Latest stories

 • Byrjunarliðið gegn Chelsea á Anfield

   

  Það er fagur sunnudagur í Bítlaborginni með tveggja stafa hitatölu og bjartviðri. Fyrirtaks fótboltaveður og veðurguðirnir leggja sitt af mörkum til stórleiks dagsins, hvað sem Fowler og aðrir guðir aðhafast. Við vonum þó að þegar líður á daginn að himnarnir verði rauðleitari og yfirtaki blámann. Það verður vonandi endurspeglun á því sem mun gerast á grasblettinum heilaga á Anfield Road. The Spion Kop þarf að vera í banastuði og rífa leikmenn og restina af vellinum með sér.

  En áður en leikurinn hefst verður virðing vottuð minningu fórnarlambanna 96 sem létust á Hillsborough fyrir 30 árum nú á morgun ásamt minningu goðsagnarinnar Tommy Smith sem lést í fyrradag 74 ára að aldri.

  JFT96! YNWA!

  En hættum hástemmdum himnalýsingum og hugum að hersveitum dagsins. Herr Klopp hefur skilað inn sinni liðsskýrslu til dómarans og hún er eftirfarandi:

  Bekkurinn: Mignolet, Wijnaldum, Lovren, Milner, Sturridge, Shaqiri, Origi.

  Matip snýr aftur í liðið eins og spáð var í upphituninni og Robertson kemur eftir inn eftir leikbann gegn Porto. Keita heldur sæti sínu eftir tvo leiki með markaskorun í röð og Henderson einnig eftir öfluga leiki. Fyrnasterkur varamannabekkur ef að þörf er á innspýtingu þaðan.

  Signore Sarri hefur slökkt í sígarettunni í smástund til þess að skrifa sína skýrslu og hún er svona:

  Flest augu beinast að Eden Hazard sem er yfirburðarmaður hjá bláliðum og ungu ensku leikmennirnir Loftus-Cheek og Hudson-Odoi fá tækifæri í byrjunarliði í stórleik. Mikið af öflugum leikmönnum á bekk gestanna og þetta verður því gríðarlega öflugur slagur fram á síðustu mínútur.

  Upphitunarlag dagsins er að venju tímalaus snilld og í takt við hið bláa lið sem berjast þarf við. Hverjir aðrir en blúsararnir í The Who í gæsahúðargimsteininum Behind Blue Eyes. Hækkið græjurnar í botn og bassaboxið líka til að njóta þess að heyra Keith Moon lúberja skinnhúðirnar til óbóta!

  Come on you REDS! Allez! Allez! Allez!

  YNWA!

  Við minnum á #kopis á Twitter og umræðuna í athugasemdum hér að neðan.


  [...]
 • Upphitun: Chelsea á Anfield

  Dag er farið að lengja á norðurhveli jarðar og farið að styttast allverulega í annan endann á deildartímabilinu hjá engilsaxneskum frændum vorum. Með eingöngu 5 deildarleiki eftir hjá Rauða hernum þá verður hver leikur mikilvægari, hvert stig verðmætara, hver mistök dýrkeyptari og hver sigur þyngdar sinnar virði í gulli. Spennan er mikil og biðin eftir leiknum á sunnudaginn er nánast óbærileg.

  En áður en lengra er haldið þá tökum við þó fyrst frá virðingarstund til að minnast á þær sorgarfregnir sem bárust fyrr í kvöld um að Liverpool-goðsögnin Tommy Smith hafi fallið frá 74 ára að aldri. Öllum alvöru Púlurum ætti að vera að góðu kunnur hinn grjótharði og eldrauði Tommy Smith sem ávallt var kallaður The Anfield Iron sökum eitilhörku sinnar og harðfylgni. Grjótharkan var þó ekki það eina sem honum var gefið sem fótboltamanni enda var hann fínn á boltanum, fjölhæfur í mörgum leikstöðum og lúnkinn taktískur spekúlant.

  Herra Smith fæddist steinsnar frá Anfield Road inn í mikla Liverpool-fjölskyldu og spilaði sinn fyrsta leik undir stjórn Shankly árið 1963 þá bara 18 ára að aldri. Áður en yfir lauk á fótboltaferli Tommy hjá Liverpool hafði hann leikið 638 leiki fyrir liðið og skorað í þeim 48 mörk, unnið 4 deildarmeistaratitla, 2 FA Cup bikara og Evrópumeistaratitilinn árið 1977 ásamt 2 UEFA Cup titlum. Hápunktur ferilsins var er hann skoraði með gullskalla í úrslitaleiknum í Róm 1977 og kom Liverpool yfir í leiknum í átt að 3-1 sigri gegn Borussia Mönchengladbach.

