Xherdan Shaqiri til Liverpool (Staðfest)

Liverpool hefur staðfest kaup félagsins á Xherdan Shaqiri frá Stoke City á um £13m. Þessi upphæð var klásúla í samningi Shaqiri sem var virkjuð við fall Stoke í vor. Stuðningsmenn Liverpool hafa ekki beint verið að hópast í ríkið til að kaupa kampavín af þessu tilefni enda ímynd Shaqiri ekkert í líkingu við sem hún áður var. Það þíðir samt ekki að Klopp geti ekki náð meiru út úr honum en aðrir hafa gert og það liggur fyrir að Liverpool hefur áður reynt að fá hann til Liverpool. Michael Edwards var byrjaður að vinna bak við tjöldin í leikmannakaupum Liverpool er Brendan Rodgers reyndi að fá hann sumarið 2014 og ég held að okkur sé orðið óhætt að treysta Edwards og Klopp á leikmannamarkaðnum. Kaupverðið á Shaqiri er tiltölulega lítið á núverandi markaði, Klopp talar um þetta sem “no brainer” en hann hefur svosem ekki verið að fara á háar upphæðir í gegnum tíðina. Kynnum okkur kappann betur ásamt kostum og göllum við að fá hann til félagsins.

Hvernig í fjandanum endaði hann í Stoke City?

Fyrir fjórum árum var Xherdan Shaqiri sterklega orðaður við Liverpool og sagði seinna að Brendan Rodgers hefði hringt nokkrum sinnum í sig til að sannfæra hann um að koma. Hann var þá leikmaður FC Bayern sem neitaði að selja hann.

Shaqiri er líklega mesta efni sem komið hefur upp í Sviss og var farinn að spila með þeim á HM 18 ára og þá fastamaður í Basel, besta liði Sviss. Hann var því gríðarlega eftirsóttur sem unglingur en hélt tryggð við Basel í nokkur ár og spilaði m.a. 12 Meistaradeildarleiki frá 2010 – 2012.

Hann fór á endanum 21 árs til FC Bayern sem var bókstaflega besta lið í heimi á þeim tíma. Basel fékk í staðin ungan strák sem stóð sig svosem ágætlega, hann heitir Mo Salah. Shaqiri kom til þeirra fyrir lokatímabil Josef Heynckes og kom við sögu í flestum leikjum án þess þó að ná að festa sér sæti í liðinu. Hann var með Ribery og Robben fyrir framan sig í goggunarröðinni en vegna meiðsla Robben spilaði Shaqiri á endanum meira en Robben í deildinni þann vetur. Þannig að mögulega var FC Bayern ekki rétta liðið fyrir hann á þessum tímapunkti og alls ekki eftir að Heynckes hætti og Guardiola tók við.

Guardiola treysti Shaqiri ekki jafn vel og Heynckes og sagði að hann þyrfti að þróast sem leikmaður. Það hjálpaði ekki að Götze var keyptur til FC Bayern ári eftir að Shaqiri kom. Hann var þá einn besti leikmaður deildarinnar og endaði þetta tímabil auðvitað á að tryggja þjóðverum sigur á HM. Ribery og Robben voru áfram aðalmennirnir hjá Bayern og ef ég man rétt eru þeir það raunar ennþá. Shaqiri var í vandræðum og þurfti fara til að fá alvöru spilatíma.

Liverpool reyndi eins og áður segir að kaupa hann sumarið 2014 og var búið að sannfæra hann um að koma en FC Bayern neitaði. Þess í stað spilaði hann rétt tæplega 400 mínútur fram að áramótum og fór þá til Inter Milan fyrir €15m.

Roberto Mancini var nýtekin við Inter á þeim tíma og náði Shaqiri ekki að heilla heldur. Get reyndar ekki sagt að það komi á óvart að leikstíll Mancini hafi ekki hentað Shaqiri vel. Raunar hentaði leikstíll Mancini engum vel hjá Inter sem endaði þetta tímabil í 8.sæti. Shaqiri fékk ekki þann leiktíma sem hann vildi hjá Inter og fékk aldrei lausan tauminn eins og hann fær t.d. hjá Sviss þar sem hann er aðalmaðurinn.

