Hvern viljum við í markið?

Óskalisti nánast allra stuðningsmanna Liverpool inniheldur nýjan markmann fyrir næsta tímabil og alls ekkert að ástæðulausu. Sjálfur var ég hérna á meðan leik stóð 26.maí:

Þetta er ekkert flókið við viljum auðvitað heimsklassa markmann til Liverpool sem ekki gerir jafn ljót mistök og Karius gerði sig sekan um á stærsta sviði sem hann hefur spilað. Hinsvegar vandast málið aðeins þegar við förum að skoða þessa svokölluðu heimsklassamarkmenn og bera þá saman. Fyrir það fyrsta á Liverpool ekkert kost á að kaupa meirihlutan af þeim og þeir sem mögulega væri hægt að sannfæra um að koma til Liverpool standa til boða á álíka yfirverði og Andy Carroll var keyptur á. Þar fyrir utan gera þeir flestir sig einnig seka um slæm mistök af og til. Svo er alveg rosaleg tilviljun að þeir markmenn sem spila fyrir varnarsinnuð lið eins og Atlético Madríd og Man Utd séu bestu markmenn í heimi.

Reiði mín gagnvart Karius hefur aðeins mildast þegar líður á sumarið og persónulega færi ég ekkert á taugum með hann sem markmann Liverpool. Aðalvandamálið hans héðan af óttast ég að verði aðdáendur Liverpool fyrst og fremst, það eru til sófaspekingar sem trúa því í alvöru að þeir viti töluvert meira um þetta vandamál Liverpool en Klopp og bíða eftir hverjum mistökum og blása upp úr öllu valdi. Það hefur reyndar svo lengi sem ég man eftir alltaf verið 1-2 leikmaður í liði Liverpool í þessu hlutverki. Þar fyrir utan er ekki eins og Karius sé nálægt því eins mistækur og af er látið og spurning hvort það sé tilviljun að hann geri verstu mistök ferilsins rúmlega tveimur mínútum eftir að hann fékk (sem nú er staðfest og ekkert grín) heilahristing. Heilahristingur er mun alvarlega mál en margir grínistar vilja viðurkenna og mistök hjá Karius og Liverpool að bregðast ekki við strax, læra mögulega af þessu. En ef við horfum alveg framhjá því hvort þetta höfuðhögg hafði áhrif á frammistöðu hans eða ekki efast ég um að Klopp sé jafn tilbúinn og ansi margir að gefa feril Karius sem er 25 ára upp á bátinn.

Karius var nefnilega búinn að koma sterkur inn í lið Liverpool fram að þessum leik og ef þið lesið pistilinn frá því um daginn um Lovren og vörn Liverpool er ekki hægt að ætlast til þess að markmenn Liverpool geri engin mistök. Ekki með svona óstöðugleika fyrir framan sig.

Mignolet hefur verið markmaður Liverpool í fimm ár og hentar liðinu illa að mínu mati, það er fullreynt með hann. Ekki alveg jafn harður á því með Karius þó ég eins og allir aðrir myndi helst vilja “alvöru heimsklassa” í þessa stöðu og að hún verði vesenisfrí í nokkur ár.

Vandamálið er að það getur verið gríðarlega erfitt að skipta um heimsklassa markmann eins og fjölmörg dæmi sína. Eins gera þeir bestu bara slatta af mistökum einnig, jafnvel í úrslitaleik HM. Liverpool hefur ekki átt markmann í alvöru klassa síðan Pepe Reina var upp á sitt besta en höfum líka alveg í huga að hann hætti að vera í heimsklassa þegar varnarleikurinn fyrir framan hann dalaði harkalega. Þetta helst jafnan þéttingsfast í hendur.

Hvaða markmenn erum við að tala um?

Förum aðeins yfir þessa helstu markmenn í heimsfótboltanum. Þá er ég auðvitað að tala um þá sem eru helst í umræðunni núna og þegar hjá stærstu liðunum.