  Tommy Smith kemur Liverpool í 2-1 í Róm 1977

  Af Tommy Smith eru sagðar margar magnaðar sögur og hann var rómaður fyrir sinn járnvilja. Hér eru nokkrar góðar á hans móðurmáli:

  “Take that bandage off. And what do you mean your knee?
  It’s Liverpool Football Club’s knee.”
  – Bill Shankly to Tommy Smith –

  Liverpool v Leicester
  Frank Worthington skips past Tommy and crosses for a goal.
  Tommy Smith to Frank – Do that again and I’ll break both your f*cking legs.
  Frank Worthington to ref – Did you hear that ref?
  Ref to Frank – I think he was talking to you.

  I remember going to a sportsmen’s dinner and Steve Kindon talking about how hard Tommy Smith was. He said Tommy was that hard that 3 months after Tommy was born Germany surrendered.

  Tommy Smith og Emlyn Hughes með fyrsta Evrópumeistaratitil Liverpool

  Tommy Smith var grjótharður grunnur sem Bill Shankly treysti á og lykilmaður í því sigursæla Liverpool-liði sem byggt var upp á tíma hans hjá klúbbnum. Hann tileinkaði líf sitt og líkama Liverpool Football Club og var stoltur leikmaður, fyrirliði, þjálfari, vallarstarfsmaður og ævilangur stuðningsmaður besta félagsliðs í heimi.

  Tommy var dáður og virtur meðal jafningja, samherja, mótherja og áhangenda. A working class hero is something to be söng John Lennon og Tommy Smith var holdtekja slíkrar verkamannahetju hjá hinu sanna liði fólksins í Liverpool-borg. Hans verður sárt saknað og við lútum höfði, lyftum glasi og heiðrum minningu eins af rauðustu Liverpool-mönnum sem verið hefur.

  Hvíl í friði Tommy Smith. Við minnumst þín meistari og gleymum aldrei.

  You never walk alone!

  Mótherjinn

  Engum andstæðing höfum við mætt oftar síðasta einn og hálfan áratuginn heldur en Chelsea FC. Oftar en ekki eru það gríðarlega mikilvægir leikir sem um er að ræða; bikarúrslit, Meistaradeildar-leikir eða deildarleikir á lykiltímapunktum á tímabilinu. Frá því að Mourinho mætti á Stamford Bridge þá hafa liðin verið sem segull á hvort annað og mæst í 48 leikjum á þessum 15 árum. Ávallt virðast þau draga hvort annað þegar höndin fer í hattinn og kúlurnar skila sinni niðurstöðu. Úr þessum tíðu bardögum hefur myndast ákveðinn rígur sem á sér dýpri rætur en eingöngu út frá fótboltalegum ástæðum. Þar er sett í samhengi illa fengið ríkidæmi djúpbláa höfuðborgarliðsins gegn hinu blóðrauða verkamannaliði norðursins.

  Því miður verður leikur liðanna á Anfield vorið 2014 óhjákvæmilega rifjaður upp í samhengi við þennan enda örstutt eftir að tímabilinu þá líka og Liverpool einnig á toppi deildarinnar. En þó að aðstæðurnar séu keimlíkar á yfirborðinu þá líkur samanburðinum í raun þar því að bæði lið eru allt öðru vísi uppbyggð á sinn hátt í dag en þau voru í þeim leik. Chelsea hafði nokkrum leikjum áður kastað frá sér toppsætinu með slæmum töpum á heimavelli. Í hefndarhug lagði Mourinho sinni brynvörðu rútu á þeim tíma með sorglega góðum árangri en Sarri mun væntanlega hafa meiri virðingu en að leggjast svo lágt og mun sækja til sigurs á sinn hátt.

  Að sama skapi er Liverpool dagsins í dag harðari hneta að brjóta varnarlega og treystir ekki á þann sóknarstorm sem meistaravonir liðsins byggðu á með Luis Suarez í fararbroddi. Chelsea er að slást um CL-sæti en með neyðarútgang í gegnum Europa League á meðan Liverpool er í rosalegasta og stigahæsta titileinvígi í sögu ensku úrvalsdeildarinnar. Þessi leikur skiptir Liverpool mun meira máli og inn í það mun spilast fjölmennari og taugasterkara Anfield, meiri hvíld eftir Evrópuleik á heimavelli meðan Chelsea spiluðu á útivelli í Tékklandi. Rauði herinn ætti að hafa miðlungsgóðan meðvind inn í þennan leik þó að eins og venjulega sé boltinn jafn hnöttóttur og fyrr með sínar óútreiknanlegu vegferðir.

  Chelsea hafa verið að stíga upp undanfarið og unnið sína síðustu 3 deildarleiki. Framan af tímabili voru þeir í toppbaráttunni með Liverpool og Man City en um jól og áramót fór að fjara undan því með opinberri gagnrýni stjórans á baráttu síns liðs og fleiri vandamálum. Ekki minnkaði pressan við 6-0 tapið á Etihad gegn City og í kjölfarið af fíaskóinu með uppreisn Kepa Arrizabalaga gegn útafskiptingu sinni í úrslitatapi deildarbikarsins. Merkilegt nokk þá hefur Sarri skipstjóri veðrað storminn að mestu síðan þá og hangið inni í baráttunni um meistaradeildarsætið og um sigur í Europa League sem gefur líka CL-inngöngu. Flestir Chelsea-stjórar væru foknir nú þegar enda starfsöryggið lítið þar á bæ og hugsanlega verða það örlög hins filters-tyggjandi töffara á hliðarlínunni að bíta í byssukúluna í stað sígarettunnar.

