Latest stories

 • Byrjunarliðið vs. Chelsea í Istanbul

  Nú styttist í upphafssparkið á úrslitaleiknum um UEFA Super Cup og spennan magnast í Istanbul. Rauði herinn hefur þrisvar sinnum hampað titlinum í sögu sinni en það var árin 1977, 2001 og 2005. Þessi ágæti silfraði verðlaunagripur verður seint kallaður sá mikilvægasti í knattspyrnunni en bikar er bikar er bikar og til þess að vera gjaldgengur í að spila leikinn þá þarftu að hafa unnið Evróputitil. Þátttaka í úrslitaleiknum er því eingöngu fyrir hina útvöldu og sigursælu og við viljum að sjálfsögðu landa öllum titlum sem Liverpool keppir um.

  Mótherjinn að þessu sinni eru hinir engilsaxnesku Chelsea en þetta er í fyrsta sinn sem um al-enskan Super Cup er að ræða. Lampard og lærisveinar hans fengu flengingu í fyrsta keppnisleiknum undir hans stjórn og þeir gætu því mætt sem sært ljón í þennan leik. Í það minnsta þá hafa báðir stjórar gert upp huga sinn varðandi byrjunarliðin og þau eru eftirfarandi:

  Liverpool: Adrian, Gomez, Matip, Van Dijk, Robertson, Fabinho, Milner, Henderson, Oxlade-Chamberlain, Mane, Salah.

  Bekkurinn: Lonergan, Kelleher, Wijnaldum, Firmino, Lallana, Shaqiri, Brewster, Origi, Hoever, Alexander-Arnold, Elliott.

  Það sem helst vekur eftirtekt er að Mané kemur inn í byrjunarliðið en Bobby Firmino sest á bekkinn. Einnig koma Englendingarnir Milner og Henderson inn í liðið og Origi fær sér sæti á bekknum ásamt Wijnaldum. En Chelsea setja sitt lið svona upp

  Pulisic sem olli okkur miklum vandræðum gegn Dortmund sumarið 2018 byrjar inná og einnig Kante sem ku vera tæpur á meiðslum. Að öðru leyti mátti alveg búast við þessari uppstillingu og bara game on.

  MONTE CARLO, MONACO – AUGUST 26: Liverpool celebrates after winning the UEFA Super Cup match between Liverpool and CSKA Moscow at the Stade Louis II on August 26, 2005 in Monte Carlo, Monaco. (Photo by Shaun Botterill/Getty Images)

  Við gerum að sjálfsögðu ráð fyrir neistaflugi ásamt þrumum og eldingum þegar leikar hefjast og gerum heimtingu um heavy metal músík að hætti Klopp frá fyrstu mínútu. Upphitunarlagið er því í takt við tilefnið og verða hlustendur þrumulostnir að hlusta á þessa rafmögnuðu rokkhunda. Vonandi verða rauðklæddu stuttbuxnastrákarnir okkar í álíka stuði og hinn síungi Angus Young í þessu lagi. Hækka í græjunum!!

  Come on you REDS! Allez! Allez! Allez!

  YNWA!

  Við minnum á #kopis á Twitter og umræðuna í athugasemdum hér að neðan.

  [...]
 • Ofurbikarinn á morgun

  Annað kvöld fer fram Ofurbikar Evrópu í Istanbul þegar Evrópumeistarar Liverpool mæta Evrópudeildarmeisturum Chelsea. Liverpool flaug til Istanbul á þriðjudags morgni og sat Klopp ásamt Mane á blaðamannafundi seinna um daginn.

  Embed from Getty Images

  Á blaðamannafundinum sagðist Mane vera klár í að byrja leikinn annað kvöld og að þreyta sé bara eitthvað sem er í hausnum á manni. Það má því sterklega búast við því að hann muni að minnsta kosti byrja annað hvort á morgun eða um helgina.

