Liverpool – Leicester 2-1

1-0 – 40.min, Mané

1-1 – 80.min, Maddison

2-1 – 92.min, Milner (víti)

Liverpool hélt áfram fullkomnu byrjun sinni í deildinni þetta tímabilið með virkilega góðum, dramatískum en umfram allt sanngjörnum 2-1 sigrí á Leicester í dag og fer þar með í landsleikjahlé með 24 stig af 24 stigum mögulegum.

Liverpool gerði tvær breytingar á liði sínu frá því á miðvikudagskvöldið. Lovren kom i stað Gomez og Milner inn á miðjuna í stað Henderson. Annars var liðið eins og búist var við, þrátt fyrir að Alisson sé farinn að æfa af fullum krafti þá þurfum við að bíða þar til eftir landsleikjahlé með að sjá hann í liðinu aftur.

Leikurinn fór rólega af stað, Leicester var aftarlega á vellinum og ætluðu sér greinilega að treysta á hraða Vardy frammi. Fyrsta hálffærið kom eftir 12 mínútna leik þegar Trent klobbaði Chilwell upp við hornfána, kom boltanum fyrir á Miler en skot hans fór yfir.

Annars gerðist afskaplega lítið. Firmino fékk gott færi á 32 mín eftir frábæra fyrirgjöf frá Trent en þurfti að teygja sig örlítið í boltann og skotið því ekki gott.

Leikurinn byrjaði svo í raun loksins fyrir alvöru svona 7-8 mínútum fyrir leikslok. Liverpool braut á sér í tvígang við teyginn og fengu á sig horn og aukaspyrnu með stuttu millibili, Fabinho náði sér í gult spjald eftir brot á Madison en að var svo Mané sem kom Liverpool yfir á 40 mínútu eftir að Milner hafði spilað okkur út úr pressu Leicester manna, tók þríhyrning við Robertson við hliðarlínuna áður en hann sendi frábæran botla innfyrir á Mané sem skoraði örugglega einn gegn Schmeichel, 1-0!

Eftir þetta hefði Liverpool átt að bæta við marki fyrir hlé, Firmino sendi boltann út í miðjan teig á Mané, sem koma á ferðinni, en sá danski varði skot hans vel. Mínútu síðar eða svo fékk Salah boltann með Caglar í bakinu og lagði hann frábærlega upp fyrir Milner en skot hans af vítateigslínunni fór yfir.

Það gerðist meira á þessum 7 mínútum en þeim 38 þar á undan og Liverpool með verðskuldaða forystu í hálfleik.

Síðari hálfleikur

Albrighton kom inná hjá gestunum í hálfleik en heimamenn hófu síðari hálfleikinn eins og þeir kláruðu þann fyrri. Salah féll frábært færi, skot af markteig, eftir sendingu frá Trent (held reyndar að hann hafi verið rangstæður) en Schmeichel varði.

Mané fékk tækifæri til að bæta öðru marki við eftir að hann og Salah spiluðu sig í gegnum vörnina á 55 mínútu en Evans komst í boltann um leið og sá senegalski ætlaði að skjóta, einn gegn Schmeichel og fór boltinn af Mané og útaf. Góð spilamennska, óheppnir að tvöfalda ekki forystuna.

Vardy fékk góða stungusendingu á 54 mínútu en missti boltann heldur langt frá sér og náði Adrian að stöðva hann áður en hann komst í skotfæri, mjög tæpt en líklega var hann réttstæður þarna. Í næstu sókn átti Robertson að koma okkur í tvö núll, fyrsta sending Salah á Robertson misheppnaðist, hann náði þó frákastinu og reyndi aftur. Skotinn kominn einn innfyrir en fast skot hans var beint á Schmeichel. Var líka of gott til að vera satt, var ekki að trúa því að hann myndi skora tvisvar í sömu vikunni!

Liverpool átti þarna á 5-10 mínútna kafla alveg helling af hættulegum sóknum, fannst Salah taka rangar ákvarðanir í þeim svo gott sem öllum! Það reyndist dýrkeypt, enda jafnaði Leicester á 79 mínútu þegar Maddison skaut á milli fóta Lovern og undir Adrian úr miðjum teignum 1-1, virkilega óverðskuldað en þetta er hættan þegar þú nýtir ekki tækifærin.