  En á sunnudaginn verður lítið spurt að því og þar munu mætast tvö af bestu liðum Englands og Evrópu í hörkuleik. Chelsea mun leggja flestar sínar vonir og væntingar á herðar og hreðjar Eden Hazard sem skoraði meistaramark á mánudeginum fyrr í vikunni. Þar er á ferð heimsklassa match-winner sem Liverpool þarf að hafa sem mestar og bestar gætur á. Hazard var eitt sinn ungur leikmaður í eldrauðri treyju að brillera fyrir Lille gegn Liverpool í Evrópu og kom sterklega til greina að fá hann í okkar raðir en því miður fór þar gæðabiti af eðalkjöti í hundskjaft. Den tid, den sorg.

  Að mati upphitunarritara mun Signore Sarri stilla stríðsmönnum sínum svona upp:

  Liðsuppstilling Chelsea í leikkerfinu 4-3-3

  Liverpool

  Rauði herinn hefur verið í öflugu formi síðustu vikurnar með 6 sigurleiki í röð í öllum keppnum og eingöngu tapað einum deildarleik allt tímabilið. Því miður var sá tapleikur gegn okkar helsta keppinaut um Englandsmeistaratitilinn en þegar þessi upphitunarorð eru rituð þá sitjum við í toppsætinu með 2 stiga forskot. Hvort að sú toppstaða verði raunin þegar blásið verður til leiks gegn bláliðum um eftirmiðdag á hvíldardeginum er í höndum herra Hodgson og kristalshallarkumpána hans. Einbeiting Klopp & co mun óháð því vera algjör á að landa öllum mögulegum stigum í þessum toppslag.

  Við getum algerlega gefið okkur að sóknartríóið okkar magnaða verður á sínum stað í framlínunni og sama mun gilda um Virgil van Dijk í leiðtogasæti varnarinnar, Alisson í markinu og bakvarðabræðurna Robertson og Alexander-Arnold. Við hlið VVD ætla ég að spá því að Joel Matip komi aftur inn í liðið þrátt fyrir endurkomu Lovren í síðasta leik gegn Porto. Ég hygg að Klopp meti hann í meira leikformi í ensku deildinni og hann hefur að ósekju átt fína leiki á síðustu mánuðum. Innkoma Matip hefur að vissu leyti verið vanmetin en hann hefur staðið vel fyrir sínu frá því að Gomez meiddist og fjarvera Lovren dróst allt tímabilið. Frá desember-byrjun hefur Matip byrjað 17 leiki og enginn þeirra hefur tapast með 13 sigrum sem sýnir fram á að hann er mikilvægur hlekkur í þessu liði meistaraefna. Virðing þar sem virðing er verðug.

  Á miðjunni tel ég að Fabinho haldi sinni stöðu sem sóknarspilandi varnar-akkeri og að fyrirliðinn Henderson fá einnig að halda áfram að brillera með kraftmiklar frammistöður í framliggjandi hlutverki. Heiðarlegt spjall Henderson fyrirliða við Klopp knattspyrnustjóra hefur valdið nettum straumhvörfum þegar á þurfti að halda í síðustu tveimur leikjum og allt sem kemur liðinu til góða er hið besta mál. Meira af því væri vel þegið og Jordan mætti splæsa í aðra svona sigursnuddu ef hann er í stuði.

  Keita hefur skorað í tveimur leikjum í röð og loks farinn að sýna sitt rétta andlit. Mín tilfinning er þó sú að í stórleik sem þessum þá muni Klopp þykja sem Gini Wijnaldum sé fullhvíldur og fái að nýju sitt sæti sem lykilmaður á miðjunni. Sér í lagi til að loka réttum svæðum, að tengja betur við vörnina og halda bolta skynsamlega innan liðsins. Keita verður þó til taks af bekknum sem sóknarskipting ef á þarf að halda.

  Að öllu ofansögðu yrði myndræn leikskýrsla Liverpool undirrituð af Herr Klopp eitthvað á þessa leið:

  Liðsuppstilling Liverpool í leikkerfinu 4-3-3

  En ekki bara taka mitt gisk út í geiminn trúanlegt. Hlustið sjálf á bráðskemmtilegan blaðamannafund meistara Klopp um hádegisbil í dag:

  Spakra manna spádómur

  Þar sem ég gerðist svo lukkulegur að hitta á topp-Tékkana Berger og Smicer um síðustu helgi þá kemur ekkert annað til greina en að hafa spádóminn í takt við þann hitting. Snoppufríðari og hárprúðari helmingurinn af því tvíeyki lagði Chelsea bókstaflega í einelti og í sínum fyrsta leik fyrir Liverpool átti hann stórleik með tveimur glæsimörkum í 5-1 sigri á Anfield.

