Næsta tímabil hjá kvennaliðinu

Eins og lesendur síðunnar ættu að vita varð það hlutskipti kvennaliðs Liverpool að falla í næstefstu deild þegar deildinni var slaufað vegna Covid19. Lítið við því að segja, liðið hefði einfaldlega þurft að skora meira og vera ekki í neðsta sæti þegar keppni var hætt.

Það hefur líka komið fram að liðið missti nokkra leikmenn í upphafi sumars: Courtney Sweetman-Kirk, Anke Preuss, Fran Kitching og Christie Murray. Tveir leikmenn heltust úr lestinni sömuleiðis núna nýverið: Jemma Purfield og Niamh Charles. Purfield kom til liðsins fyrir rúmu ári síðan og náði aldrei að festa sig í sessi í liðinu, auk þess að vera meidd bróðurpartinn úr síðasta tímabili. Brotthvarf hennar þarf því ekki að koma neitt svakalega á óvart. Það að Niamh Charles hafi ákveðið að færa sig um set er hins vegar talsvert verra. Hún er búin að vera stuðningsmaður Liverpool frá blautu barnsbeini, og til myndir af henni í Liverpool múnderingu á leiðinni á Anfield þegar hún var kornung. Hún var jafnframt einn af efnilegustu leikmönnum liðsins, og í reynd allt of góð til að vera að spila í næstefstu deild. Hún fór til Chelsea, enda gat hún sjálfsagt valið úr liðum og valdi að fara til meistaranna. Í kveðjupósti félagsins kom skýrt fram frá Vicky Jepson að hún hefði viljað halda Niamh hjá félaginu, og við vonum bara að hún íhugi að koma aftur þegar Liverpool verður aftur komið í hóp bestu liða.

Þá verður einhver bið á því að við sjáum fyrirliðannn okkar, Sophie Bradley-Auckland, aftur á vellinum, því hún hefur tekið þá ákvörðun að spila ekki á meðan smithættan er þetta mikil vegna Covid. Hennar aðstæður eru þær að hún sér jafnframt um það að reka elliheimili sem hefur verið í ættinni í margar kynslóðir (já mikið rétt, það að vera fyrirliði kvennaliðsins er ekki fullt starf…). Í ljósi þess að vistmenn eru allir í áhættuhópi þykir ekki áhættunnar virði að hún spili í augnablikinu. Þetta verður sjálfsagt stórt skarð sem erfitt verður að fylla. Vonandi treystir hún sér þó til að snúa aftur á völlinn fyrr en síðar, og hún segist vera hvergi nærri hætt að spila.

Það hefur sem betur fer aðeins bæst í hópinn í staðinn. Liðið hefur bætt við sig þremur nýjum leikmönnum:

  • Rachael Laws er markmaður sem er ekki alveg ókunnug Liverpool treyjunni, því hún var í liðinu árið 2013 þegar fyrsti titillinn vannst, hún var þá á láni frá Sunderland en lék þó 9 leiki. Rachael kemur frá Reading og fær treyjunúmerið 1, en það verður að koma í ljós hvort hún sé jafnframt hugsuð sem fyrsti kostur í markvarðarstöðunni eða hvort Rylee Foster sé á undan henni. Mögulega fá þær að slást um það sæti á fyrri hluta tímabilsins.
  • Taylor Hinds er varnarmaður sem kemur frá Everton, en lék áður með Arsenal. Hún fær treyjunúmerið 12, og það kæmi ekki á óvart þó hún eigi að leysa fyrirliðann af í bakvarðarstöðunni á meðan hún er í sjálfskipaðri sóttkví.
  • Amalie Thestrup kemur frá Roma þar sem hún lék á síðasta ári, en kemur frá Danmörku eins og nafnið kannski gefur til kynna. Hún varð markakóngur í dönsku deildinni a.m.k. einu sinni, gekk kannski ekki alveg eins vel með Roma en náði þó að setja nokkur mörk. Hún fær treyjunúmerið 9.

Jafnframt fáum við að sjá 3 önnur ný nöfn, en þar er um að ræða leikmenn sem koma úr akademíunni:

  • Missy Bo Kearns er vissulega ekki alveg ný, því hún hefur náð nokkrum leikjum með aðalliðinu, flestir þeirra hafa þó verið í bikarleikjum. Hún var á láni hjá Blackburn í nokkrar vikur á síðasta tímabili og þótti standa sig vel. Við skulum fylgjast vel með þessari stelpu, ég hef trú á að hún gæti orðið nafn þegar fram líða stundir. Við munum væntanlega sjá hana mest í box-to-box hlutverki á miðjunni, þó svo að Vicky Jepson sé alveg óhrædd við að prófa leikmenn í nýjum stöðum.
  • Mia Ross er enn annar efnilegur leikmaður sem kemur úr akademíunni, en hún lék m.a. með U17 liði Englands á síðasta ári. Á Twitter má sjá að pabbi hennar heitir Ian Ross, en rétt að taka fram að það er ekki sami Ian Ross og lék með Liverpool hér á árum áður, ásamt því að hafa þjálfað Val og KR. Mia er miðjumaður að upplagi og getur spilað hvort sem er sem varnarsinnaður miðjumaður eða box-to-box. Hún fær treyjunúmerið 29.
  • Eleanor Heeps verður þriðji markvörður liðsins, hún kemur líka úr akademíunni og á enn eftir að leika aðalliðsleik þó hún hafi verið á bekk a.m.k. einu sinni. Hún er nýorðin 17 ára og er talsvert efni, en skiljanlegt að svona ung stelpa hafi ekki þótt tilbúin í að verða fyrsti varamarkvörður alveg strax.

Það má svo reikna með að Niamh Fahey taki fyrirliðabandið í fjarveru SBA, enda var Niamh gerð að varafyrirliða á síðasta ári og er búin að vera stuðningskona Liverpool frá unga aldri í ofanálag.

Næstkomandi tímabil er það síðasta sem reikna má með að liðið spili á Prenton Park, inni í þeim samningi er víst að liðið notar æfingaaðstöðuna hjá Tranmere sömuleiðis. Það hvar liðið æfir að ári er ekki ljóst, en það er víst ennþá möguleiki að liðið fái samastað í Kirkby rétt eins og karlaliðið og akademían. Þetta er þó ekki ljóst ennþá.

Og hvenær hefst svo tímabilið? Það er víst helgina 5-6. september, en þá fá okkar konur Durham í heimsókn. Við munum að sjálfsögðu halda áfram að fylgjast með stelpunum okkar hér á kop.is jafnvel þó svo að þær spili ekki í efstu deild í vetur. Því eins og Bill Shankly sagði víst forðum: “If you can’t support us when we lose or draw, don’t support us when we win”.

Ein athugasemd

  1. Takk fyrir að koma með svona flotta yfirferð á kvennaliði Liverpool.

    7

Uppfært – Liverpool gerir tilboð í Lewis

Fyrstu kaupin að nálgast?