Pollýönnuhugleiðingar

Þessar sunnudagshugleiðingar mínar koma kannski frekar seint, en betra er seint en aldrei. Ég ætlaði mér að skrifa þær fyrr í dag (sunnudag) en dagurinn reyndist ekki vera jafn auðveldur og ég ætlaði mér, þannig að hugleiðingunum seinkaði óvænt. Lífið hefur einstakt lag á að senda mann inn í litlar blindgötur sem seinka því að maður komist á áfangastað.

Í ummælakerfinu við síðustu leikskýrslu vorum við sem stjórnum þessari síðu kallaðir Pollýönnur af einum ágætum lesanda. Ég var þessu að sjálfsögðu ósammála en ég fór að hugsa mig aðeins um. Gæti verið að þetta sé rétt? Gerum við sem rekum þessa síðu jafnan okkar besta til að hunsa allt það slæma og einblína aðeins á það góða í fari leikmanna og stjórnenda Liverpool-liðsins? Er okkur um megn að gagnrýna liðið eða stjórann? Erum við Pollýönnur?

Þannig að ég leitaði aðeins og var fljótur að finna færslu sem afsannaði þennan ótta minn. Fyrir tveimur vikum töpuðum við fyrir United og ég fór miður fögrum orðum um stöðu liðsins í heild sinni á þeim tímapunkti tímabilsins. Einar Örn bætti svo við leikskýrsluna mína með enn frekari gagnrýnisorðum. Saman gagnrýndum við Rafa fyrir að rótera liðinu of mikið og að hafa orsakað óstöðugleika þann sem hingað til hefur einkennt liðið á útivöllum, liðið sjálft fyrir að hafa ekki spilað eins og væntingar gerðu ráð fyrir og sjálfa okkur og aðra stuðningsmenn fyrir að hafa kannski gert óraunhæfar kröfur.

Daginn eftir hins vegar gerði ég eins og svo oft og reyndi að sjá glasið fyrir mér hálffullt. Ég skrifaði sannkallaða Pollýönnufærslu þar sem ég reyndi að pæla aðeins í því hvernig Liverpool-liðið gæti bjargað því sem hægt væri að bjarga frá þessu tímabili. Ég skoðaði leikjaplan liðsins fram að áramótum og komst að þeirri niðurstöðu að ef næstu fjórir heimaleikir myndu vinnast myndum við sjá liðið fullt sjálfstrausts á útivelli í fyrsta sinn í vetur, gegn Arsenal þann 12. nóvember.

Þetta hefur nú gengið eftir. Liðið hefur unnið fjóra misauðvelda sigra gegn þremur sterkum liðum (tvö í Úrvalsdeild og það þriðja í öðru sæti frönsku deildarinnar í fyrra). Ekkert þessara liða er í sama gæðaflokki og Liverpool og því bjóst maður við sigri í þessum leikjum, en það þurfti samt sem áður að klára þá og það gerði liðið.

Sem leiðir mig að næstu helgi. Fyrsti hluti spár minnar hefur gengið eftir og nú mætir liðið á Emirates Stadium fullt sjálfstrausts; Kuyt og Crouch eru sjóðheitir, Gerrard er farinn að nálgast sitt besta form á ný og Pepe Reina hefur haldið marki sínu hreinu tvisvar í röð núna. Til að bæta um betur hafa Arsenal-menn hikstað verulega í síðustu leikjum og eru að upplifa sjaldgæfa markaþurrð og óöryggi, auk þess sem þeir eru víst reglubundið púaðir niður á heimavelli fyrir að skjóta ekki nóg á markið. Þeim gengur einfaldlega erfiðlega að venjast nýja heimavellinum sínum og það gerir þá óstyrka fyrir bæði heima og úti.

