Pressan eykst

Mæli með ágætis grein í The Times um tímabilið sem framundan er hjá Liverpool, og pressuna sem hvílir á herðum Rafa Benítez eftir útlátin í sumar.

Það dylst engum að bæði leikmenn og áhangendur Liverpool eru með ensku Úrvalsdeildina á heilanum. Það eru rúm sautján ár síðan hann kom síðast yfir á safnið á Anfield og með hverju árinu sem líður langar okkur bara meira að sjá hann snúa “heim”.

Liðinu hefur gengið fádæma vel á þessum áratug í bikar- og Evrópukeppnum, svo að nú blasir við Rafa sú fágæta staða að geta hreinlega fórnað öllu öðru fyrir deildina. Ef hann sendir unglingalið í fyrstu umferð beggja bikarkeppnanna og tapar, og kemst ekki upp úr riðlakeppni Meistaradeildarinnar í haust, verður það fyrirgefið ef hann er efstur í deildinni á þeim tíma sem það gerist.

En auðvitað þarf það að gerast. Það vita allir nú orðið hvað til þarf: byrja mótið strax í fyrstu umferð, hala inn stig á útivöllum fyrir desember, gefa United og Chelsea ekki þessi 10-15 stig í forgjöf sem þeir hafa verið að fá síðustu ár. Maður hefur oft verið spenntur fyrir byrjun deildarinnar en í ár er spennan enn meiri, fyrsti leikurinn við Villa á útivelli virkar á mann eins og einhvers konar bikarúrslitaleikur. Ef Liverpool tapar stigum þar er hættan á spennufalli mikil, en þá verður liðið líka að gjöra svo vel og sigra Chelsea í öðrum leiknum.

Í dag eru þrettán dagar í fyrsta deildarleik. Niðurtalningin hefur verið löng í ár og mikið hefur breyst frá því að menn eins og Mark Gonzalez, Bolo Zenden og Daniel Padelli rétt mörðu jafntefli við Charlton í þýðingarlitlum lokaleik deildarinnar í vor. Ef allt gengur að óskum hjá Rafa verður síðasti deildarleikur vorsins 2008 ekki jafn þýðingarlítill. Hans vegna, og okkar allra, vona ég að sagan endurtaki sig ekki. Oft var þörf en nú er nauðsyn.

10 Comments

  1. Sammála þér því að byrja þurfi mótið strax í fyrstu umferð. Ef við tækjum undirbúninginn “súperdúper-alvarlega” þó gæti ósk þín og okkar allra ræst og gengi liðsins orðið súperdúper-gott í vetur. Það hefur reynst Man.Utd. vel að taka æfingaleiki súperdúper-alvarlega og gæti gert okkur gott líka.

  2. Að meðhöndla deildarleikina líkt og um bikarleiki/Evrópuleiki að ræða held ég að sé einmitt mjög mikilvægt atriði. Mér finnst stundum vanta upp á stemninguna hjá leikmönnum Liverpool í deildarleikjum, stemningu sem er svo greinilega sjáanleg í Evrópuleikjum. Ég minnist þess t.d. þegar Chelsea vann fyrri deildarleikinn gegn L’pool í fyrra 1-0 á Stamford þá fögnuðu þeir gríðarlega enda gerðu þeir sér fyllilega grein fyrir mikilvægi þess sigurs.

    Annað, ef við ætlum að vinna deildina þá gengur ekki að tefla fram byrjunarliði eins og gegn Sheff Utd í fyrsta leik í fyrra. Sjá: http://www.lfchistory.net/viewgame.asp?game_id=4993
    Það var klárlega ekki sterkasta lið Liverpool með Kromkamp, Zenden og Fowler í liðinu og það segir eitthvað um hugarfarið gagnvart þeim leik. Ég er ekki að efast um að Rafa tefldi fram liði sem honum fannst að ætti að sigra og ýmsar ástæður fyrir fjarveru sumra en þetta var ekki okkar sterkasta lið.

    Ég vona að sterkasta lið Liverpool mæti til leiks gegn Villa í fyrsta leik þetta árið og með hugarfar líkt og um bikarleik sé að ræða!

