Smá ábending til lýsenda á Sýn2

Það er fátt sem fer meira í pirrurnar á mér en þegar menn sem hafa atvinnu sína af því að lýsa leikjum í enska boltanum og eiga að heita sérfræðingar í því fagi, geta ekki borið fram nöfn leikmanna nálægt því eins og þau eiga að vera. Núna er Dirk Kuyt búinn að spila með Liverpool FC í meira en eitt ár, en flestir lýsenda geta ennþá ekki komist nálægt því að bera nafn hans fram. Hversu oft heyrum við það borið fram Kojt eða Köjt? Það er einstaka sinnum sem þeir óvart detta niður á það rétta (eða sem kemst næst því) eða Kát. Höddi Magg hefur þó verið undantekning þar á. Þeir eru að reyna að bera þetta fram eins og það er skrifað og ef það væri almennt málið, þá myndi maður skilja þetta. Það er þó langt því frá að vera málið. Menn bera ekki nafn Wayne Rooney fram eins og það er skrifað, menn segja Rúní. Kuyt er borið fram Kát, gerið það fyrir mig að reyna að gera þetta rétt.

62 Comments

  1. maður hefur líka heyrt Kít, Kaut, Kúít… örugglega fleiri útgáfur til 🙂

  2. Félagi minn á í mestu vandræðum með nafnið hans. Hann kallar hann alltaf Kíút! 🙂

  3. Steven Gerrard hefur verið í deildinni frá árinu 1998 en Gaupi ber ennþá nafnið hans fram svona: Sssssssssééérrard. Það héldu allir að hann væri Frakki fyrstu árin 🙂

  4. Nafn Stevens Gerrards vefst einnig fyrir mönnum. Sökum þess að fransmaðurinn Gerrard Houllier var eitt sinn framkvæmdastjóri Liverpool bera sumir lýsendur efnirnafns fram upp á franskan máta.

  5. Hef samt alltaf gaman af öllum nöfnum leikmanna sem koma frá Hollandi. Þannig er V í hollensku nær alltaf borði fram sem f. Þannig er nafn Rafael Van der Vaart borið fram með f, sama hvað fyndið það er (faart). Sama á við um Van(fan) Nistelroy. Var orðinn þreyttur á þessi einu sinni og sendi póst til þula með ábendingu um þetta. Ekki hefur einn af þeim tekið sig til og breytt um framburð. Ætli þetta sé einhver venja að kynna sér ekki þessa hluti?

  6. Mér finnst þetta ekki skipta máli og hver lýsandi má bera nafn leikmanna fram eins og hann vill.
    Það væri hausverkur í lagi ef maður ætlaði að pirra sig á þeim leikmönnum sem borið er vitlaust fram í þessari fjölþjóðlegu deild.

  7. Þetta fer engu að síður hrikalega í pirrurnar á mér og sér í lagi þar sem við erum að tala um atvinnumenn í sínu fagi og hafa verið að bera þetta rangt fram í meira en ár. Þetta er ekki flókið að lagfæra og gera rétt. En kannski á maður ekki að gera neinar kröfur til þessara manna.

  8. Þetta er nú ekki svo pirrandi er það, hvernig er það þegar enskir þulir bera fram nafnið á Eiði Smára ég hef aldrei heyrt Andy Grey eða aðra enskaþuli bera það rétt fram. Svo er ég nokkuð viss um að við Liverpool aðdáendur erum ekki að bera nafnið á okkar ástsæla finna Sami Hyypia rétt fram, það var nefnilega þannig að árið sem hann gekk í raðir Liverpool þá bjó finnskur knattspyrnumaður í heimabæ mínum og spilaði fyrir liðið í bænum og það var sama hvað fólk reyndi að bera nafn Hyypia fram hann hló alltaf jafn mikið.

  9. Aðeins varðandi Sýn 2 og það allt (ekki komið nóg af þeirri umræðu er það nokkuð).

    Mér leikur forvitni á að vita hvernig gæðin voru hjá þeim sem horfðu á Sýn2 og þá gegnum mismunandi dreifileiðir. Ég var með Sýn2 í gegnum TVADSL Símans og gæðin voru vægast sagt hörmuleg. Myndin var mjög gróf og hljóðið ekki í sync-i við myndina.

  10. Þórhallur Dan slapp naumlega fyrir horn í fyrra þegar hann var að bera vram nafnið hans Kuyt. Hann var kominn með allar mögulegar beygingar og framburði og jafnvel kominn á það að vera nafnið fram á Hindú, þegar hann ákvað að kalla hann bara DIRK……

  11. Jú þetta er svo pirrandi, það er nokkuð sama hvað hver segir, þetta fer hrikalega mikið í pirrurnar á mér. Bara ykkur til upplýsinga, þá er þetta bloggsíða og þar setur maður niður sínar hugleiðingar. Þetta fer í mínar fínustu og það er ekkert flókið. Það færi líka í pirrurnar á mér ef menn bæru nafn Harry Kewell fram eins og það er skrifað. Sama gildir um Crouch, Rooney, Carvalho, Cech, Toure, Van Persie, Bridge, Malouda, Wes Brown, Neville, Scholes, Hargreaves, Keane, Defoe, Johnson og fleiri. Ef þetta fer ekkert í þínar taugar, gott og vel og fínt fyrir þig. Ég geri bara þá kröfu að menn sem eru í fullu starfi við þetta geti borið fram nöfn leikmanna á þann hátt sem er sem næst réttur. Allavega reyna og ekki búa bara til sína útgáfu.