  Sú ofurbjartsýna 5-1 spá verður því ofan á þó að ég yrði reyndar himinlifandi með hvaða sigurtölur sem er. Í þessum stóra sigri myndi Salah setja hat-trick til að troða rasista-söng bláliða um hann í vikunni þveröfugt ofan í þá. Til viðbótar setur minn maður Matip (arftaki King Clean Sheat Klavan) eitt mark en hið síðasta af þessum fimm verður sjálfsmark gestanna að hætti Andy Meyer.

  Hittingur að hætti hússins: Smicer, Beardsley og Berger

  YNWA

  [...]
 • Síðasta púslið og keðjuverkandi áhrif

  Tveimur dögum eftir að flautað var af í Kiev síðasta vor kom tilkynning nánast eins og þruma úr heiðskýru lofti frá Liverpool sem staðfesti kaup félagsins á Fabinho. Fyrsti leikmaðurinn sem Liverpool keypti síðan Christian Poulsen kom til félagsins sem hægt er að flokka sem alvöru varnartengilið. Óhætt að segja að ég var ánægður með þennan eftirmann Emre Can.

  (more…)

  [...]
 • Gullkastið – Mörk frá miðjunni!

  Miðjumenn Liverpool með fyrirliðann í fararbroddi sáu til þess að Árshátíðarhelgi Liverpool klúbbsins var stórvel heppnuð með Liverpool á toppnum. Liverpool nýtti svo gærdaginn í að útbúa nesti fyrir ferðalagið til Porto í næstu viku en áður en þeir fara þangað mætir óstöðugt og undarlegt lið Chelsea á Anfield.

  Stjórnandi: Einar Matthías
  Viðmælendur: SSteinn, Maggi og Ívar Örn Reynis.

  (more…)

  [...]
 • Liverpool 2 – Porto 0

  Þetta var hressandi leikur. Þetta var ekki “við verðum að finna einhverja leið til að skora” leikur. Þetta var ekki “allir stuðningsmenn með hjartað í brók” leikur. Þetta var “drullið ykkur frá Porto, við erum bara betri en þið” leikur. Það var yndislegt að setjast niður og bara vera afslappaður yfir Liverpool leik, ansi langt síðan það gerðist síðast.

  Gangur leiksins

  Portúgalarnir byrjuðu leikinn af krafti. Maður átti von á að þeir myndu pakka í vörn en fyrstu mínúturnar sóttu þeir stíft án þess að skapa sér nein alvöru færi. Andartak óttaðist maður að leikmenn Liverpool hefðu komið inn í leikinn með eitthvað vanmat í hjarta, maður óttaðist að Porto í hefndarhug myndu gera þetta að löngu erfiðu kvöldi á Anfield.

  Svo skoraði Keita.

  Markið átti upphaf sitt á vinstri kantinum þar sem Mané fékk boltann og sótti í átt að teignum. Hann gaf boltann inn á Firmino sem var vinstra megin en full nálægt endalínunni til að reyna að skjóta sjálfur, svo brassinn rúllaði boltanum út á Naby Keita milli vítateigslínurnar og vítapunktsins. Naby okkar tók eina snertingu til að koma boltanum í góða stöðu. Skotið hrökk af varnarmanni Porto og það í netið, Keita okkar komin með tvö mörk í tveim leikjum!

  Eftir þetta var eins og maður væri að horfa á Liverpool í Meistaradeildinni, haustið 2018. Pressan var á milljón, Porto reyndi að sækja en misstu boltann aftur og aftur og í hvert sinn sem okkar menn náðu honum voru sturlaðar sendingar fram og til baka sem voru svo nálægt því að skapa marktækfæri. Það var eins og Keita hefði fengið þrjá orkudrykki fyrir leik, hann var út um allt að pressa og þegar hann náði boltann var hans fyrsta hugsun að bruna á vörnina og reyna að skapa færi.

  En það flottasta sem gerðist á þessum kafla var enga síður varnarvinna. Eftir Liverpool horn komust Porto í skyndisókn og leikmenn Liverpool flestir hátt upp á velli. Þetta leit út fyrir að geta orðið hættulegt en Mo Salah tók svakalegan sprett, komst fram fyrir sóknarmann Porto um það bil sem hann var að fá boltann, hirti knöttinn og svo var brotið á honum. Að súperstjarnan okkar sé að vinna svona leiðindavinnu fyrir liðið segir margt gott um Salah og liðsandann í liðinu.

  Á 25. mínútu tvöfaldaði Firmino svo forystu okkar manna. Porto voru að verjast með átta manns bakvið boltann. Firmino sendi boltann á Henderson og hélt áfram hlaupi sínu inn í markteig. Fyrirliðinn okkar sendi fullkomna stungu sendingu inn á milli Porto mannanna á Trent Alexander-Arnold hægra megin, sem lét boltann ganga áfram á Firmino með laufléttri sendingu. Firmino óvaldaður inn í markteig og slúttaði af öryggi, staðan 2-0 Liverpool og Anfield í mjög góðu skapi.

