Newcastle 1-3 Liverpool

Jæja, góður 3-1 sigur á Newcastle staðreynd. Rafa gerði fimm breytingar frá síðasta leik þegar við burstuðum Fulham 5-1. Finnan og Morientes voru ekki einu sinni í hópnum enda er hann stór og það komast hreinlega ekki alltaf allir fyrir. Ég sá ekkert um meiðsli hjá þeim. Uppstillingin var mjög skrýtin fannst mér.

Liðið í dag:

Reina

Carragher – Hyypiä – Agger
Kromkamp                    Warnock
Gerrard – Hamann
Kewell          Cisse
Crouch

Þrír miðverðir og tveir bakverðir en reyndar spilaði Agger vinstra megin og Kromkamp var duglegur að detta til baka. Cisse dró sig mikið út á hægri kantinn og Kewell var mikið inni á miðjunni. Warnock fór fram við hvert tækifæri og Crouch var stundum einn í framlínunni.

Fyrri hálfleikur var skemmtilegur á að horfa. Við byrjuðum leikinn betur en þeir með Warnock síógnandi á vinstri kantinum. Hann átti þrjár fyrirgjafir og skapaði fyrsta færið þegar Crouch skallaði framhjá eftir fimm mínútna leik.

Vörnin og miðjan var mjög þétt til að byrja með og á 10. mínútu kom fyrsta markið. Gerrard sendi út til hægri á Kromkamp, ég öskraði á hann að skjóta, en sem betur fer hlustaði hann ekki á mig og sendi boltann fyrir þar sem Crouch var mættur og stangaði boltann í netið. Flott mark og við komnir yfir.

Eftir þetta slökuðum við aðeins á og Newcastle, með hinn sívælandi og óþolandi Alan Shearer fremstan í flokki, fóru að sækja meira. Þeir áttu nokkur færi auk þess sem í þrígang var Reina í smá rugli þegar hann kom lant út úr markinu en það fór nú alltaf vel á endanum.

Á 31. mínútu voru Newcastle í sókn og hver annar en Shearer var að reyna að væla út aukaspyrnu, Agger ákvað að láta dómarann um að dæma og geystist fram með boltann, sendi á Cisse sem var í svipaðri stöðu og Kromkamp. Cisse sendi á fjær þar sem Stevie skallaði boltann til Crouch sem lagði hann síðan út á Gerrard sem þrumaði boltanum í netið. 2-0!

Ég hefði nú viljað sá menn ráðast aðeins meira á hinn skelfilega Peter Ramage sem á einhvern ótrúlegan hátt kemst í byrjunarliðið eftir afleita frammistöðu gegn Man U um síðustu helgi. Já og ef einhver var meira óþolandi en Shearer í þessum leik var það Snorri Már Skúlason! Hver hundleiðinlegi frasinn á eftir öðrum og ég veit ekki hvað. Kannski er ég einn um að hafa tekið eftir þessu og fundist þetta leiðinlegt….

En lokamínútur fyrri hálfleiks voru glataðar. Scott Parker sendi inn í teiginn þar sem einn og óvaldaður Shola Ameobi átti ekki í vandræðum með að skalla boltann yfir Reina í markinu. Hann var ekki rangstæður og ótrúlega illa dekkaður. Hyypia þar að sök. Staðan oðin 2-1 og aftur fór Newcastle í sókn. Jean-Alain Boumsong fékk sannkallað dauðafæri þegar hann var aftur, einn og óvaldaður í teignum, en hann hitti ekki boltann. Lélegt hjá honum og við stálheppnir að halda forystunni í hálfleiknum….

Í byrjun síðari hálfleik tókst Boumsong svo að eyðileggja leikinn. Þessi varnarmaður hefur ekki hrifið mig í vetur og sannaði af hverju í dag. Hann átti einfalt hlutverk með að sparka boltanum fram völlinn, en nei. Hann hitti ekki boltann og Crouch komst innfyrir hann, sótti að markinu þegar Boumsong hengdi sig á hann og fékk að sjálfsögðu á sig víti og rautt spjald. Hárréttur dómur og ekkert við þessu að segja!

Cisse tók vítið og skoraði af miklu öryggi. Hann fagnaði markinu með því að senda fjölskyldu sinni skilaboð þar sem hann tjáði ást sína á þeim og fékk fyrir vikið gult spjald þar sem hann lyfti treyjunni sinni. Það sem hann gerði síðan var mjög heimskulegt. Stuðningsmenn Newcastle bauluðu á hann og hann ögraði þeim með því að hvetja þá áfram. Hann hefði vel getað fengið rautt spjald þá. Ótrúlega heimskulegt hjá Frakkanum og óskiljanlegt. Allir leikmenn Liverpool töluðu við hann og bentu honum á hversu heimskulegt þetta var. En sem betur fer hékk hann inni á vellinum.

