Juve 0 – L’pool 0 (uppfært)

VIÐ ERUM KOMNIR Í UNDANÚRSLIT
MEISTARADEILDAR EVRÓPU 2005!


Ég trúi þessu varla. Þvílíkur leikur. Okkar menn stungu upp í ansi marga r neikvæðar raddir í kvöld, gerðu sér lítið fyrir og héldu markalausu jafntefli gegn JUVENTUS á Delle Alpi í Tórínó í kvöld. Liverpool eru því komnir í undanúrslit!!! 😀

Hvernig gat þetta gerst? Við skulum kíkja aðeins nánar á það hér. Byrjunarliðið var sem hér segir:

Dudek

Finnan – Carragher – Hyypiä – Traoré

Núnez – Alonso – Biscan – Riise
García
Baros

BEKKUR: Carson, Welsh, Potter, Le Tallec, Smicer, Cissé, Warnock.

UM JUVE: Ég var með það á hreinu fyrir þennan leik að Juventus myndi skora a.m.k. eitt mark og batt því vonir okkar við að við næðum að skora á útivelli í kvöld. Leikurinn hófst og ég bara beið eftir að stórsókn Juventus myndi hefjast … og eftir 90 mínútna leik var ég enn að bíða. Þeir áttu jú tvö algjör DAUÐAfæri í kvöld (Ibrahimovic í fyrri hálfleik, Cannavaro í þeim seinni) en þess utan þá náðu þeir einfaldlega aldrei að pressa okkur í kvöld. Þeir voru meira með boltann en höfðu bara einfaldlega ekki það sem til þurfti til að skapa sér mörg færi í kvöld, né setja vörnina okkar og Dudek í markinu undir neina verulega pressu.

Með öðrum orðum, þá olli Juventus vonbrigðum í kvöld frá hlutlausu sjónarhorni séð. Ég hélt þeir yrðu miklu betri en þetta í kvöld og þótt þeir hafi verið betri aðilinn í æsispennandi taugastríði þá gerðu þeir einfaldlega ekki nóg til að komast áfram, og detta fyrir vikið verðskuldað út.

UM LIVERPOOL: Hetjuleg barátta. Ekkert annað en hetjudáð, það skal alveg vera á hreinu! Hafið það í huga að í kvöld var Dudek að snúa aftur í liðið eftir að hafa misst úr þrjá leiki, Xabi Alonso að leika fyrsta leik sinn í þrjá mánuði og Djibril Cissé fyrsta leikinn í SJÖ mánuði og aðrir leikmenn í liðinu örþreyttir eftir mikla törn undanfarið. Þá vantaði þá Steven Gerrard, Dietmar Hamann, Mauricio Pellegrino, Fernando Morientes, Josemi, Florent Sinama-Pongolle, Neil Mellor og Chris Kirkland í liðið í kvöld.

Með öðrum orðum, þá var allt á móti okkur í þessum leik. En hvað gerðu okkar menn? Jú, þeir sýndu enn einu sinni að liðsheildin er svo miklu, miklu, miklu mikilvægari en það að hafa stórstjörnur í liðinu. Það héldu næstum því allir að við værum búnir að vera í þessum leik án Steven Gerrards en annað kom á daginn. Þessi leikur okkar manna í kvöld var langt því frá að vera fallegur á að líta, og maður var að drepast úr stressi og kvíða allan leikinn, en samt sem áður gerðu okkar menn miklu meira en hægt var að ætlast til af þeim í kvöld. Hetjuleg frammistaða frá mönnum á borð við Djimi Traoré, Igor Biscan, Vladimir Smicer, Antonio Núnez, Jerzy Dudek og Sami Hyypiä … en þetta eru allt leikmenn sem hefur verið gert grín að undanfarin ár/misseri og hef ég margoft heyrt því lýst yfir að þessir menn séu hvergi nærri nógu góðir til að spila í toppliði á evrópskan mælikvarða.

