Ööö … ferðasaga?

Jæja, þá er sex daga heljarferð til Liverpool lokið og “netlöggurnar” fjórar eru snúnar aftur á síðuna sem þær halda úti án endurgjalds, reiðubúnar að skrifa um og deila reynslu sinni með lesendum síðunnar. 🙂

Við ákváðum að reyna að halda þessu í styttra lagi – í stað þess að segja frá hverju einasta smáatriði að fá þá frekar stutta frásögn frá hverjum og einum – hvað stóð uppúr, hvað niðurúr, og svo framvegis. Þannig að hér kemur sú frásögn:


Kristján Atli: Tveir leikir á Anfield. Man U og Barcelona. 180 mínútur af knattspyrnu. Ekkert Liverpool-mark skorað. Tvö 0-1 töp á heimavelli. Það hljómar hálf skringilega, en þessi ferð var æðisleg. Og ég skal útskýra af hverju.

Ég er persónulega þannig gerður að lífið er skemmtilegt. Og af því að lífið er skemmtilegt, þá geta jafnvel stundum slæmu hlutirnir verið broslegir eftir á. Til dæmis, þá var maturinn sem við borðuðum í þessari ferð ömurlegur. En það er bara broslegt eftir á. Eins var gistiaðstaðan ekki sú boðlegasta, en menn gátu brosað að því líka. Þá ákváðum við bloggararnir frekar að leggja okkur í tæpa þrjá tíma í nótt í stað þess að djamma fram til klukkan 4, þegar rútan átti að mæta, og fyrir vikið misstum við af tækifærinu á að hitta leikmenn liðsins á pöbbnum hans John Aldridge. Svekkjandi, en broslegt eftir á.

Eitt er þó ekki broslegt, og það er að tapa fyrir Man U á 92. helvítis mínútu. Það er bara ekkert broslegt við það, og ég kvíði vinnudögunum sem eru framundan þegar allir United-aðdáendur heimsins skríða út úr skólplögnunum og minna mann á hverjir eru að vinna deildina. Fuckers.

Heildarmyndin segir þó aðra sögu, þrátt fyrir að leikurinn í gær hafi líka tapast 0-1. Það er nefnilega svo margt sem vegur upp á móti tveimur tapleikjum. Fyrir það fyrsta, og það langsóttasta, þá er alltaf gaman að fara á Anfield og þá sérstaklega tvisvar í sömu vikunni. Þá fengum við að hitta nokkrar goðsagnir, svo sem John Aldridge og David Johnson. Hjalti reyndar missti af Aldridge en hitti Alan Shearer í Newcastle í staðinn. Þegar hann reyndi svo að monta sig af því að hafa hitt Shearer minnti ég hann góðfúslega á það hvor þessara tveggja hefur skorað fleiri mörk á ferlinum. 😉

Þá eyddum við fjórum tímum á hinum víðfræga The Park fyrir utan Anfield í gær, fyrir leik. Það var í einu orði sagt stórkostlegt. Að sjá miðaldra karlmenn, bera að ofan uppi á borðum, veifandi treyjum og treflum yfir höfðum sér og syngjandi um Gary Macca klukkan fjögur um daginn á þriðjudegi er nokkuð sem ber að bæði dást að og óttast, virða og hlæja. Þessi staður er ekki víðfrægur fyrir ekki neitt og það er skemmst frá því að segja að maður var orðinn hás áður en maður mætti á Anfield. Segir allt sem segja þarf.

Stemningin á Anfield á laugardaginn var fín. Bar keim af hádegisleik, þ.e. menn ekki komnir í fullan gír (bjór + söngur = stemning) en það var fínt að vera á þeim leik samt sem áður. Leikurinn gegn Barca var síðan ein stór klikkun. Við Einar Örn sátum saman og við, sem og aðrir á vellinum, stóðum meira og minna allan tímann. Vorum komnir inná völlinn 45-50 mínútum fyrir leik og fórum ekki út fyrr en tíu mínútum eftir leikslok … og allan tímann var sungið. Þetta gekk svo langt að í hálfleik, þegar menn fóru á klósettið og slíkt og gerðu rétt sem snöggvast hlé á Liverpool-söngvunum, var spilað í hátalarakerfinu lagið “Ruby Ruby” með Kaiser Chiefs. Völlurinn gerði sér lítið fyrir og söng hástöfum með því lagi líka. Klikkuð stemning.

