Champions League Dreams eftir Rafa Benítez

Í síðustu viku gaf Rafa Benítez út bókina Champions League Dreams. Það ætti eflaust að koma fáum á óvart en ég forpantaði bókina og fékk hana senda í hús á útgáfudegi og las hana á tveimur kvöldstundum. Mér datt því í hug að deila aðeins með ykkur hvað mér fannst um bókina.

Champions League Dreams segir frá tíma Rafa frá því að hann tók við Liverpool sumarið 2004 og þangað til hann hætti störfum hjá liðinu sumarið 2010. Hann rekur söguna af framgangi liðsins á sínum sex tímabilum og einbeitir sér sérstaklega að Meistaradeildinni, þar sem hann náði sínum besta árangri í fimm af sex árum sínum. Bókin byrjar í hálfleik í Istanbúl og svo rekur hann hvert tímabil í kjölfar þess leiks, hvert tímabil í sínum kafla, áður en hann lýkur bókinni á fyrsta tímabili sínu og aðdragandanum að Istanbúl.

Rafa skrifar bókina ásamt Rory Smith, blaðamanni The Times. Bókin er ekkert sérstaklega löng, aðeins 304 blaðsíður og því nokkuð fljótlesin. Það tók mig tvær kvöldstundir, 2-3 tíma hvort kvöld, að klára hana. Rafa og Rory skrifa einfaldan og þægilegan texta og því er hún auðlesin. Frásögnin er nokkuð skemmtileg, sérstaklega fyrir þá sem hugsa hlýtt til valdatíma Rafa en einnig ímynda ég mér að jafnvel hörðustu gagnrýnendur Rafa hefðu gaman af að lesa þessa bók þar sem hún rifjar að sjálfsögðu upp suma af glæstustu sigrum síðari ára í sögu Liverpool.

Rafa byggir bókina upp í kringum stærstu leiki hvers tímabils. Hann fer yfir byrjunarlið þessara leikja, segir frá undirbúningi leikjanna og taktískum áætlunum. Bókin er gullnáma fyrir þá sem hafa áhuga á að sjá hvernig framkvæmdarstjóri Liverpool undirbýr sig fyrir leiki og hverjar hans áherslur eru. Sumt vissi ég en sumt kom mér á óvart, til dæmis það hversu mikla áherslu hann lagði á að leikmenn vissu allt um andstæðingana í hverjum einasta leik og eins það hversu mikla áherslu hann lagði á að leikmenn vissu ekki byrjunarliðið fyrr en ca. 90 mínútur fyrir hvern einasta leik.

Bókin er líka fróðleg því hann fjallar um andstæðinga sína í þessum stórleikjum og afhjúpar ágætlega sinn hugsanagang þar. Hann fjallar t.d. um 2-3 leiki gegn Chelsea-liði Mourinho snemma í bókinni og áherslurnar breytast nokkuð á milli leikja. Hann nálgaðist hvern Chelsea-leik á árunum 2004-05 eins og hann væri að spila við þá í fyrsta skipti, lét taktíkina í síðasta leik nokkrum mánuðum áður sig engu skipta og “scout”-aði þá alveg upp á nýtt fyrir hvern leik. Það bar góðan árangur, sérstaklega í bikar- og Evrópukeppnunum og hann var farinn að pirra Mourinho talsvert eftir nokkra leiki.

Sumt pirraði mig þó aðeins. Ég skil af hverju, en ég varð samt fyrir vonbrigðum með að sjá hvað hann skautar fimlega yfir neikvæðu atriðin. Ég var innst inni að vonast eftir að hann myndi vaða í Hicks og Gillett og jafnvel Rick Parry í bókinni, segja okkur nákvæmlega hvað klikkaði við Robbie Keane-kaupin og söluna, og svo framvegis. Hann talar mjög lítið um þá hluti. Til dæmis útskýrir hann vel hvers vegna þeir keyptu Robbie Keane sumarið 2008, segir í smáatriðum frá því hvernig þau kaup áttu sér stað og hrósar svo Keane nokkrum sinnum í umfjöllun um fyrstu leiki næsta tímabils. Síðan hoppar hann yfir janúarmánuð og fjallar næst um sigurleikina gegn Real Madríd í febrúar/mars 2009 og þá skyndilega segir hann bara að fyrst Keane hafi verið farinn hafi þeir þurft að treysta á Torres og Ngog. Sem sagt, hvað gerðist á milli þess sem hann keypti Keane og var ánægður með kaupin og þess að hann ákvað að selja hann fjórum mánuðum seinna, er ekki nefnt einu orði.

