Bournemouth 0-3 Liverpool

Mörkin

0-1  Alex Oxlade-Chamberlain 35.mín
0-2  Naby Keita 44.mín
0-3  Mohamed Salah 54.mín

Leikurinn

Liverpool hafa gert góðar ferðir til Bournemouth síðustu tvö ár og þetta skiptið var engin undantekning. Leikurinn byrjaði með því að okkar menn voru mikið með boltann og leikskipulag heimamanna var klárlega að sitja aftarlega í vörn og beita skyndisóknum. Þrátt fyrir að vera mikið með boltann fyrsta hálftímann þá vorum við þó ekki að skapa nægilega opin færi. Salah var samt sprækur eftir hvíldina í miðri viku og ógnaði með skoti úr teignum og hættulitlum skalla.

Bournemouth voru að vinna boltann nokkrum sinnum á miðjunni og keyra hratt upp en vantaði gæði og sjálfstraust í að ógna almennilega enda meistari Virgil van Dijk í toppformi að slökkva alla vonarneista hjá þeim. Keita var ítrekaður sakamaður í að tapa boltanum á hættulegum stöðum sem gáfu skyndisóknir og skýrsluhöfundur var farinn að hlaða í grimman „Vondur dagur“ pistil um það hvernig Gíneu-maðurinn var að nýta illa sitt tækifæri í byrjunarliðinu. Nánar um það síðar.

Upp úr fyrsta hálftímanum meiddist Nathan Ake og þurfti að fara af velli og það átti eftir að hafa mikil áhrif á örlög heimamanna að missa út einn sinn besta mann. Beint eftir að búið var að ljúka aðhlynningu og skiptingu því tengdu þá hlóð Jordan Henderson í langa gullsendingu inn fyrir vörnina sem að Oxlade-Chamberlain kláraði snyrtilega á lofti framhjá hinum unga Ramsdale í markinu. 0-1 fyrir Liverpool og útlitið gott.

Rauði Mústanginn gíraði sig upp og herjaði á annað mark með ógnunum frá Salah, Firmino og Keita. Þó sprakk á dekki þegar að Lovren meiddist lítillega að því virtist og þurfti að fara af velli fyrir Alexander-Arnold með tilheyrandi tilfærslu á Gomez yfir í hafsentinn. Vonandi eitthvað léttvægt sem að heldur Krótanum kröftuga ekki of lengi frá vellinum á þessum krefjandi kafla í tímabilinu.

Skiptingin olli þó því að sóknarþungi Liverpool jókst upp hægri vænginn með TAA kominn á sinn stað og stuttu síðar náðum við að setja annað markið. Salah dró til sín alla vörnina rétt við vítateiginn og átti svo snilldar hælspyrnu inn fyrir á Keita sem tók vel við boltanum og slúttaði ennþá betur með utanfótar-töffaraskap í netið. Reiðilesturinn sem var í undirbúningi var að breytast í lofsöng 0-2 fyrir Liverpool. Litlu munaði að Salah setti þriðja markið rétt fyrir hálfleik en þetta dugði í bili.

0-2 í hálfleik fyrir Liverpool

Við hófum seinni hálfleikinn á sama stað og við hættum í þeim fyrri með því að dóminera boltann og heimamenn voru í miklum eltingarleik við skuggann af rauðliðum. Á 54.mínútu keyrði Keita að vörninni og átti frábæra sendingu á Mo Salah sem að lagði boltann snyrtilega framhjá markverðinum. Þremur mörkum yfir og leikurinn í raun búinn.

Rauði herinn slakaði á klónni næstu mínútur eftir þriðja markið og Bournemouth fengu skammvinnar sóknarmínútur en þeir virtust aldrei hafa trú á því að geta skorað mark framhjá Alisson í markinu eða vörninni leiddri af VVD. Ramsdale varði aftur vel frá Salah áður en að Curtis Jones fékk innáskiptingu fyrir sinn fyrsta úrvalsdeildarleik fyrir LFC.

Leikurinn tikkaði áfram í átt að óumflýjanlegum 3 stigum en Bournemouth splæsti í réttilega dæmt rangstöðumark áður en að Shaqiri kom inná fyrir AOC. Varamennirnir sameinuðust um skotfæri þegar að Jones reyndi skot á lofti eftir sendingu Svisslendingsins en lokafæri leiksins kom frá flottu skoti Henderson sem var vel varið með fingurgómum Ramsdale.

