Luton á morgun

Mikið skelfing er ég pirraður. Ég er pirraður út í Tom Hicks, ég er pirraður út í George Gillett, ég er pirraður út í Rick Parry, ég er pirraður út í Rafa Benítez, ég er pirraður út í alla leikmenn Liverpool nema þá Pepe Reina og Fernando Torres. Með öðrum orðum er ég bara ofsalega pirraður einstaklingur núna og nenni ekki fyrir mitt litla líf að skrifa einhverja upphitun gegn liði sem er tveimur deildum fyrir neðan okkur. Nema hvað, kannski er þetta bara assgoti góður tímapunktur til að byrja að hugsa um eitthvað annað en það búllsjitt sem virðist vera í gangi í kringum félagið okkar.

Ég mun ALDREI gefast upp á því að fylgjast með liðinu mínu spila, og því mun ég setjast fyrir framan breiðtjaldið á Players annað kvöld sem fyrr. Ég fer ekki fram á mikið, enda afskaplega auðvelt að gera mér til geðs. Ég fer í rauninni bara fram á eitt. Ég fer fram á það að þessir ellefu einstaklingar sem hefja leikinn gegn stórliði Luton annað kvöld HAFI ÁHUGA Á ÞVÍ AÐ SPILA FYRIR LIVERPOOL FC. Ég vil ekki sjá Stevie G með hangandi haus og grautfúlan inni á vellinum. Ég vil ekki sjá John Arne Riise á leikskýrslu (og ég á ekki bara við þennann leik). Ég vil sjá menn inná sem berjast fyrir málstaðinn. Ef það eru einhverjir af þessum ofborguðu prímadonnum sem hafa ekki hugann fullkomlega við að leggja sig fram annað kvöld, þá vil ég sjá leikmenn úr varaliðinu frekar. Ég væri meira að segja frekar til í að sjá leikmenn úr undir 10 ára liði Liverpool spila þennann leik frekar en áhugalausar stjörnur.

Ég vil að við slátrum þessum leik fljótt og örugglega. Það skiptir akkúrat engu máli hvaða liði við stillum upp, leikmenn Luton ættu í vandræðum með að komast í liðið hjá varaliðinu okkar. Þetta er ekki meint sem neitt níð á Luton, síður en svo. Staðreyndin er bara samt sú að við eigum dýrari drengi í okkar varaliði heldur en eru í hópnum hjá Luton. Heildarverð leikmanna í varaliði Liverpool er mun hærra heldur en Luton liðsins, leyfi ég mér að fullyrða án þess þó að hafa farið í djúpa vísindalega rannsókn á málinu. Þeir leikmenn Liverpool sem spila þennann leik, þeir hafa nú virkilega gott tækifæri á að sýna fram á að þeir eigi skilið að klæðast rauðu treyjunni.

Ég ætla ekki að spá fyrir um það hvernig liðið verði skipað. Þess í stað ætla ég að velja liðið eins og ég myndi stilla því upp, og reyna að færa smá rök fyrir máli mínu:

Itandje

Arbeloa – Hobbs – Agger – Insúa

Babel – Lucas – Xabi – Leto

Crouch – Kuyt

Bekkurinn: Martin, Carra, Gerrard, El Zhar og Torres

Og þá kemur minn rökstuðningur:

Itandje: Einfaldlega út af því að hann þarf leiki, og það er búið að lofa honum báðum bikarkeppnunum. Hann hefur líka staðið sig vel í þeim leikjum sem hann hefur fengið. Eini sénsinn á að halda góðum varamarkvörðum er að láta þá fá einstaka leiki.

Arbeloa: Ég vil einfaldlega að Arbeloa verði okkar fyrsti kostur í hægri bakvörðinn. Hann býður okkur upp á ýmislegt sem Finnan hefur ekki. Nú vil ég bara hreinlega sjá strákinn spila nokkra leiki í röð í sömu stöðunni, byrja núna.

Hobbs: Þeir félagar Carra og Hyypia hafa ekki verið að gera gott mót undanfarið og þá sérstaklega ekki sá gamli. Mér hefur fundist Hobbs “lúkka” vel þegar hann hefur fengið sína sénsa, og ég hef algjörlega fulla trú á því að hann ráði við framherja Luton. Góð reynsla fyrir kjúllann og ég er viss um að hann muni standast pressuna.

