AC Milan 2 – Liverpool 1

Þannig fór um sjóferð þá. Í kvöld mættu okkar menn AC Milan í annað skipti á þremur árum í úrslitaleik Meistaradeildarinnar og það fór svo að Ítalirnir náðu fram hefndum og innbyrtu 2-1 sigur á Ólympíuleikvanginum í Aþenu. AC Milan eru því Evrópumeistarar árið 2007 og við óskum þeim að sjálfsögðu hjartanlega til hamingju með það. Þetta var langur og strembinn vetur en eftir kvöldið í kvöld getum við ekki annað sagt en að Milan-liðið hafi átt sigurinn skilinn, og ég skal segja ykkur af hverju hér á eftir.

Ég nenni ekki að fara yfir byrjunarliðin í kvöld og allt það, þið getið lesið allt um það í dagbókarfærslunni hér fyrir neðan. Taktískt séð gekk leikurinn mjög vel hjá Liverpool; Rafa lagði upp með að okkar menn pressuðu varnarmenn Milan mjög hátt á boltanum og neyddu þá til að fara í langar sendingar sem þýddi að Pirlo, Seedorf og Kaká voru ekki mikið í boltanum í kvöld. Pressan skilaði sér í því að við vorum að fá feykimargar sóknir í fyrri hálfleik og sérstaklega var Pennant hættulegur upp hægri kantinn. Þó hafði ég áhyggjur af því að við værum ekki að nýta færin og það kom í ljós, enn einu sinni í vetur, að við töpuðum leik þrátt fyrir yfirburðastöðu á vellinum.

Munurinn á Liverpool og AC Milan er einfaldur: þeir skoruðu mörkin, við ekki. Pirlo skaut í öxlina á Inzaghi undir lok fyrri hálfleiks og þaðan fór boltinn inn, og svo í síðari hálfleik þéttu þeir vörnina og miðjuna hjá sér og héldu okkar sóknartilraunum í skefjum og svo þegar tækifærið kom setti Kaká Inzaghi í gegn og hann innsiglaði sigur Milan. Kuyt skoraði mark undir lok leiksins sem var lítið annað en sárauppbót, Milan-liðið landaði sigri sem verður að teljast sanngjarn fyrir þá einu, einföldu reglu sem er algild í fótbolta: þeir skoruðu mörkin, við ekki.

Ég vil meina að þeir Bolo Zenden og Craig Bellamy hafi spilað síðustu leiki sína fyrir Liverpool í kvöld. Zenden berst vel og það má rökstyðja það að hann átti sæti sitt í byrjunarliðinu skilið en hann er ekki kantmaður af því kalíberi sem þarf og við sáum muninn á sóknarleik liðsins þegar Kewell kom inn. Það að Bellamy skuli ekki hafa fengið að koma inná í stöðunni 1-0 eða 2-0 fyrir Milan segir allt um traust Rafa til hans. Þá sat Dudek á bekknum og kvaddi í hljóði, auk þess sem ferli Robbie Fowler hjá Liverpool er núna opinberlega lokið.

Það sem okkur vantar var gert svo ljóst í kvöld af tveimur leikmönnum. Harry Kewell verður sennilega aldrei sá leikmaður sem við væntumst af honum, þar sem hann er allt of mikið meiddur til að geta borið liðið uppi, en hann sýnir okkur svo ekki verður um villst hversu mikilvægt er að hafa góða ógn upp báða kantana. Pennant var góður hægra megin en gæðakantmenn, helst báðum megin en allavega vinstra megin, hljóta að vera forgangur #2 í sumar.

Forgangur #1 verður hins vegar framherji. Ég hef ekkert út á Dirk Kuyt að setja en hann þarf að fá mann með sér sem skorar mörk og vinnur leiki. Ef Rafa treystir Crouch ekki til að vera sá maður er augljóst að við þurfum slíkan mann í sumar, sama hvað hann kostar. Þessa Ruud van Nistelrooy-týpu, þessa Samuel Eto’o-týpu, þessa … Filippo Inzaghi-týpu. Inzaghi sást ekki í kvöld, var ekki með í leiknum og var stálheppinn í fyrra markinu en hann er samt sem áður leikmaður sem virðist skora mörk alveg sama hvernig viðrar eða hvernig hann er að spila. Hann bara skorar. Við þurfum slíkan leikmann.