Á þessum tímapunkti var ég að blóta færanýtingunni og farinn að skrifa leikskýrslu af miklum pirring. Bæði misstum við þetta ósanngjarnt niður, Salah meiddist eftir skelfilega tæklingu og Liverpool annað árið í röð að tapa stigum gegn Leicester í leik sem manni finnst ansi mikið vera undir, þó tímabilið sé nánast nýbyrjað. Ég man nú ekki nákvæmlega atburðarásina í þessu, ég er enn að ná mér niður eftir fögnuðinn en Origi fékk boltann úti vinstra megin, missti hann frá sér og einhvern veginn barst hann inn á teig, Mané pressaði og náði boltanum á markteigshorninu, Albrighton fór aftan í hann og niður fór Mané – víti, 92 mínúta! VAR skoðaði þetta og dómurinn stóð – mitt álit á þessu er að þetta var víti, það er klár snerting þarna, hann fékk ekki víti gegn Sheffield og þá voru menn á því að um víti hafi verið að ræða, þessi snerting kom á meðan hann var enn með boltann, hann hefði líklega geta staðið það af sér en hvað hefði hann fengið fyrir það? Nákvæmlega ekkert. Upp steig herra áreiðanlegur og Milner skoraði örugglega úr vítaspyrnunni, 2-1, 24 stig, fullkomin byrjun og fögnuðurinn ógurlegur!

Maður leiksins

Andstæðingurinn var sterkur, sjóðandi heitt Leicester lið og Liverpool að spila hörkuleik á miðvikudagskvöldið, verkefnið var því ærið. Liðið var að spila mjög vel, ef þeir hefðu nýtt færin sín hefði þessi leikur aldrei verið í hættu því við vorum mikið sterkari aðilinn!

Mér er sama hvað aðrir segja, það er bara einn sem kemur til greina sem maður leiksins. Mané fannst mér á köflum okkar besti varnarmaður og okkar langbesti sóknarmaður og er minn maður leiksins í dag, var algjörlega frábær. Skoraði gott mark og átti bestu tæklingu leiksins (á Chilwell í fyrri hálfleik) og dugnaður hans skilaði okkur þremur stigum þegar hann sótti vítið í uppbótartíma. Þvílíkur leikmaður sem hann er, ekki að ég vitni nú oft í Fabregas en ég er ekki frá því að hann hitti naglann á höfuðið þegar hann sagði hann einn af bestu leikmönnum í heimi í vikunnar og verið það núna í smá tíma.

Umræðan

 • Mané. Þvílíkur leikmaður, ég get bara ekki hrósað honum nægilega mikið. Það er ekki oft sem að leikmenn með þetta mikinn sprengikraft og hæfileika séu jafn duglegir inn á vellinum og hann. Ekki oft er understatement, það er bara enginn annar. Okkar langbesti maður það sem af er tímabils!
 • Fullkomin byrjun. Var ég búinn að koma inn á það? Ég geri það þá bara aftur. 8 leikir, 8 sigrar, 24 stig.
 • Lovren. Eftir að Matip meiddist um síðustu helgi og innkoma Gomez var ekki að heilla þá er alveg ljóst að það eru ákveðin forréttindi að eiga fjórða kost í Lovren – sérstaklega þegar við horfum til okkar helstu keppinauta. Hann átti virkilega góða innkomu í dag eins og vörnin öll, gáfu Leicester fá færi og lítið að segja við markinu sem Maddison skoraði.

Næsta verkefni

Nú tekur við landsleikjahlé, næsta verkefni er stórt – Old Trafford, sunnudagurinn 20. október áður en við förum til Belgíu og sækjum K.R.C Genk heim þremur dögum síðar.

67 Comments

 1. djöfulsins snillllllldddd er enn titrandi hef ekki verið svona spentur yfir leik lengi áttum að vera búnir að klára samt fyrir löngu en gæti ekki verið meira sama ha ha ha yesss

  YNWA

  3
 2. Þetta er ótrúlegt. “Liverpool verður að sætta sig við að tapa stigum öðru hvoru eins og öll önnur lið” Hugsaði ég með mér og svo kemur þetta mark sem er af ódýrari gerðinni og tryggir okkur enn einn sigurinn. Ég var alveg sannfærður um að það væri komið af okkur að tapa stigum og er því enn að átta mig á þessu.

