Real Madríd – Liverpool 1-0

Miðað við írafárið fyrir leik og mótherjann í dag liggur við að maður segi að Liverpool hafi unnið Real Madríd 1-0 fyrir Real!

Reyndar er mér alveg sama við hverja Liverpool er að spila ég þoli ekki að tapa og það á alveg við um leikinn í kvöld líka, ennþá verr fer það með mig að sjá Liverpool leggja upp sem eins mikið underdog og fyrir þennan leik. Að því sögðu er ekki hægt annað en að taka það jákvæða frá þessum leik þrátt fyrir að hann hafi tapast. Þessi frammistaða gæti vel nýst hópnum fyrir næstu vikur og á þessari frammistöðu er hægt að byggja. Það er allt opið ennþá í Meistaradeildinni hjá Liverpool og rúmlega það.

Klárum leikinn, Rodgers gerði miklar breytingar á liðinu fyrir leik og m.v. viðtal sem tekið var við hann rétt fyrir leik virtist hann alls ekkert líta á þetta lið sem eitthvað varalið og sagði að liðið sem vann Swansea á dögunum ætti mun frekar skilið að spila þennan leik heldur en liðið sem spilaði gegn Newcastle um helgina, erfitt að þræta fyrir það en margir í byrjunarliðinu í dag spiluðu leikinn gegn Swansea.

Svona var byrjunarliðið

Mignolet

Manquillo – Toure – Skrtel – Moreno

Can – Lucas – Allen

Markovic – Borini – Lallana

Eyði ekki mörgum orðum í þennan leik, Liverpool bakkaði mjög mikið og stillti upp mjög vinnusömu liði. Real Madríd var miklu sterkara en náðu lítið að ógna nema helst tvisvar og þá í kjölfar einstaklingsmistaka hjá Skrtel og svo Lucas sem sluppu báðir þökk sé Mignolet.

Marcelo hinn frábæri bakvörður Real Madríd komst upp vænginn á 26.mínútu og kom boltanum fyrir á Benzema sem potaði boltanum í nánast tómt markið. Gott mark hjá þessu rosalega liði en alveg grátlegt að sjá þetta fara inn eftir góða baráttu fram að því. Þarna óttaðist maður að þetta færi eins og á Anfield um daginn ef ekki verr.

Seinni hálfleikur var nokkuð svipaður þó okkar menn fóru að hætta sér aðeins framar þegar leið á leikinn. Eftir klukkutíma komu Gerrard og Sterling inná fyrir Markovic og Lucas. Undir lokin kom svo Coutinho inn fyrir Can.

Sóknarlega vantaði alltaf herslumuninn hjá Liverpool og næst viljum við sjá miklu sterkara Liverpool lið gegn Real Madríd og ekki svona máttlausan sóknarleik. Stóra atvikið kom um miðjan hálfleikinn þegar Borini fékk boltann inni í teig og steig Ramos út sem féll með tilþrifum og fékk aukaspyrnu meðan Borini fór í gegn og skoraði.

Bale kom inná fyrir Real þegar um 20.mínútur voru eftir er hann kom inná fyrir James Rodriguez. M.ö.o. James sem kostaði rúmlega 60m fór af velli fyrir Bale sem var töluvert mikið dýrari síðasta sumar. Bale komst næst því að bæta við forystu Real er hann skaut í þverslánna eftir sendingu frá Marcelo.

Hörku barátta og alls ekki þessi skellur sem við vorum að óttast fyrir leik, undir lokin var maður bara að vonast eftir jöfnunarmarkinu.

Frammistaða Liverpool í kvöld bar þess enganvegin merki að liðið hefði gefið þennan leik eins og eitthvað blásturshljóðfæri hélt fram háum rómi fyrir leik á Sportinu.

Reyndar eru spekingar ITV núna að tala um að Rodgers hafi klúðrað þessu og spá í hvað ef hann hefði notað sitt sterkasta lið í kvöld þar sem leikurinn tapaðist bara með einu marki. Þetta “aðallið” tapaði 3-0 á Anfield um daginn, eftir fyrri hálfleik. Stundum er ekki hægt að gera neitt rétt, sama hvað.

Eftir sem áður þá dugar Liverpool það að sigra Basel á heimavelli og Ludogorets í Búlgaríu til að komast í 16 liða úrslit. Ég hefði tekið því fyrir mót og ef liðið nær því ekki þá hefur það ekkert að gera í 16-liða úrslit. Þetta er bara svona einfalt.

Maður leiksins

Byrjum á “öfugum” enda núna. Fabio Borini var alls ekki í öfundsverðu hlutverki í dag, einn frammi gegn frábærum miðvörðum Real Madríd. Hann er enginn Suarez eða Sturridge sem við megum einfaldlega ekki við að vera án í báðum leikjunum gegn Real en Borini gerði vel og barðist eins og ljón allann leikinn. Segir töluvert að hann hafi klárað leikinn frekar en að Balotelli hafi fengið sénsinn í kvöld og þannig má það vera áfram. Þar fyrir utan má deila um það hvort hans mark hefði mátt standa.

Lallana og Allen voru nokkuð svipaðir, voru að vinna vel varnarlega og hlupu mikið en það var ekki mikið að frétta sóknarlega. Sérstaklega var Allen slappur í þeirri deild eins og hann hefur verið undanfarið en til að vera sanngjarn er erfitt að gagnrýna slíkt núna.

Markovic fannst mér vera að spila sinn besta leik fyrir Liverpool. Það segir svosem ekki mikið en hann var að hjálpa Manquillo og að reyna að sækja á varnarmenn Real, oftast einn gegn allt of mörgum. Þetta smellur hjá honum á endanum.

Lucas Leiva var góður í þessum leik og er líklega að spila sig inn í plön Rodgers aftur, honum vantar djúpan varnarsinnaðan miðjumann í vissa leiki og Lucas uppfyllir þau skilyrði. Hann var ekkert fullkominn en kom ágætlega frá þessu. Can við hliðina á honum er gríðarlega spennandi leikmaður og hann hættir einhverntíma að meiðast verður hann orðinn lykilmaður mjög fljótlega. Bernabeu var alls ekkert of stórt svið fyrir hann í kvöld og hann mjög flottur þar til hann var tekinn þreyttur af velli. Gætum átt algjört skrímsli þarna.

