Helgarpælingar

Jæja, þá er maður kominn heim eftir villta helgi í London. Sá því miður ekki leikinn á laugardag en horfði á mörkin og það sem menn á borð við Sam Allardyce, Phil Thompson og Warren Barton höfðu að segja á SkySports á sunnudaginn. Kom heim í gærkvöldi og var að enda við að horfa á upptöku af leiknum á spólu núna, og mig langaði að koma með nokkra punkta.

Til að byrja með, þá er ég búinn að lesa leikskýrsluna hans Einars og öll svörin þar þannig að ég er meðvitaður um hvað var svona helst rætt eftir leikinn á laugardag. Þá held ég að það hafi hjálpað mér að hafa vitað úrslitin og séð mörkin & helstu færin í leiknum þegar ég horfði á hann í heild sinni áðan, þar sem ég gat haft gætur á ákveðnum atriðum.

1. Einar, þetta er til þín: að gefa í skyn að Dudek hefði átt að getað varið skot Edmans er út í hött! Edman skoraði á laugardag það sem ég vill meina að sé mark ársins í deildinni í ár, allavega flottasta langskot vetrarins á Englandi. Hann var 40 metrum frá marki, negldi honum af öllu afli að fjærhorninu og lengi vel virtist boltinn stefna hátt yfir. Á einhvern ótrúlegan hátt tók hann svo dýfu – svipað og aukaspyrna Roberto Carlos gegn Frökkum – og hafnaði í bláhorninu. Það er ekki til sá markvörður í heiminum sem hefði getað varið þessa spyrnu og því finnst mér rangt að skeyta skapi sínu á Dudek.

2. Mauricio Pellegrino. Átti. Mjög. Slakan. Leik. Eftir gagnrýnina sem ég heyrði á hann á Sky í gær og í leikskýrslu Einars tók ég sérstaklega eftir hans leik. En vitiði hvað? Jamie Carragher var líka slappur, það verður að segjast. Hann hefur oft leikið betur, og þótt Pellegrino hafi sýnt slaka tilburði í öðru marki Tottenham þegar hann hleypti Kanoute upp í hornið án mótstöðu, þá var Carra algjörlega úti á þekju í miðjum teignum. Hann var með Robbie Keane en gerði síðan stærstu – og algengustu – mistök varnarmanna: hann horfði á boltann, og ‘gleymdi’ manninum sem hann var að dekka. Boltinn kom hár fyrir, yfir Carra og beint á kollinn á óvölduðum Robbie Keane. Mark. Ekki Jerzy Dudek að kenna heldur Mauricio Pellegrino og Jamie Carragher.

3. Mörk Fernando Morientes gegn Charlton og Fulham tala sínu máli. Ferill hans talar sínu máli. Stoðsending hans gegn Chelsea í deildarbikarnum talar sínu máli. En ég tek fyllilega undir það að hann þarf að skora mark sem allra, allra fyrst! Ruud van Nistelrooy kom inn úr meiðslum og átti erfitt með að skora sitt fyrsta mark, en það tókst loks hjá honum í gær gegn Newcastle. Og svo skoraði hann annað í sama leik. Og mun eflaust skora annað í næsta leik. Þegar stíflan brestur, þá brestur hún jafnan með látum. Morientes þarf að fara að gera sprungur í sína stíflu strax í næsta leik, bæði sjálfs síns vegna og liðsins. Það verður gaman að sjá hann og Baros saman gegn Portsmouth á miðvikudag, með Cissé reiðubúinn á bekknum.

4. Frank Lampard hvað? Steven Gerrard hver? Patrick Viei-who? XABI ALONSO er besti miðjumaður deildarinnar! Og hana nú!

5. Sami Hyypiä er ekki að fara neitt í sumar. Ef Rafa gat gert Valencia að Spánar- og Evrópumeisturum með Carboni, 39 ára, í liðinu þá skulu menn alveg hafa það á hreinu að Sami – 31s árs gamall – á fullt erindi í liðið næstu árin ef hann heldur áfram að spila eins og hann hefur gert í síðustu 3-4 leikjum. Sá hafði gott af hvíldinni!

6. Harry Kewell og Josemi þurfa að dr*lla sér aftur inn í liðið, því að Steve Finnan og John Arne Riise þurfa nauðsynlega á sams konar hvíld og Sami fékk að halda. Þeir hafa verið frábærir í vetur en þeir halda þetta ekki út endalaust, ég hef áhyggjur af því að þeir verði of þreyttir til að klára tímabilið með sömu spilamennsku og þeir hafa sýnt hingað til.

7. Fyrir miðvikudaginn hefur Rafa úr eftirtöldum framherjum að velja: Fernando Morientes, Milan Baros, Djibril Cissé og Anthony Le Tallec. Fjórir leikmenn í eina eða tvær stöður. Það er langt síðan við höfum státað af einhverri breidd í framlínuna, síðustu mánuði hafa þeir spilað sem voru ómeiddir. En nú er komin samkeppni í þetta, þeir sem skora mest og spila best fá að byrja inná. Þannig á það að vera. Expect goals on Wednesday… 🙂

Það er gott að vera kominn heim.

