Liverpool 1-1 Burnley

Liverpool mistókst að vinna fyrsta heimaleik í deildinni eftir að hafa sigrað síðustu 24 leiki á Anfield þegar liðið gerðir 1-1 jafntefli gegn Burnley í mjög pirrandi fótboltaleik.

Klopp gerði tvær nokkuð stórar breytingar á liðinu og Curtis Jones byrjaði á miðjunni í stað Jordan Henderson og Neco Williams tók við keflinu af Trent Alexander Arnold í hægri bakverðinum. Þessir tveir bráðefnilegu leikmenn stóðu sig virkilega vel í leiknum og þá sérstaklega Jones sem var stöðugt að koma sér í góðar stöður og hefði mögulega átt að skora eins og eitt mark.

Liverpool liðið var mikið betra megnið af leiknum og fengu fullt af ágætis tækifærum en voru ekki að skjóta nægilega vel á markið og þau skot sem fóru á réttan stað enduðu ansi oft í útlimunum á Nick Pope, markverði Burnley, sem var að sýna og sanna af hverju hann er einn af betri markvörðum deildarinnar. Ef ekki hefði verið fyrir Pope þarna í markinu hjá þeim þá hefði Liverpool líklega haldið inn í hálfleikinn með þrjigga eða fjögurra marka forystu.

Andy Robertson fann þó leið framhjá Nick Pope í marki Burnley þegar hann mætti frábærri sendingu Fabinho inn í teiginn og stangaði boltann í netið af nokkuð löngu færi. Frábær skalli frá bakverðinum og geggjuð sending frá Fabinho. Rétt rúmlega verðskuldað mark Liverpool sem leiddi 1-0 í hálfleik.

Það var svipað upp á teningnum fyrri hluta seinni hálfleiks. Liverpool sótti á Burnley og hefðu átt að nýta færin sín betur. Klopp undirbjó tvöfalda skiptingu þegar um tuttugu mínútur voru liðnar af seinni hálfleik, Trent og Keita komu inn í stað Williams og Jones. Þá kallaði dómari leiksins til vatnspásu í leiðinni og þegar leikurinn hófst að nýju átti Burnley aukaspyrnu aftarlega á vellinum en nýttu tækifærið í að henda í smá leikkerfi í henni og sendu turnana sína fram. Boltinn barst úr spyrnunni til Jay Rodriguez í teignum sem skoraði með ansi góðu skoti framhjá Alisson og jafnaði leikinn. Það virtist hafa komið sem algjör skellur í andlitið á leikmönnum Liverpool og sló þá svolítið út af laginu og liðið varð rosalega æst og reyndu alltof mikið að þvinga allt í gegn. Burnley hins vegar tóku þá tök á leiknum og ógnuðu mikið.

Liverpool fékk áfram ágætis færi en skutu rosalega illa á markið. Andy Robertson var tekinn niður í vítateig Burnley rétt undir lok leiksins en líkt og svo ansi oft áður þá dæmdi dómarinn ekki vítaspyrnu og ekki var þetta skoðað í VAR frekar en fyrri daginn. Óvænt, óvænt. Augnabliki síðar á Burnley skot í slá eftir fast leikatriði og í blálokin klúðraði Salah dauðafæri með slöku skoti. Leikurinn endaði því 1-1 sem er rosalega fúlt að því leiti að þetta klúður skemmir ansi mikið fyrir Liverpool sem vildi setja hin ýmsu met, t.d. stigamet og met yfir flesta unna heimaleiki á leiktíð og eitthvað fleira í þeim dúr.

Heilt yfir var liðið ekkert slæmt og á köflum var liðið eiginlega bara fáranlega gott en þegar menn nýta ekki tækifærin þá getur þetta farið svona. Liverpool hefði átt að sjá til þess að Burnley væri ekki í leiknum snemma í fyrri hálfleik en það tókst því miður ekki og það er bara eins og það er.

Næsti leikur er gegn Arsenal á miðvikudaginn, vonandi verða menn búnir að reima á sig markaskóna fyrir þann leik!

21 Comments

  1. Þetta var svona “fastir í öðrum gír” leikur, en það verður þó ekki tekið af Burnley að þeir börðust og uppskáru stig þrátt fyrir þunga pressu meistarana.
    Svekkjandi úrslit en hey, hverjir eru Englandsmeistarar!

    YNWA!

