Áhrif sjónvarps á enska boltann

Vorið 1989 biðu knattspyrnuáhugamenn á Íslandi spenntir eftir því á hverjum laugardegi hvaða leik RÚV myndi sína beint í ensku knattspyrnunni. Stundum datt maður í lukkupottinn og fékk að berja Peter Beardsley og John Barnes augum. Og stundum þurfti maður að horfa á Ricky Hill og Steve Foster renna eftir gervigrasinu í Luton. Undir hljómaði Bjarni Fel. sem deildi einstakri innsýn sinni með áhorfendum.

“Það þýðir ekki að deila við dómarann”, var uppáhaldssetning Bjarna Fel. Stundum var Samúel Örn í settinu, önnur skipti Arnar Björnsson og svo slökkti maður á sjónvarpinu þegar Ingólfur Hannesson átti vakt. Mörk vikunnar voru sýnd þegar og ef RÚV hentaði. 

Í Englandi var sjaldgæft að sýnt væri beint út um allt land úr deildarkeppninni, sérstaklega á laugardögum kl. 15. Þess vegna mátti oft sjá auglýsingar frá norskum og sænskum fyrirtækjum á völlunum. Svo var það einn laugardaginn að við fengum nákvæmlega leikinn sem við vorum að bíða eftir, Liverpool – Nottingham Forest í undanúrslitum bikarsins á Hillsborough í Sheffield.

Eftir þann leik breyttist allt saman.

Eftir Hillsborough slysið létu yfirvöld Lord Taylor of Gosforth í té gerð skýrslu sem varð þekkt sem Taylor-skýrslan. Hún átti að komast að rót vandans og koma með tillögur að úrbótum. Helstu  tillögurnar voru:

  • Að banna girðingar á milli áhorfenda og vallarins. Ef farið er með fólk eins og dýr þá hegðar það sér eins og dýr.
  • Að stórauka gæslu í samstarfi við lögreglu. Þess vegna eru allar stórborgir eins og Liverpool með Police Football Unit.
  • Allir vellir urðu að hafa miðatékk í lagi, s.s. aðgangur varð að vera í gegnum “turnstiles”. Vandamál sem geta skapast ef það er ekki í lagi sáust skýrt og greinilega í Aþenu í vor.
  • Strangar var tekið á áfengisneyslu á völlum. Nokkrir Íslendingar hafa nú fengið að kenna á þessu 🙂
  • Og síðast og það sem skipti mestu máli, númeruð sæti og engir áhorfendapallar. Þá var hægt að koma með fjölskylduna á völlinn og enski boltinn varð aðgengilegri fyrir aðra þjóðfélagshópa, t.d. konum, börnum, hörundsdökkum og ekki síst þá efnameiri.

Í kjölfar þessa var umhverfi knattspyrnunnar allt annað og margir sáu tækifæri á að fylgja fordæmi NFL, NBA, MLB og NHL þar sem menn voru ljósárum á undan Evrópubúum í því að skapa fjölskylduvænt andrúmsloft á íþróttaleikvöngum. En það sem Kanarnir voru líka langt á undan með voru sjónvarpssamningar sem færðu liðunum gífurlegar tekjur.

Stærstu liðin höfðu lengi talað um að brjótast burtu frá enska knattspyrnusambandinu og stofnuðu sína eigin Premier League frá og með árinu 1992-1993. Þar var í fararbroddi Rick Parry, sem er nú framkvæmdastjóri Liverpool og hann og fleiri skildu það að sjónvarpsrétturinn fól í sér mikil tækifæri. Og svona hefur heimamarkaður þróast:

  • Árið 1986 var gerður tveggja ára samningur fyrir £6.3 milljónir
  • Árið 1988 var gerður fjögurra ára samningur fyrir £44 milljónir
  • Fyrsti samningur Premier League var til fimm ára fyrir £191 milljón
  • Árið 2003 var gerður fjögurra ára samningur fyrir £1.024 milljarða
  • Núverandi samningur er til þriggja ára fyrir £1.7 milljarða

Afleiðingin er sú að allt í einu er  Seria A sem á níunda áratug síðustu aldar bar höfuð og herðar yfir aðrar deildir komin langt á eftir. Stærstu stjörnurnar flykktust til Englands í lok aldarinnar. Zola, Shearer, Owen, Beckham, Vieira, Cantona og Henry urðu að ofurstjörnum. Minni spámenn eins og Iversen, Poyet, Hadji og Di Canio urðu heimsþekktir.