Engu að síður þá er ljóst að leikurinn um næstu helgi verður massífur. Fyrst þarf að vinna Birmingham á útivelli á miðvikudag og að því undanskildu að eitthvað stórslys verði ætti það að hafast. Þá ættum við að geta mætt Arsenal á sunnudag með fimm sigra í röð á bakinu. Ef liðið ætlar einhvern tímann að standa undir stóru orðunum verður það um næstu helgi. Ef ekki getum við endanlega kysst titilvonir bless, bæði tölfræðilega og andlega, en ef liðið vinnur nú á Emirates er aldrei að vita nema það sé upphafið að einhverju stórkostlegu.

Það er ekkert Pollýönnuviðhorf, það bara er svona. Ef við töpum er þetta búið, ef við vinnum er þetta í fullum gangi, úr því að Chelsea töpuðu um helgina. Þannig að ég sé ekki ástæðu til annars en að hlakka til næsta sunnudags. 🙂

En samt. Hvað gerist ef við töpum? Þá er titillinn vissulega úr augsýn enn eitt árið, bæði tölfræðilega og andlega. En hvernig eigum við að bregðast við því ef það gerist? Hvað eigum við að segja ef Arsenal gjörsamlega yfirspila okkar menn og sýna okkur fram á hvað þarf til að gera atlögu að titlinum?

Persónulega mun tap gegn Arsenal ekki hafa nein áhrif á stuðning minn við Rafa Benítez. Sá stuðningur er ekki hvítþveginn eða litaður af einhverju Pollýönnu-viðhorfi, sama hvað hver kann að segja. Ég hef sagt það áður og ég segi það aftur; ég trúi að Rafa Benítez sé rétti maðurinn til að gera þetta lið að meistaraliði. Titillinn er á leiðinni, hvort sem hann kemur vorið 2007, 2008 eða 2009.

Þegar Rafa tók við þessu liði fyrir tveimur og hálfu ári töluðu menn um að hann þyrfti sitt fyrsta tímabil til að sigta út arfann í leikmannahópi liðsins. Það ár vann hann óvænt Meistaradeildina með meira og minna sama mannskap og Houllier hafði mistekist svo hrapallega með árið áður. Annað árið átti hann svo að byrja að setja saman sitt eigið lið, mynda sinn eigin kjarna og við áttum að sjá liðið taka framförum. Það árið vann hann FA bikarinn og kom liðinu í þriðja sætið með 83 stig, sem er besta frammistaða Liverpool síðan Úrvalsdeildin var stofnuð og þriggja stiga sigurreglan tekin upp.

Á þriðja tímabilinu áttum við svo að sjá lið sem væri 100% Rafael Benítez út í gegn berjast um toppstöðuna í Úrvalsdeildinni frá byrjun. Árangurs er vænst á fleiri vígstöðvum, en í ár átti liðið að hirða titilinn. Samkvæmt áætlunum okkar, ákafra stuðningsmanna. Hvað gerðist?

Jú, svolítið skrýtið gerðist. Lífið gerðist. Lífið hefur nefnilega einstaklega gott lag á að leiða mann inn í litlar blindgötur sem seinka því að maður komist á áfangastað. Maður kaupir eitt stykki Morientes, mann af hæstu gráðu með sannkallað heimsklassaorðspor og hann bara finnur sig ekki. Maður kaupir eitt stykki Cissé, efnilegasta framherja heims, og hann fótbrotnar tvisvar mjög illa og nær sér aldrei á strik. Maður reynir að fá menn eins og Figo, Simao Sabrosa, Daniel Alves og jafnvel David Trézeguet til liðsins en það tekst ekki og því þarf að gera aðrar áætlanir en þær sem voru upphaflega á teikniborðinu. Maður lendir í meiðslum, maður sér lykilmenn lenda í lægð, og svo framvegis, og svo framvegis, og svo framvegis.

Auðvitað eru þetta ekki gildar afsakanir. Af og frá, enda er ég ekkert að afsaka Rafael Benítez. Hans starf er að ná árangri með hvaða ráðum sem er. En þótt þetta séu ekki afsakanir, þá eru þetta ástæður. Ekki ástæður fyrir því að hann sé rangur maður heldur ástæður fyrir því að hann kunni kannski að vera örlítið lengur á áfangastað en við vonuðumst eftir.

