Stoke City í FA Cup 18.mars (UPPFÆRT: Muamba)

Uppfært (KAR): Bikarleikur Tottenham og Bolton var rétt í þessu blásinn af eftir að miðjumaðurinn Fabrice Muamba hné niður með hjartastopp á vellinum. Hann var færður af vellinum eftir um 10 mínútur og var þá víst enn ekki búið að fá hann til að anda. Hann er á leið á sjúkrahús og menn óttast hið versta. Leiknum var frestað og verið er að tala um að leikjunum á morgun verði mögulega frestað líka. Við uppfærum um leið og eitthvað liggur fyrir hjá Muamba og/eða með leik morgundagsins, en fótbolti skiptir augljóslega engu máli akkúrat núna.

Hugsanir okkar eru með Fabrice Muamba. Vonandi lifir hann þetta af.

Upphitun Magga er hér fyrir neðan.

– – –

Á morgun er komið að uppáhaldi okkar drengja þennan veturinn, sem er að leika í bikarkeppni.

Deildin er í aukaatriði fram á vor að mínu mati, auðvitað þarf að taka alla leiki þar alvarlega enda verið að tala um Liverpool FC, en leikurinn gegn Stoke er sá mikilvægasti fram á vor eins og staðan er í dag.  Vonandi munum við sigra leikinn og þar með búa til mikilvægari leik, en þangað til það hefur tekist er ekki nokkur ástæða til annars en að einbeita sér að verkefni morgundagsins.

Sem er að leika gegn hinu grjótseiga Stoke City. Það má öllum hér vera ljóst að leikur morgundagsins verður ekki flæðandi sendingabolti í báðar áttir, eða líklegt til að valda svefnleysi nokkurs manns vegna skemmtunar. Því leikir sem Stoke taka þátt í markast í 95% tilvika af hægu tempói og háloftastríði frá upphafi til enda.

Með þessu er ég ekki að tala niður til þeirra. Tony Pulis hefur náð ótrúlegum árangri á meðal þeirra stærri með því að raða saman leikmönnum sem eru tilbúnir að spila taktíkina 4-5-1 eða 5-4-1 eftir atvikum. Verjast í 80% tímans, reyna skyndisóknir og eyða drjúgum tíma í að setja upp föst leikatriði. Hann reyndi eitthvað að breyta útaf haustið 2010 en eftir að sú tilraun gekk illa sneri hann aftur til fyrri tíma, náði verulegum árangri í fyrra og verður í vetur enn einu sinni í topp tíu í deildinni.

Og það má ekki gleyma því að liðið náði markverðum árangri í keppninni í fyrra þegar það komst alla leið í úrslitin og því er í leikmannahópnum reynsla í stórum leikjum sem bætist ofan á þolinmæðina og skynsemina. Ekkert lið í Englandi getur talið sig öruggt gegn þessu liði og miðað við leiki okkar við þá í vetur þá þarf að hafa fyrir hlutunum til að komast aftur á Wembley í undanúrslitin.

Að því sögðu skal hins vegar greint frá því hér skýrt og hreint að ég ætlast til sigurs okkar manna í fyrstu atrennu á Anfield! Brokkgengi liðsins frá áramótum hefur valdið okkur ógleði, svefnleysi og höfuðkvölum en ég treysti á það að frammistaða þriðjudagskvöldsins hafi nú blásið mönnum eld í brjóst og okkar menn muni leggja allt á sig til að bóka aðra ferð til London í apríl.

Byrjunarlið síðasta leiks er allt heilt heilsu og að auki er Bellamy aftur orðinn leikfær eftir smávægileg meiðsli sem útilokuðu hann frá derbyslagnum. Ég held enda að þar liggi eina spurningin um breytingu á liðinu, þ.e. hvort Walesverjinn fer í byrjunarliðið á kostnað Henderson eða ekki. Coates átti erfitt gegn Sunderland og Carra spilaði vel gegn Everton þannig að vörnin ætti að halda sér. Spearing lék vel og því held ég að hann haldi sætinu og Adam á bekknum, þó kannski líkur gætu legið til þess að Kóngurinn fórni varnartengiliðnum í leik sem reikna má með að við verðum 75% í sókn. Ég tippa á að Bellamy komi inn og liðið verði svona:

Reina

Kelly – Skrtel – Carragher – Enrique

Bellamy – Gerrard – Spearing – Downing

Carroll – Suarez

Við sjáum svo Kuyt og Adam koma inná í leiknum. Við þurfum að nýta hraðann á Bellamy og Downing til að komast á bakvið vörnina umfram seigluna í Hollendingnum góða. Sjáum til.