  Klopp og leikmenn Liverpool virðast mjög tilbúnir í þennan leik og hungraðir í að vinna þennan bikar sem vonandi veit á gott. Á blaðamannafundinum hrósaði Klopp einnig þeirri ákvörðun að kvenkyns dómarar myndu dæma þennan leik og væri það í fyrsta skipti sem konur dæmi leik sem þennan, hann sagðist mjög spenntur fyrir því að vera hluti af jafn sögulegum atburði og að þetta væri vonandi sá fyrsti af mörgum.

  Annars er það að frétta af hópi Liverpool að Lovren ferðaðist ekki með til Istanbul þar sem hann er veikur. Klopp segir að hann sé í alvöru veikur en hann er sterklega orðaður við félagsskipti til Roma svo það spilar líklega eitthvað inn í og hann mun að öllum líkindum semja við þá fljótlega.

  Alisson er frá eins og flestir ættu að hafa frétt núna og verður það næstu 4-8 vikurnar mætti maður reikna með. Adrian sem kom til Liverpool rétt fyrir lok félagsskiptagluggans í Englandi mun því taka stöðu hans í millitíðini og byrjar leikinn annað kvöld fyrir Evrópumeistarana og gæti unnið Evrópubikar í sínum fyrsta byrjunarliðsleik. Hann segist mjög spenntur fyrir þessari áskorun og trúi nánast ekki að hann sé í þessari stöðu. Vonandi verður hann flottur á milli stangana fyrir okkur næstu vikurnar.

  Naby Keita haltraði út af æfingu í kvöld og hætti æfingu vegna varúðarráðstafana. Hann fann fyrir einhverjum stífleika aftan í lærinu og þjálfara- og læknateymið mun meta stöðuna á honum betur á morgun. Vonandi er þetta ekki neitt neitt og hann verður í hópnum annað kvöld. Aðrir en þá Alisson, Lovren og kannski Keita ættu að vera klárir í leikinn.

  Líkt og í úrslitum Meistaradeildarinnar verður hvort lið með tólf skiptimenn og velja þá bara sín 23 manna leikmannahóp fyrir leikinn. Í hópi Liverpool er líklega ekkert óvænt ef óvænt skal kalla fyrir utan það að Harvey Elliott og Ki Jana Hoever eru einu unglingarnir ásamt Brewster sem verða með. Markvörðurinn Kelleher ferðaðist með en er ekki alveg klár í leik og þá fékk Andy Lonergan skammtíma samning hjá Liverpool og verður líklega í leikmannahópi liðsins í smá tíma þar til Kelleher og Alisson verða klárir í slaginn. Ég er ekki viss um að á þessum tíma fyrir nokkrum mánuðum eða vikum hafi Lonergan dottið í hug að hann myndi æfa allt sumarið með Liverpool, fá samning og vera í leikmannahópi í úrslitaleik í Evrópukeppni!

  Chelsea steinlá fyrir Man Utd á sunnudaginn og fá tveggja daga styttri hvíld á milli leikja en Liverpool. Frank Lampard stjóri Chelsea segir að Kante hafi meiðst eitthvað gegn Man Utd og óvissa er með hvort hann geti byrjað leikinn en þeir eru að fá sterka leikmenn eins og Rudiger upp úr meiðslum en óvíst er hvort að hann byrji eða ekki. Þetta er aðeins öðruvísi en þau Chelsea lið sem Liverpool hefur mætt undanfarin ár og nú er Hazard farinn frá þeim svo maður veit ekkert hvað maður á von á frá þeim en miðað við það sem þeir sýndu um helgina þá ætti Liverpool að vinna þennan leik svona nokkuð sannfærandi.

  Ég held að Klopp sé ekki að fara að breyta liðinu mikið frá því í síðustu tveimur leikjum. Hann byrjaði með sama lið í Samfélagsskildinum og hann gerði í opnunarleik deildarinnar gegn Norwich og ég held að það verði bara nokkuð svipað liðið á morgun. Ég ætla að fara í mótsögn við mig strax og segja að hann geri samt þrjár breytingar á liðinu sem eru samt ekki það stórar að maður missir hökuna í gólfið.

