Er Liverpool ‘seinni helmings’ lið?

Brendan Rodgers hefur nú verið í starfi knattspyrnustjóra Liverpool í tvö og hálft tímabil. Sá tími hefur ekki gengið átakalaust fyrir sig hjá honum og liði hans. Liðið hefur verið afar kaflaskipt og komið sér oft á tíðum í afar óþægilegar stöður.

Ég ákvað að rýna aðeins í hvert tímabil fyrir sig hjá Rodgers og braut það niður í tvennt. Ég skoðaði gengi liðsins fyrir áramót hverjar leiktíðar og svo eftir áramót.

Ég vildi sjá hvort það væri eitthvað mynstur þarna á milli og reyna að velta því fyrir mér af hverju á því stendur ef það er svo.

Fyrri helmingur fyrsta tímabils Rodgers:

Brendan Rodgers tekur við af Kenny Dalglish sem hafði sumarið áður keypt mikið af leikmönnum til félagsins nokkuð dýrum dómi, vann Deildarbikarinn og komst í úrslit FA-bikarsins en gengi Liverpool í deildinni þótti ekki nógu gott. Stjórnendur Liverpool ákváðu að láta Dalglish fara og yngja upp. Eftir ítarlegar viðræður við nokkra stjóra varð ljóst að Brendan Rodgers, sem hafði heillað mikið með Swansea í Úrvalsdeildinni, varð fyrir valinu.

Rodgers kemur inn með orðspor á sér að vilja spila boltanum, láta hann ganga mikið á milli sinna manna í þolinmóðum sóknarfótbolta. Tiki-taka, death by football og allt það. Miðjumaðurinn Joe Allen og sóknarmaðurinn Fabio Borini höfðu báðir starfað með Rodgers hjá Swansea og fékk hann þá báða með sér til Liverpool og þeir kostuðu ágætan pening. Oussama Assaidi kom upp úr þurru, enginn hafði heyrt um hann áður – örugglega ekki neinn hjá Liverpool heldur – og Nuri Sahin kom á láni. Rodgers reyndi að fá Gylfa Sigurðsson með sér til Liverpool, en hann vann líka með honum hjá Swansea og sömuleiðis Reading en af því varð ekki og hann fór til Tottenham.

Það sem einkenndi þetta sumar var framherja skortur. Luis Suarez þótti ekki gífurlegur markaskorari og bara einhver ellefu deildarmörk tímabilið áður, Borini kom inn sem efnilegur ítalskur framherji sem ólst upp hjá Chelsea, spilaði glimrandi vel með Swansea í 1.deildinni og stóð sig feykivel hjá Roma. Andy Carroll var greint frá því að hann væri ekki í plönum Brendan Rodgers. Liverpool ákvað að lána hann til West Ham, sem var svo sem ekkert að allt þar til að í ljós kom að Liverpool tækist ekki að fá neinn annan framherja í staðinn.

Liðið hafði reynt að fá Daniel Sturridge frá Chelsea en kaupverðið þótti of hátt og einhver tregi var á lánssamning. Þá snéri Rodgers sér að Clint Dempsey, þáverandi sóknarmanni Fulham, sem hafði farið mikinn leiktíðina áður og skorað vel af mörkum. Liverpool bauð jafnvel Henderson í skiptum fyrir Dempsey en ekkert varð af því og hann fór til Tottenham.

Stuðningsmenn Liverpool voru því hinir örgustu út í stjórnendur og eigendur félagsins að skilja þá eftir með svona litla breidd í sóknarlínunni. Suarez sem skoraði ekki nóg leiktíðina áður og óskrifað blað Borini voru, ásamt Downing sem hvorki skoraði né lagði upp mark leiktíðina áður, voru ásarnir í sóknarlínu Liverpool. Svakalega spennandi. Ekki hjálpaði til að Borini meiddist snemma og lék lítið á leiktíðinni.

Tímabilið byrjaði nú ekkert brjálað merkilega. Liverpool tapaði mörgum stigum í upphafi leiktíðar. Liðið tapaði sex leikjum, vann sjö og gerði sjö jafntefli. Enduðu árið 2012 með 28 stig af 60 mögulegum. Liðið skoraði 28 mörk en fékk á sig 24 mörk og endaði með +4 í markatölu um áramótin 12/13. Liverpool vann aðeins á yfir miðjan þennan kafla en endaði árið á tveimur sannfærandi sigrum og tveimur stórum töpum.

