Southampton – Liverpool 3-1

Liverpool bara verður að kýla aðdáendur liðsins niður kalda með reglulegu millibilli, helst gegn liði sem á að vinna nokkuð þægilega og alltaf þegar örlitlar væntingar hafa vaknað. Þetta var sannarlega einn versti dagur tímabilsins ef ekki sá versti og persónulega er ég að skrifa þetta að öllu leyti á Brendan Rodgers. Hann gerði fáránlega breytingu á liðinu í dag sem veikti það mjög fyrirsjáanlega og vanmat um leið andstæðinginn illa. Ég hef ekki verið svona reiður út í stjóra Liverpool síðan Hodgson var að stýra liðinu. (Ég er að tala um þennan leik, ekki allt tímabilið).

Byrjunarliðið var svona:

Jones

Johnson – Skrtel – Agger – Enrique

Downing – Gerrard – Allen

Suarez – Sturridge – Coutinho

Bekkur: Gulacsi, Wisdom, Henderson, Shelvey, Lucas, Suso, Ibe.

Brendan Rodgers tók af illskiljanlegum ástæðum þá ákvörðun að stilla Joe Allen upp á miðjunni með Steven Gerrard en hafa Lucas Leiva og Jordan Henerson á bekknum. Aðeins nokkrum dögum eftir að hann sagði okkur að Allen hefur verið meiddur frá því í nóvember og þarf að fara í aðgerð.  Joe Allen hefur nákvælega engu bætt við leik Liverpool undanfarna mánuði á meðan Lucas hefur verið að líkjast sjálfum sér meira og meira. Ef eitthvað er að Lucas þá er Henderson líka á bekknum, ekkert meiddur og miklu miklu betri en Allen. Fáránleg ákvörðun og hún kostaði okkur þennan leik.

Hitt er svo að hann var áfram með fjögurra manna sóknarlínu þrátt fyrir að taka varnatengiliðin úr liðinu. Ég veit ekki hvað það er nákvæmlega sem Rodgers bjóst við í dag en ég var ekki hissa og nánast feginn að staðan var bara 2-1 í hálfleik. Southampton sem hefur gengið afar illa undanfarið gekk gjörsamlega á lagið og þakkaði þetta vanmat kærlega.

Martin Skrtel var annars kominn í liðið aftur eftir tveggja mánaða fjarveru (í deild) vegna meiðsla hjá Carragher og hefði það enn frekar átt að gefa tilefni til að taka ekki varnar elementið af miðjunni.

Leikurinn byrjaði hræðilega og Schneiderlin skoraði strax á 5.mínútu er hann vann steinsofandi Martin Skrtel  í baráttu um boltann og potaði honum í netið. Aðdragandinn var langur bolti inn í teig sem fór yfir Johnson og var skallaður fyrir markið. Liverpool vaknaði ekkert við þetta mark nema síður væri og á 9.mínútu var Lambert kominn einn í gegn en Jones náði að bjarga vel.  Tíu mínútum seinna fengu Lallana og Rodriguez dauðafæri sem endaði með skoti frá Rodriguez yfir markið.  Tveimur mínútum seinna bjargaði Enrique boltanum í horn á síðustu stundu eftir frábæra fyrirgjöf frá Rodriguez.

Heppnin virtist ætla að vera með okkur á 27.mínútu er varnarmaður Southampton rann á vellinum og Suarez slapp aleinn í gegn. En því miður sá einn maður á vellinum þetta atvik sem brot á Suarez og dæmdi aukaspyrnu. Suarez kom ekki við manninn og þetta var galinn dómur.

Fimm mínútum seinna fengu heimamenn ódýra aukaspyrnu nokkuð langt frá marki sem Lambert setti í Sturridge í veggnum. Boltinn breytti um stefnu þannig að Jones átti ekki séns í hann og lak í hornið. 2-0 og erfitt að segja að það væri ósanngjarnt þó þetta mark hafi verið algjör grís.

Brendan Rodgers gerði nákvæmlega engar breytingar á liðinu sem náði varla 3 sendingum sín á milli allann hálfleikinn.

Á 38.mínútu var Rodriguez rétt búinn að koma heimamönnum í 3-0 en skot hans fór rétt framhjá.

Coutinho var síðan aðalmaðurinn síðustu mínúturnar. Hann komst aleinn í gegn og var ekki dæmdur rangstæður eða brotlegur til tilbreytingar en náði ekki að komast framhjá Boruc í markinu sem lokaði vel á hann.

Couthino bætti upp fyrir það í uppbótartíma er hann fékk boltann eftir darraðadans í teignum og setti í netið. Sturridge fær stoðsendinguna en boltinn kom frá honum til Brassans unga. Þetta var líka svokallað grísamark en við tökum því með báðum höndum. http://www.dailymotion.com/video/xy921c_sot2liv1_sport

Staðan var því 2-1 í hálfleik og það vel sanngjarnt, ef eitthvað er þá hefðu heimamenn átt að skora meira.

Rodgers rankaði við sér 45 mínútum of seint er hann áttaði sig á getumun Allen og Lucas og gerði loksins þessa skiptingu.  Miklu meiri ró var á Liverpool í seinni hálfleik og betra jafnvægi en þegar leið á fjaraði baráttan bara út eins og áður í vetur og við náðum ekki að skipta um gír. Fleiri skiptingar komu ekki fyrr en skaðinn var aftur skeður og í restina virkaði úthvílt lið Liverpool dauðþreytt gegn baráttuglöðum nýliðum.

Jay Rodriguez gerði út um leikinn á 80.mínútu er hann hljóp í gegn frá miðju, fór á milli Lucas og Skrtel sem var eins og stytta gegn honum og náði skoti á markið sem  Jones varði, hann náði þó frákastinu og setti í netið.

Þá sá Rodgers ástæðu til að skipta og henti Henderson inná í restina fyrir Sturridge sem hefur fjarað hrikalega út eftir góða byrjun hjá Liverpool.

Maður leiksins:

Leikmenn Liverpool komast ekki á blað fyrr en í svona 13. sæti í þessari kosningu. Jones gat lítið gert af þessum mörkum og varði oft ágætlega. Vörnin var hinsvegar ömurleg og spurning hvort hann nái ekki að stjórna henni nógu vel. Johnson átti einn af sínum slæmu dögum og hefði farið útaf ef það væri einhver sem gæti spilað þessa stöðu. Enrique var líklega okkar besti varnarmaður í dag en einungis vegna þess að Skrtel og Agger voru áfram bara skugginn af sjálfum sér. Það er með öllu fáránlegt hvað þetta lið hefur oft fengið á sig 2-3 eða fleiri mörk í leik í vetur.

Á miðjunni var Joe Allen algjörlega hræðilegur enda með litla hjálp og bara mátti ekki við margnum. Ég er ekki viss um að það hafi verið farið nógu vel yfir það fyrir leik hvað hann ætti að gera í dag eða þá hvort það hafi gleymst að gera ráð fyrir andstæðingnum þegar verið var að æfa fyrir þennan leik. Gerrard var í svipuðum málum þó hann hafi eins og liðið komist betur í gang þegar Lucas kom inná.

Coutinho og Downing voru ekki að hjálpa mikið til varnarlega í dag og við áttum ekki miðjuna fyrr en of seint. Coutinho samt líflegur, skoraði mark og átti færi til að gera fleiri. Hann var alveg búinn um miðjan seinni hálfleik en kláraði samt leikinn.

