Vörumerkið Liverpool FC

Áður en lengra er haldið vil ég taka fram þá skoðun mína að markaðsmenn sem eru ekki söludrifnir eru ekki markaðsmenn heldur… grafískir hönnuðir.  🙂

Carlsberg hlýtur að vilja selja einhvern bjór í kjölfar þessarar  “framúrstefnulegu” auglýsingar með Gerrard að skjóta flöskutöppum í Jose Reina. Þeir geta svo gætt þess að þeir séu að selja góðan bjór frekar en vondan bjór, alveg eins og Liverpool getur væntanlega selt sína ímynd vel ef gæðin bak við merkið eru góð.

Til hvers ætti Adidas t.d. að eyða öllum þessum pening í flottar auglýsingar ef fólk getur svo ekki keypt langerma Liverpool-boli í Liverpool-borg? Ég held að í Ian Ayre sé Liverpool komið með alvöru markaðsmann sem framkvæmir í staðinn fyrir að skella sér í hvítvín í hádeginu á fimmtudögum.

En hverfum aðeins aftur til ársins 2004.

“Carlsberg’s view is that they paid for a worldwide media property, but that Liverpool failed to exploit an international brand built on a rich history that is particularly strong in important Asian markets.”
22.12.2004

Þegar þarna var komið var Carlsberg að íhuga að hætta styrktarsamning sínum við Liverpool vegna þess að þeir vildu meina að þeir væru ekki að fá nógu mikið út úr honum. Salan á Michael Owen og yfirvofandi brottför Steve Gerrard urðu til þess að markaðsmenn Carlsberg töldu vörumerkið Liverpool ekki vera nógu gott til að samsvara sér við “Possibly the best beer in the world”. Stjórnendur Liverpool voru ekki að viðhalda almennilegum gæðum innan né utan vallar og því erfiðara að sannfæra styrktaraðila um að tengjast liðinu. Liðið sem tuttugu árum áður var best í heimi var að breytast í Tottenham, Newcastle…Aston Villa.

Nokkrum mánuðum seinna var allt breytt. Tæplega 100 milljónir manna á heimsvísu horfa á úrslitaleik Meistaradeildarinnar ár hvert. Allt í einu var Carlsberg búið að fá ómetanlega auglýsingu, framan á treyjum liðsins sem hafði átt stórkostlegustu endurkomu í knattspyrnusögunni. Þegar Gerrard lyfti Evrópubikarnum voru þrjú vörumerki fest á ódauðlega filmu, Carlsberg, Reebok og Liverpool FC.

Með því að komast aftur í úrslitaleikinn í vor var fjárfesting Carlsberg réttlætt að fullu. Núverandi samningur færir Liverpool 8 milljónir punda árlega og nær til ársins 2010. Þá ætlar Liverpool vera í þeirri aðstöðu að geta valið og hafnað.

En hvaða máli skipta þessir styrktaraðilar? Eru þetta ekki bara fitubollur uppi í fyrirtækjastúku sem borða rækjusamlokur og hafa ekkert vit á fótbolta? Nú ef við setjum þessar 8 milljónir í samhengi við það sem Manchester United, Juventus, Bayern og Real Madrid eru að fá þá eru þau lið að hala inn 4-7 milljónir punda árlega.

Fyrir það má kaupa eitt stykki Jose Reina, borga árslaunin hans Gerrards eða reka unglingaakademíuna í 4-5 ár. Þetta þýðir að það er hægt að kaupa 18 ára Ronaldo eða Rooney án þess að blikna. Menn geta haft sínar skoðanir á hlutum eins og heimsvæðingu en staðreyndin er einfaldlega sú að til þess að uppfylla kröfur aðdáenda sinna um árangur inni á velli þarf Liverpool að vera vel rekið utan vallar. Menn geta horft rósrauðum augum til áttunda og níunda áratugs síðasta aldar en staðreyndin er einfaldlega sú að…það var jú á síðustu öld.