  Skömmu síðar vildu Porto menn fá víti fyrir hendi á Trent inn í teignum. Ég ætla ekki að þykjast skilja hvar línan milli hendi og bolti í hönd er, en dómarinn lét þetta ganga til VAR og ætla að gera ráð fyrir að það hafi verið rétt að dæma það ekki. Það er líka ekki að segja að Porto hafi ekki átt færi í leiknum, Alisson sannaði enn og aftur hví hann var dýrasti markmaður í heimi með flottri handboltavörslu þegar Marega komst í maður á mann, en hann var allt í öllu í sóknarleik Porto manna.

  Það er mér fyrirmunað að skilja hvernig þessi leikur endaði 2-0. Í fyrstu tuttugu mínútur seinni hálfleiks réðu Liverpool lögum og lofum á vellinum og Porto komst varla útúr eigin vítateig. Sama mynstrið endurtók sig aftur og aftur: Liverpool byggja upp sókn, Liverpool reyna að koma boltanum á mann í teignum, Porto nær að komast inn í sendingu, Liverpool ná boltanum aftur strax, Liverpool byggja upp sókn. Aftur og aftur en það tókst ekki að skapa dauðafærið til að slútta einvíginu.

  Svo rann leikurinn eiginlega út í sandinn. Porto byrjuðu að færa sig upp á skaftið sem Brahimi kom inn á fyrir Soares. En Liverpool menn virtust nokkuð sáttir við að taka leikinn tvö núll þegar á leið seinni hálfleik og Porto þorðu ekki að setja of marga menn í sókn af ótta við skyndisóknir okkar manna.

  Einvígið ekki búið en okkar menn í virkilega góðri stöðu fyrir seinni leikinn.

  Bestu menn Liverpool

  Þetta var Jordan Henderson frá tímabilinu 2013/14. Það hentar honum mun betur að vera aðeins framar á vellinum, hann var geggjaður annan leikinn í röð og átti stóran þátt í seinna markinu. Van Dijk var eins og góður og venjulega og Alisson tók mikilvægar vörslur. Svo má alveg nefna Trent í þessari umræðu. En ég ætla að útnefna Naby Keita mann leiksins. Í fyrsta sinn í vetur sáum við leikmanninn sem við héldum að við værum að kaupa á sínum tíma og það sem hann má halda þessum leik áfram. Hann var frábær í að pressa, sótti á vörnina og svo ekki sé talað um markið sem hann skoraði.

  Vondur dagur.

  Það var enginn áberandi slæmur í dag, en nokkrir voru mistækir. Mér fannst Fabinho frábær oftar en ekki en inn á milli sendir hann full glæfralega Lovren var síðan klárlega aðeins ryðgaður, gerði ekki nein stór mistök en var nálægt því. Eins og ég sagði, engin áberandi slæmur en þeir tveir eiga meira inni.

  Umræðupunktar.

  • Fyrir mér er þetta sterkasta miðja Liverpool, sérstaklega á móti minni liðunum. Þeir eiga eftir að slípa sig saman og ég held að Klopp muni alltaf velja Hendo, Gini og Milner í stóru leikina en móti liðum sem munu liggja í vörn er þetta framtíðin.
  • Matip missti sæti sitt í liðinu, Lovren hefur átt betri daga en enga síður náðum við í hreint lak í fyrsta sinni í nokkra leiki. Held að ef engin meiðist þá sé þetta hafsentaparið út tímabilið.
  • Það er svo fáránlega dýrmætt að vera komin með góða stöðu í þessu einvígi. Klopp þarf lítið að pæla í seinni leiknum þegar hann stillir upp fyrir Chelsea, á meðan helsti keppinautur okkar er í erfiðri stöðu fyrir seinni leikinn gegn Tottenham.
  • VAR mun ekki útrýma dómaramistökum, né sérfræðingum í sjónvarpsþáttum að þræta um ákvarðanir dómaranna. En kerfið er búið að batna mikið síðan það mun prufa og megi það lengi halda áfram.
  • Shaqiri kom næstum inná! Hann var tilbúin og allt í uppbótartíma en boltinn komst ekki úr leik.
  • Origi er mjög fínn sem fyrsti maður af bekknum. Ef hann fer í sumar verð ég virkilega pirraður.

  Næst er það Chelsea á sunnudaginn! Bara fimm leikir eftir í deild og max fjórir eftir í Meistaradeildinni, þessu tímabili er alveg að ljúka maður er farin að vera vongóður á að því ljúki með einni eða jafnvel tveim (!) bikurum!

  [...]
 • Liverpool – Porto – Byrjunarliðin klár!

  Nú nálgast klukkan 19:00, stundina stóru þegar okkar menn taka á móti Porto í 8-liða úrslitum Meistaradeildarinnar. Ellefu kappar byrja fyrir Liverpool og ég verð að viðurkenna að nokkrir menn þarna koma mér á óvart.