    5
  2. Áhyggjur mínar af næsta tímabili mögnuðust í dag. Hefðum alltaf unnið þennan leik fyrir hálfu ári síðan.
    Fínt samt að taka stigið og missa þetta ekki í tóma vitleysu.
    YNWA

    4
  3. Aðal áhyggjuefnið eftir þennan leik er hvort liðinu takist að sýna að það geti haldið áfram á sömu sigurbraut þó Henderson sé ekki í liðinu. Munum að fyrsti leikurinn sem tapaðist á leiktíðinni var einmitt þegar Hendo var frá. Jafnvel þó svo hann sé ekki sá sem skori eða leggi upp mörk nema að litlu leyti, þá er eins og hann nái að drífa menn nægilega áfram til að krækja í stigin 3 þegar hann er inná. Virgil virðist ekki vera kominn í sama gírinn þegar hann er fyrirliði.

    Eins hefði maður viljað sjá Salah setja hann þarna í lokin, en það er auðvitað bara pjúra tilætlunarsemi að heimta meira frá þeim manni. Við erum að tala um að enginn leikmaður úrvalsdeildarinnar hefur verið fljótari að komast í 100 mörk+stoðsendingar í deildinni. Nú er þetta ekki í fyrsta skipti sem manni hefur fundist Salah hafa átt að gera betur fyrir framan markið, sem bendir til að hann gæti þess vegna átt eftir að bæta sig. Spáið í tölfræðinni hjá honum ef það myndi gerast?

    Annars er best að gera orð Shankly að sínum: “Aye, here we are with problems at the top of the league”.

    12
  4. Ég er fúll með Van Dijk – hefði átt að gera betur í varnarvinnunni og þetta skot átti aldrei að fara á markið. Ég er fúll með Salah og færanýtinguna hjá honum – úff hvað hann getur verið pirrandi á köflum, lélegar sendingar og laflaus skot á markið.

    En takk Daníel fyrir tilvitnun í meistara Shankly – bara að lesa það færir ró í sálartetrið eftir pirring fyrr í dag.

    4
  5. Mér fannst gaman að sjá hvað Curtis Jones var kröftugur og óragur á miðjunni. Hann gæti orðið fínasti liðsmaður í náinni framtíð.

    4
  6. En, úff hvað ég sakna þess að hafa fullan völl af áhorfendum. Það vantar svo rosalega mikið uppá stemmninguna. Þetta er ekki sama íþróttin svona.

    5
  7. Sko, ef okkar stærstu áhyggjur eru hvort við sláum hin og þessi met (sem virðast vera fleiri en sandkornin á ströndum Bennadorms) þá er ég bara rosalega ánægður. Við fáum stærsta titilinn þetta árið plús tvo skrautbikara. Lífið er stórkostlegt og að vera púllari með þetta lið okkar undir stjórn Klopps er magnað ævintýri. Megi það endast sem lengst!

    Núna má Klopp bara hugsa um síðustu leiki tímabilsins sem undirbúning fyrir næsta tímabil og vonandi nær hann að spila okkar frábæru unglingum í gang. Ég er hrikalega spenntur fyrir Elliot og Jones.

    6
  8. Einhvertímann kom að því að liðið tapaði stigum á heimavelli en sennilega hefði maður fyrirfram giskað á annað lið en Burnley til að ná þeim árangri. En vel gert Burnley og Jóhann.
    Sannarlega er liðið okkar nánast ósigrandi en greinilega er einhver slaki kominn í menn eftir sigur í deildinni. Sama á ekki við um MC sem virðast, því miður, full góðir fyrir minn smekk.
    Núna er um að gera fyrir Klopp að nota þessu síðustu leiki í deildinni til að skoða virkilega, og gefa smá reynslu, ungum leikmönnum sem sem geta bankað fast á dyrnar næsta vetur. Shagiri, Lallana, Milner og nú síðast Hendó gefa nú pláss í 20 manna hópinn fyrir þá ungu. Eins og bent hefur verið á eru Williams og Jones virkilega sprækir og reyndar bara góðir og barnið Elliott stefnir í eitthvað dæmi seinna meir. Svei mér þá ef hann er ekki nálægt Owen á sama aldri. Að vísu er erfitt að bera nokkurn saman við Owen sem var algjört undur fyrir 20 ára aldur. Framtíðin er því sannarlega björt en mikið óskaplega hefði nú verið gaman að vera með einhverja keppni eftir fyrir Liverpool þetta tímabilið, td FA bikarinn. Ég er bikarþyrstur og erfitt að slökkva þann þorsta nema með því að vinna bikara. Ég segi nú ekki annað.