  12. Voðalega eru menn viðkvæmir, ég heyrt menn í stjórn Liverpool klúbbsins bera nöfn Liverpool manna vitlaust fram í sjónvarpinu, nefni engin nöfn.
    En myndgæðinn á sýn voru enganveginn viðunandi.

  13. Nú er ég forvitinn Valli. Hvaða ágæti stjórnarmaður var þetta og hvaða nafn bar hann vitlaust fram?

  14. Viðkvæmir? Voðalega eru menn viðkvæmir fyrir myndgæðum. Þau greinilega höfðu áhrif á þig, þessi framburðarnauðgun fer í taugarnar á mér. Got it?

    Síðast þegar ég vissi þá eru menn í stjórn Liverpoolklúbbsins ekki á launum fyrir það að koma fram í sjónvarpi, þeir eru áhugamenn og er ekki borgað fyrir að þjónusta sjónvarpsáhorfendur. Það sama er ekki hægt að segja um lýsendur í sjónvarpinu.

    Menn skoða gæði útfrá mörgum hliðum. Þú komst sjálfur inn á myndgæði, ég skil vel pirring manna þegar þau gæði eru slök. Í þessari færslu minni er ég að tala um annars konar gæði, gæði er kemur að lýsingum og ég hlýt að geta bloggað um það þegar mér finnst þau gæði slök og kem með dæmi um slíkt sem hefur verið í gangi í meira en eitt ár.

  15. Takk ..SSteinn að koma með þennan punkt. Þetta fer óheyrilega í pirrurnar á mér líka. Ég þoli ekki ekki að hlusta á þulina bera nafnið hans rangt fram… Ósjálfrátt leiðrétti ég alltaf upphátt .. “kát” come on “kát´”´ ‘Í þeirri veiku von að þulirnir heyri í mér. Í þessu samhengi. Er ég eini maðurinn sem finnst Gummi Ben ekki kunna að lýsa leikjum?? Mér finnst óþolandi að hlusta á lýsingu sem er í þátíð en ekki nútíð! Það er nefnilega heilmikil kúnst að lýsa knattspyrnuleik svo vel sé og áheyrilegt. Ég mæli eindregið með því að sérfræðingarnir hjá Sýn taki nú starfsfélaga sinn í kennslustund í því hvernig á að lýsa beint.

  16. SSteinn hefur líklega aldrei heyrt Sky þulina bera fram nafni á Kuyt. Ég efast líka um að hann beri fram nafn Hyypia og van nistelroy rétt. Menn rembast alltaf við franska framburðinn á Henry en segja svo Gallas upp á íslenska mátann. Það er bara þannig að verður fljótlega til venja í málfari um hvernig erlend nöfn eru borin fram. Sum er hægt að bera fram á eðlilegan íslenskan máta þannig þau líkist upprunanum en önnur er einfaldlega erfitt að bera fram svo það falli að íslensku máli og því eru þau íslenskuð. Spænsk nöfn t.d. eru frekar erfið hvað þetta varðar þar sem þeir eru helvíti gjarnir á að breyta S í Þ í framburði sínum.
    Við fylgjum yfirleitt bresku þulunum enda eru þeir atvinnumenn sem fá betur borgað en íslensku þulirnir og þeir sem vinna við þetta á íslandi heyra líka fréttasýringar frá þeim upphaflega. Persónulega finnst mér allt í lagi að bera þetta fram kojt enda fellur það betur að íslensku máli en kát.
    Það má gagnrýna Sýnarmenn fyrir ýmislegt en þetta finnst mér vera óttalegur tittlingaskítur.
    Ekki þar með sagt að Steinn megi ekki hafa sína skoðun ég er bara að koma með mína skoðun á móti. Það er snilldin við svona bloggsíður.

  17. Já, en málið með Kuyt Jóhann er að það er hægt að bera nafnið hans fram á mjög íslenskan máta sem Kát. SSteinn er ekki að segja að menn eigi að bera fram öll frönsk nöfn á 100% hátt, heldur er oft fínt að þau séu borin fram einsog þau eru stöfuð með íslenskum framburði.

    Í tilfelli Kuyt virðast menn vera að reyna að bera nafnið fram á einhvern frumlegan, útlenskan hátt, sem er bara svo vitlaus.