Þannig að á heildina eru tilfinningarnar blendnar en ánægjan mikil. Maður átti góða og afslappaða helgi í Liverpool, innbyrti nóg af fullorðinsmjólk, nýtti vorútsölurnar í þessari annars ódýru borg, upplifði klikkaða stemningu á The Park og sannarlega klassískt Evrópukvöld á Anfield, og tók þátt í því þegar Liverpool F.C. – ellefu leikmenn og Tólfti Maðurinn – slógu Evrópumeistara Barcelona út úr Meistaradeild Evrópu.

Sem sagt, snilldarhelgi. Ef ekki væri fyrir helvítið hann John O’Shit …


Einar Örn: Ég er að skrifa minn hluta af sögunni inn síðast eftir að hafa lesið ferðasögu hinna strákanna, þannig að ég hef ekki miklu við þetta að bæta.

Þetta var frábær ferð. Einhvern veginn var leikurinn við Man U bara “bónus” þar sem ég ætlaði upphaflega bara að sjá Barca leikinn. En að tapa fyrir því liði var fáránlega svekkjandi, sérstaklega í ljósi mikilla yfirburða í leiknum. Tapið gegn Barca gerðiþað líka að verkum að ég er með vægast sagt **hrikalegan** árangur í ferðum mínum á Anfield. Hef farið fjórum sinnum (Blackburn, Benfica, Man U og Barcelona) – séð einn sigur en þrjú töp. 25% árangur og markatalan er 1-4. Eina markið sem ég hef séð Liverpool skora var frá Cisse úr aukaspyrnu. Það er ljóst að ég fer ekki aftur á Anfield í bráð, en kíki auðvitað til Aþenu ef það er glæta, enda árangur minn á útivöllum talsvert betri. 🙂

Ég afrekaði það líka í þessari ferð að borða 13 vondar máltíðir en eina góða og gisti á hóteli sem er með lélegri sturtu en hótel í Kambódíu.

En það skipti bara engu máli, því í 90 mínútur á Anfield fékk ég að upplifa stórkostlegustu stemningu sem ég hef nokkurn tímann upplifað á fótboltaleik. Það að standa í 90 mínútur og syngja og öskra fyrir Liverpool er einfaldlega lífsreynsla sem maður gleymir ekki. Það jafnast **ekkert** á við Evrópuleik á Anfield. Að hlusta á *Fields of Anfield Road* sungið af stuðningsmönnum Liverpool er ótrúlegt.


SSteinn: Já, hvað skal segja. Þessi ferð sem við félagarnir fórum í var ógleymanleg og það fyrir margra sakir. Úr kjallara og upp í hæstu hæðir skýjakljúfa. Á hinum ótrúlega fágaða hóteli, Brittannia Adelphi voru sem sagt saman komnir um 50 karlmenn frá Íslandi sem áttu eftir að vera í hinni frægu Liverpoolborg frá föstudegi og fram á miðvikudagsmorgun. Þrátt fyrir að einstaklingar innan hópsins hafi verið margir og sumir gerólíkir, þá virtust allir ná að finna sér eitthvað við hæfi allan tímann.

Ekki var ég fararstjóri í þessari ferð, heldur venjulegur borgandi farþegi. Það breytir því þó ekki að þegar á hólminn er komið, þá kemur þetta fararstjóra eðli upp í manni og fór það að lokum þannig að ég þurfti að “horfa” á leikinn á móti Man U á The Park. Vandræði og svik óprúttinna aðila varðandi miða gerðu þetta að verkum. Það er líklega mín alversta upplifun úr öllum mínum ferðum á leiki Liverpool. Það var einfaldlega ekki hægt að fólk sem var kannski að koma á einn af örfáum leikjum sínum, myndu missa af þessu. Það var því tekin erfið ákvörðun og ekki hef ég hugmynd um eitt né neitt úr þeim leik (við sáum ekkert af leiknum á troðfullum Park).

Það er oft talað um Liverpool anda og hann kom bersýnilega í ljós þarna. Af þessum 50 miðum þá vantaði 4. Ég bauð mig fram, og svo einnig þeir tveir sem skipulögðu ferðina. 4 maðurinn sem stóð með okkur á barnum hafði lagt af stað eldsnemma um morguninn frá heimili sínu í London, og fór svo strax tilbaka með lest eftir leikinn. Hann þekkti ekki þann sem fékk miðann hans, hann var ekki íslenskur og þurfti bara alls ekki að gera neitt í þessu. Hann hefði getað farið bara á sínum ársmiða á sinn stað og horft á leikinn. Nei, það kom ekki til greina hjá honum að vita af einhverjum sem hafi ferðast alla þessa leið til að missa af leiknum. Hann lét bara sinn. Þetta er hinn eini sanni Liverpool andi sem þessi aðili sýndi.

