Liverpool 2 – Salzburg 0! (Uppfært)

Gangur leiksins

Það var ljóst frá fyrstu mínútu að þessi leikur yrði veisla fyrir hlutlausa. RB Salzburg lögðu upp með að spila hápressu á rosalegu tempói og Liverpool svöruðu í sömu mynt. Heimamenn voru samt að spila á aðeins hærra orkustigi og Liverpool menn virtust tilbúnari að liggja til baka þegar þeir voru án bolta. Eftir innan við fimm mínútur voru báðir markmenn búnir að eiga fínar vörslur og maður trúði ekki að leikurinn gæti verið svona hraður lengi. Liðin spiluðu enga síður í þessum fimmta gír fram á 25 mínútu, þegar tempóið datt niður í svona 5 mínútur og svo var gefið í aftur út hálfleikinn. Salzburg voru með fimm(!) skot á markið á fyrstu 25 mínútunum!

Salah var einstaklega pirrandi í þessum hálfleik. Hlaupin hans voru geggjuð, spilið frábært og hann kom sér tvisvar í hreinræktuð dauðafæri og klúðraði þeim ótrúlega. Hann var engan vegin einn um að brenna af dauðafærum í þessum hálfleik, Firmino, Mané og Keita áttu allir (misgóða) sénsa á að koma Liverpool yfir. Hinum megin máttu púllarar vera þakklátir fyrir vörslur Alisson.

Rétt áður en blásið var til hálfleiks gaf Salah boltann inn fyrir á Keita sem reyndi að vippa boltanum yfir Stankovic en markmaðurinn varði frábærlega. Einhvern veginn var staðan 0-0 þegar liðin gengu inn í búningsklefa og ég óttaðist að þessi varsla gæti verið vendipunktur leiksins.

Þegar flautað var til seinni hálfleiks héldu liðin áfram þar sem frá var horfið. Alisson þurfti að koma hlaupandi út úr teignum eftir sextán sekúndur til að drepa á sókn Salzburgar. Tveim mínútum seinna reyndi Salah að vippa yfir markmanninn á stuttu færi en skotið fram hjá og nokkrum mínútum seinna reyndi hann að sóla Stankovic en tókst ekki að skora.

Á 53. Mínútu fór Dejan Lovren því miður að fara meiddur af velli og Joe Gomez kom inn í staðinn. Verður að hrósa þeim síðarnefnda hástert fyrir innkomu sína, að koma inn í þennan leik getur ekki hafa verið auðvelt svo ekki sé meira sagt.

Sóknir Liverpool hófu nú að skella á vörn Salzburg eins og öldur. Þegar markið kom var það eins klassískt Liverpool mark og þau gerast. Það byrjaði á langri sendingu frá Trent yfir á Robbo, sem sendi boltann strax á Sadio Mané. Senegalinn og fyrrum Salzburg leikmaðurinn hljóp fram hjá varnarmanni og skapaði sér með því pláss til að gefa fyrirgjöf á Naby Keita, sem skallaði boltann inn af tíu eða svo metra færi!

Flestir stuðningsmenn voru ennþá að fagna og gefa hvor öðrum fimmur þegar annað markið kom upp úr nákvæmlega engu. Alisson sparkaði boltanum hátt og langt og varnarmaður Salzburgar ætlaði að skalla knöttinn til síns markmannar en misreiknaði sig herfilega. Salah náði í knöttinn á undan leikmönnum Salzburgar. Hann var kannski tveim metrum frá endalínunni fyrir utan teiglínuna, með markmann á hlaupum í átt að sér og engan samherja nálægt. Þannig að kóngurinn skaut bara með verri fætinum, eins og ekkert væri sjálfsagðara, og boltinn lak inn! Eftir fjögur dauðfæri skoraði kappinn færi sem er varla hægt að kalla færi! 2-0!

Salah þú fallegi maður, þú átt engan rétt á að skora þarna með verri fætinum.

Eftir þessi mörk fór vindurinn úr seglum Salzburg. Þeir héldu áfram að reyna en það sást að trúin á verkefninu var farin. Milner kom inná þegar korter var eftir og eftir það var stjórn Liverpool á leiknum því til næst algjör. Undir lokin komu fleiri færi, en ekki urðu mörkin fleiri.

