Nottingham Forest á morgun (8 liða úrslit FA bikarsins)

Það er stutt stórra högga á milli. Það eru ekki nema þrjár vikur síðan Liverpool lagði Chelsea í úrslitaleik Carabao bikarsins og hefur síðan þá unnið Norwich í FA bikarnum, unnið þrjá deildarleiki ásamt því að komast áfram í 8 liða úrslit CL eftir tap gegn Inter.

Leikurinn gegn Nottingham Forest á morgun verður síðasti leikurinn í þessari törn, a.m.k í bili þar sem við taka landsleikir (sem fáir nenna að horfa á en æðstu menn vilja fjölga) áður en við göngum inn í RISASTÓRAN apríl mánuð þar sem bókstaflega allt er undir. Leikurinn fer fram á City Ground í Notthingham og hefst á fremur óhefðbundnum tíma eða kl. 18.

Sagan og formið

Það er í raun hægt að skrifa masters ritgerð um sögu þessara liða. Ekki bara sú staðreynd að þetta séu sögufræg lið heldur er þetta einnig í fyrsta skipti sem þessi lið mætast í FA bikarnum síðan 1989. Við vitum öll hvernig sá leikur í apríl mánuði endaði. Það á enginn að lenda í því fara á knattspyrnuleik og snúa ekki aftur. Þessi atburður er hluti af DNA félagsins og höfum við reynt að gera honum góð skil í gegnum árin – þó þeir séu komnir til ára sinna þá mæli ég eindregið með pistlum Einars og Magga sem fjalla ítarlega um 15 apríl 1989 og þau áhrif sem þessi dagur hafði.

Það gefur auga leið að þar sem þetta er í fyrsta skipti sem þessi lið mætast í bikarnum í yfir 30 ár að það er komið talsvert síðan þau leiddu saman hesta sína síðast, enda Nottingham Forest ekki verið í úrvalsdeildinni síðan tímabilið 1998/1999. Öll tölfræði er því ómarktæk, enda voru það leikmenn á borð við David James, Carra, McManaman, Fowler og Owen sem hófu leikinn síðast þegar þessi lið mættust á City Ground í apríl 1999.

Það verður ekki sagt að Nottingham Forest hafi farið auðveldu leiðina að þessum 8 liða úrslitum. Þeir byrjuðu á því að vinna Arsenal 1-0 á heimavelli í þriðju umferð áður en þeir rasskelltu Leicester 4-1, aftur á heimavelli. Þeir sluppu svo við úrvalsdeildarlið í 16 liða úrslitum þegar þeir fengu aftur heimaleik, að þessu sinni gegn Huddersfield Town þar sem þeir tryggðu sér sæti í 8 liða úrslitum með 2-1 sigri fyrr í þessum mánuði.

Leið okkar manna hefur verið aðeins auðveldari, aldrei eins og vant! Líkt og Nottingham Forest þá höfum við fenguð alla þrjá leikina hingað til á heimavelli en andstæðingarnir hafa verið Shrewsbury Town (4-1), Cardiff City (3-1) og Norwich (2-1). Við höfum því getað hvílt lykilleikmenn hingað til en það verður ekki jafn auðvelt á morgun, enda hörkuandstæðingur og sæti í undanúrslitum í boði.

Nottingham Forest

Heimamenn verða án Steve Coop, McKenna og Grabban (sem skoraði sigurmarkið gegn Arsenal) í þessum leik. Aðrir sýnist mér aðrir vera heilir og alveg ljóst að það verður alvöru stemmning á vellinum. Annars ætla ég ekki að þykjast þekkja mikið til liðsins eða leikmanna þess. Ég veit að þeir eru ennþá í hörku keppni um umspilssæti í Championsship en það er ekki mikið meira en það.

Heimamenn tilkynntu það fyrr í dag að 97 sæti munu vera auð á meðan leik stendur til að heiðra minningu þeirra sem létust í leik þessara liða í apríl 1989. Virkilega vel gert.

 

Liverpool

Okkar menn virðast ekki ná nema örfáum dögum þar sem allur hópurinn er saman og við hhöfum úr öllum leikmönnum að velja. Klopp tilkynnti á fréttamannafundinum að Trent yrði frá í nokkrar vikur (tognun) og missir því af landsleikjunum sem eru handan við hornið. Spurning hvort hann verði orðin klár fyrir heimsóknina á Etihad 10. apríl. Salah er einnig tæpur fyrir morgundaginn – ég myndi ekki búast við honum enda búinn að spila fáránlega margar mínútur á árinu eftir þónokkrar framlengingar á AFCON og má alveg við hvíldinni m.v. það prógram sem framundan er og það (ó)stuð sem hefur verið á honum síðustu leiki.

Að því sögðu, ég ætla að skjóta á að Klopp stilli upp sterku liði þar sem að Gomez, Konate, Tsimikas, Keita, Jones og Firmino komi inn í liðið. Þetta yrði þá s.a. svona:

Alisson

Gomez – Konate – Virgil – Tsimikas

Keita – Fabinho – Jones

Jota – Firmino – Diaz

Ég hvet menn svo til þess að hlusta á podkastið frá því á mánudag þar sem m.a. var hitað upp fyrir leikinn.

Spá

Ég er nokkuð bjartsýnn. Að sama skapi þá þekkir maður orðið Liverpool – það skiptir litlu máli hverjir eru að spila eða hverir andstæðingarnir eru. Okkur tekst alveg ótrúlega oft að gera þetta erfiðara en það þarf að vera.

Ég ætla að skjóta á að þetta verði hörkuleikur þar sem við fáum á okkur 2 mörk (og lendum undir) en stöndum að lokum uppi sem sigurvegari, 2-3 í hörku leik.

Þar til næst,

YNWA

Benfica í 8 liða úrslitum – miðar komnir í sölu!

Kvennaliðið mætir Charlton (aftur)