  Adrian

  TAA – Matip – VVD – Robertson

  Henderson – Fabinho – Milner

  Salah – Firmino – Mane

  Ég held að Mane komi inn í byrjunarliðið á kostnað Origi sem var frábær gegn Norwich, sömuleiðis þá kæmi mér ekki á óvart ef að Matip fengi að byrja þennan leik þar sem Gomez byrjaði síðustu tvo og jafnvel að Milner kæmi inn á miðjuna. Ef að Milner byrjar ekki á miðjunni þá held ég að við getum alveg bókað það að tvær fyrstu skiptingar Klopp yrðu líklega Origi og Milner sama hvernig staðan er og leikurinn spilast.

  Ég hlakka mikið til leiksins annað kvöld og ég held að Liverpool vilji virkilega landa þessum bikar. Þetta er eitthvað sem stendur þeim til boða eftir að þeir unnu magnað afrek og urðu Evrópumeistarar og Evrópumeistarar eiga að vinna Ofurbikar Evrópu. Þetta er bikar sem skiptir máli og Liverpool ætlar og þarf að vinna hann. Vonandi sjáum við Henderson lyfta öðrum Evrópubikar annað kvöld og það verði bara fyrsti af nokkrum í vetur.

  [...]
 • Dejan Lovren á leiðinni til Ítalíu?

  Dejan Lovren er sterklega orðaður við brottför frá félaginu núna í sumar, annaðhvort til Roma eða AC Milan.

  Verulega áhugavert í ljósi þess að á köflum í fyrra var ekki nóg að eiga fjóra góða miðverði og því undarlegt að fækka ennfrekar í þeim hópi. Klopp er auðvitað ekki að taka svona ákvarðanir óundirbúinn og verður spennandi að sjá hvort hann ætli að færa miðjumenn neðar á völlinn eða treysta á unglinga eins og Berg og Hoever þegar reynir á hópinn.

  Erfitt að sjá hvernig sala á Lovren styrkir Liverpool á þessu tímabili samt.

  [...]
 • Alisson frá í nokkrar vikur

  Þetta er a.m.k. ekki jafn slæmt og orðrómur var um í dag.

  Liverpool er í smá markvarðakrísu og hefur af þeim sökum samið við Andy Lonergan út tímabilið, markmannin sem fór með liðinu til Bandaríkjanna í sumar.

  Vonum að Alisson verði kominn eftir fyrsta landsleikjahléið. Þetta er rosalegt tækifæri fyrir Adrian, svo mikið er víst.

  [...]
 • Vikulokin: Fyrirsjáanleg fyrsta umferð

  Líklega verður þessi fyrsta umferð í enska boltanum ekkert feitletruð í sögubókum. Stóru liðin unnu öll nema auðvitað annað liðanna í stórleik helgarinnar. Rétt eins og með æfingaleiki þarf að fara varlega í að lesa of mikið út frá frammistöðum í fyrstu umferð en eitthvað má þó finna sem gefur vísbendingar um komandi vikur.

  Liverpool

  Stóra spurningin varðandi byrjunarlið Liverpool var Matip eða Gomez. Klopp hóf leik rétt eins og fyrir ári síðan með Gomez við hlið Van Dijk og ná þeir vonandi að byggja upp jafn sterkt samband og fyrir ári síðan. Hrikalega svekkjandi og aðeins ósanngjarnt fyrir Matip sem hefur ekkert gert af sér.

  Meiðsli Alisson setja stóran skugga á sigurinn og ljóst að hann má ekki vera meiddur í langan tíma. Adrian er góður markmaður með töluverða reynslu í úrvalsdeild en hefur varla náð æfingu með Liverpool fyrir leikinn gegn Norwich og augljóslega mjög vont ef við þurfum að treysta á hann til lengri tíma. Fram að landsleikjahléi í september á Liverpool leiki gegn Chelsea, Southampton, Arsenal og Burnley sem Adrian spilar líklega alla.

  Liverpool byrjaði mótið engu að síður eins vel og hægt var að vonast eftir og virkuðu töluvert betri en megnið af undirbúningstímabilinu þó þetta hafi ekkert verið fullkomin frammistaða. Leikmenn Norwich voru margir að spila sinn fyrsta leik í Úrvalsdeild, þeir geta alveg borið höfuðið hátt en það var jákvætt að sjá þá vera komna með krampa eftir klukkutíma og alveg búna á því í leikslok. Liverpool gerir það við flestalla sína mótherja.

