Er Gabriel Heinze svarið?

Er þetta næsti vinstri bakvörður Liverpool FC?

Ein af skrýtnari slúðursögum sumarsins virðist, óskiljanlega, hafa einhver sannleikskorn. Æ fleiri fréttir frá Bretlandseyjum eru að segja frá því að Rafael Benítez ætli að gera u.þ.b. 6m punda tilboð í argentínska varnarmanninn Gabriel Heinze. Vandamálið er hins vegar öllum augljóst: Heinze er leikmaður Manchester United. Engu að síður segja t.d. The Times frá því að Rafa hafi fengið jákvæð viðbrögð frá fulltrúum leikmannsins og ætli því að reyna að semja við Sir Alex Ferguson og United-menn um kaupverðið á Heinze, 28, sem á skv. fréttinni að vera hugsaður sem maðurinn til að leysa vinstri bakvarðarstöðuna í liðinu.

Ég veit varla hvað í ósköpunum ég á að segja við þessum fréttum. Það er svo margt hægt að segja. Fyrir það fyrsta, ef við ræðum getu leikmannsins, held ég að hann eigi möguleika á að verða aðalliðsmaður hjá okkur en það er samt hæpið. Við höfum séð nóg til hans hjá United sl. þrjú ár til að vita hvað hann býður uppá, og á þeim aldri sem hann er (28 ára) er hann varla að fara að bæta sig mikið. Þetta er harður leikmaður, mikill tæklari og baráttuhundur sem hefur munninn fyrir neðan nefið og hefur getið sér góðs orðs með argentínska landsliðinu, sem skartar einni hörðustu og bestu vörn í heimi með Heinze í einu af aðalhlutverkum.

Hins vegar lenti Heinze í mjög slæmum meiðslum fyrir einu og hálfu ári síðan eða svo, að mig minnir, og hann var lengi að ná sér eftir þau. Hann byrjaði að spila aftur sl. vetur og fékk mörg tækifæri með United en náði sér aldrei almennilega á strik, var ekki sami leikmaður og fyrir meiðslin, og hin dapra endurkoma hans var eiginlega fullkomnuð gegn AC Milan á San Siro í undanúrslitum Meistaradeildarinnar, þegar Kaka og Massimo Oddo rifu á hann nýtt rassgat í regnvotum fyrri hálfleik. Eftir þann leik má segja að örlög hans hjá United hafi verið ráðin.

Spurningin er, er það of mikil áhætta að gambla á mann sem hefur vart verið nema skugginn af sjálfum sér eftir erfið meiðsli? Er hann of gamall fyrir 6m punda tilboð? Vilja United-menn yfirhöfuð selja hann til erkifjendanna? Og mun hann ekki eiga of erfitt uppdráttar frá byrjun hjá Liverpool, þar sem hann yrði væntanlega með óvinsælustu nýju leikmönnum sem nokkurn tímann hafa komið til félagsins?

Ef Rafa getur keypt Heinze frá United og látið hann slá í gegn í liði sem vinnur deildina skal ég glaður éta hattinn minn (hef gert það áður með Peter Crouch), en ég sé varla að þetta dæmi geti gengið upp, því þó svo að Heinze sé ekki slæmur leikmaður er svo margt á móti honum í þessu dæmi. Hvað þá að United vilji selja. En við sjáum hvað setur, þetta yrði allavega með áhugaverðari félagaskiptum í mörg ár ef af þessu yrði.