0-3 sigur Liverpool

Bestu menn Liverpool

Mulningsvélin mallaði vel í þessum örugga sigri og þegar einkunnagjöfin er gerð upp þá voru allir leikmenn á pari eða betur. Virgil var flottur í vörninni og hans örugga verkstjórn skilaði hreinu marki í fyrsta sinn síðan gegn Sheffield United í lok september. Oxlade-Chamberlain var sprækur og skoraði sitt fyrsta deildarmarki í vetur eftir að hafa sallaði inn mörkum í Meistaradeildinni. Milner og Henderson skiluðu öruggu dagsverki ásamt Robertson og Gomez.

Þeir sem sköruðu fram úr voru klárlega Keita og Salah með sitthvort markið og stoðsendinguna. Naby átti samt slakan fyrsta hálfleik og missti boltann ítrekað á hættulegum stöðum á miðjunni sem gáfu góðar skyndisóknir fyrir heimamenn. Salah var einnig mjög líflegur með mörg færi og því gef ég Mohamed heiðurinn af því að vera maður leiksins í dag.

Tölfræðin

Liverpool hafa núna unnið síðustu 5 leiki gegn Bournemouth með +3 mörkum og höfðu aldrei gert það gegn neinum öðrum andstæðingi. Nýtt met á miklu metatímabili. Aðra tölfræði má sjá hér fyrir neðan:

Vondur dagur

Meiðslalistinn hjá Eddie Howe en heimamenn misstu tvo af sínum bestu leikmönnum úr leik þegar að Nathan Ake og Callum Wilson þurftu að fara af velli. Það mun ekki hjálpa þeim í desember-baráttunni en Bournemouth hafa tapað 5 leikjum í röð eftir góðan sigur á Manchester United í byrjun nóvember og eru að sökkva niður töfluna.

Við vonum einnig að okkar maður Lovren sem fór meiddur af velli nái að jafna sig af sínum meiðslum enda kominn aftur í sitt toppform frá því að hann leysti meiddan Matip af hólmi.

Klopp á kantinum

Umræðan

Á pappír var þessi leikur aldrei að fara að valda okkur stórvægilegum vandræðum og sú varð raunin. En það þarf að mæta einbeittur í alla leiki og ekkert er sjálfsagt í ensku úrvalsdeildinni eins og dæmin sanna. Það sem ætti að vera í umræðunni er hversu frábærlega róteringar Klopp hafa gengið upp í síðustu tveimur leikjum. Shaqiri, Origi og Keita hafa allir spilað lítið en fá sénsinn í vikunni en gernýta sitt tækifæri með því að skora allir og vera almennt flottir í sínum frammistöðum.

Það hefur væntanlega verið truflandi að hafa annað augað á Salzburg í miðri viku en það er skylduverkefni sem þarf að klára til að komast upp úr riðlinum í CL. Okkar menn hafa hins vegar sýnt einstaka einbeitingu í sínum verkefnum og tekið alvarlega gömlu gull-klisjuna um einn leik í einu. Sem sagt, ósigraðir á toppi deildarinnar með 11 stiga forskot þegar að þessi orð eru skrifuð og í fantaformi fyrir næstu leiki. Megi það halda endalaust áfram!

 

YNWA

28 Comments

 1. Að horfa á Keita í seinni sérstaklega var eins og hann gjörbreyttist þegar hann fékk sjálfstraust mér fannst hann og Salah bestu menn vallarins algjör einstefna Liverpool.

  Mané gat chillað á bekk og maður tók ekki eftir því að einn besti leikmaður okkar væri þar breiddin í liðinu er önnur.

  Frábær leikur ég ætla gefa Keita mann leiksins fyrir að svara efasemdarmönnum.

  14
 2. Flottur leikur algjör einstefna Keita virkilega góður gaman að sjá Curtis Jones líka

  6
 3. Virkilega ánægulegt að fá svona göngubolta leik þar sem stressið er ekkert og við erum að leika okkur að úrvaldsdeildarliði Bournemouth og það á útivelli.
  Þetta var einfaldlega stórkostleg framistaða hjá liðinu. Jú það má alveg segja að mótspyrnan hafi ekki verið mikil og þá sérstaklega síðustu 20 mín þegar heimamenn einfaldlega gáfust upp og snertu varla boltan en ástæðan fyrir því að þeir gáfust upp var framistaða Liverpool og okkar örugga forskot.

  Klopp gerir 7 breyttingar á liðinu en vélin heldur bara áfram að ganga og ég er nú ekki frá því að eftir að hann fór að rótera þá koma ferskir fætir með auka bensín á tankinn.

