Opinn þráður – Spennandi sóknarlína, vesen í vörninni.

Tökum að handahófi helstu punkta tengdum Liverpool, það var leikur í nótt og ennþá er töluvert að gera á leikmannamarkaðnum, mest þó hvað varðar leikmenn á útleið í tilviki okkar manna.

Divock Origi

Ég var bara hálfpartinn að grínast í nótt þegar ég sagði að byrjunarliðið fyrir mér væri Origi og 10 aðrir. Hann kom inná í hálfleik í gegn AC Milan og gjörbreytti leiknum. Jurgen Klopp bara getur varla verið að leggja tímabilið upp með Daniel Sturridge sem sinn mikilvægasta leikmann, þú byggir liðið upp í kringum þá sem skora mörkin og því miður er ekki hægt að leggja svo mikið undir á Sturridge. Auðvitað frábært að hafa Sturridge þegar hann er heill og gríðarlegur bónus fyrir liðið, hvað þá ef þeir geta spilað saman frammi, en ef Klopp hyggst leggja upp með bara einn sóknarmann held ég að Origi sé framtíðin, jafnvel núna strax á þessu tímabili. Origi hefur snerpuna og rúmlega það sem Sturridge hafði á sama aldri en hefur aðeins tapað núna í kjölfar meiðslavandræða sem hafa plagað hann alla tíð.

Jordan Henderson

Emre Can spilaði ekkert í gær og í hans stað spilaði Henderson í því hlutverki sem líklegt er að Can gegni í vetur, aftasti miðjumaður. Fyrirliðinn spilaði 75 mínútur og sagði eftir leik að hann væri meiðslalaus og í besta formi sem hann hefði verið í langan tíma. Hann var sprækur í leiknum og ef hann meiðist ekki aftur er þetta bókstaflega eins og nýr leikmaður fyrir Klopp. Lofaði góðu í gær og maður þakkaði bara Roy Hodgson fyrir að hafa frekar treyst á Jack Wilshere fyrr í sumar.

Adam Lallana

Wijnaldum og Mané hafa gert það að verkum að Lallana hefur nánast gleymst í sumar. Hann spilaði á miðjunni í gær og ef hann á framtíð hjá Klopp er líklegast hún verði þar, a.m.k. á þessu tímabili. Af þremeningunum Lallana, Coutinho og Firmino er líklegast að Lallana fái hlutverk aftar á vellinum, eðlilega þar sem þetta er leikmaður sem er mjög vinnusamur, góður á boltann en skorar ekki nóg. Hann gæti svínvirkað á miðjunni með marga hraða/góða leikmenn fyrir framan sig.

James Milner

Mest óspennandi fréttir vikunnar voru á þá leið að Liverpool myndi mögulega ekki kaupa nýjan bakvörð heldur treysta frekar á Milner í því hlutverki. Hann byrjaði strax í gær sem vinstri bakvörður og því kannski eitthvað á bakvið þetta. Fyrir mér er þetta metnaðarleysi og mjög léleg vinnubrögð hjá félaginu, það getur ekki verið svona flókið að kaupa bakvörð sem veitir t.d. Moreno samkeppni. Fyrir utan að ef Milner á að vera back-up bakvörður ætti það mikið frekar að vera hægra megin enda er sú staða svipað þunnskipuð. Lýst í raun betur á það en að hafa hann sem byrjunarliðsmann á miðjunni.

Jon Flanagan samþykki núna um helgina að fara á láni til Burnley á þessu tímabili sem er gott mál. Fyrir var búið að selja Brad Smith (og losna við Enrique). Joe Gomez meiddist aftur, það er 19 ára miðvörður að upplagi sem hefur verið meiddur í eitt ár þegar hann kemur aftur. Það er því fáránlegt að kaupa engan í staðin og ætla frekar að nota einn miðjumanninn sem back up. Mun ekki kaupa þetta fyrr en 1.sept.

Sheyi Ojo

Sumarið 2013 var Raheem Sterling (´94 módel) langmesta efnið hjá Liverpool, fyrsta mögulega stórstjarnan úr unglingastarfingu í mörg ár. Þá var einnig fylgst grant með Jordon Ibe (´95 módel) sem var engu minna efni og enn neðar Sheyi Ojo (´97 módel). Þrír leikmenn sem strax var nokkuð ljóst að myndu allir verða Úrvalsdeildarleikmenn, allir efni í stjörnur.