Það verður líka að horfa á tíma hans hjá Inter í því samhengi að stjórnun félagsins var í tómu rugli eins og hún er jafnan. Mancini var gert að minnka hópinn og gat fengið pening fyrir Shaqiri og var tilbúinn að láta hann fara eftir aðeins hálft ár. Mancini var það örvæntingafullur að eftir að hann neitaði Stoke upphaflega var hann settur í frystinn hjá Inter.

Það er því skiljanlegt að hann hafi orðið aðeins örvæntingafullur sumarið 2015, hann mátti ekki við því að lenda í því sama hjá Inter og varð að fá alvöru spilatíma. Stoke City vildi fá hann ásamt Everton sem vildi fá hann á láni en hann neitaði upphaflega að fara þangað. Líklega þarf hann að skipta um umboðsmann því að lítið meira gerðist þá um sumarið og hann fór á endanum til Stoke City fyrir £12m sem er svipuð upphæð og Inter borgaði fyrir hann. Rosalegt stjörnuhrap hjá þessum leikmanni sem var gefið að yrði í Meistaradeildarklassa þegar hann var yngri.

Ferðalag Shaqiri sýnir líka kannski að stundum þarf heppni, réttar aðstæður og stjóra til að ná að sýna sitt “rétta” andlit. Auðvitað skapar knattspyrnumaður sér sína heppni en með því að skoða feril Shaqiri er alveg hægt að sjá afhverju hann sprakk aldrei almennilega út sem leikmaður. Ekki fara t.d. 21 árs til FC Bayern ef bæði Robben og Ribery eru að spila sína stöðu á hátindi ferilsins. Mögulega á það sama við núna enda kemur hann til Liverpool með bæði Salah og Mané í sinni stöðu en það er alveg ljóst engu að síður að hann fær nægan spilatíma hjá Liverpool. Ekki bara sem varamaður.

Shaqiri var ekki eini góði leikmaðurinn sem endaði óvænt hjá Stoke á þessum tíma. Mark Hughes var að reyna breyta leikstíl og ímynd félagsins og fékk nokkra leikmenn sem höfðu áður verið meðal þeirra efnilegustu í bransanum en aldrei náð þeim hæðum sem búist var við (Bojan, Afellay, Arnautovic, Mame Diouf). Stoke endaði fyrsta tímabil Shaqiri í 9.sæti og það sem mikilvægara var þá var Shaqiri lykilmaður í liðinu. Þarna bjóst maður alveg við því að metnaður Stoke væri að festa sig í sessi sem topp tíu lið á Englandi.

Árið eftir var ekki eins gott og endaði liðið í 13.sæti. Shaqiri og Arnautovic dróu vagninn áfram en báðir voru mestmegins svona Match of the Day leikmenn. Þeir áttu það til að sýna frábæra takta og skora glæsileg mörk, jafnvel taka leiki yfir og vinna þá. Oftar sáust þeir samt varla heilu leikina og er helst sakað Shaqiri um óstöðugleika. Spurningin er hversu mikið er hægt að skrifa þennan óstöðugleika á þá staðreynd að hann er núna búinn að spila í þrjú ár hjá Stoke? Hversu mikið betri getur hann verið hjá betra liði og stjóra sem treystir honum?

Arnautovic fór frá Stoke síðasta sumar og ljóst var að Hughes hafði alls ekki tekist að byggja upp það Stoke lið sem Shaqiri var mögulega lofað þegar hann kom til félagsins. Það kom enginn leikmaður Stoke vel út úr síðasta tímabili. Liðið var fyrst og fremst alveg ömurlegt sem endaði auðvitað með falli. Shaqiri var langbesti leikmaður Stoke engu að síður, skoraði átta mörk, lagði upp sjö og skapaði fleiri færi heldur en sóknarmenn Liverpool gerðu. Hjálpar honum auðvitað að hann var aðalmaðurinn hjá Stoke og mikið spilað upp á hann en nokkuð mögnuð tölfræði engu að síður.