    2
    • MC eru ekkert fullgóðir, þeir hafa tapað 9 leikjum af sínum 35 og gert þrjú jafntefli. Ef einhverjir eru fullgóðir þá eru það við 😉

      Annars var þetta enn einn leikurinn þar sem við áttum að fá vítaspyrnu, eða a.m.k. að fá tilkall með tilkomu VAR. Það er greinilegt að dómararnir meta mikilvægi vítaspyrna mun minna hjá okkur en hjá flestum öðrum. Kannski er það rétt, þar sem við erum búnir að rústa deildinni, en siðferðislega er það mjög rangt.

      6
      • Svavar. Ég átti við MC væru full góðir fyrir minn smekk, þ.e. of góðir sem útleggst að ég myndi vilja sjá þá lakari. Þeir rúlluðu yfir okkar menn um daginn og eru komnir með betri markatölu. Liverpool hefur jú verið þekkt fyrir það gegnum tíðina að vera með betri markatölu heldur en staða í deildinni gefur til kynna. En eins og er skiptir það ekki öllu máli, titillinn er kominn í hús og næsta tímabil er það skiptir öllu máli. Hef líka fulla trú á mínu liði þó ég óttist að þeir vinni ekki deildina á næsta tímabili með 20 stiga mun. Góðar stundir.

        3
      • City eru búnir að tapa fleiri leikjum en LFC frá því keppni hófst að nýju. Það dugar skammt að taka nokkra 5-0 sigra ef þú tapar sirka þriðja hverjum leik.

        8
  9. Fyrrum Liverpool-maðurinn Dominic Solanke fer kátur í háttinn í kvöld. Skoraði loksins fyrir Bournemouth og meira að segja tvö mörk, í mjög óvæntum 4-1 sigri á Leicester. Er loftið að fara úr Brendan Rodgers á lokasprettinum?

    2
  10. Ég bara verð og vil endilega halda þessari umræðu á lofti því það er sterk skítafýla af þessu öllu saman.

    thisisanfield.com/2020/07/andy-robertson-rants-at-referee-after-burnley-draw-and-liverpool-fans-love-it/

    Það er eðlilegt að verða ,,fórnarlamb” hjá VAR-kerfinu annað slagið en þetta er orðið svo augljóst að það þarf að fara fram opinber rannsókn á þessu máli og umræða. Að sama skapi þarf að rannsaka hvort ekki sé verið að hjálpa ,,Manstu eftir júnæted” því það lítur allt út fyrir það.

    2
    • Já, þetta er mjög sorgleg niðurstaða og núna er nokkuð ljóst að bilið mun aukast enn meir hjá olíuliðunum og þeim hinum.

      1
  11. Ég hef ekki miklar áhyggjur af jafnteflinu á móti Burnley. Í 9 af hverjum 10 leikjum eigum við að vinna með þessa frammistöðu en fótboltinn er jú mögnuð íþrótt og því var þetta niðurstaðan.

    Ungu strákarnir eru vissulega efnilegir og hafa átt fína spretti. En hvort þeir komst í Liverpool klassa er en óvíst og alls ekki gefið. Þú þarft nefnilega að vera heimsklassa leikmaður og rúmlega það til að spila með Liverpool. Alexander-Arnold braust inn í liðið og er í dag með bestu bakvörðum í heimi ef ekki sá allra besti. Það er barríerinn sem þarf að ná til að verða Liverpool leikmaður enda erum við með eitt – ef ekki það allra besta – knattspyrnulið í heiminum í dag.

    Mikil svakaleg vonbrigði er svo niðurstaðan með ManCity. Það blasir við að eigendurnir eru að dæla peningum í liðið og fyrst þetta má eigum við bara eftir að sjá meira af þessu í framtíðinni – því miður.

    Sorgardagur fyrir enska boltann að mínu viti og draumurinn um “financial fair play” er fokinn út í veður og vind.

    Það að Liverpool hafi náð að verða enskur meistari á meðan þetta rugl hefur viðgengst sýnir hversu risastórt afrek það í raun og veru er.

    Áfram Liverpool!

    12
  12. Newcastle yfirtakan hlýtur nú að fljúga í gegn. City eiga eftir að eyða 300m í sumar nú þegar ffp skiptir ekki lengur málu.

    6

Liðið gegn Burnley

Heimsókn til höfuðborgarinnar