  18. Guð forði því að maður geri kröfur til manna sem ná inná heimili þúsunda Íslendinga í hverri viku.

    Við skulum orða það svona: ef þú ynnir á verðbréfamiðlun og bærir Dow Jones alltaf fram sem dov jo-nes en ekki dá djóns eins og rétt er myndirðu vart endast lengi í starfi. Þú yrðir allavega seint tekinn alvarlega sem verðbréfamiðlari. Ef þú værir starfsmaður í Levi’s-verslun og værir að reyna að selja fólki Levís-buxur allan daginn, í stað Lívæs-buxna eins og rétt er, myndi það sennilega pirra yfirboðara þína nóg til að gera starfsferil þinn stuttan.

    Ef þú vinnur við að lýsa enskri knattspyrnu áttu að geta borið nöfnin fram rétt. Ef þú hefur ekki heyrt þau og hefur vanið þig á eina útgáfuna öðrum fremur einfaldlega breytirðu því þegar þér er bent á að þú sért að gera rangt. Ég hélt til að mynda sjálfur að nafn Kuyt væri borið fram kúít, af því að ég las það svoleiðis, en svo birtist stór grein um málið á opinberu Liverpool-síðunni í fyrra man ég og eftir það hef ég alltaf sagt það sem rétt er, kát.

    Hitt er svo bara heimska að segja Sjérard en ekki Djérard. Jafnvel þótt þú hafir aldrei heyrt nokkurn mann segja nafnið Steven Gerrard upphátt ætti jafnvel ómenntaðasta fólk að vita muninn á frönskum og enskum framburði nafnsins Gerrard (enskt) og Gerard (franskt/spænskt).

    En eins og ég segi, gvöööð forði því að maður geri kröfur til íþróttafréttamanna. Þeir hafa flestir sýnt það í gegnum tíðina að þeir eru algjörlega óhæfir um að taka uppbyggilegri gagnrýni. Ætla ekki í nafnaköll hér enda skiptir það ekki máli, en þeir vita uppá sig sökina sem eig’ana.

  19. Smá barnaland í þessu hérna, en eru menn ekki annars bara KÁTir? :p Ég meina við unnum um helgina og svona. 🙂

  20. Sælir félagar og til hamingju með sigurinn í gær. Ég nenni ekki að taka þátt í þessari framburðarumræðu en held þó að hægt sé að gera þá kröfu til lýsenda Sýnar2 að þeir kynni sér framburð og fari rétt með í því. Á það má minna í þessu sambandi að framkvæmdastjóri enska boltans á skjá einum var einn alllra slappasti í þessum efnum og mér fannst það fyrst og fremst fyndið.
    Hinsvegar finnst mér ekkert fyndið við gæði útsendingarinnar í gegnum adsl símans. Þau voru fyrir neðan allar hellur og væri réttast að síminn borgaði áskriftir manna að hálfu þar til þeir verða búnir að laga þetta mál. Eða neyðist maður til að taka allt heila helvítis klabbið í gegnum miðla 365. Ef ekki verður bragarbót á þessu hjá símanum verð ég að segja honum upp og fara í gegnum ogvodafon eða digitalafruglara 365. Hvorugt góður kostur en samt ef síminn stendur sig ekki þá er ekki um annað að ræða. Nóg kostar þetta samt fyrir okkur landsbyggðarmenn eins og aðra auðvitað.
    YNWA

  21. Einar Örn útskýrir þetta afar vel í kommenti númer 18. Það er ekki einleikið heldur að yfirleitt heyrir maður c.a. 10 útgáfur af þessum framburði frá sama lýsanda í sömu lýsingunni. Gummi Ben bar þetta nokkuð rétt fram í svona c.a. 15 hvert skipti. Nánast aldrei var um sama framburð að ræða.

    En nei, eins og fram hefur komið þá er það hrein svívirða að maður skuli gera kröfu á að menn séu professional í þessu.

  22. Það var einn punktur í þessu svari mínu sem kom kannski ekki nógu vel fram en hefur einhver heyrt Sky þul bara nafnið hans fram sem Kát?
    Annað segir einhver ykkar Fan í stað van í nöfnum eins og Van Nistelroy. Fan der Fart? Hollenska er bjánalegt mál og ég er kannski bara svona umburðarlyndari en þið en ég er afskaplega rólegur yfir þessu.
    Mér finnst þetta gagnrýni gagnrýninnar vegna. Margt annað við Sýn 2 sem er meira vert að gagnrýna, t.d. gæði útsendingar á leikjum, sú staðreynd að þeim finnst alveg frábært að hafa 4-4-2 strax á eftir síðasta leik á laugardegi. Kalla það algjöra byltingu í umfjöllun. Mér fannst nú bara lélegt í þessu að fá ekki umfjöllun þessara ágætu manna (held því fram að 4-4-2 með guðna bergs sé lang besti fótboltaskýringaþáttur á Íslandi fyrr og síðar) um leiki sunnudagsins þar sem þrjú af fjórum stærstu liðunum voru jú að spila. Ef þeir fjalla um þessa leiki í næstu viku þá verða það viku gamlar fréttir. Þeir bættu reyndar mörkunum inn í endursýninguna núna í kvöld en það finnst mér bara viðurkenning á því að þetta sjá bjánalegur tími.
    Þeim finnst flott að vera á undan match of the day á BBC sem er bara stofnun sem var sett á laggirnar þegar allir ensku leikirnir voru á laugardögum klukkan 3 og þeir eins og týpiskir afturhaldssamir bretar vilja ekki breyta.

