Aston Villa 0 Liverpool 2

Tilkynning: næsta hópferð Kop.is verður farin helgina 1. – 4. maí n.k. á leik Liverpool og QPR á Anfield. Þetta verður síðasti sénsinn á að kveðja Steven Gerrard með virktum. Komdu með Kop.is á Anfield! Sala á ferðinni hefst á næstu dögum, fylgist með.


Liverpool vann í dag góðan baráttusigur á Aston Villa á útivelli. Lokatölurnar urðu 2-0 og það voru þeir Fabio Borini og Rickie Lambert sem skoruðu mörkin. Já þið lásuð rétt, Borini og Lambert.

Brendan Rodgers stillti upp feykisterku liði í dag:

Mignolet

Can – Skrtel – Sakho

Markovic – Henderson – Lucas – Moreno

Sterling – Borini – Coutinho

Bekkur: Ward, Manquillo, Enrique (inn f. Moreno), Williams, Lallana, Ibe (inn f. Sterling), Lambert (inn f. Borini).

Það var ekki mikið um fína drætti í þessum leik. Villa-menn höfðu fengið á sig fæst mörk allra liða í deildinni utan topp fjögurra og skorað langfæst mörk allra liða og það var því ekki við öðru að búast en naumum baráttusigri í dag. Leikurinn einkenndist af mýmörgum smáaukaspyrnum sem trufluðu rythmann en þá sjaldan að okkar menn náðu takti sköpuðu þeir sér færi og hefðu getað verið 3-0 yfir í hálfleik; á 17. mínútu skoraði Alberto Moreno mark sem var ranglega dæmt af vegna rangstöðu, þá skoraði Borini mark sem fékk að standa á 25. mínútu með frábærri snuddu eftir magnaða krullu inn fyrir vörnina frá Jordan Henderson og loks komst Raheem Sterling einn inn fyrir á 38. mínútu en sóaði færinu með ömurlegri vippu sem endaði beint í höndum Brad Guzan í marki Villa.

Í seinni hálfleik bættu heimamenn aðeins í, miðjan okkar missti tök á leiknum og á meðan Henderson datt neðar og neðar til að hjálpa vörninni virtust Lucas Leiva, Phil Coutinho, Sterling og Borini gjörsamlega úr takti við leikinn. Sem betur fer er Villa-liðið ömurlegt sóknarlið og ógnaði aðeins einu sinni að ráði, á 61. mínútu þegar Simon Mignolet bjargaði stórkostlega í tvígang og varðveitti forskot okkar manna. Á 71. mínútu gerði Rodgers svo tvöfalda breytingu, út fóru Moreno og Borini og inn komu José Enrique og Lambert en sá síðarnefndi gerði út um leikinn á 79. mínútu með flottu skoti utan teigs eftir hornspyrnu okkar manna og baráttu um frákastið. Þá kom Jordon Ibe inná á 84. mínútu fyrir Sterling, nýkominn heim úr láni hjá Derby, og var næstum búinn að leggja upp mark fyrir Coutinho í uppbótartíma.

Allt í allt mjög sterkur útisigur og ekki verra að skora tvö mörk gegn liði sem fær örsjaldan á sig tvö, en það hefur ekki gerst síðan 2. nóvember, og ekki var verra að bæði byrjunarframherjinn og varaframherjinn skyldu skora.

Liverpool er núna ósigrað í 13 af síðustu 14 leikjum sínum og síðustu 6 í deildinni, en 4 þeirra hafa unnist og 2 endað með jafntefli. Það er svekkjandi að jafnteflin hafi bæði komið á Anfield í leikjum þar sem liðið var yfir, en á móti kemur að liðið er núna búið að vinna fimm útileiki í röð, og sex af síðustu sjö. Þrír þessarra fimm útisigra hafa endað án þess að liðið fengi á sig mark og alls fjórir af síðustu ellefu, eða síðan Rodgers tók upp núverandi leikkerfi.

Það er einmitt þess vegna sem ég ætla að velja vörnina okkar mann leiksins í dag. Henderson var langbestur manna á miðjunni og í sókn, á meðan Borini og Lambert náðu báðir marki en gerðu lítið annað. Aðrir voru ágætir, ekkert meira en það, en þeir Can, Skrtel, Sakho og Mignolet stóðu eins og klettur í dag, jafnvel þegar miðjan brást og Villa-menn fjölmenntu í pressuna.

Það er einfaldlega alger breyting á stöðugleika liðsins síðan Can og Sakho komu inn í liðið og það sést kannski best á því að Mignolet og sérstaklega Skrtel virka eins og nýir menn eftir innkomu þeirra tveggja fyrrnefndu. Megi þetta halda áfram svona sem lengst!

Næst er það undanúrslitaslagur gegn Chelsea, besta liði Englands í dag og knattspyrnustjóra sem Rodgers hefur ekki ennþá átt svör við. Þriðjudagskvöldið verður áhugavert. En við brosum allavega þessa helgina, Liverpool eru á siglingu!

71 Comments

 1. Ég vona að Real fari ekki að bjóða í Mignolet núna.
  Sá er farinn að halda búrinu hreinu…. 🙂

  Annars frábær útisigur og flott að fá þessi dýrmætu 3 stig í hús.

  Er það ekki rétt að útivallarárangurinn á þessu tímabili er betri en í fyrra, eins skrýtið og það nú hljómar.

 2. Svo mikilvægt mark hjá Lambert, allt í járnum þangað til að hann skoraði. 3 stig og héldum hreinu ekki hægt að biðja um meira.

  Það var yndislegur svipur á Lambert þegar það var búið að flauta leikinn af, það var eins og að hann væri nýbúinn að eignast barn!

  Ástríðan fyrir liðinu skín út úr augunum á honum

 3. Fínasta frammistaða hjá okkar liði. Örlítil þreytumerki í seinni hálfleik en nokkuð sanngjarnt. Maður leiksins: Jordan, Skrtel, Sakho og Lucas

 4. Vá, skrítinn leikur. Þeir sem hvað mest er kvartað yfir stigu heldur betur upp í þessum leik. Sokkur upp í mig og sennilega aðeins fleiri.

 5. Þegar Borini og Lambert skora, þá er eitthvað gott í gangi.

  Sakho, Skrtel og Can spiluðu mjög vel og Mignolet öruggur í markinu!

  Henderson virkilega traustvekjandi á miðjunni

  Flott að fá Ibe til baka.

  Þetta er ekki flókið, liðið er á réttri leið 🙂

  YNWA

 6. Ojjjjjjjjjjjj Tottararnir að skora sigurmark á 90. mínútu í fimmta skiptið á leiktíðinni… pæliði í stigunum úffff

 7. Besti leikur Mignolet í búrinu í laaaaaangan tíma.

  Flottur og gríðarlega mikilvægur vinnusigur. Henderson, Lucas, Skrtel, Sakho og Can mjög góðir. 3 stig á erfiðum útivelli. Verst að Júnæted vann líka, en vonandi tapar Southampton stig í kvöld á móti Newacstle.

 8. Liðsheildin tók þetta, á persónulega mjög erfitt með að taka einhvern einn út sem mann leiksins. Kannski einna helst Skrtel, fannst hann éta nánast alla háa bolta sem komu í áttina að teignum. Og mikið svakalega sést vel hvað Borini er ekki í sama gæðaflokki og Sturridge/Suarez. Hann fær nú samt stóran plús fyrir að ná að pota þessu eina inn.

 9. “Og báðir framherjar Liverpool skoruðu í leiknum”. Þetta er ekki setning sem maður heyrir oft núorðið.
  Flottur sigur í erfiðum leik.

