Latest stories

 • Liðið gegn Napoli

  Liðið er komið á hreint, það eru þrjár breytingar frá liðinu sem lagði Crystal Palace. Salah kemur inn í stað Ox, Milner á miðjuna í stað Gini og Gomez leysir TAA af hólmi í kvöld!

   

  Leikurinn hefst eftir rétt rúman klukkutíma eða klukkan 20:00. Þetta Napoli lið veldur okkur alltaf vandræðum og ég held að þetta verði áfram erfitt gegn þeim, spái enn einum 2-1 sigrinum!

  Koma svo!

  YNWA

  [...]
 • Gullkastið – Óþolandi lið ef þú heldur ekki með því

  Fótboltaleikur er 90 mínútur plús uppbótartími og til að fá eitthvað gegn Liverpool um þessar mundir þarf að halda einbeitingu allan þennan tíma. Enn einn hugarfarssigurinn niðurstaðan um helgina með sigurmarki á lokamínútunum, dásamlegt. Framundan er eina liðið sem hefur unnið Liverpool á leiktíðinni og strax í kjölfarið heimaleikur gegn Brighton til að slútta nóvember.

  Stjórnandi: Einar Matthías
  Viðmælendur:SSteinn og Maggi

  MP3: Þáttur 264

  Kop.is á Facebook og Twitter – Endilega fylgið okkur þar líka.

  [...]
 • Napoli- Dökka hliðin

  Napoli var síðasta liðið sem stuðningsmenn Liverpool vildu fá þegar dregið í riðla í Meistaradeildinni. Ef að það er ítalskt lið í pottinum er það alltaf neðst á óskalistanum, sérstaklega hjá þeim hópi stuðningsmanna sem ferðast á útileikina. Það er ekki af ástæðulausu.

  Auðvitað hjálpar ekki að Liverpool var einnig með Napoli í riðli á síðasta tímabili en aðalástæðan er vegna þess að það er almennt alls ekkert spennandi að fara til Napoli sem stuðningsmaður andstæðinganna og alveg sérstaklega ekki fyrir stuðningsmenn enskra liða.

  Napoli er þannig séð ekkert sérstaklega hættulegri borg heima að sækja sem stuðningsmaður Liverpool en aðrar ítalskar borgir, Liverpool á mun lengri og alvarlegri sögu með öðrum ítölskum liðum en í hvert einasta skipti sem ensk lið mæta ítölum furðar maður sig á því afhverju þau fá ennþá að vera með.

  Þetta er í þriðja skipti sem þessi lið mætast í Evrópu á þessum áratug og hingað til hefur ítarleg umfjöllun um bæði liðið og borgina verið á jákvæðum nótum, Pizza, Maradona, Gjaldþrot, endurkoma og hinn skrautlegi Aurelio de Laurentiis eigandi félagsins. Núna er kannski kominn tími til að kynna sér dökku hliðina á Napoli og það sem borgin er líklega þekktust fyrir.

  Camorra – ein hættulegustu glæpasamtök í heimi

  Burt séð frá fótbolta er Napoli ein af hættulegri borgum Evrópu og Campania héraðið heimavöllur einnar hættulegustu glæpaklíku álfunnar.

  (more…)

  [...]
 • Kvennaliðið heimsækir Arsenal

  Núna kl. 14:00 hefst næsti deildarleikur kvennaliðsins okkar, en þá heimsækja þær ríkjandi meistara Arsenal. Ekki verður nú sagt að við mætum sérlega vongóð í þann leik, verandi í neðsta sæti deildarinnar. Leikmennirnir okkar koma þó inn í leikinn á aðeins jákvæðari nótum en það, hafandi spilað við Blackburn Rovers Ladies á fimmtudagskvöldið og unnið þann leik 6-0, mörkin frá þeim leik má sjá hér. Þar skoraði Courtney Sweetman-Kirk m.a. sitt fyrsta mark á leiktíðinni, og vonandi að það hafi þar með brotið ísinn. Þá bar það einnig til tíðinda að scouserinn Missy Bo Kearns skoraði sitt fyrsta opinbera mark með liðinu, og það beint úr aukaspyrnu í uppbótartíma. Um að gera að taka eins marga jákvæða punkta úr þessum leikjum eins og hægt er.

