DAGBÓK: Úrslitaleikur Meistaradeildarinnar!

Þetta er dagbók úrslitadags Meistaradeildar Evrópu, maí 2007. Við á Liverpool blogginu munum uppfæra þessa færslu reglulega í allan dag er við teljum saman niður að stórleik kvöldsins, viðureign AC Milan og Liverpool um bikarinn hér til hliðar. Hver uppfærsla verður tímasett og nýjasta uppfærslan kemur ávallt efst í færsluna. Hefjum leikinn:


Kristján 19:39: Jæja, hálfleikur og 1-0 fyrir AC Milan. Okkar menn hafa verið með talsverða yfirburði á vellinum í fyrri hálfleik, pressað Milan-liðið hátt uppi á velli og skapað sér fleiri færi og fleiri sóknir. Hins vegar þarf að nýta þessa yfirburði og það gerðu menn ekki, og svo skaut Pirlo í Inzaghi úr aukaspyrnu undir lok hálfleiksins og kom þeim yfir. Það eru mörkin sem telja, ekki færin, og ég býst við að Rafa segi mönnum að halda áfram að pressa og drullast til að hitta einhverjum boltum á markið hjá Dida í seinni hálfleik. Þetta verður erfitt, en við höfum séð það verra. C’ést la vie – áfram með seinni hálfleikinn!


Kristján Atli 18:10: Liðin komin og mér líst vel á þetta. Það góða fyrir Rafa er að hann hefur getað undirbúið sig fyrir Milan-liðið í fullri vissu því það vissu allir hvernig þeir myndu spila. Gerrard verður frjáls og hjálpar Alonso og Mascherano að ná tökum á miðjunni, auk þess sem Zenden og Kuyt eru vinnuhestar. Þá er hann með svona ‘flair player’ á hægri kantinum og það verður að segjast að Jermain Pennant hefur unnið sér það inn í vetur að vera á kantinum. Mér líst vel á þetta og bekkinn líka, þar hefur kallinn valkosti bæði sóknar- og varnarlega ef með þarf. Það eina dapra er að sjálfsögðu það að Robbie Fowler skuli ekki komast á bekkinn, en Rafa getur ekki valið eftir tilfinningum í dag heldur verður höfuðið að ráða. Læt þetta nægja frá mér fyrir leik, við kommentum svo kannski á stöðuna í hálfleik. ÁFRAM LIVERPOOL!


Einar Örn 18:07: Bekkur Liverpool: Dudek, Hyypia, Kewell, Gonzalez, Arbeloa, Crouch, Bellamy. Semsagt, enginn Fowler!!!


Einar Örn 18:00: STAÐFEST byrjunarlið AC Milan.

Dida

Oddo – Nesta – Maldini – Jankulovski

Gattuso – Pirlo – Ambrosini
Seedorf – Kaká
Inzaghi

Nákvæmlega einsog við spáðum í gær!


Einar Örn 17:58: STAÐFEST byrjunarlið!

Reina

Finnan – Carragher – Agger – Riise

Pennant – Alonso – Mascherano – Zenden
Gerrard
Kuyt

Semsagt Kuyt einn frammi og Zenden á kantinum! Nákvæmlega eins lið og ég spáði í gær, nema að Zenden er á kantinum


Einar Örn 17:47: Jæja, ég er kominn í búninginn, sem ég var í á Ataturk fyrir tveimur árum.

Þannig að það er ekki hægt að kenna mér um ef við töpum. 🙂


Hjalti 17:31: Jæja, rúmur klukkutími og best að koma sér í stellingar. Hef lokið keppni á síðunni í bili, þar til í kvöld, og lýk þessu með minni spá. Það er ekki auðvelt að spá (auðvelda leiðin út væri að beita reverse psychology og segja 2-0 fyrir Milan) en ég spái þessu 1-0 okkur í vil. Crouchy skorar. Ég segi YNWA og þangað til næst…