  Man Utd – Chelsea

  Bæði lið stilltu upp áhugaverðum byrjunarliðum sem kannski eru hvað helst áhugaverð fyrir það hversu óáhugaverð þau voru. Chelsea hafa verið mjög opnir varnarlega á undirbúningstímabilinu en voru á köflum barnalegir gegn United. Frank Lampard heimtar mjög hátt tempó og vinnuframlag sem liðið virtist ekki ráða við í 90 mínútur í dag.

  Það er samt fullkomlega galið að staðan hafi verið 1-0 fyrir United í hálfleik, Chelsea átti tvo skot í tréverkið og annað eins af mjög góðum færum sem þeir nýttu ekki. Vörn United var nokkrum sinnum galopnuð en náði að fóta sig betur þegar það fór að draga af leikmönnum Chelsea.

  Magiure var valinn maður leiksins sem er vel harkalegt fyrir De Gea en það er ljóst að hann styrkir United liðið mjög mikið (ásamt Wan-Bissaka). Miðjan hjá United hræðir mann ekki neitt en sóknarlínan býr yfir gríðarlegum hraða sem Ole Gunnar ætlar augljóslega að nota og mun valda fullt af liðum vandræðum í vetur. Veit samt ekki með að selja Lukaku og fá engan nýjan í staðin (nema Daniel James).

  United verða betri í vetur en þeir voru í fyrra öfugt við Chelsea m.v. þessa fyrstu umferð. Þeir gátu ekki saknað Edin Hazard mikið meira en þeir gerðu í þessum leik og Frank Lampard gat ekki byrjað mikið verr í starfi. Reyndar söknuðu þeir David Luiz litlu minna en Hazard m.v. frammistöðu Zouma í hjarta varnarinna.

  Man City

  Nokkuð ljóst að Man Cityzzzzzzzzzzzzzz

  Arsenal

  Skytturnar áttu bara í töluverðum vandræðum með Newcastle liðið og geta þakkað Aubamayang sigurinn. Vandamál Newcastle í sumar koma Arsenal auðvitað ekkert við og þeir fara sáttir með öll stigin til London. Emery stillti upp töluvert af ungum leikmönnum, Willock var á miðjunni með Guendouzi sem er nokkuð áhugavert þar sem margir stuðningsmanna Arsenal vilja meina að þar sé leikmaður sem gæti jafnvel verið kominn til að vera á miðjunni. Hinn 19 ára Nelson var á vinstri kantinum til móts við Mkhitaryan sem var hinumegin. Özil og Kolasinac fóru ekki með Arsenal norður af öryggisástæðum eftir árásina á þá í síðustu viku.

  Varnarlínan samanstóð af Maitland-Niles með Chambers og Sokratis í miðvörðunum og Monreal í vinstri bakverði. Orðum þetta svona, þetta verður vonandi byrjunarlið Arsenal þegar Liverpool mætir þeim eftir tvær vikur. Ólíklegt auðvitað þar sem nýju mennirnir voru allir á bekknum og þrír af þeim komu inná. Torreira og Lacazette voru líka á bekknum ásamt því að Özil og Kolli voru fjarverandi. Þannig að Arsenal er ekki alveg jafn veikt og byrjunarliðið í fyrsta leik gefur til kynna, leik sem þeir btw unnu.

  Emery þarf hinsvegar að spila þessum mönnum saman og þannig bæta mjög vængbrotið Arsenal lið frá síðasta tímabili. Það er ekkert víst að allir þeir sem félagið keypti muni standa sig og gætu alveg þurft smá tíma. Stöðugleikinn hjá Liverpool í sumar og engin leikmannakaup heilla mig meira en það verkefni sem Emery á fyrir höndum næstu mánuði.

