íslensk aðdáendasíða besta félags í heimi

íslensk aðdáendasíða besta félags í heimi

Latest stories

 • Rauðu djöflarnir kíkja í heimsókn

  Á sunnudaginn kl. 16 mun bresta á með einni af alræmdustu orrustum ensku knattspyrnunnar, þegar Rauði herinn fær Rauðu djöflana í heimsókn. Og nú ber svo við að í fyrsta skipti í …. talsverðan tíma ber þetta upp á þann tímapunkt að okkar menn eru einir í efsta sæti deildarinnar þegar leikvikan hefst. Við getum auðvitað vonað að Gylfi og félagar í Everton sjái til þess að sú staða verði ennþá uppi á pallborðinu þegar leikur hefst, en „don’t hold your breath“ eins og skáldið sagði.

  En hvenær gerðist það síðast að Liverpool var í efsta sæti deildarinnar í byrjun leikviku?

  Það myndi hafa verið í byrjun 12. leikviku tímabilið 2016-2017, en þegar sú leikvika hófst voru okkar menn með 26 stig, á meðan Chelsea var í öðru sæti deildarinnar með 25 stig. Síðasti leikur á undan var 6-1 sigur gegn Watford, og með því hirti Liverpool toppsætið af Manchester City. Þetta var 6. nóvember 2016. Eins og glöggir lesendur hafa áttað sig á, þá féll Liverpool af toppnum í næstu umferð (því annars hefði þetta ekki verið síðasta skiptið þegar liðið var á toppnum!). Reyndar kom fjögurra leikja hrina eftir Watford leikinn þar sem aðeins einn leikur vannst (þar á meðal alræmt 4-3 tap fyrir Bournemouth), síðan kláraði liðið árið með stæl, endaði á því að vinna City 1-0 á heimavelli, og lauk árinu í 2. sæti. Svo tók við hræðilegt tímabil þar sem liðið vann ekki leik í rúman mánuð, eða þar til 11. febrúar þegar það tókst loksins að innbyrða sigur, og þá gegn Spurs, en var þá hrunið niður í 4. sæti deildarinnar og sá ekki til sólar í deildinni það sem eftir lifði tímabili (þetta var semsagt tímabilið þar sem Klopp lærði að það verður að rótera hópnum til að lifa þessa deild af). En Chelsea létu forystuna hins vegar aldrei af hendi eftir 12. leikviku, og stóðu uppi með pálmann í höndunum um vorið. Næsta tímabil ætti svo að vera okkur í fersku minni, þar sem City einfaldlega hirtu efsta sætið í 5. leikviku, og litu ekki til baka það sem eftir lifði tímabils. Fyrstu 4 umferðirnar var það hins vegar hitt liðið frá Manchester sem var á toppnum, og það er því síðast þá sem United menn vermdu það eftirsótta sæti.

  Hvenær ætli Liverpool hafi þá síðast mætt United, og setið í toppsætinu eftir leik? Það myndi væntanlega hafa verið haustið 2013, þegar Daniel Sturridge sá til þess að við hirtum 1-0 sigur, þriðja leikinn í röð, með marki á 4. mínútu eftir skalla frá Daniel Agger.

  Og hvenær skyldi það svo hafa gerst síðast að Liverpool mætir United mönnum á Anfield, sitjandi í efsta sætinu í upphafi leikviku?

  Jú það ku hafa verið þann 16. september árið 1990, þegar okkar menn unnu United 4-0, með þrennu frá Peter Beardsley, auk þess sem John Barnes setti eitt til viðbótar.

  Það er því löngu orðið tímabært að endurtaka leikinn.

  Knattspyrnustjórar liðanna í leiknum 1990 voru þeir Kenny Dalglish og Alex Ferguson. Núna á sunnudaginn verða það þeir Jürgen Klopp og Jose Mourinho sem mætast. Hvernig skyldi svo hafa gengið í viðureignum þeirra síðustu árin?