Kristján 17:19: Svona rétt áður en við vindum okkur í byrjunarliðin og leikinn sjálfan langar mig að minnast á eitt. Mér finnst einfaldlega ótrúlegt að horfa upp á hversu mikið og illa Milan-liðið hefur talað um Liverpool í aðdragandanum að þessum leik. Ancelotti, margir leikmenn og hreinlega vallarstarfsmaðurinn á San Siro líka, allir hafa þeir keppst við að segja heiminum hvað Liverpool spilar leiðinlegan, varnarsinnaðan og einhæfan fótbolta. Hafa þessir menn ekkert lært af reynslunni? Maður hefði haldið að þeir myndu þegja og láta verkin tala í þetta sinn. Reyndar, þá minna ummæli Milan-manna mig á annað gott sóknarlið sem spilaði í úrslitum fyrir rúmum áratug. Þá var það draumalið Barcelona, með Johan Cruyff í þjálfarstólnum og menn eins og Romario og Stoichkov innanborðs, sem talaði og talaði og talaði um það hvað sóknarbolti þeirra yrði of stór biti fyrir hið leiðinlega, þaulskipulagða varnar- og miðjulið Fabio Capello hjá AC Milan. Hvernig fór sá leikur aftur? Milan-menn, talið eins mikið og þið viljið. Okkar menn svara því inná vellinum á eftir.


Hjalti 16:52: Ég er nú enn staddur í vinnunni og er svona… temmilega stressaður. Þar sem vinnan mín snýst að nokkrum hluta um að vera vakandi á netinu þá er ég búinn að lesa yfir mig af fréttum frá Aþenu. Er á leiðinni í Hafnarfjörðinn í grill hjá vini mínum.


Kristján Atli 16:45: Jæja, þá er ég kominn heim til foreldra minna í happasætið. Hér verður setið á eftir ásamt tveimur bræðrum, pabba gamla og einhverjum fleirum jafnvel. Ég hef þá allavega áfallahjálpina innan handar ef illa fer. 😉 En mér líður aðeins betur núna … var að fara yfirum heima hjá mér áðan svo að ég dreif mig bara yfir. Er sem stendur með kveikt á Sýn þar sem endursýning leiksins fyrir tveimur árum er í fullum gangi. Framlengingin var að hefjast, hvernig skyldi þetta fara? 🙂


Einar Örn 16:09: Ég er með kveikt á Sky Sports heima. Þar var núna viðtal við Liverpool aðdáanda, sem átti miða á leikinn en var fastur í Liverpool þar sem fluginu frá Liverpool til Aþenu var aflýst. Konan hans er hins vegar á leiðinni á leikinn í Aþenu. Þvílíkt svekkelsi!


Einar Örn 16:02: Svo það sé á hreinu, þá er leikurinn í opinni dagskrá á Sýn. Það eru tilmæli frá UEFA að þessi leikur sé í opinni dagskrá.


Einar Örn 15:55: Í þessari grein í Guardian er því haldið fram að Gerrard muni spila sem fimmti miðjumaður fyrir aftan Dirk Kuyt. Ef svo er verður að teljast líklegt að Pennant, Mascherano, Alonso og Zenden spili á miðjunni, með Gerrard fyrir framan og Kuyt einn frammi. Samt veit ég svo sem ekki hversu mikið er til í þessu.


Einar Örn 15:27: Jæja, ég er kominn heim eftir að hafa farið fýluferð á Players. Ég mætti þarna FYRIR KLUKKAN TVÖ og samt voru öll sæti upptekinn. Beisiklí virtist það vera þannig að hver og einn taki frá svona 10 sæti. Þannig að á einu stóru borði sat einn gaur með laptop og tók frá allt borðið. Ég skil það alveg að menn taki frá 1-2 sæti fyrir vini, en það að allur staðurinn sé frátekinn af nokkrum einstaklingum 5 tímum fyrir leik er bara fáránlegt. Er því búinn að bjóða vinum heim til mín.


Kristján 15:01: ANNAÐ SÍMTAL FRÁ AÞENU! Haldiði að okkar maður, SSteinn hafi ekki hringt í mig um leið og ég kláraði síðustu uppfærslu? Hann er staddur á einhverju torgi í miðbæ Aþenu þar sem menn syngja, dansa og tralla og hafa gert síðan eldsnemma í morgun. Hann sagði mér að setja eftirfarandi yfirlýsingu á síðuna: “Þetta er klikkað! Rauða hafið frá Istanbúl er mætt til Aþenu. Þetta er bara Istanbúl all over again!” Þannig að það er greinilegt að stemningin hjá Liverpool-aðdáendum er mikil. Steini, skemmtu þér vel og við vonum að þú og félagi minn Jónki fáið góðan leik fyrir ómakið!


