Þú ert velkominn aftur!

Ég held að ég fari ekki með neina vitleysu þegar ég segi að ef ég gæti fengið að velja einn leikmann til að koma til Liverpool í sumar, þá myndi ég ekki hika við að velja Michael Owen.

Ég er einfaldlega á því að það séu fáir framherjar jafn góðir og Michael Owen. Hann er uppalinn hjá félaginu og hefur gefið okkur milljón ástæður til að gleðjast undanfarin ár.

Það var alltaf ljóst að Owen myndi spila fyrir annað lið en Liverpool. Alveg frá því að hann sló í gegn þá talaði hann um að hann vildi spila á meginlandinu. Núna er hann búinn að því. Hann hefur spilað frábærlega fyrir Real Madrid, en það er einfaldlega ekki nóg því sama hversu vel hann spilar, þá eru Raúl og Ronaldo valdir á undan honum.

Er þá ekki tími til að segja þetta gott? Ian Rush gerði þetta. Hann spilaði í stuttan tíma með Juventus, skoraði nokkur mörk og kom svo aftur til Liverpool þar sem hann átti mörg góð ár. Getur það sama ekki gerst með Michael Owen? Ég veit að langflestir aðdáendur Liverpool myndu taka fagnandi á móti honum. Ég veit að ég myndi allavegana gera það.

Blaðamaður Guardian í Madrid veltir því fyrir sér [hvort það gæti verið að Owen kæmi aftur til Englands](http://football.guardian.co.uk/News_Story/0,1563,1454904,00.html). Hann nefnir Arsenal og Chelsea, en ég sé Owen einfaldlega ekki spila fyrir annað lið en Liverpool. Owen segir eftirfarandi um þetta mál:

>”Would I return to Liverpool? I would have nothing against it if I had to move for one reason or another. I left Liverpool on good terms, they are still the first result I look out for and I have a lot of friends there. I have no bitterness at all to Liverpool and they are still a club very close to my heart.”

Af hverju ekki?

Að mínu mati yrði endurkoma Owen það besta, sem gæti gerst í sumar. Hún myndi fyrir það fyrsta að mínu mati tryggja að Stevie G yrði áfram og hann myndi styrkja sóknina gríðarlega. Það er þó alveg ljóst að einhver af stóru framherjunum þremur, Cisse, Morientes eða Baros myndu fara. Satt best að segja myndi ég velja Owen fram yfir þá alla, en ég veit að margir eru ósammála mér.

Owen er einfaldlega tengdur alltof mörgum góðum minningum í mínu lífi til að mig langi ekki að sjá hann spila aftur fyrir Liverpool. Væri ekki frábært að sjá Carra í vörninni, Stevie G á miðjunni og Owen frammi? Þrír heimsklassa uppaldir Liverpool strákar í hjarta liðsins!


Annars segir Vladimir Smicer að það séu [90% líkur á að hann fari í sumar](http://news.bbc.co.uk/sport1/hi/football/teams/l/liverpool/4420081.stm). Ég myndi reyndar segja að líkurnar væru svona 98%. Smicer hefur valdið mér gríðarlegum vonbrigðum nánast allan þann tíma, sem hann hefur spilað fyrir Liverpool. Hann er gríðarlega hæfileikaríkur en meiðsli og annað hafa gert það að verkum að hann hefur aldrei spilað vel í tveim til þremur leikjum í röð. Stundum hefur hann spilað einsog engill en svo ávallt horfið í næsta leik.

Benitez sýndi það augljóslega á móti Juve að hann hefur ekki mikla trú á Smicer þegar hann setti Le Tallec í framlínuna. Ég held að það sé engin tilviljun að þessi yfirlýsing frá Smicer kemur í kjölfar þess. Það var allavegana stór vísbending um framhaldið að tvítugur strákur skyldi valinn fram fyrir hann í svona mikilvægum leik.

9 Comments

  1. Sammála með Owen. Loksins þegar það kom þjálfari sem hentaði Owen mjög vel þá fór hann. Hann er vonandi að átta sig á þeim misskilningi og kemur aftur heim. Milan Baros út og Michael Owen inn væri frábært!
    Góða nótt!