Moreno var mjög flottur í dag, sérstaklega sóknarlega þó vissulega hafi hann fengið þægilegra hlutverkið í dag m.v. Manquillo

Manquillo var að spila gegn Ronaldo og Marcelo í kvöld með Markovic í hálpinni, þaðan kom markið og besta færið. Þetta er líklega bara erfiðasta hlutverk sem þú færð í boltanum og Manquillo kom ágætlega frá þessum leik og það væri einföldun að kenna honum einum um þessi færi Real.

Skrtel gerði sín skyldu varnarmistök í þessum leik sem áttu að kosta mark en slapp með það í dag. Hann var þar fyrir utan góður. Kolo Toure við hliðina á honum var mjög góður þó hann hafi aðeins misst af Benzema í marki Real Madríd. Ef hann er í standi og fær frí á bílasölunni gæti hann alveg byrjað líka gegn Chelsea. Mikið betri en Lovren hefur spilað á þessu tímabili. Höfum þó í huga að Toure var með Can, Allen og Lucas til að verja sig, lúxus sem Lovren hefur ekki fengið.

Mann leiksins er síðan ekkert mál að velja, klárlega Simon Mignolet. Hann var að veja mjög vel nokkrum sinnum, greip ágætlega inní og/eða kýldi boltann frá þegar þess þurfti. Tók sig svo til og sólaði Ronaldo í seinni hálfleik. Spili Mignolet oftar svona hættir öll gagnrýni á hann fljótlega. Hann var reyndar í kvöld að spila kerfi sem hann þekkir líklega betur, svipað og Sunderland var að spila þegar hann var hjá þeim.

Niðurstaðan hálf svekkjandi tap en “varalið” Liverpool setti töluverða pressu á “aðalliðið”. Reyndar voru allir sem fóru úr liðinu leikmenn sem máttu alveg búast við því að detta úr liðinu, ef það að fá ekki að spila á Bernabeu var ekki spark í rassinn fyrir þá eiga þeir ekki mikla framtíð hjá Liverpool.

Glasið er hálffult í kvöld þrátt fyrir tap.

61 Comments

 1. Gat Toure gert betur í markinu? Ef ekki, þá á hann alveg skilið nafnbótina maður leiksins. Mignolet var líka að verja allt sem hægt var að ætlast til af honum, og hann sólaði Ronaldo!

 2. Ég ætla bara að vera lítið sem ekkert brjálaður. 1 – 0 er framar mínum björtustu vonum. Ég hefði jú viljað sjá Allen af velli og það snemma í seinni, henda Baló inn og sjá hvað myndi gerast.

 3. Menn geta ekki vælt yfir þessum úrslitum. Baráttan til fyrirmyndar. Gaman að sjá menn allavega leggja sig 100% fram í verkefnið. Þeir fá jú vel borgað fyrir að spila íþrótt sem þeir elska……. flestir.

 4. Fínn leikur, vissulega tap, vorum samt að spila vel og fengum einungis 1 mark á okkur gegn sterkasta sóknarliði veraldar. Ég missi alla trú á Brendan Rodgers ef konungsborinn Kolo Toure byrjar ekki næsta leik!

  Öllu gríni slepptu þá voru samt menn eins og Kolo Toure, Simon Mignolet, Joe Allen, Borini, Markovic, Lallana, Lucas og fleiri að leggja sig vel fram og flestir geta komið út úr þessum leik nokkuð sáttir.

  Næsti leikur og vonandi náum við smá ‘Consistancy’ og tökum framförum eins og í þessum leik.
  YNWA!

 5. Ef Rodgers ætlar að halda uppstillingunni með einn framherja, í guðanna bænum notaðu þá frekar Borini. Þvílík vinnsla í honum í dag. Borini og Kolo menn leiksins.

 6. Mignolet frábær, Kolo góður í vörninni, barátta í liðinu. Meðan að svo er þá er ekki hægt annað en að vera bjartsýnn með framhaldið þrátt fyrir tap í kvöld.

 7. Sæl og blessuð.

  Ekki var annað að sjá en að varaskeifurnar hafi slegið up Mighty Ducks sýningu fyrir okkur úrtölumenn. Sýndu á köflum hið bærilegasta spil og unnu marga nárimmuna við fótlipra Madridinga.

  Takturinn breyttist með innáskiptingum. Blessaður Serbinn okkar var mistækur en maður sér glitta í hæfileikana hjá stráknum, svona á köflum. Hver veit hvað hann mun gera þegar hann verður búinn að finna taktinn. Sterling gerði í raun sáralítið og hið sama má segja um Kútinjó. Þeir voru þurftafrekir á miðjunni en náðu litlu að breyta.

  Spurning hvort Balótellí hefði ekki einmitt verið sá rétti á réttum stað við hlið hins síhvika Bóríní.

  Mignolet var frábær í markinu og Konungurinn sjálfur Túre afbragð í vörninni.

  Takk fyrir mig – nú erum við komin úr botnleðjunni.

 8. óverðskuldaður sigur Real og Liverpool átti svo sannarlega skilið að ná einhverju út úr þessum leik……….enginn sagði!

  Úrslitin í Basel þýða það að við þurfum að vinna Basel og Ludo-eitthvað. Að öllum líkindum þurfum við að vinna Basel með tveimur mörkum því ég gef mér að Basel muni vinni Real í Sviss. Real er þegar búið að tryggja efsta sætið í riðlinum og mun senda b) eða c) liðið sitt til Sviss.

  Var að kynna mér reglurnar og þær eru þannig að ef lið eru jöfn að stigum þá gilda úrslit og eftir atvikum markatölur úr innbyrðis viðureignum umræddra liða. Þessi riðill er gríðarlega spennandi og svaka barátta framundan um þetta 2. sæti.

  Þessi markaþurrð hjá okkur er verulegt áhyggjuefni og það er nákvæmlega ekkert að gerast hjá okkur fram á við. Það var þó allavega barátta hjá okkar mönnum í kvöld, en það var bara ekki nóg því gæðamunur á þessum liðum er alveg svakalegur.

  Verð að viðurkenna að ég kvíði leiknum nk. laugardag.

 9. Vorum yfirspilaðir i dag af sennilega besta liði heims á þessum tímapunkti.
  Mignolet, þó svo að ég hafi ekki mikið álit á honum, klárlega maður leiksins og ég vona að þetta gefi honum meðbyr í næstu leiki.
  Ég er ekki frá því að Borini eigi að byrja gegn Chelsea, hann sýnir baráttu, vilja og er að gera ágætis hluti. Það er ekki eins og Balotelli sé búinn að sýna mikið hingað til.
  Verður fróðlegt að sjá hvernig Rodgers stillir upp á laugardag. Gæti trúað að hann setji Borini og Balotelli saman fram.