Liðið gerði jafntefli við Everton, Man City og Chelsea en tapaði gegn Arsenal, Man Utd og Tottenham. Liðið bara small ekki nógu vel saman á þessum kafla og þurfti Rodgers og félagar að taka til sinna mála.

Eftir kaup á Sturridge og Coutinho…

Í janúar 2013 keypti Liverpool loks Daniel Sturridge frá Chelsea og Philippe Coutinho frá Inter Milan á samanlagðar 20 milljónir punda. Hvorugur leikmaðurinn hafði átt fast sæti hjá sínum liðum áður en Liverpool keypti þá til sín en hæfileikar þessara stráka leyndu sér ekki. Varnargrunnur Liverpool á fyrri hlutanum var ágætur, liðið hélt boltanum fínt en eins og við var að búast vantaði upp á markaskorun. Nuri Sahin var sendur aftur frá lánssamningi sínum til Real Madrid sem lánuðu hann strax aftur til síns gamla félags Dortmund.

Coutinho og Sturridge smella eins og flís við rass í þetta Liverpool lið og taka sóknarleik þess í nýjar hæðir miðað við fyrri helming leiktíðar. Sturridge kemur inn og skorar tíu mörk en Coutinho skorar þrjú og leggur upp slatta. Þetta losaði sömuleiðis um Luis Suarez sem skoraði 12 deildarmörkum meira en leiktíðina áður og endaði með 23 deildarmörk. Ásamt því að Gerrard, Downing og Henderson skoruðu meira.

Þarna færðist meira jafnvægi í leik Liverpool sem gátu haldið boltanum áfram ágætlega, voru nokkuð þéttir til baka en fóru nú að skora fleiri mörk. Liðið vann níu leiki, gerði sex jafntefli og tapaði aðeins þremur á seinni helmingi leiktíðarinnar. Liðið skoraði 40 mörk og fengu aðeins á sig 17 mörk. 33 stig af 54 mögulegum fengin og +23 í markatölu á seinni hluta leiktíðar.

Luis Suarez nældi sér í bann fyrir að bíta Branislav Ivanovic og fékk tíu leikja bann fyrir sem hann byrjaði að sitja af sér undir lok þessarar leiktíðar en þurfti að hefja næstu leiktíð líka í banni.

Upphaf tímabils tvö

Liverpool keypti mikið um sumarið. Jamie Carragher lagði skóna á hilluna og Liverpool fékk til sín Sakho og Toure til að leysa hann af í miðverðinum. Mignolet var fenginn til að taka stöðu Jose Reina í markinu. Iago Aspas, Victor Moses og Luis Alberto voru fengnir til að auka breiddina í sóknarlínunni. Þeir voru nú ekki atkvæðamiklir fyrir Liverpool en það slapp í þetta skiptið. Downing og Andy Carroll voru báðir seldir um sumarið.

Liverpool var sagt hafa reynt mikið að fá leikmenn eins og Diego Costa, Willian og Henrik Mkhitaryan sem allir féllu einhvern veginn úr höndum þeirra og var mikið áhyggjuefni að liðið hefði ekki verið styrkt nægilega mikið fyrir komandi leiktíð.

Tímabilið byrjaði þokkalega, Liverpool byrjaði á þremur sigrum í röð og hélt áfram að næla í stig. Spilamennskan samt lengi vel ekki sannfærandi, liðið virkar á köflum hálf þreytt og liðið fékk á sig stimpil fyrir að vera fyrri hálfleiks lið. Liðið náði oft tökum á leikjum í fyrri hálfleik en missti það svo niður í seinni. Liðið vann 11 leiki á þessum helmingi en tapaði fimm leikjum, þrír af þeim leikjum voru gegn Arsenal, Man City og Chelsea. Liðið vann aftur á móti Tottenham og Man Utd. Ákveðið munstur fram að því var að Liverpool gekk brösulega að vinna rival liðin undir stjórn Rodgers.

Liðið gerði þrjú jafntefli sem súmmerar nokkuð ágætlega upp hvað var í vændum. Liðið gerði þrjú jafntefli á fyrri helmingi leiktíðarinnar. Tvö þeirra voru 2-2 jafntefli en hitt var 3-3. Liðinu gekk brösulega að halda hreinu og voru að leka óþarfa mörkum.