 10. Vörnin að koma til, þó svo að við höfum verið að spila á móti verstu sókn í EPL. Bestir fannst mér Markovic, Lucas, Sahko og svo bjargar Migno okkur nokkrum sinnum í dag.

  Góður vinnusigur, og gott að halda hreinu. Ég held að við séum allir að koma til. Næst er það celski, sem lék sér að hörmulegu swansea liði í dag , á útivelli.

  Við fikrumst upp töfluna 🙂

 11. Vel gert að halda út pressuna frá Villa í seinni hálfleik.
  Flott hjá okkar ólíklegu markaskorurum að setjann loksins????
  Yndisleg þrjú stig í sarpinn????

 12. með alvöru framherja hefðum við trúlega skorað 5 mörk í dag

 13. Þið sem eruð að velja mann leiksins, ekki gleyma Markovich, fannst hann alltaf hættulegur og átti margar flottar sendingar.

 14. Sælir félagar

  Tveggja marka sigur gegn A. Villa á Villa Park staðreynd og það ánægjuleg staðreynd. Allir held ég að leika vel og liðið hefði getað klárað leikinn í fyrri ef menn hefðu nýtt færin sín. Minjo með eina lykilvörslu og ef hann heldur fram sem horfir þá þarf anzi góðan markmann til að ná honum út úr liðinu.

  Þriggja manna vörnin stóð sig frábærlega og má ekki á milli sjá hvor er betri Skertl eða Sakho og Can fittar vel inn í þessa stöðu þó hann eigi örugglega aðra óskastöðu á vellinum. Miðjan flott og helst að sókni væri dálítið bitlaus í lykilstöðum sem mynduðust uþb. þrisvar fyrir utan mörkin. Niðurstaðan sanngjörn þó Villa ætti góðan 20 mín kafla í seinni hálfleik.

  Það er nú þannig

  YNWA

 15. Er ekki lífið stundum skrítið og skemmtilegt!
  Borini og Lambert !
  🙂

 16. Allt gott við þennan sigur ! 2 mörk, hreint lak , allar skiptingar notaðar og framherjar skora mörkin ! já bara flott framistaða heilt yfir.

  Sáttur !

 17. Flott 3 stig og ágætur leikur. Síðarihálfleikurinn var einfaldlega lélegur og höfum við stundum misst svona leiki niður í 1 stig.
  Aston Villa átti þarna 10 mín kafla sem þeir á ótrúlegan hátt tókst ekki að skora þrátt fyrir fjölmörg færi.
  En eftir að Lambert kom okkur í 0-2 þá var þetta aldrei spurning.

  Mignolet 9 – frábær leikur. Varði vel og það sem maður fannst standa uppúr var að hann fór út í fyrirgjafir og gerði það vel. Hans lang besti leikur síðan á síðasta leiktímabili.

  Sakho 8 – Verður öruggari í hverjum leiknum og átti flottan leik(Góð kaup)

  Skrtel 8 – en og aftur kóngurinn í vörninni og bjargaði glæsilega að Benteki skoraði ekki.

  Can 6 – ekki eins traustir og hinir, hlóp úr stöðu sem skapað pláss þegar Cleverly skaut yfir í fyrri og einhverjir hefðu verið brálaðir ef Villa hefði skorað þegar hann missti skallan yfir sig.(samt á því að þetta séu Góð kaup)

  Lucas 6,5- flottur í fyrirhálfleik en átti dapran síðari þar sem fyrir utan síðustu 10 mín þá voru Villa men með fullt af plássi fyrir framan vörnina okkar og hann virkaði dauðþreyttur.

  Henderson 8 – Hlaup úr sér lungun og var allt í öllu hjá okkur. Var duglegur að koma fram á við og lagði upp mark. Djöflaðist svo á miðjuni og var eins og sannur fyrirliði í þessum leik.

  Moreno 7 – frábær í fyrirhálfleik og svo nokkuð solid í þeim síðari. Kom með í sóknarleiknum og góður varnarlega.(Góð kaup)

  Markovic 7 – en of aftur að sýna hvað hann getur. Var flottur í vörn og sókn og held ég að við höfum borgað of lítið fyrir þennan strák. Hann er áræðin og klókur(Góð kaup)

  Coutinho 8- Okkar besti maður í fyrirhálfleik er greinilega fullur sjálfstraust og þeir réðu ekkert við hann. Átti svo fínan síðari en var stundum full lengi á boltanum.

  Sterling 6,5 – Ógnaði með hraða sínum og leikni. Klúðraði samt dauðafæri og náði sér samt aldrei alveg á strik. Villa menn pössuðu vel uppá hann og var hann kannski ástæða fyrir því að aðrir leikmenn fengu meira pláss

  Borini 7 – Maðurinn skoraði mark og það vill maður að framherjar gera. Var ekki að hlaupa úr sér lungun eins og hann er þekktur fyrir og var pínu misstækur á köflum. Þetta er ekki heimsklassa framherji en gerði vel í dag í markinu.

  Enrique 6 – kom bara með solid inn komu
  Lambert 8 – hvað vill maður meira frábært mark og var stórkostlegt að sjá þennan rissa hlaupa í fang stuðningsmanna eftir markið( þessi einkun er fyrir gott framlag á stuttum tíma)
  Ibe 7 – kom með smá kraft undir lokinn og var óheppin að leggja ekki upp mark fyrir Couthino. Mikið efni sem fær vonandi nokkrar mín í vetur.

  Það er ekki oft sem maður hefur tækifæri til þess að gera þetta en ég ætla að velja Mignolet mann leiksins 🙂 – jú Henderson var líka líklegur en ég held að ég fái fleiri tækifæri að velja hann mann leiksins í framtíðinni.

 18. Góður sigur á útivelli. 3 stig!!!!!!!!!!!!!

  ÁFRAM LIVERPOOL!!!!!!!!!!!

 19. Hrikalega sáttur með sigurinn og að halda hreinu. Ekki endilega besti leikurinn en margt gott. Vörninn nokkuð örugg og Mignolet gerði vel þegar á þurfti að halda. Mér finnst Markovich bæði góður varnarlega og sóknarlega, leikskilningur hans er góður. Þegar Can fór úr stöðu tók Markovich strax sprettinn til baka. Mér finnst það kostur að sjá svo sóknarsinnaðan mann (eins og hann er e.t.v. hugsaður) með touch fyrir varnarleiknum. Skiptir öllu í þessu 3ja hafsenta kerfi líka. Það vantar vissulega bit í sóknarleikinn og ég get því ekki beðið eftir Sturridge. Held að hann muni gera alla betri í kringum sig, þá á ég við Borini, Lambert eða Balo. Svo er Lallana að koma til baka.

  Ég ætla að leyfa mér að vera bjartsýnn og held í vonina með meistaradeildarsæti. West Ham leikurinn er algjört lykilatriði í lok jan og Everton úti þar á eftir.

  Ég hef verið á Rodgers vagninum og verð það áfram. Sjáum hvað setur.

  YNWA

 20. við erum með þriðja besta árangur liða í deildinni á útivelli, einungis city og chelsea með betri árangur þar. Sú staðreynd gerir mann ansi svekktan með aðvera ekki allavega í topp 4.

 21. “Það er einfaldlega alger breyting á stöðugleika liðsins síðan Can og Sakho komu inn í liðið”

  Alveg rétt. En mér finnst nú að Lucas mætti vera með þeim félögununum þarna í þessari stuttu upptalningu.