  En liðið sem mætir Arsenal núna kl. 14 mun líta svona út:

  Preuss

  Jane – Bradley-Auckland – Fahey – Robe

  Bailey – Roberts
  Lawley – Linnett – Babajide

  Sweetman-Kirk

  Bekkur: Kitching, Charles, Kearns, Murray, Hodson, Rodgers

  Semsagt svipað lið og á fimmtudaginn, Niamh Charles á bekknum en Babajide fær aftur að byrja. Preuss er þó komin aftur í markið, og Sweetman-Kirk byrjar í stað Ashley Hodson sem fer aftur á bekkinn.

  Eins og áður er leikurinn sýndur í The FA Player, og við uppfærum svo færsluna með úrslitum að leik loknum.


  Leik lokið með sigri Arsenal, 1-0. Nú var fyrirfram vitað að okkar konur ættu á brattann að sækja, og út frá því eru þetta ekki verstu úrslit í heimi, en tap engu að síður. Munum samt að sami leikur tapaðist 5-0 á síðasta tímabili.

  Það var Vivianne Miedema sem skoraði markið um miðjan fyrri hálfleik, en snemma leiks hafði fyrirliðinn okkar átt skot sem var varið í stöng. Annars náðu okkar stelpur ekki að ógna marki Arsenal að neinu marki, og er óhætt að segja að það sé Akkilesarhæll liðsins um þessar mundir. Liðið hefur ekki skorað mark í opnu spili í deildinni á þessari leiktíð, og alveg ljóst að það verður að lagast fyrr en síðar.

  Ef staðan í töflunni í dag myndi ráða, þá félli liðið næsta vor. Við verðum að vona að stelpurnar okkar nái að bjarga þessari leiktíð, og svosem ekki útilokað að það sé hægt því þó liðið sé bara með 1 stig, þá eru næstu 2 lið með 3 stig, og aðeins eitt lið sem fellur í vor.

  Næsti leikur verður á sunnudag eftir viku, og ekki verður sá leikur auðveldari því þá heimsækja okkar konur Manchester City.

  [...]
 • Crystal Palace 1-2 Liverpool

  Liverpool vann ansi mikilvægan sigur á útivelli gegn Crystal Palace og kom sér í 37 stig á toppi deildarinnar. Leikurinn var ekki fagur af hálfu Liverpool sem gerði þó nóg til að sækja stigin þrjú og setja enn meiri pressu á Chelsea og Man City sem mætast seinna í dag.

  Mo Salah var á bekknum í dag en ekki var víst hvort hann myndi ná sér í tæka tíð vegna ökklameiðsla sem hafa hrjáð hann í nokkrar vikur. Það var flott að sjá að hann var á bekknum og þar sem stigin þrjú komu í hús bara fínt að hann fékk hvíld í dag. Chamberlain fékk sæti í byrjunarliðinu í dag og var frammi með Mane og Firmino.

  Leikurinn spilaðist rosalega illa af hálfu Liverpool, leikmenn voru að klikka á sendingum og taka rangar ákvarðanir sem gerði það að verkum að sóknarleikurinn varð frekar bitlaus en varnarleikurinn var heilt yfir fínn. Rétt fyrir lok fyrri hálfleiks þá ýtti Trent óþarflega í bakið á Zaha og fékk dæmda á sig aukaspyrnu. Spyrnan var tekin og leikmaður Palace skoraði en við nánari athugun í VAR kom í ljós að sóknarmaður Palace hafi á mjög óþarfan og heimskulegan hátt ýtt í bak Lovren og dómarinn vinur okkar dæmdi markið af. Ákveðinn léttir það og liðin héldu markalaus inn í hálfleikinn.

  Fljótlega eftir að seinni hálfleikurinn hófst kom Sadio Mane Liverpool yfir með ansi skrautlegu… nei, segjum satt hérna, ansi ljótu marki! Skot hans hafði viðkomu í varnarmann og þaðan í höndina á markverðinum, í báðar stangirnar og drullaðist loks yfir línuna. Fínt mark sem kom Liverpool í bílstjórasætið í leiknum. Vörn Liverpool var sterk en helstu ógnir Palace voru einhver langskot og hálf færi en á 82.mínútu jafnaði Zaha metin eftir fína sókn Palace en ansi klaufalegan varnarleik Liverpool. Fúlt en við vitum nú alveg að Liverpool er líklegt til að klára leiki þrátt fyrir svona stöðu og það var aftur raunin í dag. Þremur mínútum seinna var atgangur í vítateig Palace eftir fast leikatriði og Bobby Firmino náði að troða boltanum yfir línuna, Palace fékk svo ágætis færi í restina en skotið úr því fór svo langt yfir markið.

