Stelpurnar fá United í heimsókn – síðasti leikurinn á Prenton Park

Það verður nóg að gera hjá liðunum okkar núna í dag. Akademían spilar núna kl. 12 gegn Palace (enginn Danns í liðinu… #justsayin), strákarnir spila jú gegn Spurs kl. 15:30 (sjá upphitunina frá því í gær), og kl. 13 mæta stelpurnar okkar á Prenton Park og freista þess að hirða 4. sætið í deildinni af stöllum sínum í United.

Bara þessi barátta um 4. sætið gerir leikinn merkilegan, en það bætist síðan við að í vikunni var tilkynnt að Liverpool Women muni leika heimaleiki sína á St. Helens leikvanginum frá og með næstu leiktíð, og það þýðir að liðið kveður Prenton Park með leiknum í dag. Þessi völlur sem er heimavöllur Tranmere Rovers hefur dugað liðinu ágætlega síðustu árin, en nú er kominn tími á uppfærslu og því mun liðið færa sig. St. Helens er vissulega lengra frá miðborg Liverpool heldur en Prenton Park, en völlurinn sem slíkur er betri. Það búa um 100.000 manns í St. Helens, og hann er sirka miðja vegu milli Liverpool og Manchester, en þó heldur nær Liverpool og tilheyrir því svæði. Leikvangurinn hefur fyrst og fremst verið notaður fyrir rugby leiki, en tímabilið í rugby heiminum hefst í febrúar og stendur fram á sumar, svo stelpurnar okkar hafa hann einan fyrir sig alla haustönnina og fram í febrúar. Planið er jafnframt að leggja nýtt gras á völlinn sem mun gera hann á pari við velli í úrvalsdeildinni. Auk þess fylgdi sögunni að planið væri að spila fleiri leiki á Anfield, þ.e. vonandi ekki bara gegn Everton, og nú þarf að fara að vinna leiki á Anfield!

Nóg um það, leikurinn í dag er það sem skiptir máli, og það eru engar breytingar á uppstillingunni frá síðasta leik:

Micah

Clark – Bonner – Fisk

Koivisto – Nagano – Hinds

Holland – Höbinger

Enderby – Roman Haug

Bekkur: Spencer, Parry, Daniels, Leath, Lawley, Kiernan

Bekkurinn er ansi þunnur, en þó er Lucy Parry komin til baka eftir höfuðhögg sem hún fékk í leiknum gegn Bristol í þarsíðustu umferð. Annars er Rachael Laws ennþá frá, svo Eve Spencer er aftur kölluð úr akademíunni til að verma bekkinn ef ske kynni að Teagan Micah skyldi meiðast. Þá er Mia Leath aftur á bekk, plús svo þær Yana Daniels, Melissa Lawley og svo markaskorarinn frá því gegn Chelsea; Leanne Kiernan.

Leikurinn er EKKI sýndur á Viaplay, en ætti að vera á The FA Player, ef fleiri streymi dúkka upp þá má endilega láta vita af því.

Á sama tíma eða þar um bil spila svo City og Arsenal, og sá leikur gæti haft mikið að segja um toppbaráttuna, en þá líka um það hversu mikla mótspyrnu United fá í sínum síðasta leik þar sem þær munu mæta Chelsea. Ef Chelsea verða enn í toppbaráttunni, þá er vonandi að þær nái að vinna, því það eykur líkurnar á að okkar konur taki 4. sætið. En auðvitað væri best að vinna bara í dag, og þá fara okkar konur langt með að tryggja það sæti.

KOMA SVO!!!

3 Comments

  1. Staðan 1-0 í hálfleik eftir gott mark frá Jennu Clark í uppbótartíma, enn og aftur eftir hornspyrnu. Búin að vera færi á báða bóga hjá báðum liðum, og svolítið um höfuðmeiðsli, Grace Fisk spilar með umbúðir um höfuðið. Já og Matt Beard fékk rautt spjald fyrir eitthvað sem hann sagði þegar Emma Koivisto flaug á auglýsingaskiltin. Nú reynir bara á Amber Whiteley á hliðarlínunni í seinni hálfleik.

    5
  2. Strákarnir í akademíunni unnu svo góðan 3-2 sigur á Palace eftir að hafa lent 0-2 undir, Kaide Gordon með stórleik í seinni hálfleik.

    6

Tottenham á heimavelli – Verður hefndin sæt?

Liðið gegn Spurs á Anfield