Agger: Kappinn var á bekknum í síðasta leik, hann þarf leikæfingu núna og þetta er besti mögulegi leikurinn fyrir það.

Insúa: Þessi strákur hefur spilað feykilega vel fyrir varaliðið og getur ekki verið verri kostur en Riise. Hann fékk tækifæri með aðalliðinu undir lok síðustu leiktíðar og stóð sig vel. Ég vil fara að sjá hann fá fleiri tækifæri.

Babel: Ég set Babel á hægri kantinn. Ég veit að það eru margir sem vilja sjá hann frammi, en ég er á því að hann nýtist okkur best á kantinum. Hann er einfaldlega sá eini sem við höfum sem er með virkilega góðan hraða og getur spilað báðar kantstöðurnar. Hann er réttfættur og mér finnst hann leita oft of mikið að skotinu þegar hann er vinstra megin og er ekki að leita nægilega vel að sendingarmöguleikum. Set hann því upp hægra megin svo hann þurfi þess frekar.

Lucas: Þarf fleiri leiki og ég vil einfaldlega sjá miklu meira af þessum strák.

Xabi: Hann er búinn að vera nánast óþekkjanlegur í þessum tveim leikjum eftir meiðslin. Eins og einhvern tíman var sagt; “Form is temporary, class is permanent”. Plís komdu aftur kæri Xabi, væri fínt ef það yrði bara annað kvöld. Þá skal ég gleyma því sem ég sá í síðustu tveim leikjum.

Leto: Það er ekki eins og að vinstri kantmenn okkar hafi verið að láta mann missa mikið munnvatn úr hrifningu. Nei, munnvatnið hefur verið að spýtast út af meiri krafti en svo, það flokkast meira undir fruss þegar maður er að rífast við eitt stykki breiðtjald (maður gerir þetta aftur og aftur, þó svo að maður viti að sjónvarp er einfaldlega ekki orðið svo gagnvirkt að það hafi einhverja þýðingu). Ég segi því, af hverju ekki að gefa svona strák sénsinn. Hann getur ekki verið verri en Riise í þessari stöðu. Hann hefur það líka fram yfir Kewell að hann getur hlaupið. Það er enginn séns tekinn með því að setja hann í liðið.

Crouch: Við erum ekkert að drepast úr kostum í framlínunni þessa dagana á meðan hitinn á öðrum framherjum en Torres er svipaður og á Norðurpólnum. Crouch er þó oft líklegur og ég vil hreinlega sjá hann fá nokkra leiki og setja nokkur mörk til að koma einhverjum á einhvers konar “rönn”.

Kuyt: Talandi um kulda. Ástæðan fyrir því að ég set hann í liðið er einfaldlega vegna þess að ég hef ennþá smá trú á honum sem leikmanni, en það sama get ég ekki sagt um Voronin blessaðan. Kuyt hefur sýnt það að hann getur þetta alveg, það er bara alltof langt síðan hann sýndi það. Mér fannst þeir Kuyt og Crouch oft ná vel saman á síðasta tímabili, ég vil gefa þeim tækifæri á að endurtaka það annað kvöld. Ef ekki, þá fer ég að telja niður dagana sem þeir eiga eftir að leika í Liverpool treyjunni.

Bekkurinn: Ég set Carra, Gerrard og Torres á bekkinn. Carra einfaldlega vegna þess að hann getur komið inn í hvaða stöðu í vörninni sem er ef eitthvað gerist þar. Mér hefur fundist hann ekki svipur hjá sjón undanfarið og virðist hafa gleymt því algjörlega hvernig það á að taka niður bolta og spila honum á næsta mann (maður í röð 158 í stúkunni er ekki næsti maður). Ekki það að hann hafi verið manna bestur í því í gegnum tíðina, en það er langt síðan hann hefur verið svona slæmur í því. Stevie þarf bara að hugsa sinn gang. Hann hefur jú sett mörg mörk í vetur, en það er alltof oft sem við sjáum hann fyrstan manna hengja haus. Hann verður að taka smá ábyrgð líka drengurinn. Það er fínt fyrir hann að horfa aðeins á leikinn af hliðarlínunni og koma svo inná ef á þarf að halda. Hann má líka alveg við smá hvíld. Torres þarf hvíld og ég vil ekki sjá áhættu tekna með hann. Þetta eru ekki nettustu varnarmennirnir í bransanum sem spila í vörn Luton, og ég var hreinlega að spá í að taka Torres alveg út úr hópnum. En það getur verið gott að hafa hann á bekknum ef á þarf að halda.