Hvað gefur hann Liverpool (og öfugt)?

Ef við skoðum spilaðar mínútur hjá Liverpool á síðasta tímabili í deildinni eru Salah, Mané og Firmino allir í efstu fjórum sætunum. Næsti maður sem eitthvað spilaði í sama hlutverki og Shaqiri er ætlað er Ox-Chamberlain. Ox spilaði meira sem miðjumaður samt og er í 15.sæti yfir spilaðar mínútur síðasta vetur.

Fyrir áramót var Coutinho auðvitað partur af liðinu og á meðan var hægt að gefa einum af fremstu þremur hvíld án þess að það kæmi niður á gæðum liðsins. Munið þið ekki eftir þegar Mané var að eiga svo lélegt tímabil fyrir áramót? Shaqiri er klárlega að fara spila helling af þeim mínútum sem Coutinho spilaði í fyrra og kostar 1/10 af því sem Coutinho kostaði.

Vonandi kemur einn sóknarþenkjandi leikmaður til viðbótar og það er alveg þörf á slíkum þrátt fyrir að nú sé búið að ganga frá kaupum á Shaqiri og það er ekki af ástæðulausu sem við erum að tala um þörf á meiri breidd. Fyrir utan fremstu þrjá þá er þetta breiddin sem við höfðum á síðasta tímabili í þeirra stöðum.

Sex leikmenn þarna sem spiluðu samtals 1529 mínútur eða 17 leiki. Þeir eru samtals að skila af sér fjórum mörkum og tveimur stoðsendingum í einu sókndjarfasta Liverpool liði sem við höfum séð. Þetta er einfaldlega hörmulega lélegt.

Solanke fékk tæplega 600 mínútur, oftast sem varamaður og það er alls ekkert nóg til að dæma hann og hvað á afskrifa sem leikmann. Öllum ljóst að þetta er gríðarlegt talent. Daniel Sturridge spilaði 431 mínútu og við hljótum núna öll að vera sammála um að gefa hann endanlega upp á bátinn. Jafnvel þó hann hafi spilað vel gegn Chester í 45 mínútur. Þetta er fjórða tímabilið sem hann er einn launahæsti leikmaður liðsins og sóknarmaður sem stjórinn fer inn í mótið með sem einn af aðalsóknarmönnum Liverpool.

Danny Ings er ekki í Liverpool klassa, líklega var hann það aldrei og er það alveg klárlega ekki núna. Hann þarf spilatíma eins og Shaqiri þurfti á sínum tíma. Adam Lallana spilaði 235 mínútur í fyrra og hefur verið meiddur meira og minna síðan hann kom til Liverpool. Frábær þegar hann er heill og í 100% standi. Betri líklega en Shaqiri en maður spyr sig á móti hvort Klopp geti gert það sama fyrir Shaqiri og hann gerði fyrir Lallana?

 

Það að eiga Shaqiri inni frekar en hvern sem er af þessum sex leikmönnum styrkir liðið töluvert sóknarlega. Lallana er auðvitað meira miðjumaður hjá Klopp en ef hann verður í sama “formi” næsta vetur er Shaqiri svakaleg bæting.

Shaqiri er svo auðvitað eini kantmaðurinn af þessum hópi og hægt að hvíla Mané eða Salah meira með komu hans. Fekir t.a.m. er ekki heldur kantmaður.

Bæði Shaqiri og Fekir sem vonandi kemur einnig seinna í sumar hafa það fram yfir flesta leikmenn Liverpool að þeir geta tekið föst leikatriði. Ef ég man rétt var Shaqiri með fjórar stoðsendingar í fyrra eftir hornspyrnu sem stangaðar voru inn. Hann tók aukaspyrnurnar einnig og skoraði a.m.k eitt mjög gott mark beint úr aukaspyrnu. Hann gæti fengið mun fleiri tækifæri til að sýna hvað hann getur í föstum leikatriðum hjá Liverpool en Stoke.