G = Leikir
GA = Mörk fengin á sig
SoTA = Skot á markið fengin á sig
Save% = Hlutfall yfir varin skot
GA90 = Mörk fengin á sig að meðaltali í leik
Av.save per game = Varin skot að meðaltali í leik
Def. Errors = Varnarmistök
Def. Error leading to goal = Varnarmistök sem kostuðu mark

Það eru síður eins og squawka.com og fbref.com sem halda utan um svona tölfræði og þó að þetta segi enganvegin alla söguna þá áhugavert að bera þetta saman. Sérstaklega m.t.t. viðhorfs gagnvart mismunandi markmönnum. Auðvitað gera allir leikmenn nokkur varnarmistök í hverjum leik en svona skilgreinir Opta varnarmistök.


Karius og Mignolet

Karius spilaði 19 leiki á móti 19 leikjum Mignolet sem er allt of lítið dæmi til að fella stóradóm um þá. Karius spilaði t.d. hluta þessara leikja með Van Dijk.  Áhugavert samt að Karius varði helmingi meira af þeim skotum sem hann fékk á sig og satt að segja er tölfræði Mignolet jafnvel verri en maður óttaðist, hann er að verja 0,95 skot í leik sem er minna en eitt. Ekki furða að okkur hafi fundist allt leka inn.

Karius fékk á sig 0,74 mörk á meðaltali í leik á móti 1,26 hjá Mignolet (sem er sama meðaltal og hann hefur yfir ferilinn, líka þegar hann var hjá Sunderland). Þegar Mignolet var í markinu náði liðið að verjast aðeins 61% þeirra skota sem fór á rammann (varnarmenn taka auðvitað eitthvað líka). Mignolet gerði auk þess tvö mistök sem kostuðu mark skv. fbref.com. Þetta varð mögulega til þess að Karius fékk loksins sénsinn aftur.

Þó það falli auðvitað í skuggann á úrslitaleiknum þá var þetta langbesta tímabil Karius hvað mörk fengin á sig varðar sem er kannski ekki óvænt þar sem flestir hinna leikjanna voru með Mainz.  Þetta er raunar besta tímabil hjá markmanni Liverpool hvað mörk fengin á sig varðar á þessum áratug. Ef markmaður Liverpool heldur þessu  áfram í 0,74 mörkum að meðaltali í leik væri það 28 mörk yfir tímabilið (og tíu marka bæting).

Heilt yfir síðustu fimm tímabil eru varnarmistök Karius og Baktus svona:


Alisson

Alisson markmaður Roma er hvað helst orðaður við Liverpool sem og önnur stórlið í markmannsleit. Hann er auðvitað aðalmarkvörður Braselíu og þegar við vorum að undirbúa okkur fyrir einvígið gegn Roma lásum við mikið um nokkra frábæra leiki Alisson bæði í deildinni sem og Meistaradeildinni. Ég fullyrði að langflest okkar höfum ekki séð mikið meira en svona 10 leiki hjá honum á ferlinum og í flestum þeirra var hann ekkert geggjaður. Liverpool skoraði sjö mörk á hann og Braselía var ekki að blása í neina lúðra á HM. Samt er ekki vafi að hann er heimsklassinn sem Klopp þarf að borga “bara hvað sem er” fyrir til að leysa markmannsvandræði okkar.

Ekki misskilja mig, ég er á því að hann sé mjög góður og ég vill endilega fá hann til Liverpool. Alisson hefur aðeins spilað eitt tímabil sem aðalmarkmaður í Evrópu, hann spilaði Evrópuleiki Roma sitt fyrsta tímabil á Ítalíu og eignaði sér stöðuna fyrir síðasta tímabil. Hann spilaði 37 deildarleiki og var að verja 3,46 skot í leik sem er mögnuð tölfræði (Mignolet var með 0.95 sem er fáránlega lélegt). Hann fékk á sig 0,76 mörk að meðaltali í leik yfir 37 leiki sem er nánast það sama og Karius var að gera hjá Liverpool (19 leiki).