  Því er Liverpool komið með 37 af 39 stigum og á enn átta stiga forskot á Leicester sem sitja sem stendur í 2.sætinu og eins og áður segir mætast Chelsea og City í dag svo staða Liverpool gæti orðið ansi vænleg í kvöld falli úrslitin þeim í hag.

  Það er erfitt að ætla að finna einhvern einn ákveðinn sem mér finnst hafa staðið upp úr hjá Liverpool í dag. Mane var fínn og mér fannst Fabinho öflugur á miðjunni, en hann nældi sér í gult spjald og missir af næsta deildarleik gegn Brighton. Lovren og Van Dijk fannst mér mjög öflugir en sá fyrr nefndi seldi sig þó reyndar nokkuð illa í marki Palace. Bakverðirnir fínir en átt betri daga, Firmino fínn og Wijnaldum og Henderson þokkalegir. Alisson gerði sitt í markinu þegar á reyndi og erfitt að ætla að klína marki Palace á hann.

  Áfram á toppnum og þetta lið bara ætlar ekki að tapa stigum eða leikjum þó spilamennskan líti nú stundum út eins og þeir séu að reyna sér að gera það! Þetta lið er bara alltof gott og alltof sterkir karakterar í þessum hópi svo þeir bara neita að tapa stigum, þeir vilja svo sannarlega klára verkefnið sem þeir settu sér fyrir leiktíðina!

  [...]
 • Liðið gegn Crystal Palace

  Liðið sem byrjar gegn Crystal Palace hefur verið opinberað og er liðið nokkuð sterkt.

  Alisson

  TAA – Lovren – VVD – Robertson

  Wijnaldum – Fabinho – Henderson

  Chamberlain – Firmino – Mane

  Bekkur: Adrian, Gomez, Milner, Salah, Keita, Lallana, Origi

  Salah er á bekknum en óvíst var með þátttöku hans og Robertson í dag en sá síðarnefndi byrjar. Chamberlain tekur stöðu Salah í framlínunni.

  Sterkt lið og ansi þéttur bekkur.

  [...]
 • Upphitun fyrir Crystal Palace – Núna byrjar ballið!

  Landsleikjahléinu er lokið, Fowler sé lof! Núna hefst alvara lífsins. Á morgun fara Liverpoolmenn til Suður-London og mætti kalla það formlegt upphaf jólabrjálæðisins. Frá morgundeginum, 23. nóvember, og fram til annar janúar munu leikmenn liðsins okkar heittelskaða spila fjórtán keppnisleiki (ég geng út frá að við komumst í úrslit HM félagsliða). Önnur leið til að orða þetta er að lið mun spila að meðaltali á innan við þriggja daga fresti. Þar að auki verður klikkunin að spila leiki á sitthvoru meginlandinu með sólahring á milli. Liðið mun ferðast á þessum tíma til Qatar, Salzburg, London, Birmingham, Leicester og Bournemouth. Klopp getur væntanlega huggað sig við að okkar helstu andstæðingar sleppa lítið betur, til dæmis þurfa Manchester City að spila tvisvar leiki með innan við 48 tíma millibili. Já enski boltinn er klikk.

  Myndaniðurstaða fyrir roy hodgson
  Óvinur númer eitt á morgun

  Eina leiðin til að komast í gegnum svona rugl er að nota hópinn til hins ítrasta og einbeita sér að einum leik í einu. Fyrsta verkefni á dagskrá er að skemma laugardaginn fyrir Roy Hodgson og stuðningmönnum Crystal Palace.

  Andstæðingurinn – Palace.

  Fyrir fyrstu heimsýninguna í Lundúndum, árið 1851, var reist í Hyde Park tröllvaxið stáll og glervirki, sem var skírt The Crystal Palace. Eftir sýninguna var byggingin færð suður til Sydenham í Suður-London, og var hverfið í kring endurskírt í höfuðið á höllinni. Þar stóð meðal annars fótboltavöllur þar sem úrslitaleikur FA bikarsins var haldinn á hverju ári.