  Vissulega hefur gengi Liverpool gegn United síðustu árin ekki verið neitt til að hrópa húrra yfir. Klopp hefur engu að síður tekist að vinna United með Liverpool, þó ekki í deildinni. Það gerðist þann 10. mars 2016 í 16. liða úrslitum Evrópudeildarinnar, þegar United var undir stjórn Louis van Gaal.

  Þá hefur Klopp unnið Mourinho í ensku deildinni, en það gerðist síðast þegar lið Liverpool undir stjórn Klopp heimsótti Chelsea á Brúnni á fyrstu leiktíð Klopp. Það sem meira er, að þá var þetta fyrsti sigur Klopp með Liverpool í deildinni, en liðið hafði áður sigrað Bournemouth í deildarbikarnum. Klopp og Mourinho hafa svo auðvitað mæst áður á öðrum vettvangi, þ.e. þegar þeir voru hjá Real og Dortmund hér í denn.

  Nú og svo má auðvitað ekki gleyma því að það er reyndar ekki lengra síðan en í sumar að Liverpool vann United, svosem í æfingaleik á undirbúningstímabilinu, en sigur samt. Það var einmitt í þeim leik sem Shaqiri nokkur opnaði markareikning sinn hjá félaginu með þessu líka ágæta marki eftir stoðsendingu frá Woodburn.

  Svo það er ekki eins og að Klopp viti ekki hvernig eigi að sigra United eða Móra. Það er bara þetta litla smáatriði með að koma því í framkvæmd núna á sunnudaginn.

  Rauðu djöflarnir

  United menn koma inn í þennan leik eftir góðan sigur á Fulham í deildinni, en töpuðu svo klaufalega gegn Valencia í meistaradeildinni í vikunni og misstu þar með af toppsætinu í deildinni riðlinum, svona fyrst RealJuventus tóku upp á því að tapa fyrir Young Boys. #MourinhoOut vagninn er alveg ennþá á talsverðri siglingu, en það eru kannski ekki alveg jafn margir farþegar á þeim vagni eins og oft áður í haust. Það er þó ljóst að samkomulagið innan herbúða United er brothætt, enn er talað um að Mourinho og Pogba komi ekki vel saman, og talað um að það gæti hreinlega verið betra fyrir þá að sleppa honum í byrjunarliðinu. Einnig er orðrómur um að Valencia vilji fara frá liðinu núna í janúarglugganum. Það eru nokkrir leikmenn sem voru meiddir í vikunni og fóru ekki með til Spánar: Smalling, Darmian, Dalot, Sanches, Lindelöf, Martial og Shaw, en samkvæmt Móra þá eru einhverjir þeirra farnir að æfa og gætu því sést í leiknum. Annars nenni ég ekki að eyða of mikilli orku í að spá í þetta lið þeirra. Snúum okkur að lærisveinum Klopp.

  Okkar menn

  Leikurinn kemur í kjölfar þess að Liverpool er búið að tryggja sig inn í 16 liða úrslit Meistaradeildarinnar, sem hlýtur nú að teljast talsverður léttir fyrir alla hlutaðeigandi. Engu að síður er ekki hægt að segja að áhyggjustigið hjá Liverpool aðdáendum sé neitt sérstaklega lágt, því meiðsladraugurinn er aftur farinn að láta á sér kræla. Staðan á Gomez var auðvitað öllum kunn, en Napoli leikurinn reyndist nokkuð dýr því bæði Joel Matip og Trent Alexander-Arnold meiddust í honum, Matip verður frá fram í febrúar og Trent verður frá í þessum leik hið minnsta, vafasamt að hann nái Wolves leiknum um næstu helgi. Það er því orðið ansi fáliðað í vörninni, og þá sérstaklega í hægri bakverði. Við eigum auðvitað eitt stykki Nathaniel Clyne, en hann hefur spilað heila 3 leiki síðan í maí 2015, og það hafa satt að segja verið stór spurningamerki yfir hans ferli síðasta árið eða svo. Alls konar kjaftasögur hafa verið að ganga um ástæður þess að hann er ekki í byrjunarliðinu, og er á löngum köflum ekki einusinni á bekknum. Klopp hefur svosem nokkra möguleika í stöðunni. Hann gæti haft Milner áfram í hægri bak eins og hann var í sínum 500. leik í deildinni, nú og svo hefur Fabinho leikið í bakverði með landsliði Brasilíu og er því ekki ókunnugur þessari stöðu. Þá bíður Rafa Camacho í startholunum, en hann hefur þótt standa sig vel á síðustu mánuðum, bæði með U23 sem og á æfingum með aðalliðinu. Nú og svo til að krydda stöðuna örlítið, þá fréttist af því að unglambið Ki-Jana Hoever hefði sést á æfingu með aðalliðinu í vikunni, en þessi 16 ára pjakkur hefur víst verið að standa sig vel með yngri liðunum frá því að hann kom til Liverpool í sumar frá Ajax. Fyrst var hann settur í U18 liðið, og svo á síðustu vikum hefur hann fengið tækifæri með U23. Hann er hávaxinn og sterkbyggður, og þykir minna að mörgu leyti á Virgil van Dijk á velli. Það kæmi nú ákaflega á óvart ef annar hvor þeirra sæust í liðinu á sunnudaginn, en undirritaður yrði ekkert svakalega hissa ef nafn Camacho sæist á bekknum.