Svona myndi ég stilla þessu upp, en það er 185% öruggt að Rafa sé ekki á sama máli. En Rafa minn, gerðu það fyrir mig að breyta hlutunum ef þeir eru ekki að ganga upp. Þá er ég ekki að meina fyrstu skiptingu á 65 mínútu, þá næstu á 75 mínútu og þá þriðju á 85 mínútu. Ég er búinn að fara vel yfir knattspyrnulögin, og það skipta leikmönnum inná á öðrum tímapunktum. Ég veit að Hobbs, Insúa og Leto fá ekki sénsinn í þessum leik, en það breytir því ekki að ég myndi stilla þeim ÖLLUM upp í byrjunarliðinu. Þeir geta hreinlega ekki annað en orðið bæting á því sem við höfum séð frá öðrum og reyndari leikmönnum í undanförnum leikjum.

Luton á Anfield, það á bara að vera sigur og það stór sigur. Ég ætla að spá okkar mönnum 4-0 sigri og menn loksins rífi sig upp á rasshárunum í eitt skipti fyrir öll. Eigum við ekki að segja að Babel skori 1 kvikindi, Lucas 1, Kuyt 1 og Crouch 1.

35 Comments

  1. Í þokkabót er búið að selja einhverja leikmenn frá Luton frá síðasta leik svo maður finnur nánast til með þeim að vera að fara á Anfield. Held að þrátt fyrir allt tökum við þennan leik ansi létt, minnst 3-0.

  2. Mikið ROSALEGA er ég sammála þessari upphitun. Allri! Nema að ég á erfitt með að sjá Kuyt inná og væri alveg til í að fá bara Babel frammi og El Zhar á kantinn, jafnvel Putterill.
    En er svo sammála því að Kuyt er illskárri en Voronin með taglið!
    Annars ekki orð meir. Frábær upphitun!!!!!

  3. Sammála með allt nema Arbeloa. Betri sóknarlega en Finnan en mun slakari varnarmaður. Ég vil frekar hafa bakvörð sem er ekki góður fram á við en verst vel heldur en bakvörð sem sækir vel og verst illa. Og Finnan er alls ekki slakur fram á við þótt menn reyni að halda því fram. Arbeloa er ágætis leikmaður en fyrir mitt leyti þá finnst mér Finnan mun betri.

    Varðandi ruglið í klúbbnum þá er þetta ágæta félag okkar orðið að brandara síðan þessir vitleysingar keyptu klúbbinn.

  4. Það liggur ljóst fyrir að Carra verður í liðinu og þá sem fyrirliði nema að hann meiðist í dag samkvæmt því sem kemur fram á Liverpool síðunni þar sem hann er að fara að spila sinn 500 leik fyrir klúbbinn. Gott fyrir hann!!

  5. Já sæll Helgi. Hafði Arbeloa ekki Messi í vasanum á móti Barca?? Lélegur varnarmaður, hvað bara öll ljós kveikt en enginn heima. 😉 Finnan er að syngja sitt síðasta.

  6. Well, shit. Agger er meiddur, AFTUR. Sama brotið að taka sig upp og valda honum vandræðum.

    Skrtel kemur inn í liðið í hans stað, og miðað við það sem segir á .tv verður Carra pottþétt í byrjunarliðinu enda hans 500-leikur fyrir klúbbinn.

    Þannig að ég er bara svona 98.27% sammála upphituninni þinni Steini. 😉

    Samt, hversu pirrandi er það að eiga langbesta varnarmann Norðurlandanna og geta ekki notað hann í einhverja fimm fokking mánuði vegna meiðsla sem flestir aðrir taka mest tvo mánuði í að jafna sig af?!

  7. Sissoko var líka góður á móti Barca. Fannst Arbeloa mjög sterkur í byrjun tímabils en í undanförnum leikjum þá hefur hann bara varist mjög illa. Það er bara staðreynd og þótt hann hafi pakkað Messi saman þá breytir það því ekki. Man Utd sóttu eingöngu upp kantinn hans gegn okkur þar sem Evra lék sér að honum. Prófaðu að fylgjast með Arbeloa og sjáðu hversu oft kanturinn hans er opinn af því að hann er kominn langt út úr stöðu.