Liðið fékk 36 stig af 57 mögulegum á þessum kafla. Skoraði 44 mörk og fékk á sig 19 stykki. Ekkert amalegt og Liverpool var í bílstjórasætinu í baráttunni um 4.sætið sem var það sem við töldum raunhæfa baráttu fyrir liðið á þessum tímapunkti.

Suarez byrjaði leiktíðina í banni og missti af einhverjum fimm eða sex leikjum í upphafi leiktíðar og steig Sturridge upp á meðan. Sá síðarnefndi lenti svo í smá meiðslum eftir að Suarez kom í gang aftur og þá tók Suarez við keflinu.

Flóðgáttirnar opnast á seinni hluta tímabils tvö

Liverpool var loksins í alvöru séns á að tryggja sér þátttökurétt í Meistaradeild Evrópu á miðrir leiktíð. Þarna vildu stuðningsmenn sjá félagið láta kné fylgja kviði og styrkja liðið í janúar til að geta tryggt þátttökuréttin.

Liverpool fór í viðræður við Yevhen Konoplyanka, kantmann Dnipro í Úkraínu, en erfiður eigandi Dnipro var til þess að ekkert varð af þeim félagsskiptum og Liverpool gerði ekkert í glugganum. Margir stuðningsmenn vildu fá kantmann og varnartengilið í liðið en svo varð ekki.

Brendan Rodgers tók sér þá til og róteraði aðeins í liði sínu og uppstillingu þess. Gerrard færðist aftar á völlinn og varð nokkurs konar varnartengiliður/djúpur leikstjórnandi, Coutinho lék á miðri miðjunni og Sterling fór að spila á milli Sturridge og Suarez í holunni á demantsmiðju.

Þetta leikkerfi virtist svínvirka og Liverpool léku á alls oddi. Hápressa, hratt og hugmyndaríkt spil og bráðskemmtilegur og effektívur sóknarleikur með Suarez og Sturridge í fararbroddi fór með Liverpool langleiðina að titlinum en ekki alla leið.

Liðið vann 15 leiki, gerði þrjú jafntefli og tapaði einum leik – sá leikur kom í apríl – og fékk 48 stig af 57 mögulegum sem er frábær árangur en því miður ekki nóg. Liðið skoraði 57 mörk á þessum tíma og fékk á sig 25 mörk. +32 mörk. Fleiri mörk skoruð en líka fleiri fengin á sig, Fullt af öþarfa mörkum sem liðið fékk á sig, sbr. leiki gegn Stoke, Villa, Fulham, Swansea, Cardiff og Palace þar sem liðið fékk á sig 2-3 mörk í hverjum leik.

Fyrri hluti tímabils þrjú

Liverpool loksins komið í Meistaradeildina en stór svartur blettur á sumarinu sem leið var að Luis Suarez beit aftur leikmann á HM í Brasilíu og fékk langt bann frá allri knattspyrnuiðkun. Liverpool var því komið í afar óþægilega stöðu, þeirra besti leikmaður mátti ekki spila fram í nóvember og enn voru spænsku risarnir á banka á dyrnar hjá þeim og vildu fá Úrúgvæann í sínar raðir.

Það endaði svo að Barcelona greiddi Liverpool 75 milljónir punda fyrir Suarez, sem var klásúla í samningi hans og Liverpool, og var Rodgers og hans teymi komið með helling af pening til að kaupa fyrir en risa skarð sem þurfti að fylla upp í.

Alexis Sanchez, fyrrum leikmaður Barcelona og núverandi leikmaður Arsenal, var eyrnamerktur sem arftaki Luis Suarez en ekki varð af því og hann fór til Lundúna. Wilfried Bony var annað nafn sem var talið mjög líklegt en heildarpakki hans þótti of dýr, Loic Remy var langt á leið kominn með að vera leikmaður Liverpool en féll á læknisskoðun og Liverpool endaði á að kaupa Mario Balotelli rétt fyrir lok gluggans. Liverpool fengu mikla gagnrýni fyrir það að hafa ekki brugðist nógu hratt og skipulagt við brottför Suarez og enda á að taka séns á einu mesta wildcard-i knattspyrnunar.