Ojæja. Ég verð að viðurkenna að ég finn ekki sömu örvæntingu og ég hélt ég myndi finna við tapið í kvöld. Við töpuðum úrslitaleik Meistaradeildarinnar og það er ótrúlega svekkjandi, sérstaklega þar sem menn geta bara kennt sjálfum sér um, en eftir þennan leik getum við loksins litið til framtíðarinnar og leyft þætti þeirra Tom Hicks og George Gillett Jr. hjá félaginu að hefjast. Ég hef þegar tínt til fjóra eða fimm leikmenn sem munu yfirgefa liðið í sumar og þeir gætu orðið fleiri. Það mun mikið velta á því hverjir koma í staðinn.

Ég ætla að ljúka þessari ótrúlega óskipulögðu leikskýrslu á spádómi. Rafael Benítez mun fara aftur með þetta Liverpool-lið í úrslitaleik Meistaradeildarinnar á næstu þremur árum. 2008, 2009 eða 2010 munum við sjá Liverpool spila annan úrslitaleik og hver veit nema Milan-liðið verði enn og aftur mótherjarnir. Ég er í öllu falli sannfærður um að Steven Gerrard á eftir að lyfta Evrópubikarnum allavega einu sinni í viðbót.

MAÐUR LEIKSINS: Fandel dómari. Fyrir rúmlega tveggja tíma frammistöðu sem sóló-flautukonsertleikari í kvöld. Það sem hann blés í flautuna var ótrúlegt. Hann átti engar stórar ákvarðanir sem breyttu öllu í leiknum, og mér fannst hann ekki endilega halla á annað liðið, en hann drap niður allt tempó í leiknum með flauti á ótrúlegustu hluti og endalaus tiltöl við alla leikmenn, og þar sem okkar menn voru að reyna að sækja meira en Milan-liðið þá kom skorturinn á tempói meira niður á okkar mönnum. Þá var algjör farsi að sjá hann flauta leikinn af eftir 92:42 þegar fjórði dómarinn var búinn að gefa til kynna að það ætti að bæta þremur mínútum við. Auðvitað er hæpið að halda því fram að Liverpool hefði náð að jafna á þessum 18 sekúndum, en þú getur aldrei útilokað það og sem dómari áttu að hafa þessa hluti á hreinu.

Hjá okkar mönnum var ég hrifnastur af Jermaine Pennant og Xabi Alonso í kvöld en hvorugur þeirra náði þó að skipta sköpum. Maður kvöldsins er hins vegar vafalítið Pippo Inzaghi, maðurinn sem vann Evrópubikarinn fyrir Milan í kvöld. Það verður fróðlegt að fylgjast með þessu Milan-liði næstu misserin því þetta er háaldrað lið á köflum sem þarf að endurnýja. Er þetta kveðjustundin fyrir hetjur eins og Maldini, Cafú og jafnvel Inzaghi sjálfan? Kemur í ljós.

Nóg af þessu í bili. Þetta hefur verið langur og frábær dagur en endalokin voru miður glötuð. Við gerum bara eins og Rafa og liðið – söfnum kröftum næstu dagana og vikurnar og komum svo að fullum krafti inn í nýtt tímabil. At the end of the storm, there’s a golden sky …

32 Comments

 1. Úff úff úff.
  Þú talar um Fandel, djöfull er ég sammála. Bætt við þremur mínútum og flautar af á 2:40 og það var meira að segja ein skipting í uppbótartímanum sem tók ~40 sek.

  En við verðum að nýta færin og það gerðu þeir en ekki við í kvöld.

  YNWA!

 2. Það var pínulíti skrýtið að horfa á þetta áðan. Ég var búinn að byggja upp brjálaða spennu í allan dag og svo var eiginlega einsog þetta væri búið áður en það byrjaði almennilega. Kannski að maður sé bara orðinn vanur því að svona úrslitaleikir endist í 120 mínútur.