  Eins og ég hef áður sagt, þá er þetta besta Liverpoollið allra tíma. Það er einhver sigurára yfirliðinu, einhver heppni sem liðið hefur búið sér til sjálft með þessari sífellu vinnu. Ég gæti vel trúað því að Liverpool er það lið sem er hvað mest pirrandi að spila gegn. Aldrei flóarfriður og eitthvað í atgangi þess veldur því að andstæðingurinn er ansi vís að gera mistök. Þessi heppni getur ekki verið tilviljun. Þetta er búið að gerast það oft að það hlýtur önnur ástæða að liggja að baki. Eina sem mér dettur í hug er að það krefst gríðarlegrar orku og einbeitingar að spila gegn okkur og að liðið getur alltaf skipt í næsta gír ef það þarf að vinna leiki.

  9
 3. Ég ætla bara að segja það: Meistaraheppnin var með okkur í dag!

  Long may it continue!

  5
 4. Ótrúlega skemmtilegt. En hvað er hægt að segja um Mr. Fabinho Fabulous. Hvílíkur leikmaður.

  6
 5. Sælir félagar

  Hvílíkur rússíbani það er að vera stuðningmaður besta liðs á Englandi. Auðvitað áttu framherjarnir okkar að vera búnir að klára þennan leik. Amk. fengu þeir nóg af færum til þess og hefðu átt aðskora 3 – 4 mörk í þessum leik. En sigur á lokamínútum með klárri vítaspyrnu er ofboðslega sætur.

  Það ern ú þannig

  YNWA

  9
 6. 3 stig og dramatískur sigur í leik þar sem við spiluðum vel.

  Bestu menn liðsins í dag.
  1. Mane – Frábær mark, ógnaði fram á við en varnarlega var hann að koma sterkur inn.
  2. Lovren – Hann var næstum því farinn frá okkur en hann átti mjög góðan leik í dag.
  3. Fabinho – Hann var í lykilhlutverki að gestirnir fengu varla færi í þessum leik.

  8 leikur og 8 sigrar = Maður fer með bros á vör inn í landsleikjahlé

  YNWA

  p.s vonum að Salah sé ekki alvarlega meiddur.

  4
 7. Hvað gerðist eftir að flautað var til leiksloka, var Robertson þátttakandi í einhverju bulli?

  Annars magnað hvað Mane er góður leikmaður og hvað Milner er öruggur í vítum. Frábært að sjá Lovren aftur.

  5
 8. Milner er besta frjálsa sala (kaup) sem gerð hafa verið…. þvílíkur metnaður. Þvílíkar taugar…..

  Fanst gaman að sjá hvað margir eru búnir að afskrifa Lovren… hann átti frábæran leik….
  Það var Van Dike sem átti markið sem við fengum á okkur 🙂

  4
 9. Sanngjarn sigur , fínn leikur, hefðum átt að vera búinir að skora fleiri mörk. Kasper klárlega þeirra besti maður í leiknum. Alltaf víti, Millner klikkar ekki á ögur stundu.

  Áfram Liverpool.

  3
 10. Vá þvílíkur leikur áttum löngu að vera búnir að klára hann en þetta lið og lovren tróð sokk upp í mig hann var frábær og Mane maður leiksins sá gaur er bara einn sá besti í heimi í dag. YNWA!

  3
 11. Eðal sigur, má kalla royal sigur. LFC var einfaldlega betra liðið ekki spurning og maður leiksins er ekki spurning, MANE. Sá sást viða á vellinum endana á milli. Má vel vera að mig misminni, en man hann ekki svona öflugan í vörnini áður, en alla vega það gerðist þá á réttu augnabliki, fyrir utan að skora flott mark eftir flotta sendingu Robertson. Milnerinn okkar auðvitað klikkar ekki á ögurstundu úr réttmætri vítaspyrnu, Bravo amigos.

  YNWA

  3
 12. Geggjað, þvílíkur rússibani sem boðið var uppá í dag.
  Eins og skýrsluhöfundur var ég búinn að blóta hversu illa við fórum með færin okkar langt fram eftir leik og taldi að uppskeran yrði eitt stig, þá tóku Mané og Milner til sinna ráða.

  Geggjað!

  4
 13. Ennþá dálítill hraðsláttur en þetta er allt að koma… Djös snilld endalaust bara!

