Middlesbrough í Capital One Cup á þriðjudag

Liverpool tekur á móti Middlesbrough í þriðju umferð Capital One bikarsins á þriðjudagskvöld og hefjast leikar kl. 18:45. Þetta er fínt tækifæri til þess að koma West Ham leiknum úr kerfinu, ná í smá leikæfingu og gott tækifæri fyrir ákveðna leikmenn til þess að stimpla sig inn fyrir nágrannaslaginn um helgina.

Capital banner

Árangurinn rýr

Liverpool liðið hefur ekki farið langt í bikarkeppnunum s.l. tvö ár, eða síðan Brendan Rodgers tók við. Við höfum fallið úr leik í þriðju umferð í bæði skiptin í deildarbikarnum. Töpuðum í fyrra 1-0 gegn United á Old Trafford þar sem að við fengum mark á okkur eftir hornspyrnu (SHOCKING!). Árið áður var tapið öllu verra, 1-3 á Anfield gegn Swansea þar sem að fyrsta markið kom eftir horn (það er ekki hægt að skálda svona) en hin tvö eftir skyndisóknir.

Árangurinn í FA-bikarnum hefur verið litlu skárri, náðum í 16 liða úrslit á síðasta tímabili, töpuðum þá 2-1 á Emirates þar sem að fyrra mark Arsenal kom í kjölfarið á hornspyrnu og Podolski tvöfaldaði svo forystuna áður en Gerrard minnkaði muninn. En á fyrsta tímabili Rodgers þá féllum við úr leik í 32 liða úrslitum gegn stórliði Oldham, 3-2, eftir tvö skallamörk heimamanna.

Ef sagan kennir okkur eitthvað þá er það líklega að fá ekki á okkur horn 🙂

Sýnd veiði en ekki gefin

Middlesbrough situr í fimmta sæti Championship deildarinnar eftir 8. leiki með 5 sigra og 3 töp. Þeir eru að spila í fyrsta sinn í sinni 138 ára sögu undir stjórn þjálfara sem ekki er enskur eða skoskur. Kauði heitir Aitor Karanka , er spænskur og er fyrrum aðstoðarstjóri Móra hjá Real Madrid.

Middlesbrough eru að koma inn í þennan leik eftir góðan 4-0 sigur gegn Brentford og hafa þeir því unnið þrjá leiki í röð eftir erfiða byrjun.

Fyrrum Sunderland maðurinn, Grant Leadbitter, er þeirra markahæsti leikmaður með sex mörk í tíu leikjum og er því búinn að jafna sitt besta tímabil í treyju Boro (sex mörk 2013/14 og fjögur 2012/13), en þar á eftir kemur fyrrum Real Madrid leikmaðurinn (sem aldrei lék þó leik með aðalliðinu) Kike með fjögur.

Annars ætla ég ekki að þykjast vita mikið um Middlesbrough. Við höfum hvorki efni á að vera með eitthvað vanmat né getum við falið okkur á bakvið lítinn hóp þetta árið þannig að okkar áhersla og fókus á að vera á okkur sjálfa. Hvernig við ætlum að koma inn í þennan leik og vinna hann.

Okkar menn

Ég man ekki eftir því að Liverpool hafi getað stillt upp jafn sterku „varaliði“, ef varalið skal kalla. Við erum með þó nokkra leikmenn sem þurfa að fá mínútur og sjálfstraust og ættum við að geta stillt upp nokkuð sterku liði á þriðjudaginn þrátt fyrir að við séum í bölvuðum vandræðum á miðjusvæðinu með Henderson, Coutinho, Allen og Can alla frá vegna meiðsla (!).

Það er nágrannaslagur um næstu helgi og sé ég ekki að Rodgers taki sénsinn á leikmönnum eins og Lovren, Skrtel, Gerrard, Balotelli og Sturridge. Það er auðvitað smá séns að hann láti Gerrard spila vegna manneklu. Ég vona samt að hann fari aðra leið, gefi Rossiter sénsinn á miðri miðjunni með Suso eða Lallana sér við hlið.

Rodgers getur að mínu mati bæði farið í tígulmiðju með þá Borini og Lambert frammi eða skipt Borini út fyrir Sterling/Suso og farið í 4-2-3-1. Ég ætla þó að skjóta á fyrri kostinn, þ.e. að hann stilli upp nokkurskonar 4-1-2-1-2 með Lazar Markovic að styðja við þá Borini og Lambert.

