Portúgal í úrslit!

Þannig fór um sjóferð þá hjá mínum mönnum, Hollendingum, sem töpuðu gegn Portúgal, 2-1, í undanúrslitum EM 2004 í kvöld!

Þessi sigur var að mínu mati fyllilega verðskuldaður. Þótt ég haldi með Hollandi verður ekki hægt að líta framhjá því að þeir hafa bara einfaldlega ekki verið að spila nógu vel í þessari keppni. En einmitt þegar maður hélt að þeir gætu rifið upp stemninguna innan liðsins fyrir svona stóran leik komu þeir manni á óvart og virkuðu hálf daufir í fyrri hálfleik. Á meðan Portúgalirnir komu flugbeittir og ákveðnir til leiks fannst mér eins og ég væri enn að bíða eftir að Hollendingarnir byrjuðu að reyna á sig þegar Frisk dómari flautaði til hálfleiks.

Nú, Portúgalirnir skoruðu öll mörkin í leiknum og ef ekki hefði verið fyrir klaufaskap Jorgé Andrade (sem annars átti stórgóðan leik í vörninni og jarðaði van Nistelrooy algjörlega) þá hefðu Hollendingarnir aldrei átt séns. En úr því að sjálfsmarkið gaf þeim von pressuðu þeir rosalega undir lokin og ég var eiginlega orðinn viss um að mín spá myndi rætast (2-2 eftir 90 mín., Holland vinnur í vító). En allt kom fyrir ekki, Portúgalirnir héldu þetta út í 94 mínútur og eru núna komnir í úrslitaleikinn. Sem þeir eiga skilið – að undanskildum fyrstu 45 mínútunum gegn Grikkjum, þar sem þeir gerðu sig seka um rosalegt vanmat, hafa Portúgalirnir verið mjög góðir og ört vaxandi í gegnum alla keppnina.

Nú er bara að sjá hvort Baros og co. í landsliði Tékka tryggja sér ekki réttinn til að taka á heimamönnum á sunnudag. Sá úrslitaleikur ætti að verða rosalegur – en tékkneska liðið er það eina sem að mínu mati hefur spilað betur en það portúgalska í þessu móti.

Talandi um Milan Baros: tap Hollendinga í kvöld nánast tryggði honum markakóngstitilinn á EM 2004. Ruud van Nistelrooy var með 4 mörk fyrir leikinn í kvöld en tókst ekki að skora, þannig að eins lengi og hvorki Marek Heinz eða Jan Koller eru að fara að skora þrennu eða fernu á morgun þá er varaskeifa Emile Heskey þegar orðinn markakóngur EM 2004 og eina spurningin er hvort hann bætir við mörkum á morgun. Vonandi.

Á morgun er svo stór dagur í lífi allra Liverpool-aðdáenda. Nei, ég er ekki að tala um heimkomu Einars … ég er að tala um þriggja ára bið sem er nú loks á enda og verður því gert betur skil á þessari síðu á morgun, 1. júlí 2004. Stór dagur og svei mér þá ef ég fæ mér ekki franskt hvítvín yfir leiknum annað kvöld til að fagna þessu…

Hann er að koma. Á morgun. Loksins. Við höfum beðið allt of lengi.

3 Comments

  1. Varðandi Hollenska landsliðið að þá ætti að reka þjálfara liðsins hið snarasta. Ef lið sem hefur 4 heimsklassa sóknarmenn þarf að spila 4-5-1 alla keppnina, þá er illa komið fyrir fótboltanum í dag. Kluivert fékk ekkert að spila í keppninni (kannski fáeinar mínútur í riðlakeppninni…allavega man ég ekki eftir því) en í staðinn fyrir að spila 4-4-2 og hafa tvo skæða sóknarmenn frammi og með feykilega sterka miðju þar fyrir aftan til að styðja við, spila þeir varnarleik! Svo ofan á þetta allt saman kunni Dick þjálfari ekki að lesa leikinn betur en það að þegar hann skipti útaf virtist það vera hans takmark að taka alltaf besta og sókndjarfasta manninn útaf! Houllier og þessi Dick eiga svo sannarlega ekki heima í fótboltaheiminum í dag og sem betur fer verða þeir vonandi báðir atvinnulausir eftir ekki langan tíma.

  2. Hvað er Ronaldo með mörg mörk ? Og með Klauivert þá spilaði hann ekki eina mínútu í keppninni, alveg út í hött hvað það var augljós að Ruud var ekki maðurinn til að spila á móti Portúgal einn uppi og það var augljóst í fyrri hálfleik, þessi Advocat ætti bara að halda aftur til Skotlands.

    frábær síða hjá ykkur 🙂

    og að lokum bara áfram Tékkar 🙂

  3. Christiano Ronaldo hjá Portúgal er kominn með 2 mörk – eitt á móti Grikklandi í fyrsta leiknum og svo eitt í gær á móti Hollandi. Hann er samt kominn með nokkrar stoðsendingar og ljóst að hann er ein af stjörnum þessa móts…

    Og já ég er sammála ykkur – þessi taktík var bara ekki að virka. Hún svínvirkaði í 35 mínútur á móti Tékkum en eftir það, eftir að menn fóru að passa sig sérstaklega á Robben og klippa hann út úr leiknum, virtust þeir bitlausir (nema gegn arfaslökum Lettum) og ráðalausir. Ég hefði líka byrjað með Van Nistelrooy einan frammi en úr því að það var ekki að virka átti hann að fórna t.d. Cocu á miðjunni og fara í 4-4-2, með Makaay frammi ásamt Van Nistelrooy og Robben og Overmars/van der Meyde á köntunum. Seedorf og Davids hefðu getað séð um sókndjarfa miðju… en hann hélt fast í upphaflega taktík og því fór sem fór – Portúgalirnir höfðu svör við öllu sem Hollendingarnir reyndu í gær.

Holland í kvöld!

Bjóðum Velkominn: Djibril Cissé!