Þessir leikmenn eru komnir í undanúrslit Meistaradeildarinnar. Það sama er ekki hægt að segja um stórstjörnur liða á borð við Real Madríd, Juventus, Barcelona, Bayern Munchen, Valencia, Arsenal og Man U … 😀

MAÐUR LEIKSINS: Þótt erfitt sé að taka einhvern einn og útnefna mann leiksins, eftir þessa mögnuðu frammistöðu liðsheildarinnar í kvöld, þá finnst mér einn maður bara eiga sérstaklega skilið hrósið í kvöld. SAMI HYYPIÄ var einfaldlega ómetanlegur í liði Liverpool í kvöld. Varnarlega steig hann ekki eitt einasta feilspor, var gjörsamlega út um allt og stöðvaði allt sem nærri sér kom. Þá voru sendingar hans fram á við mjög góðar í kvöld og fann hann oft þá Baros og Núnez sérstaklega í góðu plássi. Þar að auki átti hann tvö af okkar bestu færum í kvöld, tvo góða skalla sem hefðu getað gefið ómetanleg mörk af sér. Á endanum kom það ekki að sök og við unnum einvígið, en það var ekki síst Finnanum stórkostlega fyrir að þakka. Frábær leikur og ég er ekki viss um að Pellegrino fái að koma aftur inn í liðið á laugardaginn eftir þessa frammistöðu, ekki nema þá bara til að hvíla Carra 😉

OG AÐ LOKUM…

rafa_versus_juve.jpg Þvílíkur snillingur er RAFAEL BENÍTEZ að koma liðinu í undanúrslit Meistaradeildarinnar, þrátt fyrir að liðið sé jafn vængbrotið og raun ber vitni? Ég á ekki til orð hvað þessi maður hefur þegar gert fyrir klúbbinn í vetur. Vissulega skortir stöðugleika í deildinni í vetur en það kemur á næsta ári. Ég get ekki ímyndað mér að við verðum jafn óheppnir með meiðsli á næsta ári, auk þess sem Rafa verður ekki nýr og að læra á hlutina – sem og leikmennirnir að læra á hvernig Rafa vinnur.

En á meðan við bíðum næsta árs eftir að láta sverfa til stálsins í deildinni er hægt að dást að afrekum mannsins í öðrum keppnum í vetur. Hann kom okkur í úrslit Deildarbikarsins á sínu fyrsta tímabili og eftir taktískt meistaraverk í þeim leik vorum við 11 mínútum frá því að vinna Chelsea, þegar sjálfsmark kom þeim til bjargar. En aðalafrek mannsins hlýtur að teljast það að hafa komið þessu vængbrotna, meiðslahrjáða, óstöðuga liði í undanúrslit Meistaradeildarinnar í ár. Og þetta eru sko engir aukvisar sem liggja í valnum eftir okkur: Olympiakos, Deportivo la Coruna, Mónakó, Bayer Leverkusen. Fimm topplið frá fimm toppknattspyrnuþjóðum Evrópu og öll hafa þau hlotið sömu örlög: taktískur ósigur gegn snillingnum Rafael Benítez.

Það er honum að þakka að það er orðið spennandi að horfa á Liverpool aftur, það er honum að þakka að maður getur borið höfuðið hátt í vinnunni þessa dagana vitandi það að Arsenal- og United-menn þora ekki að nefna Meistaradeildina við mann. Það er honum að þakka að framtíðin er björt!

Komið bara með Chelsea, eftir að hafa slegið Juventus út fæ ég ekki séð að við eigum að óttast neitt lið í þessari keppni… 🙂


biscan_versus_juve.jpg**Uppfært (Einar Örn)**: Að hugsa sér að ég var sjö ára og vart byrjaður að hugsa um fótbolta þegar Liverpool var síðast í undanúrslitum Evrópukeppni Meistaraliða. Ég man óljóslega eftir því, en Kristján Atli man sennilega ekki neitt.

Þetta gerist semsagt ekki á hverjum degi að Liverpool komast svona langt. Þetta er í raun ekki alveg sokkið inn hjá manni. Við fórum af stað á móti Juventus með Djimi Traore og Igor Biscan í byrjunarliðinu!!! Hefði ég sagt einhverjum Liverpool aðdáenda það fyrir einu ári að við værum að spila með þessa leikmenn gegn Juve, þá hefði sá hinn sami hlegið að möguleikum okkar.

En þessir, sem og margir aðrir leikmenn þessa liðs eru algjörlega gjörbreyttir undir stjórn Rafa Benitez. Maðurinn er einfaldlega snillingur. Þetta er hans sigur!