Það eru komnir nýjir tímar og við hljótum að vilja að Liverpool haldi áfram að vera eitt fremsta lið í heimi. En á hvað horfa aðalstyrktaraðilar:

  • Árangur í toppdeild í Evrópu, s.s. EPL, Seria A, Primera Liga eða Bundesliga.
  • Árangur í Meistaradeild Evrópu, sérstaklega síðan 1999-2000
  • Stór áhangendahópur heima fyrir og á alþjóðavísu
  • Stór völlur til að koma fyrir stórum áhorfendaskörum í mikilvægum leikjum.
  • Vaxandi stuðningsmannahópur á alþjóðavísu.

Það er deginum ljósara að Liverpool í dag uppfyllir vafalaust aðeins tvö af þessum skilyrðum. Árangur í ensku deildinni hefur ekki verið upp á marga fiska, og liðið á ekki nógu stóran völl. Árangurinn í Meistaradeildinni hefur hins vegar verið frábær undanfarið og harða Liverpool-aðdáendur má finna í Englandi og út um allan heim.

Völlurinn er á leiðinni en það sem skiptir öllu máli er að stuðningur við liðið fari vaxandi á alþjóðavísu og þar er á vísan að róa útaf þeim áhangendum sem Liverpool á fyrir. Liverpool var svo sigursælt og vinsælt í svo langan tíma að þeir eiga fleiri aðdáendur en flest önnur lið í aldurshópnum sem nú er 25-50 ára. Þessir menn eru í blóma lífsins með feitustu buddurnar í dag og það sem meira er, eru á fullu að búa til og ala upp nýja fótboltaaðdáendur.

Og það er eins gott að litlir Liverpoolguttar og litlar Liverpoolstelpur þurfi ekki að horfa yfir lækinn í leit að liði til að halda með. Hugsið ykkur ef að pabbi ykkar hefði haldið með Leeds eða eins og pabbi minn og haldið með Derby County sem vann deildina ´73 og ´74?

Ég bara gat ekki haldið með Paul Goddard og Peter Shilton þegar ég var að alast upp.  

Verðmætustu knattspyrnulið í heimi*  (Verðmætustu vörumerkin) **

  1. Manchester United   (Real Madrid)
  2. Real Madrid   (Manchester United)
  3. AC Milan   (Juventus)
  4. Arsenal    (Barcelona)
  5. Bayern Munchen   (AC Milan)
  6. Juventus   (Liverpool)
  7. Chelsea   (Bayern Munchen)
  8. Inter Milan   (Chelsea)
  9. Barcelona   (Arsenal)
  10. Liverpool   (Inter Milan)
    * Heimild Forbes  ** Heimild Superbrands

Verðmætið segir fyrst og fremst um það hversu mikið félagið kostar ef það væri til sölu. Verðmæti vörumerkja segja hinsvegar meira til um möguleika. Og það má sjá á þessum listum að liðið hefur vannýtt möguleikana sem felast í vörumerkinu. 

Í síðasta pistli vildi ég meina að Liverpool ætti mikla möguleika á að verða bæði verðmætasta liðið og vörumerkið í boltanum. Það byggi ég á annars vegar þessum aðdáendahóp sem er að ala upp börnin sín og svo hins vegar á þeim möguleikum sem vörumerkið hefur upp á að bjóða.

Í raun er Liverpool blautur draumur vörumerkjastjórans. Það sem allir slíkir leita eftir eru sterkar táknmyndir fyrir merkið og þær skortir ekki.

Tákn: Rauði liturinn, YNWA, Fields of Anfield Road, When the reds… osfrv.

Staðir: Anfield, Shankly Gates, Kop, nýji völlurinn

Þjálfarar: Shankly, Paisley, Fagan, Dalglish, Houllier, Benitez

Leikmenn: Gerrard, Carragher, Alonso, Reina, Owen, Fowler, McManaman, Rush, Beardsley, Dalghlish, Souness og Keegan. Gera menn sér t.d. grein fyrir því hversu gífurlega vinsæll John Barnes er ennþá í Afríku, Suður og Mið-Ameríku og Karíbahafinu?