    Annars þá er ekki hressandi að heyra að Agger hafi meiðst aftur
    http://www.liverpoolfc.tv/news/drilldown/N158405080114-1353.htm

  8. Andskotinn sjálfur bara. Jæja, Carra inn og Agger út, gat ekki séð þetta fyrir 🙂

    En gott að sjá að einhverjir eru á sama máli og maður sjálfur. Þakka góð orð.

  9. Vá, ég ætlaði einmitt að segja það sama og Kristján Atli í númer 6. Algjör snilldar upphitun. Ég er m.a.s. orðinn spenntur aftur fyrir leiknum. 🙂

  10. Mér líst afar vel á þessa upphitun.
    Mikið vona ég bara Rafa, Gillett og Hicks lesi þetta líka.

  11. Ég er sammála honum Magga nr. 2, Ég vil ekki Neanderthalsmanninn í framlínuna og ekki inná völlinn yfirleitt. Ég var hrifinn þegar Rafa keypti hann en svo hefur hann ekki staðið undir neinu, sérstaklega í vetur. Það hljóta að vera mikil vonbrigði fyrir Rafael, sá maður. Babel frammi og hvern sem er á kantinn annan en Riise og Kewel sem ég hélt að væri svo góður en svo getur hann ekki neitt. Hræðilegt!
    Ég held að Babel sé okkar helsta von með Torres í framtíðinni. Ef það er einhver framtíð fyrst kanarnir eru svona mikil fífl og Rafael fær engan vinnufrið fyrir endalausum leiðindum.

    YNWA

  12. Takk fyrir flotta upphitun SSteinn. Flott pæling hjá þér.

    Ég vona að Leiva verði í liðinu á morgun. Eins langar mig að sjá meira af Nabil El Zhar. Ég hugsa að Skrtel (“Skurtel”) verði við hlið Carra. Flottur leikur fyrir strák að byrja. Agger hefði byrjað en hann er frá -hlýjar hugsanir til þín Agger. Erfið leiktíð hjá strák en hann kemst í gegnum þetta og rís sterkur upp. Torres verður pottþétt í byrjunarliðinu og ég spái því að Gerrard byrji á bekknum. Sérstaklega þar sem Carra verður með fyrirliðabandið. Enda er þetta pottþéttur leikur til að koma Xabi í gang og gefa Leiva tækifærið.

    Það er best að reyna að hættta að pæla allt of mikið í fjölmiðlum þessa dagana og gera það sem manni finnst skemmtilegast.
    …. horfa á Liverpool leiki!!

    Ég er ekki í nokkrum vafa að við klárum þetta á morgun. Svo væri nú gaman að fá litla liðið … Havant.. eða hvað það heitir aftur í næstu umferð.. 🙂

  13. Æi, Agger. talandi um að strá salti í sárið. Bad timing, ljúfastur. Og ég sem var að vona að Gillet og Hicks myndu reynast vera eitthvað svona fríkað dæmi um að jakkafataklæddum buisnessmönnum frá Bandaríkjunum væri treystandi. Vitleysa er þetta!!

  14. Benitez segist ætla að nota sitt sterkasta lið…eða svo heyrði ég frá félaga mínum

  15. Góð upphitun, ekki hægt að horfa fram hjá því, bror.

    Agger og allt það sem tengist honum þessa leiktíð er náttúrulega bara brandari, grey strákurinn, vorkenni honum mjög svo.
    Vona að Skrtel byrji inná á morgum við hlið Carra, verður að hafa reynslu við hliðina á þeim nýja.

                 Itnadje
    

    Arbeloa Carra Skrtel Aurelio
    Babel Lucas Xabi Leto
    Crouch El Zahar

    En þetta verður 4-0 á morgun, Carra 1, Babel 1 og Crouch 2!!

  16. Mjög flottur pistill. Líka sammála með liðið að mestu leiti en við vitum að Carra mun spila og ég er ekki frá því að nýji gæjinn Skrtel detti í byrjunarlið ef hann er kominn í form aftur. Og ég vil Kuyt líka sem lengst frá liðinu, annaðhvort Torres inn í liðið eða Babel framm og El Zhar á kantinn. Áfram Liverpool!!!