Undanfarin fimm ár hefur hefur hann verið mjög solid hvað stór mistök varðar

Þessi tölfræði nær aðeins yfir deildarleiki sem segir ekki alla söguna um tíma hans í Braselíu en deildarfyrirkomulagið þar er öllu flóknara en í Evrópu. Hann spilaði samtals 115 leiki í Braselíu.

Alisson er miklu meiri skrokkur en Karius og einhverjum 15 kílóum þyngri. Karius er 1,89m á móti 1,91 hjá Alisson. Hann er góður í teignum og alls ekkert tilviljun að hann sé heitasti bitinn á markaðnum í dag.  Þeir eru jafngamlir og ættu báðir geta bætt sig töluvert sem markmenn í framtíðinni enda 25 ár ekkert fyrir markmann.

Samt ágætt að hafa í huga að tölfræði þeirra á síðasta tímabili er ekkert ósvipuð og að Alisson var með töluvert stöðugri vörn og miðju fyrir framan sig en Karius. Einnig í hægari deild. Af þeim sem helst eru orðaðir við Liverpool og ættu að vera nokkuð raunhæf skotmörk er Alisson klárlega fyrsti kostur hjá mér rétt eins og flestum.


Oblak

Markmaður Atlético Madríd er klárlega á topp fimm yfir bestu markmenn í heimi í dag. Hann býr líka að því að spila fyrir besta varnarlið elítunnar sem hjálpar markmanni gríðarlega við að koma vel út tölfræðilega. Þetta er jú auðvitað liðsíþrótt og það á jafn mikið við um markmenn og aðra. Hann er ári yngri en Alisson og 1,89m á hæð og hefur verið að spila rétt rúmlega þrjú tímabil hjá Atlético.

Þetta er klárlega sá heimsklassi sem við viljum sjá hjá markmanni Liverpool en spurningin er hvort við þurfum þá að spila eins og Atlético Madríd líka? Þá er ég alveg sáttur við Klopp áfram og áhættusamari varnarleik. Oblak er samt að verja 4,56 skot í leik sem er ævintýralegt og fær á sig 0,58 mörk að meðaltali síðan hann tók við stöðunni (af Courtois).

Oblak er auðvitað ekki til sölu enda nú þegar að spila fyrir stórlið. Það er talað um einhverja rosalega klásúlu í hans samningi upp á 80-100m og flestir gera bara ráð fyrir að hann sé tilbúinn að yfirgefa Madríd. Það má svosem vel vera en hann er ekkert í umræðunni núna og MJÖG ólíklegt að hann fari nokkuð í sumar.


De Gea

Langbesti markmaður sem Liverpool mætir á hverju tímabili og klárlega í sama klassa og Oblak. Hjálpar honum auðvitað að hann spilar í liði sem leggur mjög mikið upp með varnarleik en sumar af markvörslum hans í undanfarin ár hafa verið magnaðar. Líklega enginn markmaður sem vinnur eins mörg stig fyrir sitt lið á Englandi. Hann var að verja 3,46 skot að meðaltali í leik í fyrra og Man Utd var að verjast 81% þeirra tilrauna sem komu á markið.  (Liverpool var með 61% þegar Mignolet var í markinu).

Þrjú varnarmistök sem verða að marki á tæpum 16.000 mínútum er fjandi öflugt.


Ederson – Courtois – Lloris

Það var ekki lítið látið með Ederson í upphafi tímabilsins og þeirra áhrifa sem hann hafði á Man City liðið. Hann er svipað og Karius mun meira sóknarþenkjandi markmaður en City var með fyrir og bætti klárlega liðið en ef við skoðum tölfræðina hans sést að það hjálpaði honum mjög mikið að spila fyrir lið sem var nánast alltaf með boltann og einhverja dýrustu varnarlínu sögunnar.

Hann fær á sig svipað mörg mörk að meðaltali og Karius, er að verja 1,8 skot að meðaltali í leik og City bjargar 67% af því sem kom á rammann (ekki nema 79 skot). Hann er samt að gera sex mistök og kostaði tvö mörk, gott ef annað þeirra var ekki gegn Liverpool.  Hann er á svipuðum aldri og Alisson og Karius en hafði bara spilað 56 leiki samtals í Evrópu (Benfica) áður en hann fór til Man City. Flottur markmaður en maður veltir fyrir sér hversu mikla þolinmæði hann fengi hjá stuðningsmönnum Liverpool með svona mörg mistök.