  Lovren kemur inn fyrir Matip, sem tekur sér sæti á bekknum við hliðiná Joe Gomez. Sá síðarnefndi er í hópi í fyrsta sinn síðan í desember. Það var vitað fyrir leik að Andy Robertson væri í banni, einn-tveir hafa kannski vonast eftir að sjá Moreno en Milner leysir ef vinstri bakvörðinn,

  Fabinho, Hendo og Keita sjá svo um miðjuna, en Wijnaldum fær tímabæra hvíld. Ég veit ekki hversu mörgum leikjum hann hefur sleppt í vetur, en sú tala er lág. Framlínan segir sig svo sjálf. Á bekknum bíða svo Shaqiri, Origi og Sturridge, ásamt Wijnaldum, Matip, Gomez og Simon Mignolet.

   

  Porto teflir á móti þessu liði:

  Porto

   

  Ég hlakka til að sjá hvernig Fabinho og Keita spjara sig í þessum leik, mikið verið kallað eftir að sjá þá meir. Robbie “Guð” Fowler á afmæli í dag og vona að hann fái sigurleik í afmælisgjöf!

  Spennan er að magnast, KOMA SVO!
  YNWA.

   

  [...]
 • Porto mæta á Anfield

  Annað kvöld mæta Porto á Anfield í 8 liða úrslitum Meistaradeildarinnar. Annað árið í röð er Liverpool í 8 liða úrslitum þessarar keppni, og annað árið í röð mætast þessi lið í útsláttarkeppninni, þó viðureignir þessara liða í fyrra hafi reyndar verið í 16 liða úrslitum.

  Spennustigið fyrir leik þessara liða á Anfield í fyrra var vissulega lægra en nú er, og var satt að setja alveg við núll gráður, enda höfðu okkar menn svo gott sem gert út um einvígið í fyrri leiknum úti í Portúgal með 5-0 sigri þar. Undirritaður mætti á leikinn á Anfield, en ákvörðunin um að fara á þann leik var tekin áður en fyrri leikurinn fór fram, og skal ég alveg játa að hugsanlega hefði maður ekkert verið að hafa fyrir þessum leik vitandi úrslitin á útivelli. Enda fór það svo að sá leikur fór 0-0, líklega eini markalausi leikur okkar manna á síðustu leiktíð (leiðréttið mig endilega ef það er ekki rétt).

  Líkurnar á því að leikurinn á morgun fari 0-0 eru vissulega til staðar. Við minnumst þess t.d. að fyrri leikur Liverpool og Bayern í 16 liða úrslitunum fór einmitt 0-0, og að það er ekki eini 0-0 leikur tímabilsins (annað dæmi: leikirnir við City á Anfield og Everton á Goodison Park koma t.d. upp í hugann). En við skulum vona að sóknartríóið okkar verði á skotskónum og niðurstaðan verði helst nokkur mörk í plús þegar seinni leikurinn fer fram úti eftir rúma viku.

  Andstæðingarnir

  Liðið sem mætir á Anfield er líklega með ögn meira sjálfstraust heldur en liðið sem mætti í fyrra. Núna mæta þeir sem ríkjandi deildarmeistarar í Portúgal, sigurvegarar síns riðils í Meistaradeildinni síðasta haust, þeir eru komnir í útsláttarkeppni Meistaradeildarinnar annað árið í röð, og í stað þess að falla úr leik í 16 liða úrslitum eins og í fyrra eru þeir komnir í 8 liða úrslitin. Liðið gekk í gegnum nokkrar breytingar síðasta sumar eins og gengur. Frá liðinu fóru kappar eins og Ricardo Pereira sem fór til Leicester og Diago Dalot sem fór til United. Þá var kunnuglegt nafn á lista yfir þá sem fóru frá félaginu, því fyrrum Liverpool leikmaðurinn Joao Carlos Teixeira var þar á meðal. Hann lék svosem aldrei mikið með Porto, en hann sást í 8 leikjum með félaginu fyrir tveim tímabilum, og var svo á láni hjá Braga á síðasta tímabili. Einn af mörgum fyrrum leikmönnum Liverpool sem manni þótti efnilegur á sínum tíma, en náði ekki að stíga næstu skref upp á stóra sviðið.

  Til klúbbsins hafa svo nokkrir leikmenn komið í síðustu tveim gluggum. Skal þar helstan telja Éder Militao sem kom frá Brasilíu í ágúst síðastliðnum, og nú þegar er farið að orða hann við ýmis stórlið í Evrópu.

  Liðið lék við Roma í 16 liða úrslitum, og að jafnaði mætti segja að það að slá út lið sem komst í undanúrslit Meistaradeildarinnar árið áður hljóti að teljast mjög gott, en þó má ekki gleyma því að Roma missti jú Alisson síðasta sumar, og var þar um að ræða skarð fyrir skildi. Roma vann reyndar fyrri leik liðanna á Ítalíu 2-1, en Porto vann þann seinni 3-1 á sínum heimavelli.