10 Comments

  1. Correct me if I’m wrong, en þegar Pongolle og Le Tallec komu, var þá ekki alltaf sagt að Pongolle væri framherji og Le Tallec miðjumaður? Eða er ég bara að bulla núna? :confused:

  2. Ég mótmæli því að Carra hafi verið lélegur í þessum leik. Ég var á vellinum og sá spilamennsku hans frá A -Ö. En hann er svo öflugur og skiptir svo miklu máli að hann má ekki gera mistök. Hann er alltaf þar sem mest á ríðurles leikinn en hann er manneskja og “getur” gert mistök. En mistök hans eru teljandi á fingrum annarar handar í allan vetur. En OK þau verða dýr fyrir vikið ef hann gerir þau á annað borð. Og hver á skilið hvíld ef ekki hann.
    Liðið er nánast allt þreytt því við höfum ekki getað gefið neinum,nánast, hvíld í vetur og það kemur alltaf fram að lokum.
    Áfram Liverpool.

  3. Pétur – Pongolle er meiri framherji hvað markaskorun og slíkt varðar, á meðan Le Tallec hefur oftar verið kallaður leikstjórnandi en markaskorari. Meiri Del Piero en Trézeguet, þannig séð…

    Sigtryggur – ég er ekki að segja að Carra hafi verið alslæmur í þessum leik, en hann hefur oft verið betri en gegn Tottenham. Og jú, hann er í ábyrgðarstöðu aftast á vellinum og því gilda hver mistök tífalt meira hjá honum en t.d. framherja og því eigum við ekki að gagnrýna hann of hart fyrir hver mistök. En það sama hlýtur þá að gilda um Mauricio Pellegrino, ekki satt? 🙂

  4. 1. Sammála með Alonso að hann sé besti miðjumaðurinn á Englandi. Munurinn á honum og t.d. Gerrard er sá að Alonso er að sýna svo mikla yfirvegun með boltann (composure), sendingar hans eru jafn nákvæmar og hjá þeim sem eru í siglingarfræði að reikna út skekkju uppá nokkra mm, og svo er hann líka harður ef þess þarf á að halda. Gerrard getur hlaupið endalaust og hann missir hausinn fljótt og er það hans hellsti galli sem kemur honum í bobba hvað eftir annað þegar við þurfum á honum mest að halda.

    2. Sammála með hvíldina á Hyypia og líka að Riise og Finnan þurfi á hvíld að halda. Ef hægt væri að gefa Josemi og Kewell “lifna-við” pillu væri Herra Benitez búinn að því en það er bara ekki svona auðvelt my friend. Við þurfum bakvörð/bakverði (Evra?), kantmann/menn (Vicente?, miðjumann (Nolan? Mintal? Aimar?) og sóknarmann ef Baros fer (Owen? Mista? Villa?) til að eiga séns á næsta tímabili.

    3. Það eru svipaðar líkur á því að eldgosið í eyjum sjötíuogeitthvað hafi verið Halldóri Ásgrímssyni að kenna eins og að mark tímabilsins sem vitleysis-svíinn Edman gerði hjá Dudek á laugardaginn hafi verið Dudek að kenna. Því miður, Einar minn. Þú ert WAY OFF þarna!

  5. Vicente er of dýr… hann er í sama verðflokki og Joaquin, og Liverpool hefur einfaldlega ekki efni á honum. Sama má segja um Aimar… of dýr. Með Aimar verður líka að spá í það að þótt að Liverpool hafi efni á honum, þá eru litlar líkur á að hann vilji vera þriðji í goggunarröðinni hjá Liverpool, þegar hann er aðalmiðjumaður Valencia.

    Ekki ólíklegt þó að þeir kaupi David Villa í sumar, á rúmar 10m punda þá væntanlega.

    Annars finnst mér nú að Liverpool vanti líka markmann… Dudek ekki nógu góður og Kirkland lifir enn á því að hafa verið efnilegur þegar hann var hjá Coventry.

  6. Já ég er sko alveg 100% sammála ÖLLU þessu!

    B.T.V flott líking hjá þér Eiki Fr :biggrin2: :laugh:

  7. Má vera að ég hafi rangt fyrir mér varðandi Dudek, hef ekki skoðað mörkin eftir að ég horfði á beinu útsendinguna. Fyrir mér þá sýndist mér Dudek bara valhoppa á línunni í stað þess að reyna að verja skotið. Það var ekkert sem blokkaði hans sjónlínu og því hefði hann átt að vera betur undirbúinn.

    Ég tel reyndar að það sé til fullt af markvörðum, sem hefðu varið þetta. Veit einhver hvar ég get séð markið aftur?

  8. Hérna eru öll mörkin úr leiknum, þetta er þráður á spjallborði þannig að þú þarft bara að fletta aðeins í gegnum hann til að finna mörkin í fínum gæðum (gæðin eru sorp á þessum sem komu fremst í þræðinum)

  9. Ef Buffon hefði verið við eina stöngina, Oliver Kahn við hina og Peter fucking Schmeichel i miðjunni með Dudek á háhesti þá hefðu þeir samt ekki varið þetta skot.
    😯

  10. Ég er mjög sammála lið eitt, það er hreint út sagt rangt að ásaka Dudek í þessum leik. Eitt sem að mér fannst gleymast í umræðunni um þennan blessaða Tottenham leik, en ég gerði mér lítið fyrir og horfði á hann aftur, en það var það að í seinni hálfleik hefðum við hreinlega getað tapað þessum leik, Sean Davis fékk í tvígang séns á því að labba upp með tuðruna og skjóta á markið rétt utan vítateigs alveg óáreittur, í annað skiptið skaut hann í varnarmann en í hitt varði Dudek.
    Við getum ekki reiknað með því að komast upp með svona vörn lengi án þess að fá á okkur mörk. Og ekki er það Dudek sem að á að fara út í þessa menn, þannig að ekki þýðir að kenna honum eingöngu um.

Rafa ver Fernando

Svíþjóð!