Að lokum langar mig bara til að votta Eduardo Da Silva samúð mína. Hugsið ykkur að vera keyptur til ensks stórliðs og fá það verkefni að fylla skarð Thierry Henry. Hann gæti skorað 20 mörk á fyrsta tímabili sínu í deildinni og samt valdið vonbrigðum. Þvílík pressa … 🙂

15 Comments

  1. Mig persónulega langar ekkert í einhverja afganga frá rauðu andskotunum, 29 ára gamall, er mjög vinsæll á old trafford, lélegur á seinasta tímabili, ég segi að við ættum að sleppa því að spá í vinstri kantinum, leifa riise og fabio að sjá um hann og einbeita okkur að báðum köntunum, því vörnin er búin að vera ein besta í deildinni síðustu tímabil, ég er mjög mikið á móti því að fá heinze, ég held að ég væri frekar til í að sjá traore í bakverðinum, annar er klárlega betri, en hinn er ekki man u maður…..?

  2. Stórefa að maðurinn kosti meira en 2-3 millur (vissulega úr lausu lofti gripið) en miðað við að hann er að koma af sínu slakasta tímabili, búinn að lenda í erfiðum meiðslum og virðist ekki eiga uppá pallborðið lengur hjá Man U þar sem Evra outclassaði hann allt síðasta tímabil þá getur ekki verið hár verðmiði á honum.

    Hinsvegar þá gefur hann okkur pottþétt gæði þar sem hann er betri varnarmaður en bæði Riise og Aurelío (sá reyndar ekki þennan nýja argentínumann sem var fenginn og fékk smjörþefinn undir lokin á nýliðinni leiktíð). Heinze var þar síðasta tímabil að spila fantagóðan bolta og öfundaði maður Man U að hafa nælt sér í jafn góðan all-round bakvörð. Riise er að mínu mati einstaklega takmarkaður leikmaður sem þó er vert að halda í þar sem fáir álitlegir vinstri bakverðir virðast á lausu (nema fyrir einhverjar svimandi fjárhæðir). Aurélio hinsvegar átti ekki mikilli lukku að fagna síðasta tímabil þar sem hann komst aldrei á flug. Hann hinsvegar átti góða innkomu í eitt skipti gegn Arsenal þar sem hann sýndi ljósglætur af þeim meðmælum sem Benitez baðaði hann þegar hann fékk hann til liðsins – virkar brothættur og ekki er enska deildin beint rétta deildin fyrir þessa hnjaskgjörnu. Heinze hinsvegar þrífst á návígjum og því sem Enski Boltinn býður uppá svo það er eitthvað.

    Ég væri því vel tilbúinn að skoða þann möguleika að fá Heinze til liðsins þótt hann sé og hafi verið framúrstefnulega leiðinlegur einstaklingur hjá Man Utd. En til að upgreida þessa stöðu þá er ég alveg tilbúinn að fara drastískar leiðir eins og taka sénsinn á Man Utd manni – eins erfitt og mér finnst að viðurkenna það. Ef hann getur komið með sigurhugarfar með sér frá grönnum/höfuðandstæðingum og jafnvel enduruppgötvað sinn fyrri leik í okkar herbúðum þá er ég tilbúinn að fá hann en undirstrika, yfirstrika að ekki væri ég tilbúinn að sjá okkur borga meira en 2-4 millur.

  3. Eduardo er ekki keyptur til að fylla skarð Thierry Henry. Þótt að Samuel Eto’o yrði keyptur þá myndi hann ekki fylla skarð Thierry Henry. Ekki frekar en að það er ekki til leikmaður í heiminum sem gæti fyllt skarð Steven Gerrard hjá Liverpool.

  4. Rétt að hafa í huga að Heinze getur spilað miðvörð sem og vinstri bakvörð og mundi gefa okkur töluvert meiri breidd í vörnina.

    Líst vel á að fá hann en vill alls ekki borga meira en 6 m punda fyrir þetta gamlan mann.

  5. Eitt mjög svo skemmtilegt slúður (sem þyrfti helst að taka með saltverksmiðju) Benitez er víst tilbúinn til að gera allt til þess að fá Messi til Liverpool. Þá jafnvel skipta Pepe Reina upp í kaupverðið sem Barca metur sem 35 milljón punda.