  Myndaniðurstaða fyrir the Crystal Palace

  Eigendurnir vildu að völlurinn hýsti lið og stofnuðu því Crystal Palace F.C. árið 1905. 1915 bað herinn fótboltaliðið vinsamlegast að koma sér í burtu vegna Fyrri Heimstyrjaldarinnar og árin eftir stríð spiluðu þeir í Croydon. Árið 1924 flutti klúbburinn sig svo til Selhurst Park, heimili liðsins fram til dagsins í dag. (Höllin sem liðið er óbeint nefnt eftir brann 1930).

  Af Lundúnaliðunum í Úrvalsdeildinni (Arsenal, Tottenham, Chelsea, West Ham, Palace) er Palace klárlega mesti „working-class“ klúbburinn. Selhurst Park tekur ekki nema 28.000 manns í sæti, lang næst minnsti völlurinn í deildinni. Hverfið í kringum Selhurst er með þeim fátækari í London, eina svæðið í borginni sem kaus með Brexit á sínum tíma (þetta kom engum sem hefur búið þarna á óvart). Stemninginn á vellinum er líka sú lang besta af Lundúnaliðunum, gífurlegur hávaði er á vellinum og þeir hafa reglulega náð í góð úrslit gegn stóru liðunum á síðustu árum. Voru til dæmis í fyrra eina liðið til að vinna City á Etihad, þeir unnu United nýlega, Chelsea í hitt í fyrra. Engan hlakkar til að fara á Selhurst Park.

  Annars er Crystal Palace í ár nokkuð dæmigert miðjudeildar lið. Enda er Roy Hodgon að stýra þeim. Þeir lang besti maður er Wilfried Zaha, sem hefur aðeins dalað eftir að hann fékk risasamning í fyrra. Hann glímir líka við það vandamál að öll lið vita að hann er þeirra besti maður og taka á honum eftir því. Því losnar um menn eins Jordan Aywe sem hefur skorað 4 í 11 leikjum í vetur. Samkvæmt Roy er allt liðið heilt heilsu, sem hann kallaði kraftaverk.

  Myndaniðurstaða fyrir Zaha benteke

  Þeir eru að klára hrottalegt leikjaprógramm. Í síðustu fjórum leikjum hafa þeir spilað við City, Arsenal, Leicester, Chelsea og svo eiga þeir leik við Evrópumeistarana á morgun. Maður grunar að leikmenn og þjálfara verði ansi fegnir þegar þessu líkur. Enga síður þýðir ekki að liggja bara til baka fyrir framan stuðningsmennina á Selhurst. Palace munu vera þéttir en um um leið og þeir fá boltann verður langur fram á Zaha, sem á að skapa usla. Það mun mikið mæða á hafsentunum og Fabinho að drepa þessar sóknir, svo er það bara þolinmæðisvinnan að skora…

  Okkar menn – Liverpool!

  Það er ekki hægt að takast á við svo mánuð án þess að nota hópinn og einbeita sér að einum leik í einu. Klopp sagði á blaðamannafundi að hann „ætti að vera búin að venjast þessu,“ eins og hann orðaði það. Hann tæklaði þetta í fyrra með því að hugsa um einn leik í einu, róteraði þegar tækifæri gefst og endaði á að vinna alla leikina í desember, sem var magnað afrek.

  Það eru óþægilega margar spurningar yfir hópi Liverpool eins og er. Brassarnir Firmino, Fabinho og Alisson, ásamt Gini Wijnaldum spiluðu allir á þriðjudaginn. Robbo kom heim snemma vegna meiðsla, Virgil van Dijk af persónulegum ástæðum (sem engin veit hverjar voru), Salah er enn þá að basla við meiðslin á ökla og Gomez missti af seinni leik Englands vegna höggs á æfingu. Mané var tekin af í hálfleik í fyrri leik Senegal, en það var víst vegna þess að hann var orðin svolítið heitur í skapinu og á gulu spjaldi.

  Ég held að Robbo fái að hvíla sig aðeins svo hann sé 100% næstu vikurnar. Van Dijk og Lovren taka sér stöðu í hjarta varnarinnar. Ég hefði spáð að Trent fengi pásu eftir tvo landsleiki en get ekki spáð Milner á tveim stöðum. Fabinho er fyrsti maður á blað hjá mér, held að Hendo og Oxlade-Chamberlain verði á miðjunni fyrir framan hann. Ég hef of miklar áhyggjur af Salah til að spá honum í byrjunarliðið, þannig að Firmino-Origi-Mane verða framlínan.