  En svo var þetta bara búið eftir 90 mínútur og tveim mínútum seinna voru vinir mínir farnir útúr íbúðinni í fýlukasti og ég sat einn eftir í sófanum með bjór í hendi og slökkti svo á sjónvarpinu því ég vildi ekki horfa á sekúndu í viðbót af Inzaghi.

  Dómarinn var náttúrulega fífl. Ég er alls ekki að kenna honum um úrslitin, en hann var samt fífl.

  En ég er sammála þessu um Zenden og framherjana. Við sáum muninn á Pennant og Zenden í leiknum. Pennant var sífellt ógnandi, en Zenden gat ekki neitt. Og Kuyt náði ekkert að skapa sér færi fyrr en þegar það var orðið of seint.

  Þetta var hálf grátlegt vegna þess að þetta þurfti ekki að enda svona. Liverpool var betra liðið nær allan tímann og Kaká sást varla. Þeir skora svo eitt heppnismark og þá fór allt úr skorðum. Bara ef boltinn hefði ekki farið í hendina á Inzaghi eða ef Gerrard hefði sett hann í færinu, eða Pennant. Ef ef ef…

  En þá veit maður allavegana hvernig það er að tapa úrslitaleik í Evrópukeppni. Kannski koma okkar menn þá bara enn ákveðnari til leiks næsta haust og taka ensku deildina. Þetta tímabil endar allavegana á vonbrigðum, sem var kannski við hæfi.

  Segi bara einsog Kristján

  At the end of the storm, there’s a golden sky …

  YNWA!

 3. Jæja þannig fór það. Það er í sjálfu sér ekkert hægt að kvarta undan þessu, Milan nýtti sín færi en Liverpool ekki. 40 sek í viðbót hefðu hugsanlega geta breytt einhverju en það þýðir ekkert að væla yfir því. Mér fannst ótrúlegt að sjá Rafa skipta Arbeloa inná í restina, það segir manni bara að hann hefur enga trú á Bellamy og hann hefur sennilega spilað sinn síðasta leik fyrir LFC.

  Það verður spennandi að fylgjast með leikmannakaupum í sumar og það er vonandi að Rafa kaupi mann/menn sem koma til með að skipta sköpum og að við getum gert alvöru atlögu að deildinni, það er löngu kominn tími til.

 4. Ég vil bara segja að ég er gríðarlega stoltur af okkar mönnum, þeir börðust vel og voru eins og svo oft áður í vetur betri aðilinn en komu bara ekki með mörkin.
  Svo vil ég segja um Zenden þó svo að ég sé ekki að kenna honum um eitt eða neitt, að hann á alls ekki heima í þessu liði og eina ástæðan fyrir því að hann var leikmaður ársins hjá Middlesbro áður en hann kom til okkar hafði var vegna þess að ágætur leikmaður í lélegu liði.
  En ég er stoltur púllari í kvöld : )

 5. tja…. Ég sá það í kvöld af hverju Gerrard er ekki framherji. Hann er frábær, æðislegur, meiriháttar miðjumaður en hann er ekki framherji.
  Vonbrigði kvöldsins eru Rafa að minu mati, ekki dómarinn.
  Hann átti að breyta liðinu fyrr. Hann átti að seta Crouch inn á fyrr og færa Gerrard aftur á miðjuna.

  Ég er samt ótrúlega lítið svekktur þrátt fyrir að hafa haft góðan fílíng fyrir leiknum í dag.
  Well, kannski var þetta stund hefndarinnar.

  Anyhow, sumarið verður fróðlegt. Nenni ekki að taka þátt í vangaveltum um það núna.

 6. sammála flestu hér á undan nema kannski með Alonso, svolítið villtur í tæklingunum. Annars bara sáttur með okkar menn. Maður leiksins—-Fandel dómari

 7. Ég er í sjálfu sér ekki hissa á úrslitunum í kvöld… þau eru svekkjandi og allt það. Ég var farinn að sjá þetta fyrir mér. Alltof mikill undirbúningur, of mikil hátíðarhöld í kringum þetta og allt það(allt uppbbókað á Players og allt það).
  En að góðu punktunum í kvöld. Pennanat var mjög fínn í kvöld, Mascerano frábær líka…. nú held ég að það sé kominn tími á vinstri kanntinn hjá okkur. Þar verðum við að fara að fá nýja menn. Eins mikið og ég vonaðist eftir að Kewll myndi standa sig þá held ég að við verðum að fara að kíkja á aðra menn þangað. Ég sá Dani Alves hjá Sevillia í síðustu viku. Mikið held ég að hann myndi standa sig þrusuvel hjá okkur.
  En það verður gaman að sjá hvernig næstu vikur þróast hjá okku.
  Við komumst í úrslitin… allt annað en það hefði verið plús…