Hann er 1,69m á hæð og fljótari en maður heldur og með góðar sendingar. Hann getur stjórnað tempói leikja sem er góð viðbót við okkar lið. Hann kom eins og áður segir við vögu í 15 mörkum hjá Stoke í fyrra sem verður að horfa á í því samhengi að liðið skoraði bara 35 mörk.

Rétt og Dejan Lovren átti Shaqiri erfiða æsku í kjölfar stríðsátaka í fyrrum Júgóslavíu. Hann er fæddur 1991 í Kósovó og flúði fjölskylda hans til Sviss þegar hann var barn. Hann hefur eins og frægt er ennþá mjög sterkar taugar til Kosovo og þegar hann fer heim til Sviss talar hann ennþá Albönsku heimafyrir. Þegar FIFA samþykkti Kosovo fyrir um þremur árum voru vangaveltur um nokkra sterka leikmenn Svissneska landsliðsins sem allir hafa sterkar taugar til Kosovo. Shaqiri og Berhami ásamt Xahka hjá Arsenal en bróðir hans spilar fyrir landslið Kosovo. Þegar landsliðsþjálfari Sviss horfði framhjá Shaqiri hvað fyrirliðastöðuna varðar fyrir um tveimur árum er hann sagður hafa hótað því að skipta um landslið. Það er alveg ljóst að Liverpool er að kaupa karakter í Shaqiri og glætan að hann horfi á sig sem einhvern varamann hjá Liverpool. Ekkert að því og frekar að Liverpool hafi vantað svona karaktera undanfarin ár. Bíðið bara ef Fekir kemur líka!

Shaqiri hefur spilað 74 landsleiki og skorað í þeim 21 mark. Hann fór 18 ára á HM 2010 og hefur verið lykilmaður hjá Sviss á hverju stórmóti síðan.

Hann kemur til Liverpool með afar litlar væntingar en takist Klopp að virkja þá hæfileika sem hann býr yfir gætu þessi kaup verið töluvert betri en búist er við.  Þetta er einnig gríðarlega stórt tækifæri fyrir Shaqiri sem fær hjá Liverpool stjóra sem treystir sínum leikmönnum vel og stendur fyrir sóknarbolta sem hentar honum vel. Hann er að verða 27 ára og því töluvert þroskaðari og reyndari en hann var hjá Bayern og Inter á sínum tíma og vonandi betur undirbúinn fyrir það að spila fyrir svona stórt lið.  Hann átti auðvitað aldrei að enda uppi í Stoke en reynsla hans þaðan nýtist honum vonandi vel núna.

52 Comments

 1. Þetta eru mjög fín kaup að mínu mati, lítill peningur. Góður viðbót uppá breiddina. Leikmaður sem getur skorað uppúr þurru. Rosalega góður skotmaður fyrir utan teig sem vantar oft á móti liðum sem bakka að opna leikinn með langskotum. Góður spyrnumaður líka í hornum og aukaspyrnum. Þannig ég er vel sáttur.

 2. Sæl og blessuð.

  Þetta er nóbreiner.

  Þá er það markvörðurinn. Þ. Kurteisi, Schmeichel… allir kalíberi ofar Karíusi.

 3. Köggull með attitude og eykur pungstig liðsins.
  Sem er flott.
  Velkominn.
  YNWA

 4. Haha, siðgæðislöggan á síðunni varpaði ákveðnu orði yfir í kjarkstig. Sem er flott. Hann er ungur p.
  YNWA

 5. Dálítið spess að lifa á tímum þar sem c.a 14 m pund eru litlar upphæðir í leikmenn. Ég mann eftir 8,5 m punda framherja sem sprengdi skalan hjá okkur og var okkar dýrasti leikmaður en vona að þessi standi sig betur.

 6. Mjög sáttur með Shaqiri, hörkunaggur sem getur spilað nokkrar stöður.
  Mun alltaf fá að spila slatta mikið af leikjum til að létta undir með Salah og Mane.