Ásamt Balotelli komu þeir Rickie Lambert, Dejan Lovren og Adam Lallana frá Southampton, Lazar Markovic kom frá Benfica, Emre Can kom frá Leverkusen og Javier Manquillo og Alberto Moreno komu frá Atletico Madrid og Sevilla.

Breiddin orðin töluvert meiri en leiktíðina áður en spurningamerki var hvort að Liverpool hefði náð að fylla skarð Luis Suarez í liðinu. Svarið hingað til er nei.

Daniel Sturridge meiddist í þriðja leik í vetur og hefur ekki verið með síðan, Raheem Sterling hefur þurft að bera sóknarleik liðsins að mestu leiti á herðum sér og Balotelli, Lambert og Borini hafa eitt deildarmark á baki sér á þessum kafla. Alls ekki gott.

Liverpool vann átta leiki, tapaði sjö og gerði fjögur jafntefli. 28 stig af 57 mögulegum. +4 mörk, 26 skoruð en 22 fengin á sig. Ekkert sérlega gott. Mikið af töpuðum stigum á heimavelli og óþarfa töp gegn liðum eins og Newcastle, Palace, Villa og West Ham er nokkuð slæmt.

Seinni hluti tímabils þrjú, hingað til

Það er nú ekki langt liðið á seinni helmingin en hingað virðist liðið byggja á því sem var að skila jákvæðum afköstum rétt fyrir áramótin. Liðið er nú með sjö stig af níu mögulegum, haldið hreinu tvo leiki í röð og voru algjörir klaufar að missa tveggja marka forystu gegn Leicester niður í jafntefli.

Rodgers, líkt og á síðustu leiktíð, hróflaði í leikskipulagi sínu. Hann setti upp þriggja manna varnarlínu og setti Emre Can í vörnina með Skrtel og Sakho, Sterling fór upp á toppinn og Gerrard, Coutinho og Lallana fóru að spila fyrir aftan Sterling til skiptis og leikmenn eins og Markovic og Moreno fundu taktinn í bakvarðarstöðunni og hafa verið mjög flottir eftir áramót. Nú styttist í að Sturridge komi aftur og spurning hvort að Liverpool nái þá enn meira flugi.

Samantekt

Maður fær nokkuð skýrt svar við spurningunum í upphafi. Er Liverpool betra á seinni hluta leiktíða en þeim fyrri? Það virðist vera, já.

Það virðist vera ákveðið mynstur í liðinu undir stjórn Brendan Rodgers en liðið virðist þurfa alltaf smá tíma til að aðlaga sig saman og ná upp jafnvægi í spilamennskuna. Einnig sem menn virðast hálf þróttlausir og hlaupa minna í fyrri hluta leiktíðar en í þeim seinni.

Er Liverpool að kaupa kannski of mikið af leikmönnum á hverju ári sem eiga að fara beint í byrjunarliðið en enda á að þurfa aðlögunartíma? Sjá fyrsta árið með Allen og Borini (ofan í alla aðra sem voru að læra áherslur Rodgers), annað árið koma margir leikmenn sem þurfa aðlögun og það sama má segja um tímabilið í ár.

Er æfingaprógram Liverpool að skila sér þannig að leikmenn eru stirðbusalegir í upphafi en þeir detta í hámarksform þegar hin liðin eru farin að þreytast? Eru æfingarnar kannski of stífar í upphafi leiktíðar og verða vægari þegar líður á?

Er Liverpool kannski bara hreint og beint seinni helmingslið. Jafnvel á annari leiktíð Rodgers þegar liðið var í titilbaráttu þá var frammistaðan á fyrri helmingi leiktíðar og þeim seinni gjörólíkar.

Þarf Brendan Rodgers að finna lausn á þessu? Það virðist sem að Liverpool komi sér oftar en ekki í óþægilega stöðu með slakri byrjun og enda í meiri pressu og nauðsyn við að ná að rétta úr kútnum þegar líður á. Alltaf spurning hvort það sé þá ekki bara orðið of seint þegar liðið hrekkur í gang.