 8. Ég hef lítið um leikinn annað að segja en að aukaspyrnan sem Alonso gaf kláraði leikinn. Þetta kom á akkúrat tímanum sem Ítalarnir þurftu til að ná upp sjálfstrausti og fara inn í hálfleik AFTUR með forskot en þó aðeins 1 mark í þetta sinn. Við gátum síðan séð framhaldið fyrir okkur. Ítalirnir fastir fyrir og við meira með boltann…við leikum okkur fram að markteig ítalana og þá rennur allt út í sandinn….svona “sama og venjulega” dæmið sem hrjáð hefur LFC síðan í lok 80´s. Milan átti þennan sigur ekkert frekar skilið en LFC en þeir unnu að þessu sinni…því miður.

 9. Sammála Árna, það var ótrúlegt að horfa á liðið með einn framherja í seinni hálfleik. Einn framherja sem var nánast ekkert inní boxinu og var oftar en ekki í því að senda inní boxið krossa sem maður áttaði sig ekki alveg á hver átti að taka á móti. Það að ergja sig á dómaranum er furðulegt. Það er miklu eðlilegra að ergja sig á því að Rafa stilli liðinu jafn ílla upp í síðari hálfleik og hann gerði það vel í þeim fyrri.

 10. …og þetta með kantmálin okkar. Ég verð að viðurkenna að mér fannst Pennant ekkert betri en venjulega. Það kom meira út úr Kewell á vinstri kantinum ÞEGAR HANN FÉKK BOLTANN á þessum litla tíma sem hann var inná en nokkurn tímann hjá Pennant allan leikinn. Pennant var ágætur í fyrri hálfleik þegar sendingar rötuðu inn í teigin en annars finnst mér hann vera svona leikmaður eins og McManaman, getur hlaupið en hleypur bara áfram og endar alltaf til baka með boltann. Hann er enginn leikmaður sem opnar varnir eða allavega gerir lítið að því. Okkur skortir meira svoleiðis en á meðan við höfum það ekki kemur það niður á liðinu harkalega og þá aðallega á miðri miðjunni þar sem hún er sterkust. Vantar alveg ógnunina á kantana.

 11. Mér fannst Pennant ekki geta rassgat í kvöld. Hann komst aldrei “actually” framhjá vinstri bakverði Milan. Hann tók alltaf alltof margar snertingar, fór ekki á varnarmanninn og til baka og gaf hann til baka. Eina sendingin sem hann átti frá endamörkum var ömurleg á Gerrard á lofti enda húðskammaði Gerrard hann fyrir það. Kom einfaldlega ekkert út úr honum ekki frekar en Zenden.

  Pennant er fínn á móti miðlungsliðunum en ekkert meira en það. Hann er flott back-up á kantinn. Við verðum einfaldlega að fá heimsklassa striker í sumar, heimsklassa kantmEnn á báða kanta.

 12. Svo er Danni Alves hægri bak/kantur ef mig misminnir ekki. Þá vil ég frekar Pennant.

 13. Þetta átti alveg greinilega ekki að vera kvöldið okkar og voru nokkur atriði sem ullu því. Lamaður vinstri kantur framan af leik og svo þegar að Kewell kom inná var hann ekki nýttur nægilega, setja hann inná í hálfleik og setja pressu á Gattuso sem var kominn með spjald. Of mikil pressa í upphafi leiks sem orsakaði að þegar að leið á leikinn fóru menn að gera mistök sem þeir gera að öllu jöfnu ekki í leikjum, bæði í sendingum og móttöku þeirra sem og staðsetningum á vellinum sem ég skrifa á að menn voru orðnir þreyttir, það er ábyggilega heitara í Aþenu en á Englandi þar sem menn geta hlaupið heilu og hálfu leikina svo til endalaust, breyttir ekki miklu þó að æft sé á Spáni í meiri hita í viku.
  Kaupin í sumar eru klárlega 1-2 framherjar og þá meina ég FRAMHERJAR sem skora en ekki sem vinna vel fyrir liðið eigum nóg af vinnuhestum á miðjunni og svo tveir kantmenn á sitt hvorn kantinn, takk fyrir!!!