  Staðan á miðvörðunum er kannski örlítið betri, þar sem Lovren og van Dijk eru báðir leikfærir, en þó er það þannig að fyrst Gomez er ekki væntanlegur fyrr en í lok janúar, þá er ljóst að það verður erfitt að ætla að spila þeim tveim í hverjum einasta leik næsta einn og hálfa mánuðinn. Fabinho gæti alveg dottið inn í þessa stöðu, Wijnaldum hefur sömuleiðis sést þarna stöku sinnum, nú og svo erum við með nokkur unglömb í unglingaliðunum. Af þeim er Conor Masterson kannski líklegastur til að sjást á bekk á næstu vikum, en hann var einmitt þar í einum leiknum gegn City í vor þegar miðvarðarstaðan var hvað þynnst mönnuð. Þá þótti Nat Phillips standa sig vel á undirbúningstímabilinu í sumar, en hefur hins vegar verið meiddur á síðustu vikum, og hefur því lítið spilað með U23 núna í haust.

  Það er búið að gefa út „Provisional squad“ fyrir leikinn á sunnudaginn, og í þeim hóp eru Camacho, Phillips og Masterson allir nefndir, svo hver veit nema einhver þeirra sjáist á bekk á sunnudaginn.

  Af öllu framansögðu skulum við skjóta á að uppstillingin verði eftirfarandi:

  Alisson

  Milner – Lovren – Virgil – Robertson

  Wijnaldum – Henderson – Keita

  Salah – Firmino – Mané

  Bekkur: Mignolet, Moreno, Camacho, Fabinho, Shaqiri, Sturridge, Origi

  Við sófasérfræðingarnir gerum þá sjálfsögðu kröfu að lengsta taplausa byrjun Liverpool í deildinni haldi áfram. Við vitum að liðið okkar á að vera alveg nógu gott til að vinna þetta United lið, og þurfum ekki annað en að líta á mörk fengin á sig til þess, því á meðan Alisson hefur þurft að hirða tuðruna 6 sinnum úr netinu hefur De Gea þurft að gera slíkt hið sama 26 sinnum á leiktíðinni. Við vitum líka að Móra leiðist ekkert að leggja rútunni, og finnst líklega fátt skemmtilegra en að þvælast fyrir Liverpool, hvað þá að stöðva sigurgöngu. Það er því nettur skjálfti hjá undirrituðum fyrir þessum leik, en líklega þýðir ekkert annað en að treysta Klopp, sleppa efasemdunum og trúa á liðið, eða eins og Klopp orðaði það: „we need to change from doubters into believers“.

  Spáum 2-0 sigri með mörkum frá Wijnaldum og Milner úr víti.

  KOMA SVO!

 • Toppbaráttan

  Þegar spilað er svona þétt gefst jafnan ekki mikill tími til að fjalla um annað en síðasta leik og þann næsta. Núna er smá svigrúm og í tilefni af því að við eigum United næst er ekki úr vegi að skoða aðeins stöðuna á toppliðunum fyrir jólatörnina.