    P.s. svo má alltaf deila um hvað er sterkasta lið Liverpool 🙂

  3. Ekki spurning að fyrsti leikurinn er gríðarmikilvægur. Ef við höldum útileikjaforminu frá síðasta tímabili þá er kannski ekki von á góðu og síðan er deildar recordið gegn Chelsea ekki upp á marga fiska á tímum Mourinho þannig að það er ekkert óhugsandi að eftir 2 umferðir verði liverpool liðið án sigurs. Þá eykst pressan og gagnrýnin og allt verður erfiðara. Einnig er mjög mikilvægt að Torres setji mark fljótlega því enska pressan er líkleg til að jarðsetja hann eftir því sem tekur hann lengri tíma að skora.

    En ef við aftur á móti horfum svolítið bjart á þetta þá væri gríðargott að ná í 3 stig á villa park og taka svo chelsea heima og jarða þar með 2 grýlur strax í byrjun tímabils. Þá erum við sko að tala saman 🙂

  4. Alex Malone skrifaði góða grein á dögunum – sjá: http://www.thisisanfield.com/columnists/2007/07/release-the-shackles-rafa/

    Hann talar um róteringu á liðinu og hefur ekki eins miklar áhyggjur af henni fyrir þessa leiktíð einfaldlega vegna þess að hópurinn sé sterkari. Reyndar finnst mér erfitt að fullyrða um það á þessari stundu en finnst það samt líklegt að það sé rétt.

    Svo talar hann um að lykilinn sé að nálgast útileiki og heimaleiki á sama hátt – Með sókn, sókn og aftur sókn. Hann vill meina að afstaða Rafa til útileikjanna sé ekki rétt og vill bara sjá sömu spilamennsku og á Anfield, nema kannski gegn þessum þremur stóru liðum.

    Svo segir hann:
    “If you look at last season’s table, using only home form, Liverpool won 14 of their 19 games. We gathered 46 points at home and scored 39 goals. On home form alone, we would have finished in 2nd place, a single point behind Man United and 3 points ahead of Chelsea! Only United and Arsenal outscored us at home, by 7 and 4 goals respectively.

    But then there’s the away form!! A pathetic six wins and an even more pathetic 18 goals scored in 19 games. We ended the season with a –2 goal difference away from home versus a whopping +32 at home. Looking at away form only, we finished 20 points behind United, 18 behind Chelsea, and 4 behind Arsenal. United outscored us by 19 goals, more than doubling our tally.We finished just 3 points better off than Wigan… who finished 4th from bottom of the league!”

    Hvað segið þið? Er minni rótering á liðinu, bikarleikjahugarfar og sókn á útivöllum lykilinn að titli nr. 19 🙂

  5. Ég hef sagt það áður að ég tel að munurinn á útivalllarforminu í fyrra og árið þar áður hafi verið það að Rafa notaði Kuyt í staðinn fyrir Crouch og það var að mínu mati mikil afturför, sérstaklega á móti lakari liðunum.

  6. Gummi: Þetta er ótrúleg tölfræði og kemur aftan af mér hversu gríðarlegur munur þetta er á heimavellinum og útivellinum. Vissi að það var munur en ekki svona stór.

    Það er klárt mál að til að við ætlum okkar eitthvað í deildinni þá verðum við að hirða upp fleiri stig á útivelli. Og sýna áhuga og vilja til þess að skora mörk. Ennfremur að ná að færa yfirburði út á vellinum yfir í mörk, það var oft á tíðum okkar akkilesarhæll.

    Hvað varðar róteringu á liðinu þá vil ég meina að hópurinn er það miklu breiðari og sterkari í ár að við ættum að geta barist á fullu á öllum vígstöðum. Bikararnir eiga að vera fyrir leikmenn sem spila ekki reglulega á meðan deild og CL er fyrir fastamenn. Síðan er bara að vona að þeir leikmenn sem fá sénsinn gerir Rafa erfitt fyrir að horfa framhjá þeim.

    Ég las einhver staðar að kjarnin í liðinu er nógu sterkur en það hefur vantað leikmennina til að fylla uppí hinar stöðurnar. Með tilkomu leikmanna eins og Voronin, Babel, Carson, Torres, Arbeloa, Kewell, Aurelio, Benayoun, Lucas, Mascheranon o.s.frv. þá er hópurinn orðinn vel massívur. Farnir eru þess í stað leikmenn eins og Kromkamp, Fowler, Zenden, Gonzalez, Padelli, Garcia, Bellamy, Dudek, Pongolle, Cisse o.s.frv.