 14. Jæja svona fór þetta ég horfði á leikinn með frænda mínum hann er ekki jafnmikill Liverpool fíkill og ég svo hann var ekki jafn fúll og ég. En leikurinn var mjög góður hjá liverpool þeir hefðu átt að nýta færin sín betur og vörnin var ekki að gera sig í lokin og hann hefði getað tekið Agger fyrr útaf hann var ekki að gera nógu gott fínn leikmaður en það var ekki að gera sig.

  Svo var það færið sem Gerrard fékk það var algjört dauðafæri í stað þess að setann bara uppi þá þurfti hann að setann niðri 4 cm frá Dida sem var algjör hörmung.
  ég var mjög sáttur með Pennant, Gerrard og Kuyt í heildina. Þeir unnu vel og tóku boltana sem þurfti að taka og pressuðu mjög vel. Þeir áttu frábæran leik en það dugði ekki og ég er ekki sáttur með Crouch sem átti ekki góðan leik, Rafa hefði getað sett Bellamy inná í staðin en það er greinilega eitthvað á milli þeirra en hvað veit maður.
  Ég er ekki sáttur með vörnina en liðið í heildvar mjög gott þó að úrslitinn séu ekki nógu góð finnst mér að við áttum skilið að sigra!!!

 15. Mér finnst það geðveik einföldun að bera saman zenden og pennant í þessum leik. Milan lagði augljóslega áherslu á að loka hægri vængnum (þeim vinstri hjá Liverpool) og Gattuso var 90% af leiknum úti hægra megin til að loka á Zenden og Riise. Pennant átti ágæta spretti en krossarnir frá honum voru daprir.

  Dómarinn var arfaslakur fyrir okkur þar sem hann, eins og Einar Örn benti á, drap algerlega leikinn með þessum and..ans flautukonsert. Ég er ekki sammála að það hafi ekki hallað á annað liðið, því það var augljóst að frá fyrstu mínútu reyndu Milan menn að halda niðri hraðanum í leiknum og fengu til þess dyggan stuðning dómarans.

  Á heildina séð fengum við ágætis færi en lukkan var einfaldlega ekki með okkur. Síðan var náttúrlega óþolandi að horfa uppá Inzaghi dettandi ef við hann var komið – hann var svona eins og Drogba og Robben lagðir saman sinnum tveir.

 16. Dómarinn:
  Lélegur

  Tapið:
  Frekar Benitez að kenna…vantar ennþá sóknarelementið í leik liðsins.

  Kuyt:
  Gerir aldrei neitt nema Crouch sé inná

  Pennant og Zenden:
  Fransbrauð

  Gerrard:
  He´ll be back

  Inzaghi:
  Óþolandi en samt aðdáunarverður

  Nesta og Maldini:
  Tækifæri sem Benitez missti af því að nýta. Hvar var annar strikerinn?

  Agger:
  Shaky…kannski hefði Hyypia róað okkur niður?

  Tvær óskir fyrir næsta vetur:
  Carlos Tevez
  Morten Gamst Pedersen

  Draumur sem rætist því miður ekki:
  Kewell heill heilsu á fullu upp vinstri kantinn hjá Liverpool

  Niðurstaða:
  Liverpool eru eins og Milan og Real Madrid reglulega “here or thereabouts” í bestu keppni í heimi. Sjö úrslitaleikir gegn þremur hjá hinum fjóru stóru í Englandi frá upphafi. Reynið að fela öfundina.

  Tækifæri:
  Chelsea og Arsenal eru særð. ManUtd liðið verður ekkert yngra með hverju árinu. Benitez kann á Champions League. Uncle Tom og George splæsa og hvað gerist þá?

