Everton á morgun

Jæja, þá er komið að því. Ég hef margoft spáð í því hvað myndi gerast ef ég myndi taka að mér það verk að skrifa upphitun fyrir leik gegn Everton. Myndi ég ná að hemja mig nægilega mikið til að pistillinn gæti verið góður aflestrar? Ég hef lengi efast um það, en ég er nú búinn að vera að undirbúa mig fyrir þessa ritun í nokkra daga. Segjandi við sjálfan mig að menn verði nú að ná að halda aftur af sér þegar verið er að skrifa á opinberum vettvangi. Ég íhugaði meira að segja að leita til ráðgjafa með þetta allt saman, en sparaði mér góðan pening og þess í stað ákvað ég að láta þriggja ára son minn leika sér fyrir framan mig á meðan ég skrifa þessi orð. Af hverju? Jú, um leið og ég finn að ég er að detta í gír með að hella mér yfir bláa dótið sem mætir á Anfield á morgun, þá lít ég upp og sé hversu saklaus, brosandi og jákvæður sonur minn er. Hann þarf ekki nema einn bíl og/eða einn bolta til að skælbrosa út í eitt. Það verða því mörg upplit hjá mér næstu mínúturnar.

En nóg komið af mínu hugarástandi og tilfinningum í garð þeirra sem koma á morgun til með að trampa á hinu fagra grasi á Anfield (upplit). Fyrsti leikurinn gegn þeim á tímabilinu (og nei, man ekki eftir að hafa mætt þeim á þessu tímabili) og þetta er leikur sem telst til sem einn af þessum skyldusigrum. Ég get ekki afborið það að fara á þorrablót með vinnunni minni á morgun, með eitthvað annað en sigur í farteskinu. Ég hreinlega treysti mér ekki til að taka afleiðingum gjörða minna á slíkri samkomu ef einhver myndi byrja að nudda mér upp úr slíku (upplit).

En hvernig hefur gengi liðanna verið. Við vitum vel að byrjun tímabils okkar manna var hræðileg, og það þarf ekkert að ræða það neitt frekar. Það sem kemur mér persónulega á óvart er það að við erum bara hreinlega ekki langt frá toppliðunum tveim, sem voru gjörsamlega búin að stinga önnur lið af fyrir ekki svo löngu síðan. Í dag er 2 FEBRÚAR, og alveg heill hellingur eftir af þessu tímabili. Við náðum að minnka muninn í Chelsea í aðeins 2 stig fyrir stuttu síðan og niður í 8 stig hjá ManU (mér er alveg sama þótt það hafi bara verið í sólarhring). Við eigum eftir að fá ManU í heimsókn á Anfield og svo eiga þeir einnig eftir að kíkja til Chelsea. Chelsea og Arsenal eiga eftir að mætast, og svo auðvitað Liverpool og Arsenal á Anfield. Bara á þessari upptalningu þá sér maður að það er hellingur eftir af þessu móti. Bara þessar blessuðu innbyrðis viðureignir geta talið hrikalega drjúgt í keppninni um titilinn. Já, ég segi það og skrifa, titilbaráttan er hvergi nærri búin. Ég er þó ekki að segja með þessu að við séum komnir í baráttuna um hann, síður en svo. Það þarf margt að ganga upp til að það megi verða. Það er heldur ekki jafn fjarlægt og margir telja.

Ef við ætlum okkur þetta, þ.e. að halda pressunni áfram á liðin fyrir ofan okkur og í leiðinni að reyna að hrista Arsenal af okkur, þá eru leikir eins og á morgun algjörir lykilleikir. Við hreinlega VERÐUM að vinna þessi litlu lið. Þeir koma vafalaust dýrvitlausir til leiks á morgun, enda ekki á hverjum degi sem þeir geta látið ljós sitt skína gegn stórliði á alvöru velli. Vonandi fara allir okkar menn heilir út úr leiknum, en búast má við gríðarlegri hörku að vanda. Liverpool hefur farið á kostum undanfarið og Anfield er aftur orðið óvinnandi vígi (nei, ég er að tala um deildina, ekki bikarana) og úr síðustu 10 leikjum er markatala liðsins 24-2. Pepe Reina hefur hirt boltann 3svar úr netinu síðan lok október. Liverpool hefur unnið 9 af síðustu 10 leikjum. Eini tapleikurinn var gegn Blackburn og átti hann svo sannarlega ekki að tapast, en stundum ganga hlutirnir bara ekki upp.