Eftir þetta var leikurinn búinn og hann datt heilmikið niður. Cisse fékk mjög gott færi þar sem hann hefði reyndar átt að senda á Kewell auk þess sem Luis Garcia var í góðri stöðu en náði ekki að nýta sér hana.

Shay Given bjargaði Newcastle í tvígang með frábærum markvörslum, fyrst frá Xabi eftir glæsilegt skot en þá varði Írinn knái stórglæsilega. Eftir hornspyrnuna átti Kromkamp svo skot sem Given sló frá.

En vá, stuðningsmenn Liverpool í leiknum… þeir voru ótrúlegir. Maður heyrði í þeim allan tímann og 5000 manns frá Liverpool yfirgnæfðu ?næst bestu stuðningsmenn Englands? allan leikinn. Maður heyrir ekki oft í gestaliðinu þegar maður horfir á leiki í sjónvarpinu en maður gat vel sungið með lögunum að þessu sinni

Maður leiksins: Peter Crouch. Skoraði fyrsta markið, lagði upp annað og fiskaði svo vítið sem Cisse skoraði úr. Það kallar maður góðan leik. Auk þess fannst mér Warnock góður, Hamann líka og flestir voru að spila vel. Ég er einnig ánægður með Cisse, hann var ráðleysislegur á köflum en átti fína spretti. Hann hefur ekki mikið fengið að spila en ég vil sjá hann meira, kannski verður hann ekki seldur í sumar eftir allt?

En góður leikur hjá okkar mönnum, þrjú mjög mikilvæg stig þar sem öll hin toppliðin unnu líka… næsti leikur er svo á þriðjudaginn gegn Birmingham í FA bikarnum, eini bikarinn sem við eigum möguleika á að vinna á þessu tímabili.

YNWA

19 Comments

  1. ef vel er að gáð sést að carragher klikkar í markinu sem newcastle skoraði. Vegna hans var ameobi ekki rangstæður. Því var þetta ekki endilega sök finnans. matsatriði…..
    Fín þrjú stig og menn farnir að skora;)
    Peter Crouch var drullugóður.

  2. Þetta var verulega gott.

    Margir ánægjulegir punktar.

    – Skoruðum þrjú mörk
    – Warnock var öflugur á kantinum
    – Crouch virkilega góður
    – Tveir framherjar ná að skora
    – Náðum m.a.s. að gefa Gerrard 20 mínútna hvíld!

    og svo framvegis…

    Ég verð þó að taka upp hanskann fyrir Snorra Má, fannst þetta alls ekki slæm lýsing.

    Man einhver hvernig reglurnar eru varðandi þessi skyrtumál? Má ekkert skrifa á bolin innanundir? En já, þetta var heimskulegt hjá Cisse. Gott að þetta var ekki dýrkeypt.

    En virkilega gott að vinna Newcastle á útivelli. Þetta var erfiðasti útileikurinn, sem við áttum eftir. Núna er dagskráin í deildinni svona:

    Everton (H)
    West Brom (Ú)
    Bolton (H)
    Blackburn (Ú)
    West Ham (Ú)
    Aston Villa (H)
    Portsmouth (Ú)

    Þetta eru *allt* leikir, sem við eigum að vinna. Erfiðastu leikirnir eru Blackburn & West Ham úti og Bolton & Everton heima. En við eigum að geta klárað þá alla. Við unnum fyrri leikina gegn *öllum* þessum liðum, nema gegn Bolton þar sem við gerðum jafntefli. Af liðunum, sem eru með okkur í barátunni, þá held ég að við eigum *skásta* leikjaprógrammið eftir.

  3. Frábært að vinna Geordiana í dag!! Það var aldeilis sem ” þýska ” leikkerfið virkaði.

    Mikið var ég ánægður með Kromkamp í dag, frábær skiptidíll á honum og Josemi, algjör klassamunur þar. Svo var Warnock þrusufínn líka.

    Svo bara get ég ekki sleppt því að hæla Danny Agger, þvílíkt efni þar á ferð!!

    Mér finnst persónulega alveg fáránlegt að dæma ekki rangstöðu á Shearer í marki Newcastle. Þvílíkt rugl að hann hafi ekki áhrif á leikinn. Hyypia og Carra voru að miða sig við hann þegar sendingin kemur inn í teiginn. Og nota bene, fokking boltinn stefnir til Shearers!! Kjaftæði!! Þessi regla er bull.