  Framistaða allra leikmanna var góð já kannski fyrir utan Alisson sem þurfti einfaldlega enga framistöðu og hefði nánast alveg geta verið upp í stúku í þessum leik(en gerði allt sitt vel)

  Varnarlínan okkar var sterk og var mjög gott að halda hreinu. Dijk var frábær og vann öll návígi en það er smá áhyggjur að Lovren meiðist ekki af því að Gomez ætti ekki að geta staðið sig heldur uppá breyddina í þessari stöðu.

  Miðjumenn okkar voru ótrúlegir í dag. Henderson var frábær og stopaði ekki í 90 mín, Milner skilar alltaf sínu og fékk að leika sér smá í vinstri bakverði í restina(gefa Andy smá hvíld) en Keita er mál málana. Hann var stundum klaufi að tapa boltan á hættulegum stöðum en vá hvað hann getur komið með mikil gæði sóknarlega og var frábær að sjá hann skora og leggja upp mark, líklega hans besti leikur í Liverpool búning.

  Sóknarlínan var ógnandi í 90 mín og var það hels Firmino sem hefur leikið betur en virkilega gaman að sjá Salah svona ferskan eftir hvíld gegn Everton. Mane fékk svo bara hvíld sem er mjög mikilvægt í þessari dagskrá okkur(þótt að það bitnaði á fantasy liðinu mínu þá verður bara að hafa það).

  C.Jones fékk að spila sinn fyrsta úrvaldsdeildar leik sem er ánægju efni að topplið Liverpool getur leyft sér að setja inn ungan og efnilega leikmann á þessu tímapunkti.

  YNWA – Þægilegt að horfa núna á City vs United leikinn vitandi að annað eða jafnvel bæði lið tapa stigum(vona samt að City tapi stigunum í dag en er ekki vongóður um það)

  9
 4. Yndislegt og teytið heldur áfram.
  Sammála með Keita, fannst hann slappur framan af, en svo umbreyttist hann með auknu sjálfstrausti.
  Flott frammistaða heilt yfir hópinn.

  Gaman að horfa á leik án þess að klára neglurnar 🙂
  Lífið er ljúft.

  7
 5. Vonandi tapar City stigum mér er sama þó United vinni þennan leik en jafnteflið væri fínt. Það eru 2 lið sem við viljum að tapi stigum og það er Leicester og City einfalt.

  13
 6. Frábær sigur og allt virðist ganga upp hjá okkar mönnum nema meiðslalega séð. Vonandi ekkert alvarlegt hjá Lovren. Mér fannst Keita mjög góður en missti boltann nokkrum sinnum klaufalega frá sér. Gaman að sjá Salah spila vel. VVD er síðan á allt öðru level en aðrir varnarmenn í heiminum. Ég vel hins vegar Henderson sem mann leiksins.

  8
 7. Frábær og geirnegld frammistaða. Leikurinn var samt nánast hálfleiðinlegur áhorfs – slíkir voru yfirburðir okkar manna og tempóið í leiknum eftir því. Þetta var líklega slakasti andstæðingurinn sem við höfum mætt í vetur og næst eigum við botnliðið. Má ekkert hálfkák þar.

  Hvað um það, tek undir með öðrum hér: Keita og Hendo flottir, Salah, Virgil osfrv. Þetta er einfaldlega frábært lið sem við eigum.

  YNWA

  5
 8. Veit svei mér þá ekki hvað ég á að segja. Vissulega voru Bournmouth ekki góðir, en þeir verða samt ekki betri en andstæðingurinn leyfir, og við leyfðum þeim ekki að vera góðir, einfallt. Er sammála mörgum, að það var gaman að sjá Keita spila svona glimrandi vel, það geislaði af honum ánægjan og hungrið. Var eins og hann vildi ólmur gefa álíka snilldar stoðsendingu á Salah, og Salah gaf á hann, team work. Annars voru allir okkar strákar perfect, heildin er maður leiksins.

  YNWA

  8
 9. Sæl og blessuð.

  Ógnarfaktorinn er orðinn slíkur að lið á heimavelli liggur í vörn í stöðunni 0-3. Liðin er sú tíð þegar þeim tókst að snúa 1-3 í 4-3… en það var þá þetta er nú. Ég er meiri aðdáandi Liverpool en andstæðingur MU. Vona að þeim takist að vinna þá fölbláu sem ég held að séu og verði okkar skæðasti fjandi þetta skiptið.

  Með meiddan Lovren, Matip og Fabinho … er eins gott að halda sem mestu forskoti…

  5
  • hehehe… Það er furðulegt að fagna mörkum hjá þessu liði. Vona innilega að shittý tapi í kvöld og ég hef áhyggjur af því að skallinn á Pep muni springa eftir að hafa fengið höfnun á vítinu sem þeir áttu að fá.