Öll þrjú tímabilin hefur Rodgers gert talsverðar breytingar á sinni nálgun eða uppstillingu liðsins í kringum áramótin. Fyrstu leiktíðina fær hann Coutinho og Sturridge til að bæta hraða og krafti í sóknarleikinn, í fyrra nær hann að finna leið til að ná sem mestu út úr Sturridge, Suarez, Coutinho, Sterling og Gerrard i sama liðinu og í ár virðist hann vera á góðri leið með að ná að rétta úr kútnum með því að breyta áherslum liðsins. Er hann kannski að grípa í taumana of seint?

Kannski er þetta gripið í lausu lofti og er algjör tilviljun en það lítur þannig út að Liverpool er seinni helmings lið undir stjórn Rodgers. Það verður því áhugavert að vita hvort það verði raunin aftur í ár. Við erum rétt við 4.sætið í dag, getum við náð því eða er það orðið alltof seint.

Sjáum til.

17 Comments

  1. Flottur pistill.
    Ég held að þetta sé nokkuð rétt:
    “Er Liverpool að kaupa kannski of mikið af leikmönnum á hverju ári sem eiga að fara beint í byrjunarliðið en enda á að þurfa aðlögunartíma?”

    Þetta mun auðvitað ekki alltaf verða svona í framtíðinni, við erum að verða komnir með flottan hóp til framtíðar, en einn og einn leikmaður mun samt alltaf detta út og annar inn.

    Við þurfum að fá nýjan striker þar sem það er morgunljóst að ekki er hægt að treysta á Sturrige. En það er líklega ekki að fara að gerast í þessum janúarglugga nema Origi komi inn.

    Tippa á að næsta season verði jafnara hjá okkar mönnum 🙂

  2. Ég held að hann komi til með að vera með hörkulið á næsta tímabili því þá mun liðið spila vel báða hluta tímabilsins. Þetta segi ég með þeim fyrirvara að hann nái að halda mannskapnum og hann haldi áfram að spila sig saman.

  3. Góður pistill

    Er ekki kjarni máls að það tekur tíma að byggja upp nýtt lið. Rodgers var fenginn til að byggja upp nýtt lið samkvæmt hugmyndafræði nýrra eiganda. Það þýddi ekki einungis að nýjir leikmennn eru keyptir heldu seldi hann nokkurn veginn alla lykilleikmennina.

    Einu leikmennirnir sem eru eftir eru; Gerrard, Johnson, Skrtel, Enrique, Henderson og Lucas.

    Næsta haust verða væntanlega bara Henderson og Skrtel eftir.

    Það væri fróðlegt að skoða hvernig leikmannaveltan er hjá Arsenal, Mancesterliðunum og Chelsea. Mér sýnist að breytingarnar hjá okkur hafi verið mun meiri.

    Lið sem vilja vera í toppbaráttu og í meistaradeild verða að hafa í það minnsta tvo svipað góða í hverri stöðu og Liverpool hefur verið langt frá því. Síðasta tímabil var ótrúlegt því félagið náðri öðru sæti með 13-14 leikmönnum. Það á ekki að vera hægt.

    Munurinn á okkar liði og Chelski og MC sást best um jólin 2013 þegar bornir eru saman bekkirnir í leikjum liðanna. Við vorum með Smith! Þeir með leikmenn sem kostuðu gríðarlega fjármuni.

    Það er bæði klént og pirrandi en staðreyndin er að við verðum að sýna þolinmæði. Það er ekki einu sinn hægt að fara sömu leið og eigendur Chelsea og MC fóru vegna FFP reglnanna.

    Við verðum t.d. að stækka leikvanginn til að eiga möguleika á að eyða meiru í leikmenn.

    Það er gríðarlega mikilvægt að ná meistaradeildarsæti og það er mögulegt. Allt annað er bónus.

    Það jákvæðasta núna er að við erum með mjög sterkan hóp ungra góðra leikmanna,

    Flanagan, Moreno, Markovic, Sterling, Ibe, Borini, Origi, Can. Allt leikmenn öðru hvoru megin við tvítugt.

    Henderson, Sakho, Balotelli, Mignolet 24- 26 ára.

    Framtíðin er björt 🙂

    YNWA

  4. Algerlega sammála Guðlaugi Þór, segir það sem ég vildi segja og óþarfi að endurtaka það…sérstaklega góður punktur hjá honum um FFP þar sem staðan er sú að við erum vissulega í betri málum en Everton, Newcastle og Aston Villa en langt á eftir United (völlur og söluvarningur munurinn þar), Chelsea og City (sykurpabbar sem breyta skuldum í hlutafé og “rigga” auglýsingasamninga frá flugfélögum og gasorkufyrirtækjum), að missa af Arsenal en á sömu vegferð og Tottenham varðandi það að stækka budduna með leikvelli.