  17. Blessaður Steini og gleðilegt ár.
    Verður þú ekki bara að skella þér á leikinn svo þeir vinni þetta.. það hefur ekki klikkað hingað til! 🙂

    kveðja,
    Bjarni Kristjánsson
    (Glory Glory Man United).

  18. Sæll sjálfur Bjarni og árið…

    Ég mun ljá liðinu krafta mína næst þegar tekið verður á bláliðum frá Mílanó borg 🙂

    Annars var ónefndur dyravörður í Albert Dock að spurja um þig um daginn 😉

  19. Ég mælist til að SSteinn horfi héðan í frá á hálftíma syrpu af Duncan Ferguson og Gary Neville fyrir hvern pistil.

  20. I fyrsta sinn á minni 20 ára löngu ævi í dag hugsaði ég, “ég vildi að ég héldi með öðru liði”. Ég var fljótur að bæja þessari hugsun frá og vona bara að liðið okkar verði selt aftur til manna sem vita eitthvað í sinn haus. Það á að reka Gillett og Hicks en ekki Rafa!!!

    Frábær upphitun sem ég er að mestu sammála, en væri eins og margir aðrir hér til í að sjá El Zhar inni í liðinu. Agger meiddur en einu sinni. Vonum bara að hann komi sterkur eftir sumarfríið.

    Um Skrtel kaupin segi ég bara eftirfarandi: Hver vissi hver Hyppia var? Hver vissi hver Henchoz var? Hver vissi hver Agger var? Hver vissi hvar Skrtel var?

  21. Makkari, hvernig í ósköpunum getur þér verið svo hrikalega illa við einhverja eina persónu að mælast til þessa? Og ég sem hélt að þú værir vinur minn 🙂

    Annars náði ég hreinlega ekki punktinum þínum, hvað fær þig til að segja svona hluti sem þú veist að eru verri fyrir mig heldur en að ég yrði algjörlega úrbeinaður lifandi með bitlausum borðhníf.

  22. Því þetta er líklega skemmtilegasta lesning sem ég hef séð eftir þig á netinu. Greinilegt að það sakar allavega ekki að hafa þig nett pirraðan við lyklaborðið. Grunaði að þessir tveir leikmenn gætu veitt þér nægilegt motivation. Gætum svosum bætt Totti í syrpuna en það væri líklega aðeins of mikið af því góða 🙂

  23. Djísús, þarna fórstu alveg með það. Hin heilaga þrenning með Fransesco FallOver líka.

    En gott að vita að þetta var dulbúið hrós en ekki hrein illgirni 🙂

  24. Ég legg til að Makkarinn verði dæmdur fyrir glæpi gegn mannkyninu. Að leggja svona óskapnað gagnvart jafn saklausum, ungum, hjartahreinum dreng og SSteinn er. Þetta er svívirða! 😉

  25. Er sammála þér þarna með rauðhærða frænda frá Noregi, að hann eigi ekki að vera á skýrslu. Það er ótrúlegt að sjá hann þarna á vinstri kanntinum þar sem hann hefur ekkert að bjóða liðinu. Hvað varð um Kewell, hef ekki séð hann í nokkra leiki. Svo skil ég ekki af hverju Babel fær ekki að spila meira og sérstaklega í ljósi þess að Riise getur ekki blautann og Kewell er meiddur eða í feluleik. En gaman væri að sjá Babel fá sénsa frammi með Torres.

    En ég er algerlega ósammála þér með Kuyt þar sem ég hef enga trú á honum lengur, nenni ekki að rökstyðja það aftur, minnir að ég hafi gert það alloft hér á blogginu.

    Svo er bara að lægðin í liðinu fari að breytast í hið gagnstæða og við bítum frá okkur það sem eftir lifir leiktíðar!!!

  26. Gæti ekki verið að Babel eigi við mætingarvandamál að stríða, eins og hann á við í landsliðinu. Að hann mæti of seint á æfingar og jafnvel í leiki.

    Þess vegna sé hann ekki að spila meira en hann gerir.

  27. Nei, held ekki Elías. Það er alveg á hreinu að ef hann væri að mæta illa svona almennt, þá væri refsing Rafa mun harðari en þetta. Ég er algjörlega handviss um að Rafa vill bara ekki henda honum of fljótt út í djúpu laugina.