Hugo Lloris var að enda við að gera álíka vond mistök og Karius gerði á stærsta sviði sem hægt er að komast en kemst upp með það og gat m.a.s. hlegið af þeim eftir leik. Hann var að gera sjö mistök á síðasta tímabili og kostaði fjögur mörk.

Tottenham sem er með eina bestu vörn deildarinnar og varnarsinnað miðsvæði fékk á sig 0,97 mörk að meðaltali í leik í fyrra en Lloris var að verja 2,18 skot í leik. Lloris hefur gert helling af dýrum mistökum undanfarin ár en er engu að síður (réttilega) flokkaður meðal þeirra bestu.

Courtois sýndi svo á HM rétt eins og hann hefur oft gert á Englandi að hann er einnig meðal þeirra bestu og verður áhugavert að sjá hvað hann gerir í sumar. Hann er strax farin að setja pressu á Chelsea um betri samning skv. fréttum.

Hann gerði engin stór mistök í vetur en varði ekki nema 1,42 skot í leik. Chelsea var að glíma við slatta af vandamálum síðasta vetur og hann var ekki eitt af þeim. Það verður ekkert létt fyrir Chelsea að fá mann í hans stað ef þeir missa hann.

Þessa 19 leiki sem Karius spilaði í deildinni í vetur og langflesta í Meistaradeildinni var hann alveg á pari ef ekki betri en þessir markmenn. Hann hinsvegar eins og reyndar Lloris gerði mistök á versta tíma. Ekkert þungt höfuðhögg reyndar fyrir Lloris að vinna með.


Cech – Schmeicel – Donnarumma

Nýr markmaður var töluvert meira forgangsverkefni hjá Arsenal eftir síðasta tímabil heldur en nokkurntíma Liverpool. Petr Cech hefur aldrei verið samur eftir að hann fór úr solid varnarbolta Chelsea til Arsenal en síðasti vetur var hroðalegur á hans mælikvarða. Sjö mistök sem kostuðu sex mörk og Arsenal fékk á sig 1,42 mörk að meðaltali í leik með Cech í markinu. Arsenal er nú þegar búið að kaupa Leno frá Leverkusen, hann hefur reyndar verið töluvert mistækur undanfarin ár líka en bætir líklega þessa stöðu töluvert hjá Arsenal.

Schmeicel gæti alveg átt einn séns eftir á að komast í stórlið og þyrfti þá helst að nýta tækifærið núna í sumar (ekki með Liverpool í huga).  Hann var að verja um tvö skot að meðaltali í leik síðasta vetur en Leicester var að leka mikið af mörkum heilt yfir.

Donnarumma er svo áhugaverður kostur. Hann er klárlega eitt mesta efni sem komið hefur upp í boltanum síðan Buffon og jafnvel enn meira efni en Buffon var á þeim forsendum að hann er 19 ára og hefur nú þegar spilað sem aðalmarkmaður AC Milan þrjú tímabil og komið við sögu í landsliði Ítala öll árin.

AC Milan er reyndar ekkert AC Milan lengur ef svo má segja en það breytir því ekki að hann er orðin svona stór lykilmaður þetta ungur. Er kannski málið fyrir Liverpool að taka sénsinn á honum núna og freista þess að tryggja markmannsstöðuna næsta áratuginn?

Donnarumma er að gera töluvert af mistökum á hverju tímabili sem er eðlilegt en væru stuðningsmenn Liverpool tilbúnir að vera þolinmóðir? Eins er þetta aðal gullkálfur AC Milan um þessar mundir og ljóst að hann yrði ekki ódýr og ekkert víst að hann vilji yfirgefa Ítalíu strax. Á móti er allt í tómu rugli hjá Milan og líklega möguleiki núna að kaupa þeirra leikmenn.  Hann er 1,96m og fimmtán kg þyngri en Karius og því mjög góður í teignum.