 10. Loksins sá maður baráttu!!!!!!!!!!! Er ekki varaliðið betra en aðal. Stolturaf mínum mönnum átti von á rassskellingu!!!!!!

  ÁFRAM LIVERPOOL!!!!!!!!!!!!!!!

 11. Markovic á vissulega margt eftir ólært (segi ég, sófasérfræðingurinn, sem kann þetta augljóslega mikið betur en hann). En þó ekki væri nema fyrir sprettinn sem hann átti upp völlinn, sem endaði á að…. James?…. braut á honum og fékk spjald, þá fannst mér hann koma nokkuð vel frá þessum leik.

 12. Fannst leikurinn vera lagður rétt upp. Mikið um varnarleik og vonast eftir því að við myndum nýta þau fáu færi sem við fengum. Sem var reyndar bara eitt en verr og miður þá geigaði Lallana á því.
  Leikurinn hresstist heilmikið með innkomu Gerrards, Sterling og Coutinhno en þó lítið um Alvör8 færi. Velti fyrir mér hvort það megi reyna á slíkt fyrirkomulag í vetur. Að hafa þrjá góða leikmenn á bekknum og ef leikurinn er enn í járnum eftir 60 minútur að senda þá alla inn á með stuttum millibilum. Allavega hefur Coutinho yfirleitt verið bestur í vetur þegar hann byrjar ekki að spila og svo var Marcovic með fína innkomu á móti City. Kannski sniðugra að byrja leiki varfærnislega- á meðan við erum ekki með Sturridge og framherjarnir virðast heillum horfnir þessa dagana.

  Eins og ég sé þetta þá er Liverpool framherjalaust þegar það er án Sturridge. Hann er algjör lykilmaður því öðrum framherjum okkar í gang með hraða sínum og sendingagetu.

 13. Við töpuðum, en samt líður mér ekki þannig. Á vellinum sá ég aggressívan fótbolta og góða samvinnu á milli leikmanna.

  Það sem við tökum út úr þessum leik

  Lucas Leiva og Emre Can voru að finna hvorn annan og voru með þvílíka yfirvegun og vinnslu gagnvart stjörnum Madrídinga. Moreno flottur allan leikinn rosalega aggressívur og sótti stöðugt fram. Kolo Toure er betri leikmaður í dag heldur en Lovren. Markovich sýndi loksins hvað það er sem Rodgers sá í honum – hann þarf bara aðeins að massa sig og þora alla leið. Lallana heldur áfram að skína.

  Gerrard kom inn á og bætti engu við.

  Sterling kom inn og var ágætur, vantaði einhvern hraðan leikmann með sér.

  Mignolet varði nokkra mjög erfiða bolta og sennilega besti leikurinn hans á leiktíðinni.

 14. Besti leikur Liv, í langann tíma, koma svo. Annað var það ekki.

 15. Ég er sáttur. Ánægjulegt að sjá vinnsluna og baráttuna. Mignolet, Kolo, Borini og mun fleiri öldungis prýðilegir. Munum að þetta svindl RM lið var að vinna sterkasta lið Barcelona 3-1 fyrir skömmu.

  Flott að BR hafi fengið að prófa 4231 með tveimur varnarmiðjumönnum. Það koma alveg pottþétt nýtilegar lexíur út úr þessu.

 16. Er komin einhver tímasetning á endurkomu hjá D Studge ?
  Það er klárt mál að ef við ætlum okkur áfram í þessum riðli þá þurfum við á honum að halda.

  Ég sá ekki þennan leik en gott að sjá að varaskeifurnar gerðu vel í kvöld.

 17. Guð blessi kolo toure maðurinn er alger KÓNGUR. Heimta að hafa hann í starter á móti chelskí guð blessi kolo minn

  HALELUJA!!!!!!!!

 18. Meira and%&#$ ruglið í Magga Gylfa fyrir leik áðan by the way. Nú man ég af hverju ég streymi jafnan leikjum.

  Við þetta má bæta er að þetta er í fyrsta skipti á tímabilinu sem RM skorar ekki tvö mörk eða fleiri á heimavelli (í deild og CL).

 19. Ég vona að Kolo haldi sæti sínu í liðinu ásamt Can. Fannst þeir vera menn leiksins okkar megin.

 20. Maggi Gylfa er fyrir löngu búinn að afsanna sig og hélt sig við efnið í kvöld…

 21. Áttum ekki mörg færi í dag og vorum í raun heppnir að tapa ekki stærra, þökk sé Mignolet og Toure sem voru bestu menn Liverpool í dag. Sýnir kannski best í hvernig liði Mignolet er bestur, liði sem verst vel og sækir hratt (Sunderland…) en kannski ekki markvörður sem heldur einbeitningu í 90 mínútur þegar lítið er að gera…

  Toure var klassanum framar en aðrir varnarmenn Liverpool í dag og á skilið að byrja gegn Chelsea á laugardaginn. Eins fannst mér Can og Lucas komast vel frá sínu og dugnaðurinn í Borini er aðdáunarverður en því miður lítil gæði sem fylgja.

  Þrír Evrópuleikir í röð sem Liverpool skorar ekki. Það vantar grimmdina og áhættusæknina í sóknarleiknum, taka frekar sénsinn á úrslitasendingunni frekar en að spila honum til baka eða til hlilðar, eins og því miður hefur verið raunin hjá okkar mönnum þetta tímabilið.

 22. Þennann leik var ég bara frekar sáttur við verð ég að seigja. Eftir að hafa lesið upp endalausa þvælu eftir Þessa svokölluðu sérfræðinga um hvað Ronaldo ætti eftir að skora mörg mörk, og eins hvílík vanvirðing við stuðningsmenn það væri að láta B-liðið spila. Bara upp yours.

  Einn besti leikur Mignolet sem ég hef séð í Liverpooltreyju.

  Það var helst að Allen kallgreyið hefði mátt fara út af, of margir feilar hjá stráknum.

  Frábært hvað Ronaldo komst einganveiginn á skrið, já og bara allmargir realguttar.

  Allt opið ennþá og vonandi fer Sturrigde að detta in svo það fari að koma einhver mörk.