 7. Sælir félagar

  Gott mál og ég hefi tjáð mig um þessi kaup á öðrum þræði og læt það duga. En ég get þó sagt það hér að ég er sáttur við þetta

  Það er nú þannig

  YNWA

 8. Hlustaði á hann á Liverpooltv. Trúir á Klopp og Liverpool. Flottur félagi.

 9. Þetta eru rosalega góð kaup, sennilega mun betri en við áttum okkur á. Hvað markmenn varðar þá veit ég ekki. Vil sjá Ward spila, sá hann aldrei með Huddersfield, en var víst bara góður. Karius er góður markmaður, það gera allir markmenn mistök, De Gea á HM, come on engin segjir orð um það, Allison í raun lélegur með Brasilíu. Til hvers að eyða penge í markmanns nöfn, sem geta svo ekki rassgat þegar á hólminn er komið. Gefum Karius góðar árur, hann mun standa sig, er töffari eins og markmenn eiga að vera, en vil samt sjá Ward meira.

  YNWA

 10. Þetta eru kjarakaup. Ég efast ekki um gæði Shaqiri en spyr mig hvort hann passi inn í leikstílinn og þá sérstaklega hápressuna sem Liverpool spilar. Það var augljóst að Liverpool vantaði vængamann og miðað við það sem ég hef séð af þessum leikmanni gæti hann hæglega unnið sér fast byrjunarliðssæti ef allt gengi vel hjá honum.

  Þessir þrír nýju likmenn eru mikil uppfæring á hópnum og hópurinn er orðinn miklu heilllegri og stærri en hann var fyrir ári síðan með tilkomu þeirra. Það er kominn mjög mikill stórliðabragur yfir Liverpool og sést það best á því að það eru hágæðleikmenn að berjast um stöður allstaðar á vellinum.

  Eins og flestir eru sammála um, finnst mér vanta markvörð og einhvern eftirmann fyrir Coutinho. Mann eins og Fekir.

 11. Ég er á því að Danny Ward eigi að fá sénsinn í vetur, og ég tel ekki þörf á fleiri varnarmönnum.
  Erum vel settir í báðum bakvörðunum og miðverðinum.
  Ég myndi helst vilja fá inn heimsklassa sóknarmann og færa Firmino í holuna.

 12. X-S skriðdrekinn Tankinho!

  Lágur, vöðvaður og fer hratt yfir 🙂

 13. Nr. 8 ertu að tala um að ummælin hafi ekki komið frá þér?

  Það gerist af og til að ummæli fari í bið, oftast ef þau innihalda einhvern link. Stundum fara ummæli í bið upp úr þurru. Þurfti a.m.k. að samþykkja þrjú fullkomlega random ummæli við þessa færslu (sem innihéldu engan link).

 14. Þetta eru flott kaup og liverpool á nóg eftir til að spreða í góðan markmann og Fekir.

 15. http://lineupbuilder.com/?sk=gy0sx6

  Það sýnir hér klárlega að þetta er orðinn einn svakalegur hópur fáum við alla þá sem við erum orðaðir við. Setti engann backup fyrir Firmino því ég hef ekki hugmynd um hver verður þarna eftir pre-season, hvort það verði Solanke, Brewster, Origi, Ings eða Sturridge. Þeir 3 siðastnefndu sé ég ekki vera áfram hjá félaginu?

 16. Er rétt hjá mér að Fabinho hafi ekki enn fengið treyjunúmer? Keita og Shaqiri strax komnir með númer og því spurning hvort Fabinho sé að bíða eftir númeri leikmanns sem er á útleið frá félaginu?

 17. Nr. 19 ummæli mín birtust en fannst sniðugt hvernig orðið p**gstig (sem er samt varla orð) breyttist sjálfkrafa í kjarkstig.
  Það er verið að passa uppá okkur bullurnar 🙂
  YNWA