Hef satt að segja ekki hugmynd um hversu góður hann er eða hvort hann sé að standa undir hype-inu. Ef hann er sannarlega næsti Buffon væri þetta aldrei spurning.


Hvað er forgangsatriði núna?

Þetta er bara hluti af þeim helstu og þeir sem hvað helst hafa verið orðaðir við Liverpool eða eru nú þegar í ensku deildinni. Gleymdi reyndar Jack Butland og vona að forráðamenn Liverpool geri það líka.

Edwards og félagar eru vonandi með töluvert stærri gagnabanka en þetta ef þeir eru sannarlega á eftir markmanni. Það er mjög stutt síðan fæst okkar höfðum heyrt um Alisson, Ederson og m.a.s. Oblak er bara búinn að spila þrjú tímabil. Það eru pottþétt að koma upp fleiri alvöru markmenn sem við höfum ekki heyrt um.

Ef Alisson er aðal skotmark Liverpool er mér slétt sama hvaða hann kostar, það er ekkert vitlausari fjárfesting að borga 75m fyrir markmann frekar en miðvörð ef það er réttur aðili. Hinsvegar er ég líka tilbúinn að treysta Klopp ef hann heldur sig við Karius (eða skoðar Ward). Takist að þétta varnarleikinn með nýjum mönnum og Van Dijk frá byrjun fylgir markvarslan pottþétt með.

Fyrir mér hefur varnartengiliður verið aðalatriði í hverjum glugga undanfarin átta ár. Vonandi er loksins búið að kaupa alvöru mann í það hlutverk. Að fá auk þess Naby Keita á miðjuna stökkbreytir þeirri stöðu, sérstaklega þar sem það er ekki hægt að hugsa sér meiri Klopp tegund af leikmanni. Shaqiri gefur okkur nauðsynlega breidd á vængjunum þannig að sumarið hefur verið nokkuð gott fram að þessu.

Fyrir mér er aðalatriði núna að hressa upp á sóknarlínuna. Breiddin sóknarlega var vandræðalega léleg á síðasta tímabili og skiptu Sturridge, Origi, Solanke, Ings, Lallana og Woodburn fjórum mörkum og tveimur stoðsendingum á milli sín í þetta sókndjörfu liði. Fekir væru frábær kaup og ef ekki hann þá einhver af hans kaliberi. Aulas eigandi Lyon gæti ekki verið mikið augljósari með áhuga sinn á að selja Fekir og má ekki sjá blaðamann um þessar mundir án þess að tjá sig um Fekir. Sóknarmaður er mun mikilvægara en nýr markmaður að mínu mati þó helst vilji ég auðvitað bæði. Það að Fekir var búinn í læknisskoðun, kominn í búning og búinn með viðtal bendir til að Klopp sé sammála. Mitt gisk er að þetta hafi fallið á tíma fyrir HM og verði klárað á næstu 1-2 vikum.

Liverpool ætti alveg að hafa efni á bæði sóknarmanni og markmanni nú þegar en svo má alveg búast við því að nokkrir leikmenn fari áður en glugganum lokar. Eftir söluna á Coutinho, auknar sjónvarpstekjur og gengi í Meistaradeild þarf Liverpool að hamra járnið meðan það er heitt og halda áfram að láta til sín taka á leikmannamarkaðnum.

28 Comments

  1. Flottur pistill Einar.

    Ég held að koma varnartengiliðs til liðsins sé stærsta bæting sem klúbburinn gat gert til þess að fækka mörkum fengnum á okkur. Í raun er það mér alveg óskiljanlegt hvernig þetta var ekki var ekki gert fyrir mörgum árum síðan.

    Ef ekki hefði verið fyrir úrslit meistaradeildarinnar í vor þá væru líklegast flestir nokkuð slakir með að hafa Karius áfram í markinu enda var tölfræðin hans ekki slæm seinni hluta tímabilsins eins og kom fram í pistlinum, pottþétt hjálpar það að Vvd mætti á svæðið.