Við þekkjum öll hvernig fór með Sterling en hann spilaði 17-20 ára 129 leiki fyrir Liverpool og fór fyrir £49m. Það var (allt of) mikil ábyrgð sett á Sterling mjög ungan en þó ekki eins mikil og sett var á Jordon Ibe. Hann átti að leysa Sterling af í fyrra og var bókstaflega eini kantmaður liðsins. Eins kom Ibe inn í Liverpool lið í meiri vandræðum en liðið sem Sterling kom inn í með Suarez fremstan í flokki. Ibe spilaði samt alveg 58 leiki fyrir Liverpool á aldrinum 17-20 ára og þar af 41 deildarleik. Hann var seldur fyrir £15m og verður pottþétt lykilmaður í Úrvalsdeildarliði í vetur.

Ojo er tveimur árum yngri en Ibe og virðist vera koma inn í betra Liverpool lið en Ibe. Kostir og gallar auðvitað því með því fær hann ekki eins mikla ábyrgð ungur en fær á móti meiri tíma til að aðlagast. Hann var frábær í gær, rétt eins og Ibe var fyrir 12 mánuðum en ég sé ekki fyrir mér að Ojo komi við sögu í 41 leik, þar af 27 deildarleikjum eins og Ibe síðasta vetur. Líklegast er að hann fari á láni innan Úrvalsdeildarinnar svipað og Ibe hefði svo sannarlega þurft að gera síðasta vetur. (Skil reyndar ekki ennþá að lána Markovic frekar en Ibe).

Mjög jákvætt að mínu mati að Liverpool sé ekki að spila 17-19 ára leikmönnum svona mikið, Sterling spilaði mjög oft eins og hann væri einmitt 17-19 ára í þessum 129 leikjum og hvað þá Ibe. Þeir verða að taka út sín mistök auðvitað en það er dýrt fyrir Liverpool að þeir fái að gera það í rauðu treyjunni. Hvað þá þegar það eru 2-3 inná í einu eins og var stundum undir stjórn Rodgers (t.d. Sterling og Suso).

Gaman annars að sjá að þetta endar alls ekkert á Ojo og hann er alls ekkert eini leikmaðurinn í sínum aldursflokki sem bankar fast á sæti í hópnum. Ennþá neðar er að koma fram á sjónarsviðið ennþá meira efni en Sterling, Ibe og Ojo voru taldir vera á sama aldri, Ben Woodburn, 16 ára.

Liverpool tók rúmlega áratug í byrjun aldarinnar án þess að fá einn svona leikmann upp úr yngriflokkunum, núna koma þeir á færibandi.

Wijnaldum

Hollendingurinn byrjaði inná í gær og spilaði þar með sinn fyrsta leik fyrir Liverpool. Hann var eins og búist var við á miðjunni í 4-3-3 leikkerfi og leysti niður fyrir Henderson ef hann fór fram á völlinn. Ekkert um þessar 45 mínútur að segja svosem annað en að hann virðist vera hugsaður sem miðjumaður í vetur. Klopp sagði reyndar í viðtali við Anfield Wrap að 4-3-3 væri ekkert endilega það kerfi sem hann legði upp með í vetur, það bara hentaði best þeim hóp sem hann hefur haft tiltækan á undirbúningstímabilinu, það mun engu að síður ekki breyta hlutverki Wijnaldum mikið.

Dramadu Sakho

Hann var orðaður við Roma (á láni) núna um helgina. Líklega ekkert til í því en hann á sinn þátt í því að mjög erfiðlega hefur gengið að vinna almennilega í varnarlínu Liverpool í sumar. Meiðsli Karius eru vægast sagt svekkjandi og það hefur áhrif á alla vörnina hver er fyrir aftan þá. Matip hefur verið meiddur mest alla Ameríkuferðina og ekkert spilað, Gomez er ekki að koma til baka í bráð og Sakho var sendur heim vegna agavandamála. Ofan á það er hann meiddur og mögulega á leið í bann. FRÁBÆRT.