  Y.N.W.A.

 23. Að mínu mati það allra mikilvægasta við þennan leik er höggið í punginn sem okkar helstu stjörnur fengu. Grunar að menn eins og Henderson fari núna að líta í spegil og hugsa sinn gang, ekki vill hann missa af öðrum svona rosalegum leik á næstunni…

  Annars virkilega ánægður með mína menn. Ekkert stress þótt að dýrasta fólk í heimi kæmu á fullu gasi í átt að þeim, heldur yfirvegaðar og flottar sendingar upp völlinn. Léttleikandi og huggulegir.

  Ég er allavega bjartsýnni uppá framtíðina eftir þennan leik heldur en eftir Newcastle gubbið.
  Sem betur fer 🙂

 24. Það er af sem áður var þegar menn eru bara helsáttir með að skora ekkert mark, eiga bara eitt skot á ramman og tapa. Á hvaða level er liðið og stuðningsmenn þess þá komnir?

  Þó ekki versti leikur liðsins á tímabílinu og alveg hægt að taka nokkra jákvæða punkta úr þessum leik; við áttum heilt yfir ágætis leik varnarlega og markmaðurinn stóð sig vel. Hinsvegar er sóknin ennþá gjörsamlega steingeld.

  Hefði viljað sjá Balotelli koma inn á í seinni hálfleik og spila 4-4-2 með Borini. Vonandi fáum við að sjá það á móti Chelsea á laugardaginn.

  Áfram Liverpool!

 25. Sammála mönnum með Magga Gylfa. Eins og ég sagði á twitter þá er einn maður á þessu skeri sem er óhæfari en hann til þess að fjalla um málefni Liverpool og það er Leifur Garðarsson.

  Það er aldrei gott að tapa, og er þessi leikur engin undantekning. Ég ætla ekki einu sinni að reyna að segja að ég sé ánægður eftir þennan leik, en miðað við hörmungina sem á undan er gengin þá voru nokkur atriði sem glöddu mig í kvöld.

  Lucas Leiva – Er núna búinn að eiga 3 mjög fína leiki í röð þegar hann spilar einn sem afturliggjandi miðjumaður (þ.e. án SG). Er alveg option að mínu mati, sérstaklega í þessari lægð.

  Can – Virkað svolítið hægur á mig í deildarleikjunum hingað til, enda ekki kominn í leikform eftir meiðslin. Fannst hann fínn í kvöld, vonandi eitthvað sem er hægt að byggja á.

  King Kolo Toure – Ha? Vantar leiðtoga í vörnina? Vantar mann til að bera upp boltann. Yolo Toure er þúsundþjalasmiður og getur tekið þetta allt að sér. En að öllu grínu slepptu þá var hann mjög góður í kvöld. Leit talsvert betur út gegn James, Ronaldo og Benzema en t.d. Lovren gerði gegn Austin og Zamora.

  Borini – Var flottur gegn Swansea og aftur fínn í kvöld. Ef við ætlum að spila með einn framherja þá er hann go-to-guy í fjarveru Sturridge að mínu mati. Ef Balo kemur aftur inn þá hlýtur það að vera við hlið Borini.

  Liðið hefði auðvitað átt að tapa stærra í kvöld. En þessir leikmenn lögðu sig fram, meira getur maður ekki farið fram á.

  Að mönnum hafi fundist skrítið eftir QPR, Hull og Newcastle leikina að einhverjir leikmenn myndu missa sæti sitt finnst mér einstaklega skrítið. Ekki það að hann sé boo-boy núna en átti t.a.m. Lovren skilið að spila gegn Real þegar hann var hoppandi upp úr tæklingum gegn Newcastle um helgina (til að meiðast ekki fyrir RM leikinn gef ég mér)?

  Þetta er ekki alltaf spurning um bestu leikmennina, heldur kannski bestu liðsheildina. Og framlag leikmanna í kvöld verður ekki gagnrýnt, hvað svo sem menn vilja segja um getu þeirra.

 26. Gerrard átti lítið erindi inn á. Miðjan var að skila sér vel og gaman hefði verið að fá Balotelli til að skerpa sóknarleikinn.

 27. Ég ætla ekki að pirra mig á þessu tapi í kvöld enda undir það búinn. Þetta var samt þriðji leikurinn í röð í CL þar ser sem við skorum ekki mark. Lið eins og Anderlecht gat farið á Emirates og skorað þrjú mörk. Tel meiri gæðamun á þeim liðum heldur en á Real og Liverpool nokkurn tímann.

 28. P.S. Ég hristi hausinn yfir þessu viðtali við Rodgers.

  http://fotbolti.net/news/04-11-2014/rodgers-vissi-alveg-hvad-eg-var-ad-gera

  Vorum við í alvörunni svona frábæri?. Vissulega jákvætt að láta ekki slátra séren þú ert aldrei frábær þegar þú skapar ekki einu sinni marktækifæri á 90 min. Ég hreinlega efast um að lið eins og Elche, Almeria, Rayo myndu horfa á það sem frábær úrslit að tapa á Bernabeu.

  Farinn að hafa áhyggjur af þessari minnimáttarkennd í Rodgers og leikmönnum liðsins.

  • #33

   Og ég hristi hausinn yfir óákveðni þinni með notendanafn þegar þú kommentar hér inn, Joe, Krummi, KrulliDem, Sargon, The Flying Dutchman, Scipio, Tactius Genium. Þetta eru bara nöfnin s.l. viku.

   Líka frábært komment þitt nr #32 og svo aftur kl 1 í nótt þegar þú gast ekki haldið aftur af þér.

   Þegar þú ert búinn að ákveða þig hvað þú vilt kalla þig þá er best að halda sig við það, sbr umræðan hér á síðunni fyrir rúmri viku.

 29. Borini er jú vissulega hlaupagarpur og leggur allt sitt til liðsins en stundum finnst mér eins og hann sé að hugsa “ef ég hleyp nógu andskoti mikið verða allir sáttir með mig” Mér finnst voðalega lítið koma úr honum, fer mjög oft mjög harkalega í leikmann eftir svakalegan sprett á hann og brýtur af sér. Joe Allen svipaður.

 30. Svo maður haldi áfram að tjá sig:

  * vissulega var liðið ekki að spila mesta sóknarbolta sem sést hefur. Það er svosem ekki óeðlilegt miðað við að vera að spila á móti Evrópumeisturunum á þeirra heimavelli. Alveg eðlilegt að leggja áherslu á vörnina, og bara kominn tími á að BR sýni að hann sé fær um það.