  Spá (gg önnur mál)

  Við bökkum yfir þetta lið og náum ellefu stiga forystu á toppi deildarinnar í nokkra klukkutíma. 0-3. Chamberlain heldur áfram endurkomu sinni í fótboltann með því að skora þrumufleyg, Mané bætir einu við og Lovren skorar með skalla í lok leiksins.

  Annars bárust þér fréttir í gær að FSG er að fara kynna ný áform um stækkun Anfield Road stúkunnar, sem mun þýða að Anfield verður með sæti fyrir um 60.000 manns. Þessir hlutir gerast hægt og við munum fylgjast spenntir með þessu hér á Kop.is.

  [...]
 • Gullkastið – Tottenham gerði hvað?

  Tottenham rak besta stjóra í nútímasögu félagsins og borgar samtals um 27m til að losna við hann og fá Mourinho í staðin. Daniel Levy og Mourinho eru semsagt að fara vinna saman og ætti að sjónvarpa öllum þeirra fundum beint, Amazone Prime gæti séð um upptökurnar. Síðasti leikur Liverpool var svo auðvitað gegn Man City og við erum langt í frá búnir að gleyma þeirri gleði. Næsta verk er svo Palace um helgina.

  Stjórnandi: Einar Matthías
  Viðmælendur:SSteinn og Maggi

  MP3: Þáttur 263

  Kop.is á Facebook og Twitter – Endilega fylgið okkur þar líka.

  [...]
 • Pochettino rekinn frá Spurs!

  Það er ekki á hverjum degi sem eitthvað að toppliðunum skipta sum stjóra og þó það komi kannski ekki svo ýkja mikið á óvart þá er það engu að síður stórfrétt að Tottenham sé búið að reka Pochettino. Hálfu ári eftir að liðið spilaði til úrslita í Meistaradeild Evrópu.

  Hann er klárlega fórnarlamb eigin velgengni því undir hans stjórn hefur Tottenham ítrekað spilað töluvert “yfir getu” sé tekið mið af launakostnaði, veltu og leikmannakaupum. Hann kom Tottenham í Meistaradeild Evrópu í fjögur skipti af fimm, áður en hann kom til Spurs hafði liðið tvisvar sinnum komist í Meistaradeildina á 22 árum.

  Daniel Levy hefur heilt yfir gert frábæra huti hjá Tottenham sem er vel rekið félag en hann á Pochettino líka heilmikið að þakka, ferilsskrá Levy þegar kemur að stjóraráðningum fram að Pochettino er hreint ekki merkileg. Levy tók við undir lok árs árið 2000 hefur því verið þarna í tæplega tvo áratugi.

  Þetta er listinn af þjálfurum sem hann hefur ráðið til Spurs á þeim tíma.

  Tottenham er auðvitað í miklu sterkari stöðu núna til að laða til sín stærstu nöfnin í bransanum en ég væri helvíti stressaður sem stuðningsmaður Tottenham.

  Persónulega hefði ég frekar vilja endurnýja liðið eins og það leggur sig en að reka Pochettino.

  Eins verða næstu skref hjá honum mjög áhugaverð. United og Arsenal væru t.a.m. bæði mikið til í að reka sína stóra og fá Poch. Bayern væri líka augljós kostur? Eða Real?

  [...]
 • VAR þetta góð hugmynd?

  Árið er 2005, staðurinn Anfield. Í dynjandi hávaða nær Luis Garcia að pota boltanum í markið eftir nokkurra sekúndna leik, þó Gallas nái að hreinsa hann út áður en hann syngur í netinu og hávaðinn margfaldast. 15 árum seinna er Mourinho ennþá fúll yfir þessu, Garcia klæðir sig upp sem draugur á hverri einustu hrekkjavöku og myndböndin eru ekki afgerandi.

  2010, HM í Suður Afríka. England – Þýskaland, staðan er 2-1 fyrir þjóðverjum. Frank Lampard lætur vaða innan í D-boganum og boltinn smellur í slánni, niður í jörðina og út úr markinu. Allir sjá að boltinn fór inn fyrir nema tveir menn, dómarinn og aðstoðardómarinn. Þjóðverjar taka öll völd á vellinum í síðari hálfleik og England tapar. Fjölmiðlar, stuðningsmenn og leikmenn spyrja sig: Hvað ef ?