SKY sjónvarpsstöðinn sat eitt að réttinum þangað til á þessu ári þegar Setanta fékk hluta af leikjunum í sinn hlut. SKY í eigu Rupert Murdoch gerði enska boltann að afþreyingarefni sem á engan sinn líka,  gerði beinar útsendingar að viðburðum, bjó til sérþætti um boltann og gat í krafti stærðar sinnar keyrt inn á aðra markaði eins og Asíu og búið til fótbolta-æði. Eða skildi maður segja úrvalsdeildar-æði.

Á þessu tímabili hefur úrvalsdeildin þessar tekjur af sjónvarpsrétt:

  • SKY og Setanta borga £1.7 milljarða fyrir réttinn í Bretlandi
  • Samanlagt fást £625 milljónir fyrir sölu til annara stöðva fyrir réttinn utan Bretlands.
  • BBC borgar £171 milljónir fyrir Match of the day

Hér heima sáum við áhorf og áhuga á úrvalsdeildinni breytast til muna. Menn fóru að flykkjast á pöbba og horfa á Andy Grey og Richard Keyes lýsa stórleikjum. Stöð 2 og Sýn náðu réttinum og stórbættu þjónustuna með sunnudagsleikjum í beinni og betri lýsendum. Þegar Skjár Sport náði svo í réttinn fyrir nokkrum árum opnaðist heill heimur af möguleikum í gegnum ADSL sjónvarp. Nú var hægt að velja um hvaða leik sem var, hvenær sem var. Íslenskir spekingar fóru að vera með sérþætti um taktík og mörk vikunnar fékk viðeigandi virðingarsess. Í dag er boltinn kominn aftur á Sýn sem fagnaði því vel en hefur komist að því undanfarið að kröfur áhorfanda dagsins í dag eru allt aðrar heldur en í gær. 🙂 

Staðreyndin er sú að enski boltinn er einstakt sjónvarpsefni sem getur ráðið úrslitum um hvort að Gunni í Breiðholtinu eða Ho í Hong Kong horfi á stöðina þína. Í Englandi er búið að færa aðra að borðinu ásamt SKY er skvt. reglugerðum frá Evrópusambandinu sem banna einokun á efni sem er talið svona mikilvægt.

Það hefur komið ensku liðunum vel að semja saman ólíkt því sem gerist á Ítalíu og Spáni þar sem stærstu liðin semja sér um sjónvarpsréttinn. Það hefur skilað sér í því að 8 af 20 ríkustu félögum í Evrópu eru ensk á meðan næstu lönd eiga t.d. aðeins 4 á listanum. Það er búist við að seinna á árinu komi 12-14 af ríkustu félögum Evrópu úr Premier League. Síðan fá lið mismunandi upphæðir eftir því hvort þau eru sýnd í beinni útsendingu eða ekki, og tímasetningar eru misverðmætar, t.d. fá lið mest fyrir að vera í sunnudagsleiknum. Þannig fá stærstu liðin meira í sinn hlut.

Í ár fær sá klúbbur sem lendir í 1. sæti í úrvalsdeildinni £50 milljónir í sinn hlut á meðan neðsta liðið fær £26.8 milljónir. Þetta þýðir að deildin er orðin næst verðmætasta íþróttadeild í heimi á eftir NFL og komin framúr MBL. Í NFL fá öll liðin jafn mikið eða £50 milljónir punda og þar eru fjöldinn allur af sjónvarpsstöðvum sem sýna beint eftir svæðum. Á Spáni geta t.d. Real Madrid og Barcelona farið fram á svipaðar upphæðir en þau skilja hin liðin eftir með mun minna sem þýðir að áhuginn á deildinni í heild verður takmarkaðri.