  * fullt af mönnum sem spiluðu vel og voru að leggja sig fram. Ég væri hreinlega til í sama byrjunarlið á móti Chelsea, nema hugsanlega að fá Henderson inn í staðinn fyrir Allen.

  * alltaf fúlt að tapa, en það var verið að tala um að þetta gæti endað 5-0, 7-0 og ég veit ekki hvað, plús það að þetta átti að vera varaliðið. Í lokin var reyndar ekki mikið um einhverja varamenn inni á fannst mér. Bara fullkomlega eðlilegt að nýta breiddina, og skipta mönnum út eftir lélegt gengi.

 31. Mignolet og Toure menn leiksins hvað LFC varðar bara virkilega flottir í kvöld.

  Emre Can þessi 20 strákur er að heilla mig greinilegt að þarna er hellingur af gæðum sem eiga eftir að þroskast.

  Vorum arfa slakir frammá við og Borini er baráttuhundur gæðin virðast ekki vera meiri enn baráttan og hann á ekki að vera byrjunarliðsmaður það er nokkuð ljóst.
  Stundum held ég að hann gæti verið (næsti) Kuyt hlaupamaskína sem berst og lokar svæðum?

  Fannst svona einsog Real væru á köflum værukærir og væru ekki að keyra 100% á okkur enda fannst mér þeir miklu grimmari þegar þeir komu á Anfield.

  Er ótrúlega hissa á þessu liði BR í kvöld þótt við séum að mæta Chelsea í næsta leik, þá sérstaklega þar sem Chelsea er að spila á morgun í meistaradeildinni og sá riðill er ennþá nokkuð opinn.

  Það er greinilegt að BR er að reyna að loka á lekann í vörninni og þá greinilega á kostnað sóknarinnar ekki komið mark frá okkur meistaradeild 3 leikinn í röð.
  BR þarf sp fara að finna jafnvægið í liðini fljótt annars fjara stóru keppninar frá okkur fljótlega.

 32. Leikskýrslan er komin inn.

  Er einhver búinn að róa Manchester Magga Gylfa niður eftir að Liverpool gaf þennan leik svipað mikið og United gaf þessa keppni upp á bátinn á síðasta tímabili?

 33. Það er í kortunum að Borini verður næsta hetja Liverpool. Það er búið að afskrifa hann alveg eins og var gert með Henderson, Skrtel o.fl. menn sem hafa sýnt að þeir eru tilbúnir að deyja fyrir klúbbinn. Þegar við náum réttri blöndu af slíkum baráttupésum við snillinga eins og Sterling, Coutinho, Sturridge og Gerrard þá erum við komnir aftur á beinu brautina.

 34. Varðandi Borini þá vona ég að menn dæmi hann ekki of mikið út frá þessum leik enda oftar en ekki aleinn gegn frábæru miðvarðapari Real Madríd. Var ánægður að sjá hann halda sig frammi og bjóða alltaf upp á valkost þar þó þetta hafi vissulega verið erfitt í kvöld.

  Eins verður hann einu sinni að fá nokkra leiki í liðinu til að komast í almennilegt leikform svo hægt sé að dæma hann alveg, hann hefur aldrei náð því hjá Liverpool. Hjá slöku liði Sunderland náði hann einmitt þessu í fyrra og var það góður að þeir buðu 14m í hann.

  14m fyrir Sunderland er enginn smávegis upphæð. Sá Borini sem við sáum þar fullan sjálfstrausti í topp leikformi er töluvert betri en við höfum fengið tækifæri til að sjá hjá Liverpool, hann á skilið að fá mínútur áfram meðan hann er að leggja sig fram eins og síðustu tveimur leikjum sínum. Hann þarf auðvitað að bæta mörkum við sinn leik en hann sýndi það í fyrra að hann veit a.m.k. hvar markið er.

 35. Babu #40,

  Jújú, hann gerði algjörlega sitt, að mínu mati. 2-3x munaði hársbreidd á að stungusendingar rötuðu á réttan stað, en Varane & co eru einfaldlega frábærir. Í eitt skiptið hefði Gerrard líklega náð að gefa betur tímasetta (og lausari) sendingu og forðast rangstöðuna og sweep frá Casillas.

  Fyrri tvær skiptingarnar flottar, en þriðja ögn meira dodgy. Ennfremur hefði mátt keyra fyrr og harðar á Ramos á gulu, m.a. þess vegna sem það hefði mátt vera enn djarfari í þriðju skiptinunni.

  Samt, þetta var bara nokkuð flott í samhengi hlutanna. Ekkert smá klikkað lið sem við vorum að spila við á útivelli!

 36. Ef ég tel þetta rétt, þá átti liðið eitt skot á markið í leiknum, og það var langt utan teigs.

  Liðið tapaði þessum leik fyrirfram – Rodgers var ALDREI að stilla upp liði til að sækja 3 óvænt stig.

  Liverpool hefur unnið að því í mörg ár að komast aftur í Meistaradeildina, og Rodgers ákveður að nýta tækifærið í þessum leik og “fórna” stigum í þessum leik. Sem gerir síðustu tvo leikina enn erfiðari fyrir vikið.

  Liðið tapaði 4-0 samanlagt í þessum leikjum gegn Real Madrid, og Madrid var alltaf líklegra til þess að bæta mörkum við heldur en Liverpool að skora.

  Og sumir eru bara sáttir við að leikmenn liðsins sýndu baráttu í þessum leik! Skárra væri það nú, ég býst ekki við neinu öðru af nokkrum leikmönnum liðsins.

  Rodgers eyddi rúmum 100 milljónum punda í leikmenn í sumar, því yfirlýst markmið var að geta keppt á fleiri vígstöðum. 10 leiki inn í tímabilið er liðið svo gott sem búið að stimpla sig úr allri mögulegri titilbaráttu, og verður að vinna tvo síðustu leikina í CL til þess að komast áfram. Sem verður vafalítið erfitt, þar sem sóknarleikur liðsins er algjörlega bitlaus.

  Nei, ég ætla bara að vera leiðinlegi fúli kallinn. Ég hef meiri metnað fyrir hönd míns liðs þegar það er loksins komið aftur í keppni þeirra bestu, að ég geti sætt mig við að þjálfarinn ákveði að liðið sé ekki nógu gott til að vinna Real Madrid.