Suarez komst einn í gegn í dag en var ranglega dæmdur brotlegur. Fyrir utan það var þetta einn af hans verri leikjum. Hann var svosem með betri mönnum Liverpool en það var bara vegna þess að samkeppnin var engin. Daniel Sturridge gat síðan ekki neitt í þessum leik, hann var tekinn útaf fyrir miðjumann þegar staðan var 3-1 og meira þarf ekki að segja um hans leik.

Þetta var þannig  leikur að Brad Jones fær mann leiksins frá mér, þrátt fyrir að hafa fengið á sig 3 mörk.

Þetta tímabil er þar með búið, allt build up fyrir þennan leik fór með látum í vaskinn og öll önnur úrslit fóru á versta veg. Það er augljóslega verið að móta nýtt lið hjá Liverpool og við höfum bæði séð það oft og talað um það að svona slys koma inn á milli, það er eðlilegt. Þetta var einn af þessum dögum og vonandi að menn læri af þessu fyrir næsta tímabil. Það sem fer mest í taugarnar á mér eftir þennan leik fyrir utan mistök Rodgers er hvað liðið virkaði gjörsamlega búið á því í restina og gat ekki skipt um gír gegn nýliðum Southampton, afhverju er það eiginlega?

Næsti leikur er eftir 3 mjög löng ár vegna landsleikjahelgar næstu helgi.

70 Comments

 1. Við áttum aldrei séns í þessum leik. Áttum örugglega fleiri sendingar á andstæðinginn en á samherja.
  Best að gleyma þessum leik sem fyrst!!!

 2. Maður hélt í vonina lengi vel að liðið næði að spýta í lófana.

  Það var á 79. mínútu sem ég sannfærðist um að þetta væri tapað, þegar Sturridge fékk boltann við miðpunktinn, sneri sér í nokkra hringi, fann engan til að gefa á, og sparkaði svo inn á teig Southampton þar sem varnarmennirnir tóku á móti boltanum. Tveim mínútum síðar var svo staðan orðin 3-1 og þetta endanlega ljóst.

  Var þetta ekki bara klassískt mótíveríngar-klikk?

 3. Okkar versti leikur síðan á móti Stoke. Vonandi síðasti svona leikurinn á tímabilinu. Vinnum bara rest.

 4. Rodgers tapaði þessu strax áður en leikurinn byrjaði með þessari fáránlegu miðju, hvaða andskotans fetis hefur hann fyrir J. Allen.

 5. Stöguleiki það er orðið Liverpool aðdéndur geta algjörlega treyst að það að liðið skítur upp bak mjög svo reglulega þeir sýna allavegana stöðugleika í því. Er ekki bara svo best fyrir okkur að leyfa BR að halda áfram að gera upp á bak það sem eftir lifir tímabils og finna okkur svo almennilegan stjóra í sumar kannski vill Móri koma til okkar.

 6. Þetta var lélegasti leikur Liverpool á tímabilinu. Liðið virkaði andlaust og áttu Southampton þennan sigur skilið. Þeir spiluðu skipulagðan fótbolta á meðan að við vorum eiginlega hvorki að sækja að krafti eða verjast vel. Billið á milli miðjumana og sóknarmanna var alltof mikið í þessum leik og var því oftar en ekki eina lausnin að dúndra boltanum fram sem er ekki vænlegt til árangurs.

  Jones 6 – varði vel í þessum leik en maður fannst hann ótrúlega hægur í marki númar 2.

  Enrique 4 – lélegur í dag

  Skrtel 3 – maður saknaði Carragher

  Agger 4 – ekkert að gerast hjá honum í dag

  Glen 3 – lélegasti leikurinn hans á tímabilinu

  Allen 3 – lélegasti leikmaður fyrihálfleiks

  Gerrard 5 – komst aldrei í takt við leikinn

  Coutinho 4 – einfaldlega lélegur í dag. Skoraði mark en það kom ekkertu út úr
  honum.

  Downing 5 – sást lítið en var einn af fáum sem reyndi að spila fótbolta þegar tækifæri gafst

  Suarez 5 – vann vel en gat lítið í dag

  Sturidge 4 – sama og Suarez nema að vann ekki vel

  Lucas 6 – á alltaf að byrja

  Henderson – fær ekki einkunn enda ekki sangjart að þurfa að koma inná í svona leik í restina.

  En er þetta eiginlega ekki bara Liverpool tímabilið. Alltaf þegar maður er farinn að vera bjartsýn þá er manni kippt niður á jörðina.
  Ég verð að segja að í vetur hefur við verið að spila nokkuð vel í 90% af leikjunum en ekki alltaf fengið það sem maður finnst að liðið eiga skilið en í þessum leik þá finnst mér að liðið ætti að fá -1 stig fyrir þessa framistöðu.
  Andlausir og metnaðarlausir í dag.

 7. Ótrúlegt að lesa sum kommentin hérna, drullið yfir allt og alla, viljið losna við hinn og þennann, vitlaus uppstilling. Svo ef Liverpool hefði unnið þá væri Rodgers alger snillingur að byrja með Allen og allt frábært, leikmennirnir spila leikinn, en stjórinn hefur að sjálfsögðu áhrif á leikmennina. Þetta var skita, sættum okkur við það og hættið þessu væli. =) sól úti, laugardagur, fáið ykkur bara bjór og slakið á.

 8. Vill samt enþá byðja menn að fara ekki of hátt í sigrunum og ekki of lágt í töpunum. Það þarf að horfa á heildar myndina. Það er ekki sangjart að segja að Rodgers eigi að vera kóngur eftir Tottenham leikinn og svo reka hann eftir næsta leik það er bara barnarlegt.
  Það má svo ekki gleyma því að Southampton spiluðu virkilega vel.

 9. ,,Coutinho 4 – einfaldlega lélegur í dag. Skoraði mark en það kom ekkertu út úr
  honum.”

  Hann skoraði mark þannig að það koma ekki ekkert út úr honum í þessum leik.

  Annars mjög svekkjandi leikur hjá okkar mönnum og ég hafði reyndar slæma tilfinningu fyrir þessum leik en bjóst ekki við þessu andleysi!

 10. BR, hvað var eiginlega í gangi ? Þetta flokkast ekkert undir “bad day at the office” Það er búið að eyða VIKU í að undirbúa sig fyrir þennan leik, og því er þetta BAD WEEK at LIVERPOOL FC, ekki bara eitthvað office kjaftæði ! Leikir vinnast ekki á einhverjum skrifstofum, ef þið haldið það, þá eruð þið enn með hausinn fastann í þessari “Moneyball” mynd, gerð í Hollywood. Leikir vinnast með mótiveringu, hugarfari og vinnusemi. Það þarf að mæta í vinnunna til þess að það geti flokkast undir þessa klisju “bad day at the office” Ef þú mætir ekki í vinnunni, vertu þá heima, og komdu með vottorð næst þegar þú mætir.

  Heimaliðið mætti í þennan leik frá fyrstu mínútu, ekki Liverpool. BR var með menn inná sem voru ekki til í þennan leik. Ég velti fyrir mér á hvaða blaðsíðu BR sé núna í þessu plani sínu, sé hann fyrir mér vera komin á blaðsíðu 20, en fletti síðan alltaf tilbaka á blaðsíðu 5.

  SKITA, og viku “undírbúningur” sem endaði sem niðurgangur.

  BR var ekki að sannfæra mig !