  Tottenham

  Þetta var rosalega góð vika fyrir alla þá sem taka þátt í Fantasy leikjum því að allir helstu sóknarmenn deildarinnar skoruðu í þessari umferð. Harry Kane skoraði m.a.s. tvö mörk í opnunarleiknum (í ágúst). Tottenham kom til baka gegn Aston Villa, endurkoma sem manni finnst Spurs ná ansi oft. Þeir rétt eins og Liverpool fengu spólgraða nýliða í fyrstu umferð sem er alltaf bananahýði og stóðust prófið. Ndoumbele sýndi það í þessum leik að hann er the real deal, skoraði meira að segja.

  Að lokum…

  Þessi fyrsta umferð gefur sterklega til kynna að toppbaráttan verður svipuð og undanfarin ár. Chelsea er eina liðið sem byrjar mótið mjög illa og þurfa að bregðast við, það verður fróðlegt að sjá hvort þeir komi eins og sært dýr í leikinn gegn Liverpool í Istanbul á miðvikudaginn eða verði jafn opnir og gegn United. Slíkt gæti orðið veisla fyrir sóknarmenn Liverpool.

  Að lokum sendum við kudos á Símann sem stóðst prófið vel í fyrstu umferð. Flott umgjörð fyrir aðalleikina og fín lína í lýsingum á leikjunum sjálfum. Fljótt á litið sýnist manni þeir almennt fá jákvæð viðbrögð. Viðurkenni að ég sá aðeins brot af þeirra dagskrá um helgina.

  [...]
 • Liverpool 4 – 1 Norwich

  Mörkin

  1-0 Hanley (sjálfsmark) (7. mín)
  2-0 Salah (19. mín)
  3-0 Virgil (28. mín)
  4-0 Origi (42. mín)

  Gangur leiksins

  Ef við skoðum markaskorunina þá er eins og að þetta hafi bara verið einstefna hjá okkar mönnum fyrsta hálftímann, en svo var reyndar ekki. Norwich mættu á Anfield til að spila fótbolta, og áttu alveg nokkur gegnumbrot og færi sem með meiri heppni eða meiri getu hefðu alveg getað skapað vandræði fyrir okkar menn. Alisson átti t.a.m. ónákvæma sendingu snemma leiks sem Pukki komst inní, og svo voru 2-3 önnur tilfelli þar sem leikmenn með meiri gæði hefðu jafnvel refsað fyrir. En það var semsagt á 7. mínútu að Origi fékk boltann uppi í vinstra horni, gaf sendingu inn á markteig sem leit út fyrir að yrði hreinsuð frá, en Hanley kiksaði á boltanum þannig að hann flaug óverjandi í hornið, óverjandi fyrir Tim Krul. Næsta mark kom eftir smá barning við vinstra vítateigshornið, þar sem bæði Trent og Salah misstu boltann frá sér, en svo barst boltinn á Firmino sem renndi honum inn fyrir á Salah, hann gerði engin mistök og renndi boltanum í fjærhornið. Mark númer 3 kom eftir hornspyrnu sem Salah tók, beint á kollinn á Virgil van Dijk sem var á markteig, vissulega ekki óvaldaður, en völdunin var bara ekki betri en svo að hann fékk frían skalla og stangaði boltann í netið. Nokkru áður hafði Trent átt svipaða sendingu á Firmino sem tók hann frábærlega á kassann og skaut svo viðstöðulaust á markið en það var varið vel.

  En það var svo 10 mínútum síðar sem það atvik varð sem hugsanlega á eftir að draga mestan dilk á eftir sér fyrir Liverpool. Alisson tók ósköp hefðbundna markspyrnu, var ekki undir neinni pressu, en rann til og lagðist strax í grasið. Leikurinn var ekki stöðvaður fyrr en boltinn barst til Krul hinumeginn, og þá kom læknateymið inná. Greinilegt að Alisson hafði meiðst þannig að hann gæti ekki haldið áfram. Adrian var því kallaður til, og það er pínku kaldhæðnislegt að í næsta leik eftir að Mignolet fer frá klúbbnum til að fá meiri spilatíma, þá meiðist Alisson þannig að það verði að kalla til varamarkvörðinn. Það voru komnar inn börur til að bera Beckerinn útaf, en hann afþakkaði það og haltraði útaf með aðstoð læknisins. Við vonum að það sé merki um að meiðslin séu ekki mjög alvarleg, en það eru samt sem áður allar líkur á að hann verði frá í næstu leikjum.