Menn eru gjarnir á að minnast á glæsta fortíð félagsins þegar nútíminn er gagnrýndur. Menn vitna gjarnan í meistara eins og Dalglish, Rush, Barnes, Keegan og fleiri slíka þegar borinn er saman sá klassíski fótbolti sem liðið spilaði í gamla daga og sú taktíska, varnarsinnaða, útpælda leikaðferð sem notast er við í dag. Þetta eru að vissu leyti góð eða gild rök, en í hvert sinn sem ég les slík ummæli langar mig til að minna viðkomandi á eitt nafn: Bill Shankly.

Bill Shankly vann ekki neitt fyrsta rúmlega hálfa áratuginn sem hann var hjá Liverpool, og eftir að hann hafði unnið sinn fyrsta meistaratitil með félaginu vann hann ekkert í nokkur ár í viðbót, áður en allt small í gírinn og framhaldið, eins og sagt er, vita allir.

Eflaust voru margir þarna úti sem vildu að hann yrði látinn fara þegar hvert tímabilið leið án þess að hann skilaði titli í hús. En stjórnin stóð við hann, trúði á það uppbyggingarstarf sem hann var að vinna og að lokum skilaði það ríkulegum ávöxtum. Slíkir menn voru eflaust kallaðar Pollýönnur síns tíma, en þeir hlógu síðast … og best.

Ég er ekki að segja að Rafa Benítez muni pottþétt skila sama árangri og Shankly, en hann hefur í það minnsta unnið sér inn smá þolinmæði. Árangur hans á Spáni talar sínu máli, auk þess sem hann er fyrsti framkvæmdarstjórinn til að vinna tvo stóra titla á sínum fyrstu tveimur tímabilum með Liverpool. Sá fyrsti.

Þið getið kallað mig Pollýönnu ef þið viljið. En að afskrifa leikmennina sem voru keyptir í sumar, spilamennsku liðs sem er að vinna sig hægt og bítandi upp úr lægð, stöðu liðsins í Úrvalsdeildinni þegar það er aðeins þremur stigum frá þriðja sætinu og sjálfan framkvæmdarstjórann sem hefur þegar afrekað svo margt fyrir félagið, strax í nóvember … það er ekkert annað en bölsýni að mínu mati. Þá vil ég frekar sjá glasið hálffullt.

Sex dagar í Arsenal …

15 Comments

  1. Já þetta lítur bara nokkuð vel út og spennandi tímar framundan hjá okkur Púlurum.
    Ég las alla kommentarulluna í gær og fannst hún bara ágæt. Allir rökstuddu sitt mál og fannst mér stjórnendurnir spila eftir sömu reglum og allir aðrir.
    Er reyndar mjög ánægður að fá stöku pistil þar sem reynt er að vera jákvæður þó illa gangi. Einsog staðan er í dag finnst mér að vel gangi. Vonandi er Liverpool búið með down-kaflann sinn og verða svo í bullandi baráttu í maí…
    Ég held persónulega að Benitez sé það besta sem hefur komið fyrir þennan klúbb í langan tíma og ef eitthvað ætti að segja um þann mann að þá er það að ég er hræddur um að hann sé húmorslaus og því lítil stemmning við og við hjá liðinu en ég veit að sjálfssögðu ekkert um það.
    Þakka góða síðu og gríðarlegan blogg-dugnað 🙂

  2. Mjög flottar Pollýönnupælingar! 🙂 Ég hef ekki legið á mínum skoðunum, en ég hef jafnframt tekið fram að mér þætti frábært ef bölsýnisspá manns reyndist svo vitlaus, og ég hef líka verið duglegur að taka Pollýönnuna á þetta – það hefði mátt sjá í sumum kommentanna minna.