  2019, janúar, Etihad völlurinn. Í stöðunni 0-0 er Mané millímetrum frá að skora, en tæknin ályktar að John Stones hafi náð að hreinsa boltann af línunni. City vinna leikinn 2-1. Örfáir eru með samsæriskenningar um að marklínutækni sé ekki svona nákvæm en þeir þagna fljótt eftir leikinn. Enda eru flestir sem hafa hug á að kvarta yfir leiknum fúlir yfir að dómari frá Manchester sendi ekki fyrirliða Menchester liðsins af velli fyrir tæklingu á Salah. Nóg er rifist um það, en til lengri tíma véfengir engin ekki-markið

  Það er auðvelt að gleyma hversu algeng rifrildi um hvort boltinn hafi farið yfir línuna voru fyrir nokkrum árum. Það er líka auðvelt að gleyma hversu margir voru mótfallnir marklínutækni á sínum tíma. Stærstu rökin sem ég man eftir voru að hluti af rómantík fótboltans væri að hann væri eins spilaður á Fáskúsfirði og Old Trafford. Sumir gengu svo langt að segja að rifrilidin eftir leiki væru hluti af gleðinni við sportið. Þeir menn sem héldu því fram, hljóta að vera að njóta sín í botn á tímum VAR.

  Ég tek þetta dæmi til að sýna að aukin tækni í íþróttum er ekki í eðli sínu slæm. Marklínutækni er líklega sú nýjung sem hefur heppnast hvað best: Nánast ósýnileg, vinnur hratt og hefur fækkað hávaðarifrildum innan vallar sem utan. Við sem vorum hvað spenntust fyrir VAR vorum að vonast eftir að nýja kerfið yrði svipað.

  Nú þegar tólf umferðir eru liðnar af ensku úrvalsdeildinni getum við dregið andann djúpt, hugsað aðeins og spurt okkur hvort þessi VAR sé af hinu góða. Ef við komust að því að svo sé ekki, er það framkvæmdin, tæknin sjálf eða eitthvað annað sem er að klikka?

  Myndaniðurstaða fyrir VAR

  Hver er tilgangur VAR?

  Hvort sem það er í fótbolta, handbolta eða öðrum íþróttum þá dáist ég endalaust að mönnum og konum sem nenna að vera dómarar. Þetta er þakkarlaust starf, ef þú vinnur það vel tekur engin eftir þér eða kannski verða bæði lið jafn brjáluð út í þig. Jafnvel í yngri flokkum þarf stundum að hlusta á kex bilaða foreldra öskra á þig. En þetta er bráðnauðsynlegt starf og ekki gera menn þetta fyrir peningana.

  Við viljum að leikurinn sé dæmdur hratt og helst fullkomlega. Það er auðvitað ekki mögulegt. Dómari tekur að meðal 245 ákvarðanir í hverjum leik. Engin hefur nokkurn tímann tekið svo margar ákvarðanir og allar eru réttar, en dómarasamtök Englands halda því fram að 5 ákvarðanir séu rangar í hverjum leik. Stór hluti fótboltadómara er auðvitað að ein röng ákvörðun getur hæglega ráðið úrslitum leiks.*

  Hugmyndin á bakvið VAR var auðvitað að auðvelda starf dómara. Að fækka röngum dómum, láta leikinn fljóta hraðar og auka samræmi milli ákvarðanna. Það eru tugur myndavéla á stórleikjum sem taka upp hverja sekúndu, hvern svitadropa og hvern einasta söng á leiknum. Ætti ekki að vera hægt að nýta þetta til þess að dæma leikinn betur?

  *Þetta er tölfræðin sem dómarasamtök Englands gefur upp.

  Hvernig hefur þetta gengið utan Englands og utan fótboltans?

  Sambærileg kerfi við VAR hafa verið í notkun utan fótboltans um nokkurt skeið. Rugby byrjaði að prufa sig áfram með sitt kerfi 2001, NHL 1991, NBA 2002. Hvergi gekk þessi nýja tækni snurðulaust fyrir sig, en með fikti og breytingum virðast áhorfendur að mestu hafa sætt sig við þessa nýjung, hún sé orðin hluti af leiknum.

  Alls staðar hefur verið það mynstur að við já/nei ákvarðanir (fór pökkurinn inn/var hann búin að skjóta þegar bjallan gall) hefur myndbandsdómgæsla bætt leikinn, menn eru ekki jafn sammála um dóma sem eru túlkunaratriði (var þetta brot/verðskuldar það spjald).