    Sem mun þýða að við getum ekki einbeitt okkur algerlega að leikmannakaupum nú um sinn, því völlurinn kostar jú!

    Svo er ég algerlega sammála því þegar hann bendir okkur á um bjarta framtíð!

    😉

  5. Flottar pælingar Óli.

    Guðlaugur Þór neglir þetta mjög vel fyrir mér og það er vert að skoða hvernig þetta hefur verið hjá keppinautum Liverpool síðan Rodgers tók við. Ekki að árangur Liverpool hafi verið eitthvað betri hjá þeim sem voru að stýra Liverpool 3-4 árin áður en Rodgers tók við og það var sannarlega kominn tími á endurnýjun og nýja hugsun. Fyrir utan Suarez eru ekki margir sem maður saknar af þeim sem hafa farið undanfarin ár.

    Hef komið inn á það áður að þetta Liverpool lið núna er líklega það efnilegasta sem ég man eftir og ef meðalaldurinn er skoðaður (sjá Nr.3) getur ekki komið á óvart að liðið sé óstöðugt á köflum. Mest spennandi næstu ár verður að sjá hvernig okkur helst á þessum mönnum sem eru að taka út þroska hjá Liverpool núna. Gagnslaust að láta unga menn taka út öll mistökin áður en þeir spila svo sem heimsklassa menn hjá öðrum liðum.

    Suarez er aðeins sérstakt tilvilk að mínu mati enda ótrúlegur farangur sem honum fylgdi en ef við ætlum að selja menn fyrir svona pening verður að nota peninginn vel sem fæst fyrir hann. Núna þurfti að styrkja margar stöður og að mörgu leiti var þetta vel gert en næst þegar við seljum leikmann fyrir svona fjárhæðir verður vonandi hægt að nota peninginn í annan af svipuðu kaliberi í það sár sem stjarnan skilur eftir sig. Sala á Suarez og fá í staðin Balotelli og Lambert má aldrei gerast aftur. Can, Moreno, Markovic, Manquillo og Origi gætu samanlagt (með tímanum) látið þessi skipti hljóma mun betur en þau hafa gert í vetur. Sama svosem hægt að segja um Lallana, Lovren og Balotelli sem þó voru meira keyptir sem leikmenn sem væru tilbúnir strax.

    Hvort sem það tókst eða ekki var hugmyndin í sumar að styrkja þær stöður þar sem liðið var veikast.

  6. Fín pæling.

    Já framtíðin er björt með þessa ungu stráka en það gæti einmitt komið okkur í koll að byrja alltaf svona illa. Bara það að við missum af meistaradeildarsæti gæti orðið til þess að ungu drengirnir taka út þroska hjá okkur og verða svo seldir þegar þeir verða heimsklassa leikmenn.Þess vegna verður BR að finna lausn á þessu.
    Ekki það að hann fær bara næsta tímabil ef hann nær ekki eitt af fjórum efstu sætum þá.

  7. 1. tímabil Rodgers þá vorum við betri seinni helminginn, enda getum við ekki sagt að hann hafi verið með neitt sérstaklega merkilegann hóp undir höndunum (miðað við síðustu tímabil).

    2. tímabil þá klikkaði allt einhvernveginn hvað varðar leikmannakaup (allavega helstu skotmörk) en miðað við hópinn sem við vorum með get ég ekki kvartað mikið og síðari hlutinn small allt sem smollið gat.

    3. tímabil missum við Suarez endanlega og Sturridge í meiðsli, fáum helling af ungum leikmönnum sem eiga að vera/verða góðir en tekur einfaldlega tíma til að aðlagast (getur við hluti af því að það virðist taka tíma hjá öllum leikmönnum að hrökkva í gang í upphafi leiktíðar).