    Stór spurning Karius nái að höndla þá auknu pressu sem þetta færir honum, það er eitthvað sem þjálfarinn þarf að meta og m.v. fyrst augnablik á pre-seasoninu þá lítur það ekki þannig út.

    Líklegast kemur ekkert í ljós fyrr en að Courtois ákveður hvað hann vill gera en þá fer þessi markmannskapall af stað. Ef Courtois fer til RM þá spái ég því að LFC kaupi Allison.

  2. Klopp hefur gefið það út að hann hafi fulla trú á Karíus, ég hef það reyndar líka, en vil fá að sjá Ward í alvöru leikjum, þar sem okkar bestu taka þátt. Það þarf einfaldlega að byggja Karíus upp andlega, því eftir allt er markmannsstaðan sennilega erfiðasta staðan í hverju liði, sem og hvernig lið spila. Mjög varnarsinnuð lið eins og manu, fá eðli málsins vegna færri mörk á sig, sem markmaður eins og De Gea hagnast tölfræðilega á, samt höfum við séð hann gera hræðileg mistök, Loris núna í úrslitaleiknum. Allison fær á sig 7 mörk gegn okkur, Karíus 6. Karíus var í flottum málum fram að úrslitaleiknum við RM, var virkilega vaxandi, komandi með góða vörn fyrir framan sig, eeen svo gerist það sem er læknisfræðilega ekki talið gott, sér í lagi með markmann, heilahristingur. Held við ættum að halda okkur við Karíus og vonandi Ward, auka breiddina og styrkja í öðrum stöðum.

    YNWA

  3. Takk fyrir frábæran pistil. Karíus er góður markvörður. Batt miklar vonir við hann þegar hann kom til Liverpool. Ég persónulega hef ekkert á móti Karius en ég er ansi hræddur um að hann höndli ekki pressuna sem fylgir því að vera aðalmarkvörður Liverpool eftir mistökin í úrslitaleik meistaradeildarinnar og skiptir þá engu máli hvort heilahristingur hafi verið orsökin. Hann mun verða undir smásjánni bæði hjá aðdáendum Liverpool og en ekki síst hjá fylgjendum annarra liða sem reyna að stressa hann við öll möguleg tækifæri. Ég held að Klopp og félagar geri sér vel grein fyrir þessu. Þessi draugur hverfur aldrei. Hann á í raun og veru ekki afturkvæmt . Því miður segi ég . Hans framtíð er í öðru félagi og í öðru landi. Liverpool verður að kaupa nýjan markmann.

  4. Ég var mjög ánægður með Karius eftir áramót og sá hann fyrir mér eigna sér þessa stöðu næstu árin þar til að REAL leiknum kom. Ég er algerlega á því að hann eigi ekki afturkvæmt eftir þann leik og ekki bara hjá Liverpool heldur á öllu ENGLANDI. Bara því miður fyrir greyjið drenginn. Hann verður algerlega undir smasja allra blaðamanna og aðdáenda allra annarra liða á Englandi og ég tel best að hann komi sér i aðra deild og byrja algerlega uppá nýtt. Ég get td ekki hugsað mér hann í rammanum td í leik á Old Trafford þegar það flýgur aftur og aftur í gegnum hausinn á honum shit hvað ef ég geri aftur svipuð mistök og gegn Real. Held því miður að hann nái sér ekki uppúr þessu. Góður markvörður en held því miður að hann verði að fara í aðra deild annaðhvort a láni eða seldur. .

    Vill helst heimsklassamarkmann sama hver það er og sama hvað það kostar en til vara mann sem allavega setur gríðarlega pressu á Karius um stöðuna og væri þá til í að skoða sem dæmi Butland eða Kasperinn hjá Leicester.

  5. Enn einn eðalpistillinn Babú. Takk fyrir þessa frábæru samantekt á álitamáli sem allir Liverpool stuðningsmenn (og aðrir minni spámenn) eru að ræða þessa dagana. Svona pistlar færa þá umræðu uppá hærra plan. Vel gert.