    Þess má geta að þetta er slúður sem eins og alltaf einhver kom með sem segist vera með góðar heimildir fyrir þessu (er það ekki alltaf þannig).

    “Bentiez has enquired about Messi and Barcelona want 35 million upfront, however they are interested in Pepe Reina.

    Rafa is willing to let him go so he is set to off 25 plus Reina to start off with.

    Messi has been scouted for some time by Benitez’s men, and he has done a good job keeping it away from the press.”

    (ATH tekið af spjallborði)

  6. er ekki málið að Heinze getur keypt upp samninginn sinn skv. nýlegum reglum og þess vegna getur Man Utd lítið gert til að stoppa það að hann fari til Liverpool ?

    29 ára er enginn aldur á varnarmanni í dag, tjekkaðu bara á aldrinum á öftustu línu ríkjandi Evrópumeistara því til staðfestingar

    Ásgeir bendir réttilega á að Heinze er fjölhæfur sem er mikilvægt, enda er Hyypia eina almennilega coverið fyrir CarrAgger í hjarta varnarinnar. En Hyypia verður 34 ára nú í október.

  7. Ef hann er Argentínskur þá sniffar Rafa af honum. Heinze er mikill baráttujaxl og klárlega á heima í LFC liðinu og löngu kominn tími til að fá smá samkeppni í vinstri bakvörðinn og fá eitthvað annað en puntdúkku sem naglalakkar sig í þá stöðu.
    Klára svo torres dæmið!

  8. Eitt samt fyndið við þetta, það hefur varla neinn séð neitt til Torres…. menn að missa sig hérna og segjast elska hann, hafa séð hálfan leik með kallinum 🙂
    En hann er samt örugglega alveg frábær leikmaður.

  9. Held nú að menn hafi horft ansi mikið á HM seinasta sumar og þá spilaði hann bæði mikið og vel, svo fer þeim nú alltaf fjölgandi sem horfa á Spænska boltann, þó svo ég hafi ekki gert mikið af því.

  10. Fyrst Rafa má kaupa Tuma Tígur(Torres) á tæpar 30 kúlur, er hann þá ekki á leiðinni að kaupa Heinze, Teves og Messi líka? Einhverjir fleiri Argentínumenn á lausu? Sí Sí sinor Benitez… einn aðeins að missa sig hérna 😉

  11. Ég skil ekki þau rök að það megi ekki kaupa Heinze af því að hann spilaði með Man.Utd í 2-3 ár og var meiddur góðan part af þeim tíma.
    Það er bara stupid og “in the box hugsun”.

    Ef Rafa vill fá hann í Liverpool þá treysti ég honum fullkomlega til þess að taka stöðuna sem aðal-vinstri bakvörður. Hann er klárlega betri en þeir sem eru þar núna.

  12. Er sammála því að það kemur málinu ekkert við hvar hann var að spila áður. Það er hvernig hann stendur sig með lfc sem skiptir máli. Heinze er nagli sem manu menn héldu mikið uppá. Átti rysjótt síðasta tímabil og er að koma úr meiðslum sem er viss áhætta. En hann er á margan hátt betri vinstri bak heldur en þeir sem eru þar fyir og er þá ekki réttlátanlegt að bæta honum í safnið.

  13. Væri ekki bara fínt að fá Gabriel Milito, Esteban Cambiasso og Diego Milito líka. Að sjálfsögðu ásamt Tevez, Messi, Mascherano og Heinze.

  14. Þó það sé fínt að fá samkeppni í vinstri bakkarann þá er ég ekkert voðalega spenntur að fá Heinze. Man.Utd tengist því máli ekki neitt, finnst við bara ekki vera að fá neinn mun betri leikmann í þessa stöðu heldur en þeir sem fyrir eru. Fáum samt líklega ekkert betri mann fyrir 4 mills (ef það yrði verðið) en Heinze.

García farinn til Atletico, Torres staddur í Madrid

Torres stenst læknisskoðun