  2. Bless Vladi … ég hef ekkert á móti kauða, en hann er búinn að hirða launin sín og lengi fyrir að vera meiddur. Við þurfum að borga góð laun til leikmanna sem spila… það sama gildir um Kirky.

    Varðandi Owen, þá verð ég að segja að miðað við hvernig veturinn hefur farið (og mér þykir mjög ódælt að segja þetta) þá væri það besta sem gæti komið fyrir í sumar er ef að við gætum selt Baros til Valencia/Barcelona fyrir pening og notað þann pening til að kaupa Owen til baka.

    Hann fór á 8m + Núnez í fyrra, held að þeir myndu alveg taka 8-9 millur fyrir hann í ár ef þeir leyfðu honum að fara.

    Eins og ég hef oft sagt áður þá er ég Baros-aðdáandi #1 hér á landi … en liðið hefur alltaf forgang, og Baros virðist bara ekki ætla að fitta nægilega vel inn í leikkerfi Rafa Benítez. Því miður.

    Morientes – Owen – Cissé – Le Tallec – Pongolle – Mellor.

    Gætum við eitthvað rifist yfir þessari sóknarlínu næsta vetur?

    p.s.
    Þegar þú nefndir Carra, Gerrard & Owen sem hjarta liðsins fékk ég gæsahúð maður … þetta átti að vera kjarni liðsins undir stjórn Rafa, en Owen gat ekki beðið. Ég held því ennþá fram að hann sveik okkur í haust, en væri samt meira en lítið reiðubúinn til að fyrirgefa honum ef hann kæmi aftur.

  3. Ég er yrði óendanlega hamingjusöm ef Owen myndi koma aftur en ég vil alls ekki sjá Baros fara. Frekar Morientes.

  4. Myndi með glöðu geði taka við Owen aftur. Enda sveik hann okkur ekki neitt. Það var alltaf vitað að hann ætlaði einhvern tímann að spila í Evrópu og gat því ekki hafnað Real Madrid. Ef við fáum hann þá erum við að fá mann sem þarf ekki að aðlagast deildinni og við getum stólað á 20+ mörk frá honum. Frábært með Morientes og Cisse líka í framlínunni. Alvöru samkeppni þar á ferð. Baros virðist því miður ætla vera með Nuno Gomes syndromið. Góður í einni stórkeppni, góður í byrjun tímabils en svo er það búið. Hefur ekki sýnt að hann eigi heima hjá okkur.

  5. Sorry en mér finnst Baros búinn að vera betri en Morientes…bara mitt litla álit.
    Svo finnst mér Morientes líka foxý! Allir karlmenn í Liverpool-búning eru gríðarlega kynþokkafullir í mínum huga, þó vissulega séu margir flottari en aðrir….ef þú fattar.
    By the way, Stjáni, finnst þér Bjöggi ekkert líkur Baros? Ég sé Bjögga beibí í hvert skipti sem ég sé Baros…?

  6. Það er svipur með þeim. Enda er Bjöggi tíkin mín… 😉

    En varðandi Morientes, þá er hann bara búinn að spila svo lítið ennþá og er enn að komast inn í þetta allt saman. Reynsla hans mun vega þungt næsta mánuðinn og svo næsta vetur muntu sjá hvers hann er virkilega megnugur.

    Morientes hefur afrekað of mikið og er of góður til að maður efist um að hann muni verða súper. Hins vegar eru enn spurningarmerki um hvort að Baros sé nógu mikill ‘team player’ til að geta spilað í kerfi Benítez. Þess vegna held ég að Rafa muni losa sig við hann í sumar…

  7. Það neitar enginn Real Madrid, ekki einu sinnu upalinn Púllari eins og Owen. En ég mndi gjarnan vilja sjá hann aftur í rauðu treyjunni, enda alltaf í miklu uppáhaldi hjá mér.

    Það lítur út fyrir að Baros sé á förum, er einhvern veginn ekki að fitta inn í liðið og er það miður því þetta er klassaleikmaður. En að sjálfssögðu gengur liðið fyrir og lítil fórn í Baros ef liðið verður betra og líklegra til afreka.

Carson um Juventust leikinn

Djib spilar innan 10 daga!