 18. Ég er algerlega á Shaqiri vagninum og lengi verið a honum , verðið auðvitað algjört grín vegna klàsùlunnar. Sé hann ekki vera fastamann í liðinu allavega ekki til að byrja með eins og gerðist með Chamberlain en mun alltaf fá fullt af mínútum hvort sem það er að koma inn af bekknum eða byrja einhverja leiki. Okkur hefur Soldið vantað mörk frá fleiri en bombunum þremur fremst á vellinum og Shaqiri og Keita munu koma með þau nokkur og vonandi sem flest bara.. eigum alltaf eftir að selja 2 til 3 af eftirtöldum, Ings,Sturridge, Origi, Solanke,Wilson og Woodburn, sé okkur halda max 2 af þessum 5. Það skapar eimmitt pláss fyrir Shaqiri og Fekir eða sambærilegan leikmann og Fekir. Held að Klopp fari aldrei inni tímabilið með fleiri en 3 hreinræktaða sóknarmenn eða 2 til vara fyrir Firmino, væri til í að lána Solanke til liðs í úrvalsdeildinni þar sem hann fengi helling af spila en held hann geri það ekki frekar en í fyrra en gæti séð hann reyna losna við Ings, Origi pottþett og gerir allt sem hann getur til að losa sig við Sturridge en gæti séð okkur þurfa leyfa honum að fara fritt og borga eins og helming af 150 þús pund launa pakka hans út næsta season á móti liðinu sem tekur hann fram á næsta sumar en þá rennur samningur hans út. Hefði ekkert á móti því að reyna að Fá Higuain til að berjast við Firmino um stöðuna fremst á vellinum með Solanke sem 3 kost og einnig er möguleiki að sleppa Fekir og setja firmino fyrir aftan framherjann og vera þá með Solanke og jafnvel Ings sem annan og 3 kost fyrir Higuain og þá alltaf með möguleikann á að setja Firmino uppá topp og Keita td fremstan á miðjuna í hallæri. Firmino er þessi falska 9 og ekki senter að upplagi enda sjáum við hvernig hann spilar hann er alltaf komin til baka að sækja boltann og taka þátt í spilinu en ekki þessi tipiski senter sem lurir bara í teignum. Juventus hlýtur að þurfa losa eitthvað eftir Ronaldo pakkann sem er pakki uppá sirka 250 milljónir punda með kaupverði og launum en tel líklegra að Higuain endi hjá Chelsea því hann og Sarri þekkjast vel fra Napoli. Myndi frekar vilja Higuain en dybala enda Dybala meiri vængsenter. Væri svo sem ekkert slæmt að eiga shaqiri og Dybala til að styðja við Salah og Mane en held við myndum aldrei eyða i mann eins og Dybala fyrir 100 milljónir plús til að vera varaskeifa og því tel eg Higuain líklegri kost því þá gætum við einmitt fært Firmino aðeins neðar.. margir möguleikar í stöðunni.

  Ég væri ekkert ósáttir við gluggann ef bara Fekir kæmi núna inn í viðbót og svo kæmi ekkert meira og gæfi ég gluggann 8.5 einkunn en auðvitað vill maður lífsnauðsynlega Markmann en Klopp virðist ætla standa með Karius og er þá í leiðinni að leggja sitt orðspor undir líka þvi að ef karius fer að fokka upp snemma á tímabilinu og markaðurinn lokaðir verður Klopp ekkert minna tekin af lífi heldur en Karius. Mignole fer sennilega og þa kemur eflaust markvörður sem á að vera til vara nema hann treysti Ward en þyrfti þá sennilega samt 3 markmanninn, varla treystir hann á þennan 19 ara gamla Grabbara til að vera númer 3. Svo ef það kemur ekki markmaður sem er hugsaðu sem númer eitt vill ég allavega mjög góðan Markmann sem hreinlega getur barist um stöðuna við Karius og veitt honum grjotharða samkeppni. Hefði alveg sætt mig við Jack Butland til að berjast um stöðuna við Karius, þekki ekki hvort hann er með klasulu eins og Shaqiiri en stoke féll og ætti að vera hægt að fá hann ekkert of dýrt já eða bara kasper Schmeichel..

  En já alla vega núna hoppa bara í næstu kaup og loka Fekir eða Higuain og Markmann og gluggann hjá mér fær 10 af 10 og ég mun dansa mikið af gleði..