  Skil samt ekki hvaða trikk þetta á að vera með að setja Lallana inná? Býr einhver hérna yfir djúpu innsæi og getur skýrt þetta út fyrir mér?

 14. Sæl og blessuð.

  Megi liðið halda áfram að kreista út þessa ögursigra eins og táningur þrýstir greftri út úr bólu. Nokkrir punktar:

  1. Svaaaaakalega er Mané góður.
  2. Var handviss um að Lovren væri að fara að kosta okkur dýrmæt stig. Hann er ólíkindatól og ein ástæða þess hvað stöðugleikinn var lítill í liðinu hér forðum daga, þegar hann var í leiðtogahlutverki í vörn. Varnarmaður má ekki eiga ömurlega leiki, ekki einu sinni ömurleg móment ,,af og til” en það var einmitt einkennismerki hans. Er alls ekki viss um að hann sé rétti maðurinn næst í rulluna þó hann hafi sannarlega staðið sig núna. Maður veit bara aldrei hvers er von þegar Lovren er annars vegar.
  3. Þótt Salah hafi tekið skrýtnar ákvarðanir á köflum má hann eiga það að hann fiskaði amk tvö gul spjöld á andstæðinga og í öðru tilviki ÁTTI spjaldið að vera rautt.
  4. Ég átti von á því mestallan leikinn að við værum að fara að fá á okkur mark í blálokin. Það var ekki fyndið hvað færin nýttust illa og smám saman dró af okkur fákum og þeir fóru að sækja í sig veðrið. Að fá þetta víti svo í blálokin var bara póetískt réttlæti og eins fallegt og það gat orðið. Það breytir ekki þeirri staðreynd að menn áttu að hafa nýtt færin betur fyrr í leiknum. Ekkert að kvarta – en bara nefna þetta…
  5. Bíðum nú við … það er fáránlega langt í næsta leik og það er mu. Ég vil sjá slátrun í þeim leik. Megi þetta verða síðasti leikur litla dofrans – yfirburði í öllum stöðum takk. Alison og Matip mættir aftur og gott ef Shaq og Keita verði ekki tilbúnir að taka þátt í blóðfórninni.

  Annars bara góður.

  5
 15. Var vítið ekki tekið á 94. mín? Hahaha… Þvílíka snilldin! Það var ekkert létt að öskra ekki í grænmetistorginu í Coop þegar markið kom.

  Við erum BESTIR, bara ískalt mat.

  6
  • Mæli með öskra í grænmetistorginu í Kiwi, betra sound. 🙂 Hvar ertu annars í Noregi?

   2
   • Hehehe… Já, ég versla í 90% tilfella þar en ekki í þetta skiptið. Væri til í að versla grænmetið í Rússlandi svo framarlega sem við vinnum alla okkar leiki.

    Við erum í Kommúnunni Sveio sem er 15 km frá Haugesund. Hvar er í Noregi ert þú?

  • Haha svavar var staddur í lobbýi á hoteli að horfa á leikinn í símanum og ég mátti hafa mig allann við að öskra ekki eins og kjáni

   2
 16. Þið snjöllu Liverpool-sagnfræðingar, hvenær fékk liðið síðast víti á Anfield?

  1
  • Í des í fyrra sýnist mér. Gegn Arsenal.

   • Þannig að það er svona ca. 1 víti á ári…

    Ekki er það nú mikið.

    1
 17. og svo ég haldi áfram, þá í toppslag í deildinni á móti very hot team, þá byrjar fyrirliði Liverpool á bekknum.

 18. Hrikalega góðir í dag en samt svakalega tæpt. Mane … wow. Færanýtingin ekki góð en spilamennskan frábær.

 19. Þetta lið okkar er ótrúlegt. Við gefumst aldrei upp og ég skal alveg viðurkenna það að ég reiknaði með sigri þrátt fyrir jöfnunarmark þeirra bláklæddu, svo mikla trú er maður byrjaður að hafa á þetta stórkostlega lið okkar!

  Það er fátt skemmtilegra en að halla sér aftur og sjá höfuðandstæðinga okkar hugsanlega tapa stigum eftir góðan sigur hjá okkur.