 22. Sterkur sigur í dag og liðið komið a smá runn. Erfitt programm framundan i deildinni með leikjum við west ham, everton, southampton, tottenhan og city. Liðið þarf að halda þessu runni afram og þa eigum við fullan séns a 4 sætinu. Eg er allavega glaður i dag og ekki slæmt að vita af sturridge er a leiðinni líka 😉

 23. Flottur sigur á liði sem hefur reynst okkur erfitt síðustu árin. Flott að sjá framherjana skora og búrinu haldið hreinu. Vonandi er þetta allt á uppleið hjá okkar mönnum.

 24. Gríðalega jákvætt að sjá vörnina svona solid og Mignolet virkar mun öruggari með þessa menn fyrir framan sig.

 25. Ég er bara sérstaklega ánægður með hann Sakho minn. Hef alveg frá upphafi viljað sjá hann massa þetta hlutverk, en þangað til núna (síðustu vikur) hefur hann aldrei endurgoldið mér það traust sem ég hef viljað sýna honum. En núna, rosalega sterkur og ákveðinn, sjálfstraustið greinilega komið í hús og mistökin sem hann splæsti í alltof oft eru ekki lengur fastur liður. Mjög sáttur.

 26. Rosalega ánægður með þennan leik!

  Fyrri hálfleikurinn áframhald af síðustu solid leikjum, liðið á allt öðrum stað í sjálfstrausti og vilja en fyrir tveimur mánuðum.

  Með allri virðingu fyrir innkomu leikmanna þá finnst mér Brendan Rodgers hafa fundið með stærri gúrkum lengi og stungið í háls þeirra sem hæst höfðu, enda sungu “Travelling Kop” nafnið hans ansi oft síðustu mínúturnar.

  Ég hef aldrei verið talsmaður þriggja manna varnarlínu, hvað þá ef að hún þýðir líka einn senter.

  En þeir félagar Can, Skrtel og Sakho eru að leysa hvern leikinn af öðrum vel, gríðarlega duglegir að loka á þau svæði sem alltaf er reynt að nýta gegn þessu kerfi og Lucas kemur svo og straujar inn seinni bylgju. Smám saman eykst sjálfstraustið og Mignolet fylgir, varði náttúrulega stórkostlega frá Benteke en tók 6-8 krossa í dag sem mér fannst enn mikilvægara fyrir hann.

  Við félagarnir völdum Hendo mann leiksins því hann var að okkar mati lykillinn að flestu því besta sem við áttum, en vörnin var lengi inni í þeirri baráttu og Markovic svo þar á eftir. Það að Sturridge átti off – dag og Coutinho hvarf eilítið þegar á leikinn leið gerir sigurinn bara enn sætari.

  En aftur. Það að ná þessu hlaupi núna er afrakstur ákvörðunar sem þarfnaðist kjarks og að hugsa út fyrir kassann. Slíkan mann vill ég hafa við stjórnvölinn og æpandi þögn þeirra sem hæst vildu hann burtu sannar það.

  Long may it continue og vonandi verða einhverjir til að stökkva á Rodgers vagninn með okkur sem á honum erum. Og þá endilega nota lýsingarorðin um hann, nú á jákvæðan hátt. Því jafnmikið og menn fríuðu leikmenn ábyrgð þegar illa gekk og vísuðu alltaf á hann, þá hljóta menn að vera sammála því að hann eigi allan heiðurinn af þessu gengi sem Kristján kemur inná…eða???

  Í kvöld fer maður skælbrosandi inn í nóttina, vissari um það en áður að það sé enn möguleiki á ágætum endi í deildinni og hlakkar til næsta verkefnis….það verður eitthvað!

 27. Sammála Magga. Vendipunktur tímabilsins var Utd leikurinn, þar sem Rodgers breytti um kerfi, liðið breytti um svip og við stuðningsmenn póleruðumst í afstöðu til knattspyrnustjórans. Slatti fór full force á Rodgers-out vagninn, á meðan mörgum (mér þar á meðal) fannst nýfundin dýnamík Utd leiksins eiga skilið lengra líf. Og hvað kemur á daginn? Við höfum varla (eða ekki) tapað síðan, höldum ítrekað hreinu og skorum mörk þó okkur vanti lykilsóknarmenn eins og Gerrard, Sturridge, Balo, Sterling löngum stundum.

  Ungmennakaup sumarsins eru að skila sér inn af fullum þunga. Can og Markovic stefna í að verða afburða leikmenn, hvor á sinn hátt, Moreno vex varnarlega með hverjum leik, Lallana var frábær fyrir meiðsli, Ibe verður sterkur valkostur síðustu 15-20 mín o.s.frv.

  Þó þetta tímabil kunni e.t.v. að enda utan CL (þó ég sé alls ekki búinn að gefa upp vonina á því enda aðeins 5 stig í 3. sætið) finnst mér síðustu tíu leikir sýna svo ekki verður um villst að við munum enda þetta tímabil sterkt, og það verður ekkert því til fyrirstöðu að við ættum að starta næsta tímabili hlaupandi, vonandi með 1-2 nýja heimsklassamenn á réttum stöðum.

  Framtíðin er björt.

 28. Maggi, það er algjör óþarfi að vera með þessi skot. Frábært gengi síðan snemma í desember breytir því ekki að fyrstu fjóra mánuði tímabilsins var liðið gjörsamlega úti á túni og Rodgers virtist klúðra nær öllu sem hægt var að klúðra. Liðið lék varla góðan hálfleik í rúma þrjá mánuði, skeit upp á bak í Meistaradeildinni og Rodgers virtist ákveðinn í að berja höfðinu við steininn þar til hann myndi endanlega rotast.

  Ég veit ekki hver var katalystinn á bak við breytingar hans eftir Basel-leikinn (einn sá verst stjórnaði undir hans tíð, ef ekki sá versti), hvort það var neyð til að bjarga starfinu eða hvort hann datt allt í einu niður á lausnina sem hann hafði ekki séð áður, en ég er gríðarlega feginn að hann hafi leyst þennan hnút og fagna því gríðarlega. Ég met hann meira fyrir það og er hrifinn af því sem hann hefur gert síðan þá, mjög hrifinn.

  Ekkert af því gerir það samt neitt hlægilegra eða asnalegra að menn hafi verið orðnir þreyttir og óþolinmóðir snemma í desember þegar tímabilið virtist á hraðri leið til andskotans, að miklu leyti vegna slæmra ákvarðana Rodgers.

  Látum okkur nægja að fagna viðsnúningi Liverpool án þess að draga stuðningsmenn í dilka eftir því hverjir voru orðnir þreyttir á Rodgers og hverjir ekki áður en viðsnúningurinn átti sér stað. Hmmm? 🙂

 29. Hvar er Rodger out liðinu núna ? 😉 en það fór hamförum ekki alls fyrir löngu.

  Menn voru að drulla yfir kaupinn í sumar á meðan að aðrir vildu gefa nýjum leikmönum meiri tíma. Í dag voru E.Can, Markovitch, Moreno og Lambert með flottan leik og þrí fyrstu framtíðarleikmenn í okkar liði. Einnig lýta kaupinn á Sakho gríðarlega vel út og Lallana var okkar besti maður í nokkrum leikjum áður en hann meiddist.

 30. Hvar getur maður séð leikinn eftirá?. Var að snúast svo ég missti af leiknum. Flott halda hreinu og skora tvö. Ég hlakkaði sá hvernig þessi nýja leikaðferð myndi virka á Villa Menn.
  Þeir hafa verið að stríða okkur undanfarið og hirt af okkur stig.
  Hér sannast enn á ný að þessi þriggja manna varnarlina þrælvirkar og Mignolet virðist öruggari milli stanganna. Þeir heldu hreinu og því eru þeir menn leiksins. Nú vantar bara Sturridge i sóknina.