  Man City

  Rétt eins og maður óttaðist ætlar Man City ekkert að gefa eftir í vetur þó þeir hafi vissulega tapað síðasta deildarleik. Eftir jafnteflið á Anfield unnu þeir sjö leiki í röð og eru núna stigi á eftir Liverpool sem hefur aldrei byrjað tímabil betur í sögu félagsins. Þeir voru hinsvegar með fimm stigum meira á þessu stigi á síðasta tímabili sem var jöfnun bestu byrjun sögunnar. Þetta lið er engu að síður ekki ósigrandi og ef maður ber saman hópinn hjá Liverpool og City skilur ekki svo mikið að.

  (meira…)

 • Gullkastið – Álíka þægilegt og að skíta gaddavír

  Liverpool fann mojo-ið aftur í þessari viku og tryggði sér farseðilinn í 16-liða úrslit Meistaradeildarinnar. Burnley og Bournemouth voru þar að auki afgreidd sannfærandi og því létt yfir mönnum. Það er svo risaslagur um næstu helgi og kominn tími á sigur gegn djöflunum. Ingimar Bjarni nýjasti meðlimur Kop.is var með okkur að þessu sinni.

  00:00 – Hvað viljum við næst?
  13:00 – Okkar Peter Schmeichel
  19:40 – Þetta er alvöru Liverpool
  27:30 – Team of Carraghers miðja
  38:20 – Salah stimplar sig inn
  43:00 – Meistarar í vor?
  48:00 – Klopp vs Mourinho
  58:10 – Sameiginlegt lið Liverpool og United
  01:06:10 – Spá

  Minnum einnig á heimsókn Steina og Magga í Miðjuna, hlaðvarpsþátt Fótbolta.net

  Stjórnandi: Einar Matthías
  Viðmælendur: Maggi, SSteinn og Ingimar Bjarni

  MP4: Þáttur 218

 • Kvennaliðið mætir Reading – aftur

  Þó svo að kvennaliðið sé komið í frí fram yfir áramót í deildinni, þá eru eftir leikir í Continental Cup. Fyrirkomulagið þar virðist vera þannig að liðum sé skipt upp eftir landshluta, þannig leika okkar konur í norðurriðli nr. 2, ásamt Reading, Manchester United, Everton og Durham.

  Í kvöld mun liðið semsagt heimsækja Reading, en þessi tvö lið léku einmitt um síðustu helgi í deildinni.

  Það er greinilega smá „rotation“ í gangi hjá Vicky, því Jesse Clarke og Anke Preuss eru t.d. á bekknum. Þá virðist planið vera að stilla upp í 3-4-3, því Leandra Little er bakvörður að upplagi, rétt eins og Sophie Bradley-Auckland og Jasmine Matthews. Liðinu er stillt upp svona:

  Kitching

  Little – Bradley-Auckland – Matthews

  C.Murray – Coombs – Rodgers – Robe

  Linnett – Sweetman-Kirk – Daniels

  Bekkur: Preuss, Roberts, Fahey, Thomas, S.Murray, Clarke

  Ef við rekumst á link á leikinn þá verður honum smellt hér inn í athugasemdum, en annars verður svo færslan uppfærð þegar leik lýkur.


  Venjulegum leiktíma lauk með jafntefli, 1-1, þar sem Courtney Sweetman-Kirk var enn og aftur á skotskónum gegn Reading, en hún jafnaði leikinn tveim mínútum eftir að Reading náði forystunni.

  Fyrirkomulagið í þessari bikarkeppni er með þeim hætti að ef venjulegum leiktíma lýkur með jafntefli, þá fara liðin í vítaspyrnukeppni, og sigurvegari þeirrar keppni hlýtur 2 stig.

  Það voru okkar konur sem höfðu betur í vítakeppninni, endanleg úrslit 6-5. Fran Kitching varði þriðju spyrnu Reading, en allar spyrnur Liverpool höfnuðu í netinu. Það var fyrirliðinn Sophie Bradley-Auckland sem skoraði úr síðustu spyrnunni.