 11. BR þarf ekkert að lesa þessa skýrslu. Hann skrifaði heila bók um hvernig eigi að vinna leiki. 160 síður eða svo, ef ég man rétt…

 12. Strákar

  Það kom í ljós að leikmenn okkar gerðu ekki það sem ég stakk upp á í hálfleik ( sjá komment 108 ) . þeir fundu ekki það sem þurfti til að taka leikinn í sínar hendur enda spiluðu þeir eins og pissudúkkur en ekki eins og menn með púng, til að snú leik við þarf kraft/trú/vilja og ákveðni, hún var ekki til staðar eins og of oft í vetur. Ég tek undir með mjög mörgum hér að uppstillingin var ansi vafasön hjá stjóranum í dag, jú hann er efnilegur en á ansi mikið í land,,,, nema hann er alveg komin með munninn á sér ,,,,, já hann skortir ekki orðin en enn vantar upp á reynslu og að lesa leiki rétt bæði fyrir og í leikjum ( allt of oft hefur hann verið með ömurlegt planB).

  Enn batnandi manni er besta að lifa og vonandi gerir hann það sem ég vildi að leilmenn okkar gerðu í hálfleik ,,,, ath hvort hann sé með púmg ( hvort hann sé pissudúkka eða karlmaður.

  Áfram Liverpool.

 13. Sælir félagar

  Það er eins og ég sagði í athugasemd við upphitunina að það lið sem kæmi inn á völlinn með baráttu, vinnusemi og karakter mundi vinna þennan leik. Ég sagði líka að þessu jöfnu væri LFC liðiðmeð betri knattspyrnumenn og ætti því að vinna leikinn samkvæmt því. Soton tróð þessu uppi mig eins og skítugum sokk. Það var ekki bara að Soton liðið væri muklu vinnusamara, ákveðnar og baráttuglaðara heldur var það líka betra liðið á vellinum knattspyrnulega. Því fór sem fór.

  Ennþá hefur BR ekki náð liðinu á neitt rönn. Aðeins einu sinni náð að vinna þrjá leiki í röð en annars mest tvo. Enda með svona uppstillingu og mótiveringu á leikmönnum er ekki von að liðið nái langri leikjahrinu sigurleikja. Hrokinn, og óverðskulduð sigurvissa með það að farteskinu að ekkert þurfi að leggja á sig til að vinna svona leiki verður liðinu að falli. Montið eftir að hafa unnið þesssa þrjá leiki var með þeim hætti að menn gerðu all svakalega í buxurnar. Niðurstaðan verðskulduð niðurlæging.

  Manni er spurn eftir að maður sá uppstillinguna hvað Hendo hefur gert af sér, af hverju Lucas var ekki í byrjunarliði og af hverju Skrölti er orðinn einn veikasti varnarmaður liðsins. Liðið hefur verið að leka mörkum í allan vetur og það hlýtur að vera eitthvað að í skipulagi liðsins og æfingum þess mikilvæga þáttar sem varnarleikurinn er.

  Ég er verulega svekktur eftir þennan leik. Ekki bara vegna þess að hann tapaðist sem er auðvitað slæmt heldur aðallega vegna þess að liðið átti ekkert skilið út úr leiknum. Það skrifa ég fyrst og fremst á BR því þetta er ( að mestu ath. samt þær breytingar sem BR gerir) sama liðið og vann síðustu þrjá leiki. Að minnsta kosti átti BR sömu kosti í allar stöður nema aðra miðvarðarstöðuna. Þar vantaði besta varnarmann liðsins hinn 36 ára gamla Carra. Samt tekur BR þá ákvörðun að breyta liðinu á miðjunni og tapaði henni allrosalega.

  Ég segi það satt að þetta veldur mér þreytu. BR á auðvitað að halda áfram með þetta lið og fá amk. eitt tímabil í viðbót. En ég reikna með að hann muni í framtíðinni nota besta varnartengilið liðsins að öllu forfallalausu frekar en meiddann meðalskussa. Einnig reikna ég með að hann refsi leikmönnum ekki fyrir að standa sig vel (Hendo) til að koma sínum meðalskussum inn á völlinn. Það hlýtur að vera það sem BR lærir af þessu ásamt því að það þarf að fara í alla leiki með fulla virðingu fyrir andstæðingi sínum.

  Það er nú þannig.

  YNWA

 14. Ótrúlegt hve mikill samtenging er milli þess að það heyrist í einhverjum leikmanni anda eitthvað um að það sé enn séns á Evrópukeppni á næsta ári er ávísun upp á lélagan leik og skammarlegt tap. Held að það væri rétt að liðið fá ekki að spila í Liverpool treyjum í nætsa leik. Eftir svona framistöðu eiga þeir það ekki skilið.

  Afhverju var ekki Henderson kallaður inn fyrr í seinni hálfleik til að fá smá kapp í leikinn og Shelvey hefði getað blásið smá líf í andlausan seinni hálfleik.

  Ég var þó hrifinn af 10unni okkar í fyrrihálfleik og liðið hefði átt að geta náð að jafna í fyrri hálfleik með smá heppni. Ég bjóst við þeim dýrvitlausum í seinnihálfleik en djöfull var ég svektur að sjá þetta andleysi. Leiknum verður best lýst með að þetta var enn eitt dæmið um helvítis skíta varnaleik sem á ekki heima hjá liði í efstudeild í Englandi.

 15. hvað einn tapleikur, það er ekki eins og það hafi komið fyrir áður. Við vinnum bara næsta leik!

 16. Glasið er enn hálffullt, þó liðið hafi gert í brækurnar í dag.. Það þarf bara að fara að huga að vörninni sem hefur verið léleg í vetur. Skertl er ekki Liverpool “material”.

 17. Brendan er ennþá í hressilegri tilraunastarfsemi með liðið og er ekkert hræddur við það. Það getur verið mjög gott ef menn hafa trú á honum eða mjög dapurt ef menn hafa enga trú á honum.

  Liðinu er bara stillt upp eins og við séum að fara falla og höfum engu að tapa. Hef nú ekki bara ekki séð aðra eins sundurspilun lengi. Downing og Sturridge komu varla við boltann í leiknum og það virkaði bara eins og S´ton væru fleiri inn á vellinum.

  Liverpool eru ekki svona lélegir en kannski þarf að prófa ýmislegt áður en stöðugleiki myndast því að þessi uppstilling var dauðadæmd eftir korter.

 18. Ég ætlaði að skrifa eftir Tottenham leikinn að ég hefði verið kannski fullharður fyrirliðann okkar Steven Gerrard enda spilaði hann og barðist frábærlega þar og var farinn að hrósa samherjum og tala þá upp frekar en sjálfan sig. Ákvað svo að bíða eftir þessum Southampton leik með kveða minn úrskurð hvort Liverpool væri að ná stöðugleika aftur.

  Enn eina vikuna fer hann að tala um að Liverpool geti náð 4.sætinu og við skítum á okkur helgina eftir þar sem miðjan tapast fullkomlega. Lucas er ekki prímusmótorinn hjá okkur á miðjunni heldur á Gerrard að vera sá sem að stjórnar spilinu og lætur okkur tikka. Við höfum bara engan stöðugleika með þessu fyrirkomulagi. Ég er ekkert viss um að við hefðum unnið í dag með Lucas þarna. Það var ekki 1 leikmaður Liverpool með rétt hugarfar fyrir þennan leik og þessvegna töpuðum við, ekki útaf einstaka leikmönnum.

  Það er eitthvað rotið við stjórn liðsins og móralinn í hópnum sem verður til þess að við höfum nær engan stöðugleika sama hversu góðu formi liðið er í og mikið sjálfstraust í liðinu. Þessi 3-2 sigur um síðustu helgi hefði átt að frábær morale-boosting sigur en varð að engu. Það reyndar hjálpar ekki að Skrtel er bara ekki að nenna þessu lengur og langar að vera einhverstaðar allt annarstaðar en á Anfield þessa dagana. Við eigum samt að hafa sóknarkraft til að vinna nær hvaða lið sem er þessa dagana en krafturinn á miðjunni var bara enginn og liðið hengdi bara haus um leið eftir 1-0.