    Vissulega eru greinilega merki þess að það virðist taka menn dáldinn tíma að hrökkva í gírinn í upphafi hvers tímabils, en að mínu mati er ekki hægt að leggja dóm á það fyrr en við erum komnir með stöðugann hóp sem eru búnir að spila sig saman og breytingar ekki miklar yfir sumarið. Verðum að viðurkenna að það var undarlegur árangurinn sem við náðum á síðasta tímabili, alveg sama þó við værum með Sturridge og Suarez, en okkar besta upphaf tímabils var líka í fyrra, en þá var líka minnsta breyting á hópnum yfir sumarið (enda gekk ekkert upp varðandi aðalskotmörk).

    Eða er ég að rugla hvað varðar leikmannakaup sumranna? Þetta er allavega eins og mig minnir 😉

  8. Sammála fólki með efniviðinn hjá Liverpool

    Liverpool hefur ekki átt í háa herrans tíð jafnmikið af góðum leikmönnum eins og núna:

    Sterling, E.Can, Coutinho, Flanagan, Markovic….þetta eru allt orðnir lykilmenn hjá liðinu og fyrirliðinn Henderson er ekki beinlínis gráhærður.

    Sakho er byrjaður að taka til sín í vörninni og ef tekst að búa til góða vörn og markvörslu þá er Liverpool á leið í toppbaráttuna.

    En nr. 1 næsta sumar er náttúrulega að setja allt púður í markaskorara. Þurfum engin stórkaup heldur bara einn “proven” sem kostar örugglega Andy Carrol pening. Það hefur sýnt sig bæði hjá Liverpool í ár og hjá t.d. Chelsea í fyrra að þetta er sennilega mikilvægasta staðan á vellinum.

  9. Ég myndi nú ekki slá hendi á móti að hafa einn Big Andy í liðinu ennþá

  10. Það verður nú að segjast að prógrammið sem er framundan hjá okkar mönnum er nú ekki af ódýrari gerðinni.
    Fyrir utan bikarleikina þá eru þetta næstu leikir Liverpool í deildinni:

    Jan-feb
    West Ham-H
    Everton-Ú
    Tottenham-H
    Southampton-Ú

    Mars:
    Man City-H

    Sem sagt, að Everton frátöldum þá eru þetta allt leikir á móti liðum sem eru fyrir ofan Liverpool í deildinni í dag.
    Margir “sex stiga” leikir.

    Úff, eins gott að Sturrige er væntanlegur, vonandi 🙂

  11. Þessi fagnaðarlæti voru satt að segja alveg mögnuð. Gaman að sjá ástríðuna í mönnum.

  12. heldur betur svo er verið að tala um að lucas sé ekki ánægður hjá liverpool, hef aldrei séð lucas í jafn ósviknari gleði á ævinni :). En þið miklu meistarar á kop eruði með einhvern hugsanlegan tíma á næsta podcasti ?

  13. Daginn Heiðursfólk.
    Hef aðeins verið að velta fyrir mèr hvernig það má vera að öll lið viti hvernig eigi að mæta okkur í upphafi leiktíðar. Þetta er einhvern veginn eins og þegar nýliðar mæta í deildina á haustin, taka sigra hér og þar fram að jólum svo búmm, búið, menn fara að sjá í gegnum þetta hjá þeim í bland við þreytu. Núna vonar maður bara að Rodgers finni einhverja taktík sem heldur, hún má alveg vera 3-5-2 eða eitthvað eins lengi og titlar skili sér og skemmtilegur bolti er við völd.
    Menn voru eitthvað hér fyrir ofan að tala um kaup LFC á tilbúnum leikmönnum þ.e.a.s Lovren, Balo og Lallana þetta tímabil. Kaupin á Bolo náttúrulega rugl, Lallana verður aldrei nema Squad player ( afsakið slettuna) sem ekki er hægt að treysta frekar Sturridge (meiðslapésar). Þá að Lovren ég held að þessi maður hafi miklu, miklu meira fram að færa, gaurinn átti kannski ekki drauma byrjun en hann var búinn að sýna góða takta áður og ekki keyptur sem eitthvað óþekkt nr. Öfustu fimm eru búnir að vera í ruglinu fyrrihluta tímabils, þá allir sem þar hafa spilað, en Mignolet er farin að vaxa í sjálfstrausti og það mun Lovren gera líka og við munum sjá hann innan tíðar og á hann eftir að verða klettur hjá okkur á komandi árum. Gefum honum séns eins og Hendó, Lucas.

Aston Villa 0 Liverpool 2

Kop.is Podcast #75 & Chelsea-upphitun