Ég ætla mér ekki að hugsa út í það eina einustu sekúndu hvernig þeir bláu munu stilla upp á morgun. Það skiptir bara akkúrat engu máli (upplit). Annað hvort koma okkar menn með rétta hugarfarið í leikinn, eða ekki. Það ræður að vanda úrslitum í þessum leikjum. Ég ætla mér þó áfram að reyna að ráða í uppstillingu okkar manna. Hefur mér tekist að giska á rétt lið í vetur? Nei, en það mun þó ekki hindra mig í að reyna áfram, enda með eindæmum þrjóskur maður. Momo Sissoko er ekki klár í slaginn, Fabio Aurelio missir af leiknum vegna meiðsla, Harry Kewell er að jogga á æfingasvæðinu og Luis Garcia horfir á leikinn í sjónvarpinu sínu á Spáni. Ég get allavega spáð fyrir um það með nokkuð mikilli vissu að Stephen Warnock verður ekki í hópnum. Frekar slakt að það sé það eina sem maður getur verið viss um að hafa rétt.

Ég reikna ekki með miklum breytingum á vörninni. Finnan heldur sinni stöðu, Carra væri látinn spila þennan leik þótt hann væri með tvær slitnar hásinar, Johnny Riise verður í vinstri bakk og ég giska á að Agger spili í vörninni við hlið Carra. Það mat mitt byggi ég á því að vörnin mun spila ofar á vellinum og því þurfum við aðeins meiri hraða í hana og það verður á kostnað Sami. Auðvitað gæti Rafa komið á óvart og stillt upp á heimavelli eins og hann hefur spilað tvisvar á útivelli. Þ.e. spilað með þrjá miðverði, Finnan og Riise sem vængmenn og með þrjá framherja. Það hefur verið að reynast fínt á útivöllum, en ég tippa á að Rafa haldi sig við sitt gamla góða heimavallarkerfi sem hefur gert liðið nánast ósigrandi þar (og já, ég er bara að tala um deildina). Pennant mun svo koma inn á kantinn, og Mark Gonzalez verður hinum megin. Þeir kóngar munu svo stjórna miðjunni og vonandi sýna þessum harðjaxla wannabeeees, Cahill og Arteta, hvernig spila eigi fótbolta (upplit). Frammi verður að sjálfsögðu Dirk Kuyt og svo kemur stóra spurningamerkið. Crouch eða Bellamy. Hefði sagt Bellamy eins og skot ef Crouchy hefði ekki skorað þetta glæsimark í síðasta leik. Ég ætla samt sem áður að giska á það að Bellers verði í liðinu til að fá aukinn hraða í sóknirnar, þar sem þeir bláu munu væntanlega pakka í vörn. Þar með er þetta bara ákveðið. Reyndar gleymdi ég að segja til um hver yrði í markinu, en ég get bara ekki ákveðið mig þar, mjög erfitt val. Ætli við setjum ekki bara besta markvörð Úrvalsdeildarinnar þar, hann Pepe Reina.

Reina

Finnan – Carragher – Agger – Riise

Pennant – Gerrard – Xabi – Gonzalez

Kuyt – Bellamy

Bekkurinn: Dudek, Sami, Bolo, Crouch og Fowler

Eitthvað við þessu að segja meira? 3-0 og málið er dautt? Kuyt er sjóðandi heitur, hreinlega erfitt að koma við hann án þess að brenna sig. Bellamy hefur ekki skorað lengi og svo kemur Captain Fantastic og roundar þessu upp í lokin. Allir sáttir?

9 Comments

  1. Snilldar upphitun punktur. Ég spá 2-0 og Crouch með bæði mörk. Kannski bætir Kuyt því þriðja við. Hver veit.
    LeBig

  2. það er bara til einn snillingur í heiminum í dag og það er ssteinn. Skilst að alonso verði í leikbanni, einhversstaðar heyrði ég það.

  3. Fínasta upphitun hjá þér SSteinn !
    Í sjálfu sér engu við hana að bæta nema að ég óttast að þeir bláu pakki í vörn og það hefur stundum reynst okkar mönnum erfitt.
    1-0, en ég væri auðvitað til í stærri sigur en held að þetta verið ekki auðunnið.

  4. Vel mælt SSteinn… ég spái okkur öruggum 1-0 sigri þar sem markið kemur frá Gerrard í fyrri hálfleik.

  5. Bellamy skoraði á móti Watford 13.jan, mér finnst nú ekkert svo langt síðan

  6. Ein besta upphitun sem ég hef lesið á þessari frábæru síðu, og ekki spurning að við vinnum þennan leik!!

Huth til Liverpool!

Búið að selja Liverpool FC?