Ég skil það vel, svo sem. Hann tekur það skýrt fram í bókinni að hann líti á alla leikmenn sem drengi sína og oftar en einu sinni segist hann ekki vilja bregðast trausti leikmanna (sérstaklega Alonso og Gerrard) með því að segja frá einkasamtölum þeirra. En það voru samt eilítil vonbrigði að hann skyldi ekki fara meira í smáatriðin á því sem fór aflaga í sinni tíð. Eftir að hafa lesið An Epic Swindle eftir Brian Reade í fyrra, þar sem hann fer í saumana á skelfilegri eigendasögu Hicks og Gillett, hefði ég verið meira en til í að heyra hlið Rafa á þeirri sápuóperu.

Hann fjallar vissulega um þessa hluti, sérstaklega Klinsmann-söguna og samskipti sín við eigendurna frá þeim mánuði og fram að því að hann var rekinn. Bara ekki eins mikið og ítarlega og ég var að vonast eftir.

Engu að síður get ég mælt með þessari bók. Hún er kannski eilítill hvítþvottur á tíma Rafa, einbeitir sér að jákvæðu stundunum og forðast mikið að ræða það neikvæða, en engu að síður er þessi bók mjög fróðleg fyrir þá sem vilja rifja þessi sex tímabil upp og sérstaklega fyrir þá sem hafa áhuga á að lesa um taktískar pælingar Rafa og það hvernig hann undirbjó sig fyrir leiki.

Eigum við ekki að segja að Champions League Dreams fái 3 stjörnur af 5 hjá mér. Stutt, auðveld og skemmtileg lesning fyrir Liverpool-aðdáendur en þó ekkert sem gjörbreytir hugsanagangi manns. Ég hugsa að ég sé reiðubúinn að setja stóran punkt við þessi sex ár eftir að hafa lesið þessa bók og An Epic Swindle.

22 Comments

  1. Það er væntanlega einn kafli sem fer í að útskýra af hverju í fjandanum hann gat ekki einu sinni brosað þegar “drengirnir hans” skoruðu…. Ágætis stjóri að mínu mati en mikið rosalega fór það í mig hvað hann gat ekki hrifist með leiknum.

  2. Þótt ótrúlegt megi virðast þá útskýrir hann það og gerir það fullkomlega vel.

    Og já, þetta er ennþá ein þreyttasta „skoðunin“ þarna úti. Af öllu til að pirra sig á, að hann skuli hafa viljað nota tímann í að koma skilaboðum til leikmanna í stað þess að hoppa um og dansa þegar mörk voru skoruð? Læsum hann inni og fleygjum lyklinum, hér er greinilega kolruglaður einstaklingur á ferð. Rafa í fangelsi.

  3. Nr. 1

    Er farinn að taka þessu sem hrósi á Benitez. Þeir sem þoldu manninn ekki og rembast við að gera það ennþá gengur svo illa að finna rök til að styðja þá skoðun sína að þetta er oftar en ekki það helsta sem er notað. Þeir sem pirra sig yfir þessu eru helmingi meira óþolandi heldur en það að kallinn hafi ekki sleppt sér þegar Liverpool skoraði.

    Langar mikið að lesa þessa bók.

  4. Einhverstaðar las ég það að ástæðan fyrir því að hann brosti ekki er að þetta eru atvinumenn í fótbolta sem eiga að leggja sig fram og þeira markmið er að skora mörk. Hann er ánægður að markmiðinu er náð en ekkert til að missa sig yfir því oft er mikið eftir af leikjum og þetta er þeira vinna og þeir fá borgað fyrir þetta.