  Leikurinn í dag var ákveðin prófraun á liðið sem það stóðst alls ekki og ætti að gefa Rodgers endanleg svör um nokkra leikmenn. Allavega betra að þetta sé að gerast núna en í byrjun næsta tímabils. 4.sætið og sennilega Evrópudeildin farin en við erum farin að sjá hversu gott liðið getur orðið næsta tímabil. Þá er bara að hreinsa liðleskjurnar út og kaupa rétta leikmenn í sumar.

 19. Kom mér á óvart að sjá liðsuppstillinguna í dag. Ef maður lærði eitthvað á Tottenham leiknum var það að liðið er óbalanserað með tvo afturliggjandi miðjumenn og Suarez, Sturridge og Coutinho alla inná. Enda var engin tenging á milli varnar og sóknar og allir ofangreindir meira og minna spilaðir út úr leiknum á stórum köflum.

  Sú ákvörðun að stilla Allen upp í tveggja manna miðju með Gerrard kallar eiginlega á útskýringar af hálfu Rodgers. Allen er hálfmeiddur, ekki spilað góðan leik í 5 mánuði, hefur ekki niðurbrot Lucasar og ekki vinnslu Henderson…af hverju hann??

  Manni dettur hreinlega í hug að Rodgers hafi ofmetnast á árangrinum undanfarið, ekki lesið Tottenham leikinn rétt, gleymt því hvað útileikir á Englandi eru erfiðir og stórlega vanmetið þetta Southampton lið (sem mér fannst reyndar stórskemmtilegt og þrusugott í dag).

  Þegar við þetta bætist að Skrtel er augljóslega ekki í leikæfingu, Johnson átti sinn versta leik í vetur, Sturridge var ekki með, Coutinho var varla með, Downing komst ekki inn í spilið fyrr en í seinni hálfleik, var ekki von á góðu.

  Mér fannst augljóst eftir 20 mínútur af leiknum að setja þrjá inn á miðju, skipta Lucas og Henderson inn fyrir Allen og Sturridge, reyna að ná tökum á leiknum og stóla á Suarez og Coutinho til að búa til mörk. En Rodgers sá það ekki fyrr en á 85. mínútu og mér finnst það satt að segja dálítið áhyggjuefni. Hann á að geta betur.

  Mjög svekkjandi og alveg skelfilega sanngjarn ósigur, sem manni finnst algjör óþarfi á tíma þegar liðið er úthvílt, með alla menn heila, og stjórinn hefur nægan tíma til að undirbúa sig og liðið.

 20. Til hvers voru þeir að æfa með kvennaliðinu, þeir spiluðu eins og kellingar, FOKK FOKKING FOKK

 21. Bara þoli ekki svona kjaftæði með sendingar og annað frá þessum gaurum sem fá miljónir að spila eins og menn en ekki eins og a??????

 22. Hef ekki miklar áhyggjur af þessu. Shit happens. Þetta var alltaf langtíma verkefni að breyta Liverpool og er enn. En það er morgunljóst eins og áður að Hr. Skrtl verður ekki í þeim plönum.

 23. Ég gjörsamlega skil ekki hvernig lið eins og Southampton, sem er ekki með neitt sérstakt lið, gat pressað miklu betra lið Liverpool í að liggja aftarlega og dúndra boltanum eitthvert þegar þeir fengu boltann í fyrri hálfleik. Eða hvernig lið eins og Southampton gat haldið boltanum svona miklu meira heldur en Liverpool. Ég hef aldrei séð Liverpool spila jafn illa í allan vetur og aldrei séð þá jafn yfirspilaða af jafn slöppu liði. Hrein æla og hörmung.

 24. Eftir að hafa lesið létt yfir þessi comment bæði á meðan að leikurinn var í gangi og eftir sýna það og sanna að flestir hafa ekki hugmynd um hvað YNWA gengur útá.

  Ég er ekki að segja að það sé ekki í góðu lagi að gagngrýna leikmenn og þjálfara en svona drull frá “stuðningsmönnum” finnst mér frekar dapurt.

 25. Ég ætla ekki að fara í eitthvað drull eftir þennan leik, en ég verð að kenna Rodgers um þetta tap. Hefur hann aldrei horft á Soton síðan Pochettino tók við liðinu?

  Það er nógu mikill missir að missa Carra í meiðsli, hvað þá að láta Lucas byrja á bekknum og byrja ekki með neinn DM inná gegn liði sem spilar possession bolta eins og við. Rodgers verður að fara að hætta að spila Allen til að sanna að hann hafi verið góð kaup, drengurinn er með gríðarlega lélegt ‘composure’ á boltann.

  Ég hef aldrei verið mikill aðdáandi Johnson, enda hefur hann ekki átt eitt stöðugt tímabil, hvað þá hálft. Að mínu mati er hann ofmetnasti bakvörður í heimi, ég sakna þess svo að vera með leikmann eins og Finnan.

  Sturridge sást aldrei og hann var heppinn að Coutinho hafi skorað því Downing var í góðu skotfæri þegar Sturridge ákvað að skjóta í stað þess að leyfa boltanum að renna til Downing. Ég er búinn að standa með Rodgers allt tímabilið og verja hann, en ég skrifa þetta tap algjörlega á hann. Mikið væri gaman að einn sterkan, góðan alhliða miðjumann eins og Diame. ‘Welski Xavi’ er búinn að eiga verra tímabil en Henderson út á kanti allt seinasta tímabil.

 26. Var Gerrard ekki örugglega að ropa eitthvað um 4-5 sætið í vikunni?

  Hefur einhver tölu yfir það hversu oft liðið gerir upp á bak eftir svona comment?

 27. Frabær skyrsla sem eg er algjorlega sammala.

  Eg varð strax mjog hissa a að sja allen inni a kostnað lucas og eins og þu segir babu i skyrslunni þa hefði eg alltaf frekar sett Henderon inn ef atti að forna Lucas en að sjalfsogðu atti bara Lucas alltaf að byrja þennan leik.

  Mer fannst i leiknum eina og annaðhvort okkar menn væru allir nr 1s kitþunnir, nr 2 að biða eftir fyllerijinu sem atti að vera i rutunni a leið til baka eða numer þrju að þeir hafi ferðast kl 8-9 i morgun i 5-6 tima rutuferð kg rett nað a leikvanginn 5 min i þrju og farið beint inna vollinn.

  Algjorlega óafsakanleg frammistaða hja ollum i liðinu i dag. Þetta leit þannig ut fyrir mer að Southampton væru með 15 menn gegn 11, þeir voru alltaf mættir 2 að pressa þann sem var med boltann i okkar liði, þeir voru a undan i alla bolta auk þess sem okkat menn gafu þeim avallt allan þann tima sem þeir vildu þegar þeir hofðu boltann.

  Mer fannst okkar menn aldrei syna neinn viljai dag til þess að sækja þrju stig sem er eitthvað sem þarf að skoða rækilega.

  Southampton spilaði frabærlega i dag og attusigurinn fyllilega skilið, það hefði ekkert

 28. Ekki skrifa fyrsta markið á MS, hlaup frá miðju og SG nennti ekki að elta þann sem skoraði:(
  Samt ekki besti leikurinn hjá MS!