  Við megum svo eiga von á öðrum leik í Continental Cup fyrir áramót, en leikur liðsins við Everton sem var frestað á dögunum er væntanlegur núna fyrir jól.

 • Liverpool 1-0 Napoli

  Mörkin

  1-0   Mohamed Salah 34.mín

  Leikurinn

  Sem unglamb ég aftur sný
  úr orlofsferð – til Napolí

  Úrslitaleikur gegn heiðbláa liðinu frá Suður-Ítalíu hófst með látum hjá rauða verkamannaliðinu í Norður-Englandi. Hraðar sóknir og klassískur enskur úrvalsdeildar-kraftur var keyrður upp á yfirgnæfandi Anfield sem hafði tekið framlengdu útgáfuna af You Never Walk Alone fyrir leik. Meðbyrinn úr stúkunni skilaði sér í miklum krafti inni á vellinum og strax á 7.mínútu átti skoski fyrirliðinn Robertson frábæra sendingu á galopinn Salah en móttakan brást Egyptanum í það skiptið og færið fór forgörðum. Að því sögðu þá voru gestirnir líflegir í pressu og snöggir í sóknaraðgerðum sem voru sífelld ógn. Hinn hárprúði Hamsik hamraði hnitmiðað hnoðskot hárfínt yfir mark heimamanna á 9.mín og hörkuleikur í uppsiglingu.

  Á 13.mínútu var umdeilt atvik þegar að meistari Virgill tæklaði boltann og í kjölfarið legginn á Mertens. Löggilt tækling fyrir mörgum en dómari leiksins úrskurðaði brot og fylgdi því eftir með gulu spjaldi sem mun þýða bann í næsta Evrópu-leik varnartröllsins hollenska. Liverpool héldu hraðanum uppi að sið enskra og fyrir vikið urðu ítalskir móðir og féllu til baka í varnarstellingar. Á 23.mín var falleg sóknarfærsla kláruð glæsilega með vinstri fæti Mané en Senegalinn var réttilega dæmdur rangstæður.

  Hæ mambó – mambó Ítalíanó

  Liverpool höfðu þó fundið blóðlykt í vatninu á suðurströnd Ítalíu og héldu áfram að sækja látlaust á ljósbláa vörnina. Uppskeran var verðskulduð og sanngjörn þegar að fótboltakóngur egypskra smellti í snilldartilþrif sem að hafa orðið tíð forréttindi fyrir vallargesti á Anfield og víðar. Salah fær boltann hægra megin í teignum, sýnir snerpu og styrk umfram líkamsburð, dansar í átt að marki og klobbar hin kólumbíska Ospina í markinu. Snilldartilþrif sem Anfield og Púlarar allra landa fögnuðu í algleymi!

  Napoli skiptu í ögn meiri sóknargír eftir þetta mark og ógnuðu með einu færi eftir þetta en Liverpool stóðu vaktina vel. Japl, juml og fuður. Hálfleikur.

  Gettu betur góða, gamall bóndi úr Þingó

  1-0 í hálfleik

  Það var klárt að ekkert kæruleysi var boðað í klefanum hjá Klopp í hálfleik og klassískur Haukur Morthens klárlega á fóninum. Liverpool mættu reiðubúnir til leiks og héldu áfram að sækja á Napoli. Á 52.mín átti Salah gott færi en náði ekki að nýta sér það. Napoli tóku smá syrpu í sóknartilþrifum en hættan var undir meðallagi. Hraðinn var ekki þeim að skapi og Liverpool sífelld ógnun í skyndisóknum. Dómarinn var ekki vinsælasti maður vallarins og ýmsar ákvarðanir orkuðu tvímælis en stóru ákvarðanirnar stóðust skoðun.

  Á 76. mínútu fékk Salah gott tækifæri í teignum til að auka markamuninn en Ospina gerði vel í að verja og einni ögurstundu síðar átti Mané annað færi til að færa Liverpool nær öryggi. En með stöðuna enn 1-0 var hættan á einu marki til að senda úrslitaleiksliðið úr Kænugarði úr leik enn til staðar. Liverpool voru að spila frábærlega í skyndisóknum og fengu tvö gyllt tækifæri til að safna í markasarpinn en Mané hafði gleymt að klæðast skónum hans Hemma Gunn þannig að enn var leikurinn á hnífsegg.