Það er magnað að spila á móti liði með Del Piero, Nedved, Emerson, Ibrahimovic og Camoranesi og það eina, sem þeir geta gert á móti Liverpool var að dæla háum boltum inná teig. Íslensku þulirnir á leiknum töngluðust á því að þeir gerðu ekki annað, alveg einsog að Juve leikmenn hefðu einfaldlega gleymt því að reyna að spila boltanum á jörðinni. Staðreyndin var einfaldlega sú að þeir fengu engin tækifæri til þess. Alonso og Biscan æddu í hvern bolta og bakverðirnir okkar, Traore og Finnan héldu vængjaspilinu niðri.

Það var frábært að sjá Alonso spila aftur og hann sýndi okkur greinilega hvers við höfum saknað undanfarna mánuði. Biscan sinnti einnig varnarhlutverkinu frábærlega! Einnig var vörnin pottþétt, með bakverðina gríðarlega sterka og svo tóku Hyypia og Carra allt, sem á þá kom.

En ósköp einfaldlega þá skiluðu menn því, sem ég ætlaðist til í byrjun leiks. Það er að BERJAST allan tímann. Menn gleymdu því algjörlega að það vantaði Stevie G, Harry Kewell, Morientes, Hamann og svo framvegis og framvegis, og börðust einfaldlega fyrir liðið og kláruðu þetta.

Þetta var æði! Yndislegt!

Ég þori varla að segja það, en við gætum hugsanlega spilað á móti Chelsea með Gerrard, Alonso á miðjunni og Cisse og Baros frammi. Loksins sú miðja og sókn, sem við vonuðumst eftir að sjá í byrjun tímabilsins. Hversu frábært væri það?

Áfram Liverpool! Við skulum njóta þess að vera komnir í undanúrslit Meistaradeildarinnar. Það gerist því miður ekki á hverjum degi 🙂

13 Comments

  1. Ég held að ég hafi verið spenntari yfir þessum leik þar sem ég sat við tölvuna og refreshaði stöðuna heldur en nokkurntíman leik sem ég hef séð í beinni (ég var því miður mjög löglega afsakaður frá því að sjá leikinn í sjónvarpi). En vá ég ætla ekki að missa af undanúrslitunum. YNWA!!! :biggrin: :biggrin: :biggrin: :laugh: :laugh:

  2. Vá, ég hefði EKKI höndlað að fylgjast með þessum leik bara með því að sjá stöðuna. Það hefði verið alltof taugastrekkjandi. Maður gat þó allavegana róað sig yfir sjálfum leiknum að sjá hvað menn okkar höndluðu þetta vel 🙂

  3. 🙂 🙂 :biggrin: :biggrin:

    Ef það er einhvern tíma tilefni til að brosa þá er það í kvöld. Ef einhver hefði reynt að telja knattspyrnusérfræðingum trú um það í byrjun riðlakeppninar að Liverpool færi alla leið í fjögra liða úrslit þá hefðu þeir pissað í sig af hlátri…. svo ótrúlegt er það að Liverpool er komið svona langt.

    Ég er pottþéttur á því að við förum alla leið….

    Við erum búnir að tapa nóg fyrir Chelsea í vetur.. ekki glætan að þeir labbi yfir okkur í þeirri viðureign sem er framundan……

    Rafael Benites er bara snillingur og aftur snillingur.

    Þvílík gleði að sjá Alonso og Cisse aftur í liðinu…

    Þetta er fullkomið kvöld…..

  4. Mjög góður leikur, og gaman að vera komnir í undanúrslit…

    Það er samt ekki hægt að segja að það Pellegrino og Morientes hafi vantað… þar sem að það var vitað þegar þeir voru keyptir/fengnir til liðsins að þeir myndu ekki spila í meistaradeildinni.

    Nú er bara málið að vinna liðið sem hefur unnið efsta liðið á Spáni og Þýskalandi á mjög sannfærandi hátt og þá erum við í mjööög góðum málum 🙂

  5. En svo ég segi líka eitt… þá spilar Liverpool alltaf betur án Gerrard, and that’s a fact.

  6. Til hamingju Liverpool-menn, tetta var fyllilega verdskuldad.

    Einsog eg sagdi, ta hefur Juve spilad skelfilega a arinu 2005 og leikurinn i kvold var engin undantekning, tegar teir turfa naudsynlega ad skora, ta tekst tad yfirleitt ekki hja teim. Eini madurinn sem spiladi af edlilegri getu var Cannavaro, hinir hormung, serstaklega to lykilmennirnir Zlatan, Nedved og Emerson. Del Piero er alveg buinn a tvi og tvi var ekki haegt ad buast vid miklu af honum i kvold. En tad er ekki haegt ad fara ofan ad tvi ad Liverpool spiladi sitt “gameplan” 100% i kvold og unnu verdskuldad einsog adur sagdi.