  Það sem skiptir öllu máli:
  YNWA

 17. Jæja, þá er þetta búið, tími til að horfa fram á veginn.
  Þó mótið hafi verið að klárast get ég ekki beðið eftir að næsta tímabil hefjist. Nú vil ég að við gerum atlögu að því sem ÖLLU máli skiptir, enska deildin. Enginn hafði trú á Man.Utd fyrir síðast tímabil, við getum þetta alveg eins og þeir.

 18. Ég er stoltur Púllari. Þetta endaði ekki eins og maður vildi, en svona er fótboltinn. Ég vona bara að stórliðið Liverpool læri af þessu og framundan séu miklir og góðir bikaratímar. Þessi leikur markar ákveðið upphaf hjá okkur: nýir eigendur fara nú að láta að sér kveða, ákveðnir einstaklingar kveðja og við fáum nýja til okkar. Ég er bjartsýnn á framhaldið. Áfram Liverpool. Og ég geri það sama og aðrir: You’ll never walk alone – at the end of a storm there’s a golden sky …

  Við erum ennþá besta enska liðið í Evrópu 🙂

 19. Við erum ennþá besta enska liðið í Evrópu 🙂

  Leiðrétting: Við erum ennþá besta lið í heimi! Einn leikur breytir þar engu um. 🙂

 20. Svona er boltinn. Stóðu sig vel og með smá heppni hefði þetta getað dottið okkar megin ekki spurning. Halla sér yfir boltan og hitta á markið!

 21. Ég er ekki sammála leikskýrlu um að við þurfum leikmann á borði við inzaghi. Við þurfum enga leikara sem væla og þykjast vera meiddir í tíma og ótíma.

  Það er auðvelt að vera vitur eftirá en Rafa hefði átt að byrja með tvo framherja. Það vantaði sóknarbrodd í Liverpool – allt annað var gott.

  Og já, því miður hættir manni við að tengja dómara við svindl milan á ‘síðasta ári’. Það var tæpt að kaka ætti að fá aukaspyrnuna sem gaf mark, og hvenær hefur maður séð leik flautaðan af fyrir aukatíma? Sérstaklega þegar aukatíminn fer í hægar skiptingar liðsins sem er yfir? En líklega er ég bara sár yfir tapi – það er samt 5-10% vafi í manni hvað varðar dómarann.

 22. Björn, Rafa þurfti að vera með 5 manna miðju til að stoppa Kaká. Sást bara að um leið og hann tekur Mascherano út af, þá fær Kaka pláss og mark númer 2 kemur.

 23. slæmmt kvöld í kvöld…… Vá sammála dóra!!!! en allavega vill sjá kanntmenn í liverpool… kyut var mjög góður í kvöld og benni var snillingur hann vissi alveg hvernig átti að stoppa besta fótboltamann í heimi… en hverig voru kanntmennirnir zenden og pennant… ég man ekki eftir sendingu frá zenden frá kannti sem ógnaði eitthvað smá í þessum leik og takk fyrir veru þína í liverpool.. til pennants nr1pennant þú ert ekki og verður aldrei cronaldo.sættu þig við það.. nr2gefðu helvítis boltan og þegar þú gerir það.. gerðu það almennilega t.d þegar hann gaf á gerrard, þá lyftir hann boltanum í stað þess að renna honum á hann, nr3líttu aðeins í kringum tig eða bara upp þegar þú ert að rekja boltan common!!! það geta það allir sem eitthvað hafa spilað fótbolta… nr4hættu að hlaupa tig inní vitleysu t.d gefðu hann þegar 3til 4 leikmenn eru í þer, nr5hættu að gefa loftbolta inní teig sem varnamenn taka auðveldlega nr6 reyndu að sjá hlaup leikmanna og þá kannski getur orðið ágætur. hinsvegar var pressan hjá þér mjög góð……
  NR1. í sumar að kaupa 2 heimklassa kanntmenn sem geta tekið menn á, sent góðar sendingar og útsjónasamir. Draumur:Simao og Ribery/alves en einhvern þessa er ok Simao/Quresma/Alves/ribery/gamst… Framherjar þurfa stoðsendingar og þeir fá lítið af þeim frá könntum í liverpool….

 24. Einar :

  “…og Kaká sást varla”.