  23. Vill svo skemmtilega til að 2 af þulum Sýnar hitta hundinn minn reglulega þar sem sumarbústaðir okkar liggja nálægt hver öðrum… hundurinn minn heitir einmitt Kátur og börn viðkomandi manna koma oft og spurja um Kát…

    Spurning að koma þeim skilaboðum til þeirra í gegnum börnin að kalla Hollendingin okkar sama nafni og þeir nota á hundinn minn í þolfalli 🙂

    Annars langar mig fyrst við erum að í umræðum um hollensk nöfn að minnast á nöfn bræðra Martins Jol… en þeir heita einmitt Dick og Cock Jol 🙂

    Ég vona þeirra vegna að þau séu ekki borin fram eins og þau eru skrifuð

  24. Þetta pirrar mig persónulega ekki mikið en ég skil sjónarmiðið því það fer í mínar fínustu þegar menn kalla heimavöll okkar Anfield Road í stað Anfield (Sf.Gutt á liverpool.is er ákaflega duglegur og staðfastur í þessum misritum sínum). Álíka mikill tittlingaskítur, en þegar maður bítur þetta í sig og verður vitni af þessu trekk í trekk verð ég mjög svo pirraður, svo ég komist siðsamlega að orði…

  25. Gaupi talaði líka allltaf um Nicklas Anelka og Charles Zogbia í Bolton leiknum.

  26. Já Jóhann, þarna kemur vel í ljós hversu misjafnir menn eru. Þetta fer hrikalega í mínar taugar, þér finnst þetta léttvægt en mér ekki. Mér gæti ekki verið meira sama um þennann þátt þeirra Heimis og Guðna. Mér fannst þessi þáttur ekki skemmtilegur í kringum Meistaradeildina og ég sá þennann fyrsta þátt þeirra og mér fannst hann jafn leiðinlegur og áður. Það að sjá Óla Þórðar, Hemma Gunn eða Arnar Gunnlaugs ropa þarna er bara langt frá mínu áhugasviði og því gæti mér ekki verið meira sama um hvort þeir séu að gaspra á laugardegi, sunnudegi eða mánudegi. Ég horfi þó alltaf á beinar útsendingar á leikjum Liverpool og þar halda þessir “sérfræðingar” áfram að bera þetta nafn kolvitlaust fram og það fer bara hrikalega í taugarnar á mér. Hlutur sem er afar einfalt að breyta, en menn ætla sér það greinilega ekki.

    Þetta með F eða V í nöfnum hollenskra leikmanna er nú kannski ekki besta dæmið. Það er nú ekki mikill munur á F og V þegar verið er að bera þetta fram. Ég er heldur ekki að fara fram á að þeir beri fram nafn Kuyt hárrétt, því ég veit að Íslendingar hreinlega geta það ekki. Það er þó allt í lagi að reyna að komast nálægt því. Fan der Faart vs. Van der Vaart, þar er enginn himinn né haf á milli. Kojt og Kát aftur á móti er ansi hreint ólíkt. En eins og áður sagði, þá fer tímasetningin á 442 í taugarnar á þér, ekki mér. Framburður á nafni Kuyt fer í taugarnar á mér en ekki þér. Þannig er þetta bara.

    P.S. Ég hef nú heyrt í mörgum lýsendum hjá Sky á síðasta tímabili og það var aðeins rétt í byrjun sem þeir voru að ruglast með þetta. Í dag eru þeir komnir með þetta að mestu leiti.

  27. Það má samt kenna Kuyt sjálfum um þetta að einhverju leyti. Fyrsta spurningin þegar hann var kynntur til sögunnar hjá Liverpool var: “Hvernig berðu fram nafnið þitt?” Hann svaraði: “Kojt. Allavega hér á Bretlandi. Hitt er of erfitt fyrir ykkur.”