  Fyrsta fótboltamótið sem nýtti sér VAR á öllu mótinu var Heimsmeistaramótið 2018. Mótið setti met í fjölda vítaspyrna á einu móti, ekki varð úr að leikir lengdust gífurlega og flestir töldu VAR heppnast vel, svona miðað við fyrsta mót. Helsta gagnrýnin var að það væri verið að refsa og mörgu, svo og að það væri óþarfi fyrir dómarann að fara sjálfur að myndbandsskjánum í sífellu.

  Myndaniðurstaða fyrir VAR

  Hvað er að klikka?

  Ég skora á þig að finna einn fótboltaáhugamann sem er 100% sáttur við framkvæmd VAR í Meistaradeildinni eða ensku deildinni. Á vellinum er það helst að stuðningsmenn hafa ekki hugmynd um hvað er í gangi, heima í stofu spyr maður sig af hverju sumt fer til VAR og sumt ekki. Svo ekki sé talað um að þrátt fyrir VAR virðast dómarar ná að klúðra augljósum ákvörðunum. En eru þær svo augljósar?

  Það var tekið meðvituð ákvörðun fyrir tímabilið að VAR myndi bara leiðrétta „augljósar villur“ dómarans. Hins vegar var lítið útskýrt hvað væri augljós villa. Ætti það ekki að vera augljóst? Nei, því miður ekki. VAR hefur klárlega staðið sig best í ákvörðunum sem eru ekki matsatriði. Annað hvort er maðurinn rangstæður eða ekki (nema hann heiti Firmino). Ákvarðanir sem eru matsatriði hafa hins vegar verið út um allt. Þetta á sérstaklega við um handadóma.

  Myndaniðurstaða fyrir VAR offside
  Hvort þetta sé of nákvæmt er svo annað mál

  Það hjálpar ekki að reglunum um hendi var breytt fyrir tímabilið. Hugmyndin var að nýju reglurnar myndu skýra hvað væri og væri ekki hendi, reynslan hefur verið þveröfug. Nú er alltaf hendi ef það leiðir til marks, en fyrir utan þá er það hendi ef líkaminn er gerður „óeðlilega stærri.“ Já og ekki hendi ef boltinn fer af öðrum leikamanni eða skoppar af eigin líkama. Ekki hendi ef leikmaður er að bera fyrir sig hendur meðan hann dettur, nema líkaminn sé gerðu stærri með því að bera fyrir sig hendurnar. Kýrskýrt að hætti FIFA.

  Eftir þriggja mánaða mót var búið að leiðrétta matsdóm með VAR einu sinni. Eru fleiri réttir rangstöðu dómar og einn leiðréttur matsdómur nóg til að leiðrétta ókostina við kerfið?

  Hvar liggur vandinn? Eru áhorfendur og þjálfarar hluti af honum?

  „Við viljum ekki að VAR mæti og dæmi leikinn upp á nýtt.“ Sagði Mike Riley, yfirdómari ensku Úrvalsdeildarinnar, fyrir tímabilið. Ég held að þarna kjarnist vandamálið við framkvæmd VAR: Að dómarar og aðrir lýti á VAR sem persónu sem er komin til að taka yfir, ekki verkfæri til að nýta sér.

  Maður sér þetta víða, fólk talar um VAR sem manneskju, ægilegt yfirvald sem er að skemma leikinn í stað manns að horfa á sjónvarpsskjá. Gæti verið að dómarar séu svo staðráðnir að vera ekki leiðréttir af einhverju tölvukerfi að þeir þora ekki að nýta sér það? Að þeir skammist sín svo mikið fyrir að gera mistök að þeir þori ekki að viðurkenna þau?

  Margir leikmenn í ensku úrvalsdeildinni þéna meira á viku en dómarar á ári. Með hverju ári aukast kröfurnar á þá. Leikurinn verður sífellt hraðari, leikmenn taka fleiri spretti í hverjum leik og eftir því sem peningarnir fara vaxandi verður pressan meiri. Á hverju ári fjölgar fjölmiðlum sem fjalla um leikinn og það eru alltaf þjálfarar, leikmenn og spekúlantar tilbúnir að drulla yfir frammistöðuna. Það er kannski ekki furða að maður upplifi dómarastéttina í vörn gagnvart gagnrýni og breytingum.

  Myndaniðurstaða fyrir fourth official yelled at football
  Ég er ekki sammála svona hegðun, en það er samt hægt að hlægja af svona myndum.