    En annars, góður dagur í dag 🙂

  4. Ég er líka hræddur við Portsmouth-leikinn, þeir verða væntanlega í bullandi baráttu um sæti í deildinni.

  5. Þetta var klassa sigur. Það sem mér fannst athyglisverðast var liðsuppstillinginn…
    við spiluðum með “wing backs” þá Kromkamp og Warnock. Með 3 miðverði, 3 á miðju og síðan 2 frammi.

    Þetta fannst mér ganga fullkomlega upp hjá Rafa og co. í dag.

    Crouch var fantagóður í leiknum sem og vörnin öll þ.e. Hyypia, Carra og Agger.

    Warnock og Kromkamp leystu sitt verkefni vel bæði frammá við og í vörninni.

    Gerrard er náttúrlega ótrúlega stöðugur leikmaður og stendur sig ávallt vel. Maður gerir kannski aðrar kröfur til hans heldur en t.d. Crouch og Cisse. Hvað um það þá var þetta góður útisigur.

    Næst er mikilvægur leikur gegn Birmingham í bikarnum á þriðjudaginn…

  6. Frábær sigur í stórskemmtilegum leik.

    Liðið spilaði afbrigði af 3-5-2 með Warnock og Kromkamp gríðarlega öfluga. á köntunum. Í raun má segja að liðið hafi spilað 3-4-3.

    Reyndar fannst mér allt liðið mjög gott og myndi vilja sjá það spila svona í næstu leikjum. Sérstaklega vörnina.

    Snorri var fínn að vanda.

    Ef Warnock átti sök á marki (man ekki móti hverjum) fyrr í vetur þá er þetta mark Carrager að kenna. Ég reyndar vil ekki kenna neinum um markið. Bara vel gert hjá Newcastle og það hefði alveg mátt dæma rangstæðu.

    Þá vil ég líka hrósa viljanum og andanum í liðinu.

    Allt liðið menn leiksins að mínu mat.

  7. Flottur leikur hjá okkar mönnum. Crouch var hreint frábær í þessum leik og ég bíð spenntur eftir að við finnum réttan framherja til að spila við hlið hans. Hann verður trúlega aldrei einhver 20-25 marka maður fyrir okkur en ég tel að hann gæti vel spilað með þannig mann sér við hlið og dregið að sér menn og skapað færi.

    Agger, Warnock og Kronkamp komust allir mjög vel frá leiknum og það er greinilegt að við eigum mikið efni í Agger. Ég tek undir með Dóra að skiptin á Josemi og Kronkamp voru kjarakaup fyrir LFC. Warnock hefur reyndar ekki verið að hrífa mig en það verður ekki frá honum tekið að hann stóð sig með stakri príði í dag.

    Cissé átti góða spretti í þessum leik en ég set þó alltaf spurningamerki við þennan dreng. Ákvarðanir hans koma mér sífellt á óvart. Sigurinn í dag hefði t.a.m. getað orðið stærri ef frakkinn hefði gefið á Kewell í gal-opnu færi í stað þess að reyna erfitt skot sjálfur. Einnig var Crouch í upplögðu færi í fyrrihálfleik þegar frakkinn reyndi viðstöðulaust skot úr fáránlega þröngu færi nánast upp við endalínu.

    Hann var líka heppinn að hanga inná í þessum leik. Að mínu mati átti hann að fá rauða spjaldið fyrir fáránlega hegðun upp við stúku stuðningsmanna Newcastle. Ég minnist þess að sumir stuðningsmenn okkar liðs voru æfir yfir því að Gary Nevill kissti UTD merkið fyrir framan Kop í sigri UTD á LFC, hvað segja þessir menn um þetta uppátæki Cissé?

    Fyrir mér er málið einfalt. Ég elska klúbbinn það mikið að mér finnst ekkert leiðinlegra en að sjá menn í treyjunni láta svona. Ég líki þessu einna helst við eitthvað sem Diouf hefði getað tekið uppá. Svona kjána vill ég einfaldlega ekki hafa í liðinu.

  8. Ég hef oft bent á það meðal Liverpool aðdáenda að Liverpool ætti að prófa að spila 3-5-2 á útivöllum, við erum stundum of passívir á útivöllum til að spila 4-4-2 og höfum þá verið að missa of mörg stig niður á móti miðlungsliðum.
    Við erum með það góða varnarmenn að gegn liðum eins og Newcastle sem hafa ekki mikinn hraða frammi þá eru 3 varnarmenn oft nóg. Þá getum við notað aukamann á miðjunni til að stjórna leikjum og styðja betur við sóknina.

