Bradford City 1-3 Liverpool

Mörkin

0-1   James Milner 13.mín
0-2   James Milner 15.mín (víti)
0-3   Rhian Brewster 41.mín
1-3   Eion Doyle 81.mín (víti)

Leikurinn

Byrjunarlið fyrri hálfleiks: Mignolet, Clyne, Phillips, Lovren, Larouci, Milner, Lallana, Oxlade-Chamberlain, Wilson, Kent, Brewster.

Fátt markvert gerðist fyrstu tíu mínúturnar en eftir það sprakk leikurinn út af lífi. Maraþon-maðurinn Milner fékk leið á gaufinu og lét vaða með skoti fyrir utan teig eftir sendingu frá Kent. Boltinn stefndi á markið en viðkoma í varnarmanni tryggði að boltinn endaði í netinu. Innan við mínútu síðar keyrði Kent upp með boltann, tók þríhyrning við Brewster og kominn í skotstöðu í teignum var hann negldur niður. Púra víti sem að Milner steig upp og skoraði örugglega úr niðri við hægri stöng. 0-2 fyrir Rauða herinn á 2 mínútna kafla.

Liverpool urðu sprækari við mörkin en ógnuðu ekki almennilega marki fyrr en á 28.mínútu þegar að Wilson keyrði að vörninni, tók þríhyrning við Brewster og komst einn á móti markverði en vippa hans var varin. Að hálftíma spiluðum fengu Bradord aukaspyrnu á vinstri vængnum og góð fyrirgjöf á fjærstöng var laglega kláruð í netið en rangstaða var réttilega dæmd. Okkar menn héldu áfram að æfa rangstöðutaktík úr föstum leikatriðum er Bradford sendu aðra fyrirgjöf úr aukaspyrnu inn fyrir af hinum vængnum sem Mignolet varði glæsilega en aftur var flagginu lyft.

Heimamenn færðust allir í aukanna eftir þessar rangstöður og okkar menn frekar mistækir og andlausir á þeim kafla. Þegar styttast fór í hálfleiknum þá átti Oxlade-Chamberlain sendingu upp vinstri kantinn á Ryan Kent á sprettinum. Kent lagði boltann aftur AOC í góðu færi en markmaðurinn varði til vinstri þar sem Brewster skoraði úr mjög þröngu færi.

0-3 í hálfleik

Byrjunarlið seinni hálfleiks: Mignolet, Hoever, Matip, Gomez, Lewis, Fabinho, Woodburn, Jones, Duncan, Origi, Millar.

Seinni hálfleikur byrjaði rólega en á 51.mínútu kom Origi sér í skotstöðu en boltinn fór af varnarmanni og aftur fyrir í hornspyrnu. Curtis Jones sýndi frumkvæði og var skapandi með hættulegri fyrirgjöf og kom sér stuttu síðar í skotfæri í teignum en varnarmaður komst fyrir. Flæði sóknarspilsins var ekki jafn gott hjá Liverpool í þessum hálfleik en megnið af ógnunum liðsins var að koma niður vinstri vænginn með Adam Lewis viljugan þátttakenda. Í einum slíkum spretti á 65.mín. komst Liam Millar í færi í teignum og átti skot sem var vel varið.

Bradford voru ekki að hjálpa mikið til við skemmtanagildið en þeir ætluðu sem klárlega ekki að fá flengingu á heimavelli. Lágu djúpt aftur og Liverpool voru ekki nógu skapandi til að brjóta þá niður. En eins og þruma úr heiðskíru lofti fóru heimamenn upp í sjaldgjæfa sókn og fengu vítaspyrnu á 80.mínútu fyrir dæmt brot á horni vítateigsins. Ákvörðunin að tækla þarna var ógáfuleg og dómurinn því réttur enda Donaldson á undan í boltann en Eion Doyle var nokk sama um það og skoraði framhjá Mignolet úr vítaspyrnunni. Það var síðasta verk Simon í markinu að taka boltann úr netinu því að Atherton fékk að koma inná til að spila síðustu 10 mínútur leiksins. Leikurinn fjaraði út án þess að fleira markvert gerðist og flautað til leiksloka.

1-3 lokatölur

Tölfræðin

Bestu leikmenn Liverpool

Í fyrri hálfleik var tveggja marka maðurinn Milner afar sprækur og átti skot til viðbótar í átt að marki. Ryan Kent var einnig mjög beinskeyttur og ógnaði með hraða sínum og tækni, fiskaði víti og átti þátt í fyrsta og þriðja markinu líka. Brewster skoraði ekki bara mark heldur var einnig að skapa færi með góðu þríhyrningsspili í teignum, einn þeirra sem gaf vítið. Lallana, Clyne og Oxlade-Chamberlain voru líka ágætir í endurkomum sínum frá mislöngum meiðslum.

Í seinni hálfleik voru Curtis Jones og Adam Lewis manna sprækastir í samvinnu sinni upp vinstri kantinn þó að Lewis hafi gert slæm mistök með að gefa vítaspyrnu. Liam Millar og Woodburn voru líka ágætir inn á milli og Fabinho, Gomez og Matip fagmannlegir en það vantaði meira tempó í spilið í seinni holninguna.

Maður leiksins: Ryan Kent sem átti aðkomu að þremur mörkum og almennt öflugur.

YNWA

Ein athugasemd

  1. Úrslitaleikurinn í Afríkukeppninni verður Mahrez – Mané.

    …eða Man. City – Liverpool!

Byrjunarliðið gegn Bradford City

Coutinho?