 31. Maggi, þú hittir naglann á hausinn, Sturridge átti svo sannarlega “off” dag, enda var hann ekki “on”!

 32. það sem tekur glossinn af sigrinum í dag er að öll úrslit í dag eru okkur óhagstæð.

 33. Frábær sigur og við á hörku rönni, megi það haldast út sem lengst. Næsta verkefni er að sigra djöfulinn sjálfan i mannsmynd. Baráttan a milli hins góða og hið illa. Hef mikla trú a að við förum á Suður-Anfield, eins og Wembley var kallað í den tid.
  YNWA!!

 34. Ég er enn á Rodgers out vagninum.

  Ef vid náum ekki top 4, à hann, hans skipulag, mannaval og reynsluleysi alla sökina. Tad tók manninn 10 leiki ad sjà tad sem flestir sàu eftir 2 leiki ad gekk ekki. Balotelli einn frammi og lùinn Stevie G. ad verja vörnina! Anyone?

  Gódur stjóri sèr ad sèr ádur en hann klúdrar stærstu keppni tímabilsins og er ad nàlgast fallbaràttu med lid sitt.

 35. Sá bara seinni hálfleik og miðað við það hefði leikurinn vel getað dottið í jafntefli. En það gerðist ekki, sem betur fer og miðað við það sem maður hefur lesið hefði Liverpool átt að vera löngu búið að klára leikinn. En 2-0 er ekkert örugg staða eins og við sáum gegn Leicester.

  Varðandi Rodgers in/out þá get ég tekið undir með bæði Magga og Kristjáni Atla. Ákvarðanirnar sem Rodgers tók voru einfaldlega fjölmargar mjög slæmar. Margir á þessu spjallborði bentu ítrekað á eftirfarandi: Lovren út, Lucas inn, Sterling/Borini upp á topp. Ef Rodgers hefði gert þessar breytingar 1-2 mánuðum fyrr þá værum við án efa í Meistaradeildinni og í þriðja sæti í deildinni.

  En sem betur fer las Rodgers kop.is og gerði þessar breytingar sem búið var að æpa eftir. Hann ber að virða fyrir það og þá er það honum að þakka því hann er stjórinn. Hann er búinn að finna kerfi og leikmenn í kerfið þannig að sigrar vinnast og liðið þokast í hægum skrefum upp töfluna. Svo eru allar líkur á því að Arsenal tapi leik eða amk. stigum á morgun. Allt á réttri leið, en eins og Viðar Skjóldal bendir réttilega á er erfitt prógramm framundan.

 36. Maggi #32:

  Ég bara sá varla Sturridge í leiknum. Hann var gjörsamlega ósýnilegur.

 37. Aldursdreifing byrjunarliðsins í dag (mun eflaust formattast illa, en sett upp sem 3421):

  26
  21 30 24
  20 24 28 22
  20 22
  23

  Meðalaldur: 23.6 ár (þá vitaskuld bara notast við ár sem leikmennt hafa fyllt, ekki mánuði eða neitt meira). Frábært samt!

  Tveir útisigrar í röð og hreint lak í báðum; virkilega gott mál. Mignolet brást ekki þegar á reyndi og vörnin öll virkilega flott. Skrtel skallaði a.m.k. tvo bolta sem voru á leiðinni beint á kollinn á Benteke í ákjósanlegri stöðu. Sakho steig ekki feilspor og Can er ótrúlega yfirvegaður á boltanum.

  Henderson var svolítið mótórinn á miðjunni, sérstaklega eftir að það fór að draga af Coutinho (sem var frábær í fyrri hálfleik, stjórnaði tempoinu algjörlega og sló eign sinni á stóran hluta vallarins). Henderson góður að finna svæði hægra megin, alveg upp að endalínu á stundum. Trackaði svo 2-3 sinnum mjög vel til baka þegar á reyndi, var þá eiginlega að vinna skítverk sem Lucas hefði með réttu átt að gera. Líklega lakasti leikur Brassans síðustu vikur, samt alls ekki lélegur!

  Flott afgreiðsla hjá Borini, en Henderson tíaði þetta algjörlega upp fyrir hann. Þvílík sending! Lambert gerði svo akkúrat það sem Lambert á að gera fyrir Liverpool, þarna er passlegt hlutverk fyrir kappann (varamaður í leik þar sem aðrir eru meiddir og/eða veikir + róteringar í bikarkeppnum o.s.frv). Mjög vel gert hjá honum að koma þessu í netið og drap leikinn eftir mikið ströggl í síðari hálfleik. Gaman að sjá hvað honum leiddist þetta aldeilis ekki.

  Það er allt, allt annað að sjá liðið en á myrkustu tímunum í haust. Vonandi helst Sturridge nú heill og tekst að spila sig almennilega í gang. Þá getur allt gerst.

 38. Dettur ekki í hug að láta mér detta í hug að ergja mig í dag, þó vissulega Sturridge hafi átt erfitt (sýnir kannski hvað ég bíð spenntur eftir því að fá hann til baka og breytti Sterling í hann).

  Svo ég ætla ekkert að tala um það að vissulega er það þannig að þjálfarar lenda í meinlokum með liðin sín þegar þeir verða fyrir áföllum eins og hann gerði og auðvitað vissu mjög margir svo miklu betur en hann, enda var hann þá sennilega doldið vitlaus bara.

  En svo er það frábært að hann hættir að vera vitlaus og hlustar á menn sem vita miklu meira um þetta og breytir liðinu eins og þeir allir vildu, það öskruðu allir á þriggja manna vörnina, Markovic í wing back og Emre Can í hafsent.

  Gott hjá honum!

  😉

 39. Smá margmiðlunarspamm… 🙂

  Varslan hjá Mignolet + boltinn kýldur burt nokkrum sek síðar: http://gfycat.com/PoliticalWarpedInexpectatumpleco

  Clean sheets taflan í vetur: http://i.imgur.com/z5jjXAK.png

  Form tafla (6 umferðir): http://i.imgur.com/47SSQEg.png

  Markið hans Borini: http://gfycat.com/BrownFilthyCub
  – og hans hefðbundna fagn: http://i.imgur.com/uvNVzuP.jpg

  Markið hans Lambert: http://gfycat.com/RapidGlaringAlbacoretuna

  Lambert, Skrtel og Lucas fagna með travelling Kop: http://imgur.com/00cKuRQ

 40. Flottur skyldusigur gegn Aston Villa og mjög margt jákvætt við leik okkar manna í dag. Borini og Lambert báðir með mörk er mjög jákvætt en viðbrögð okkar við þessum mörkum segja mest allt sem þarf yfir frammistöðu þeirra hingað til. Skýrslan hjá KAR gerir þessu góð skil.

  Ég var aldrei kominn á Rodgers out vagninn en róum okkur alveg með einhverja Þórðargleði alveg strax. Það er frábært að liðið hafi loksins byrjað að safna stigum og að 4. sætið sé ennþá a.m.k. möguleiki en þetta er ekki beint komið og nýtt leikkerfi er alls ekkert búið að sanna sig endanlega fyrir mér þó úrslitin hafi vissulega skánað.