 29. Ég er búinn að sjá nóg í vetur af miðlungsliði Liverpool. Maðurinn sem ég dreg til ábyrgðar er Brendan Rodgers. Þvilík andskotans hörmung sem liðið býður upp á reglulega. Yfirspilaðir af kúkaliðum mjög reglulega. Eins verð ég að gagnrýna fyrirliða liðsins sem á það til að hengja haus allt of oft og nær ekki að peppa liðið sitt upp nema einstaka sinnum. Hann var undir pari á flestan hátt í dag ásamt ansi mörgum og sennilega fara Skrtel og ógeðið hann Allen þar fremstir í flokki. Af hverju má ekki setja Allen í að dreyfa leikskrám eða bera gatoradebrúsana?? Vona að hann verði lengi í enduhræfingu vegna axlarmeiðslanna og að eitthvert kúkalið kaupi hann á ústölu í sumar. Verðskuldað tap í alla staði….

 30. Ég bara get ekki skrifað leik Allen (og Gerrard) alfarið á hann. Hann virðist alls ekki finna sig í þessu leikkerfi og okkar verstu leikir virðast jafnan koma þegar liðið er undirmannað á miðjunni. Núna vorum við bæði undirmannaðir á miðjunni og án Lucas, það hefur nánast aldrei farið vel, sama við hverja er spilað.

  Ef að Lucas var tæpur í dag þá er fáránlegt að hafa ekki þrjá á miðjunni, henda Henderson inn með Allen og Gerrard og ef ekki hann þá Shelvey. Ekki bara hafa 6 sóknarþenkjandi menn á útivelli gegn liði sem spilar fínan bolta og er með góða sóknarmenn og sterka menn á miðjunni og hafa ekkert á móti því að hafa boltann og stjórna leikjum.

  Brendan Rodgers ætti að taka mikið meira af pirringnum í dag heldur en Allen að mínu mati. Það kom nákvæmlega ekkert á óvart að hann væri ekki að spila vel í dag. Hann hafði ekki þetta cover sem hann þarf. Britton gaf honum það í fyrra og fyrir þetta tímabil var maður að vona að Gerrard og Lucas myndu mynda gríðarlega gott tríó á miðjunni með Allen.

 31. sorry , er ekki enn að skilja þessa ást sem menn hafa á Lucas Leiva…getur ekki sent boltann , er hægur og er bara mjög takmarkaður ( lélegur) leikmaður. erum manni færri þegar hann er inná. Þurfum hraðan, líkamlega sterkan leikmann í þessa stöðu…Annars er ég róglegur yfir þessu tímabili, tilrauna tímabil. Stjórinn búinn að fatta hverjir eru lélegir og verða sparkað út í sumar. Næsta tímabil verður okkar….
  En það voru allir undir pari í dag og ef Jones er maður leiksins þá er eitthvað í gangi.

 32. Skrtel er svo hræðilegur varnarmaður ég skil ekki afhverju fólk vill halda þessum manni, vona að hann verði seldur sem fyrst hann átti þátt í öllum mörkum Southampton.
  Ég hef trú á Joe Allen en hann er ekki þetta týpíska ,,akkeri” ég veit ekki afhverju það eru allir að dæma hann útaf þeirri stöðu.

  Það sem mér fannst samt verst við leikinn er það að ég hafði mjög mikla ónota tilfinningu, ég bjóst við að það yrði tap í dag og sagt við okkur að horfa ekki of langt fram.

 33. Mikið er gaman að sjá menn skríða undan steinum sínum nógu lengi til að æpa “RODGERS OUT”……klassi yfir ykkur 🙁

 34. 35 Babu. Einmitt það sem ég var að spá með miðjuna. Við fengum á okkur 2 mörk gegn Tottenham meðan við höfðum bara 2 á miðjunni. Síðan batnaði leikurinn gríðarlega við að fá 3 manninn inn ( Allen ). Í dag fáum við síðan á okkur 3 mörk með 2 menn á miðjunni. BR á þetta algjörlega skuldlaust. Það sá hver maður efti 5 mínútna leik að miðjunni var tapað og hann hefði átt að dúndra pungnum á sér út og breyta um taktík strax. Joe Allen er ekki DM og hefur aldrei verið. Því er gagnrýnin á hann ósanngjörn. Alveg svipað og með Henderson í fyrra þegar hann var í því að spila á kantinum.

  Minni á þessi fallegu orð úr þessu líka stórkostlega kvæði.

  When you walk through a storm
  Hold your head up high
  And don’t be afraid of the dark

  At the end of the storm
  Is a golden sky
  And the sweet silver song of the lark

  Walk on through the wind
  Walk on through the rain
  Though your dreams be tossed and blown

  Walk on walk on with hope in your heart
  And you’ll never walk alone
  You’ll never walk alone

  Að fer að koma að okkar Golden Sky……. þangað til.. “there’s always next season” 🙂

 35. Ég er nú ekki vanur að skrifa hér, læt mér nægja að lesa.

  En í dag þá er þetta ekki einhverjum einum að kenna, maður sá strax hverjir ætluðu sér að vinna þennan leik, þeir áttu alla lausu boltana og allar 50/50 tæklingar.

  Þó svo að 1 maður sé lélegur í liðinu þínu þá eiga hinir að geta unnið það upp, en í dag sá maður að það var einginn til í að leggja eitthvað á sig.
  Þeir sem voru í vörn þeir láta teima sig trek í trek úr stöðu og fylgja ekki boltanum þegar honum er dúndrað fram heldur sytja eftir og mynda svakalega mikið autt pláss á milli varnar og miðju sem má alls ekki vera þegar við erum undir mannaðir á miðjunni.

  Miðjan hjá okkur er ekki nó og hreifanleg og kemur alltaf alveg niður til að sækja boltan og oft koma báðir í einu þannig að það er eins og við séum með 4 miðverði, eins og agger og skrtel geti ekki gefið fram á við þannig að bilið í næsta mann er allt of mikið og sendingarnar verða þá svo langar að það er auðvelt að verjast þeim plús að miðjan fylgir ekki nó og vel upp alveg eins og vörnin.

  Svo eru það sóknarmenirnir þeir verða að hreifasig betur, klappa boltunum allt of mikið, gefa hann og stopa. Allt spilið okkar virðist líka vera mikið þrengra heldur en hjá hinum liðunum. Svo ef við erum undir mannaðir á miðjuni þá verða þeir að vinna betur til baka.

  En aðal púnturinn eftir þennan leik er sá að allt of margir héldu að þetta kæmi bara af sjálfum sér og voru ekki að leggja sig 100% fram…

 36. Sammála vandamálinu með að færa liðið fram og tilbaka. Spilið var ekki að ganga og það er varla einum leikmanni að kenna. Vantar bara betri leikmenn í liðið eða betri stjóra who knows…..

 37. Spurning um að senda BR bréf um að við séum alveg færir um að koma okkur sjálfir niður á jörðina milli leikja og þurfum ekki hans hjálp við það.

 38. Komment nr 34 er natturulega bara djok, eg er pirraður sko en i kommenti nr 34 er allt latið flakka og greinilega storkostleg gremja i gangi ….

  Þetta var súrt i dag og enn vantar 3-4 alvoru leikmenn i þetta lið okkar, eg reiknaði það ut aðan að það eru 150 dagar i næsta season sem þyðir fimm manaða sumarfri þetta arið aem er glatað en pæliði svo i þvi að ef Rodgers fær bara 20 kulur til að versla i sumar plus sölur eina og sluðrið segir þa ma gera rað fyrir þvi að sumarfríið verði ekki bara 150 dagar heldur einnig gera rað fyrir þvi að við verðum enn a bilinu 6-9 sæti næsta timabil hehehehe..

  FSG þurfa að lata Rodgers fa allavega 50 kulur plus solur ef við ætlum að reyna við 4 sætið a næsta timabili.. það vantar allavega 3 alvoru leikmenn sem styrkja verulega fyrstu11.. þrir alvoru leikmenn kosta 50-70 milljonir..