  28. Kristján Atli, sem og aðrir….
    Hvað vorum við að tala um fyrir nokkrum dögum….!
    Ég ætla rétt að vona að menn hafi staðið saman og að þessi lýsing hafi ekki “náð inná HEIMILI þúsunda Íslendinga í hverri viku”…..
    Ég mætti á pöbbinn 🙂

    Hvað þennan þráð varðar… þá eru lýsendur hér á landi fífl… allir með tölu. Það er ekki hægt að gera svona “basic” kröfur til slíkra aðila !
    YNWA

  29. Ja, ég fór allavegana á pöbbinn. Og líka gæjinn sem pantaði sér hvert ópal skotið á fætur öðru kl. fjögur um daginn og svo hinn sem sofnaði fyrir utan staðinn með sleftauminn hangandi út um munnvikin 🙂
    Ef ég hefði átt 10 ára gutta hefði ég snúið við og borgað 10.þús kr. á mánuði fyrir áskrift til að halda honum frá þessu. Hvað varð um Serrano fótboltastaðinn Einar? 🙂

  30. Eru forsvarsmenn þessarar síðu ekki bara komnir í eitthavð jihad gegn sýn 2(sem þeir eru þó flestir áskrifendur að virðist vera). Afhverju eru menn að hlusta á lýsendur Sýnar eða yfirhöfuð að kaupa áskrift að rásinni ef menn eru svona óánægðir með þá? Að láta það skemma fyrir sér heilu og hálfu leikina eða fara í taugarnar á sér meðan menn eru aðhorfa á Liverpool að gaupi eða hver sem lýsir leiknum geti ekki borið fram hollenskt nafn eins og hollenindgar gera það? Talar Ssteinn hollensku? Þetta er einkarekin sjónvarpsstöð sem býður uppá ákveðið sjónvarpsefni og ákveðna starfsmenn. Þeim finnst þessir starfsmenn/lýsendur vera að gera nóg og vita að ef áhorfendur eru ekki sammála þá hljóti þeir bara að beina viðskiptum sínum annað.
    Þess má geta að fréttamenn Sky News sem er ein virtasta fréttasjónvarpsstöðin í heiminum sögðu ekki Kát þegar þeir fjölluðu um leikinn og ég verð að viðurkenna að ég hef ekki enn heyrt lýsanda Sky Sport segja Kát.

  31. Eru forsvarsmenn þessarar síðu ekki bara komnir í eitthavð jihad gegn sýn 2(sem þeir eru þó flestir áskrifendur að virðist vera). Afhverju eru menn að hlusta á lýsendur Sýnar eða yfirhöfuð að kaupa áskrift að rásinni ef menn eru svona óánægðir með þá?

    Af því að við eigum engan annan kost. Þessi stöð hefur einokun á þessu efni.

    En þetta er típískt fyrir íslenska umræðu. Hljómar einsog framsóknarmenn, sem telja sig beitta einelti ef að tveir menn koma saman og gagnrýna þá.

  32. Ég vil taka það fram að ég er pro liverpool síðan og con 365 og er í sama báti og þið, borga Sýn 2 með blóðbragð í munni. En verður þetta ekki bara leiðinlegt ef menn ætla að fara að hnýta í öll smáatriði sem má bæta hjá sýn, sérstaklega hvað varðar þulina sem hafa verið skrifaðar lærðar greinar um áður? Persónulega finnst mér hoddnspyddna mun leiðinlegra að hlusta á heldur en kujt. Svo þegar maður minnist á dagskrárgerðina þá er svarið á þá leið að þannig þættir séu svo lélegir á íslandi að það sé ekki horfandi á þá. Það er svona viðhorf sem gerir það að verkum að erfitt er að ná eyrum sýnar manna og reyna að fá þá til að aðlaga dagskránna að því sem við fótboltamenn viljum sjá. Gerir það líka að verkum að maður hugsar ok þessi maður er bara á móti til að vera á móti. Ég er allavega þannig gerður að ég vil fá að sjá mörkin í einum þætti, vil helst fá þau í góðum þætti sem er horfandi á og er í raun virðisaukandi fyrir þann pening sem ég er að greiða á mánuði.

  33. Ég fer nú yfirleitt á pöbbinn til að horfa á Liverpool leiki Jóhann. Það er bara þannig núna að Sýn2 er búið að gera einhverja samninga við pöbbana um að þeir skuli vera með Sýn2 en ekki Sky Sports og því neyðist ég til að hlusta á þetta.

    En hvað er það sem þú skilur ekki í þessu dæmi mínu. Ég er hreinlega ekki að tala um að menn eigi að vera með hinn fullkomna hollenska framburð. Tók dæmi um það hér að ofan. Þegar maður heyrir 20 mismunandi útgáfur af framburði á nafni eins manns í sömu lýsingunni, þá bara því miður fer það hrikalega í taugarnar á manni. Ég er ekki í neinu jihad gegn Sýn2, en tjái mínar skoðanir á hlutum sem mér finnst ekki vera í lagi. Alveg eins og að þú lýstir yfir vanþóknun þinni á tímasetningu á 442 þættinum.

    Á meðan þessi samningur á milli pöbbanna og Sýn2 er í gangi, þá hef ég hreinlega ekki aðra kosti en að heyra lýsingu þeirra á Liverpool leikjum og því áskil ég mér rétt til að gagnrýna hluti, hversu lítilfjörlegir þér finnast þeir. Hvert á ég að beina viðskiptum mínum? Það er rétt að þetta er einkarekin sjónvarpsstöð sem býður uppá ákveðið sjónvarpsefni og ákveðna starfsmenn. Þessir starfsmenn eru atvinnumenn í sínu fagi. Er þá ekki hægt að gagnrýna það sem manni finnst ekki vera í lagi?

