BIKARINN FER Á LOFT! Og það verður spilað við Chelsea (upphitun)

Þá er komið að því. Annað kvöld fer bikarinn á loft á Anfield í fyrsta sinn í þrjátíu ár. Jordan Henderson er víst búin að vera að æfa danssporið fyrir leik, búið er að velja lögin, setja upp svaka pall og já, það þarf að spila við Chelsea.

Hversu fallegt…

Andstæðingurinn – Chelsea

Ég er einn af þeim sem finnst Frank Lampard hafa fengið full litla pressu á sig, en tökum það ekki frá honum að hann hefur staðið sig mjög vel á sínu fyrsta tímabili. En munurinn á fínu tímabili og frábæru tímabili á fyrsta ári mun ráðast í næstu þrem leikjum. Eins og staðan er hafa þeir eins stigs forskot á liðin í fjórða og fimmta sæti og eru komnir í úrslit FA bikarsins. United á tvo leiki eftir og Leicester bara einn, þannig að ef Chelsea klára annað hvort Liverpool eða Wolves um helgina þá er Meistaradeildarsætið í höfn. Það plús bikar myndi teljast ansi gott.

Vonast til að sjá þennan í fýlu annað kvöld.

En þá er spurningin með leikjaálag. Chelsea spiluðu við United á sunnudag og eiga svo Wolves aftur á sunnudaginn. Tekur Frank sénsinn á að spila tæpum mönnum í von um að klára þetta á Anfield, eða sparar hann liðið og tekur höggið á móti Liverpool og treystir á að ná í úrslit gegn Wolves? Við púllarar munum hvernig það var þegar við vorum að berjast um meistaradeildarsæti og það var ekki gaman þegar lokaleikur breyttist í úrslitaleik með öllu undir.

Það eru líka ákveðnar spurningar yfir Chelsea liðinu. Kante spilaði ekki gegn United og mun væntanlega bara koma inn á sem varamaður, ef hann spilar leikinn gegn Liverpool yfir höfuð. Þeir spiluðu þrusu vel gegn United og munu væntanlega fylgja sama leikjaplani og Burnley og Arsenal, sitja djúpt til að loka á bakverðina okkar og treysta á hraða Pulisic í skyndisóknum.

Það kom mér skemmtilega á óvart þegar ég var að fletta upp tölfræði fyrir þennan leik hversu góð tölfræði Liverpool er gegn Chelsea í deildinni, aðeins tapað einum af síðustu 10, og það var 2018. Þetta verður samt í fjórða sinn á þessu tímabili sem liðin etja kappi, Liverpool vann ofurbikarinn í vító, tapaði í FA bikarnum og vann 2-1 á Stamford Bridge. Já og smá trivia, Adrian hefur spilað alla þessa þrjá leiki

Aðalmálið: Okkar menn

Síðan að Liverpool tryggði sér titilinn hefur broddurinn vægast sagt farið úr spilamennsku liðsins. Leikurinn gegn Arsenal var einn sá furðulegasti sem ég hef séð, Liverpool spiluðu miklu betur, áttu betri færi og töpuðu. Ég var jafn steinhissa og aðrir að sjá Van Dijk gera mistök, hann er víst mannlegur.

“Hvað varstu að segja um mig?” – Van Dijk

Liverpool hefur ekki tapað tveimur leikjum í röð í deild síðan Klopp tók við. Þeir geta jafnað besta árangur á heimavelli í Úrvalsdeildinni með sigri á morgun. Það var 2017 sem Liverpool tapaði síðast á Anfield þannig að mér verður allt annað en sama ef þessi leikur tapast. Já og engin vill taka á móti bikarnum eftir tapleik og fjölskyldur leikmanna fengu undanþágu til að vera á leiknum. Þannig að það er ágætis pressa á liðinu miðað við að leikurinn skiptir litlu.

Klopp mun væntanlega vilja stilla upp þeim leikmönnum sem áttu stærstan þátt í titlinum, fyrir utan Hendo sem er meiddur. Fram- og varnarlína verður væntanlega sú sterkasta, þætti skrýtið ef Gini og Fabinho verða ekki á miðjunni. Þá er í raun bara eitt sæti sem er laust. Milner er víst að detta aftur í hóp en kemur væntanlega ekki beint í byrjunarliðið. Þá eru það Keita eða Alex Oxlade-Chamberlain. Ég er mikill aðdáandi Chamberlain en hann hefur ekki verið að finna sig í síðustu leikjum. Þess vegna held ég að Keita byrji þannig að þetta verður svona:

Spá

Fyrsta spá mín er að það verði rífandi stemning á Sport og Grill, að Hendo mun taka dansspor og að Sir Kenny Dalglish verði brosandi eyrnanna á milli þegar hann hengir medalíurnar á leikmenn. En varðandi leikinn. Þetta verður skrýtin leikur en Salah nær sér í mörk númer 20, Bobby setur eitthvað sirkusmark og skorar loksins á Anfield og Fabinho setur eina eldflaug. 3-0 Liverpool og við brosum öll á meðan bikarinn fer á loft.

Á þessu sviði verða ódauðlegar minningar til

8 Comments

 1. Sælir félagar

  Takk fyrir skemmtilega upphitun Ingimar. Það er bara tilhlökkun í mínum huga og hvernig sem leikurinn fer þá verður þeim eyrnastóra lyft á Anfield í kvöld. Til hamingju með það Púllarar í öllu Universinu og víðar.

  Það er nú þannig

  YNWA

  4
 2. Getur einhver mælt með boltabar í miðborginni fyrir kvöldið? Veit af American bar en grunar að það verði of troðið þar (covid áhyggjur), Lebowski og Reykjavik sportbar. Hvar má reikna með góðri stemningu en samt ekki of miklu fjölmenni?

  1
 3. Til hamingju með daginn Poolarar nær og fjær.
  Veit ekki hvar stemmningin verður í höfuðborginni en Liverpool klúbbur Hafnarfjarðar hefur verið að hittast á Ölhúsinu á Reykjavíkurvegi og það verður engin breyting þar á.
  Munum grilla hamborgara fyrir leik sem verða í boði á meðan birgðir endast, diskó á pallinum og trúbador eftir leik sem mun kyrja ættjarðarsöngva fram að lokun.

  Endilega hendið inn hvar er gott að hittast til að fagna saman hvort sem það er landsbyggðin eða Höfuðborgarsvæðið.

  YNWA

  2
 4. Er einhver staður í Stykkishólmi þar sem hægt er að horfa á leikinn í kvöld?

  1
 5. Hver er besti staðurinn á Akureyri til að horfa á þessa dýrð í kvöld?

  1

Gullkastið – Titillinn á loft í þessari viku

Byrjunarliðið gegn Chelsea