 39. Held að menn hafi haldið að þeir væru komnir í sumarfrí eftir svona “langt” ferðalag suður í sólina!!! Menn voru bara ekki tilbúnir í augljósan baráttuleik. Við töpuðum þessu á miðjunni. Henderson og Lucas hefðu átt að byrja þennan leik á kostnað Allen og Sturridege. Hrikalega svekktur eftir þennan leik sérstaklega eftir að hafa borgað tæpar sjö þúsund krónur til að sjá liðið skíttapa og með Arnar B jarmandi á skjánum. Fail 🙁

  Við verðum bara að sætta okkur við þetta ójafnvægi sem er í liðinu. Liðið er á réttri leið, það er bara spurning hversu löng hún verður.

  YNWA !!!

 40. Við töpuðum, shit happens. Búnir að eiga gott run og nú er það búið. Lucas gekk ekki heill til skógar og þess vegna var hann ekki í byrjunarliðinu, þetta er ekkert flókið. Sammála samt að Henderson átti að byrja þennan leik en Gerrard og Allen var enginn greiður gerður með þessu leikskipulagi. Það var eins og við værum 10 á móti 15, rosalega skrýtið og dapurt að horfa á þetta.

  Hvað um það, BR lærir af þessum mistökum sínum og veit núna hvernig á ekki að stilla upp liðinu. Coutinho er frábært efni en á enn langt í land og dugar bara í c.a. klukkutíma á vellinum, auk þess er hann ekki öflugur varnarlega. Getur einhver hérna útskýrt fyrir mér hvað hefur komið fyrir Skrtel?? Sýnist það blasa við að vörnin er orðinn okkar aðal veikleiki og við þurfum að fjárfesta á hávöxnu, vöðvabúnti í vörninni.

  Skammarleg mörg commentin hérna inni og þetta Allen-hatur er að verða ansi þreytandi. Hann er ungur og á eftir að eflast. Glórulaust að kenna honum um hvernig fór í dag, þó vissulega hafi hann verið slakur í dag. Skelli fyrst og fremst sökinni á BR, en leikskipulag hans klikkaði big time. Spila með fjögurra manna sóknarlínu á útivelli gegn liði sem er að berjast fyrir lífi sínu var glórulaust og arrogant.

  Þetta er svo sem enginn heimsendir og við erum klárlega á réttri leið þrátt fyrir þetta set back (og já þau eiga eftir að verða fleiri á þessari leiktíð). Verslum 3 – 4 sterka leikmenn í sumar og við komum sterkir inn á næsta tímabili, engin spurning. En í guðanna bænum margir hérna inni, róið ykkur og fáið ykkur bjór! Ekki tapa ykkur í þunglyndi út af þessum eina fucking leik.

 41. burtséð frá öllum öðrum kommentum,

  hver er munurinn á því að troða “skítugum sokk” upp í einhvern og “sokk” er það ekki jafn vont??

 42. Ég veit alveg hvað lét okkur tapa þessum leik. Allir leikmenn okkar voru bara of gáttaðir á því hvernig Jose Enrique fór frá því að lýta út eins og hann væri nýlega snoðaður í að reyna lýta út eins og nafni sinn Iglesias!

  https://www.facebook.com/photo.php?fbid=559260224105991&set=a.118473454851339.11920.118450714853613&type=1&theater

  Sýnir muninn á Enrque frá því á fimmtudaginn og svo í dag.

  Mér er sama en ég held að okkar menn ættu að raka kvikyndið aftur!

 43. Það er hættuleg stefna að skipta um framkvæmdarstjóra vegna skammtíma sjónarmiða og óánægju með smáatriði en það er jafn hættulegt að skipta ekki um framkvæmdarstjóra vegna þess að menn eru orðnir þreyttir á tíðum stjóraskiptum og óstöðugleika. Brendan Rodgers er ungur, metnaðarfullur og með skíra stefnu um hvað hann vill og á pappír er þessi maður allt það sem liverpool þarf. Raun niðurstaðan hefur verið þokkaleg, liðið er á svipuðu róli og maður bjóst við miðað við mannskap og kaupin í janúar voru ágæt. Það sem hræðir mig hinsvegar eru þessi “being liverpool” heimildarþættir sem sýndu manni hvaða mann Rodgers hafði í raun að geyma og það var ekki beisið. Klisjurnar og taktleysið var slíkt að david brent hefði bliknað í samanburði og það var ekki að furða að office samlíkingarnar hefði flogið um netið. “Three players who let us down” dæmið var á leikskólastigi og manni verður bumbult að rifja þetta upp. Ég er einn af þeim sem dauðlangar í stöðugleika og langtíma árangur en ég stórefast um að Brendan hafi það sem þarf. Ekki af því að hann setti Allen inn fyrir Lucas í einstaka leik heldur af því að ræðurnar hans kalla fram kjánahroll hjá öllum leikmönnum með snefil af enskukunnáttu eða greind.

 44. Ein spurning?
  Er Gerrard sterkasta hlið ekki að skora mörk og leggja upp? Afhverju er hann þá hafður á miðjunni meira í vörn heldur en í sókn?

  Hef aldrei skilið þetta eilífðar flakk á meistara Gerrard. Hann er búinn að fara í hringi inn á vellinum bæði með Liverpool og Englandi og virðist aldrei finna sína stöðu.

  Er svona erfitt að þjálfa Gerrard? Getur það verið ? Það hefur ekki gengið nokkurn skapaðan hlut hjá liðinu nema mjög góður leikmaður sé með honum þarna…Hamann, Mascherano, Alonso.

  Sama með enska landsliðið…miðjan nær engum tökum á leikjum þar heldur og eru mjög óstöðugir.

  Tek það fram að þetta er náttúrulega ekki diss á meistara Gerrard sem er einn besti leikmaður heims en stundum finnst mér bara eins og hann viti ekki hvað hann er að gera þarna inn á vellinum og ætlar bara að gera allt upp á eigin spýtur. Stundum tekst það og stundum ekki.

  Finnst að lykillinn hjá Brendan hljóti að vera að negla niður miðjuna og hvar Gerrard á að spila…það hefur ekki tekist í vetur finnst mér. Ekkert diss á Brendan því Hodgson, Dalglish og enskum landsliðsþjálfurum hefur ekki tekist það heldur hingað til.

 45. Verð bara hròsa saints fyrir flottum leik. Við bara mættum ekki ì tennan leik. Auðvitað gerði BR taktìsk mistök með leikskipulagið. Sökin er hans enn allt liðið var slakt i dag. Skrtel var hörmulegur fyrra hàlfleik en aðeins skårri seinni og Allen tarf fara i tessa aðgerð asap og nota sumarið að buffa sig upp. Heildinalitið tà býður tessi leikaðferd sem BR Vill liðið sitt spila að 2 miðverðir bara råða ekki við tað. Ég legg til fara i 3 miðverði. Að lokum åtti Hendie og Lucas að byrja

 46. Þetta var fyrirfram alltaf mjög tæpur leikur, þeir sem eru að segjast ekki skilja hvernig þetta Southampton lið gat verið að pressa okkur í rot, þá hafiði lítið fylgst með þeim í vetur. Þrátt fyrir að sitja á þeim stað sem þeir eru þá eru þeir búnir að vera afar tæpir á að vinna flest stóru liðin og spila yfirleitt sjúklega skemmtilegan bolta.

  Skrtel var 110% að spila sinn seinasta leik í búningi liverpool og Henderson á allan daginn að byrja inná í stað Allen.