Maður leiksins.

Það er alltaf gott merki þegar maður þarf að klóra sér í hausnum við þetta val. Mané var geggjaður, Keita frábær. Hendo er engin Fabinho en samt leysti hann stöðu varnartengiliðar mjög vel. Van Dijk tók hina ungu og efnilegu sóknarmenn Salzburg í kennslustund. Alisson Becker varði fjölda skota og dómineraði teiginn. Eftir mikið höfuðklór fær Sadio Mané þennan titil.

Umræðupunktar eftir leik.

 • Liverpool er komið í útsláttarkeppni Meistaradeildarinnar, þriðja árið í röð! Vert að minna á að Jurgen Klopp hefur aldrei tapað tveggja leikja rimmu í Evrópu sem þjálfari Liverpool!
 • Það lang versta sem gerðist í leiknum voru meiðsli Lovren. Af fjórum hafsentum liðsins eru tveir meiddir og nú fær Gomez aftur tækifæri til að festa sig aftur í sessi í byrjunarliðinu við hlið Van Dijk.
 • Það er ofboðslega gott að halda hreinu í fótboltaleik, ég legg til að Liverpool geri það sem oftast.
 • Þessi leikur sýndi af hverju Salah á að hanga inn á þó hann sé ekki að eiga frábæran leik. Eftir fjögur klúður náði að hann að töfra fram ótrúlegt mark.
 • Firmino hefur átt betri daga, kannski skiljanlega þar sem hann var í gjörgæslu hjá tveimur Salzburg leikmönnum allan leikinn.
 • Ó Mané, Mané. Þvílíkur leikur hjá honum. Sama má segja um Naby Keita, fyrir utan að Keita virtist ekki alveg vera í takt við leikinn til að byrja með en þegar hann náði sér í rétta gírinn var hann skrýmsli. Hann hefur verið ótrúlega óheppinn með meiðsli síðan hann kom til Liverpool, vonandi er hann loksins að fara að sýna okkur hvers vegna Klopp var svona ákafur í að fá hann. En þessi vika var einfaldlega geggjuð hjá honum.
 • Á einum tímapunkti í leiknum kom upp skjáinn tölfræði. Þar stóð að Salzburg væri búið að hlaupa meira en Liverpool, sem mér fannst óvenjulegt. Reyndar ekki búin að athuga þetta nýlega en það er ekki langt síðan aðalsmerki Liverpool var að hlaupa alltaf meira en hinir. Segir kannski eitthvað um hversu sprækt þessir andstæðingar voru.
 • Það kæmi mér ekkert á óvart þó að við fáum að kynnast einhverjum leikmönnum Salzburg betur í framtíðinni. Liðið er stórskemmtilegt og gerir margt svipað og Liverpool, held að Klopp muni reyna að lokka einhverja leikmenn þeirra á Anfield í framtíðinni.

Næst á dagskrá er svo Watford um helgina og svo ferð í eyðimörkina til að ná í eina bikarinn sem Liverpool hefur aldrei unnið! Þvílíkur lúxus að halda með þessu liði, njótum hverjar mínútu!

28 Comments

 1. Salah skoraði vissulega alveg magnað mark, en hefði átt að skora nokkur önnur – Flott úrslit !

  4
 2. Frábær leikur Evrópumeistarnir sýndu úr hverju þeir eru gerðir og unnu þennan riðil ..allir hatarar heimsins héldu með Salzburg í kvöld en það skiptir ekki máli Liverpool er besta liðið.

  Keita annan leikin í röð algjörlega frábær og Salah hefði getað skorað 5 mörk í þessum leik get ekki fundið neitt neikvætt því það er ekkert neikvætt við svona frammistöðu!

  YNWA !!!

  12
 3. Sæl og blessuð.