  Gæinn bjó til bæði mörk Milan, það er meira en hægt er að segja um marga leikmenn Liverpool í kvöld. Hann einfaldlega vann leikinn fyrir Milan og var klárlega maður leiksins, ekki slæmt af manni sem sást varla.

  En mikið rosalega var Agger slakur í kvöld, næstum jafn slappur og Jankulowski.

 25. Einar: ég biðst afsökunar á þessum mismælum mínum 🙂 Auðvitað erum við besta liðið í heimi …

  (veit ekki hvað ég var að hugsa … ) 😉

  Liverpool-kveðjur frá Akureyri!

 26. Halldór: Ja kannski þurfum við 5 manna miðju til að stoppa Kaka, með sömu rökum mætti jafnvel segja að öll lið sem spila á móti Liverpool að hafa 5 manna miðju til að stoppa Gerrard? Liverpool sótti mikið í fyrri hálfleik en það vantaði fleiri menn framarlega sem gátu klárað færi. Zenden, Alonso og Mascherano og líklega Pennant eru bara ekki menn sem skora oft.

  Annars er Kaka eini milan maðurinn sem ég myndi vilja sjá í Liverpool – allir hinir mega halda sig í hringleikhúsum ítalíu. Rétt hjá Nonna að Kaka var maður leiksins.

 27. Við vorum alls ekki slakir í þessum leik og fyrsta markið hjá Milan var einfaldlega heppni. Hins vegar skyldi ég ekki alveg leikskipulagið hjá okkur því oftast virtist sem Gerrard væri að spila sem framherji og það gekk einfaldlega ekki upp. Zenden var of lengi inná og er einfaldlega ekki nógu góður fyrir lið sem ætlar að vinna Meistaradeildina og berjast um enska titillinn. Kewell er frábær leikmaður EF hann bara gæti verið heill lengur en í 2 vikur. Kuyt er ótrúlega vinnusamur en of sjaldan líklegur til að skora (kannski af því hann er að vinna of mikið tilbaka). Hvort þetta sé taktík sem Rafa ákveður eða þróast líkt og í gær. Gerrard var oftar en ekki framar á vellinum en Kuyt.

  Mér fannst eins og að Gerrar og Carragher voru þreyttir í gær og má sá aldrei þennan glampa í augum þeirra líkt og 2005.

  En við komumst í úrslitinn, slógum út Barcelona og Chelsea á leiðinni og til þess þarftu að geta eitthvað í fótbolta. Vonandi tökum við framförum með nýjum leikmönnum í sumar og liðið heilsteyptara og stabílla en undanfarin misseri.

 28. Í fyrsta lagi vil ég hrósa liðinu fyrir mikla baráttu og ágætis leik. í raun áttum við ekki að tapa leiknum og það má segja að einskær heppni AC Milan hafi gert það að verkum að við fengum á okkur fyrra markið. Því miður réði það mark úrslitum í leiknum – eftir á að hyggja.

  Harry Kewell er einn mikilvægast leikmaður liðsins. Þvílíkur munur að fá hann inn í leik liðsins. Við skulum ekki gleyma því að með Kewell og Gerrard á könntunum á þar síðasta tímabili töpuðum við varla leik og lentum í öðru sæti á eftir Chelsea.

  Kewell er heimsklassa leikmaður á því er enginn vafi. Hann hljóp fram hjá Gattuso eins og að drekka vatn. Hann getur bæði skotið á markið og skallað og hefur sýnt það í gegnum tíðina að það er oftar en ekki hann sem ræður úrslitum í leikjum. Hann bar upp landsliðið sitt á HM og myndi spjara sig í hvaða liði sem er í heiminum.

  Pennant er lipur leikmaður en hann mun aldrei komast í sama gæða flokk og Kewell. Til þess þyrfti hann að bæta skot og sendingar. Læra að skalla. Ráða úrslitum í leikjum og það sem skiptir öllu …. skora mörk. Ég vil nú ekkert fullyrða en ég hef á tilfinningunni að þeir sem hafa spilað þessa stöðu undanfarin ár hjá Liverpool hafi allir skorað mun fleiri mörk en Pennant. Murphy var til að mynda líklegri til að skora þó hann hafi í raun verið mun passívari leikmaður. Við verðum að fá fleiri mörk úr þessari stöðu.