Allt frá þessum degi fór spennan að byggjast upp. Þriðjudagurinn var aðalmálið og það var alveg ljóst að það stefndi í eitt af þessum eftirminnilegu Evrópukvöldum. Það er óhætt að segja það að þetta stóðst allar væntingar og hrikalega rúmlega það. Það eru margir Íslendingar sem þekkja The Park fyrir leiki. Það mætti orða þetta sem svo að menn geta tekið venjulega upphitun á The Park og margfaldað hana með þúsund, þá fara menn að nálgast það að geta gert sér í hugarlund hvernig þetta var frá því klukkan 16 á þriðjudaginn og þar til hálftíma fyrir leik. Staðurinn var hreint út sagt FOKHELDUR og efast ég um að hægt verði að opna hann í bráð. Leikirnir sem ég hef farið á með Liverpool fara að nálgast sjötta tuginn, en ég hef aldrei áður upplifað The Park eins og hann var þennan dag.

Leikinn sjálfan er óþarfi að rifja upp, ekki sest niður eina sekúndu, ekki þagnað í eina mínútu og gæsahúð allan tímann. Það voru þreyttir, en afar ánægðir ferðalangar sem hittust á hótelinu um kvöldið. Sumir ákváðu nú að ekki tæki því að halla sér fyrir rútuferðina, en aðrir náðu sér í dýrmæta 3-4 tíma í svefn. Það er morgunljóst að svona ferð er ekki toppuð nema við mjög sérstakar aðstæður. Ég vil þakka öllum þeim sem voru í ferðinni, og eins þeim sem við hittum og voru á eigin vegum, fyrir frábæra skemmtun og sinn þátt í að gera þetta allt saman ógleymanlegt.


Hjalti: Eftir svekkjandi niðurstöðu á laugardeginum eyddi ég tveimur dögum í Newcastle. Það var frábært að vera þar en það var ekki fyrr en ég var í lestinni á leiðinni aftur til Liverpool að ég settist niður, sá Metro blað sem dreift er frítt, og sá fyrirsögnina: ?Rafa´s best will beat Barcelona,? að ég fékk fiðring í magann.

Ég var búinn að sjá þrjá leiki á Anfield fyrir þessa ferð. Ég sá Liverpool vinna Chelsea árið 2001, sigurleik gegn Charlton 2004 og svo 1-1 jafntefli í endurkomu Robbie Fowler í fyrra. Þá sat ég í Kop stúkunni, í mitt eina skipti, en þessi leikur gegn Barcelona var í allt, allt öðrum klassa. Mig hefur langað til að upplifa Evrópukvöld á Anfield í háa herrans tíð, enda andrúmsloftið á þeim annálað, og ég varð svo sannarlega ekki fyrir vonbrigðum.

Ég kom út úr lestinni og labbaði niður í miðbæ í hádeginu þar sem stuðningsmenn voru byrjaðir að safnast saman og syngja, sjö tímum fyrir leik. Við fengum okkur í gogginn og svo var haldið á Park þar sem ég hitti hina strákana. Stemningin þar var mjög sérstök. Sungið endalaust, mis-fjölbreytilegir söngvar en ?We won it five times? í fyrirrúmi á Evrópukvöldi. Það var magnað að sjá það á Park þegar stuðningsmenn Barcelona komu og leiddu sönginn til heiðurs Liverpool! Svona á að skemmta sér….

Ég þarf ekkert að fjölyrða um leikinn eða stemninguna þar, hún var ólýsanleg. Allskyns menn voru í kringum mig, fyrir framan sátu tveir drengir sem reyktu þrjár jónur á meðan leiknum stóð (ekki nema von að ég skemmti mér svona vel?), mér á hægri hönd var strákur sem ég spjallaði mikið við en hann á ársmiða sem hann kaus að lána til að sitja frekar þarna, nánast beint fyrir aftan markið í Anfield Road stúkunni, og svo fyrir aftan voru nokkrir gamlir karlar sem öskruðu líka.

Ég sat frekar nálægt stuðningsmönnum Barcelona sem stóðu sig vel. Magnað var það augnablikið eftir leikinn þegar þeir spænsku klöppuðu til okkar og öskruðu ?Liverpool! Liverpool! Liverpool!? og að sjálfsögðu öskruðum við ?Barca! Barca! Barca!? til baka. Einhvernveginn var það augnablikið sem ég dáleiddist mest af….