  Annars var þetta bara typical liverpool, peppa mann upp með nokkrum sigurleikjum og láta svo niðurlægja sig.

  En það styttist í sumarið, þurfum að kaupa 2 miðverði og almennilegt backup fyrir lucas, og auka breiddina í hópnum framá við.

 47. Jæja, þá er maður búinn að sofa úr sér mestu gremjuna.

  Eitt það versta við þetta allt saman, að mínu mati, er að menn virðast aldrei ætla að læra að halda bara kjafti og einbeita sér að næsta leik. Alltaf og þá meina ég alltaf, þegar menn byrja að tala um að lenda í þessu sæti eða hinu eða tala um að þessi leikmaður sé svo góður og eigi skilið að vera í landsliðinu, þá drullar liðið upp á bak í næsta leik á eftir. Alltaf. Hversu óþolandi er það? Með þessu blaðri alltaf hreint þá gera þeir klúbbinn og stuðningsmenn hans að aðhlátursefni, aftur og aftur. Er ekki hægt að setja þessa menn í fjölmiðlabann eða amk láta þá fá handrit að því sem þeir eiga að segja í viðtölum?

  Menn töluðu um að Joe Cole væri betri en Messi, að Allen væri hinn velski Xavi og svona milljón sinnum hafa menn látið það út úr sér hvað það væri nú góður möguleiki að ná 4. sætinu, að Liverpool ætti heima í meistaradeildinni og annað álíka kjaftæði. Toppnum var þó náð þegar sjálfur þjálfarinn fór að tala um að 2. sætið væri nú bara nokkuð góður möguleiki. Og svo kom skitan. Þetta er svo unprofessional og bara ekki boðlegt.

  Er það bara ég sem er orðinn þreyttur á því að stuðningsmenn annara liða séu að hlæja að okkur, aftur og aftur, fyrir eitthvað heimskulegt sem okkar menn láta út úr sér í viðtölum?

  En hvað varðar leikinn, þá held ég að það fari ekkert á milli mála að slæm taktísk mistök Rodgers séu það sem orsakaði þessa skelfilegu frammistöðu okkar manna.

  En svona er lífið og lítið hægt að gera en að fara að huga að næsta tímabili – the Liverpool way.

 48. FLC minnir mig töluvert á suma þá sem skrifa á þetta heimasvæði. Þ.e.a.s. sveiflurnar eru of miklar til og frá. Oft spilar LFC virkilega vel en dettur í algjöra meðalmennsku þess á milli s.s. í gær; ýmist er BR gjöf Guðs til fótboltans eða minnipokamaður sem kann ekki að stilla upp liði eða taktík. Að sjálfsögðu er þetta ekki svona einfalt.

  Einkenni ungra liða í mótun er óstöðugleiki. Einkenni ungra leikmanna í mótun er óstöðugleiki. LFC í dag er stjórnað af ungum framkvæmdastjóra sem hefur verið með liðið tæpt leiktímabil, margir leikmennirnir eru ungir og fótboltahugmyndafræðin er augljóslega í mótun.

  Mér finnst margir allt of dómharðir í garð Allen sem er einn efnilegasti leikmaður sinnar kynslóðar á Bretlandi. Hann hefur átt frekar erfitt uppdráttar á Anfield og vantar fyrst og fremst sjálfstraust. Sjálfstraust fær maður ekki nema að spila og standa sig vel. Af þeim sökum verður Brendan að tefla Allen fram og sýna að hann hefur enn trúna á sínum manni þótt á móti blási. Ég er sannfærður um að Allen mun fyrr en síðar launa lærimeistara sínum þolinmæðina og traustið. Gæðingur verður ekki að bikkju við að færa sig í annan og stærri haga en aðlögunin kann að taka sinn tíma.

  Það þarf ekki að koma neinum á óvart að liðið er sveiflukennt og hægt er að finna ýmsa veikleika en einnig styrkleika. Styrkleikarnir eru að mínum dómi að á góðum degi er LFC að spila skemmtilegan og árangursríkan fótbolta eftir skýrri hugmyndafræði mjög lofandi framkvæmdastjóra. LFC hefur innan sinna raða suma af efnilegustu ungu fótboltamönnum Bretlands og Evrópu og tvo af bestu leikmönnum heims. Veikleikarnir eru skortur á viljastyrk þegar á móti blæs, aðlögunarhæfni til að bregðast við taktík andstæðingsins og varnarleikurinn sem að mínum dómi er lang alvarlegasta vandamálið til að leysa.

  Ég er vitanlega ekki ánægður með stöðu liðsins en allir góðir menn hljóta að sjá að heilt yfir er LFC á réttri leið. Sveiflurnar niður eru miklu færri en áður og Brendan hefur þróað skemmtilegt afbrigði af nútíma meginlandsfótbolta taka þar sem liðið ræður yfir mörgum öflugum vopnum. LFC minnir mig um margt á það frábæra lið Dortmund fyrir 4-5 árum. Og talandi um Dortmund þá tók það meistarann mikla, Jurgen Klopp, þrjú ár að fara með sitt lið alla leið.

 49. Ég verð bara að þakka sigkarl fyrir pistilinn hann er mjög góður og ég er hjartanlega sammála honum með BR enn ég kanski meiri áhyggjur af þessu lið vali hans þetta er ekki í fyrsta sinn sem gerir þessi mistok og ekki heldur í annað sinn það finnst mér vera mikið áhyggju efni en vonandi að maðurinn fari nú að læra ( sem ég er ekki svo viss um því miður ) eitt tíma bil í viðbót eða fram í januar á næsta ári sjá þá til með manninn

  mbk

 50. Þrátt fyrir að þessi leikur hafi verið svipuð skita og gegn Aston Villa, Stoke og WBA þá einhvern veginn setti hann punktinn yfir i-ið varðandi nokkur atriði varðandi Liverpool liðið. Vandamál sem hafa verið til staðar allt tímabilið öskruðu á mann í gær.

  Í fyrsta lagi: Martin Skrtel hlýtur að hafa spilað sig út úr þessu liði. Hvort sem hann verður seldur eða ekki, þá bara hlýtur Rodgers að kaupa miðherja sem mun eiga að taka hans stöðu. Persónulega þá hef ég aldrei hrifist af spilamennsku Skrtel og gott season árið 2011 segir ekkert fyrir mér enda var Hodgson tímabilið ekkert venjulegt tímabil. Vörnin er hreinlega hriplek með hann innanborðs, hann ræður illa við stóra og sterka menn, slakur varnarlega gegn háum boltum og allt of villtur út úr sinni stöðu.

  Í öðru lagi: Joe Allen, úff hvað getur maður sagt. Hann var hreint út sagt hræðilegur í gær. Rodgers er búinn að taka þessa taktík á Downing, Enrique og Henderson, frysta þá og henda þeim síðan inn í liðið eftir X tíma og það reyndist hrikalega vel. Varðandi Joe Allen þá gekk það ekki og ekkert við því að segja. Maður hefur orðið afskaplega litla trú á manninum, missir boltann auðveldlega á miðjunni, virðist ekki nógu líkamlega sterkur og rúinn öllu sjálfstrausti. Það væri einfalt að segja “selja hann” en hver ætti að kaupa? Þó er hægt að segja að ef Liverpool ætlar sér ekki að lenda í fleiri skitum eins og í gær þá er lykilatrið að vera ekki með Joe Allen á miðjunni!