  3
 20. Þetta var rosalegt. Fyrra markið, hvernig það kemur uppúr jafnvel langdrengnuspili frá marki og Mane sem að auki var einn besti varnarmaðurinn í leiknum. Víða verða sokkar étnir og skór líka minnir mig, mætti gera það að opnum viðburði, Lovren hvað. Þá leggjumst við öll á bæn, snúum okkar í hverja þá átt sem guðir okkar eru biðjum fyrir Salah, hvort sem hann skorar eða ekki þá dregur hann slíkt til sín og getur gjörbreytt leikjum, það fer nú að verða að lögreglumáli hvernig varnarmenn fá að meðhöndla hann. Þakkir til síðuhaldara og þeirra sem skrifa hér, bætir lífið.

  3
 21. 8 umferðir búnar og við með 8 stiga forskot á City! Hver hefði trúað þessu í upphafi tímabils??

  10
 22. Hihihi, fáum að meðaltali einu stigi meira en City í hverri umferð. Hvar endar þetta eiginlega.

  4
  • Þetta endar (vonandi) með því að ég mun liggja í fósturstellingu á eldhúsgólfinu og grenjandi af gleði.

   14
 23. Stats frá SkySports:

  City Dropped 5 points in their opening 4 home PL games this season
  Dropped 3 points at home in the whole of last season (defeat v Crystal Palace)

  6
 24. Sæl og blessuð.

  Þetta er meira forskot en við náðum síðast. Nú tekur við langt hlé. Að því loknu ættu Keita, Matip, Shaq og Alison að vera komnir aftur til leiks. Salah keppir ekki landsleiki og því ætti að vera góður undirbúningur fyrir næsta holl.

  Það er ljóst að meiðsli Sané og hafsentanna Laporte og Stones skilja eftir sig skarð í skipulagi MC. Vörnin virðist hafa verið veikasti hlekkurinn í þessu marglaga vígi sem liðið virtist vera. Þeir hefðu viljað bæta fyrir úrslitin sem fyrst en nú þurfa þeir að fara inn í þetta langa hlé. Svo er það fyndið að skora 8 mörk í einum leik en ekkert í þeim næsta. Ætti að gefa öðrum liðum vísbendingu um það hvernig rétt er að mæta þeim fölbláu og hvernig á ekki að bera sig að.

  Jæja en það er víst morgunljóst að sú feita er ekki komin langt í sínu söngnámi. Þrjátíu leikir eftir – eða hvað það nú er og 90 stig skv. því. Átta djúsí stig á næsta lið er geggjað en það er langur vegur framundan!

  12
 25. Það liggur við að það sé skylda hjá KOPverjum að hafa hlaðvarp í kvöld sökum úrslita helgarinnar!

  13
 26. Er ekki rétt að fylgjast með síðasta leik sunnudagsins áður en pod-kastarinn verður hlaðinn?

  2
 27. Sælir félagar.

  “Eins dauði er annars brauð” segir einhverstaðar. Það er okkar hagur að MC tapi leikjum og gleðjumst yfir því. En eftir landsleikjahlé er leikur við höfuðandstæðing Liverpool á hans eigin klósetti. Man nokkur hvernig síðustu 4 leikir MU og LFC fóru á þessu sama gamla klósetti þeirra. Btw. ferlegt að þurfa að leika áklósetti bara yfirleitt.

  Það er nú þannig

  YNWA

  5
  • það er kannski óþarfi að sparka í liggjandi menn. Það eru nú ekki nema fjórir dagar síðan þú hópaðir “Þvílík djöfulsins drulla á þessum aumingjum” á Liverpool liðið.

   11
 28. Góður sunnudagur er orðinn frábær! Bæði Manchester liðin tapa og Everton komnir niður í fallsæti!

  10
 29. Geggjuð helgi i boltanum.
  Eg segi bara LIFI MAN UTD HAHAHAHA !!!

  6
 30. Þetta heitir á góðri ísl-ensku ,,perfect helgi”!

  Mu-liðið er komið í bullandi fallhættu og það ekkert að ástæðulausu 😀

  8
 31. Gerði smá athugun.