    En hvort sem þetta er partur af þessari æðislegu íþrótt sem heitir fótbolti, eða eitthvað annað, þá er stuðningshjartað alltaf á fullu og þegar biðin eftir enskum meistaratitli er orðin svona löng, þá er ekkert nema eðlilegt að menn bölvi við og við – þegar illa gengur. Ég held ég hafi samt hvergi sagst vilja láta reka Benitez, enda hefur hann gert frábæra hluti fyrir félagið. Hann er flottur þjálfari, en hann er eins og leikmennirnir ekki hafinn yfir gagnrýni. Sanngjörn gagnrýni er frábær og réttlát, en ég veit ekki hversu mikið og oft þessi gagnrýni (og auðvitað jákvæðu punktarnir) leka til leikmanna og þjálfarans 🙂

    Arsene Wenger stjórnar liði sem ég hata mest af öllum liðum í heiminum. Hann sagði á einu tímabili að sitt lið væri nógu gott til að fara taplaust í gegnum heilt tímabil – það gerðist. Mourinho reyndi það líka, það gerðist ekki. Í ár virðist deildin ætla að verða jafnari en oft áður, og öll liðin hafa tapað. Man U er á róli, en það mun koma að down-tímabilinu þeirra – bíðið bara!

    Sjáið bara hvað Chelsea og Man U þurftu að bíða lengi eftir titli … ég er sannfærður um að okkar bið eftir titli verður ekki jafnlöng – en það breytir því ekki að pirringurinn verður til staðar þegar liðið er að spila herfilega illa.

    Ég er aðdáandi fótboltans, og er Púllari í húð og hár, en í gær sá ég einn skemmtilegasta leik tímabilsins þegar Tottenham og Chelsea áttust við. Maður hefði haldið að eftir stigastuldinn á móti Barcelona kæmi Chelsea magnað til baka og rústaði Tottenham, en annað kom á daginn. Það eitt segir mér, að veturinn sé kannski eins búinn og maður hefur sjálfur sagt hann vera. Ég held samt sem áður að við eigum dáldið í land að vera með meistaraliðið á Englandi – til þess þarf meiri stöðugleika, sjálfstraust og styttri down-tímabil.

    Feita konan hefur ekki sungið sitt síðasta!

    Áfram Liverpool – og áfram frábær Liverpool-bloggsíða!!!

  3. Ef ég á að bera það saman hvernig mér líður varðandi Liverpool liðið í dag versus hvernig mér leið varðandi Liverpool liðið þegar ég skrifaði þessa grein: [Þunglyndur Liverpool aðdáandi](http://www.eoe.is/liverpool/gamalt/2004/04/15/6.21.04/), þá hef ég fáar ástæður til að kvarta yfir ástandinu í dag.

  4. Vissulega fékk Shankly langan tíma og skilaði góðum árangri, rétt eins og Ferguson hjá Man Utd. Byrjaði 1986, og varð fyrst Englandsmeistari tímabilið 92-93 (vann reyndar FA Cup 1990 og UEFA Cup Winners Cup 1991).

    Án þess þó að segja að Benitez eigi að vera rekinn (enda vafalaust með betri stjórum deildarinnar) þá held ég nú að enginn framkvæmdarstjóri muni fá þessa þolinmæði frá annaðhvort stjórninni og/eða aðdáendum eins og staðan er í dag.

    Mörgum fannst t.d. Houllier fá aðeins of mikinn tíma með sitt lið, enda sást það að eftir 5 ár að þá var hann látinn fara (já ég vil menn að hann hafi í raun verið kurteislega rekinn frá klúbbnum, en látinn fara með sæmd). Það er aldrei að vita nema Houllier hefði gert Liverpool að sigursælasta liði þessa áratugs… en við munum víst aldrei komast að því 🙂