Sigrar: Istanbul, Cardiff tvisvar, Róm tvisvar, Wembley, París, Dortmund osfrv.

Sorgir: Heysel, Hillsborough

Að auki: Bítlarnir. Þeir komu frá Liverpool og það veit fólk útum allan heim. Hvaða alvöru hljómsveit hefur komið frá Manchester?

Ef þú sem markaðsstjóri getur ekki sett þetta í pakka sem fólk vill vera hluti af þá ættir þú að íhuga stöðu þína í lífinu. En þessa ímynd þarf að fara vel með, er það t.d. ásættanlegt að sex ára krakkar hlaupi um með bjórauglýsingu framan á sér? Ég held að Liverpool mun héðan í frá aldrei spila í öðrum búningum nema Adidas eða Nike, að sama skapi eru einungis örfáir styrktaraðilar sem munu hafa efni á því að vera á treyjunni og þeir verða að samsvara ímynd Liverpool. 

Að auki er enska úrvalsdeildin í auknum mæli að breytast í ofurdeildina sem laðar að sér stærstu stjörnurnar, borgar hæstu launin og nær í flesta áhorfendur. Toppliðin þar geta hæglega skotið spænskum og ítölskum kollegum sínum ref fyrir rass.

Það er fullt af tækifærum framundan fyrir Liverpool og þau verður að grípa. Ég á frænda sem óttast það að Liverpool sé á sömu leið og Chelsea, að reyna að kaupa hefðir og bikara. Hann og margir vísa í frægan borða sem sagði að peningar keyptu ekki hefð. Það sem er auðvelt að gleyma er að Liverpool var alltaf í stöðu Chelsea hér áður fyrr, að vera ríka félagið sem keypti alla þá bestu t.d. Keegan, Dalglish, Rush, Souness, Beardsley og Barnes. Það er til fræg saga af því sem Shankly sagði þegar annað lið hafði boðið jafn mikið í Ian Callaghan, “Þá bjóðum við bara meira, hvaða vitleysa er þetta?”

Þess vegna komu bestu leikmennirnir á Anfield, þannig unnust bikarar og þannig urðu til hefðir. 

26 Comments

  1. Margir buddhistar álíta markaðsmál ekki samrímast buddhisma. Bara setja hlutina í samhengi 🙂

  2. Við skulum nú alveg átta okkur á muninum á peningahliðinni á tímum Shankly og svo nú til dags. Þá var ekki verið að tala um að selja helstu tákn og eiginleika liðsins hæstbjóðanda heldur hafa yfirburðir liðsins fjárhagslega verið komnir af því að vera frá stórri borg og árangri á vellinum.
    Það sem ég og einhverjir örfáir aðrir hér hafa lýst áhyggjum yfir er að liðin eru að breytast í einhver sálarlaus stórfyrirtæki sem eru í engu sambandi við samfélögin sem þau spretta úr. Þetta er sérstaklega sorglegt í tilfelli Liverpool þar sem sagan og hefðin nánast drjúpa af hverju strái.
    Þegar kemur að fótboltaliðum hef ekki áhuga á að láta “selja” mér “ímynd” byggða á einhverri markaðssálfræði eins og Nike, Adidas, GAP, McDonald’s etc etc reyna að gera. Samband fólks við knattspyrnuliðið sitt hlýtur að vera merkilegra en við hvaða tegund af gosdrykk það drekkur eða hvernig þrælasaumaða skó það gengur í.

  3. Bönd og tónlistarmenn frá Manchester: The Chemical Brothers, David Gray, Joy Divison, Morrissey, New Order, Oasis, The Smiths, Starsailor og The Verve.