  Nokkrir punktar:

  1. Salah var jókerinn í dag. Klúðrið var glæpsamlegt – ekki einu sinni, ekki tvisvar – hvað voru dauðafærin mörg? 5? 6? 7? Þá erum við að tala um framherja sem er einn fyrir framan markmann í austurrísku liði og klikkar nánast í hvert einasta skiptið. ,,Nánast…” því svo skorar hann þetta eina mark. Hversu sturlað var það – miklu þrengra færi en hann hafði áður fengið? Þetta sannar hið fornkveðna að sóknarmaðurinn á alltaf séns á að vinna varnarmennina, þegar upp er staðið!
  2. Henderson var frábær – eins og herforingi í djúpu miðjunni. Átti geggjaðar sendingar, vann boltann aftur og aftur og á mikinn þátt í því að salzborgarar voru dauðuppgefnir síðasta korterið og áttu ekkert eftir það.
  3. Virgillinn var í heimsklassa. Svakalega er þetta greindur, hraður, sterkur og hávaxinn leikmaður! Hvað stöðvaði hann þá oft þegar þeir voru komnir nánast inn fyrir vörnina?
  4. Mané var svakalegur líka. Orkuver á takkaskóm. Barðist, barðist og barðist. Óheppinn að skora ekki og auðvitað áttu sendingar hans á Salah að enda sem stoðsendingar.
  5. Þetta var ógnvekjandi hraður leikur. Er ekki bara Watford næst? Verður það þá ekki bara Everton uppstilling? Já, og Lovrén … þetta er ekkert smá hnjask – greinilega. Er ekki ráð að kaupa einhvern ,,Klavan” í janúar?

  11
  • 2. Henderson er hreinlega búinn að vera frábær í haust. Hann á einhverja off-leiki eins og aðrir – en vinnslan, sendingarnar, stjórnin. Það hljóta allir að sjá orðið hvers vegna hann er fyrirliði þessa liðs. Auðmýkt hans kann að hafa skyggt á hæfileikana í augum sumra, en þeir sem horfa á nánast alla leiki vita hversu mikilvægur þáttur hann er af liðinu. Desember er ekki hálfnaður en so far kann hann að vera (leyni) leikmaður mánaðarins í okkar liði. Búinn að vera frábær.

   16
 4. Ekkert neikvætt í kvöld! Bara jákvætt. Við sköpum okkur fullt af færum og auðvitað klúðrast eitthvað af þeim en það er í lagi því núna erum við byrjaðir að halda markinu okkar hreinu.

  Þetta stórkostlega lið okkar bara kann ekki að tapa og við erum ofdekraðir, núna þarf bara að halda áfram að fylla skápana okkar af bikurum!

  Þvílíka veislan. Ég gjörsamlega elska þetta lið!

  8
  • Lovren meiðslin voru nú ekki góðar fréttir.
   Dijk, Matip, Lovren, Gomez og ef allt fer til fjandans Fabinho getur leyst þessa stöðu.

   Núna eru Matip, Lovren og Fabinho meiddir og megum við ekki við fleiri meiðslum í þessari stöðu.

   1
 5. Við erum með alveg geggjað lið, við erum að halda hreinu annan leikinn í röð, sem er líka alveg geggjað.
  Þeir eru ekki margir leikirnir sem Erlingur skorar ekki. Hversu geggað er það.
  Þessi leikur sýnir okkur að við erum að verða betri og betri, hversu geggjað er það.
  Hvernig verður liðið þegar við spilum okkar besta leik og Shala skorar úr öllum/flestum sínum færum, hversu geggjað verður það.
  Hversu geggjaður var Keita.

  5
 6. Frábær leikur hjá besta fótboltaliði heims. Er samt ekki viss um að lfc hefði haldið hreinu ef Lovren hefði verið áfram inná.

  3
 7. Sælir félagar

  Þegar gengið var til búningsherbergja í leikhléi var ég mjög áhyggjufulluir. Vera búir að klúðra þremur dauðafærum og öðru eins af sæmilegum færum. Nú fengjum við það í bakið í seinni hálfleik – eða hvað? En þetta lið okkar og leikmenn þess eru ótrúlegir. Uppbyggingin á fyrra markinu var mögnuð og seinna markið hjá Salah var ótrúlegt. Mikið skelfing var ég ánægður með strákana okkar sem ég var búinn að skamma í fyrri hálfleik fyrir að nýta ekki færin.