  Það var svo Origi sem setti fjórða markið eftir frábæra fyrirgjöf frá Trent, en sendingin frá honum rataði beint á kollinn á Origi sem skallaði rétt innan við vítateigspunkt og framhjá Krul.

  Staðan 4-0 í hálfleik, og þetta var meðal þess sem flaug í gegnum hug Liverpool aðdáenda í hléi:

  Við áttum örugglega mörg von á að Liverpool myndi halda sama dampi í seinni hálfleik, en mörkin létu á sér standa. Ekki það að liðið óð í færum: Henderson átti skot sem Krul varði í þverslá, Firmino fékk boltann aleinn á markteigshorninu með Origi sér við hlið en snéri eitthvað klaufalega og endaði á að setja boltann framhjá.

  Á 64. mínútu náðu svo Norwich að setja eitt mark, og þar var að sjálfsögðu að verki Finninn fljúgandi Teemu Pukki, sá sem var markahæstur í næstefstu deild í fyrra. Greinilegt að þetta er hörku leikmaður sem á eftir að láta til sín taka í vetur. Hann fékk einfaldlega góða sendingu inn fyrir og Adrian gat lítið gert til að verja þetta, en miðað við hvað vörnin hafði verið ryðguð þá kom þetta þannig séð ekki neitt svakalega á óvart. Vissulega hefðum við þó kosið að okkar menn hefðu frekar bætt í heldur en að fá á sig mark í staðinn.

  Mané kom svo inná fyrir Origi, og Milner í staðinn fyrir Firmino, en hvorugur þeirra náði að setja mark sitt á leikinn, og þetta er því í fyrsta skiptið í 4 ár sem Mané skorar ekki í opnunarleik liðsins.

  Umræðan eftir leik

  Það er klárlega gott að byrja með 3 stig og 4 mörk, en slæmt að hafa ekki náð að halda hreinu, og enn verra að missa Alisson í meiðsli. Í augnablikinu er staðan ekki alveg ljós, en Klopp sagði þó þetta:

  Það sem er jafnvel enn áhugaverðara er hvaða markvörður verður þá á bekknum. Síðast þegar ég vissi var Kelleher ennþá meiddur, þó svo að hann sé ekki talinn upp í Physioroom listanum. Líklega verður Milner bara kallaður til eins og venjulega ef Adrian (guð forði okkur frá því) tekur upp á því að meiðast líka.

  Síðan er ljóst að það er ekki ennþá búið að stilla vörnina saman að fullu. E.t.v. hefði vörnin verið þéttari með Matip í stað Gomez, en það virðist ljóst að Klopp sér Gomez sem meiri langtímakost, og er því tilbúinn til að gefa honum spilatíma þrátt fyrir að það geti þýtt ögn ótraustari vörn fyrir vikið í einhvern tíma. Þá á Trent líka ennþá til að vera ótraustur, og því megum við alveg búast við að lið muni sækja meira upp vinstri kantinn.

  Það er svo erfitt að velja mann leiksins, enda var liðið heilt yfir að spila vel. Persónulega myndi ég segja að Henderson og Origi geti báðir vel gert tilkall til nafnbótarinnar, sömuleiðis má færa rök fyrir að Firmino og jafnvel Salah gætu átt hana, en við skulum tilnefna Origi í þetta skiptið. Hann átti jú sendinguna sem skapaði fyrsta markið, og skoraði svo sjálfur annað. Aðrir kæmu vel til greina: Fabinho var sama jarðýtan á miðjunni eins og hann getur verið, Trent byrjaði að raða inn stoðsendingunum (5. leikurinn í röð í deildinni þar sem hann á stoðsendingu), og van Dijk var öflugur í vörninni eins og svo oft áður.