  5. Takk fyrir þetta Kristján. Á svipuðum nótum en ekki þeim sömu þá er búið að sýna fyrsta þáttinn af Being Liverpool. Ég sá fyrsta þáttinn í gær og var ánægður með margt en geri ráð fyrir að tjallinn verði ekkert sérstaklega hrifinn. Helst til of “ameríkanskað”. Ég hafði gaman af því að fá smá innsýn inní þetta.
    Hafa aðrir horft á þetta og hafa skoðun?
    Ég vona að ég sé ekki að ræna þræðinum en kannski sparar þessi umræða okkur eitthvað rafa umræðuna 🙂

  6. jæja, nr. 3 virðist tilbúinn til að taka slaginn um kosti og galla heilags Rafaels í enn eitt skiptið. Einhverjir sem nenna?

  7. Kláraði einmitt að lesa þessa bók í morgun og er sammála Kristjáni í sínum dómi… Skemmtileg lesning með ágætis innsýn í huga og starfsaðferðir Rafa.

    Ég var samt að vonast eftir meiri krassandi lesningu.

  8. Það væri gaman að lesa þessa bók, vitiði hvort hun verði gefin uta islensku?

    Og annað þessir nyju þættir um Liverpool vitiði hvort þeir verða syndir i isl sjonvarpi og ef jà à hvaða stoð og hvenær. Eg langar mikið að sja þessa þætti.

  9. Viðar. stöð2 sport mun sýna þessa þætti. Ekkert verið gefið út um það ennþá hvenær þeir verða sýndir. En þeir verða allavega ekki frumsýndir í Uk fyrr en í næstu viku skilst mér.

  10. Kristján Atli. Gaman að því að skoðun skuli geta orðið þreytt. Já, það fór verulega í mig að maðurinn skuli ekki geta brosað yfir því þegar liðið skoraði. Svona eins og yfirmaðurinn sem aldrei nokkurntímann sýnir ánægju sína með vel unnið dagsverk hjá starfsmönnum sínum. Það er allavega ekki þannig yfirmaður sem ég kýs að hafa. Rafa gerði ýmislegt ljómandi vel eins og t.d. að skipuleggja varnarleik liðsins stórkostlega. Já og þið félagarnir Babú og Kristján eruð svo yfir ykkur hrifnir af manninum að það sem fer mest í taugarnar á ykkur eru menn sem finna að því að hann hreifst ekki með. Það er í meira lagi athyglisvert. Segir mér að ykkar rök séu þau að menn eigi að fíla hann no matter what.
    Ég mun ævinlega þakka honum fyrir Istanbul, og lasta hann fyrir klúðrið með Alonso.

  11. Snæþór S.H., heldur þú virkilega að Rafa hafi aldrei sýnt leikmönnunum að hann hafi verið ánægður með þá? Bara af því að hann hljóp ekki til og faðmaði þá og gaf þeim nammi eins og Gaui Þórðar og renndi sér í grasinu á jakkafötunum í hvert skipti sem þeir skoruðu mark?

    Heldurðu að hann hafi þá bara verið fúll og ekkert hrósað eftir sigurleiki? Ekkert inní klefa, eða í rútunni á leiðinni heim, eða á æfingasvæðinu daginn eftir? Að hann hafi bara sagt “Whatever” þegar þeir unnu Juventus eða Chelsea eða Inter eða Real og látið eins og ekkert gott hafi gerst?

    Og svo verður Rafa sem sagt bara á núllinu nettó; hann gaf okkur Istanbúl en missti svo Alonso (sem hann gaf okkur sjálfur, nota bene). Af því að þessir tveir atburðir eru alveg jafn mikilvægir í sögu Liverpool. Rafa, maðurinn sem gerði sumt gott en klúðraði öðru og brosti aldreeeeeiiiiiiiiii.