  34. Já, hollensk nöfn eru oft skraurteg í framburði, man eftir Gullit og Cruyff.
    Ekki eru þulir á Íslandi einir um mismunandi framburð á nafni Kuyt.
    Hér i Danmark, eru menn mjög ósammála um hvernig nafnið skuli borið fram og ýmsar útgáfur í gangi.
    Hér eru oft tveir þulir á leikjum og ég hef heyrt þá tala um hvernig nafn Kuyt skuli borið fram og þeir voru ekki sammála.
    Væri gaman að vita hvað hann segir sjálfur.

    Annars dettur mér í hug í þessu sambandi.
    Hafið þið heyrt hvernig Norðmenn segja Liverpool?
    Það er fyndið, Liverpöl, eða eitthvað í þá áttina.

  35. Skil ekki alveg þennan pirring. Hann fer seint efst á listann yfir það sem pirrar við lýsendur. Reyndar lét ég hollenskan vin minn (sem er einmitt frá Rotterdam og harður Feyenoord fan) bera fram nafn Dirk Kuyt aftur og aftur.
    Það er rétt að það er alls ekki Kojt en Kát fannst mér það ekki vera heldur. Hljómaði frekar eins og Gáds, einhver blautur endir á þessu.
    Hvað hefur Riise verið lengi í Englandi, alltaf kalla þeir hann Rísa.
    Mascherano var líka að þvælast í fólki. Sumir sögðu Masskeranó, aðrir Massjeranó en hið rétta mun vera Mastsjeranó.
    Alveg er það merkilegt hvað Le Petit Garcón hljómar alveg eins og Lubbi Tíkarson…

  36. Eins og flestar greinar hérna eru málefnalegar og skemmtilegar þá er þetta nú meira smásmugulega potið.

    Hvernig er ætlast til þess að lýsendur, hvort sem er Sýnar eða annarra stöðva viti nákvæmlega hvernig á að bera fram erlend leikmannanöfn. Ég efast stórlega um að erlendir Portsmouth aðdáendur séu að fara á límingunum yfir því að Hermann Hreiðarsson sé borið fram Her-rider-son í ensku sjónvarpi. Gallas vs Henry dæmið er til dæmis mjög gott dæmi og þá erum við ekki að tala um eitthvað aflóga tungumál eins og hollensku. Krafan er að lýsendur tali af skynsemi, skemmtun og þekkingu um leikina en ekki að þetta sé einhver alþjóðleg framburðaræfing. Hvernig í ósköpunum á að vera sjálfgefið fyrir þuli að Kuyt sé borið fram Kát (og svo er það nú eiginlega ekki Kát samkvæmt íslenskum framburði http://upload.wikimedia.org/wikipedia/commons/4/4e/DirkKuyt.ogg)

    Af hverju kvartar þá ekki SSteinn yfir því að Dirk sé ekki borið fram Dí-erk eins Hollendingar gera það eins og heyrist í hljóðdæminu.

    Að ætlast til þess að þulir þekki framburð á frummáli hvers og eins er fáránlegt. Að það fari stórkostlega í pirrurnar á einhverjum er sorglegt. Að hann básúni það á netinu er tragíkómískt.

    Ætla menn þá að gera sömu kröfu til Asíu- og Afríkumannanna til dæmis. Veit einhver hvernig bera á fram nöfn leikmanna frá Ghana, Tógó eða frá Suður-Kóreu?

    Haldið ykkur við ástríðuna og skemmtunina en hættið þessu ótrúlega væli.

  37. Hehe…fallega orðað atli R. En eins og pennar þessarar síðu nefna reglulega þá er þetta bloggsíða og þar mega þeir segja sína skoðun. En ekki gleyma því að við megum líka segja okkar skoðun á ykkar skoðunum án þess að þeir fari í vörn. Ég kann mjög vel við þessa síðu og skoðanir þessara drengja þrátt fyrir einstaka tittlingaskít eins og þennan. Finnst þetta frekar vera eitthvað persónulegt vandamál heldur en eitthvað sem Sýn leggur þungt á knattspyrnu aðdáendur.

    Gefum lýsendum Sýnar smá breik og finnum ástríðuna á leiknum aftur eins og atli bendir á, en ekki láta Sýnarmenn taka hana frá okkur.

    ps.
    Mér finnst samlíkingin hjá Kristjáni Atla með Lívæs og Dá Djóns ekki góð.

  38. Ég verð nú að koma SSteini til varnar hér og segja að hann er ekkert einn um að láta þetta fara í taugarnar á sér… Þetta hefur ekkert með pirring út af Sýn 2 að gera, þótt Bjarni Fel væri að tala um Kúít á gömlu gufunni myndi þetta pirra mig jafn mikið. Og rosalega er ég sammála Sverri (25) með Anfield. Ég get pirrað mig endalaust yfir þessari meinloku mjög margra að völlurinn heiti “Anfield Road”.

