Kvennaliðið mætir Charlton (aftur)

UPPFÆRT: leik lokið með svekkjandi 0-0 jafntefli. Þessi leikur var að mörgu leyti svipaður leiknum um síðustu helgi, enda Charlton ólseigt lið, en munurinn er sá að þá tókst liðinu að finna sigurmark á lokakaflanum en það tókst ekki núna. Það var Leanne Kiernan sem komst næst því þegar hún fékk frítt skot eftir gott upphlaup hjá Katie Stengel, en markvörður Charlton varði meistaralega. Það jákvæða við leikinn er þó að Rachel Laws heldur áfram að lengja listann af leikjum þar sem hún heldur hreinu.

Munurinn á toppi deildarinnar jókst við þetta í 8 stig, en Bristol geta minnkað þann mun niður í 5 stig ef þær vinna leikinn sem þær eiga inni.

Um næstu helgi fá svo stelpurnar Durham í heimsókn, og þar á eftir kemur svo leikur sem hugsanlega gæti ráðið úrslitum, því þá heimsækir liðið Bristol.


Það er tvöfaldur fótboltadagur hjá okkur í dag, strákarnir okkar mæta jú Forest á eftir, en í millitíðinni spila stelpurnar okkar í deildinni, leikurinn er kl. 14 og fer fram á Prenton Park.

Núna eru fimm leikir eftir hjá stelpunum okkar, liðið er enn með 7 stiga forystu á toppnum, og sú forysta getur farið í 10 stig í dag því Bristol spilar ekki fyrr en um næstu helgi.

Eins og komið hefur fram eru andstæðingarnir í dag þeir sömu og um síðustu helgi, því hér er um frestaðan leik að ræða sem átti að fara fram í desember.

Það er aðeins breytt lið sem byrjar leikinn á eftir:

Laws

Roberts – Matthews – Campbell

Wardlaw – Furness – Humphrey – Hinds

Daniels – Stengel – Lawley

Bekkur: Clarke, Moore, Silcock, Parry, Kearns, Holland, Bailey, Hodson, Kiernan

Það lítur út fyrir að fyrirliðinn Niamh Fahey sé eitthvað meidd, því hún er ekki einusinni á bekk. Þá er Leighanne Robe ennþá frá, en Matt Beard talaði um það að endurhæfingin væri á undan áætlun, enda væri hún “built like an ox”. Ekki er alveg ljóst hvort hann var að tala um Alex Oxlade-Chamberlain eða hefðbundinn uxa, en ég er viss um að það er akkúrat svona sem allar konur dreymir um að láta lýsa sér.

Eins kemur ögn á óvart að markaskorarinn Leanne Kiernan byrji á bekk, en hugsanlega er planið að kveikja þannig aftur í eldinum hjá henni sem hafði aðeins dofnað á síðustu vikum hvað varðar markaskorun.

Melissa Lawley er annars að spila sinn 50. deildarleik fyrir félagið, og Taylor Hinds er að spila sinn 50. leik fyrir félagið í öllum keppnum.

Leikurinn verður sýndur á öllum helstu streymisveitum klúbbsins, og við uppfærum færsluna með úrslitum og stöðu síðar í dag.

Ein athugasemd

Nottingham Forest á morgun (8 liða úrslit FA bikarsins)

Liðið gegn Forest