  Þeir leikmenn sem líklegastir eru til að skora (ef þeir ná þá að skora hjá Alisson á annað borð) eru þeir Fransisco Soares sem er með 19 mörk samtals á leiktíðinni, og Moussa Marega sem er með 17 mörk, þar af 6 í meistaradeildinni. Semsagt, tveir leikmenn sem gætu verið að detta í 20 mörk á leiktíðinni. Nú og svo er leikformið á liðinu í síðustu 5 leikjum ekkert ósvipað og hjá okkar mönnum: 4 sigrar og 1 jafntefli. Það er því ljóst að þetta eru engir aukvisar sem Liverpool er að fara að mæta.

  Okkar menn

  Hópurinn sem Klopp getur teflt fram er óvenju breiður. Það er þó eitt stórt skarð sem þarf að fylla, en Andy Robertson getur ekki spilað á morgun þar sem hann náði sér í gult spjald í uppbótartíma í seinni leiknum gegn Bayern. Langflestir telja einboðið að James Milner verði kallaður til og mæti aftur í vinstri bakvarðarstöðuna sem hann eignaði sér eins og frægt er orðið fyrir tveim árum síðan. Líkurnar á því að Alberto Moreno muni spila aftur fyrir Liverpool fara hratt minnkandi með hverjum leiknum sem líður, og voru svosem ekkert mjög miklar eftir bikarleikinn gegn Wolves í janúar (þó svo hann hafi einstaka sinnum sést á bekknum eftir það). Að öðru leyti eru líkur á því að Klopp vilji stilla upp sínu alsterkasta liði, enda næsti leikur ekki fyrr en á sunnudaginn þegar Chelsea mæta á Anfield. Og nú er bara spurningin: hvað telur Klopp að sé sitt sterkasta lið? Fremstu 3 velja sig sjálfir, vörnin velur sig sjálf (örlítill séns að Lovren fái séns í staðinn fyrir Matip samt), en spurning með miðjuna. Ef við gerum ráð fyrir að Milner fari í vinstri bak, þá er þetta spurning um Henderson, Fabinho, Wijnaldum og Keita, mögulega gæti Lallana fengið eitthvað hlutverk, en þessi meiðsli sem hindruðu hann í að spila á föstudaginn gætu vel komið í veg fyrir þáttöku hans á morgun.

  Við skulum því spá þessu svona:

  Eins og venjulega þá eru þarna nokkur vafaatriði. Wijnaldum þótti virka þreytulegur í leiknum á föstudaginn, kannski kemur Keita í hans stað. Mögulega fær Henderson annað taktískt hlutverk sem box-to-box leikmaður, en hann sýndi það einmitt í leiknum gegn Saints að hann kann það ennþá. Það er a.m.k. ólíklegt að Klopp fari að stilla upp í 4-2-3-1 með Hendo og Fabinho fyrir framan vörnina. Nú og svo er eins og áður sagði smá möguleiki að Lovren fái kallið fram yfir Matip, þó það sé ólíklegt þar sem samvinna Matip og van Dijk er búin að vera með ágætum upp á síðkastið.

  Undirritaður spáir að sjálfsögðu sigri, en ég tel nánast engar líkur á að þessi leikur fari 5-0 eins og í fyrra. Við skulum segja að þetta verði svona mitt á milli leikjanna tveggja frá síðasta ári, og fari annaðhvort 2-0 eða 3-1. A.m.k. alveg klárt að Mané setur eitt ef ekki fleiri.

  KOMA SVO!

  [...]
 • Southampton 1-3 Liverpool

  Gleðineistinn logaði áfram á St. Mary í kvöld þrátt fyrir erfiða byrjun. Bertrand fékk pláss á kantinum og kom með fyrirgjöf sem Höjberg flikkaði áfram og fann þar Shane Long aleinan eftir að Wijnaldum kláraði ekki hlaupið á eftir honum úr djúpinu og Long kom boltanum auðveldlega í netið. 1-0 og Liverpool litu hreint út sagt hræðinlega út. Á 20. mínútu vorum við svo heppnir að fá ekki annað mark í andlitið þegar Trent setti boltan í Bertrand og þaðan barst boltinn á Redmond sem setti boltan fyrir markið en Shane Long hitti ekki boltan og Van Dijk kom honum aftur fyrir.

  Eftir rúmlega hálftíma leik þar sem Southampton hafði verið betri aðilinn jafnaði Liverpool leikinn. Eftir nokkrar fyrirgjafir í röð sem Southampton náði að koma frá en ekki nægilega vel náði Trent að halda boltanum frá því að fara aftur fyrir og vippaði boltanum inn í teiginn þar sem Naby Keita skallaði boltann og Angus Gunn í marki Southampton reyndi eins og hann gat að halda boltanum úr netinu en sem betur fer fór hann allur yfir línuna. Hans fyrsta mark fyrir félagið og megi þetta vera byrjun á frábærum ferli!