    Loksins var þetta reynt í dag og tókst hreint með afbrigðum vel! Frábært að eiga svona leikkerfi í bakhöndinni og geta notað það á svona áhrifaríkan hátt. Rafa Benitez er taktískur snilli en eitthvað segir mér að “þýska stálið” Dietmar Hamann hafi líka átt hlut að máli. 🙂

    Svo sást það af stórleik Crouch hverju hann getur skilað þegar hann fær nóg af mönnum í kringum sig og góða hreyfingu án bolta. Þessi maður á aldrei að spila einn frammi, alger sóun á talent.
    Cisse, Gerrard og Kewell nutu þess allir að geta notað hann sem batta. Maður sá frábært spil hjá Liverpool í þessum leik, sérstaklega 2.markið.

    Fínn sigur, vantaði bara fleiri mörk til að sína veldi okkar!
    Held að við tökum Birmingham mjög léttilega og síðan eigum við að taka Everton á heimavelli létt.

  9. Ég var EKKI sáttur þegar ég sá að Kronkamp var í byrjunarliðinu og hvað þá að Rafa gerði 5 breytingar á liðinu sem vann flottan sigur í leiknum á undan þessum.

    Sem betur fer gladdist ég nánast allan tímann yfir leiknum. Kronkamp með flotta sendingu á Crouch í fyrsta markinu og Warnock að gera góða hluti á hinum kantinum. Reyndar fannst mér ótrúlegt hvað hann fékk að leika lausum hala drúgan hluta af fyrri hálfleik.

    Markið tel ég skrifast algjörlega á Hyypia þar sem hann sleppir manninum sínum. Mér sýndist eins og öðrum að það hafi átt að dæma rangstöðu á Shearer.

    Ef ég væri Rafa hefði ég pottþétt tekið Cisse útaf fyrir þessa heimskulegu hegðun þegar hann ögraði stuðningsmönnum Newcastle. Ætla ég rétt að vona að honum verði gefin hvíld í næstu leikjum til a róa hann niður (ef það er á annað borð hægt)

  10. Frábær sigur …Ég segi að þetta hafi verið mikilvægasti útisigur okkar í deidinni þessa leiktíð.

    Ég er í skýjunum yfir Kronkamp og Agger. Þvílík snilldarskipting á Josemi og Kronkamp…hann er klassa betri en Josemi…..

    Ég var ánægður með allt í dag nema Cissé….Ég þoli ekki svona “diouf” syndrome í rauða búningum ….. Cissé hefur hafsjó af talent en hingað til og sérstaklega þessa leiktíð hefur hann bara ekki sýnt rétta “attitudið”. Hann var heppinn að hanga inn á eftir að hafa ögrað áhangendum Newcastle…..Svo bara þoli ég ekki að menn séu að húkka sér gul spjöld algjörlega að óþörfu… Ég er farinn að skilja afhverju Cissé hefur spilað eins lítið í vetur og raun ber vitni….Hann er bara ekki “ret i hoveded”. Hvað svo sem gerist það sem eftir er leiktíðar ….ef Cissé breytist ekki …hættir þessum hörmungas stjörnu-hárgreiðslu-sjálfelskuhegðun þá vil ég Cissé verði seldur í sumar. Ég var einlægur aðdáandi Cissé en það hefur gjörbreyst.

    Nú er bara að vinna Birmingham í bikarnum….það er sko ekki sjálfgefið…svo langur vegur frá. Bikarleikir eru óútreiknanlegir.

  11. Snildarleikur, svona á að spila á útivelli, vorum betri aðeilinn allan leikinn.

    Sérstaklega tók maður eftir Kromkamp og Warnock, þeir voru frábærir hreint út sagt í leiknum, tek undir með ykkur að skiptin voru ótrúlega hagstæð fyrir okkur.

    Þetta með Cisse er náttúrulega fáránlegt, Rafa hefur látið hann heira það eftir leikinn. En þú sem spurðir, skilaboðin voru til nýfædds sonar hanns sem var að fæðast í síðustu viku.
    En ég vil Cisse í burtu í sumar, held líka að það fari svo. Spenntur fyrir Defoe.

  12. Magnaður leikur í dag og eins og JónH segir þá er ég á því að þetta sé mikilvægasti útisigur okkar í deildinni á þessari leiktíð.

    En ég verð að segja það að ég hef alltaf haft lúmskt gaman að Snorra Má, hann hefur líka alveg ótrúlega smitandi hlátur.