  Homer

 37. Homer #42,

  Inni í “eyðslunni” eru tekjurnar af sölu á ca 70M punda manni sem var algjörlega 70 MP virði, svo nettóeyðslan er ekkert “alvöru” (um 36M pund). Leiða má líkum að því að félagið geti auðveldlega selt 1-3 jaðarmenn og bætt við í janúar til að ná í 1-2 alvöru leikmenn – eða 1 alvöru án þess að selja neina. Plús hópurinn var NÆFURÞUNNUR í fyrra + fleiri keppnir í ár. Mætti jafnvel bæta við fleiri plúsum hérna… 🙂

  Hins vegar átti auðvitað alltaf að kaupa alvöru mann (á góðum aldri, með proven record) fremst, sérstaklega m.t.t. meiðslasögu Sturridge. En að öðru leyti var þetta fullkomlega skiljanlegt – og að mínu mati nauðsynlegt.

 38. Tek að hluta undir með Homer og það leggst illa í mig að að Liverpool sýni öðrum liðum of mikla virðingu. Ég vill fá miklu meira bit frá okkar mönnum sóknarlega strax í næsta leik, gegn Chelsea.

  En fyrir þennan leik var ljóst að Liverpool þyrfti að leggja upp með það að geta varist, við sáum hvað þeir gerðu við okkar menn á Anfield. Reyndar hef ég aldrei séð Liverpool fara í svona útileik í Evrópu og ekki leggja upp með því að verjast. Hvað þá þegar liðið er án síns besta sóknarmanns.

  Þetta er gengi Real Madríd undanfarið http://www.statto.com/football/teams/real-madrid/2014-2015

  Liverpool var að næla í eitt sig gegn Hull og Newcastle.

  Rodgers var aldrei að gefa þennan leik neitt fyrirfram þrátt fyrir að hrista mikið upp í liðinu og eins og kom á daginn vorum við í séns alveg fram á lokamínútu.

 39. Sà à einhverjum miðlum menn enn með ” brandarann” það vantar allt bit í sóknina eftir að Suarez fór. Í alvöru! Þetta er þreyttara en eldgosið í Holuhrauni. En að leiknum. Èg er alls ekkert óànægður, við vorum að spila gegn besta liði heims um þessar mundir og nàðum að hvíla lykilmenn. Rodgers verður snillingur hjà Reykàsunum hèrna vinnum við Chelsea um helgina.

 40. Afsakið mig. Ætla aðeins að fá að pústa hérna. Vonandi hafa menn þolinmæði fyrir mér.

  Djöfullsins rusl er enska pressan, og reyndar sú íslenska að apa þetta kjaftæði eftir. Við töpuðum, það er rétt. En er það Rodgers að kenna að við töpuðum 0-1 á Bernabeu á móti (sennilega) besta liði í heimi? Þetta svokallaða “byrjunalið” eða “sterkasta lið” okkar tapaði fyrir Newcastle 0-1 um helgina, gerði 0-0 jafntefli gegn Hull helgina þar á undan og tapaði 0-3 á heimavelli gegn sama fokking liði og “varaliðið” tapaði 0-1 fyrir í gær á útivelli. Það á að taka svona lið sem skrifar svona vitleysu og bora gat á hausinn á því, taka heilann út og fá heilbrigðan mann til að skíta í gatið. Þá kannski kemur eitthvað gáfulegra. Hvílík endæmis vitleysa að halda því fram að okkar “sterkasta” lið sé eitthvað betra en þetta lið sem stillt var upp í gær.

  Gagnrýnin er, réttilega, á það að liðið átti varla atlögu að marki í gær. En það er vandamál sem tengist liðsuppstillingunni ekki rassgat heldur tengist það því að Rodgers stillir leik eftir leik upp liði með fjóra varnarmenn, þrjá miðjumenn sem eiga að liggja aftar á vellinum og svo þrjá leikmenn sem eiga að geta skorað (4-3-2-1). Þetta kerfi virkar ekki og hefur margsýnt sig að það virkar ekki með þann hóp sem við höfum. En það lið sem við sáum spila í gær spilaði þetta kerfi miklu miklu miklu betur en okkar “sterkasta” lið. 4-4-2 með tígulmiðju með Borini og Balotelli upp á topp og Sterling í holunni í næsta leik. Takk fyrir pent.

 41. Maður er auðvitað aldrei sáttur við tap, ekki einu sinni gegn besti fótboltaliði heims.

  En það sem maður má og verður að gleðjast yfir er batnandi spilamennska.
  Liðið hélt boltanum betur en þeir hafa gert í langan tíma, og “B” leikmennirnir sýndu þeim sem hafa átt auðvelt aðgengi í aðalliðið að þeir verði að bæta sig.

  Tökum Chelsea um helgina, staðfest.

 42. Skil alveg þessa umræðu í blöðunum.

  Mér finnst mjög vont að liðið mitt hafi farið á Bernabeu og ekki reynt að skora. Vissulega góð barátta en ég les ekkert annað um þennan leik en að menn geta varist ágætlega með því að hafa varnarlínuna mjög aftarlega og alveg oní markmanninum. Rétt úrslit í þessum leik hefðu alveg verið 4-0 ef Simon Mignolet hefði ekki verið frábær.

  Við erum ekki að fara að spila þessa leikaðferð í ensku deildinni nema hugsanlega úti gegn Chelsea því ekki gerðum við það gegn City.

  Bara segi enn og aftur að Rodgers er að læra á Meistaradeildina og gerir það vonandi. Ef hann var að kasta vatnsgusu með því að láta menn sem hafa verið lykilmenn hans ekki spila á stærsta útivelli Evrópu þá er alveg viðbúið að eitthvað af því vatni skvettist á hann sjálfan.

  Man hreinlega ekki eftir því hvenær við áttum síðast 1 skot að marki, það fyrir utan teig. Get ekki verið glaður með það. Afsakið það.

  Vona innilega að þetta verði til einhvers, því ekki leit þetta vel út á meðan á því stóð ef þið spyrjið mig.

 43. Þetta var nú ekki eins slæmt og margir höfðu spáð.

  Er algjörlega ósammála þeim sem segja að Rodgers hafi gefið skít í þessa keppni.