Liðið4

Þarna set ég Sakho og Toure saman í vörnina einfaldlega vegna þess að ég tel að þeir spili ekki gegn Everton. Manquillo fær ekki frí þar sem að hinir hægri bakverðirnir okkar eru meiddir (spilaði auðvitað bara 20 min gegn West Ham). Enrique fær loksins einhverjar mínútur (sé þær samt ekki verða margar í vetur utan bikarkeppna). Lucas er á miðjunni með Rossiter og Lallana. Það er nú þegar búið að gefa út að Lambert spili og Lazar vantar mínútur – það er helst spurning um Sterling, Suso og Borini að mínu mati, ég spái því samt að Sterling verði hvíldur og Borini byrji annan leikinn í röð. Suso gæti auðvitað spilað í stað Lallana en ég efast samt um að Rodgers láti Suso og Rossiter báða byrja.

Pælingar og spá

Ég vil ekki bara fá sigur, ég er vil líka sjá góða spilamennsku. Auðvitað er Middlesbrough lið sem við ættum alltaf að vinna, jafnvel þó að við stillum ekki upp okkar sterkasta liði. Hópurinn hjá okkur er það stór að ef ofangreint lið verður raunin á þriðjudag þá erum við að tala um a.m.k. sex landsliðsmenn og góða blöndu af ungum og reynslumeiri leikmönnum.

Bikarinn er aftur á móti skemmtilegur og form og staða í deild fer út um gluggann þegar flautað er til leiks. Leikmenn Boro hafa engu að tapa og ég neita að trúa því að leikmenn í okkar röðum, sérstaklega þeir sem eru að reyna að spila sig í liðið, leyfi einhverju vanmati að komast að í hausnum á sér. Það ætti nú bara að vera nóg að sýna þeim stöðuna í deildinni til þess að tryggja að svo sé ekki.

Við verðum samt að rótera liðinu því eftir Everton leikinn um næstu helgi er mikilvægur útileikur í Sviss gegn Basel. Við förum því ekki aftur í þann pakka að láta Gerrard spila þrjá leiki á viku, bara plís ekki. Ef ég mætti velja einn sigur í þessum þremur leikjum þá væri það alltaf í deildinni gegn Everton, deildin er og á að vera forgangsatriði.

Byrjunin hjá okkar mönnum hefur verið brösótt og vantar allt flæði í leik okkar. Það sem er verra er að jafnvel þó að sóknin sé döpur þá er vörnin enn verri og miðjan ekki til staðar, það er eitthvað sem verður að ráða bót á. Eins og Babu orðaði svo vel, það er ekki hægt að vinna titlana á haustinn en það er svo sannarlega hægt að tapa þeim. Það eru engar afsakanir lengur, hópurinn er það stór að við eigum að geta gert atlögu á öllum vígstöðum og að vissu leiti þá þarf klúbburinn, leikmennirnir og þjálfarinn á því að halda að við förum að vinna til verðlauna. Jafnvel þó það sé „bara“ Carling Cup.

Ég ætla að spá okkur 3-1 sigri í skemmtilegum leik þar sem að Lambert skorar sitt fyrsta mark fyrir klúbbinn og Markovic og Borini skora sitt markið hvor.

Koma svo!

YNWA

28 Comments

 1. Vonandi sýna menn úr hverju þeir eru gerðir. Tækifæri fyrir Lambert, Lallana, Markovic að sýna hvað þeir geta. Reikna samt allt eins með því að sjá Cameron Brannagan í byrjunarliðinu eins og Jordan Rossiter. Vona að a.m.k. annar þeirra fái sénsinn – þetta er keppni ungu strákanna.

 2. Með þétt á milli leikja þá væri ekki mikill missir þó okkar menn myndu detta út nú og minnka álagið aðeins. Held satt best að segja er tíminn sem færi í að spila í þessari keppni væri líklega best varið á Melwood. Það myndi fá mannskapinn til að ná enn betur saman, eitthvað sem nýtist í báðum deildunum sem við spilum í.

 3. Held það sé nokkuð ljóst að ef Suso er ekki að fara að fá séns í þessum leik, þá getum við kvatt hann bless. Veit ekki alveg hvað mér á að finnast um það. Kannski er Rossiter bara betri.