    Það er samt klárt mál að þessir nýju leikmenn þurfa mislangan tíma til að aðlagast og alveg eins líklegt að einhverjir aðlagast ekki. Það getur tíminn einn leitt í ljós. Það er samt á hreinu að ég er með meiri væntingar og bjartsýnni en áður og tel ég það vel raunhæft að hugsa þannig.

  7. Einar, mér þykir það of mikil einföldun hjá þér að kenna Kuyt um gengið á útivelli í fyrra. Hann myndi sennilega viðurkenna það fyrstur manna að honum gekk ekki jafn vel og hann vonaðist eftir í fyrra (gekk samt alls ekki illa, bara ekki jafn vel og menn bjuggust við) en að gefa það í skyn að hann sé rót alls ills er ekki sanngjarnt.

    Það sem fór aflaga á útivöllum í fyrra var að mínu mati eftirfarandi (í engri sérstakri röð):

    1. Of mikil rótering á liðinu hjá Rafa.
    2. Menn of þreyttir eftir HM og/eða of lengi að byrja að spila skv. getu (sjá Gerrard og Alonso sem dæmi, voru skugginn af sjálfum sér alveg fram í desember)
    3. Pennant var mjög seinn í gang og Gonzalez fann sig aldrei. Fyrir vikið var víddin í leik liðsins nánast engin framan af vetri.
    4. Fyrir utan Crouch voru framherjarnir varla með sl. vetur. Kuyt skoraði drjúgt á Anfield í deildinni en nánast ekkert þess utan, á meðan Bellamy mætti bara til leiks af einhverri alvöru í svona 2-3 mánuði af átta. Fowlerinn var svo klárlega á síðustu dropunum.
    5. Brútal leikjaskipulag. Þetta er eina atriðið sem hefur þegar verið lagað fyrir komandi vetur, enda þurfum við ekki að byrja á útileikjum gegn Chelsea, Everton, Bolton, Man Utd og Arsenal áður en október er úti.

    Ef hægt er að laga fjögur efri atriðin er að mínu mati ástæða til bjartsýni. Malone nefnir í pistli sínum að jafnvel þótt Rafa róteri jafn mikið í ár og í fyrra ætti það ekki að vera jafn mikið vandamál, þar sem breiddin er miklu sterkari en í fyrra. Þá var ekkert stórmót í sumar þannig að við getum búist fastlega við því að lykilmenn eins og Alonso, Gerrard, Carragher og Kuyt byrji tímabilið af krafti strax í fyrsta leik. Pennant var lengi í gang í fyrra en hefur aldrei litið til baka síðan hann fór að spila vel og er í dag einn okkar mest skapandi leikmaður og nánast öruggur byrjunarliðsmaður í fyrsta leik. Aurelio er frá vegna meiðsla en við hafa bæst Kewell (heill), Benayoun og Babel sem gera kantana mjög öfluga og meira að segja vaðandi í samkeppni í upphafi tímabils. Að lokum hefur Fowler og Bellamy verið skipt út fyrir Torres og Voronin og jafnvel þótt þeir þurfi einhvern tíma til að ná fullum styrk með liðinu hreinlega trúi ég ekki öðru en að þeir byrji betur en Bellamy gerði í fyrra.

    Þannig að þið sjáið það að það er full ástæða til bjartsýni og algjörlega raunhæft að gera þær kröfur til liðsins að það byrji titilsókn af krafti strax í ágúst í ár. Allt það sem var að eða vantaði uppá í fyrra hefur verið lagað eða er til staðar í ár. Svo einfalt er það bara. En tal er ódýrt, menn þurfa að láta það skila sér inná völlinn og vonandi gerist það strax 11. ágúst.

  8. Já, afsakaðu – það sem ég átti að hafa skrifað var: “stór ástæða fyrir verra útivallarformi var…” – þetta var auðvitað ekki eina skýringin.

  9. hæ hæ,
    takk fyrir FRÁBÆRT , Liverpool blogg .. er búin að fylgjast með ykkur hér frá því um sumarið 2005.
    Mér er spurn , og vona ég að þið getið sagt mér .. hvaða bloggveitu eruð þið að nota fyrir þetta blogg ? svona fyrir forvitnissakir .. -:) kv. Vala

Chelsea verða ömurlegir!

Hver er besti stjórinn?