  4. Þó þessi bönd séu mörg hver alveg ágæt og jafnvel stórfín eru þau eins og lítið sandkorn við hliðina á fíl í samanburði við bítlana í frægð 🙂

  5. Enn og aftur pistill til fyrirmyndar frá Daða. Er virkilega ánægður með þessar vangaveltur hjá þér, aldrei bjóst ég við að ég myndi sitja jafn límdur yfir nokkrum texta um markaðsmál, og raunin er nú.

    Bíð spenntur eftir næsta pistli.

  6. Kannski óþarfi að telja upp The Smiths og síðan líka Morrissey þar sem hann var söngvari hljómsveitarinn og fór síðan í sóló.

    Annars held ég að þegar fólk heyri Bítlana nefnda á nafn þá hugsi það um leið um Liverpool

    Þegar fólk heyrir þessi nöfn nefnd efast ég um að það tengi við Manchester (nema kannski einhverjir einstaka tónlistarspekúlantar)

    Held að Daði hafi verið að meina þetta þó að vissulega hafi verið óþarfi að drulla yfir Manchester sem heimaborg tónlistarmanna. Sést á þessum lista frá Stefáni að Manchester hefur alið af sér marga frábæra tónlistarmenn.

  7. Ekki má gleyma Stone Roses í svona upptalningu. Held líka að flest af þessum gæða-böndum séu City megin í borginni. Hlýtur bara að vera. En fínn pistill annars. Hef fulla trú á að hefðirnar og sagan verði alltaf á forgangi hjá okkar ágæta klúbbi. Stuðningsmennirnir láta ekki bjóða sér neitt annað, því þessi klúbbur snýst um þá, fyrst og fremst.

  8. Nei, ég er alveg sammála Kristjáni og ykkur með Bítlana en ákvað bara að koma með smá fróðleik í boði Bítlanna. Umræðan átti aldrei að fara snúast um tónlist.

    Ég er alveg viss um að Carlsberg séu stoltir af Liverpool þessa stundina og máttu alveg vera ósáttir þegar Owen var farinn og Gerrard var á leiðinni í burtu enda vorum við allir hérna brjálaðir líka. Góður pistill.

  9. Þrælgóðir pistlar frá Daða hér á ferðinni. Vel skrifandi maður og skemmtilegt að lesa eftir hann. Vildi bara koma því frá mér.

  10. Frábærir pistlar og þarft innlegg í umræðuna.

    Til hvers ætti Adidas t.d. að eyða öllum þessum pening í flottar auglýsingar ef fólk getur svo ekki keypt langerma Liverpool-boli í Liverpool-borg?

    Ég var að hugsa þetta í ræktinni í morgun. (btw, hversu desperate er maður þegar maður fer að hugsa um búningamál liðsins síns í ræktinni?) – allavegana er að fara út og var að velta því fyrir mér hvort að íþróttabúðir í Skotlandi væru að selja nýja Evrópubúnigninn og æfingabúninginn.

    Og þá fór ég að hugsa hversu stjarnfræðilega heimskulegt þetta atvik með langermabolina var. Ég meina, þessir bolir kosta í mesta lagi svona 100 krónur í framleiðslu og eru seldir á 6.000 krónur. Ég var að leita að kjörstærð af aðalbúningnum, sem var öruggt að yrði ekki uppfærður fyrr en sumarið 2008. Allar búðir hefðu átt að vera troðfullar af þessu, þar sem áhættan við aukið birgðahald er svo lítil miðað við hugsanlegan gróða af sölu.

    Það er ekki bara markaðsstjórnun sem er í rúst hjá Liverpool, heldur virðist vörustjórnun vera það líka. Stórfurðulegt alveg hreint.

  11. Stóra langermabols málið virðist ætla að hafa gríðarlegar afleiðingar í för með sér.

  12. Stóra langermabols málið virðist ætla að hafa gríðarlegar afleiðingar í för með sér.

    Jamm, ég held að þetta verði notað sem dæmi í markaðsfræðibókum framtíðarinnar 🙂

  13. Er enginn möguleiki að þetta langermabolsmál hafi ekki verið eitthvað freak occurrance og mistök eða a.m.k. vafasamt að dæma heilt fyritæki út frá því?