 4. Takk fyrir góða upphitun. Vona að Suso fái séns í byrjunarliðinu á morgun.

 5. Eg held og vona að vid sjaum tessa uppstillingu
  Jones
  Manquillo Toure Sakho Enrique
  Lucas Rossiter
  Suso
  Markovic Lambert Lallana

 6. Ég ætla að vera kolsvartsýnn og spá því að Boro flengi okkur beint útúr þessari keppni. Jinx or not þá erum við búnir að Tottenham á okkur. Í forrétt vil ég samt fá sokk og hatt í aðalrétt!

 7. boro búnir að vera sprækir og hafa verið að setja 4 mörk i leik held þetta fari i vító er ekki annars framlengt i þessum bikar?

 8. Suzo hlytur að fa að spila þennan leik, annars er er andskotans sama hvernir spila þennan leik eg vil bara fa þokkalega spilamensku og nokkur mörk.

  Spai samt að þetta verði hörkuleikur sem við klarum i framlengingu eða vitakepppni.

 9. æji mikið væri nú hressandi að sjá alvöru spilamennsku í kvöld. En …. er Lambert ekki búinn að setj’ann fyrir okkur? Kom ekki sona sárabótamark frá honum gegn City?

 10. mjög einfalt.. þegar LFC hefur spilað með einhver málamyndunarlið, þá töpum við.
  Til að öðlast stöðugleika á að spila með sterkasta liðið. Ekkert væl – KOMA SVO !

 11. Flott viðtal við Lambert, fyrir þá sem eru með aðganginn að opinberu.

  http://www.liverpoolfc.com/video/off-the-pitch/interviews#19263

  Klárt mál að klúbburinn hefur sett stefnu á að fara langt í bikarkeppnununum og það gleður mig afskaplega, veit ekkert skemmtilegra en að fagna því þegar fyrirliðinn okkar lyftir bikar upp í loft. Táraðist þegar við unnum Carling Cup í vító á móti Cardiff…

  Treysti á sigur okkar manna…

 12. Finnst þetta lið sem Eyþór setur upp afskaplega líklegt til þess að byrja þennan leik.
  Eins og fleiri hafa sagt hérna fyrir ofan, spurning með Suso….ætli strákurinn fái ekki séns en ef ekki þá finnst manni framtíð hans í óvissu.

  Hlakka til að sjá þennan leik og að menn eins og Lambert og Lazar sýni að þeir eigi að byrja leiki fyrir liðið. Persónulega finnst mér að Lazar eigi eftir að sýna okkur þau tilþryf sem hann sýndi hjá sínu gamla liði. Vonandi kemur það í kvöld.

  Ég ætla að spá þessum leik 4-1 fyrir okkar mönnum og Lambert setur tvö stk, Rossiter eitt og Sakho setur svo það seinasta. Lallana verður með 2 stoðsendingar og Lambert eina. Rossiter skorar eftir varnarmistök Boro.

  YNWA – In Rogers we trust!

 13. Ég held að það sé nokkuð ljóst að Gerrard eða Hendo muni spila þennan leik, ég hallast þó að því að Hendo muni leiða liðið sitt út á völl í fyrsta sinn sem fyrirliði liðsins.

  Svo vona ég að við fáum að sjá Suso og Markovic fá byrjunarliðssæti í þessum leik.

 14. Borini Lambert Markovic er nokkuð spræk varaframlína myndi maður halda. Kúturinn þar fyrir aftan til að koma sér í stuð. Annars er ég svartsýnn og spái tapi (tippa aldrei á rétt…no worries)

 15. Hvað finnst mönnum annars um Sakho? Búinn að vera hjá okkur núna í eitt ár og varla átt góðan leik. Fyrir mitt leyti þá er hann mestu vonbrigðin í stjóratíð Brendans.