  Svo ástarheitó er ekki nein í Mývatnssveitó
  og heyrðu mig vantar kaupakonó
  kannski hef ég vonó

  Og auðvitað er það þannig að þegar að allt er undir á Evrópukvöldi á Anfield, klukkan að tifa letilega að leikslokum að þá kemur úrslitaatvikið. Venjulegum leiktíma og tveimur mínútum betur fær Milik sendingu í teiginn, glæsileg móttaka og boltinn lagður í fast skot í dauðafæri í vítateignum. Mætir á svæðið bjargvætturinn Laufey í formi næstdýrasta markvarðar heimsins, fullkomin hárgæsla og enn fullkomnari markvarsla sem er heimsmetsins virði í peningum og tilfinningum. Magnað móment hjá Alisson sem verður lengi í minnum haft. Á lokamínútum leiksins tókst svo Mané að toppa sitt hat-trick af vannýttum færum en á endanum fagnaði Anfieldi einni röddu, innan vallar og um allan heim við viðtækin.

  1-0 í leikslok og Liverpool áfram í 16-liða úrslit Meistaradeildarinnar

  Bestu leikmenn Liverpool

  Heilt yfir var liðsheildin æðisleg. Engin var að bregðast sínum skyldum og allir sem einn gáfu allt fyrir málstaðinn. Við hlupum meira en hinir ítölsku, börðumst um alla bolta, létum finna fyrir okkur og sköpuðum fleiri færi. Salah var frábær og hefði átt að fá víti ef hann væri ekki of heiðarlegur til að vilja ekki henda sér niður. Virgill var magnaður og Matip stóð sig þrælvel við hans hlið. Robertson var enn og aftur að eiga æðislegan skoskan sjálfstæðisdag og ef hann verður ekki aðlaður að leikferli loknum þá skal ég hound heita.

  En í ljósi leiksins og hvernig atvik þróuðust þá ætla ég að meta gullmarkvörsluna hans Alisson sem lykilatriði leiksins og dæma hann sem mann leiksins. Hann hefur verið magnaður í síðustu leikjum með afgerandi afburðum og í kvöld var björgun á síðustu stundu það sem þurfti til að koma Liverpool áfram í 16 liða úrslitin.

  Hó hó hó – í haust er hætti slátt
  og datt of kátt í réttó
  dans við stígum sæl og þéttó

  Vondur dagur

  Enginn vondur dagur nema fyrir lið á suðurhluta Ítalíu með vonir og væntingar. Við höfum bara einföld skilaboð til þeirra og á þeirra móðurmáli:

  Siamo a Liverpool. Questo è Anfield. Ricorda per sempre.

  Tölfræðin

  Liverpool hefur skorað fleiri mörk gegn Alisson á þessu ári heldur en öll úrvalsdeildin samanlögð (ekki Evróputengt en vel þess virði að nefna).

  Umræðan

  Algleymi verður í umræðunni. Sá töffaraskapur að vinna ítalskt lið á hinum al-ítölsku úrslitum 1-0. Það setur í samhengi það skipulag og þann stöðugleika sem hefur verið borinn á borð fyrir okkur lukkulegu Púlara varðandi varnarleik frá komu VVD síðustu áramót. Í dag er eins marks forysta örugg í höndum þessarar grjóthörðu varnar og skiptir þá engu hverjum við erum að mæta. Megi þessi varnarmúr lengi við vara.

  Og já, í umræðunni gæti verið 3 stig í næsta leik um helgina. Má alveg ræða ýmislegt því tengdu en fyrir mér eru það bara 3 stig óháð andstæðingi. Þegar þú ert efstur og ósigraður þá er það bara þannig. Góðar stundir.

  Ef þú heldur heim með mér
  þá heila drápu kveð ég þér

  YNWA

Back to Top

Ad Blocker Detected!

Advertisements fund this website. Please disable your adblocking software or whitelist our website.
Thank You!