   4
 10. Ef Keïta fengi nú bæði sjálfstraust og grimmd í jólagjöf gætum við grætt eitt stykki súperleikmann eftir áramót.

  9
  • Sammála, þessi leikmaður er súperdúper og getur sprengt upp miðjur og varnir upp á sitt einsdæmi. Með geggjaðar sendingar og kann alveg að skora líka!

   Ekki klípa mig, því ég vil ekki vakna upp af þessum draumi!

   10
 11. Mér finnst kominn virkilegur stórliðabragur yfir liðinu ef það er hægt að rótera 7 leikmönnum – á milli leikja án þess að það sjáist ekki á gæðum liðsins. Næsti leikur er einn sá mikilvægasti á þessu tímabili, með honum getum við tryggt okkur endanlega í 16liða úrslit ensku meistaradeildarinnar og mín vegna má Klopp stilla upp – Mane- Origi – Shaqiri. I framlínunni og ég held að það myndi ekki bitna mikið á gæðum liðsins. Fyrst sú framlína gat lagt Barcelona af velli, þá ættu þeir að getað það gegn Salsburg ?

  Mér fanst glitta í gæði Keita í þessum leik. Sendingargeta hans er fyrirtak og fáir eru jafn góðir að senda á leikmenn sem er að hlaupa í hættuleg svæði eins og sannaðist þegar hann sendi á Mo Salah.

  í næsta leik má ekki sýna vott af miskun einfaldlega vegna þess Salsburg á alla virðingu Liverpool skilið. Þetta er gott lið sem býr yfir mikillri spilagleði. Sá leikur verður að spilast á fullum styrk og helst að vinnast nokkuð örugglega. Ekkert hálfkálg er í boði og ef það eru einhverjir sem gera sér grein fyrir gæðum þessa liðs þá eru það leikmenn Liverpool sjálfir. Þeir hafa sýnt það í vetur – að þeir eru alltaf tilbúnir í stæstu verkefninn og eru alltaf á tánum þegar þeir koma á stóra sviðið.

  6
  • Verið að gríta leikmenn United með drasli þegar þeir voru að taka horn ógeðsleg hegðun City stuðningsmanna

   12
   • Svartir sauðir hjá öllum stuðningsmönnum og þarna voru City menn að afhjúpa sína. Vonandi náðist þetta á myndaband hverjir voru að verki og þeir fá langt bann.

    9
 12. Æi, getið þið ekki drukkið ,,létt-ölið” í kvöld og hlaðvarpað því?

  Þetta fer að verða hættulega góð staða!

  12
 13. Líkamlega og andlega hafði Salha gott af því að hvíla á móti everton….sýndi sitt rétta andlit i dag…breiddin er að brillera i liðinu…hvernig verður þetta lið eiginlega ef Klopp verður hvíldur í einn leik…

  11
 14. United vann City. Nú er þetta orðinn slagur á milli okkar og Leicester. Ef við gefum leikinn við Salzburg þá er þetta pottþétt en við eigum titil að verja þannig að er það ekki bara double í ár…held það.

  5
  • Ég held að við verðum í verri stöðu ef við töpum í Salzburg, þar sem að við endum þá í Evrópudeildinni. En okkar menn munu klára leikinn í Salzburg, það er ég nánast viss um.

   2
   • það er reyndar rétt hjá þér var búinn að gleyma Evrópudeildinni. Ef svo ólíklega vill til að við lendum í henni þá held ég að kjúllarnir sjái um þá keppni. Þetta verði eins og Evrópudeildarbikarinn haha.

 15. City 14 stigum á eftir Liverpool eftir 16 umferðir ég hefði verið settur í spennitreyju ef ég hefði sagt þetta fyrir ári.

  13
 16. Hrikalega flott að sjá hvað þeir náðu vel saman, Keïta og Salah. Kominn enn einn glimrandi uppstillingarmöguleikinn fyrir Klopp.

  4
 17. Ég vil ólmur halda okkar striki í CL, helst til loka, en fari svo illa að Salzburg vinni(sem nb er ekki inni í myndini) og við í Evrópudeildina, þá held ég að Klopparinn okkar hugsi takmarkað um hana, nema hann vilji bæta henni við á CVið, en sjáum til, og þetta fræga ,,spyrjum að leikslokum,,

  YNWA

  • Já það kæmi lítið á óvart ef Curtis Jones og félagar fengju það hlutverk að sigla liðinu í úrslitaleikinn í Evrópudeildinni í vor, og myndu þar lyfta bikarnum, fari svo að liðið tapi gegn RBS.

   En það kemur ekki til þess.

Byrjunarliðið vs. Bournemouth á Dean Court

Liverpool – West Ham á Prenton Park