  14. Frábærir pistlar og gaman að fá aðra hlið inn í þessa “venjulegu” liverpool umræðu.
    Það er einnig stór mekilegt að þegar ég ath inn á offical online shop (01.08) þá var varla hægt að versla nokkurn skapaðan hlut þar flest allt var (er) CURRENTLY UNAVAILABLE og virðist það ekki skifta nokkru máli hvort það eru búningar eða eitthvað annað.
    Þetta er náttúrlega engavegin nógu gott fyrir Liverpool FC

  15. Kjartan, ég get alveg staðfest það að þetta er ekki einsdæmi. Ég hef farið á yfir 60 Liverpool leiki, og þar af vel yfir 50 stykki á Anfield. Hef ávallt komið við í búðinni og ég hef ekki EINU SINNI fundið langerma treyju í Liverpool búðunum í þessum ferðum mínum, ekki einu sinni. Þessir leikir ná yfir 9 ára tímabil. Kannski get ég keypt fyrstu síðerma treyjuna mína á næsta tímabili 🙂

  16. Ég held að bestu líkurnar á að fá langerma treyju á Anfield sé hreinlega að ráðast á Carragher og rífa hann úr treyjunni. Það er allavegana auðveldara en að kaupa þær í búð.

  17. Ég mundi nú frekar ráðast á Peter Crouch heldur en Carragher. Það eru nú svona meiri möguleikar á að maður höndli hann 🙂 Verst bara að sennilega yrði treyjan aðeins of stór en maður verður að velja og hafna 😀

  18. Haha, Crouch var einmitt í stutterma bol í æfingaleik um daginn. Það var nokkuð fáranlegt.

  19. Reyndar myndi stuttermabolur frá Crouch duga sem langermabolur á flesta 🙂

  20. Þetta langermatreyju mál er nú ekki svo flókið, ég státa ekki af eins mörgum ferðum á Anfield og SSteinn, hef víst ekki farið nema þrisvar en í öllum mínum ferðum hafa verið til langermatreyjur í öllum stærðum.

  21. Ja hérna, ég þarf að fara að stíla inn á að fara um leið og þú, greinilega með sambönd 🙂 Ég er ekki að grínast með það, ég hef aldrei fengið aðalbúninginn langerma í large, simple as that.

  22. SSteinn og Þröstur, þetta er snilldarhugmynd fyrir Peter Crouch eftir að knattspyrnuferlinum lýkur. Auðvitað á maðurinn að gefa út eigin línu af langermabolum 🙂

    Jú það hafa margar fínar hljómsveitir komið frá Manchester en punkturinn var að engin hefur verið tengd við borgina á sama hátt og Bítlarnir við Liverpool…nema kannski Oasis og þá bara í Bretlandi sjálfu. Svo er náttúrulega hægt að ræða það í fleiri daga af hverju í ósköpunum Starsailor er ekki löngu búin að slá Bítlunum út í vinsældum 🙂

  23. Talandi um fótboltamenn og fataframleiðslu, af hverju Niall Quinn hefur ekki hafið framleiðslu á diskóbuxum er ofar mínum skilningi. Þetta er eitt besta fótboltalag sem samið hefur verið.
    Laglína: Here we go

    Niall Quinn’s disco pants are the best,
    They go up from his arse to his chest,
    They’re better than Adam and the Ants,
    Niall Quinn’s disco pants!

    Sagan á bakvið það er að hann var í fríi í S-Evrópu þegar Sunderland aðdáendur rákust á hann á bar í … diskóbuxum. Síðan hefur þetta lag fylgt honum. Algjör snilld 🙂

One Ping

  1. Pingback:

Byrjum við með -21 stig?

Leto orðinn löglegur