    Sér í lagi finnst mér áhugavert að sjá yfirburðastöðu Oblak í þessum samanburði. Kaupin á Van Dijk og Keita virðast sýna að Klopp sé í lykilstöðum að færa sig meira úr leikmönnum sem eiga tölfræðilega eitthvað inni yfir í leikmenn sem eru tölfræðilega tilbúnir ef svo má segja og hlýtur tölfræðin að beina honum að þeim aðilum sem hæst skora í markmannsstöðunni. Eftir því sem liðið spilar betur verður það enda meira aðlagandi kostur fyrir tölfræðilega tilbúna leikmenn og Klopp virðist vera að nýta sér það. Miðað við hraðann í uppbyggingu á Liverpool liðinu held ég því miður að þolinmæði fyrir því að byggja upp leik Karius sé ekki til staðar og við fáum inn nýjan markmann fyrir lok gluggans. Reynist það ekki mögulegt í þessum glugga treysti ég þó Klopp til að bæta frekar vankanta Karius með þeim varnarmönnum sem hann stillir upp fyrir framan hann.

  6. Frábær pistill.
    Styrkir mig í þeirri skoðun að Oblak er draumurinn.
    Finnst eitthvað harðara við hann en Allison.
    Sneggri,kemur úr grjóthörðum jarðvegi.
    Lætur enskan vetur ekki bíta á sig.

    Þó svo AM vörnin sé sterk þá þarf að verja það sem kemur.

    Karius verður undir ómennskri pressu ef hann verður aðal og það mun illa ganga upp. Því miður.

    Svo kláraðu þetta herr Klopp please.
    YNWA

  7. Það sást greinilega í fyrstu leikjum Kariusar fyrir Liverpool að hann er með brothætt sjálfstraust.

    Mistökin gegn Tranmere undirstrika að hann er engan veginn búinn að ná sér eftir úrslitaleikinn og viðbrögðin hafa verið ansi harkaleg.

    Ef Karius byrjar sem aðalmarkvörður liðisins í haust mun breska pressan nota hvert tækifæri til að kaffæra manninn, auk þess er þolinmæði flestra aðdáenda fyrir honum búin, eins og sást í æfingaleiknum gegn Bury.

    Best væri fyrir Karius að endurreisa feril sinn utan Englands.

  8. Nú er komið af stað slúður um að Liverpool séu búnir að bjóða í Cillesen hjá Barcelona.

  9. Samkvæmt ítölsku blaði eru Liverpool bunir að bjóða 61.8m punda í Alisson. 102.þús pund í vikulaun. https://thisisfutbol.com/2018/07/blogs/premier-league/liverpool-table-mega-alisson-bid/

    Eins og segir í greininni….. “Saying that Liverpool need a new senior goalkeeper is like stating France’s World Cup players will be elated. It is a statement of the bleeding obvious. Alisson is in an elite group of keepers in the world game who clubs are willing to pay top dollar for because he is capable of winning matches through brilliant saves and providing a rock-like presence behind the defence”.

    Einsog fleirum fannst mér Alisson ekki 100% sannfærandi á HM, sérstaklega í fyrirgjöfum. Kannski að Liverpool hafi gengið á línuna og Alisson hafi verið eini topp 10 markmaðurinn sem var möguleiki að kaupa. Ég yrði sáttur með þennan. Klopp getur bætt hann og látið mynda sterkan grunn með Van Dijk.

  10. EItthvað tal um Jasper Cillessen — en hann virðist of lágvaxinn og léttur til að vera markmaður í EPL — veit einhver eitthvað um hann sem skýrir út hvernig einhver sem er 185 cm og 83 kg á að vera heimsklassa markmaður sem spilar 40+ leiki í erfiðri deild? Með útréttar hendur nær hann ekki upp í höfuðhæð á VvD…

    Veit ekkert um markmenn nema að öll lið sem vinna stórmót og alvöru deildir þurfa ekki stöðugt að vera að tala um markmanninn. Við þurfum ekki ekki endilega topp 10 markmann. Bara einhvern sem þarf ekki að tala um og vinnur vinnuna þokkalega án stórkostlegra mistaka.