  Staðreyndin er þessi: Sterling, Coutinho, Henderson o.fl. hafa hreinlega ofmetnast síðan á síðustu leiktíð. Þ.e. þessir strákar halda að það sé í lagi að taka 5-6 snertingar á boltanum og nánast sleppa því trekk í trekk að hreyfa sig án hans. Þetta eiga vera hinir svokölluðu lykilmenn liðsins að SG frátöldum.

  Rodgers gerði því hárrrétt með því að bekkja þá. Nú verða þessir ágætu drengir sem skildir voru eftir á bekknum að hysja upp um sig brækurnar fyrir leikinn við Chelsea.

 44. Bara segi enn og aftur að Rodgers er að læra á Meistaradeildina og gerir það vonandi.

  Er ekki partur af því að fara á svona útivelli og verja stigið? Er það ekki eitthvað sem fjölmargir hafa verið að óska eftir frá honum? Persónulega finnst mér aldrei gaman að sjá Liverpool spila svona fótbolta en maður skilur þetta í vissum tilvikum. Loka sjoppunni á útivelli og klára þau svo á Anfield. Þetta gekk auðvitað ekki upp gegn Real Madríd og þar sem þetta er ennþá bara riðlakeppnin kemur það mögulega ekki að sök en gleymum ekki að þeir stjórar sem hafa náð hvað lengst í Evrópu með Liverpool hafa allir lagt upp með það að verjast á útivöllum viðlíka þeim sem við spiluðum á í gærkvöldi.

  Sýnist Rodgers vita ágætlega hvað hann er að gera.

  Það er annars ekki hægt að vinna í þessu. Gleymum ekki að Rafa Benitez ver ennþá gagnrýndur harðlega fyrir að “gefa deildina upp á bátinn” árið sem liðið VANN meistaradeildina, þrátt fyrir að það væri á þvílíku meiðslatímabili með Biscan, Baros, Traore og Riise í stórum hlutverkum. Núna leggur Rodgers upp í leik sem hann þarf strangt til tekið ekki að vinna til að komast áfram og ætlar að verja stigið. Hann er svo með annað augað á stórleik í deildinni um næstu helgi sem Liverpool má illa við að tapa.

  Liðið í gær gerði vel og þegar staðan var 1-0 og hálftími eftir henti hann Gerrard og Sterling inná og stuttu seinna Coutinho, það var til að reyna ná einhverju úr þeim leik.

 45. Nei, hættu nú. Á hverju er okkar frábæri framkvædastjóri?

  “But the Liverpool boss insisted: “I didn’t rest players for Saturday. I picked a team that I thought could get a result. The players that came in were excellent and we were unfortunate not to get a result.””

 46. Frikki… ég er sammála Rodgers. Hann valdi besta liðið, og það sást.

 47. Hvernig er það er langt í Flanagan? Ég held að hann sé akkúrat maðurinn sem þarf í þetta lið núna, gæji sem gefur sig allan fyrir málstaðinn. Hafa þá hann, Borini, Hendó og Gerrard alltaf þegar hægt er, menn sem virkilega vilja vinna!

  Annars fannst mér þetta flottur leikur, ég missti af byrjuninni, kveikti á leiknum þegar Liverpool tók miðju eftir markið. Real voru miklu betri út hálfleikinn en mér fannst Liverpool ekki mikið síðri en Real í seinni og með smá heppni hefðu þeir vel getað skorað eitt.. og gerðu það reyndar en það var dæmt af, mögulega réttur dómur en ég er ekki alveg viss um það. Lallana hefði líka mátt skora úr færinu sínu en hvað um það.

  Miðað við svona spilamennsku þá vinnum við Basel og Ludo en það má ekki slaka neitt á, þeir leikir bara verða að vinnast og ekkert múður.

  Svo hvað framtíðina varðar þá held ég hreinlega að það sem liðið vanti sé að Gerrard setjist aðeins oftar á bekkinn og við séum með almennilega mulningsvél aftast á miðjunni, mögulega getur Lucas keyrt sig upp í þann gír aftur og mögulega getur Can komið inn sem ein slík. Svo er hægt að setja Gerrard með Hendo/Allen inn á miðja miðjuna með Sterling/Coutinho á milli sóknar og miðju með Sturridge/Borini og Baló/Lambert frammi.

  Við erum með sterka leikmenn innan borðs, það er ekki vandamálið. Vandamálið er að það á eftir að stilla liðið saman og menn voru orðnir of góðu vanir í fyrra þegar við vorum með Suarez frammi sem græjar hlutina.

  Næst er bara að leggja Chelsea, ég er bjartsýnni með það en fyrir leikinn í gær.

  Áfram Liverpool!

 48. Sælir félagar

  Ég er sáttur við okkar menn eftir þennan leik.. Á þessu verður BR að byggja og hafa þá menn á vellinum sem vilja og nenna.

  Það er nú þannig

  YNWA

 49. Það var enginn leikmaður á varamannabekk Liverpool í gær sem hefur spilað þannig að hann hafi átt skilið að vera í byrjunarliðinu í gær. Það skiftir engu máli hvort við vorum að fara að spila gegn Real Madrid eða QPR þá var liðið í gær nánast sjálfvalið miðað við frammistöðu leikmann í síðustu 5 leikjum og það er það sem hlítur að skifta máli á leikdag. Tökum þetta mann á mann hjá Liverpool .

  Borini vs Balotelli
  Í síðustu 3 leikjum hefur Borini sínt að hann verðskuldar meira að byrja leiki heldur en Balotelli hefur gert í síðustu 15 leikjum. Borini átti alltaf að byrja í gær.

  Lallana vs Coutinho.
  Lallana er búinn að vera miklu öflugri en Coutinho á tímabilinu en Coutinho hefur verið að koma vel inn af bekknum. Rétt ákvörðun að byrja með Lallana.

  Sterling vs Markovic
  Við vitum öll að Sterling er betri leikmaður, en hann er einfaldlega búinn að vera slappur í síðustu leikjum. Hefði viljað sjá sterling byrja en efa að það hafi breytt einhverju enda hefur hann ekki sýnt það á þessu tímabili að hann sé einhver “match winner”.