  Eftir tapið gegn United þá skoruðum við á 6. mínútu uppbótartíma gegn Arsenal til að ná jafntefli. Eftir það kom góður heimasigur á Swansea áður en liðið gerði laglega í buxurnar í stöðunni 2-0 yfir gegn Leicester á heimavelli. Það kom svipaður kafli í leiknum í dag en Villa nýtti ekki færin sín. Eftir það hafa leikir gegn Sunderland og Aston Villa unnist. Ofan í þetta hafa komið tveir bikarsigrar gegn neðrideildarliðum.

  Það er ekki ástæða til að gera lítið úr þessum sigrum, þetta er meira en liðið var að gera en engu að síður algjörir skyldusigrar. Næstu fimm leikir eru öllu snúnari og eftir þá skal ég endurmeta afstöðu mína til t.d. leikkerfisins. Ofan í marga deildarbikar, bikar og Evrópudeiildarleiki eru næstu fimm leikir í deild gegn West Ham, Everton, Tottenham, Southamton og Man City. Ég er ennþá á því að varnarleikinn var hægt að laga með því að breyta mannavali og er enganvegin sannfærður þrátt fyrir viðunandi gengi undanfarið.

  Mignolet var að spila einn sinn besta leik í langan tíma, varði vel einu sinni og var aldrei þessu vant að koma ágætlega út í boltann í föstum leikatriðum. Vonandi smá sjálfstraust komið í kappann.

  Sakho hefur komið vel inn í liðið og er loksins að ná nokkrum leikjum án þess að meiðast. Hann er að mínu mati okkar besti miðvörður og hefur vonandi eignað sér stöðuna núna hvort sem við spilum með 2 eða 3 miðverði. Svipað með Emre Can, mig langar að sjá hann spila sína stöðu bráðlega en hann er að leysa þessa stöðu sem hann spilar núna mjög vel. Mikilvægt að hann sé í liðinu og að spila vel sama í hvaða stöðu. Skrtel var síðan mjög góður í dag og hafði jafnan betur gegn Benteke. Aston Villa hefur reyndar bara skorað 11 mörk í vetur og því kannski ekki furða að varnarlínan komi vel frá sínum leik.

  Jordan Henderson gerði mjög vel í fyrsta markinu og var öflugur allann leikinn. Lucas við hliðina á honum var ágætur en það dró verulega af honum í seinni hálfleik, eitt skiptið var hann hreinlega tekinn á einn á móti einum og andstæðingurinn fór framhjá honum eins og hann væri ekki þarna. Lucas í stöðu varnartengiliðs hefur engu að síður breytt svipað miklu varnarlega að mínu mati undanfarið og að spila með þrjá miðverði. Hann er miklu betri en Gerrard varnarlega, vonandi er hann ennþá í þeim gæðaflokkið að standast næstu fimm liðum snúning í deildinni, þar eru mun betri andstæðingar en liðið hefur mætt undanfarið.

  Sóknarlega fór Villa alltaf upp hægramegin og nýtti Hutton sér vel það svæði sem Moreno skilur eftir sig. Þeir hlupu einnig á bak við Markovic en hann fannst mér betri í þessum leik, bæði varnarlega og sóknarlega. Markovic kom raunar mjög vel frá þessum leik. Ég skildi ekki skiptinguna á Enrique fyrir Moreno en það stórlagði leik okkar þannig að Rodgers var með það á hreinu.

  Coutinho fannst mér langbestur af sóknartríóinu á meðan Sterling var afar dapur í dag. Glæpsamlega illa farið með færi í fyrri hálfleik. Borini var síðan svipaður og vanalega en mjög gaman að sjá karlgreyið loksins koma boltanum í netið. Hann minnir mig svolítið á ódýrari útgáfuna af Dirk Kuyt, hefur hjartað og dugnaðinn en ekki alveg gæðin. Borini er kominn með stoðsendingu og mark í þremur leikjum sem hann hefur byrjað, hann hefur aldrei fengið marga leiki í röð hjá Liverpool og því erfitt að dæma hann en þetta verður aldrei fyrsti kostur í framlínu Liverpool nema í meiðslum lykilmanna. Fagna þó að hann sé að byrja frekar en Lambert.

  Fögnum góðum sigri en það er allt í lagi að halda sig á jörðinni, staðan er lítið breytt í deildinni eftir þennan leik um á möguleika á 4. sæti.

 41. Rétt Babú.

  Erum búin að vera á jörðinni í neikvæðninni í vetur líka, gott að halda því bara áfram…

 42. Djöfull getur maður samt pirrað sig endalaust á þessum 2 stigum sem við töpuðum gegn Leicester! Þau eiga eftir að koma svo hrikalega í bakið á okkur undir blálokin.

 43. Svo er alltaf smá millivegur Maggi.

  Ég er sáttur með úrslitin í dag og undanfarið, megi stigasöfnunin haldast svona áfram. Neikvæður/jákvæður skiptir ekki öllu og ég tel mig vera hvorugt hérna, þetta er bara mitt mat og sé ekki hvað er að því að vera alveg á jörðinni eftir sigur á Aston Villa, þeir hafa ekki unnið deildarleik síðan 7.desember eða í sjö deildarleikjum.

  En engin ástæða til að þræta eftir góðan sigurleik, batamerki á nánast öllum okkar leikmönnum undanfarið líka sem er jákvætt.

 44. Góður sigur á þessu aston villa liði og frábært ef sóknarmennirnir okkar eru að fá smá sjálfstraust, fer samt ekki ofan af þeirri skoðun minni að Borini á heima einhversstaðar annars staðar en hjá okkur, alveg hræðilegur striker (jújú þeir skora einstaka sinnum).

  Ég hef nú ekki horft á marga aston villa leiki í vetur en það verður eitthvað stærra lið að fara athuga hvort Fabian Delph nenni að vera þarna lengur, átti miðjuna í þessum leik skuldlaust og gerði ítrekað grín að okkar mönnum með flottum snúningum. Hef alltaf hlegið að þessum orðrómum en miðað við þennan leik og fleiri sem ég hef séð hann í á hann ekkert heima í þessu aston villa liði, alltof góður fyrir þá.

 45. Já það er ekki slæmt að liðið líti þetta vel út, og eiga Gerrard, Sturridge, Lallana og Balotelli inni.

  Þá er ég að gefa mér að Balotelli eigi bara eftir að finna fjölina sína. Er a.m.k. að vona að hann eigi mikið inni.

 46. Nú er maður farinn að skilja að það eru einhver lið þarna úti sem vilja borga 10 millur fyrir Borini. Þetta er fínasti leikmaður sem er að gera töluvert betur heldur en Lambert og Balotelli gerðu í sömu stöðu. Hann verður seint jafngóður og Suarez (hahaha) en hans mikilvægi samt í síðustu leikjum er vanmetið. Það er ástæða fyrir því að liðið var ömurlegt fyrir jól en betra núna og ég vill að meina hann er ein ástæða fyrir því…..ásamt náttúrulega innkomu Markovic, E.Can, Sakho…o.s.frv. Brendan er farinn að hitta á rétt lið…lokins!

 47. Sæl öll,

  Góður “skyldusigur” í dag.

  Ég ætla að leifa mér að vera sammála Babu og K.Atla hér að ofan. Það er ekkert í hendi enn hvað varðar stöðuleika og frammistöðu en er á meðan er. Þetta hafa ekki beint verið beittustu hnífarnir í skúffunni sem Liverpool hefur verið að eiga við síðan CL var úti. Að vísu gef ég BR það að 3-0 í utd leiknum var það hræðileg nýting og engin Lucas okkur að falli. Leikurinn var í sjálfum sér vel upp lagður en vörnin (eins og venjulega) varð okkur að falli.

  Þórðargleði, hehehehe góður.