  11. Sæl öll/allir.

    Fltt grein en að öðru og ég veit að ég er ekki á rétum stað, en hvar finn ég Liverpool spjallið svo ég geti borið upp eftirfarandi spurningu: Af hverju Liverpool rásin virkar ekki á Vodafone! Einhver með skýringar?

    Kv. Ási

  12. Allison er fyrir framan Ederson markmann Man City í goggunarröðinni í brasilíska landsliðinu, þannig að bara kaupa hann í gær ef möguleiki. Stundum ganga leikmannakaup ekki upp frekar en önnur kaup. Ég keypti einhvern tímann HP tölvu rándýra, sama hvað maður reyndi þá var þetta glötuð tölva. Shit happens. Karius er ungur og verður ekki í vandræðum að finna sér félag. Það þarf ekkert að vorkenna honum neitt frekar.

  13. Cillesen er sá sem oftast er nefndur þessa dagana. Mér líst satt að segja ekkert á það. Þá myndi ég frekar vilja Karius og Ward. Ver aldrei víti og ekki þessa bolta sem klassa markmenn þurfa að taka – þessa sem eru extra. Vonandi er þetta bara slúður og ekkert á bak við þetta.

    Annars hefði ég viljað sjá Magga taka þennan pistil, Einar Matthías hefur ekki hundsvit á markmönnum 😉

  14. Kom mér á óvart í podcastinu að Ward er jafn gamall og Karíus. Giska á að Ward fái sjensinn með Karíus og ekki keyptur nýr markmaður fyrr en í Janúar ef það er þörf á því. Ef Ward er ekki nógu góður til að koma inn núna þá er alveg hægt að selja hann líka með Migs uppí nýjan markmann. Einhverra hluta vegna er ég ekki neitt stressaður og treysti Klopp algjörlega. En hvað veit ég? Ég er engin læknir.

    Langar samt að kaupa Donnarumma og að hann verði besti markmaður í heimi í áratug. Smá manager hugsun í þessum pælingum. Veit ekkert hvað hann getur.

  15. Takk fyrir fræbærann pistil enn og aftur Einar, Frábær samantekt sem styrkir mig enn og aftur í þeirri trú um að okkur vantar klassa markmann, einhvern sem er topp 5-7 í heiminum. Oblak er ekki falur, ekki De gea, ekki Loris, celski markvörðurinn er að fara til real, en hvað með þá annað hvort Schmeicel eða þann sem varði mark Real síðasta tímabil tímabil ???

  16. Takk fyrir flottan pistil!

    Ég myndi helst vilja Courtois. Hann var besti markmaðurinn á HM og Liverpool væru miklu sterkara lið með hann í rammanum. Ég held að ég myndi strax kaupa miða á síðasta leik tímabilsins ef við fáum hann í markið 🙂 Mér líst nokkuð vel á Cillessen; rólegur og öruggur markmaður.
    Síðan langar mig að nefna við Kariusarmenn að ég missti trú á honum við þetta skot á móti Roma en þetta er nákvæmlega eins og klúðrið á móti Real:
    https://youtu.be/4f8Mh9eJpv4

  17. Sæll Einar.
    Jú vissulega gera markmenn mistök. Það er bara hrikalegt að sjá þetta bæði á móti Roma í undanúrslitum og í Real-leiknum.
    Ég er alls ekki að rífa neitt niður bara til að vera með leiðindi ? ég bara sé önnur lið fá aukastig vegna markvörslu og langar innilega að við fáum einhvern sem getur gert það fyrir okkur.

  18. En að betur athuguðu máli finnst mér mjög eðlilegt að benda á mistökin hjá Karius í næsta leik á undan leiknum við Real. Það kemur random mistökum hjá einhverjum öðrum ekkert við.

  19. smá útúrdúr, Jose Fonte fyrrverandi leikmaður Southampton er á lausu 🙂

Xherdan Shaqiri til Liverpool (Staðfest)

Það VAR mikið