Kristján 14:55: SÍMTAL FRÁ AÞENU! Ég er búinn að reyna að ná í SStein en síminn hans virðist vera slökktur. Hins vegar náði ég í Jónka vin minn, fertugan Grindvíking sem borgaði næstum því hálfa miljón fyrir fjórar nætur í Aþenu og miða á leikinn. Klikkhaus. Allavega, hann talaði um að Bretarnir væru klikkaðir, búnir að vera að spila fótbolta með bjórdósir niðrí bæ og syngja hástöfum í allan dag. Hann sagðist ekki hafa séð mikið af Milan-aðdáendum og segir að fréttirnar í Grikklandi segi að það verði 25-35 þúsund Púllarar á vellinum í kvöld, og 40 þúsund þar fyrir utan miðalausir. Hann var nýkominn inn í Ólympíuþorpið umhverfis völlinn, fjórir tímar í leik og hann sagði að þetta væri vel skipulagt svæði hjá Grikkjunum þar sem menn geta borðað, slakað aðeins á og skemmt sér alveg fram að leik. Skemmtu þér vel Jónki!


Hjalti 14:42: Já ég veit hreinlega ekki hvað ég á að gera eftir þessi tíðindi frá Einari… Hann hringdi í mig líka og ég veit ekki nema ég reyni Ölver? Líklega sama staða þar. Ég á heimboð í Vesturbæinn reyndar en það er ljóst að ég nenni alls ekki að vera heima hjá mér…


Kristján 14:24: Ja hérna! Einar Örn var að hringja í mig á leið í burtu frá Players. Hann mætti þar kl. 14 til að taka frá sæti fyrir sig og 2-3 vini … og það er allt fullt! Þannig að þið ykkar sem eruð að spá í að kíkja þangað síðar, ekki reyna það einu sinni. Það er greinilegt að menn eru grimmir í sætisbaráttunni bæði hér og í Aþenu, þar sem einhverjir 40 þúsund Púllarar eru víst staddir og þar af er áætlað að “aðeins” 25 þúsund séu með miða á leikinn.


Kristján 14:10: Gennaro Gattuso segist ekki ætla að hefna sín á Gerrard fyrir ummælin um hann í ævisögu þess síðarnefnda. Við sjáum til með það, ég verð persónulega fyrir vonbrigðum ef Gattuso er ekki í fantaformi og grimmari en nokkru sinni fyrr í kvöld. Ég get ekki að því gert, þetta er frábær leikmaður sem ég hef alltaf fílað. Hann var stórkostlegur gegn Man Utd á San Siro, vonandi ná okkar menn að leysa “vandamálið” Gattuso í kvöld. Shjitt hvað ég er að verða stressaður!


Kristján 13:42: Við þökkum Agga kærlega fyrir að sýna okkur ógnvænlega hæfni hans til að telja frá 13 og upp í 18. Aggi minn, það eru fimm klukkutímar í leik. 😉 Annars, þá bloggaði ég um sturtuferðir mínar fyrir tveimur árum og fer ekki að breyta því núna, enda var það klárlega ástæðan fyrir sigrinum í Istanbúl: sturtan var góð, ég er glaðvaknaður en það setti þó svartan blett á upplifunina þegar ég asnaðist til að slökkva fyrst á kalda vatninu … og komst svo ekki að hinum ventlinum fyrir sjóðheitri bununni sem skall á höndinni á mér. Svona geta jafnvel einföldustu hlutir verið flóknir. En hvað segiði, er einhver fótboltaleikur í dag?!?


Aggi 13:29: Núna þarf ég að bregða mér frá tölvunni í einhvern tíma. Mun taka einn rúnt á eftir á netinu og síðan tryggja mér sæti á líklegast Pubbnum hans Agger í Hvidovre hehehe! uuuuussssssss rúmlega 6 klst í leikinn…..


Hjalti 13:14: Rafa segir að hann verði sallarólegur þrátt fyrir að þetta fari í vító í kvöld. Ég minni á hressandi myndaseríu af sjálfum mér frá því í vítaspyrnukeppninni gegn Chelsea, það er hætt við því að ég verði ekki sitjandi án þess að sýna svipbrigði eins og Spánverjinn.


Aggi 12:24: Munum við spila 4-5-1 eða 4-4-2? Skv. BBC Sport þá er Zenden spilklár og mun væntanlega byrja á vinstri kantinum. Sissoko er tæpur en myndi hvort eð er ekki byrja inná. Þeir telja að við byrjum í 4-5-1 með Kuyt eina uppá topp og Pennant á hægri kantinum. Ég veit ekki hvort er betra sjálfur en klárt mál að við þurfum að hafa góðar gætur á Seedorf og Kaka!