  Það sem eftir lifði hálfleiks náði Liverpool að vinna sig inn í leikinn og átti nokkur hálffæri en ekkert sem var líklegt til að koma okkur yfir og því jafnt í hálfleik. Seinni hálfleikurinn byrjaði svipað og sá fyrri endaði Liverpool líklegri en ekki að skapa nægilega góð færi. Eftir um tæpan klukkutíma var umdeilda atvik leiksins þegar Keita sótti á Yoshida, potaði boltanum framfyrir sig og Yoshida tók hann niður inn í teignum en ekkert dæmt. Sumir vilja meina að Keita hafi verið farinn að láta sig detta aðrir vilja meina að hann hafi ekki átt að fá víti vegna þess að hann potaði boltanum of langt og því var hann ekki að fara ná til boltans en að mínu mati er þetta annað klára víti tímabilsins sem Keita er neitað um.

  Southampton fell dýpra og dýpra þegar leið á leikinn og fóru að tefja sem varð til þess að Bertrand fékk gult fyrir að vera of lengi að taka innkast rúmri mínútu eftir að dómarinn aðvaraði hann fyrir sama hlut. Það voru svo tíu mínútur eftir af leiknum þegar Liverpool komust loks yfir. Southampton fékk hornspyrnu og Origi var að gera sig kláran til að koma inná. Úr hornspyrnunni var boltanum hreinsað til Mo Salah sem tók hlaup yfir hálfan völlinn með Firmino sér við hlið og Bertrand að reyna að leika eftir varnarleik Van Dijk frá síðustu helgi. Salah var hinsvegar ískaldur og tók skotið á vítateigslínunni og skoraði í fjærhornið. Loks var markaþurrð hans lokið!

  Það var svo Jordan Henderson sem innsiglaði sigurinn á 86. mínútu eftir fyrirgjöf frá Firmino og þrjú stig í hús og titilbaráttan enn í bullandi gangi!

  Bestu menn Liverpool

  Ég er nálægt því að velja Jordan Henderson sem mann leiksins, miðjan skánaði mikið við innkomu hans. Hann átti skallan á Salah í markinu sem kom Liverpool yfir og skorar svo síðasta mark leiksins varla hægt að biðja um meira frá varamanni. Mo Salah var kannski ekki stórkostlegur allan leikinn en skorar markið sem kemur okkur yfir og þungu fargi lyft af honum en ég vel Naby Keita mann leiksins, fyrsti leikurinn hans í langan tíma en skorar jöfnunarmark Liverpool bjó til gott færi fyrir Firmino og átti sterkt kall fyrir vítaspyrnu í leiknum. Var kannski slakur í varnarleiknum en var skapandi þegar okkur sárvantaði 3 stig.

  Vondur dagur

  Fyrir utan stoðsendinguna í jöfnunarmarkinu átti Trent slakan leik og var skipt útaf fyrir Milner. Gini Wijnaldum var skugginn af sjálfum sér í dag og má fara skoða að gefa honum eins og einn leik í frí þegar við eigum aðra valkosti á miðjuna.

  Umræðupunktar

  • Gaman að sjá fyrirliðan koma svona vel inn. Hann er umdeildur af stuðningsmönnum en fáir geta gagnrýnt frammistöðu hans í dag, fyrir utan óþarfa gult spjald undir lokin.
  • Liðið var slakt alltof stóran part af þessum leik, eins og síðustu vikur. Væri gott fyrir taugarnar ef liðið gæti farið að spila betur heila leiki en kvarta lítið á meðan 3 stig koma í hús.
  • Skiptingarnar hjá Klopp breyttu leiknum. Miðsvæðið var tapað stóran hluta af leiknum en Henderson og Milner (úr bakverðinum) breyttu því.
  • Leikjaálagið á næstunni hjá City er svakalegt og við þurfum að þeir misstigi sig í einhverjum af þeim leikjum en í síðustu þremur leikjum höfum við dregið upp sigra sem er eitthvað sem einkennir oft meistaralið, vonandi getum við horft á þetta þannig þegar flautað verður til leiks í maí!

   

  [...]
 • Byrjunarliðið gegn Southampton

  Klopp hefur þá stillt upp liði sínu fyrir sjötta síðasta leik deildarinnar í ár. Enn eitt tækifærið að taka efsta sætið, að minnsta kosti tímabundið og halda pressunni á City. Liðið lítur svona út í dag:

   

  Keita og Fabinho koma inn frá því í síðasta leik og verður gaman að sjá hvort Keita nái að setja mark sitt á tímabilið í dag!

  Lið andstæðinganna er svo svona

  Gunn

  Valery – Vestergaard – Yosida – Bednarek – Bertrand

  Ward-Prowse – Höjbjerg – Romeu

  Long – Redmond

  Minni á umræðuna her fyrir neðan og á twitter á kopis myllumerkinu

  [...]
Load More
Congratulations. You've reached the end of the internet.
Back to Top
Close