  Hrikalega spennandi tímar framundan og spáiði í glugganum hjá Arsenal þar er verið að versla úr hillu B til D, ef liverpool væri að taka gluggann sem Arsenal er að taka núna værum við logandi af reiði en sem betur fer eru okkar menn farnir að versla mest allt úr hillu A

 19. Ward að fá sjénsinn, það er hið besta mál. Spurning hver verður varamarkmaður, Mignolet og Karius báðir sjóðheitir að það hreinlega er ómögulegt að skera úr um það.

 20. Fjárhagslega meika þessi kaup auðvitað fullkominn sens fyrir klúbbinn. 30 milljón punda leikmaður fyrir 13 kjarnar Money-Ball pælinguna vart betur. Væri örugglega hægt að selja hann aftur eftir ár með talsverðum hagnaði.

  Held að leikmaður sé þó aldrei keyptur með það í huga. Held að Xherdan komi til með að reynast mjög vel gegn þessum afturábak liðum sem við höfum strögglað við svo lengi. Frábært akkeri að auki ef ein af skyttunum meiðist. Hann verður flottur á móti liðum sem bakka og á örugglega eftir að tryggja nokkra punkta á næsta sísoni í þeim leikjum. Við munum ekki spila hápressu í 3420 mínútur á komandi vetri. Við vissar aðstæður er mikill styrkur í því að eiga svona leikmann í hóp. Velkominn til Liverpool, Xherdan!

 21. Var einhver að horfa á Bury – Liverpool?

  Hinn ungi Curtis Jones vekur áhuga manns. Bara 17, en fullur af spenningi og áhuga. Sömuleiðis hefur Sheyi Oyo stækkað um eitt númer. Vona að þessir strákar fái eitthvað að gera í vetur.

 22. jæja, eg veit ekki, eru þetta góð kaup??? er hann í alvöru að fara að styrkja liðið, varla, er hann góður á breiddina, tja… eg er bara ekkert viss um það, en þegar uxinn kom var ég ekki viss heldur þannig hvað veit eg…

 23. Ef ég má, þá vil ég koma með nauðsýnlega ábendingu. Englendingar geta ekki neitt í fótbolta. Tapið gegn Íslandi var og er staðfesting á því. Sem og leikurinn á móti Belgíu. Er einhver með tölfræði um það hve margir aðalliðsmenn enskir eru í ensku deildini? Vandamálið er staðbundið, ekki bara á Englandi, þó þar sé það mest áberandi. Hnignandi lönd eins og Ítalía, Spánn og þýskaland eru auðsjáanleg dæmi. Þetta er ekki einfallt mál!

  YNWA

 24. Englendingar geta ekkert i fótbolta? Þeir fundu upp fótboltan svo sýna smá virðingu auk þess þá eru enskir leikmenn gegnum söguna eins og Sheraer, Scholes, Andy Cole, Lampard, Gerrard, Rooney, Bale, Terry, Barnes, Owen, Lineker og margir aðrir sýna að þeir geta eitthvað i fótbolta.
  Vonandi með komu Brexit verður lagt meiri áhersla að rækta unga enska leikmenn og umbylta þjálfunaraðferðum til bæta gæðinn.

 25. Flott kaup sem á eftir bæta breiddina. Núna vill ég sá nýjan markmann og af hverju ekki fá Butland frá Stoke líka. Svo einn enskan miðvörð eins og James Tarkoski sem hefur verið orðaður við Liverpool.

 26. Ef það á að kaupa Englending kemur bara einn til greina..,..Harry McGyver

 27. Þetta eru flott kaup. Ég er eitthvað efins með Allison og finnst þessi taktík hjá Roma að segja að símalínur séu rauðglóandi frá Spáni og Englandi til að spyrjast fyrir um Allison og virka á mig eins og þeir viti að hann verði aldrei svona hátt verðlagður aftur í félagsskiptaglugga og vilji pressa okkur í að kaupa hann.

