Einum leik frá Wembley – Upphitun fyrir Fulham

Nítíu mínútur frá Anfield South. Einn leikur á milli Liverpool og fjórtánda úrslitaleiksins í Mjólkubikarnum/Deildarbikarnum/Orkudrykkjabikarnum. Eitt Lundúnalið stendur á milli Liverpool og tækifæris á að sigra þessa keppni í tíunda sinn. Andstæðingurinn er Fulham, lið sem Liverpool hefur haft frábært tak á síðasta áratug, en líka lið sem veit að þessi keppni er þeirra besti séns á bikar í mörg mörg ár. Þeir vita líka að þeir geta komist yfir á móti Liverpool, hafa gert það tvisvar í tveim leikjum á þessu tímabili þrátt fyrir að hafa að endingu tapað báðum á ótrúlegan hátt.

Þetta viljum við sjá aftur….

Andstæðingurinn

Fulham eru að eiga fullkomið meðaltímabil. Þrátt fyrir að hafa tapað fjórum af síðustu fimm leikjum í deildinni eru þeir í þrettánda sæti, átta stigum fyrir ofan Luton. Þeir þurfa því ekki að hafa teljandi áhyggjur af sæti sínu í úrvalsdeildinni, en ólíkt í fyrra er nánast ómögulegt að þeir nái að stelast í Evrópusæti. Deildarikarinn er hins vegar möguleiki liðsins á sínum fyrsta alvöru bikar.

Meiðslalistinn er ekki langur hjá Fulham. Adama Traore er ennþá í burtu og þá er sá meiðslalisti búin. En þrír leikmenn eru frá í Afríkukeppninni, Alex Iwobi, Fodé Ballo-Toure og Calvin Bassey. Touré er sá eini þessara fjögurra sem hefur ekki spilað mikið í vetur og Fulham munu sakna þeirra í þessum leik, sérstaklega Iwobi.

Sálfræðin í þessum leik verður áhugaverð. Liverpool hafa unnið báða leikina við Fulham á tímabilinu, í deildinni og deildarbikarnum. Í bæði skipti hafa Fulham komist yfir eftir að hafa hreinlega spilað betur en Liverpool á löngum köflum. Sem íþróttamenn geta Fulham farið í tvær áttir með þetta. Annarsvegar vonleysið, að sama hversu vel þeir spili geti þeir ekki unnið okkar menn. Hin leiðin er að þeir hugsi að þeir geti sigrað okkar menn, þeir þurfi bara að halda út leikinn. Ég þekki ekki hugarfar liðsins vel en hlakka til að fylgjast með hvernig þeir bregðast við mótlæti í leiknum.

Okkar menn

En er barist á öllum vígstöðvum. Sigurinn gegn Bournemouth um helgina var alvöru áskorun á Arsenal og City, tala nú ekki um að við vorum með eitt yngsta lið í deildarleik í manna minnum. Deild á sunnudegi, deildarbikar á miðvikudegi og svo bikarinn um helgina. Þetta er alvöru keyrsla.

Svo virðist sem meiðslalisti Liverpool gæti loksins farið að þynnast aðeins. Samkvæmt Lijnders þá mun Robbo fara með liðinu suður og Trent og Szobozlai gætu verið í hóp um helgina. Hann sagði líka þær gleðisfréttir að ekkert væri að Curtis Jones. Verðum að gefa honum rosalegt hrós fyrir að átta sig á að hann gæti verið að meiðast og hafa þá einfaldlega látið vita af því í unnum leik.

En stóra spurningin er hvernig við stillum upp í leiknum. Undir venjulegum kringumstæðum myndi ég halda að b-liðið yrði notað gegn Norwich um helgina og sterkasta liðið á morgun. Málið er að eins og meiðslalistinn er þá er b-liðið eiginlega a-liðið.

Kelleher er öruggur í ramman. Ég held að Klopp haldi sig við Van Dijk og Konate í hafsentinum, þó það væri ekki óvænt að annar þeirra setjist á bekkinn í þessum og hinn á móti Norwich. Joe Gomez heldur áfram að dekka vinstri bakvörðinn (og byrjar í fyrsta sinn í undanúrslitum deildarbikarsins) og hægra megin fær Bradley að halda áfram sínu góða starfi. Maður nánast slefar að tilhugsuninni um hvað hann gæti orðið góður.

Á miðjunni verður MacAllister í sexunni áfram og ég held að Elliot fá að halda sinni stöðu. Spurningin er hvort Gravenberch komi inn í stað Jones, sem ég held að verði raunin. Hollendingurinn hefur ekki ennþá náð flugi með Liverpool en vonandi er það að breytast.

Svo er það framlínan. Ég held að Gakpo fái að koma inn í miðja framlínuna og sitthvorum megin við hann verði Jota og Nunez. Það er samt engin blanda af þessum fjórum frábæru leikmönnum sem kæmi mér á óvart. Þetta verður sem sagt svona ef ég reynist sannspár:

 

Spá.

Ég talaði aðeins um hugarfar leikmanna Fulham áðan. Það sem við sáum á móti Bournemouth er að Liverpool er með frábært hugarfar. Ég held að okkar menn vilji ólmir komast aftur á Wembley og muni klára þennan leik 3-1. Svo einfalt er það.

4 Comments

  1. Ég held að það henti okkur vel að þeir þurfa að sækja í þessum leik. Þeim dugar ekki að pakka í vörn og við erum aldrei að fara að reyna að verja þetta forskot með því að verjast aftarlega.
    Ég spái því mjög opnum leik en ef við náum að skora fyrsta markið þá held ég að það dregur verulega úr þeira vígar hug.

    Ég spái að það gerist og við vinnum öruggan 0-3 sigur eftir stórskemmtilegan leik.

    3
  2. Sæl og blessuð og takk fyrir góða upphitun.

    Má maður vera bjartsýnn? hefur það áhrif á orkustig liðsins? hittni og úthald? Fróðlegt væri að sjá þær eðlisfræði-formúlur!

    Alténd – miðað við kraftinn í okkar mönnum þá sýnist mér lítil ástæða vera til að fyllast svartsýnisdrunga, hvað þá að örvænta. Þeir virðast vera búnir að finna herslumuninn (ísl. fyrir ,,x-faktorinn”) og nú væri verulega gaman ef Nunezinn okkar héldi uppteknum hætti og skoraði svo sem tvö mörk.

    Spái 2-2. Það nægir!

    2
  3. Sælir félagar

    Takk fyrir góða upphitun Ingimar. Fulham á sínum heimavelli er mjög mikil áskorun því þeir geta gert öllum liðum grikk þar. Ég tel að þetta verði hunderfitt og ekki gott að spá en mín spá er 1 – 1.

    Það er nú þannig

    YNWA

    2
  4. Ég sagði eftir seinasta leik að núna kæmi þrennan hjá Darwin Nunez og ég ætla að standa við þá spá.
    Verðum að sigra þennan leik og komast í úrslit á móti Chelsea

    2

Gullkastið – Liverpool á flugi

Liðið er komið