Hjalti 12:04: Stóra spurningin er sú hvenær maður fær að fara úr vinnunni. Ég vona ekki seinna en hálf fimm… Verður væntanlega stappað á Players frá 14? Annars er ekki laust við að spennan sé farin að magnast, enda ekki sjö tímar í leik…


Aggi 11:26: Mun Gerrard vera á miðjunni? Verður Alonso með honum eða Mascherano? Tommy Smith telur líklegast að Gerrard verði á miðjunni og þá með öðrum hvorum, Contrasts hold the key to win Ég vil sjá Alonso frekar inná miðjunni því ég tel að liðið spili einfaldlega betur þegar hann stjórna miðjunni okkar!


Hjalti 10:46: Jæja, færslan mín datt út áðan eeeeen ég mætti í vinnuna fyrir 46 mínútum eftir hressandi Bootcamp tíma. Klárlega vonbrigði að vera sá eini sem klæddist Liverpooltreyju í tímanum. Ég skarta nú eðal Liverpool póló bol en sýnist fáir vera rauðklæddir hér í Skaftahlíðinni…


Einar Örn 10:39: Ég elska þetta myndband: In My Life. Sérstaklega skotið af því þegar að Gattuso snertir bikarinn. Já og þegar að Dudek tekur skref afturábak þegar hann sér að hinir leikmennirnir ætla að keyra hann niður af fögnuði. Aaaah, good times! :-)Og svo er aldrei að vita nema að maður heyri þetta lag í kvöld. 🙂


Aggi 10:14: Snillingurinn Jan Molby vill meina að Rafa eigi að stilla upp með tvo framherja, þá Kuyt og Crouch í stað þess að vera einn frammi, Molby wants Crouch & Kuyt pairing. Og síðan segir The Times Online frá því að ítalska pressan vill hefnd í kvöld, Italian media focused only on revenge Sjáum til með það!


Aggi 10:06: Ég held áfram að koma með fréttir af Agger en hann segir í viðtali við Extrabladet að titlarnir telji og að tapa geti hann ekki notað til neins, Titlerne tæller !


Einar Örn 9.39: Samuel Eto’o spáir Liverpool sigri. Einnig þá segir Michel Platini að bikarinn verði afhentur með því að liðin gangi upp í heiðursstúku, en ekki á miðjum velli einsog í Istanbúl. Og já, Aggi – það er sól líka hérna heima. 🙂


Aggi 9.26: Hérna er að detta inn hádegi í DK, frábært veður með sól og hita. Það er alveg ljós að þetta verður langur dagur….! Bæði Kristján og Einar hafa póstað um þetta helsta en ég bæti við einnig grein þar sem fyrrum þjálfari Daniel Agger, Micheal Laudrup hrósar honum: Laudrup spår Agger stor fremtid Og þar sem Laudrup var einn af mínum uppáhaldsleikmönnum þá kemur ekki á óvart að ég er honum sammála!


Einar 09.18: Jæja, ég er aðeins búinn að taka smá rúnt um helstu vefsíður og þar er svo sem ekki mikið sem bætir við það, sem að Kristján póstar.Hérna er þó upprifjun á fyrri 5 titlum Liverpool. Athyglisverð staðreynd að Liverpool hefur í öll skiptin unnið lið í hvítum búningum. AC Milan átti að vera í rauðum búningum í úrslitaleiknum, en þeir breyttu því og spila nú í hvítu. Páfinn er kannski ekki dauður, en þetta hlýtur samt að vera góðs viti.


Kristján/06:42: Fyrsta uppfærslan. Það fellur í minn hlut að starta þessu, enda eru hinir strákarnir sennilega sofandi núna. Við verðum fjórir í dag sem sjáum um uppfærslur; SSteinn er fulltrúi okkar á vellinum og munum við reyna að ná sambandi við hann þegar líður á daginn, á meðan Aggi verður við tölvu og ætlar svo að horfa á leikinn á kránni hans Daniel Agger í Köben. Einar og Hjalti eru í Reykjavík og sitja spenntir við tölvu í allan dag áður en þeir fara á Players, á meðan ég mun sitja í happasætinu heima. Er ekki fínt að byrja daginn á því að lesa nokkrar upphitunargreinar um leikinn?