 28. ég er mjög spenntur fyrir þessum kaupum og held hann muni passa vel í leikstíl klopp. kraftmikill leikmaður sem mun bæta sig mikið með betra lið í kring um sig. Frábær ódýr viðbót við hópinn

 29. baddi #34, ég tók kannski aðeins of djúpt á árini, þó ekki. Enda nefndi ég einnig önnur lönd sem eru í samskonar vanda. Það er alveg rétt, englendingar kannski ekki endilega fundu upp fótboltann, en komu honum á þann stall sem hann er í dag, fyrir það fá þeir stórt hrós. Englendingar hafa átt fullt af góðum einstaklingum, við þekkjum það vel hjá LFC, en einhverrahluta vegna þá hefur ekki náð að myndast heilstætt lið. Er í raun stór furðulegt ef fólk pælir í því, þessi mesta fótboltaþjóð heimsins. En það er klárt að félagslið þessara þjóða er á engan hátt að endurspegla getu landsliða þeirra, þ.e. Þjóðverja, Spánar, Ítalíu og Englands. En við fengum flotta viðbót við breiddina hjá okkur.

  YNWA

 30. Flott kaup, en hvað á að gera við alla ungu strákanna sem eru að springa út um þessar mundir. Ég vill ekki þennan Allison er ekki nógu góður markmaður. Munið þið hvað hann fékk á sig mörg mörk gegn Liverpool?

 31. Rosalega góð kaup, sennilega mun betri en við áttum okkur á. Sannfaerdur um ad kaupin a Shaqiri eigi eftir ad reynast bestu kaup Liverpool a sidari arum likt og kaupin a Salah. Leikmadur med matulega mikinn hroka sem klarlega hefur vantad i Liverpool lidid. Hann smellpassar i leikstil Klopp. Hann er a besta aldri og a mikid inni. Gjörsamlega frábær kaup á þessu verði!

 32. Eitt sem eg vildi einnig sagt hafa. Tessi leikmadur verdur engin varaskeifa hja Liverpool. Hans hugafar leifir ekki slikt.

 33. Eitt ad lokum. Hegdun og kaup Arsenal a leikmannamarkadum sl. vikur minnir oneitanlega mikid Liverpool a leikmannamarkadnum 2014/15. Aumingja Arsenal. !

 34. Ég er mjög ánægður með þessi kaup. Það sem kom mér líka skemmtilega á óvart er að ég skoðaði highlights frá síðasta tímabili hjá honum á YouTube… og viti menn og konur, hann smellti inn einu marki fyrir utan teig með hægri fæti! Ég er viss um að Klopp nær að hjálpa Shaq23 á næsta level og hann á eftir að koma inn með nýja sóknarógn með sínum mögnuðu skotum og fyrirgjöfum.

  Ég er viss um að það eru góðir tímar framundan… Klopp er að byggja upp magnað lið! Muniði fyrir sex árum síðan þegar Lucas meiddist og miðjan hjá okkur var Charlie Adam og Jay Spearing? Við erum í ,,aðeins” betri málum í dag 🙂

 35. Vona að þetta séu góðar fréttir og að Shaqiri falli inn í hópinn. Snöggur, teknískur, skotfastur og pínu hroki inn á milli en líklega bara passlega mikið.
  Nr 45. Hvaða, hvaða, var ekki Charlie Adam ágætur. Allavega einn albesti Charlie sem spilað hefur fyrir Liverpool.

 36. Aðrar góðar fréttir.
  Sean Cox er vaknaður úr dáinu vonandi mun hann ná sér sem allra fyrst.
  YNWA

 37. Núna segir sluðrið samkvæmt þessum nautheimskaforseta Lyon að Fekir gæti enn farið til okkar. Vonandi eru okkar menn vara að ræða við þá sirka NUNA og klari þetta omurlega mal sem fyrst.. henda svo í alvoru Markmann og við getum lokað sjoppunni sennilega til næsta sumars !!

 38. Og enþá halda liverpool menn að tapa urslitaleikjum. Lovren enn og aftur.

 39. Mjög spennandi leikmaður sem fittar inn í leikstílinn okkar.
  Fekir kemur til okkar eftir djammið í kvöld. Er pínu hræddur um að við fáum ekki annan keeper. Klopp kaupir ekki bara til að kaupa… Sem betur fer.

Lovren og vörn Liverpool

Hvern viljum við í markið?