Tvær vikur í tímabilið

Eins og lesendur síðunnar hafa kannski tekið eftir hef ég ekki bloggað mikið síðustu tvær vikur eða svo. Mér datt í hug að gefa mér smá tíma á meðan tiltölulega lítið væri að gerast í LFC-heimum til að hvíla mig aðeins á síðunni. Enda skiptir það engu máli, Einar og Aggi hafa verið öflugir uppá síðkastið þannig að það hefur eflaust enginn saknað mín. 😉

En allavega, nú er að ljúka sunnudegi og það er tæp vika í Verslunarmannahelgi, og í beinu framhaldi af því eru aðeins tvær vikur í dag þangað til Liverpool og Chelsea rölta út á Millennium Stadium í Cardiff og spila uppáhaldsleik knattspyrnudeildar Adidas-risans, um Samfélagsskjöldinn 2006. Þar munu bæði lið skarta þremur hvítum röndum í fyrsta sinn í langan tíma.

Nú, í gær töpuðu okkar menn fyrir Kaiserslautern í vináttuleik, eins og áður hefur komið fram og allir vita. Fyrir forvitna, eða menn eins og mig sem misstu af leiknum, eru hér mörkin úr leiknum (YouTube-myndbönd):

1-0: Kaiserslautern.
1-1: Craig Bellamy eftir flottan undirbúning Luis García.
2-1: Luis García eftir flottan samleik Craig Bellamy og Jermaine Pennant.
2-2: Kaiserslautern.
3-2: Kaiserslautern eftir skógarferð Jerzy Dudek.
Markskot Pepe Reina eftir að hann kom inná sem miðjumaður.

Nú sá ég ekki leikinn en miðað við þessar klippur úr leiknum er hægt að draga leikinn saman sem svo:

1. Luis García. Þótt ótrúlegt megi virðast hafa sumir efast um það hvaða gagn hann gerir frá því að hann kom til liðsins, en leikurinn í gær var enn eitt frábæra dæmið um það hvers vegna hann er mikilvægur í liði Rafa Benítez. Fyrsta mark okkar manna kom eftir flotta sólóvinnu hans og fína stoðsendingu, og það síðara kom eftir að hann var réttur maður á réttum stað inní teig til að reka smiðshöggið á samspil liðsins. Lesist: hann gerir það sem þarf sem sóknarmaður; skorar mörk og býr þau til!

2. Bellamy er núna kominn með tvö mörk í þremur æfingaleikjum, en þau eru bæði eftir undirbúning manna sem munu spila við hlið hans í allan vetur, García og Fowler. Það veit á gott uppá tímabilið að gera ef hann er strax að falla inn í leik liðsins.

3. Jermaine Pennant á stoðsendinguna í öðru markinu, og þótt það sé ennþá aaalllttt of snemmt að fara að spá einhverri velgengni þá var hreinlega hressandi að sjá hægri kantmann stinga sér innfyrir flata varnarlínu andstæðinganna og búa til mark. Hægri kantur, hraði, stoðsending. Velkominn til Liverpool, Jermaine Pennant, mikið er ég feginn að sjá þig!

4. Jack Hobbs átti þrjú mistök sem gáfu mark og var víst í tárum eftir leikinn. Ég geri ráð fyrir að meira og minna allir leikmenn Liverpool og þjálfarar hafi hughreyst hann eftir leik og sagt honum það sem allir heilvita áhugamenn um knattspyrnu eiga að vita: hann er bara sautján ára og það er ekki glæpur að gera mistök á þeim aldri. Það hins vegar jaðrar nánast við glæp ef hann lærir ekki af þessum mistökum sínum. Leikurinn í gær mun reynast honum dýrmætur í framtíðinni.

5. Pepe … af hverju negldirðu ekki tuðrunni á markið eins og þú tekur markspyrnurnar? Til hvers þessi innanfótarspyrna? Hver heldurðu að þú sért, Xabi Alonso? Þú klúðraðir þar með eina möguleika þínum á að fá nokkurn tímann að taka víti fyrir Liverpool … 🙂

Nóg í bili frá mér. Ég er kominn aftur, endurnærður, og hlakka til að blogga meira um Liverpool er við byrjum að telja niður í nýja tímabilið! Það eru tveir æfingaleiki framundan í vikunni, báðir sýndir í sjónvarpi og svo geri ég ráð fyrir að Dirk Kuyt-slúðrið nái hámarki á næstu dögum, með fréttum af eða á (vonandi á) … þetta er að skella á!

4 Comments

  1. Garcia er ómetanlegur og hefur sýnt okkur það oft og mörgum sinnum. Alltaf líklegur til að gera þetta óvænta sem skilur liðin að í leikslok!

  2. Garcia er alger gullmoli, hann gerir hlutina nákvæmlega eins og Gummi H. sagði hér að ofan hið óvænta.

    Hann er “vital” fyrir þetta lið.

Liverpool – FC Kaiserslautern 2-3

Carrick