UEFA skildi í hvað stefndi og óttaðist að stærstu liðin myndu stinga af úr Evrópukeppnum á sama hátt og ensku klúbbarnir úr Football League. Því var Meistaradeildin stofnuð með öllum sínum tækifærum. En hvað þýðir þetta fyrir lið eins og Liverpool?

  • Fyrir 2. sætið í Meistaradeildinni er hægt að búast við £22-25 milljónum
  • Fyrir 1.-3. sæti í Úrvalsdeildinni má búast við £44-50 milljónum
    ( Í fyrra £30 milljónir fyrir fyrsta sæti)
  • + aukkreitis fyrir beinar útsendingar

Er einhver að segja að bikararnir skipti máli í dag? Pako Ayesteran, aðstoðarþjálfari Liverpool vill meina ekki.

Liðin geta fyrir vikið borgað mun hærri upphæðir fyrir leikmenn. Í ár borgaði Liverpool metfé fyrir leikmann og sló það fyrra um rúmlega helming. Nú meira en nokkurn tíman fyrr skiptir máli að kaupa vel því lið eins og Portsmouth, Tottenham og Manchester City eru allt í einu komin á annað plan heldur en áður. Lið sem falla verða fyrir gífurlegu tekjutapi og því fá þau borgaðar £11.2 milljónir punda fyrstu tvö árin í neðri deild. Þetta leiðir til þess að þau eru mun tekjuhærri en önnur lið í sinni deild og eiga því mjög góða möguleika á að fara strax aftur upp.

Næsta skref Liverpool verður að setja kraft í eigin sjónvarpsstöð frá og með komandi september enda er hún með mögulegan áhorfendahóp mældan í tugum milljóna um allan heim. Þá fær liðið tekjur af hverjum áskrifenda sem kaupir pakka sem inniheldur stöðina og auglýsingatekjur. Forsmekkurinn er kominn með E-season ticket á aðalsíðunni en stöðin verður án vafa glæsileg í alla staði.

Þrátt fyrir að vera örlítið á eftir NFL hvað peninga varðar er enska úrvalsdeildin orðin vinsælasta íþróttaefni í heimi. Hún er sýnd í 195 löndum og talið er að hálfur milljarður manna fylgist með gangi mála. Þetta er án vafa stærsta og vinsælasta deildin. Fyrir nokkrum árum horfðu Glasgow-liðin til úrvalsdeildarinnar og var það kæft í fæðingu. Fyrir þau var eftir miklu að sækjast, því þau fá ekki nema £1 milljón í sinn hlut á ári fyrir sjónvarpsrétt. Þarna er himinn og haf á milli og væntanlega efast enginn um að enska deildin er 30 sinnum áhugaverðari heldur en sú skoska. En Rangers og Celtic hafa væntanlega misst af lestini. Ef erlend lið koma í deildina í framtíðinni verður alveg jafn líklegt að þau heiti Juventus, AC Milan og Real Madrid.

Munurinn er orðinn það mikill á milli ensku deildarinnar og allra hinna.

17 Comments

  1. Frábær póstur 😉 mjög skemmtilegt að lesa hann nú er maður að skilja betur af hverju enski er orðinn svona svakalega vinsæll 🙂

  2. Enn og aftur glæsilegur póstur Daði. Eitt sem stakk í augun þó og það var metverðið hjá Liverpool fyrir leikmann. Þ.e. metið slegið um rúmlega helming. Cissé var keyptur á 14 milljónir punda og Torres á 20. En það er enginn vafi á því að peningarnir sem komnir eru í EPL eru svaðalegir og bilið á milli þessarar deildar og annarra er bara að aukast og sér ekki fyrir endann á því.