  Mér fannst þegar upp er staðið (úr sófanum) að leikmenn hafi í reynd staðið sig afskaplega vel frá hinum aftasta (Alisson) til hins fremsta?!? Eitt af atvikum leiksins (fyrir utan mörkin auðvitað) var í fyrri hálfleik þegar VIrgillinn át Haaland sem hélt að hann væri að sleppa einn innfyrir en svo kom ofjarl hans og slátraði honum. Það var magnað ásamt tvöfaldri vörslu Alisson. Takk fyrir mig leikmenn bezta liðs í heimi.

  Það er nú þannig

  YNWA

  14
 8. Jú jú, sumir skora bara úr þrengsta færinu, en skora, sem öllu máli skiptir. Eftirá eru öll hin færin bara vannýt mörk, eftirá skiptir það engu máli því við unnum og erum efstir. Eina spurningin er bara hvaða lið við fáum í 16 liða, einhverjar óskir???

  YNWA

  3
 9. Sæl öll

  Bara hrópandi (góðærisvandamál) ósammála skýrsluhöfundi með mann leiksinns. Mané var auðvitað góður en hann var að skila “sínu” hlutverki.
  Henderson er minn maður leiksins! Henderson var í veseni fyrstu tíu mínúturnar en eftir það var hann búinn að lesa stungurnar í gegnum miðjan völlinn og náði hann oftast að beina sendingamöguleikum Salzburg frá og út á kanntana. Djúpur miðjumaður sem er sjaldan í mynd er góður varnarmiðjumaður og að skila sínu hlutverki.
  Við héldum hreinu annan leikinn í röð og það er ekkert lítið mikilvægt fyrir sjálfstraustið fyrir komandi átök. Það var eintóm unun, að horfa á varnarleik og vinnusemi LIVERPOOL í þessum leik sem og svo mörgum eftir að Herr Klopp kom til sögunnar. Alveg magnað hvernig LIVERPOOL bregst oft við andstæðningnum í “seinni” og klárar leiki. Þjálfarateymið og greiningar að skila sínu.
  Salzburg hlupu og gáfu í góðan leik en miðjan og vörnin hjá okkar mönnum var stórkostleg. Svo þegar að LIVERPOOL skoraði eitt, svo ég tali ekki um tvö, var það augljóst í gegnum sjónvarpið(!)að Salzburg voru sprungnir og búnir á meðan okkar menn áttu nóg eftir og hefðu í raun átt að setja 3. markið (í lyfjapróf með þetta lið). Eitt að lokum, semja strax við Milner (gulls ígildi að hafa þennan jálk á bekknum og í kringum hópinn) og finna strax arftaka. Einhverjar hugmyndir um Milner Jr.?

  7
 10. Var gjörsamlega búinn eftir þennan “ping pong” leik, klopparinn var mér algjörlega sammála þetta Salzburg lið var ekkert að halda aftur af sér og spiluðu leiftrandi sóknarbolta og á tímabili fannst mér þeir alltaf líklegir til að setja á okkur mark eða mörk. Í þessum leik sáum við af hverju bestu mennirnir kosta slatta af peningum ! Virgil algjörlega sturlaður og ekki var Allison að lækka verðmiðann sinn með sinni frammistöðu ! Minn maður leiksins allan daginn Henderson þvílíkt gull sem þessi maður er að verða fyrir Liverpool í stóru leikjunum. Ekki hef ég alltaf verið á Hendó vagninum en er að snúast í trúnni. Watford næstir en með nýjan stjóra sem er alltaf vítamínssprauta þannig að það má búast við erfiðum leik en ég treysti mínum mönnum til að ná að gíra sig í það verkefni. Áhyggjuefni að Lovren hafi meiðst og vonandi eru þetta ekki 4-6 vikur eins og við má búast því ég hef áhyggjur af því að Gómes sé of shaky með Virgil en vonandi þarf ekki að hafa áhyggjur, spurning hvenær Matip verði klár í slaginn ? Forréttindi að halda með þessum drengjum eins og spilamennskan er núna !

  5
 11. Í þessari samantekt stendur: , Alisson sparkaði boltanum hátt og langt og varnarmaður Salzburgar ætlaði að skalla knöttinn til síns markmannar en misreiknaði sig herfilega.”