    Á Shankly,Dalglish og jafnvel Evans tímanum dugði það oftast að vera með bestu leikmennina, og vera í besta forminu, en í dag er knattspyrna orðinn svoleiðis miklu meiri… herkænskuleikur ef svo má að orði komast, að það virðist eins og stundum (endurtek: stundum) sé knattspyrnan aukaatriði. Sóknarbolti virðist vera eitthvað sem tilheyrir fortíðinni sem er miður. Áður fyrr þegar tvö hér um bil jafngóð lið mættu til leiks þá var blásið til sóknar og mátti þá sjá mikla markaleiki (sbr. Liverpool – Newcastle 4-3), en í dag eru öll lið svo varkár, að þau þora varla að fara yfir miðju með fleiri en 1-2 leikmenn af ótta við að vera refsað ef þau missa boltann. Síðan lauma þau kannski einu marki inn og pakka 10 mönnum fyrir framan markið. (Ok… útúrdúrinn ílengdist aðeins)

  5. Ég sá umræðuna í gær varðandi Reading leikinn seint í gær en hafði ekki tíma til að segja mína skoðun. Núna í framhaldi af þessu góða pistli Kristjáns Atla þá er ekki er úr vegi að leggja orð í belg.

    Ég sagði eftir leikinn gegn Aston Villa (raunar fyrir hann) að sá leikur gæti orðið vendipunktur tímabilsins hjá okkur, ekki ósvipað og Fulham í fyrra. Svo virðist sem það sé að ganga eftir, góðir sigra hafa fylgt í kjölfarið og við erum m.a.s. byrjaðir að halda hreinu. En framundan er lykilleikur uppá hvort við eigum eitthvað í Arsenal, Chelsea og Man U á þessu tímabili, leikurinn úti gegn Arsenal.

    Ég er sammála Kristjáni Atla varðandi að ef við töpum þeim leik þá er bæði tölfræðilega og andlega allar titlavonir út um þúfur og ætla ég að taka á því ef þurfa þykir. Hins vegar ef sigur vinnst, hvernig sem hann er innbyrður þá gætur allt gerst.

    Ég sá stóran mun á tapinu gegn Man U og Chelsea því í leiknum gegn Chelsea áttum við mikinn hluta í leiknum og aðeins stórgott mark frá Drogba var munurinn á liðinum. Gegn Man U hins vegar var liðið andlaust og tapaði illa. Þá leið mér virkilega illa og var afar pirraður!

    Hvað Rafa varðar þá tel ég að hann sé rétti maðurinn fyrir liðið og staðreynd málsins er sú að hann er einfaldlega ekki með sömu fjármuni og Alex, Arsene og Jose til að kaupa leikmenn. Meira að segja Harry Redknapp hjá Portsmouth er með meiri aur þessa dagana til að fjárfesta í leikmönnum.

    Menn hafa gagnrýnt kaupin á t.d. Pennant að hann sé ekki nógu góður fyrir Liverpool og það má vel vera að það reynist rétt en hins vegar tel ég að við ættum að gefa honum tíma til að sanna sig. Finnan átti erfitt uppdráttar hjá okkur fyrsta árið og í dag er hann líklega einn af betri bakvörðum úrvalsdeildarinnar. Sama á við leikmenn eins og Aurelio og Gonzalez. Þessir leikmenn þurfa að fá tíma til að aðlagast landinu, hörkunni, veðrinu, borginni, málinu, þjálfaranum o.s.frv. Það er aldrei sjálfgefið og reyndar afar einstaklingsbundið hvað langan tíma það tekur. Stundum gerist það að leikmenn aðlagast bara ekkert sbr. Morientes.

    Ég held að aðalmálið er að horfa á liðið með ákveðnni fjarlægð og horfa lengra en til jóla. Liðið er klárlega betra í dag en það var þegar Houllier var rekinn/sagði af sér. Hins vegar er liðið langt frá því að vera gallalaust og nokkrir leikmenn ennþá á reynslutíma til að sanna sig hjá félaginu.

    góðar stundir

  6. Fyrir þá, sem vilja afskrifa Jermaine Pennant, þá er ekki úr vegi að benda á þá staðreynd (allavegana samkvæmt minni talningu) að hann hefur byrjað inná hægri kantinum í ÞREMUR leikjum í Úrvalsdeildinni á þessu tímabili.

    Það að ætla að afskrifa hann eftir það er hreinlega fáránlegt.