Við erum því að horfa í fyrsta leik gegn Arsenal með Mignolet í marki og Ragnar Klavan með Lovren í vörninni. Clyne og Moreno í bakvörðum með James Milner sem back-up og bókstaflega engan annan. Þetta er þó bara ef enginn af þessum meiðist á næstu tveimur vikum. Ofan á það er Emre Can ekki ennþá búinn að spila leik á undirbúningstímabilinu enda bara nýmættur til æfinga, hann er okkar helsti varnartengiliður.

Enn eitt árið hefur maður því vægast sagt áhyggjur af vörninni í byrjun tímabilsins.

Viðtal Anfield Wrap við Klopp

Mælum svo með umræddu viðtali TAW við stjórann sem þeir settu í loftið í dag. Þeir fengu 25 mínútur með honum. Það þarf að vera áskrifandi hjá þeim til að hlusta, alveg þessi virði og vel það burt séð frá þessu viðtali.

10 Comments

  1. Ég veit ekki með ykkur en ég er dálítið að fíla þriðja búninginn. Hann er skemmtilega kreisí. Spurning um að skella sér á einn með Origi aftaná. Verst að hann er ekki kominn með nógu gott númer ennþá.

  2. A – Skiptir máli hvaða númer menn eru með?

    B – Á þriðja búninginn er bara eitt nafn sem maður setur aftan á búninginn, Ragnar Klavan klárlega.

  3. Stelpurnar frá Liverpool spiluðu í þessum búningi í leik á Reycup um daginn. Búningurinn er bara merkilega flottur í návígi, eiginlega bara mjög flottur

  4. Ég skil vel að Klopp sé ekki að eyða púðri í að finna vinstri bakvörð, því er í raun eitthvað betra
    að borga 15-25 milljónir til að kaupa bakvörð sem myndi svo ekki einu sinni gefa Moreno
    samkeppni? Það tekur jú menn mis langan tíma að aðlagast deildinni.

    James Milner er flottur maður til að berjast við Moreno um þessa stöðu þangað til Gomez verður klár,
    sem ég held að sé í lok ársins. Þeir sem eru með gott minni muna kannski að í byrjun síðasta tímabils
    Var Moreno kominn í kuldann hjá Brendan Rogers og Gomez orðinn fyrsta val í vinstri bakvörð.

    Þrír fyrstu leikir Liverpool í fyrra:

    vs Stoke (A) 1-0
    vs Bournemouth (H) 1-0
    vs Arsenal (A) 0-0

    Solid varnarlega og kominn einn annar hávaxinn til að hjálpa til að dekka í hornum og
    föstum leikatriðum.

    Svona sé ég þetta fyrir mér varnarlega í ár (eftir áramót):

    Clyne – Sakho/Klavan – Lovren/Matip – Gomez

    Þetta er vörn sem er með fáa veikleika varnarlega í liði með frábært og fjölbreytt úrval
    af sóknarmönnum.

    Spennandi tímar framundan!

  5. Ég var nú eitthvað að spá í að setja Balotelli #45 á þann þriðja. Það getur ekki klikkað!

  6. Klopp leiðir liðið til glæsta sigra á leiktíðinni eða ekki.. það er spurningin.

  7. Everton er að bjóða Southampton 9 milljónir í Fonte. Það hefði líklega verið einfaldara fyrir LFC að kaupa bara Southampton fyrir nokkrum árum, en þessi leikmaður er stabíll fyrir þennan pening og væri ágætis kostur ef Sakho fer. Svo annan í vinstri bak. Sammála Einari Matthíasi að það er metnaðarleysi að ætla ekki að bæta þá stöðu miðað við mannskapinn.

  8. Væri gaman ef síðu haldarar myndu taka fyrstu 10 leikina og spá um þá hvernig þeir fari og hvað mörg stig við verðum með hvað við sætum okkur að vera með og hvað við sættum okkur ekki að vera með gera skoðunar könun um það og láta okkur setja inn tölur og taka það saman og setja í ein pistill?

Liverpool 2 AC Milan 0

Liverpool 1 – Roma 2