  Henderson vs Can
  Can var einn af bestu mönnum Liverpool í gær og Henderson er ekki búinn að vera með sjálfum sér í síðustu leikjum. Held að Henderson hafi haft gott af hvíldinni og komi ferskur á móti Chelsea . Can hefur reynslu úr meistaradeildinni og sýndi í gær að getur alveg spilað reglulega á miðjunni hjá okkur. Ekkert óeðlilegt að Can hafi spilað

  Lucas vs Gerrard
  Það vöru flest allir sammála því og áttu von á því að Gerrard yrði hvíldur í þessum leik. Taktískt séð var það hárrétt ákvörðun og Lucas var góður í leiknum.Rétt ákvörðun!

  Toure vs Lovren
  Þarf ekki einusinni að ræða þetta. Ef þetta hjá Toure í gær kallast ekki að spila sig inn í byrjunarliðið, þá er það bara ekki hægt.

  Það er bara ekki hægt að færa rök fyrir því að Liverpool hafi mætt með varaliðið í gær þar sem allir sem mistu sætið sitt fyrir leikinn hafa einfaldlega verið með meðaleinkunn upp á 4 eða 5 í síðustu leikjum á undan. Rodgers getur ekki bara valið sterkustu nöfnin á blað og hundsað framistöðu þeirra í síðustu leikjum.

 50. Góðan daginn góða fólk.

  Eftir að hafa fylgst með síðunni í smá tíma ætla ég að skella mér í að commenta aðeins hérna inni í fyrsta skipti.

  Ég verð að segja það að ég bjóst við miklu verri útreið í gær en sú sem við fengjum. Þrátt fyrir það þá fannst mér að Real hefði getað gefið aðeins meira í með tilheyrandi árangri. Samt sem áður finnst mér að okkar menn hafi komist mjög vel frá þessari viðureign. Stórstjörnunar Ronaldo og James voru ekki mikið að láta á sér kræla í leiknum.

  Nokkrir leikmenn Liverpool fannst mér eiga sinn besta leik síðan þeir komu hingað og má þar nefna Marcovic og Toure. Sérstaklega fannst mér Toure koma flottur inn, var mjög öruggur miðað við það sem maður hefur séð af honum og stjórnaði vörninni vel. Marcovic átti nokkra fína spretti og var áræðinn sem er gott. Borini greyið vorkenndi maður aðeins en hann hljóp út um allt og fyrst þessi upptilling er við líði þá er gott að hafa hann þarna uppi á topp þar sem hann tekur þó hlaup innfyrir vörnina. Lucas fannst mér eiga stórleik og skil ég ekki af hverju hann er ekki notaður meira, mikið betri í þessa stöðu en Gerrard.

  Ekki var þó allt svo gott. Allen átti ekki góðan leik en varðist þó ágætlega. Sama má segja um Lallana.

  Eftir þennan leik er ég sammála mörgum sem segja að þarna eru menn sem gera kröfu um að era í liðinu um helgina. Ég verð fyrir miklum vonbrigðum ef rodgers hunsi frammistöðu þeirra í þessum leik og stilli upp óbreyttu liði frá Newcastle.

  Annars sá ég ekki leikinn gegn Newcastle (sem betur fer heyrist mér) en ég hef tröllatrú á að leiðin sé á uppleið hjá okkur.

 51. #57

  Sammála þér. Stóru nöfnin okkar sem margir vildu sjá byrja leikinn í gær eru bara ekki í standi. Og hvers vegna í ósköpunum menn eru að furða sig á því að þeim sé hent á bekkinn skil ég ekki.

  Síðustu daga hefur maður lesið lítið annað en að einmitt þeir leikmenn sem settir voru á bekkinn í gær (t.d Sterling, Balo, Lovren ) væru varla hæfir til að spila varaliðsleik, og menn hrópa á breytingar. En auðvitað þegar það er loksins gert fara menn að tala um metnaðarleysi og annað eins rugl.

  Frá mínum dyrum er það frekar metnaðarleysi að spila mönnum sem eru ekki í standi, og vonandi hefur þetta hrist upp í nógu mörgum í gær.

 52. Það er allann daginn rétt gameplan að fara á bernabeau til þess að verja stigið og mér finnst uppleggið með leikmenn mjög skiljanlegt hjá BR. Hann velur að hafa mikið af orkumiklum mönnum sbr. borini, allen, lallana, markovic, can, lucas. Ég hefði mögullega spilað coutinho og sterling en sá fyrrnefndi hefur verið gríðarlega óstöðugur og sá síðarnefndi hefur týnst illilega á kantinum síðustu leiki.

  Í mínum huga þarf BR ekki að verja liðsvalið sitt….síðustu leikir klúbbsins gera það sjálfkrafa og tek ekkert mark á pressunni eða sparkspekingum.

  Hitt er svo annað mál eins og leikurinn sýndi, við erum í vandræðum með að finna okkar sterkasta lið og helgast það m.a. af því þeir leikmenn sem keyptir voru í sumar eru ekkert endilega betri en þeir sem fyrir voru og því er magn>gæði strategían ennþá að refsa klúbbnum okkar kæra. Vissulega er mikið potential í nokkrum af þessum gæjum sem gætu gert þá að lykilleikmönnum síðar meir sbr. moreno, can, markovic. Persónuleg finnst mér flæðið í leik liðsins ekki nægjanlega gott þegar gerrard er djúpur og hef ég verið hrifinn af lucas í þeirri stöðu undanfarið en það breytir því ekki að vissulega hefur samt vantað mörkin í leik liðsins burtséð frá því hver uppstillingin er.

  Það vantar sárlega að lykilleikmenn stígi upp og sýni sig. Í dag finnst mér eins og við séum bara með stóran hóp af miðlungsleikmönnum en ég er viss um að það sé hægt að rífa nokkra aftur á hærra plan og fá þá betra balance í liðið. BR er ekki vanur að vinna með stóran hóp og ég held að það hafi verið tekið of stórt skref í sumar í stækkun hópsins, bæði var það ekki í samræmi við yfirlýsingar hans fyrir opnun glugggans sem og að einstakir leikmenn (balotelli) komu þrátt fyrir BR hafi þvertekið fyrir það. Vonandi finna menn rythmann en það er þjálfarans að ná því besta fram úr hópnum og hann hefur gert það vel fyrstu 2 árin sín hjá klúbbnum.

  Mér er alveg sama hvort sami hópur mætir chelsea á lau því spilamennska hinna hefur verið afleidd undanfarið, en hitt er svo annað mál að þar verður gerð krafa um meira en 1 markskot í leiknum 🙂

Liðið gegn Real Madríd

Könnun: Var rétt af Rodgers að breyta liðinu?