  Í podcasti eftir CL sagði Maggi “að mínu mati vanmat Liverpool Basel”. Ég er engan veginn sammála því og í raun á öndverðu meiði því að mínu viti ofmátu BR og þjálfarar Liverpool Basel. Varnaruppstillingin í þeim leik kostaði okkur CL.

  Varnaruppstillingin sem sett er upp núna er ekkert nýmæli og Liverpool hefur í raun spilað svona áður. Það var á síðasta áratug síðustu aldar og þar var enskur stjóri á ferð. BR er ekki að finna upp hjólið, hvað þetta varðar, þótt Maggi haldi öðru fram í podcasti í byrjun desember.

  Með þriggja miðvarða kerfi er verið að reyna stoppa upp í leka vörn. Það hefur gengið á móti “lakari” liðum um þessar mundir en það verður rosalega spennandi að sjá hvernig fer á þriðjudagskvöldið. Mér finnst Liverpool ennþá verjast eins og einstaklingar, ekki sem lið. Það eina sem BR hefur komið í veg fyrir, með þessu kerfi, er að láta fremstu menn komast upp með að sinna ekki varnarskyldu. Coutinho virðist t.d. hata að verjast og getur ekki hjálpað bakverði og það verður mjög fróðlegt að sjá góð lið “leysa” inn á miðjuna með kantmanni og “overlappi” frá bakverði á móti þessu kerfi hjá BR.

  Leikmannakaup síðasta sumar eru ekki styðja þetta kerfi og það segir mér að BR er ekki spila þann bolta sem hann kýs fyrst af öllu. Ég skil ekki af hverju BR prufaði ekki mikið fyrr að setja Sterling en hjakkaðist í steingeldu uppleggi í allt haust. Ég hef sagt það áður og skil ekki enn, hvað er það sem lætur BR breyta svona mikið af leið frá í fyrra þótt það vanti tvo leikmenn. Nú segir Maggi ” það vantar 80 mörk í þetta lið” og “hættum að bera saman lið, metum núverandi leikmenn”. Hvernig í ósköpunum á að vera hægt að meta lið og það sem vantar upp á til að vera samkeppnishæft, nema að bera það saman við eitthvað sem við þekkjum? Við þekkjum liðið frá því í fyrra og að sjálfsögðu berum við núverandi hóp saman við hópinn frá í fyrra.

  BR vissi áður en að leiktíðinn byrjaði að það vantaði 50 mörk í liðið og það vissu allir að Sturridge mundi ekki vera framherji nr. 1 hjá liðinu sökum meiðslasögu. Samt er ekkert gert í því í sumarglugganum að fá mann með hraða, vinnusemi og gott markanef (Liverpool kaupir unga leikmenn og gerir þá að góðum leikmönnum og selur þá þegar arðsemin er sem mest þ.e.a.s. Liverpool er “feeder club”). Meira að segja ég og örugglega 99% af sófasérfræðingum kop.is hefðu geta sagt BR að Balotelli og Lambert eru ekki leikmenn til að leysa Suarez af hólmi og allra síst til þess fallnir að vera einir uppi á topp.

  Miðað við þau rök að Liverpool getur ekki keppt við hin og þessi lið um dýra leikmenn, sem falla inni í vinsælt upplegg (4-2-3-1) dæmir það liðið til þess að vera alltaf á reit 1 eða 2 en kemst aldrei á reit 3 þar sem titlarnir eru a.k.a. Arsenal. Í fyrra var það sóknarleikurinn sem var aðalsmerki Liverpool og skilaði þeim mjög langt. Ég segji, höldum okkur við afbrigðið og bullandi sóknarleik og kaupum leikmenn sem falla að þeirri hugmyndafræði. Ekki stilla liðinu upp í sama far og allir eru að spila, það gerir okkur ósamkeppnisfæra.

  Auðvitað á Liverpool að taka þátt af heilum hug í EL og reyna að vinna keppnina. Það eru bara 4 lið sem komast í CL og verum því alltaf (þegar þannig bjátar á en vonandi sem sjaldnast) liðið sem vinnur “hinn” bikarinn. Stórlið eru þau lið sem eru oft á milli tanna á fólki þ.e.a.s. lið sem vinna titla. Liverpool verður að fara vinna titil það eitt er svo einfalt.

  Af hverju vildi BR breyta leikstíl Liverpool frá í fyrra?

  Að lokum vil ég nefna að ég veit ekki hvaðan sú mýta kemur að Liverpool sé í einhverjum vandræðum með Aston Villa. Í síðustu 10 leikjum er staðan 5-2-3 (sigrar-jafntefli-tap) og í mínum bókum er það ásættanlegt á móti liði frá næst stæðstu borg Englands og liði sem á alltaf að vera í topp 10 (bara Lambert er að klúðra því).

  Ég er ekki á BR burt vagninum en ég er ekki á BR “for ever” vagninum heldur. Hann þarf að sannfæra mig að hann geti gert góða hluti án top 3 besta leikmans í heimi og að lið hans virki.
  BR sannfærði mig allavega í haust um það að hann er MJÖG íhaldsamur maður og að mínu viti er það fjölbreyttni og ákefð (Liverpool í fyrra) sem brýtur upp hefðirnar í topp 4 á Englandi. BR, ekki stilla liðinu upp eins og allir aðrir, vertu djarfur líkt og í fyrra.

  Höldum áfram sem frá var horfið í fyrra, áfram sóknarbolti (vandamálið er að lið VERÐA að kunna að verjast sem heild og því jafnvægi virðist BR ekki kunna að ná ef ég met síðustu 3 tímabil)!!

  Hvað fær BR langan tíma, að ykkar mati, ef CL sæti næst ekki í vor?

 48. Sælir félagar

  Góður sigurn í dag, góð 3 stig og liðið lítur vel út að mestu þó ef til vill megi þakka fyrir að Villa jafnaði ekki í upphafi seinni hálfleiks og þá veit maður ekki hvernig leikurinn hefði þróast. Þá er hætt við að Maggi ef til vill ekki verið svona góður með sig. Þá er hætt við að margt væri öðruvísi hér á spjallinu. Það er oft ansi lítið sem skilur á milli feigs og ófeigs gáum að því.

  Ég var einn af þeim sem var algerlega hundpirraður á BR. Maggi var það reyndar stundum líka. Enginn af okkur Mér Babú, Kristján Atli, Maggi og svo mætti lengi telja vorum á því að BR ætti að taka pokann sinn fyrr en þá í fyrsta lagi eftir leiktíðina.

  Eins og staðan er núna er engin hætta á því að BR fari sem betur fer. Vonandi helst gengi liðsins í þessum gír. En í guðanna bænum Maggi láttu ekki eins og þú hafir alltaf verið pott þéttur með BR og hans stjórnun. Það er nákvæmlega bara bull.

  Það er nú þannig

  YNWA

 49. Jæja, næst verður það svo rjúkandi heitt West Ham lið þar sem Andy Carroll og Stewart Downing hafa spilað stórkostlega í síðustu leikjum.. Úff hvað þetta er eitthvað dæmt til þess að slá okkur niður eins og gerðist í Leceister leiknum.

  Samt sem áður flottur leikur í dag, Mignolet með hreint lak tvo leiki í röð, og mörk frá Borini og Lambert, óhætt að segja að þetta hafi komið úr óvæntri átt.