  7. Flottur pistill og skemmtilega hugleiðingar. Held að það séu aðeins Alex F. og Jose M. sem hafa meiri peninga en Liverpool til þess að fjárfesta í leikmönnum. Arsenal hafa ekki verið að spreða mikið í samanburði við þessi tvö lið, hafa verið á svipuðu róli og Liverpool. Wenger má eiga það að hann hefur frábært auga fyrir ungum leikmönnum og er óhræddur að nota þá. Arsenal er án ef eitt efnilegasta lið deildarinna.

    Langar samt að setja spurningamerki við Pennant. Ég mun ekki afskrifa hann, þar sem væntingar mínar til hans voru ekki miklar. Hafði séð hann hjá Birmingham, Leeds og Arsenal og hann hefur alltaf virkað á mig sem miðlungsleikmaður. Hefði verið sáttur að fá hann sem back-up á hægri kant fyrir 2-3 millj. punda.

  8. Ég var að lesa öll ummælin eftir Reading leikinn og hefði nú kannski átt að kíkja fyrr og blanda mér í hana. Þá hefði ekki öll gagnrýnin lent á síðuhöldurum því nánast allt sem þeir sögðu hefði líka getað komið frá mér.

    Blog-færslurnar sjálfar eru skrifaðar af síðuhöldurum. Að mínu mati skrifa þeir ummælin svo bara sem Kristján Atli, Einar Örn, Aggi, Hjalti og Sigursteinn rétt eins og Hössi, Doddi, ég o.fl. Þar verða þeir að fá að koma sínum skoðunum á framfæri rétt eins og við. Síðan eru menn bara mis bjartsýnir eins og gengur og gerist.

    Ég verð að teljast í hópi þeirra bjartsýnu. Mér finnst t.d. ekkert óraunhæft að vera komnir í 3. sætið fyrir jólin og vera í titilbaráttu eftir jól. *Ég er EKKI búinn að gefa upp alla von á að vinna titilinn í vor.*

    Ég er þeirrar skoðunnar að við séum með MJÖG gott lið. T.d. finnst mér að García eigi að spila alla leiki því hann er ALLTAF líklegur til að skora. Gerrard er greinilega allur að koma til og Crouch er klárlega orðinn sterkari líkamlega, mikill snillingur þar á ferðinni. Kuyt virðist vera algjör markaskorari(þó hann snerti boltann ALDREI með vinstri fæti, svolítið fyndið).

    Ég er hinsvegar sammála því að Fowler eigi að fá aðeins meiri séns. En það er ekki hægt að taka Crouch og Kuyt úr byrjunarliðinu eins og þeir eru að spila í dag. En Fowler mætti koma inná í hálftíma í stað 5 mínútna – og já það eru til menn sem halda meira með Fowler en Liverpool. Ég þekki tvo slíka. Annar þeirra hélt með Leeds þegar Fowler fór þangað, svo Man.City. og svo aftur Liverpool núna.

    Það má alls ekki afskrifa nýju leikmennina strax. Þó að Gonzalez og Pennant séu ekki búnir að sanna sig strax eru þeir bara ungir og skylda að gefa þeim meiri tíma áður en menn hakka þá í sig, enda ekki oft búnir að vera í byrjunarliðinu. Aurelio þarf svo bara að venjast vörninni en hann er með flottar fyrirgjafir, horn og aukaspyrnur. Agger er síðan bara frábær!

    Ég ætla nú ekki að þylja upp restina af annars frábærum leikmannahópi. En svo það sé á hreinu fíla ég ekki alla leikmennina, t.d. Zenden sem mér hefur ekki þótt geta neitt síðan hann kom til Englands. Frekar hefði ég viljað halda hinum efnilega Diarra hjá félaginu.

    Ég sé hinsvegar enga ástæðu til neins annars en að vera ánægður þessa dagana og horfa björtum augum fram á við.