  Ég hef minnstar áhyggjur af miðjunni og könntunum. Við eigum 3 heimsklassa miðjumenn sem allir geta leist Gerrard af hólmi á miðjunni. Ef Kewell verður heill næsta vetur, sem ég hef fulla trú á að verði, og Gerrard verður á hægri kanntinum frá upphafi erum við með bestu miðju í heiminum – fullyrði ég.

  Við þurfum að bæta okkur sóknarlega. Ef við kaupum einn heimsklassa leikmann þá gætu Kuyt og Crouch komið sterkir inn með honum.

  Ég er ennþá á því að við þurfum að kaupa Daniel Alves. Finnan hefur staðið sig vel í vetur en við eigum alltaf að reyna að kaupa sterkari leikmenn en þeir sem fyrir eru. Alves gæti líka leist af á kanntinum þó hann sé bakvörður að upplagi.

  Eftir leikinn í gær myndi ég segja að liðið væri í raun klárt fyrir næsta tímabil. Liðið er í raun sterkt og breiddin ágæt. Rafa á ekki að þurfa að rótera í upphafi tímabilsins eins og hann hefur gert undanfarin ár. Sterk byrjun næsta haust getur skipt öllu máli.

  Áfram Liverpool!

 29. “…og Kaká sást varla”.

  Gæinn bjó til bæði mörk Milan, það er meira en hægt er að segja um marga leikmenn Liverpool í kvöld. Hann einfaldlega vann leikinn fyrir Milan og var klárlega maður leiksins, ekki slæmt af manni sem sást varla.

  Já, Inzaghi sást heldur ekki en skoraði bæði mörkin. Þín komment afsanna ekkert það sem ég hélt fram. Kaká gerði afskaplega lítið í leiknum. Hann fékk þessa aukaspyrnu af því að Alonso var klaufi og svo átti hann eina sendingu sem gaf mark. Kannski horfi ég á leikinn með of mikilli áherslu á Liverpool en miðað við Kaká í fyrri hálfleik í Istanbúl þá sást hann varla í gær.

  Berðu líka frammistöðuna gegn United saman við frammistöðu hans í gær.

  Málið er auðvitað að við áttum að vinna þennan leik. Ég fullyrði að ef við hefðum verið með framherja, sem gæti skorað mörk einsog til dæmis Michael Owen, þá hefðum við unnið. Af hverju við förum inní þennan leik með einn framherja, sem hafði ekki skorað eitt mark í Meistaradeildinni er furðulegt, svo ekki sé meira sagt.

  En það hjálpar svo sem lítið eftirá.

 30. það má ekki gleyma Garcia…
  hann og Kewel eru tveir leikmenn sem búa til mörk úr engu… og munu, vonandi, koma sterkir inn á næsta tímabili…… ásamt 2 öðrum skapandi kanntmönnum og 1-2 markapoturum….

  liðið sýndi í gær, og hefur sýnt gegn nokkrum af bestu liðum Evrópu í vetur, að það er fært um að dóminera leiki gegn þeim bestu… eina sem hefur vantað er að hafa einn til tvo leikmenn sem búa til eitthvað úr engu og framherja sem er mættur á svæðið til að klára færin…

  YNWA 🙂

 31. Ég veit nú ekki hvað þú horfir mikið á leiki Milan Einar en ég hef nú horft á slatta af þeim. Svona er Kaka bara, Inzaghi er svo auðvitað potari af guðs náð. Það sem ég er einfaldlega að segja er það að það skiptir engu máli hversu mikið eða lítið menn sjást, heldur að þeir geri sitt gagn. Einnig skiptir engu máli hvort liðið er betra eða ekki, það sáum við fyrir 2 árum í Istanbul, árangurinn telur, ekki satt?

  Það skiptir engu hvort Kaka hafi gert mikið eða lítið í þessum leik, hann einfaldlega vann leikinn hvort sem okkur líkar það betur eður ei.

One Ping

 1. Pingback:

DAGBÓK: Úrslitaleikur Meistaradeildarinnar!

Breytingar STRAX: Speedy og Bolo fara