  Hefurðu einhvern tímann unnið vinnu, þar sem þú þarft að standa milli tveggja öskrandi manna og hvert sinn sem þú tekur ákvörðun byrjar annar þeirra að hrauna yfir þig? Hvað þá verið í starfi þar sem í hvert sinn sem þú vinnu vinnuna þína koma menn hlaupandi til að útskýra hvað þú átt að gera og hvað gerðist? Þannig er að vera annars vegar fjórði dómari og hins vegar aðaldómari í efstu deildinni. Þetta byrjar í yngri flokkunum, í fótbolta er einfaldlega ekki borin mikil virðing fyrir dómurum. Er það furða að þeir séu meðvitað eða ómeðvitað hræddir við að gera mistök? Að dómara samtökin séu í vörn gagnvart hlutum eins og VAR?

  (Ef einhver vill draga í efa þessa lýsingu á starfsumhverfi dómar: Ég sendi hana á einstakling sem hefur dæmt slatta á Íslandi og spurði hvort hún væri nákvæm. Svar hans var eftirfarandi: já, nema vantar svívirðingar, hótanir um líkamsmeiðaingar/að konunni/systur manns verði nauðgað af áhorfendum, svívirtur eftir leik, hótað líkamsmeiðingum þegar þú mætir leikmönnum á B5.)

  Ég er ekki að segja að dómarar eigi að vera hafnir yfir gagnrýni. En það þarf að fara að skoða hvernig sú gagnrýni fer fram. Það er fáránlegt að í hvert sinn sem dómari blási komi hálft lið og rífist við hann. Það er absúrd að fjölmiðlar reyni sitt allra besta til að gera fyrirsögn úr öllum mistökum. Það er stórfurðulegt að fjórði þurfi að sitja undir reiðipistlum frá þjálfurum heilu og hálfu leikina (Klopp á svo sannarlega skilið gagnrýni fyrir þetta). Asnalegast af öllu er að þegar við sjáum okkar eigin lið hegða sér svona, þá erum við ánægð með það, með að leikmenn „séu að sýna ástríðu og berjast fyrir sitt lið.“

  Myndaniðurstaða fyrir klopp fourth official yelled at football
  Og svona

  Þessi menning er auðvitað engum einum að kenna. Sem þýðir því miður að enginn einn getur lagað þetta. Ef dómgæsla á að batna þarf menningin í kringum fótboltann að batna. Dómurum verður að hætta að líða eins og þeir séu óvinir leikmanna og þjálfara, hvað þá stuðningsmanna. Þetta þarf að koma frá báðum áttum. Bæði þurfa félög sem sinna grasrótastarfi að leggja meiri metnað í þjálfun og utanumhald við dómara og svo þurfa þjálfarar og leikmenn á hæsta stigi að vera fyrirmyndir.

  Hvað kemur þetta VAR við og hvað er næst.

  Við erum flest sammála um VAR er ekki að virka eins og það hefur verið framkvæmt hingað til. Sú litla bót sem hefur orðið á dómgæslu er ekki nóg til að réttlæta tafirnar á leiknum, ósamræmið milli leikja og óvissuna fyrir áhorfendur á vellinum. En VAR er bara verkfæri. Ég held að hin svakalega reiði sem við erum búin að fylgjast með síðustu vikur sé að miklu leiti reiði yfir dómgæslu almennt, VAR er bara heppilegt skotmark.

  Með auknum gæðum og hraða í fótbolta þurfa dómarar að bæta sig. Það voru mistök hjá dómurum að berjast gegn innleiðingu kerfisins, þeir hefðu átt að vera þeir sem mótuðu notkun kerfisins. Það voru líka mistök að prufukeyra kerfið ekki meira áður en það var notað á stærstu sviðunum. Við erum líklega að fylgjast með byrjendamistökum núna. En VAR er komið til að vera, sem betur fer. Ég vona bara að reynslan þessa mánuðina skemmi ekki viðhorfið til tækninnar varanlega. Ég myndi óska þess að VAR muni hægt og rólega leiða til þess að með betri dómgæslu muni skapast jákvæður hringur, þar sem viðhorf til dómara batnar hægt og rólega og það hjálpi til með að bæta dómgæsluna. En það er líklega óskhyggja.

  [...]
Load More
Congratulations. You've reached the end of the internet.
Back to Top
Close