Holland í kvöld!

Þar sem í kvöld er stórleikur landsliða er lítið að frétta af Liverpool, annað en hið venjulega slúður og úr-samhengi-teknar tilvitnanir eftir hina og þessa. Til að mynda langar Tomas Rosicky voðalega mikið að komast til Liverpool, þar sem hann getur ekki sofið fyrir æsingi við tilhugsunina um að fá að mata Milan Baros á stoðsendingum allan næsta vetur. Þá virðist Benítez, skv. slúðrinu, ætla að kaupa hálfa spænsku deildina. Hann ætlar m.a. að versla Miguel Angel, varnarsinnaðan miðjumann hjá Malaga, auk þess sem hann ætlar að því er virðist að kaupa Xabi Alonso hjá Real Sociedad og Ruben Baraja hjá Valencía, í sömu stöðu og Miguel Angel spilar. Nú, ef við bætum við Didi Hamann, Danny Murphy og John Welsh ættum við ekki að vera á flæðiskeri staddir hvað miðjuna varðar, hmmm?

Einn er þó miðjumaðurinn sem er ekki á leiðinni til L’pool: Rick Parry segir að L’pool séu alls ekki að fara að kaupa Michael Ballack! Skv. frétt KopTalk.com þá finnst manni líklegast að Ballack hafi í rauninni bara viljað koma því í fjölmiðla að önnur lið en Barcelona væru að eltast við hann, til að setja þrýsting á Barcelona að bjóða betur en þeir hafa verið að gera í hann.

En það þýðir að leikmenn og lið geti notað sér fjölmiðla til að beita þrýstingi á aðra leikmenn og/eða önnur lið? Neeeeeei! Getur ekki verið, er það nokkuð herra Abramovitsj???


Annars er aðeins eitt knattspyrnumál á dagskrá í kvöld og það er stórleikur Portúgala og Hollendinga í undanúrslitum EM 2004. Áfram Holland, það er mitt lið og Einars líka! En þótt ótrúlegt megi virðast þá mun ég ekki horfa á leikinn. Já, ég játa: kærustunni tókst að draga mig í “leikhús” – á FAME – þannig að í stað þess að fagna með Robben, Davids & co. í kvöld verð ég klappandi Jónsa og Sveppa svona þrisvar upp á svið. Spáið í því … enda sagði ég við kærustuna að ef hún vogaði sér að efast um mig eftir kvöldið í kvöld þá myndi ég svoleiðis…..

…..reka hana út og horfa einn á Tékkland – Grikkland annað kvöld!

En ég örvænti ekki, leikurinn verður tekinn upp á spólu þannig að ég dansa (vonandi) hollenskan stríðsdans um tvö-leytið í nótt eða svo! Tjái mig svo bara um dæmið á morgun, auk þess sem Einar snýr eflaust aftur úr Ameríkunni annað kvöld með mikla innsýn í Gerrard-málin. Það verður gaman að heyra hvað honum finnst um þróun vikunnar.

Að lokum, mín spá: Portúgal 2 – Holland 2 (Holland fer áfram í vító). Edwin van der Saar var bara ooof svalur um helgina þegar hann varði vítið frá Mellberg – hann verður hetjan aftur í kvöld. Sjáið bara til!

Juve vilja fá Baros!

Portúgal í úrslit!