    <

    p>En þetta segir e.t.v. bara það að ég á auðvelt með að pirra mig yfir smámunum…

  39. Hvernig vita menn hvernig á að bera fram Dirk kuyt? Ég hef ekki hugmynd um það en miðað við þá takmörkuðu reynslu sem ég hef af Hollensku þá er það eitthvað sem ég myndi aldrei bera fram í íslenskri setningu.
    En lífið snýst um fótbolta og þetta er ekki fótbolti.

  40. Þulir nú til dags ættu að taka Samúel Örn Samúelsson sér til fyrirmyndar því sá maður virðist geta borið fram hvaða nafn sem er rétt fram án nokkurra vandkvæða. Það er hrein snilld að hlusta á hann bera fram 20 stafa austur evrópskt nafn eins og innfæddur væri.

    SÝN er búið að lýsa Spænska boltanum í ég veit ekki hvað mörg ár og samt eru þarna menn (Gaupi) sem hafa ekki hundsvit á einföldustu málfræði- og framburðareglum í spænskri tungu.
    Persónulega finnst mér það bera vott um mettnaðarleysi bæði lýsenda og stöðvarinnar að hafa ekki svona hluti á hreinu. Sama er að segja um ákveðna lýsendur sem eru svo óskýrmæltir að það hálfa væri nóg. Mér finnst ekki mjög skemmtilegt að hlusta á menn sem segja “HORspyrna eða EINkast”. sbr. nafni minn Gunnarsson.

  41. Dirk Kuyt sagði sjálfur á opinberri heimasíðu Liverpool þegar hann var keyptur að nafnið hans rímaði við enska orðið „shout“

  42. mér finnst líka miklu máli skipta að það sé samræmi í framburði nafna á milli lýsara… t.d. með Kuyt, ekki heil brú í því að hver lýsari á sömu rásinni beri það fram á sinn hátt (þ.e. í einum leik heitir hann Kát en í þeim næsta Kaut og þar næsta Kít)… held að mönnum yrði ekki sama ef einhver lýsarinn segði t.d. alltaf Roney í stað rúní

    fer líka í taugarnar á mér þegar sagt er djonn arne ríse (gaupi) enda er j ekki með þannig framburð á norðurlöndunum eftir því sem ég best veit, þið sem búið í Noregi getið þá leiðrétt mig ef ég er að fara með rangt mál

    ég er nú samt ekki að gera þá kröfu að sérhver íþróttafréttamaður þurfi að hafa gráðu í fjölda tungumála… aðalatriðið finnst mér samræmið og að þetta sé sem réttast

    btw… man einhver eftir framburði Adda Bjöss á David Ginola….?? mestu tilþrif sem ég hef heyrt með nafn á leikmanni… David SSSJIINOLA snilld! 🙂

  43. “Þorsteinn Eyþórsson” Samúel Örn er Erlingsson, það er eitt að bera nöfn rangt fram annað að kunna þau.

  44. Ég heyrði einmitt það sama og Þorsteinn (42) er að tala um í fyrra í einhverju pistli á http://www.Liverpoolfc.tv og ef það er rétt þá er nafnið hans borið fram Kját og það hef ég allavega alltaf gert.

    En við komum okkur ekki saman um framburðinn þá sé ég bara eina lausn á þessu vandamáli. Það verður einfaldlega að selja Dirk Kuyt 🙂

  45. Gaman að því að það er Hollendingur á Youtube með það að aðal markmiði að fræða fólk um það hvernig á að bera fram erfið hollensk orð.

    Hér tekur hann fyrir Dirk Kuyt: http://www.youtube.com/watch?v=GJJdFfnMo8M

    Ég tek það samt fram að mér er slétt sama hvort menn segja “Dirik Gát” eins og hann eða bara eitthvað allt annað. Mér er líka sama þó enginn segi “Sami Huupie”.

  46. Frábær póstur Hannes Bjartmar og fer langt með að segja það sem ég hef verið að halda fram. Hollenskur framburður hefur ekkert að gera með það hvernig við Íslendingar berum fram Hollensk nöfn. Megi Gaupi, Arnar, Höddi eða Bjarni fel kalla Kuyt hvaða nöfnum sem þeir vilja svo lengi sem Liverpool heldur áfram að vinna leiki.

  47. En hvernig var framburðurinn hjá Bjarna Fel: Njáll Kvinn……… Fór það í taugarnar á einhverjum?????

  48. Jahá! Svo er þetta bara ekkert borið fram “Kát”, greinilega “Gáds” eða e-ð þvíumlíkt.

    Mér þykir þessi pistill vera hreint ótrúlegur og kannski sérstaklega þegar kemur í ljós að SSteinn kann sjálfur ekki að bera nafnið fram!