    Liverpool-menn aettu to ad halda ser a jordinni tvi framundan eru leikir gegn Chelsea og ef taer vinnast ta, vaentanlega gegn Milan og eg held ad eg se ekki ad ljuga neitt tegar eg segi ad tessi 2 lid eru tau langbestu i Evropu i dag. Eg se tvi Liverpool seint vinna CL i ar en njotid stundarinnar nuna!

    Takk fyrir mig 🙂

  7. Ég myndi nú samt ekki segja að við spilum betur á Gerrards.
    Hugsaður þér bara hversu mikið betra það hefði verið að vera með Gerrard í staðin fyrir Nunez eða Biscan… :confused:

  8. Hey, það er ekki fræðilegur möguleiki á að ég haldi mér á jörðinni í kvöld!

    Við getum unnið alla. Liverpool eru besta lið í heimi og allt það. Þannig líður mér allavegana í kvöld. Og ekkert, sem ég les eða heyri getur breytt því :biggrin2:

    En, Pétur, gleymdu því ekki að Gerrard spilaði nú fyrri leikinn, en þetta einvígi vannst í þeim leik. Þannig að það er ansi hæpið að halda því fram að við leikum betur án Gerrard. Held að munurinn í kvöld hafi verið Alonso. Látum okkur bara dreyma aðeins um það hvernig það verður að sjá Gerrard og Xabi spila saman á ný 🙂

    Ó já!

  9. sjáiði þetta fyrir ykkur
    Finnan Carra Hyypia Traore
    Garcia Gerrard Alonso Riise
    Baros Cisse

    fyrsta skipti í langan tíma sem við sjáum sirka bestu 11 í liði liverpool, þessir menn ættu að vera í lagi fyrir chelsea nema að einhver meiðist, 7, 9, 13.
    Áfram liverpool við getum þetta alveg!!!!!

  10. Ussss… það væri nú ekki leiðinlegt að fá þessa uppstillingu Helgi! :rolleyes:

    Annars fara þessir leikir í sögubrækurnar mínar, ég hef aldrei eytt eins mörgum hjartaslögum á síðustu 10mín á nokkrum leik! Stemmingin á Players var mögnuð, menn stóðu upp og öskruðu í hvert skipti sem boltinn fór út af enda vann tíminn með okkur!

    Ég segi það og skrifa að Liverpool á alltaf séns í svona viðureignum á móti hvaða liði sem einfaldlega vegna Anfield!
    Besti heimavöllur í heimi, það vita allir sem þangað hafa farið!
    Hvenær verða svo leikir aldarinnar?? Og fáum við ekki seinni leikinn á Anfield?

  11. Já þetta var alveg magnað, púlsinn sló gríðarlega hratt og spennan var yfirþirmandi. það skyldi þá aldrei fara þannig að við tryggðum okkur sæti í CL erfiðu leiðina :biggrin2:

    Og daðis ég er alveg sammála þér :tongue:

  12. Og já…Núna fær Steven Gerrard heldur betur góð tækifæri til að klára verkefnið sem klikkaði síðast, að sigra Chel$kí!

  13. Ég var á pöbb í Liverpool í gærkvöldi og horfði á
    leikinn þar sem okker menn gerðu sanngjarnt
    jafntefli.
    Það er magnaður árangur og betri en nokkur gat ímyndað sér. Á pöbbnum var
    pakkað af LFC fylgendum og þeir voru meiriháttar. Þegar leið á seinni
    hélfleikinn voru þeir farnir að syngja lofsöngva um liðið og einstaka
    leikmenn.
    Ég er farin að hlakka verulega til að fara á völlinn um helgina og veit að þar
    verður andrúmloftið, söngvarnir og allt þúsundfalt á við það sem var á
    pöbbnum. Semsagt góð helgi framundan.

    :laugh: :laugh: :laugh:
    Kveðja félagar og áfram Scoucers!!!!!!

Dudek og Alonso byrja inná

Næstu leikir