  Næst á dagskrá

  Það er stutt í næsta leik, því nú heldur liðið til Istanbul og spilar þar við Chelsea næstkomandi miðvikudag í UEFA Super Cup. Af einhverjum ástæðum spila Chelsea ekki fyrr en á sunnudaginn og fá því talsvert styttri hvíld, þó svo leikurinn á sunnudaginn verði nú sjálfsagt auðveldur. Það væri nú alveg gríðarlega skemmtilegt ef okkar menn kræktu í bikar í þeim leik. Síðan kemur leikur í deildinni gegn Southampton á þeirra heimavelli, og þar munum við mæta Danny Ings og félögum enda er salan á honum loksins gengin í gegn.

  En það er ágætt að byrja leiktíðina á því að skella sér á topp deildarinnar. Vonum að liðið endi þar líka!

  [...]
 • Liðið gegn Norwich

  Dýrð sé Guði í upphæðum, og friður á jörðu með mönnum, því enska úrvalsdeildin byrjar eftir klukkutíma, og það á Anfield!

  Liðið sem ætlar að sækja fyrstu 3 stigin af mörgum hefur verið kunngjört, og það er eftirfarandi:

  Bekkur: Adrian, Matip, Milner, Keita, Oxlade-Chamberlain, Shaqiri, Mané

  Mané er semsagt talinn hæfur til að byrja á bekknum, og það væri nú ekki leiðinlegt að sjá hann koma inná og skora í fjórða opnunarleiknum í röð. Sterkur bekkur annars, Lovren kemst sem dæmi ekki í 18 manna hóp.

  Minnum svo á umræðuna hér fyrir neðan eða með #kopis myllumerkinu á Twitter.

  KOMA SVO!!!

  [...]
 • Tímabilið hefst á Anfield!

  Á föstudaginn klukkan sjö hefst nýtt tímabil í ensku úrvalsdeildinni. Nýjar sögulínur, ný dramatík og endalaus skemmtun þó að veðbankarnir telji líklegast að aðalsögulínan verði sú sama og í fyrra, að rauðir og ljósbláir ferðist um landið og keppist um að missa af sem allra fæstum stigum í hatrammi titilbaráttu þar sem innbyrgðis viðureignir liðanna muni skipta mestu máli.

  Á morgun mæta gulu, grænu og glöðu kanarífuglarnir í Norwich sem eru komnir aftur upp í efstu deild eftir þriggja ára fjarveru. Þeir hafa verið mikið jójó lið á undanförnum árum en þeir eru að byrja sitt sjötta tímabil frá aldarmótum en þeir féllu síðast 2016 en aðeins tveir leikmenn eru eftir hjá félaginu sem spiluðu það tímabil. Tímabilið eftir að þeir féllu voru mikil vonbrigði en þeir enduðu í áttunda sæti deildarinnar og gátu hreinlega ekki varist, aðeins tvö lið fengu fleiri mörk á sig í deildinni en þeir. Þá var ákveðið að fara í miklar breytingar og var þjóðverjinn Daniel Farke það verkefni, en hann hafði áður verið þjálfari varaliðs Dortmund. Það var formula sem hafði áður virkað hjá Huddersfield sem réð David Wagner sem var einmitt maðurinn sem Farke tók við af hjá Dortmund. Það var einmitt Stuart Webber sem réð báða þessa menn til Englands en hann hefur tengsli við Liverpool þar sem hann var Director of Recruitment 2009-2012 og vann því bæði með Benítez og Dalglish.

  Þegar Farke var ráðinn var lögð áhersla þolinmæði og leyfa honum að koma með sína hugmyndafræði í liðið en hann lýsir henni svona

  “I don’t like my teams just to be compact and to react, I like to act. I like to have the ball – if I could choose I would have the ball for 90 minutes…To be successful you have to find a good balance between offence and defence, to work without the ball, but our main tactic is to work with the ball, to be in possession.”