 50. Það er rétt, enginn stakk upp á Markovic á vænginn eða Can í vörnina, og við getum svosem deilt endalaust um hvort það eða þessar breytingar sem ég nefni hér að ofan hafi skilað þessum árangri upp á síðkastið. Það er vinsælt að nefna tölfræði og Lucas Leiva er líklega með bestu tölfræðina af leikmönnum liðsins hvað varðar stigasöfnun og markatölu með hann inni í liðinu. Eins og ÞHS segir líka hér að ofan, meðan Balotelli var í liðinu var sóknarleikurinn steingeldur, fyrst og fremst vegna þess hvernig týpa af leikmanni hann er. Sterling og Borini bjóða upp á allt annan sóknarleik og mun líkari því sem sást í fyrra, þótt þeir hafi ekki nálægt því sömu gæði og Suarez og Sturridge.

  Ég tek líka undir það með ÞHS, ég held að þriggja haffsenta kerfið sé ekki komið til að vera. Brendan Rodgers hefur oft sagt að hann vill helst af öllu spila 4-3-3, með einn djúpan á miðjunni.

 51. Held að það sé fáum til góðs og gefins að halda neinu öðru áfram en því jákvæða, t.d. því að vera með býsna góðan útivallarárangur og á góðu rönni sem vonandi helst áfram, það er augljóst að leikmönnum er farið að líða vel saman inn á vellinum og allt í einu virðast bara leikmennirnir sem keyptir voru í sumar vera líklegir til að nýtast okkur vel í baráttunni…þó ég viti auðvitað að hægt sé enn að benda á Lovren og Balotelli sem mótrök þá hafa þeir enn fínan tíma til þess.

  En Can lítur út fyrir að vera þjófnaður til dæmis, Markovic og Lallana séu peninga virði og þá finnst mér t.d. mikið af stóru spurningunum frá “slaka tímanum” vera svarað.

  Það er alveg rétt hjá Sigtryggi að ég var pirraður með margt en í dag er ég bara fullkomlega viss um það að miðað við þær væntingar sem hægt er að gera til liðsins okkar á þeim markaði sem það er að spila á í Englandi í dag sé Brendan Rodgers hárrétti maðurinn.

  Algerlega óháð því hvort við náum 4.sæti eða ekki. Enginn annar mun geta leyst það verkefni betur að finna unga menn og koma liðinu þannig ofar frekar en að kaupa stór nöfn.

  Og varðandi hugmyndir um það að hann sé ekki að spila sitt kerfi, þá er það nú bara þannig með mig að ég les yfirleitt mest bara bein svör og það er t.d. að finna svar um leikkerfið á þessum þræði hér:

  http://www.liverpoolfc.com/news/latest-news/178309-rodgers-we-ve-still-got-room-to-improve

  Þar talar Rodgers á þeirri nótu sem ég fíla hann, að málið snúist ekki um leikkerfið heldur hvernig fílósófíu þú vilt spila. Það var einmitt sú fílósófía sem ég saknaði þegar var verið að reyna að spila 4-2-3-1…ekki með pressu og með mikilli varfærni. Ég er handviss um að Rodgers hefur lært af því…þó auðvitað verði gaman að sjá hvernig kerfið okkar fer gegn Chelsea liði sem átti í tiltölulega litlum vandræðum með okkur spilandi þetta klassíska kerfi sem næstum öll lið í heimi nota.

  Varðandi það að vísa í Liverpool á tíma Roy Evans þá varð einmitt grundvallarbreyting þegar farið var út í að spila þetta kerfi, 4-2-3-1, gegn því og það bara dó. Þýskaland urðu heimsmeistarar á Ítalíu spilandi þetta kerfi…og mörg bestu lands- og félagslið heims spiluðu það en kraftsóknarboltinn sem kom inn með eins strikers kerfi með fljótandi færslum á bakvið lék það illa.

  Það var enginn hér að biðja um þriggja hafsenta kerfi, hvað þá útfærslu á því sem ég man ekki svo glatt eftir, 3-4-3.

  Mér finnst það vera að hugsa út fyrir kassann, rýna í leikmannahópinn sinn og standa upp og sparka frá sér. Eiginleiki sem allt of fáir stjórar gera, þegar þrjóskan þeirra ber þá ofurliði og þeir falla á sitt eigið sverð…sem mér fannst Rodgers vera að gera…en hann beygði svo af þeirri leið og gleður mig mikið.

  Vel má vera að ég sé alltof jákvæður, ég veit það að fótboltaumræða gengur ca. 80% upp á að velta upp hvað menn séu að gera illa og eigi að gera betur. Mér leiðist það mikið og vel má vera að það sé umhugsunarvert hvort staður sé fyrir jákvæðni ef lítil eftirspurn er eftir henni, mér t.d. sýnist engin ástæða til að fagna “skyldusigri” eins og í gær.

  Mér finnst t.d. í útileikjum ensku deilarinnar yfirleitt aldrei um slíka leiki að ræða…

 52. Góður sigur og gott að fá 3 stig !

  Sammála báðum fylkingum um BR, gott að sjá liðið bæta sig en er enn í vafa um Taktíska hæfileika stjórans.

  Leikkerfið fær auðvitað ákveðið próf þegar við mætum Móra og hans blákalda einkaher.

  Ef einhver hefði gaman af því að sýna BR að leikkerfið hans væri gallað þá væri það puntsvínið frá PortúGaal…..
  :O)

 53. Sælir félagar

  Fín umræða og mrgt gott sem í henni kemur fram. Jákvæðni er af hinu góða og fleytir mönnum oft yfir erfiðleika en hitt er samt nauðsynlegt, að gera sér grein fyrir vandanum og takast á við hann. BR hefur tekið á þeim vanda sem hans eigin þrjóska og íhaldsemi bjó til. Það er gott og hann maður að meiri.

  Samt er það eins og ÞHS#58 bendir á ekki líkur á að lausnins sé varanleg. Það að spila þetta þriggja hafsenta kerfi. Lausnin hlýtur að vera að manna stöður eins og framherjastöðurnar með mönnum sem eru af því kalíberi sem nauðsynlegt er.

  Ef Liverpool á að verða klúbbur sem fæðir “stóru” félögim (feeder club) þá er verr af stað farið en heima setið með nýja eigendur. Ég sem stuðningsmaður mun aldrei sætta mig við það. En þar er auðvitað ekki við BR að eiga heldur eigendurna.

  Spurning ÞHS#58 um hvað með BR ef liðið nær ekki meistaradeildarsæti er ekki brennandi finnst mér. Það sem er brennandi á okkur er hvernig staðan verður í vor að leiktíð lokinni og það er ekki endilega meistaradeildin sem kemur þar til álita. Það er einnig hvernig liðið er að spila, barátta og úrslit við lið eins og West Ham, Arsenal, Tottenham, MU, Southamton, Man City og Chelsea o. s. frv.

  Ef liðið er á þeim stað í vor að eiga ekki möguleika á móti þessum liðum þá er hún slæm og umhugsunarvert hvort BR ræður við verkefnið. Því þá verður hann að spila á þeim mönnum sem hann vildi fá, sem hann hefur þjálfað og þann bolta sem hann vill spila. Ef árangur hans verður engan vegin viðunandi eftir leiktíðina á hann þá að fá að halda áfram? Ég spyr því mér finnst meistaradeildarsætið ekki endilega vera það sem ræður úrslitum alfarið í samhenginu.

  Það er nú þannig.

  YNWA

 54. Menn geta sagt hvað sem er um Borini , en að sjá gleðina sem skein úr andlitinu á honum þegar að hann skoraði var pure joy. Hann er ekki besti striker í heiminum, en af þeim sem við eigum á lager þá virkar hann lang best fyrir okkur í dag.