  28. en hvers vegna hefur Crouch aðeins byrjað fjóra leiki í deildinni ???? það er ekki eins og Kuyt (12 byrjunarliðsleikir í deild) og Voronin (10 byrjunarliðsleikir í deild) hafi verið að gera frábæra hluti þegar þeir hafa spilað samt hafa þeir fengið miklu fleiri leiki en Crouch

  29. Það er frekar hæpið að menn séu að rakka niður Voronin, Kuyt og Benayoun fram og til baka. Enginn af þeim reyndar, fyrir utan Benayoun, held ég að gæti meikað það hjá hinum stóru liðunum en þetta eru ekkert slæmir leikmenn. Hins vegar er verið að spila þeim alveg fáránlega.
    Skil alveg að Benítez fái smá samúð núna eftir hvernig þessir Kanasauðir eru búnir að koma fram við hann en það er enginn Gillette eða Hicks búinn að snúa upp á höndina á Benítez og láta hann spila box-spilaranum Voronin úti á kannti. Fer enginn að segja mér að Kanarnir hafi látið Benítez spila Kuyt eins langt frá marki og hægt er og helst nánast í bakverði. Ég hef verið á móti þessum kúrekum frá upphafi en það er ekki hægt að kenna þeim um spilamennsku Liverpool. Vandamálið er einfaldlega að við erum ekki að ná því mesta út úr neinum leikmanni liðsins, ekki einu sinni Torres því með betri þjónustu gæti hann verið búinn að skora jafnvel fleirri mörk.

  30. Torres þykir víst hafa skorað alveg sæmilega mörg mörk, m.t.t. hvernig markaskorun hans var hjá A. Madrid. Það að ætla að skella því alveg á Benitez að Voronin og Kuyt séu eins fimir með boltann og valtari er ansi hart. Í síðustu leikjum hafa þessir indælu menn undantekningalaust sótt í átt að sínu eigin marki og gefið sendingu til baka þegar þeir fá boltann. Það er auðvitað alveg skiljanlegt í mörgum tilfellum, en þegar þeir gera það í 100% tilfella þá er ekki skrítið að þeir séu ekki að skora.

  31. Þegar þú ert orðinn pirraður, Ssteinn, þá er fokið í flest skjól. Ég samt býð þig velkominn í hóp pirraðra Liverpool aðdáenda sem gerist æ stærri með hverjum leiknum.

    Ég er samt að reyna að stemma mig aðeins niður í pirringnum og líta á málin eins jákvætt og mögulegt er. Pressan er náttúrulega og hefur verið virkilega hávær þegar kemur að einhverjum vandræðum í boltanum og hvað er stærra en að reyna að kippa fótunum alveg undan “litla” stórveldinu Liverpool.

    Ég bara get varla trúað því að Hicks hafi tjáð sig opinberlega um að hann hafi rætt um/við Klinsmann í miðju “óveðrinu” sem átti sér stað í nóv/des. Það kannski skýrir óánægjuna hjá Benitez þegar hann lét eins og fífl á blaðamannafundinum forðum. Ég er eiginlega farinn að finna til með Benitez og finnst hann vera farinn að verða gerður að blóraböggli í þessu stóra “Bandaríkjamáli”.

    Ég dreg ekki af gagnrýni minni á of varnarsinnaðann Rafa og hef í raun aldrei gert. Hinsvegar gef ég honum það sem hann á skilið og það er að hann hefur komið saman fínum hóp sem hægt er að gera betri með því að skipta út 4-6 leikmönnum og þá getum við farið að tala um alvöru atlögu að enska meistaratitlinum. (Það fer að sjálfsögðu eftir því hvaða menn það eru sem koma inn).

  32. Fyrir þá sem eru í einhverjum Skrtel pælingum þá verður drengurinn EKKI með í kvöld þar sem hann var ekki skráður hjá Liverpool FC þegar fyrri leikurinn fór fram.

    Þið getið því algjörlega gleymt því að hann verði í vörninni í kvöld.

  33. Ég var að lesa það einhversstaðar að leiknum gæti verið frestað vegna bleytu. Vona samt að við spilum í kvöld því við höfum ekki efni á að vera spila frestaða leiki.
    Áfram Liverpool.

Áframhald sápuóperunnar! (uppfært x4: Hicks talaði við Klinsman!!!)

Rafa vill vera áfram