Ég gæti skrifað miklu mun meira en ætla að hemja mig en enda á nokkrum tilvitnunum frá því eftir leikinn gegn Barcelona:

Peter Crouch: It was probably the best atmosphere I have been part of to be honest.

Xabi Alonso: We knew that it was going to be a great atmosphere. The support has been massive and for me is why they are the best supporters in the world.

Rafael Benítez: I am really proud of the players and the supporters. They were amazing. We always have the best supporters in the world and tonight they were almost perfect.

12 Comments

  1. Steini er ekkert neitt spenntur á þessari mynd (sjá höndina á honum).

    Ég fór með 2 vinum á ManU á laugardaginn, svekkjandi úrslit en þvílík snilld að koma á Anfield í fyrsta sinn!!! og verður ekki það seinasta.

  2. Ég tek hatt minn algjörlega að ofan fyrir suður afríska/þýska/skoska//enska “uppínefkrabbaklósstingandi” kyntröllinu fyrir að láta miðan sinn. Sá verður heiðraður eftir tvær vikur :biggrin2: …ég meina, maður sem kom til Íslands á Music Festival(Þjóðhátíð í Eyjum) er nú ýmsu vanur :laugh:

    …og Einar, ekki meira Anfield fyrir þig!!! :tongue: :laugh:

  3. Takk fyrir ferðapistlana strákar. Auðvitað öfundar maður ykkur dálítið, en það kemur að því að maður fari sjálfur á Anfield (tíminn að styttast!) … Aggi stóð sig mjög vel með síðuna á meðan þið voruð úti, en það er gott að sjá ykkur hér aftur. Hlakka til frekara Liverpool-spjalls!

    Áfram Liverpool!

  4. Vá, ég held að ég sé bara feginn að hafa íslenska en ekki írska þuli í sjónvarpinu. Þvílík vitleysa:

    >When is Jermaine Pennant ever going to be in a team that wins the Premier League or the Champions League? Never!

    Aha!

  5. Daði :laugh: :laugh: :laugh: :laugh: :laugh: :laugh:

    Vantar e-ð í hausinn á þessum ?!

  6. Já ég sá þetta fyrr í dag á einhverju spjallborði. Þetta er með ótrúlegri kommentum eftir knattspyrnuleik sem ég hef séð. Miðað við það sem ég las á spjallborði er þessi Dunphy víst yfirlýstur United-aðdáandi og menn vilja meina að hann sé bara ekki hlutlaus þegar LFC er annars vegar. Hlýtur að vera, því ef honum finnst þetta í alvöru um leikinn á þriðjudag þarf hann á geðhjálp að halda sem fyrst.

  7. Ja hérna, þvílíkir fæðingarhálfvitar! Þetta eru svipuð rök og menn voru með í sambandi við það að það hafi verið heppni þegar við urðum Evrópumeistarar fyrir tveimur árum.
    Vona að við fáum Chelsea FC í 8 liða úrslitum 🙂

  8. Var að lesa Blaðið í dag, frétt þar um Livrpool á bls 4. Í lok fréttarinnar segir greinarhöfundur orðrétt: “Nýjir eigendur(Liverpool)vaða í seðlum og hald ekki ýkja fast um budduna. Það sýnir tilboð Liverpool í Samuel Eto’o sem er meðal þeirra hæstu sem sést hafa í boltanum í allangan tíma.” Er einhver fótur fyrir því að þetta tilboð sé staðreynd eða er þetta bara bull. Ég hef ekki getað fundið neitt um þetta hvorki hér á þessari góðu síðu eða annarsstaðar. Ef einhver veit eitthvað um þetta mál endilega látið heyra í ykkur. Væri ekki slæmt ef þetta væri staðreynd en sennilega ekki fótur fyrir þessu.

  9. Þeta er víst á blaðsíðu 40 í Blaðinu í dag, smá ásláttarvilla, sorrý.

  10. Davíð, fyrst þeir geta ekki heimilda er þetta nær örugglega innistæðulaust slúður tekið af einhverju spjallborði eða slíku. Ef t.d. BBC hefði sagt frá þessu tilboði – og BBC er með áreiðanlegri miðlum þarna úti – þá hefðu þeir á Blaðinu hiklaust tekið það fram til að ljá sögunni meira vægi. Það að þeir taki ekki fram heimildir bendir til skorts á traustum heimildum.

Aukaleikarinn sem stelur senunni!

CSS vandamál