Þrír snillingar og þrjár góðar greinar til að byrja daginn. Nú og ef menn vilja komast í toppstuð er alltaf hægt að skoða myndbandið “Road to Athens” á YouTube, sem er svo gott að ég hef horft svona tíu sinnum á það síðustu daga. En jæja, segi þetta nóg af þessari fyrstu uppfærslu í bili. Ég var að koma heim til mín eftir næturvakt og ætla að leggja mig fram undir hádegið, safna kröftum fyrir átökin í kvöld. Strákarnir uppfæra svo þegar líður á morguninn. Hvernig leggst dagurinn annars í fólk? 😉

30 Comments

  1. bara rólegur enn sem komið er, mætti í vinnuna í sömu treyju og ég var í 25 maí 2005. búinn að hengja upp fána á skrifstofunni og reyni að klára sem mest fyrir stuttan vinnudag…

    come on you reds!!

  2. Vááááá, dagurinn er runninn upp. Þetta er dagurinn sem mun gera Liverpool FC að enn stærra félagi, gera leikmenn Liverpool að enn stærri mönnum og ítreka hvað Benitez er mikill snillingur. Þetta er dagur Liverpool football club!!!

  3. Bara slakur, táknin liggja í loftinu, er á næturvakt (eins og síðast!), við í rauðu(eins og síðast!) nýbúnir að gera endurnýja samninginn við Carlsberg (eins og síðast!), Kewell nýstiginn upp úr meiðslum (eins og síðast!), VIÐ VINNUM (eins og síðast 🙂 ). YNWA

  4. Þetta verður einum of góður dagur… eyddi ca 20 min í morgun að finna skyrtu við jakkafötin sem er nægjanlega dökk svo ég geti mætt í meistardeildartreyjunni í vinnunna… ég held það verði sett met í afkastalitlum vinnudegi.. ÁFRAM LIVERPOOL!

  5. Hrikalega spenntur. Fékk fiðring í magann við að horfa á myndbandið Road to Athens. Þetta verður járn í járn allan leikinn en ég hef samt á tilfinningunni að við skorum á undan og að leikurinn klárist í venjulegum leiktíma.

    Vona að Kewell fái að spila en verð að viðurkenna að ég sakna Hamann. Hann hefur reynst okkur dýrmætur í úrslitaleikjum hingað til.

    Gott að síðan er að komast í fyrra horf. Nauðsynlegur hluti af tilverunni.
    Koma svo Púllarar!

    Áfram Liverpool!

  6. Frétti að Kaupþing hefði flogið út með slatta af peningaköllum. Djöfull verður maður alltaf öfundsjúkur að vita af einhverju liði vera að fara – lið sem hefur jafnvel aldrei farið á fótboltaleik áður.

    Today is the Day – YNWA

  7. Jæja piltar og stúlkur, til hamingju með daginn, hátíð er gengin í garð!

    Spenningurinn fer eiginlega með alla starfsgetu. Þetta verður rosalegt!

    Getur einhver hjálpað mér með eitt hér: Ég varð svo heppinn að koma á Anfield í vetur og í safninu á Anfield var herbergi þar sem spilað var besta myndband um leikinn 2005 sem ég hef séð: Snilld að sjá Phil Thompson berja í glerið á stúkunni sem hann var í! Veit einhver hvar ég get náð í þetta video? Verð að horfa á það fyrir leikinn á eftir.

    Með Liverpool kveðju,
    Palli G

  8. Videóið heitir One night in Istanbul. Ættir að finna það á youtube.com En ég verð að hrósa ykkur piltum Liverpool bloggsins, væri ekki eins spenntur án ykkar, þið virkilega eigið hrós skilið!!!
    Þegar ég horfði á The Road to Athens og Al Pacino var að tala, úff, eitt lítið tár féll niður vanga minn:) hehehe….Come on you Reds!!!

  9. Hvernig er það, getur einhver sagt mér hvort leikurinn sé í opinni dagskrá á Sýn eða ekki?

  10. Leikurinn er í opinni (Staðfest) Talaði við Sýn.
    Djöfull verður þetta geðveikt!

  11. Hjalti: Ég lagði það ekki á mig að mæta fyrr í vinnu í morgun fyrir ekki neitt! Ég verð í Skaptahlíðinni 10 mín yfir fjögur. Staðfestur tími.

  12. Eins gott að yfirmaðurinn verði í stuði og hleypi mér fyrr… eftir að Aggi hringdi í hann í morgun er hann í feykigóðu skapi sýnist mér…

  13. hehehehehe hann er alltaf í góðu skapi! Tókum smá “swing” á landsliðsvalinu þe. íslenska.

  14. við erum tveir hérna í vinnunni í liverpool treyjum, ég er með THIS IS ANFIELD hangandi hérna á borðinu mínu og er svo á leið í sal þar sem verður grillpartý og leikurinn á skjávarpa … shiiii hvað mér hlakkar til !