 55. Þetta er vissulega flottur punktur að pæla í…

  …hvað getum við ætlast til af Liverpool FC í þeirri samkeppni sem það er í þessa dagana.

  Man. City spila yfirleitt með einn senter, þó vissulega stundum spili “fölsk nía” senterinn.

  Það lið hefur nú keypt fyrsta framherja Bosníu, Fílabeinsstrandarinnar og Svartfjallalands til að skipta á milli sín þessari einu stöðu…eftir að hafa lánað miðherja Spánar til Valencia og geta nýtt besta sóknarmann Argentínu þarna líka…

  Báðir markverðir Chelsea eru betri en okkar og markmaður Barcelona ákvað að hætta hjá þeim til að verða….varamarkmaður Man. United!!!

  Hef lengi ætlað að sjóða saman í pistil einmitt þessa staðreynd, þá að í mínum huga er algerlega óraunhæft að gera til þess kröfu að LFC endi í efstu tveimur sætum mótsins (jafnvel þremur ef eyðsla United verður jafn gengdarlaus og hún var í sumar) á meðan að Chelsea og City eru í hópi þeirra liða sem plokka frá hinum.

  Í mínum huga eru í dag öll lið heims feeder clubs fyrir City, Chelsea, Real, Bayern, Barca og svei mér þá, United og PSG. Aldrei ljósara en þegar að Atletico vinnur spænska titilinn en heldur samt ekki sínum stjörnum…og að Dortmund hefur verið brotið á bak aftur.

  Svo að ég held að það sé raunhæft að við séum að berjast reglulega um þriðja sætið (eða jafnvel það fjórða) á meðan að þetta er staðreyndin…

  …HVAÐ ÞÁ þegar maður skoðar þá staðreynd að það er verið að rannsaka eitt enskt lið fyrir að eyða meiri peningum en það hefur í raun efni á….og það heitir Liverpool FC!!!

 56. Sammála Magga með flest sem hann bendir á. Sérstaklega gagnrýni hans á að menn tali um skyldusigra á útivelli. Það er hrein vitleysa, United hefur unnnið tæplega 30% af útileikjum sínum, Southampton rúmlega 60%, Arsenal tæplega 40%, og Tottenham 50%.

  Sem sýnir okkur að allir útileikir eru hreinlega hörkuleikir og engin af þeim unnin fyrirfram.

 57. Er það nú orðið vitleysa að tala um skyldusigra? Ja hérna, hvert er þessi umræða að fara?

  Ef að Aston Villa sem hefur ekki unnið leik síðan 7.desember og getur ekki skorað er ekki skilgreiningin á skyldusigri þá veit ég ekki hvaða leiki við getum sett þá kröfu á liðið okkar að vinna. Sama má segja um t.d. Sunderland, Burnley o.s.frv. Þau lið sem vinna þessa leiki geta gefið sér smá svigrúm þegar kemur að leikjunum gegn liðunum í kringum okkur í deildinni.

  Auðvitað fögnum við sigri gegn þessum liðum eins og öðrum, það er enginn að tala um þetta sem létta leiki en suma leiki á Liverpool að vinna, sama á við um United og Arsenal. Þau gera það alls ekki alltaf og viðbrögðin eru jafnan lík þeim sem verða á veraldarvefnum kvöldið fyrir heimsendi. Tek fram að ég fer sjaldnast á þann pól að selja verði hinn og þennan og reka stjóran umsvifalaust þegar þessir leikir vinnast ekki, en þetta eru stigin sem skera úr um topp 4 (eða titilinn).

  Brendan Rodgers virðist loksins hafa fundið lausn sem hentar okkar liði og gegnið hefur snarbatnað. Hann fær að sjálfsögðu hrós fyrir það . Maggi talar um að hann hafi kjark til að breyta alveg af leið sem er líka jákvætt og reyndar alls ekkert nýtt, gerðist líka í fyrra. Ef eitthvað er var pirringurinn í byrjun tímabilsins einmitt út í þá miklu breytingu sem hann gerði milli tímabila og hversu lengi hann var að bregðast við þegar þetta var augljóslega ekkert að ganga hjá honum, hvorki í vörn né sókn.

  Ég fór aldrei í þann pakka að vilja hann burt og hafa ekki trú á honum til framtíðar, tók það ítrekað fram en fyrir mér hefur hann að sama skapi ekkert stungið gúrku upp í neinn alveg strax, mögulega gulrót en ég er ekkert kominn á að þetta sér bara komið hjá okkur núna, verð bara áfram svo leiðinlegur/neikvæður. Hann var með svipaðan og á tímabili (í desember) verri árangur en Roy Hodgson í deildinni og liðið féll skammarlega úr leik í Meistaradeildinni. Við munum öll stemminguna hérna með Hodgson við stýrið.

  Byrjun þessa tímabils var hræðileg og hefur ekkert gleymst strax enda liðið ennþá í 8.sæti. Skelfingin í Meistaradeildinni situr síðan ennþá í manni og eins gaman og það er nú að sjá liðið vinna leiki núna og spila annað kerfi þá pirra ég mig ennþá á því að ekki Rodgers hafi ekki brugðist við fyrr, þá bara hvað leikmannaval varðar.

  Það voru ekki margir eftir sem voru ekki að öskra á að taka Lambert úr liðinu, Gerrard sem varnartengiliður var svipað þreytt. Báðir að spila 2-3 leiki á viku á tímabili meðan Lucas var á bekknum eða fyrir framan Gerrard og Borini ekki í hóp.

  Liðið gegn Basel var svona:

  Mignolet

  Johnson – Skrtel – Lovren – Enrique

  Gerrard – Lucas – Allen – Henderson

  Sterling – Lambert

  Bekkur: Jones, Sakho, Moreno, Can, Lallana, Coutinho, Markovic.

  Allir sem voru á bekknum þarna hafa verið lykilmenn í liðinu undanfarið. Sterling fór upp á topp og Lucas í varnartengiliðinn. Það er hægt að fegra þessa skitu með því að tala um reynsluleysi en fyrir mér var Rodgers bara í tómu tjóni í deild og Evrópu allt of lengi og því vel skiljanlegt að maður sé aðeins á jörðinni ennþá þrátt fyrir ágæta sigurleiki undanfarið. Ekki samt snúa þannig út úr að maður hafi ekki fagnað góðum sigri vel í gær.

  Að því sögðu tek ég undir með Magga og fleirum að það er gott að umræðan snúist ekki lengur um Rodgers. Eðlilega fækkar þeim sem vilja losna við hann þegar gengið batnar og persónulega vill ég alls ekki missa hann frá Liverpool og hef aldrei gert. Fannst svakalegt þegar það var komið pressa á hann í desember eftir síðasta tímabil, fyrir mér fær hann þetta tímabil nánast pressulaust eftir það síðasta, hann sýndi þar að hann er sannarlega hæfur og ég treysti ennþá engum betur til að vinna með þennan unga hóp sem er hjá Liverpool núna. Hann fékk ekki beint bestu spilin fyrir þetta mót, marga unga leikmenn sem þarf að slípa saman og missti báða leikmennina sem voru að skora og skapa mörkin í fyrra. Það að ná ekki einu sinni að bæta varnarleikinn með þessum 100m var mest svekkjandi fyrir utan auðvitað hversu vonlausa sóknarmenn keypt var inn í staðin.

 58. Ætla bara ÖLL önnur úrslit helgarinnar að vera gegn okkur? Auðvitað sækir Arsenal sigur á Eithad.

Byrjunarliðið gegn Villa

Er Liverpool ‘seinni helmings’ lið?