    Mikið hlakka ég svo til þegar Kewell kemur aftur! 😉

  9. Smá komment úr umræðunni frá Einari Erni eftir “þunglyndur Liverpool aðdáandi” greinina:

    >”Ég vil ekki meina að Biscan, Carragher og Heskey yrðu betri undir öðrum þjálfara. Nei nei! Annar þjálfari myndi hins vegar hugsanlega vera nógu klár til að setja þessa leikmenn aldrei í byrjunarliðið 🙂

    >En auðvitað er ég klár á því að það að breyta um þjálfara er aðeins fyrsta skrefið, einsog ég hef áður talað um. Þetta lið er í rúst, svo einfalt er það.”

    Heh, kaldhæðinslegt með Carra okkar.

  10. He he, já – ég mundi ekki eftir þessu. En það var aldrei neitt leyndarmál að ég var aldrei sáttur við Jamie Carragher undir stjórn Houllier. Mér fannst hann ekki vera nægilega góður bakvörður fyrir Liverpool.

    Ég er reyndar enn á þeirri skoðun að hann sé ekkert sérstakur bakvörður, en hann er frábær miðvörður. 🙂

  11. Djöfull er þetta vel mælt hjá þér ! vááá, bara .. bravó sko.. 🙂

  12. Vissi ekki af þessu vikulega spjalli á Echo síðunni og ákvað því að deila þessu með ykkur. Download eru rúm 7mb.

    Football confidential: The expert view
    LISTEN to Liverpool ECHO chief football writer David Prentice, Liverpool FC correspondent Chris Bascombe and Everton FC correspondent Dominic King discuss the weekend’s talking points in our weekly audio download [MP3] more

  13. Hannes segir
    “Ég verð að teljast í hópi þeirra bjartsýnu. Mér finnst t.d. ekkert óraunhæft að vera komnir í 3. sætið fyrir jólin og vera í titilbaráttu eftir jól. Ég er EKKI búinn að gefa upp alla von á að vinna titilinn í vor.”
    Ég er algerlega sammála þessu, ef skoðaðir eru þeir leikir sem LFC á eftir fram til 20 jan þá eigum við að geta unnið þá alla fyrir utan kannasi næsta leik sem er útileikur á móti Arsenal……nei við vinnum hann líka andskotinn hafi það !!!

  14. Ég er mjög ánægður með þessa síðu og almennt með framlag þeirra sem skrifa inná hana, en stundum snýst þetta bara ekki um að hafa alltaf rétt fyrir sér.

    YNWA

  15. Ég vona nú að þessi “Pollýönnu” líking mín hafi ekki skapað neinar sálarflækjur hjá mönnum! :blush:

    Í ætt við svartsýnisraus er líka til eitthvað sem ég kýs að kalla “bjartsýnisraus”.
    Þá er yfirleitt fyrirsjáanlegt yfir hverju og af hverju menn eru ánægðir og það er sama þó ákveðin viðvörunarljós blikka, það verður hálfgerð þráhyggja (eða óskhyggja) hjá mönnum að sjá glasið alltaf hálffullt!
    Gerrard Houllier var að mínu mati mikill “bjartsýnisrausari” á tímabili stöðugt talandi um að Liverpool væri “turning the corner”. Það að vinna 4 hálf létta heimaleiki í röð á meðan okkur gengur mjög illa á útivöllum en vel heima er ekki “to turn a corner”. Frekar að við séum nú á krossgötum.

    Ég vil þó alls ekki meina að stjórnendur síðunnar séu svo djúpt sokknir að líkja þeim beint við Hollier 😉 , þeir allavega gagnrýna Liverpool mun mun harðar en hann gerði þegar þeim finnst réttilega ástæða til.

    Ég er sammála því að við eigum að vera mjög ánægðir með störf Rafa Benitez hingað til og hvetja liðið eins og við getum. Hinsvegar myndi ég gera nánast hvað sem er í heiminum til að spila fyrir Liverpool og þegar maður sér leikmenn sem virðast hvorki hafa getu, metnað né áhuga á að spila fyrir þetta stórkostlega félag þá kem ég til með að gagnrýna þá af hörku.

Carson að gera það gott hjá Charlton.

Rafa mun rótera á morgun