytingum. Ef hins vegar hinn er uppi að staðan er 0 – 0 eftir 20 mínútur öndum þá með nefinu og gefum Klopp og liðinu tíma til að vinna leikinn og sjáum til hver markatalan verður að lokum.

   Það er nú þannig

   YNWA

   1

Samfélagsmiðlahetja óskast!

Liverpool – Sheffield United