  Andstæðingar Liverpool til þessa eru nú að lokinni 8. umferð í sætum:
  3, 4, 5, 7, 13, 16, 17, 19

  Andstæðingar MC til þessa eru nú að lokinni 8. umferð í sætum:
  8, 9, 10, 11, 14, 18, 19, 20

  Andstæðingar mu til þessa eru nú að lokinni 8. umferð í sætum:
  3, 4, 5, 6, 8, 11, 16, 17

  20
  • Flott samantekt og það má kanski bæta við að þeir ljósbláu hafa tapað 3 stigum fyrir 11 og 19 sætinu.

   4
  • Ox fékk boltann í höfuðið á æfingu og var þess vegna til öryggis hafður heima.

   2
 32. Held að sigurmarkið hjá Liverpool um helgina hafi rotað City í dag. Ekkert jafn leiðinlegt eins og að sjá keppinaut grísa einu marki inn á lokasekúndunum. Risa 3 stig og leikur við Óla Hodgson næst. Viss um að Unitedmenn hugsa með tilhlökkun til leiksins.

  4
 33. Gleðjumst yfir sigri okkar manna og stöðunni í deildinni. Staðan er góð en tímabilið varla farið af stað. Margt getur gerst til vors enda tímabilið langt og erfitt. Hræddastur er maður alltaf við meiðsli lykilmann í þungu prógrammi. VvD þarf td hvíld og jafnvel fleiri leikmenn.
  Ég man eftir tímabili um miðjan níunda áratug síðustu aldar en þá var ónefnt Manchester lið með 30 stig eftir 10 leiki og 41 stig eftir 15 leiki. Ég þekki nokkra aðdáendur þessa ónefnda liðs sem glenntu sig sem mest þeir gátu þetta haustið og gáfu lítið fyrir getu annara liða í deildinni. Þetta ónefnda lið endaði í 4. sæti í deildinni svo eitthvað gekk treglega eftir umferðirnar 15. Lærdómurinn, jú það sigrar nefnilega enginn deildina á haustmánuðum.

  27
 34. @Helginn

  Ég var einmitt líka að hugsa að nú fengju Solskær-drengirnir í MU að reyna þjáningar okkar á Hodgson-tímabilinu…

  2
 35. Deildin byrjar með óhefðbundnum hætti. Það er sérkennilegt að sjá lið eins og Everton í fallsæti og Man Und í 12 sæti eftir eingöngu átta umferðir. Það kemur mér einnig spánskt fyrir sjónir að Tottenham sé í 9unda sæti og að Manchester City sé þegar búið að tapa tveimur leikjum og gera eitt jafntefli.

  Sláturtíð framkvæmdarstjóra er að hefjast og það er bara spurning hvaða stórliðastjóri verður fyrst þvingaður til þess ganga undir gaparstokkinn. Það eru ansi margir líklegir.

  Þetta tímabil minnir mig örlítið á þegar Leicester varð Englandsmeistari að því leiti að öll stórlið eru að misstíga sig nema að í þetta skipti á það ekki við eitt þeirra. Okkar menn Liverpool halda dampi og það með glæsibrag. þeir eru komnir með átta stiga forustu sem sem er vonandi forsmekkurinn af því sem koma skal.

  Ef það er eitthvað lið sem á skilið að verða Englandsmeistari þá er það Liverpool. Það er fráleitt hvað það eru margir aðhangendur annarra liða óska þess jafnvel heitar að Liverpool verði ekki meistari en að liðinu sínu gangi vel í deildinni. Það er líka hálf broslegt og aumkunarvert í senn að leikmenn eins og Roy Keane segir að Liverpool er lið sem hefur ekki unnið Englandsmeistaratitil undir stjórn Klopp, þegar hann hefur aldrei verið í liði sem hefur fengið 97 stig. Hann ætti að vita það sjálfur að hann hefði aldrei orðið enskur meistari ef lið eins og Man City að hætti Gardiola hefði verið uppi á hans tíma eða núverandi Liverpoollið. Þetta Liverpool er einfaldlega betra en öll lið Alex Ferguson voru nokkurn tímann. Það er einfaldlega staðreynd. Taflan lýgur ekki.

  Það er kominn tími á að við vinnum deildina til að þagga niður í slíkum möntrum og innihaldslausu stórkallarausi sem reyndar er alltaf farið að hjóma meira og meira eins og ketlingarmjálm enda vita þeir sem tala slíku rausi að það er enginn innistæða fyrir þessu virðingaleysi.