    Fegnir að losna við hann. Enda voru þeir miklu betri þessir Roy og Kenny…

  12. Lesskilningur er mikilvægur í rökræðum á internetinu. Ég bað um bros. Ekki sælgæti, ekki faðmlög og ekki rennitæklingar í jakkafötunum.

    Við, stuðningsmennirnir, erum hluti af klúbbnum, það erum við sem erum viðskiptavinirnir og mér fannst það leiðinlegt og niðurdrepandi að hann skyldi ekki hrífast með. Það að þú teljir þig geta sagt mér hvað mér eigi að finnast er vægast sagt dapurlegt og sýnir að þú ert hugsanlega blindaður af ást.

    Var það tæmandi listi hjá mér varðandi Istanbul og Alonso? Hef ég sagt að ég líti á Rafa sem núll? Nei, aftur ert þú í hrópandi vörn fyrir manninn og búinn að verja óþarflega mörkum kílóbætum í það sýnist mér af internetinu.

    Sagði ég að Roy og Kenny hefðu verið betri? Sagði ég að ég hafi verið ánægður með að hann hafi verið látinn fara? …neibbs. Ég sagði hinsvegar að það hefði farið í taugarnar á mér að hann skildi ekki hrífast með. Getur verið að þú sért svo upptekinn af því að verja hann að þú sjáir rautt ef einhver segir eitthvað annað en jákvætt um hann? ….jábbs

  13. Hvar í andskotanum sagði ég þér hvað þér ætti að finnast?

    Ég trúi ekki að ég sé að eiga þessar rökræður einu sinni enn. Það eru rúm tvö ár síðan Rafa hætti og ég er að fjalla um bók sem hann skrifaði. Og samt endar umræðan alltaf á sama veg – hann brosir ekki nóg.

    Ég nenni þessari umræðu ekki lengur. Þú vinnur. Rafa hefði átt að brosa meira.

  14. Bað þig aldrei að vera sammála mér. Þú fannst þig knúinn til stökkva upp á nef þér vegna þess að ég sagði:

    BlockquoteÁgætis stjóri að mínu mati en mikið rosalega fór það í mig hvað hann gat ekki hrifist með leiknum.

    Það var enginn sem bað þig um að taka þennan slag. Þú valdir að gera það vinur. Og að mínu mati er þetta slagur sem enginn ætti að nenna að taka. Þér fannst þetta í góðu með tilfinningarleysið, ég er ekki að reyna að segja þér að það sé rangt hjá þér, þú mátt hafa þá skoðun fyrir mér. Mér fannst hinsvegar ekki í góðu að sá aðili sem fékk þá heiðursstöðu að stjórna LFC skildi ekki fagna mörkum, fannst það sína að hann liti á þetta meira eins og another day at the office. Ennnn það er bara mín skoðun.

  15. fannst það sína að hann liti á þetta meira eins og another day at the office. Ennnn það er bara mín skoðun.

    Þessi rökleysa virkar á mig eins og þegar Sam Allardyce beit það í sig að Benitez væri að gera lítið úr honum með handamerkingum og fór grenjandi til Ferguson í kjölfarið. Það var auðvitað bara hans skoðun líka.

    En eins og ég hef áður sagt (og þetta er bara mín skoðun). Mikið djöfull finnst mér miklu skemmtilegra að hafa stjóra sem tapar sér ekki yfir hverju marki og gerir það nokkuð oft frekar en að hafa stjóra sem sleppir sér alveg í hvert skipti en skorar ekkert sérstaklega oft! Mér er meira að segja slétt sama hvort hann upplifi leikdag sem another day at the office (ansi mikil einföldun btw).

    Alonso “klúðrirð” var síðan þannig að við seldum spænskan leikmann (sem Benitez btw keypti) á rúmlega helmingi hærra verði en við keyptum hann á til Real Madríd. Heldur þú að sú sala hafi bara komið vel vegna fýlu Alonso út í Benitez? Virkaði fjandi ferskur þetta tímabil sem þeir tóku eftir að Alonso var næstum seldur. Persónluega held ég og sérstaklega m.v. það sem kom í kjölfarið að Liverpool hafi heldur betur viljað selja leikmann á mikinn pening og Alonso er ekkert frábrugðinn öðrum löndum sínum og vill spila hjá Real Madríd, jafnvel frekar en Liverpool. Því miður.