  Í þriðja lagi: Sjálfstraust, sigurvilji og bullandi trú leikmanna á sjálfum sér og liðinu. Það er þó eitthvað sem kemur ekki á einni nóttu og lítið við þessu að segja en maður grætur það þó í hvert skipti þegar maður sér hvað þetta vantar í liðið. Maður þarf ekki að líta lengra en til ársins 2009, þó við værum 2-0 undir og 10 mín eftir þá hafði maður alltaf trú á því að við gætum unnið leikinn og sú trú skein af leikmönnunum einnig.

  Auk þess er alveg sorglegt að sjá hversu miklu munaði að hafa meðal markmann af getu í liðinu í gær sem bjargaði okkur trekk í trekk og átti stórleik. Maður hefur ansi miklar áhyggjur af Pepe Reina í markinu. Ég man kannski eftir tveimur til þremur leikjum síðustu þrjú season þar sem hann tók svona færi eins og Jones í gær og hélt okkur inni í leiknum.

  Saman dregið þá súmmeraði þessi leikur í gær svo glæsilega hverjir eru helstu dragbítar þessa liðs og hafa gert ein flestu mistök liðsins. Auk þess sem að með þá inni á vellinum, virðast aðrir menn ekki ná því besta í sínum leik ogr í raun spila frekar undir pari. Við verðum að losa okkur við Skrtel úr vörninni og Allen af miðjunni, auk þess sem virkilega þarf að skoða hvort ekki sé á lausu einhver stór og sterkur markmaður sem étur teiginn og nær að loka betur á menn í dauðafærum.

  Mér finnst of mikið að segja að Rodgers hafi verið “versti maður vallarins” í gær. Hann neyddist til að spila Skrtel og hann henti Allen inn í liðið með alveg sama aðdraganda og hann endurlífgaði Enrique, Downing og Henderson. Málið er að í gær klikkaði það algjörlega. Það var þess virði að prufa þetta og leiðir vonandi til þess að þessi mistök verði ekki gerð aftur.

  En á ný segir maður sem Liverpool maður, mikið skelfilega hlakkar mig til að næsta tímabil byrji og vonandi verða fengnir 2-3 sterkir leikmenn í sumarglugganum

  YNWA

 51. Þegar ég sá myndasyrpuna frá því í miðri viku af öllum brosandi á æfingasvæðinu fékk ég strax slæma tilfinningu fyrir þessum leik. Slíkar myndir hafa oft reynst slæmur fyrirboði hvernig sem á því stendur.

 52. Ég held það skipti næstum engu máli hver spilar á miðjunni með Gerrard, það mun aldrei virka í tveggja manna miðju á móti þokkalegum liðum. Ef Gerrard á að vera á miðjunni þurfa að vera tveir aðrir þar líka til þess að komast hjá því að einhver einn leikmaður lendi í því að þurfa að taka á sig alla ábyrgð (og líta um leið afar ill út). Ef þetta á að virka þannig að Lucas Leiva á að sinna tveggja manna starfi á miðjunni svo hægt sé að hafa fjóra sóknarmenn inni á – sjá allir að Lucas þarf að spila yfirnáttúrulega vel.

  Takið eftir hvar Gerrard er staðsettur í fyrsta og þriðja marki. Langt frá öllu “action” með hendur á mitti.

 53. Hvernig stendur á því að Liverpool tapar fyrir Southamton?
  Hver er skýringin?

 54. Hvernig stendur á því að Liverpool tapar fyrir Southamton? Hver er
  skýringin?

  Í stuttu máli, Southampton skoraði fleiri mörk en LFC.

  Ef þú vilt frekari skýringar þá er leiksskýrslan (efst í þræðinum sem þú commentar á) góð lesning.

 55. Tottenham tapar, djöfull er það stundum erfitt að elska besta félag í heimi..

 56. Tottenham var að tapa sínum 3 leik í röð og spurning hvort að álagið á lykilmönnum hjá þeim sé að koma í bakið á þeim.

 57. “Spot-on” umfjöllun. Þessi 4 mannasóknarlína LFC eða öllu heldur með bara 2 miðjumenn er Brendan Rodgers að láta yfirspila okkur all rækilega! BR hefur verið að læra í allan vetur og hann verður að læra af þessu. Við vorum líka yfirspilaðir á móti Tottenham en var fyrirgefið vegna þess að við stálum sigrinum.

  Menn eru að uppgötva að Skrtel er “hinn hvíti Titus Bramble” og ef það er hægt að selja hann og fá pening fyrir betri leikmanni, please do! Þeir sem eru að bölva Joe Allen eða Henderson munið Lucas og tímann sem þetta tók hann.

  Þolinmæði er dygð! 🙂

 58. Er ekki hægt að fá opin þráð til þess að skella hérna efst ?
  Óþolandi fyrirsögn !!

 59. Hvernig væri að senda manneskjunni sem ræður á íþróttadeildinni hjá 365 póst, þ.e.a.s þeir sem hafa áhuga á því að losna við Arnar Bj. úr lýsingum á Liverpool leikjum og segja okkar skoðun á honum, ég er búinn að því sjálfur allavega…….. emilia.sighvatsdottir@365.is

 60. stefstef nr. 64. Arnar er hörmulegur með það að hann hefur afskaplega lítið að segja. En guð hjálpi okkur ef við fáum Gaupa eða Valtý Björn í staðinn. Þeir eru helmingi verri. Því miður eru hjá Stöð 2 aðeins tveir sem geta lýst sæmilega – ef þeir nenna – og það eru Gummi Ben og – heldur síðri – Höddi Magg.

 61. Sæl öll.

  Ég var að vinna og sá því miður ekki leikinn, fróðir menn segja mér að ég hafi ekki misst af miklu, en ég missi alltaf af þegar mínir menn spila því það er jú stuðningurinn sem skiptir máli. Nú veit ég alveg að þeir hafa ekki hugmynd um það hver er að horfa og hver ekki stuðningur eins breytir engu. En ef allir færu að hugsa svona þá yrði fljótt að kvarnast úr frábærum stuðningsmannahópi okkar ástkæra liðs.

  Þannig að mér finnst leiðinlegt að missa af leikjum hvort sem það eru tap-eða sigurleikir.
  Kannski þarf ég bara að heita á samstarfsfólkið köku fyrir hvern leik…verst hvað þau myndu fitna þegar vel gengur hjá okkur. Maður verður alla vega að leggjast undir feld og hugsa um eitthvað gott til að koma þeim á sigurbraut aftur.
  Það má t.d alls ekki tala um 4.sætið, ekki um meistaradeildina, ekki um deildarmeistara….tölum því bara um gleðina sem fylgir því að vera stuðningsmaður
  Liverpool.

  Þangað til næst
  YNWA

 62. Ég var þokkalega pirraður eftir þennan leik og þá sérstaklega út í Allen og er ég fullkomlega sammála leikskýrslunni hans Babu. Ég rakst líka á þessa grein hérna og fyrir þá sem ekki hafa lesið hana þá mæli ég með því. Þarna er verið að tala um Allen og mistökin hjá Rodgers að spila honum. En það er líka kallað eftir því að menn sýni Allen þolinmæði og er talað um Lucas í því samhengi. http://www.thisisanfield.com/2013/03/the-joe-allen-conundrum/

 63. Nuri Sahin setti tvö og lagði upp eitt um helgina sem djúpur miðjumaður. Voru mistök að láta hann fara svona snemma?

 64. Eini djúpi miðjumaðurinn sem við létum fara of snemma var Igor Biscan. Liverpool væri löngu orðið enskur meistari með hann á miðjunni.

 65. Fínn leikur hjá U21 liðinu á útivelli á móti Wolves var að ljúka með sigri 2-1. Dómari leiksins var Gunnar Jarl og hann stóð sig einnig vel.

Liðið gegn Southamton

Kop.is Podcast #35