  Enska deildin í ár inniheldur tvö af allra sterkustu fótbolta liðum í heimssögunni. Liverpool og Man City. Það er ekki að lið eins og Tottenham eða Man Und eru orðin svona léleg, heldur er það hið andhverfa. Deildinn er stöðugt að verða sterkari og það sannast á því að Man City er búið að tapa tveimur leikjum nú þegar.

  Ég vona að deildin hjá Liverpool vinnist með það afgerandi hætti að það verði ekki einu sinni spenna í þessu í vetur.Þessi titill væri sá mikilvægasti sem Liverpool hefur nokkurn tímann unnið og myndi setja liðið endanlega í rétt samhengi. Evrópumeistaratitillinn og 97 stig gerði það að vissu leiti en Englandsmeistaratitill væri innsigling á því að Liverpool er eitt af sterkustu liðum Evrópu og þeir sem halda öðru fram eru annað hvort öfundsjúkir eða í afneitun.

  Ég verð samt að segja að mér þykir það undarlegt að það þyki betri árangur ef Liverpool ynni titilinn í ár með 94 stig og það þætti betri árangur en þegar liðið fékk 97 stig í fyrra. Slíkt staðfestir að árangur og titlar þurfa ekki að vera það sama.

  23
 36. Með sigri í næstu umferð kæmust meistari Roy Hodgson og félagar í Crystal Palace upp fyrir Man City.

  8
 37. Tryggvi lesturinn um Klopp med augum united mannsins er snilld, takk fyrir ad benda a tetta 🙂

  2
 38. Þvílík snilld hjá þjálfar Úlfana að setja Traore á Sterling í fyrrihálfleik og henda honum svo fremst með sinn sprengi kraft í lokin. Taktísk snilld sem Liverpool áhangendur þakka fyrir.

  2
 39. Fjölmiðlamenn keppast núna við að segja að Liverpool verði núna meistarar og að þeir ættu ekki að klúðra þessu.
  Þegar maður skoðar nánar hverjir þetta eru þá eru við að tala um fyrrum Man utd/Arsenal/Everton kalla sem vilja ekkert frekar en að Liverpool verði ekki meistarar og vita alveg hvað þeir eru að gera, þeir vilja setja auka pressu á okkar lið með það markmið að þeir munu bogna.

  Það eru 90 stig enþá í pottinum og því allt tal um titil eða að lið hljóti að klára deildina þegar okt var að byrja eru auðvita bara fáranleg.
  Það sem er vitað er að Liverpool mun tapa stigum og þegar það gerist þá verða menn að anda inn og út og gera sér grein fyrir því að Enska deildinn er sú besta í heimi og engin leikur er auðveldur.
  Við vitum líka að Man City munu taka svaklegt run á einhverjum tímapunkti þar sem þeir minna alla á hverjir eru núverandi meistarar og munu á þessari sigurhrinu vera nokkrir stórsigrar.

  Eina sem Liverpool strákarnir hans Klopp geta gert er að gera nákvæmlega sama og þeir eru að gera núna. Einbeita sér að einum leik í einu og sjá svo til í restina hverju það skilaði.

  Það er staðreynd að breyddinn hjá okkur er ekki eins mikil og hjá Man City.
  Það væri skellur að missa einn af Salah/Mane/Firmino í alvarleg meiðsli en einnig væri það alvarlegt að missa einn af Andy/Trent/Dijk í meiðsli. Því að þrátt fyrir að við eigum kalla sem geta leyst þessar stöður þá er gæðin mun lélegri.
  Svo vonandi þá haldast þessir kallar heilir og ná flestir að spila 35+ leiki fyrir okkur í deild.

  Það sem okkar lið er samt að sýna í ár er að það er komið til að vera í að berjast á toppnum. Þetta var ekki eins og 2013/14 tímabilið þar sem allt virtist ganga upp og svo fórum við jafnt hratt niður og við fórum upp.
  Klopp er búinn að búa til stöðuleika sem þýðir að við erum ekkert að fara neitt af þessum stalli á næstuni og þarf núna að halda vel utan um liðið og fínpússa aðeins ef Klopp telur þess þurfa og við stuðningsmenn liðsins að halda áfram að styðja liðið(ekki bara í gegnum góðu stundirnar heldur líka rífa þá í gang þegar illa gengur).

  YNWA

  8

Liðið gegn Leicester

Helgaruppgjör