  16. Og þú líka Babú. Í alvöru! Þið eruð bráðfyndnir. Er það virkilega svona sárt að einhverjum finnist að maðurinn hefði mátt brosa meira?

    Já og BTW, ég var ekki að færa rök fyrir neinu með þessu:

    fannst það sína að hann liti á þetta meira eins og another day at the office. Ennnn það er bara mín skoðun.

    Þarna stendur klárlega fannst og skoðun. Hvorugt er tilraun til röksemdafærslu heldur lýsing á minni upplifun.

    Eftir þessi orðaskipti hérna í morgun þá er ég á því að Benitez, Babú og Kristján þurfi allir að brosa meira. Over and out.

  17. Snæþór, ég efast um að einhverjum finnist það eitthvað sárt sem þú ert að meina heldur beinlínis heimskulegt og ekki skipta nokkru einasta máli við mat á hæfni knattspyrnustjóra.

    Til hvers þurfti Rafa að brosa meira?! Í alvöru talað. Er það ekki árangurinn sem talar? Ég skil ekki þessa endalausu rökræðu um hæfni Rafa og að efasemdarmenn geti einhvern veginn botnað hana með þessu “já en hann var bara alls ekki nógu brosmildur”.

    En hey, það hafa allir rétt á sinni skoðun og allir rétt á að gagnrýna þær skoðanir þannig að menn ættu ekki að vera hissa á að menn setji fram skoðanir sínar á vefsíðu sem beinlínis snýst um skoðanaskipti.

  18. Ég held það sé nú alveg hægt að sjá fylgni í því hversu góðir stjórar eru og hvað þeir fagna mikið. Eins og var nefnt hérna að ofan þá rennir Mourinhio sér stundum þegar liðið hans skorar = Einn sigursælasti stjóri samtímans.

    Sir Alex Ferguson, hárþurkan fræga og fagnar eins og lítill drengur þegar liðið hans skorar = sigursælasti þjálfari allra tíma og sá besti frá upphafi!

    Báðir ofangreindir með greinilega með mikið passion!!

    Benitez, jújú maður sér bros annars lala eða ágætur þjálfari.

    Guðjón Þórðarsson, gefur leikmönnum nammi = það vita það allir að nammi er óhollt en hefur gert ágæta hluti á litla íslandi og smá erlendis.

    Niðurstaða = það skiptir máli hvort menn fagna eða ekki þegar gæði stjóra er metinn;)

  19. Kannski gefur Rafa út bók sem mun heita “My smile, or the lack of it” Þá verða einhverjir á íslandi sáttir!!!

  20. Fyndin umræða! Mitt innlegg er að mér er alveg sama, en viðurkenni samt að það var æði að sjá Kenny hoppa af kæti og brosa til áhorfenda. Þetta er hluti af karakternum. Kenny er magnaður karakter. Mourinho renndi sér á jakkafötunum, annar magnaður karakter. Benítez er ekki eins, en hann er samt magnaður karakter líka. Öðruvísi, en samt magnaður. Þetta er svolítið eins og að rífast um bækur eða hljómsveitir, menn mega alveg hafa sína skoðun og menn mega vera ósammála 🙂 Hverjum þykir sinn fugl fagur og allt það. Óþarfi að taka heilan þráð í að rökræða um þetta, finnst mér.

    Annars vil ég gjarnan lesa bókina, en það dró aðeins úr áhuganum að hún sé ekki meira krassandi, eða ég les það úr þessu hjá Kristjáni. En ég er klárlega að fara að lesa hana, en bíð bara rólegur eftir að hún komi til Íslands. Eða sem rafbók etv.

  21. Fyrir þá sem er með US aðgang að iTunes Store, þá er hægt að sækja fyrsta þáttin af Being Liverpool þar frítt og horfa.

Heysel & Hillsborough

BSC Young Boys – fim. kl:17:00