  Þolinmæðina höfðu þeir því fyrsta tímabil Farke gekk ekki sem skildi og endaði liðið í fjórtánda sæti langt frá allri baráttu um að komast upp og í raun aðeins þrír leikmenn sem var talað um að hefðu átt gott tímabil, James Maddison, Josh Murphy og lánsmaðurinn Angus Gunn. Það voru því fáir sem bjuggust við miklu af Norwich þegar þeir seldu Maddison og Murphy og fengu ekki Angus Gunn aftur á láni þar sem hann var seldur til Southampton. Þeir dóu þó ekki ráðalausir og náðu í nokkra leikmenn í Bundersliga 2 ásamt því að fá Teemu Pukki frítt frá Bröndby og Emi Buendia kom hræódýrt frá Getafe til að leysa Maddison af hólmi.

  Það gekk heldur betur upp, liðið spilaði glimmrandi sóknarbolta skoraði tæplega hundrað mörk og sigraði Championship deildina með glæsibrag og varð Teemu Pukki markahæstur í deildinni með 29 mörk í 43 leikjum. Liðið spilar 4-2-3-1 og byggir spilið sitt mikið upp á bakvörðunum Aarons og Lewis ásamt tíunni Buendia en liðið reynir að spila sig upp völlinn og reiða þeir sig á miðvörðinn Ben Godfrey eða markmanninn Tim Krul til að koma spilinu af stað og getum við því búst við því að þeir verði pressaðir hátt og gefinn lítill tími á boltanum. Vandamál Norwich er hinsvegar það að þó þeir hafi sótt vel í Championship deildinni mæta þeir nú sterkari liðum og þeir fengu 57 mörk á sig í fyrra og gætu varla fengið verri leik til að byrja tímabilið á heldur en útileik á Anfield.

  Þeirra lið gæti litið svona út á morgun:

  Hægt er að ýta á myndina til að sjá hana betur!

  Þá að okkar mönnum, eftir slakt undirbúningstímabil mættu rauðliðar til þess að spila á Wembley gegn Man City og var hrikalega svekkjandi að Kyle Walker hetjulega björgun á loka mínútunni enda hefði verið gaman að hefja tímabilið með titli. Liverpool hefur aðeins einu sinni mætt Norwich í opnunarleik tímabilsins en það var 1976/77. Þá unnu Liverpool 1-0 sigur á Anfield en Liverpool urðu meistarar það tímabil, einu stigi á undan Manchester City vonum að það verði svipað uppá teningnum í ár.

  Mané er nýkominn tilbaka til æfinga og því er talið ólíklegt að hann byrji leikinn en vonandi fær hann að koma inná þar sem hann hefur skorað í í fyrsta leik síðustu þriggja ára en hann getur jafnað met Teddy Sheringham að skora í fjórum opnunnardagsleikjum í röð! Auk Mané er ólíklegt að Milner byrji leikinn þar sem hann er tæpur annars eru allir til staðar af aðalliðsmönnum fyrir utan Nathaniel Clyne sem er lengi frá en hefði líklega annars verið farinn frá félaginu.

  Í síðustu fimm leikjum gegn Norwich hefur Liverpool þrisvar skorað fimm mörk, síðast í 5-4 leik þar sem Adam Lallana skoraði sigurmark í uppbótatíma. Norwich stuðningsmenn eru hinsvegar alsælir að Luis Suarez er ekki að fara spila þennan leik á morgun þar sem hann skoraði 12 mörk í 6 leikjum gegn þeim gulu, en þó er líklega ekkert skárra að mæta Salah ef hann verður í sama gír og gegn City um síðustu helgi.

  Ég ætla að skjóta á að okkar lið verði svipað og í leiknum gegn City eina breytingin sem ég geri ráð fyrir er að Matip komi aftur inn í liðið fyrir Joe Gomez þó það sé alls ekkert víst.

  Mín spá

  Ég held að við fáum flugelda sýningu í byrjun móts. Alvöru statement sem segir City að við séum mættir frá fyrstu mínútu og við vinum 4-0 þar sem Salah setur þrennu og tekur strax forrustu í keppninni um markakóng deildarinnar og taki við af Suarez að hrella kanarífuglanna.

  YNWA

  [...]
Load More
Congratulations. You've reached the end of the internet.
Back to Top
Close