  15. Ég skil reyndar ekki þennan Gattuso kettling, gæji sem kann bara að tækla 🙂
    Gerrard á svoleiðis eftir að pakka honum og birta enn skemmtilegri ummæli um hann í ‘How we won it two times on three seasons’ 😀

    Nei ég hef bara aldrei skilið hvað menn sjá við Gattuso, ókei, fínn varnarlega og tæklari en hann hefur að mér finnst ekkert meira en Sissoko sóknarlega.

  16. Andri Fannar, okkur líkar nú ekkert illa við Sissoko er það? Það má kannski einfalda það sem svo að Gattuso berjist grimmilega og vinni marga bolta fyrir liðið sitt, en hvað er að því? Þetta er karakter og ef hann spilaði fyrir Liverpool myndum við dýrka hann svipað og við fílum Mascherano og Sissoko í dag, sem sinna svipuðum hlutverkum hjá Liverpool og Gattuso gerir hjá Milan.

  17. Einar ég er gaurinn með lappan, við erum 3 hér við borðið hinir voru á barnum, komum klukkan 1 og þá var þetta eina lausa borðið á staðnum, en vona að þú finnir þér stað til að horfa á leikinn og skemmtir þér vel meint í einlægni frá einum poolara til annars.

  18. Johnny, þú varst nú ekki einn. Ég sá allavegana 7 eða 8 borð þar sem það voru að minnsta kosti 6-7 sæti frátekin. Oft voru þarna 1 eða 2 á borðinu, sem tóku svo frá hin sætin.

    Ekkert illa meint sko, finnst þetta bara frekar skrýtið. En ég horfi á þetta heima í góðra vina hópi. 🙂

  19. Ég kom í hádeginu síðast og fékk hluta af borði eftir rifrildi við barþjóninn. Það er bara svo vitlaust af þeim á Players að leyfa fólki að passa fullt af sætum – kanski í lagi að passa eitt – en þegar einn maður er að passa 10 sæti þá gefur það augleið að það er bara sá eini sem er að kaupa bjór.

  20. Og vá magnað að síðasta borðið hafi farið klukkan 1. Ég hélt að ég væri ótrúlega snemma í þessu klukkan 2. Eru allir í fríi í dag? 🙂

  21. Vildi að ég vissi hversvegna ég er svona pollrólegur yfir þessum leik. Afar afar óvenjulegt. Heyrði þá sögu af Valtý Birni í dag að ef spennan ber hann ofurliði þá fer hann yfirleitt í bað í miðjum leik. Snilld. Hann verður þá væntanlega squeaky clean eftir leikinn í kvöld.

  22. KAR; Sissoko og Mascherano gætu varla verið ólíkari leikmenn 🙂
    Sissoko hefur tæklingar og hlaupagetu á meðan Mascherano er miklu meira ‘complete’ miðjumaður þó hann skori of lítið.

    Mér líkar ekki illa við Sissoko, heldur held ég ekki upp á hann. 🙂
    Hann er nothæfur þegar við þurfum að halda og verjast vel en ekki þegar við þurfum að skora, sem er jú, laaangoftast 🙂

  23. Andri, ég veit að þeir eru ólíkir. Ég var hins vegar að benda á að þeirra aðalstarf á miðjunni hjá Liverpool er að hrella fólk og vinna bolta af andstæðingum, og að því leyti til eru þeir svipaðir Gattuso.

  24. Ég ætla að spá 1:0 sigri okkar manna – Gerrard skorar í seinni hálfleik. Ég er skemmtilega spenntur. Sorglegi hlutinn er sá að ég missi af fyrstu 20-25 mínútunum af leiknum vegna vinnunnar, en ég hef hérna hangandi uppi Liverpool treyjuna mína og hef fengið viðbrögð frá sumum gestum bókasafnsins… bara gaman að því.

    Frænka mín (Man U-aðdáandi) hringdi áðan og sagði: “Ég heyri svo í þér eftir að AC Milan hefur unnið …” og mitt svar var strax: “Ég býst þá ekkert við að heyra í þér … “

    Áfram Liverpool!!

  25. Notaleg tilfinning að horfa á 2005 leikinn áðan.
    Vonandi verður þetta jafn jafn jafn æðislegt.
    Er mjög bjartsýnn og spái 3-1 sigri.
    Common you reds !!!

One Ping

  1. Pingback:

Upphitun #6 LEIKURINN!!!

AC Milan 2 – Liverpool 1