Missir Kewell af byrjun tímabilsins?

Samkvæmt fregnum í dag gæti farið svo að Harry Kewell missi af fyrstu leikjunum í haust, þar sem Ástralir vilja fá hann til að spila fyrir sig á Ólympíuleikunum í Grikklandi í ágúst.

Frank Farina, landsliðsþjálfari Ástralíu, er svosum ekkert í allt of öfundsverðu hlutverki. Það getur ekki verið auðvelt að vera landsliðsþjálfari Ástralíu, þar sem meira og minna allir landsliðsmennirnir eru að spila hinum megin á hnettinum (Farina er víst með skrifstofu í London og ástralska landsliðið spilar oft æfingaleiki sína í Birmingham í Englandi) auk þess sem leikir liðsins stangast jafnan á við tímabilið í Evrópu. Það virðist vera að gerast aftur núna.

Farina er þegar búinn að birta landsliðshópinn og þegar er einn maður búinn að senda inn beiðni um að sinn leikmaður megi sleppa að mæta með landsliðinu á Ólympíuleikana. Það er Alex McLeish, þjálfari Rangers í Skotlandi, en um hann hafði Farina þetta að segja:

>Rangers have been the first club to put in a request to withdraw a player. We sent out letters to a number of clubs about player selection and Rangers have done what I expect most other clubs will do in the next week or so.

>”But we will inform Alex McLeish, and anyone else who asks, that unless the club release Moore, FIFA regulations will be invoked which will ban him from playing for Rangers during the Olympic tournament.”

Það muna eflaust margir eftir því síðasta vetur, þegar Mark Viduka dró sig út úr landsleik hjá Ástralíu, að Farina fór einmitt fram á að þessari reglu yrði beitt. FIFA tóku undir beiðni hans og því mátti Viduka þola tveggja leikja bann fyrir Leeds, þrátt fyrir að vera alveg heill heilsu og reiðubúinn að leika. Þannig að menn skulu ekki efast um það að Farina geri alvöru úr hótunum sínum.

Þetta væri vissulega frekar slæmt mál fyrir Liverpool ef satt reynist – þetta gæti þýtt að Kewell missir af fyrstu 3-4 leikjunum á tímabilinu, sem og forkeppni Meistaradeildarinnar. Það gæti sett Benítez í svolítinn bobba, þar sem Kewell er eini örfætti miðjumaðurinn sem við höfum að svo stöddu. Kannski gæti hann ákveðið að nota Murphy eða jafnvel einhvern eins og Stephen Warnock þarna (sem spilar bakvörð og/eða kantmann vinstra megin og er örfættur) en þeir eru samt ekki jafn öruggir í þessari stöðu og Kewell.

Jæja … við sjáum hvað setur. Ég geri fastlega ráð fyrir að Liverpool fari þess á leit við Ástralíu að Kewell fái að sleppa því að spila þarna, og svo verður framhaldið bara að ráðast. Mér líkar samt illa tilhugsunin um að byrja tímabilið án Kewell.

Nema að Benítez kaupi Vícente Rodriguez frá Valencia. 🙂

5 Comments

 1. Mig minnir að Diouf hafi spilað einna best þegar hann var á vinstri kantinum 🙂

  Ég segi það aftur, það væru stórkostleg mistök að selja Diouf núna.

  En þetta er svakalega erfitt fyrir alla, sem eru ekki frá Evrópu. Afríku-leikmennirnir lenda í svipuðu með Afríkukeppnina og sömuleiðis Suður-Ameríkumenn, sem þurfa að fljúga hálfan hnöttinn fyrir leik í miðri viku. Það þyrfti að gera eitthvað í þessu.

 2. Jamm, ég á enn bikarleikinn gegn Blackburn í fyrra á spólu og ef mig langar að rifja upp hversu vel Diouf getur spilað þá horfi ég bara á hann. 😉

  Annars er ég gjörsamlega sammála þér varðandi þessi landsliðsmál. Eina mögulega lausnin er sú að samræma deildarkeppnirnar og landsliðsfríin í öllum heiminum. FIFA þarf bara að taka sig til og samræma þetta, segja bara að tímabilin eigi að byrja í öllum deildarkeppnum innan FIFA á milli 10. og 20. ágúst, það eigi að vera landsliðsfrí þessa og þessa vikuna og svo loks að láta landsliðskeppnirnar, Álfukeppnirnar svokölluðu, fara fram á sama tíma. Það myndi engu breyta þótt Afríka, Evrópa, Asía og Ameríka héldu sínar álfukeppnir á sömu leikdögum, tímamismunurinn gerir það að verkum að leikirnir myndu aldrei skarast þannig að sjónvarpsstöðvarnar myndu ekki geta mótmælt þessu.

  Það verður að samræma þetta. Það gengur bara ekki að lið, eins og t.d. Liverpool eða Barcelona eða flestöll stóru liðin í Evrópu, þurfi að vera án einhvers hluta leikmannahóps síns 80% leiktíðarinnar. Ef það eru ekki Diouf og Diao (og kannski Traoré, sem vill víst spila fyrir Malí) að keppa í Afríkukeppni þá eru það Owen, Gerrard og hinir að keppa í Evrópu … og svo Kewell fyrir Ástralíu … og hvað næst? Asíubúi, enn einn mikilvægur liðsmaðurinn sem hverfur þegar liðið þarfnast hans?

  Þetta er ekki hægt. Fótbolti er orðinn alþjóðaíþrótt og FIFA verður að skipuleggja hann þannig.

 3. Jáá, auðvitað. Blackburn í bikarkeppninni, það var leikurinn, sem ég var að hugsa um. Diouf gjörsamlega tætti vörn Blackburn í sig af vinstri kantinum.

 4. Ég man vel eftir þessum Blackburn leik, langbesta frammistaða Diouf í rauðu treyjunni en það verður samt sem áður að benda á að Blackburn voru einum manni færri eftir að vinstri bakvörðurinn þeirra var rekinn útaf og því hafði Diouf mikið pláss og góðan tíma til að leika sér að þeim.

  Það eru öll þessi “off the field” mál sem eru vandamálið, Diouf er víst full mikið fyrir vera úti að skemmta sér á kvöldin. Hann var víst einum of lengi úti að skemmta sér í lok vetrar og það fór þannig að hann endaði í banni hjá Houllier það sem eftir var tímbilsins.

 5. Gallin við það að setja allar keppnir á á sama tíma er sú að þegar Afríkukeppnin færi fram í júní þá væru mennirnir að spila í um það bil 50 stiga hita og ég held að þeir mundu ekki meika það.

  Fyrir utan það að láta allar deildarkeppnir byrja á sama tíma yrði ekkert sérstakt fyrir Ísland, Noreg og Rússland til dæmis.

  En samt að þessu með Kewell þá er fáránlegt að maður megi ekki draga sig úr landsliði án þess að fara í bann samanber Viduka bullið. Ef þú ert valinn í landslið en langar ekki að spila leikinn þá getur landsliðið látið setja þig í bann. BULL

Mourinho um Davids

Davids, Cheyrou og fleiri…