    En alveg er ég sammála e-m sem segja að það sé fáránlegt að ætlast til þess að íslenskir þulir kunni að bera fram öll erlend nöfn eins og innfæddir. Sérstaklega þar sem “sérfræðingarnir” í Bretlandi gera þetta alveg eins og íslendingarnir.

    Strákar, einbeitum okkur að fótbolta ekki að leiðrétta einhverja svona smásemi (og það reyndar með annari vitleysu!)

    Liverpool kveðja.

  49. Það er nú samt með ólíkindum hvað margir hneykslaðir hafa lagt það á sér fyrir þessar hrikalega ómerkilegu hugleiðingar að hamra inn orð þar sem þeir lýsa vanþóknun sinni á því að ég skyldi setja þetta fram og sýna fram á tímaeyðsluna sem ég hef lagt fram í þetta. Engu að síður fundu þessir snillingar tíma til að háskæla sjálfir. Hér hef ég verið kallaður sorglegur og ég veit ekki hvað og hvað.

    Ég hef margoft talað um það að ég hef ekki verið að segja að menn eigi að koma með framburðinn á hollenska vísu og það 100%. Ég starfa hjá fyrirtæki sem er í millilandaflutningum og okkar höfuðstöðvar utan Íslands eru í Rotterdam. Þar á ég marga góða félaga sem allir eiga það sameiginlegt að vera miklir Feyenoord menn og þar að auki innfæddir Rotterdam búar. Ég lét það verða mitt fyrsta verk á sínum tíma þegar ég heyrði að við værum að landa Kuyt, að fá það á hreint hvernig ætti nú að bera nafnið hans fram. Eins og með svo margt hollenskt, þá er það varla hægt fyrir okkur íslendinga. Það næsta sem við komumst því er Kát. Þetta er ekki flókið dæmi og þrátt fyrir að sumir hérna neiti að skilja það, þá er ég ekki að tala um að menn eigi að bera nöfn manna fram á gallalausan hátt á þeirra frummáli. Af hverju haldið þið að Höddi Magg nái að gera þetta alltaf rétt?

    Það fór líka hrikalega í taugarnar á mér þegar Þorsteinn Gunnarsson talaði um á sínum tíma að Simon Westerfield hafi átt stórleik í marki Liverpool. Líklega fór það ekkert í taugarnar á ykkur. Eins og ég hef marg oft tekið fram, þá eru bara skoðanir manna misjafnar á þessu. Og Stb, ég legg til að þú lesir það sem ég hef verið að skrifa hérna.

    Legg til að héðan í frá reyni menn ekki að bera fram nafnið hans Dirk Kuyt, heldur kalli hann bara Jóhann. Mönnum er greinilega nokk sama hvaða nafni íþróttafréttamenn henda fram í loftið.

  50. Ég bara gæti ekki verið meira sammála þér SSteinn!! Ég hef oft setið virkilega pirraður yfir leikjum útaf þessu!

  51. Ok, Kuyt verður kallaður Jóhann. Er þetta ekki komið gott, eða vilja menn reyna við kommentametið? Það er orðið ansi erfitt að slá það eftir Sýnar umræðuna. 🙂

  52. Það verður nú samt að segjast að þið eruð eins og verstu framsóknarmenn (samlíking frá einhverjum ykkar í þessum milljón kommentum um þetta mál). Mér fannst það bara liggja svo ljóst fyrir þegar þessi pistill var upphaflega skrifaður að SSteinn hefði annað hvort grunnþekkingu í Hollensku eða það sem kom uppúr krafsi þekkti einhvern Hollending sem gat kennt honum þetta. Miðað við svörin hjá SSteini þá virðist hann vera frekar pirraður maður og það er vel. Þetta er svosem hans vettvangur til þess að koma sínum skoðunum á framfæri. En það væri synd ef þessi ágæti vefur fer að snúast meira um blammeringar í garð 365 en Liverpool. Það þarf að vera jafnvægi þarna á milli.
    Ég styð það samt alveg að Kuyt verði kallaður Jóhann alltof fáir með þetta ágæta nafn í Ensku úrvalsdeildinni.

  53. Jóhann, við höfum gagnrýnt verðlagningu Sýnar 2 og núna framburð á einu nafni. Það er með ólíkindum að því sé haldið að þessi vefur sé farinn að snúast um blammeringar í garð 365. Staðreyndin er sú að ekkert fyrirtæki á Íslandi hefur meiri áhrif á aðgang okkar að viðfangsefni þessarar síðu og því eðlilegt að um það sé rætt hér. Ef við byggjum allir útí Liverpool, þá væri þetta ekki vandamál en þar sem við þurfum að treysta á Sýn 2, þá er þetta flóknara.

    Alright, þessi umræða er orðin of löng.

  54. Dirk Kuyt er ekki borid fram Kát.. Eg by i Hollandi og thad er borid fram kaujt. Kát thydir meira kalt.

21 stigs munurinn farinn

Áhrif sjónvarps á enska boltann