 16. Hver er að segja að Brendan þurfi endilega að hvíla menn. Þetta eru atvinnumenn og ef þeir geta ekki spilað á laugardegi og svo þriðjudegi þá þurfa þeir heldur betur að æfa sig.
  Auðvitað er gott að hvíla menn en eigum við bara ekki að keyra á okkar besta mannskap í öllum keppnum. Við erum með til þess að vinna alla leiki en ekki bara suma.
  Ef ég fengi að ráða þá myndi ég nota svona leiki til að pússa okkur betur saman. Í mesta lagi breyta um 2-3 menn í hverjum leik. Auðvitað á aldrei að breyta sigurliði þegar það dettur inn. En því miður er það ekki að hrjá okkur svo við verðum að breyta til að finna taktinn. YNWA

 17. Atvinnumenn þurfa líka hvíld, alveg sama hversu mikið þeir hafa æft sig (skiptir engu þó þeir væru t.d. bestu maraþonhlauparar í veröldinni), annars verða þeir ofkeyrði, lélegir, meiðast, o.s.frv.

 18. Ég held að BR mun stilla upp sterkara liði en menn halda, það kæmi mér ekki á óvart að hann myndi stilla upp sömu vörnirnni og á móti West Ham og reina að koma henni í stand.

 19. Sæl öll og afsakið þráðrán !

  Var bara að velta því fyrir mér hvort einhver vissi eða geti bent mér á leið til að kaupa miða á
  QPR – Liverpool þann 19 október ?

  b.k
  Lárus

 20. #17 Ég held að þessi rannsókn svari vangaveltum þínum

  http://worldfootballacademy.com/wp-content/uploads/2012/05/WFA_Study-on-recovery-days.pdf

  Þetta er rannsókn eftir Raymond Verheijen á mikilvægi endurheimtar hjá knattspyrnumönnum. Þarna eru rannsakaðir 27.002 leikir í CL, Europa League, allir deildarleikir í stærstu deildum Evrópu yfir 10 keppnistímabil.

  Helstu niðurstöður rannsóknarinnar eru þær að lið vinna færri ef þau fá bara 2 hvíldardaga milli leikja til að jafna sig og þau skora 70% færri mörk á 60-90 mín. í leikjum ef það eru einungis tveir hvíldardagar. Jafnframt fá þau á sig 75% fleiri mörk 60-90 mín ef hvíldardagarnir eru bara tveir.

  Fyrir Tottenham leikinn fékk liðið 6 daga hvíld og spilaði sinn besta leik á tímabilinu. Þá kom landsleikjahlé og þá voru margir leikmenn á ferðalögum og spila jafnvel tvo leiki með landsliðum sínum. Flestir þeirra voru svo að detta á æfingasvæðið tveimur dögum fyrir Aston Villa leikinn. Eftir tvo hvíldardaga, kom leikur gegn Ludogorets þar sem nánast sömu leikmenn spiluðu þann leik og gegn Villa. Þá tóku við þrír hvíldardaga fyrir leikinn gegn West Ham.

  Ég er ekki að segja að þetta sé eina ástæðan fyrir lakri spilamennsku undanfarið en hún gæti verið ein af nokkrum ástæðum. Til að mynda held ég að þessi þriggja leikja törn hafi tekið verulega á fyrir hinn 34 ára Gerrard.

 21. Það er strax búið að drepa niður áhugann eins og liðið er að spila. Eru eins og eldri borgara miðað við hin liðin. En vona að þetta fari að batna. ÁFRAM LIVERPOOL!!!!!!!!!!!

 22. margir á þessu spjallborði lika búnir að vera duglegir í að drepa niður áhugann eg er jafn spenntur fyrir þessum leik og west ham i deildinni

 23. Í framhaldi af frábærum pistli um Chris Davies og það sem gerist á bak við tjöldin vil ég aðeins koma með eina ósk: að Brendan Rodgers og starfslið hans tefli fram liði sem vinnur leikinn. Ég myndi giska á að eftirfarandi leikmenn ættu að byrja:
  Mignolet
  Manquillo-Skrtel/Sakho-Lovren-Enrique
  Lucas-Henderson-Suso
  Markovic-Lambert-Borini

  Þetta lið á alltaf að duga til að sigra Middlesboro. Á bekknum gætum við haft Balotelli og Sterling ásamt Gerrard, til að koma inn ef illa gengur. Lykilatriði er að forðast framlengingu.

 24. Sælir félagar.
  ætlaði bara að forvitnast hvort einhver væri með link á einhvað stream fyrir leikinn a eftir?
  YNWA.

Bak við tjöldin hjá Liverpool – Chris Davies

Byrjunarliðið gegn Boro’