  3. Frábær grein. Það er gaman að hafa svona góðan penna að fjalla um fjárhagslegu hliðina hjá Liverpool, enda skiptir hún orðið mjög mjög miklu máli.

    Þetta eru sjokkerandi háar upphæðir og með þessari þróun eiga upphæðirnar bara eftir að hækka og hækka.

  4. Vel skrifað og afar áhugavert Daði. Hvar ætli þetta endi… Casillas verði bráðum í markinu hjá Stoke og Robinho frammi hjá Sheff Utd?

  5. Góður punktur SSteinn… var að ruglast í því að menn voru að tala um 27.5m. Hann var keyptur fyrir 20.5m.

  6. Skil ég það þá rétt að verðið á efninu hafi hækkað um ca. 60% til sjónvarpsstöðva í Bretlandi fyrir þetta tímabil?

    Ef það er eitthvað svipað hér heima, er þá ekki stór hluti aukinnar verðlagninar kominn, eða er ég kannski eitthvað að misskilja (á það til)?

  7. Er ekki Torres keyptur á 26,5m rétt eins og Rooney er keyptur á 27m? Þ.e. 20m up front, og svo afgangurinn tengdur því hve marga titla hann vinnur, hver mörg mörk hann skorar, hversu mörgum landsleikjum hann nær á meðan hann spilar með Liverpool og þannig?

  8. Þetta með að liðin sem falli fái greitt tvö tímabil á eftir hljómar eins og uppskrift að lokaðri deild a la USA.

  9. Jón Bjarni, mér sýnist að verð til neytenda í UK hafi hækkað um 40% ef þeir taka bæði SKY Sports og Setanta frá því sem þeir voru að borga í fyrra fyrir aðeins SKY. (Tek fram að þetta er bara það sem ég sé í fljótu bragði)

    Það er aðeins minna en 88-114% sem menn segjast verða fyrir hér. Og til að fá sambærilega þjónustu og SKY og Setanta bjóða upp á yrðu menn líka að taka Sýn og þá er hækkunin orðin aaaaaðeins meiri.

  10. Flottur póstur og frábært að lesa um þessi mál, maður er örlítið fróðari um þessa gífurlegu peninga núna á bakvið liðin.

  11. Amm, þetta er trúlega rétt hjá þér..

    Finnst samt ekki alveg sanngjarnt að bera saman Sky/Setanta við Sýn..

    Væri það ekki svipað og að bera saman Rúv og BBC – (með fullri virðingu fyrir því góða fólki sem vinnur hjá Ríkisútvarpinu)

  12. Frábær póstur og virkilega skemtileg lesning.
    Núna skil maður hvað fær einhvern forríkan ameríkana að fá brennandi áhuga á Liverpool allt í einu…

  13. Reyndar ef Cisse var keyptur á 14 mills og Torres á 20 þá erum við ekki langt frá því að bæta metið um helming, þar sem helmingurinn af fyrra metinu er 7 og 14 + 7 = 21 milljón.
    Varð að koma þessu að þar sem mjög oft er ruglað saman helmings hækkun (t.d. 100 * 1,5 = 150) og tvöfaldri hækkun (t.d. 100 * 2 = 200) :). En afsakið þetta … áfram með umræðuna 🙂 .

  14. Engu að síður, ekki yfir helmings hækkun alveg sama hvernig þú reiknar 😉

  15. Jón Bjarni. Ég var að reyna að bera saman framboð á íþróttaefni í heild sinni. Til að vera með svipað framboð og SKY og Setanta yrði maður að vera með Sýn og Sýn 2…auðvitað er þetta ósanngjarn samanburður en það næsta sem við komumst þessu hér á landi.
    En SKY á svo sem engan Gaupa.

  16. Flott grein Daði, en þú gleymir reyndar Stöð 3 með Heimi Karls í fararbroddi … Var ekki ferlið einhvernvegin svona RÚV -> Stöð 2-> Stöð 2/Sýn -> Skjár 1 -> Sýn 2

Smá ábending til lýsenda á Sýn2

Vallarvörður