    JónH og Páló….Kromkamp með M-i en ekki N-i

  13. Sammála þér Bjöggi, mér fynnst Snorri Már mjög góður lísandi. Sá besti á þessari stöð, annars hef ég ekki mikið út á lísinguna að setja þarna, pirra mig voða lítið á henni. Tryggvi Guðmunds er nú sammt aðeins of slakur annars eru hinir fínir.

    Varðandi leikinn, þá tek ég algjörlega undir Kristján Atli, stuðningsmenn Liverpool voru STÓRKOSTLEGIR! Maður heirði í þeim singja allan tímann. Snild…

  14. Nota bene, ég breytti aðeins liðsuppstillingunni í leikskýrslunni og held að hún sé núna nær því, sem Liverpool var að spila í leiknum.

  15. Sá einhver hérna þegar Gallas úrbeinaði Heiðar Helguson í gær? Það og brot Essien á Hamann eru með þeim ljótari sem ég hef séð.

    Annars rakst ég á neðangreind ummæli á spjallborðinu á Chelsea.is. Undir þau skrifar Bob. Gaman að sjá að aðrir geti horft á liðið sitt hlutlausum augum

    “Það var margt í leik okkar, Englandsmeistaranna, sem var ekki til fyrirmyndar í dag.
    Það fyrsta voru viðbrögð Mourinho þegar Colemann sá við kerfinu hans, en eins og ég bent á er einfalt að stríða því og kvekkja með því að dekka vængmenn okkar framarlega og leyfa þeim ekki að snúa og ekki sízt að setja mann á Makélélé og setja hann undir pressu. Við höfum oft sloppið fyrir horn með því að skipta óþreyttum en jafngóðum leikmönnumönnum inn á í seinni hálfleik og brotið þessa pressu á bak aftur.
    Mourinho skipti 2 ómeiddum mönnum inn á eftir 22 mínútur, sem held ég að hljóti að vera met. Mér fannst þeir hvorki vera betri né verri en aðrir í liðinu og voru aðeins að koma sér inn í leikinn.´
    Þegar ég sá Drogba hita upp hélt ég að hann ætlaði í 3-3-4 með Drogba og Crespó fremsta og 2 vængmenn til að koma boltum til þeirra. Nei, því var ekki að fagna.
    Í staðinn var löngum stundum allt miðjuspil lagt niður og menn kepptust við að lúðra tuðrunni hátt yfir hausinn á Lampard og Essien á Drogba sem getur með engu móti tekið á móti bolta. Englandsmeistararnir gerðu ekki tilraun til að spila eða gátu það ekki vegna dugnaðar Fullham.
    Mér finnst ekki til fyrirmyndar að leikmenn hópist að dómara/línuverði dæmi hann eitthvað sem mönnum mislíkar. Fyrirliða liða eru til að tala máli liðsins og mér finnst dómari eigi að spjalda menn fyrir hópárásir. Þetta átti við bæði þegar Drogba tók hann með hendinni og Fullhammenn mótmæltu. Og síðan þegar Gallas keyrði inn í Heiðar eftir að Heiðar hafði tuddast aðeins í Duffaranum. Ég ætla ekki að afsaka Gallas og fannst hann gjörsamlega missa sig úr pirringi. Frá því að vera hetja síðasta leiks í það að vera skúrkur í þessum því ég er alveg viss um að nokkrum leikjum verður bætt við bannið fyrir ítrekaða vanvirðu við Fulhamáhorfendur. Þeir duga stutt hjá okkur vinstri bækverðirnir. Bikarinn framundan og limum Björns bónda fer fækkandi.
    Með sama áframhaldi á liðsvali og innáskiptingum gæti Mourinho sett verulega spennu í keppnina um Englandsmeistaratitilinn, sem ég hélt að væri eign Chelsea um sl. áramót. Og ekki er hægt að hrósa sumum leikmönnum fyrir dómgreindina. Þrír hafa verið reknir út af sl. rúmar 3 vikur vegna glórulausra fíflabrota sem höfðu ekkert með fótbolta að gera.”

    (Þið spjallstjórnendur hendið þessu bara út ef ykkur finnst þetta ekki eiga heima hérna).

    Áfram Liverpool!

  16. Já þetta var hrottalegt hjá Gallas, algjörlega glórulaust, og tek ég ofan fyrir Bob að skrifa svona heiðarlega skírslu.

  17. Ég gagnrýni vanalega ekki stafsetningu í ummælum, en núna verð ég:

    lísinguna, heirði, singja, skírslu

    er allt með y

    lýsing, heyra, syngja, skýrsla.

    🙂

  18. The Times ánægðir með Gerrard og Crouch… en ekkert sérstaklega með Boumsong.

Liðið gegn Newcastle!

Lið helgarinnar!