  Enginn sá hvaðan sendingin kom því enn voru endursýningar á fyrra markinu í fullum gangi. Ég hef fyrir því áreiðanlegar heimildir að það hafi verið Henderson sem sendi boltann svona fallega fram en ekki Alisson! Stoðsending telst þó ekki með en hafa skal það sem sannara reynist (jafnvel þótt Henderson eigi i hlut..!)

 12. frábær skemmtun, frábær fótbolti og allir góðir í kvöld nema Robertson hann er Hull leikmaður, en góður án bolta og yrði frábær 1500 metra hlaupari

 13. Hér er komið sögulegt móment. Vinur minn Siguróli hefur tekið Henderson í sátt, það er til marks um það að héðan af mun ENGINN efast um fyrirliðann!!!

  6
 14. Hörku skemmtilegur leikur og úrslitin góð gegn flottu liði.
  Mig grunar að það hafi verið erfitt fyrir Haaland að kyngja ungæðis hrokanum sem hann sýndi fyrir leikinn í viðtölum, flottur leikmaður klárlega samt.

  Annars verð ég að benda á þetta sem ég las áðan í grein hjá Echo varðandi Lovern:
  “The Croatian is yet to complete six consecutive Liverpool games over five years after signing from Southampton.”

  Getur þetta staðist?
  Magnað ef svo er, ég hef aldrei hugsað út í þetta, hann er jú oft frá vegna meiðsla en að þetta hafi verið svona mikið finnst mér alveg svakalegt

  Hlakka til helgarinnar 🙂

 15. Hægt að hrósa andstæðingnum fyrir ýmislegt en engu að síður ljúft að þagga niður í hrokanum á Norsaranum. Einnig í fjölmiðlum sem voru búnir að hæpa þetta Salzborgarlið upp til skýjana til að mynda eins og þegar þeir blésu upp sprenghlægilega hálfleiksræðu þjálfara þeirra á Anfield sem átti að hafa kveikt í mannskapnum, þegar staðreyndin var einfaldlega sú að Liverpool hætti að spila fótbolta í nokkrar mín. í síðari hálfleiknum.

  Góður sigur, 16 liða úrslit. Fókus á Watford.

  7
 16. Að fylgjast með þessu Salzburg liði var pínu eins og að horfa á Liverpool liðið fyrst þegar Klopp mætti á svæðið.
  Það var bara hápressa og gauragangur þangað til að menn voru gjörsamlega búnir á því, það eru klárlega gæði þarna en það þyrfti að slípa þau aðeins saman og styrkja nokkra stöður.

  Ólíkt Liverpool þá því miður fyri Salzburg þá efast ég um að þeir fái tíma í það. Þeira bestu menn staldra oftast ekki lengi og þá þarf að taka skref tilbaka og svo vonandi aftur fram. Maður dáðist samt af þeim og held ég að þjálfarinn þeira eigi eftir að vera eftirsóttur af stærri liðum á næstu árum.

  4
 17. Henderson búinn að vera magnaður í síðustu leikjum, enda er hann búinn að átta sig á því að hann er inn og út leikmaður hjá Klopp og að Virgil er fyrirliðinn. en Robertson er dæmi um kraft og vilja án tækni. og i like the dislike

  1
 18. Flott að fá Alisson í fantaformi aftur. Það lofar góðu.

  Flott væri að fá upphitun um Lyon sem fyrst.

  Mér sýnist að það sé einnig möguleiki á þessum liðum:
  Real Madrid
  Atalanta
  Atlético Madrid
  Dortmund

  3
 19. Held að við séum að fá RM. Ef svo verður að þá má Ramos bara vera eftir heima, held að það yrði best fyrir hann!

  1
 20. Samkvæmt áreiðanlegum fréttum erum við að fá japanska framherjann lMinamino frá Red Bull Salzburg í Janúar á 7 millur. Átti góða leiki á móti Liverpool og því ekki það. Getur víst hlaupið endalaust.

Byrjunarliðið gegn Salzborgurum klárt

Minamino til Liverpool í janúar (?)