Að framansögðu þá er komið að því að spá. Ég er alveg sannfærður um það að leikur þessara liða mun verða eins og allir hinir fyrri sem Pulis hefur stjórnað gegn okkar mönnum. Við verðum að ströggla, þeir leggjast aftur, tefja leikinn og verjast til síðasta manns.

Eftir 0-0 í hálfleik þyngist sóknin og þegar ca. 20 mínútur eru eftir mun annað hvort Gerrard eða Suarez losa okkur úr “djeilinu” og setja mark. Þegar stutt er eftir fara Stoke í það að setja pressu til að jafna og þá skorum við úr skyndisókn, Kuyt. Eigum við ekki bara að segja í uppbótartíma? 2-0 sigur og liðið okkar aftur á Wembley.

Eruði öll sátt við það?

Ég verð það allavega.

31 Comments

 1. Þessi leikur fer 1-0, veit ekki á hvorn veginn það verður, en vonast að sjálfsögðu eftir Liverpool sigri.

 2. Adam hefur ekkert að gera inná, nema að staðan sé LIV, 5 stoke 0 og sá maður hefur ekki tekið framförum en það hefur Carrol og fl, gert

 3. Væri sáttur með þetta lið ef Coates kæmi inn fyrir Carra. Karlinn er orðinn veikur fyrir háum boltum og skallaeinvígum. Held að KD haldi áfram að þrjóskast með Henderson á kantinum.

 4. Takk fyrir þessa upphitun 🙂
  Ég treysti á að við náum að klára þennan leik enda hefur þetta stoke lið ekkert að gera lengra í þessum bikar. Ég held að við höfum ekkert að gera við Spearing litla á móti þessu Stoke liði enda verður það ekki aðalvandmálið okkar á morgun að verjast heldur komast á bakvið þennan mikla varnarmúr sem Stoke býr til og í það hefur Spearing ekkert að gera.
  Ég vil sjá Hendo með Gerrard á miðjunni og Coates inn fyrir Carra.

 5. Vil sjá þá keyra á Stoke með hápressu frá fyrstu mínútu og þá munum við rúlla yfir þá.

 6. það er talið að gylfi þór kosti 6 mils
  við keyptum henderson á 20 mils
  mer finnst gylfi betri heldur en henderson… er það bara að því að eg er íslendingur ?? eða hvað finnst ykkur ?

 7. Ég þakka comment #6 fyrir að stela minni þrumu en ég vill ólmur setja Gylfa Sigurðsson inn á miðjuna í staðinn fyrir Charlie Adam, sem getur akkúrat ekkert. Gylfi er ungur, góður og ódýr en þetta þrennt er það sem leitað er að hjæ LFC í dag. Ef KD og Comolli líta framhjá Gylfa eru þeir ekki að vinna vinnuna sína.

 8. Að sjálfsögðu verður þetta sigur okkar manna, allavega þar til annað kemur í ljós. Þar sem liðið sem lék á móti Everton á þriðjudaginn var alveg frábært finnst mér að þeir eigi að byrja nú ef það gengur ekki þá má fara að hugsa sér til breytinga. En ekki láta líða 75-85 mínútur þar til breytt er ef ekkert gengur fyrstu 30 mínúturnar þá er bara
  að hugsa nýtt herbragð og framkvæma það strax.

  Ég vona að þeir vinni 3-1 og að framherja tríóið okkar þeir Gerrard, Carroll og Suaréz skori mörkin 1 stykki hver.

  YNWA

 9. Hver hefði trúað því þegar deildin byrjaði í haust, að 17. mars væri Gylfi búinn að skora meira en tvöfalt fleiri mörk en Torres! Sá væri ríkur sem hefði sett þúsund kall á það.

 10. Sælir, það er eitthvað verið að tala um að leikjum morgundagsins verð frestað vegna atburðarins í leik Tottenham vs Bolton. Vonum það besta, enn fyrst og fremst vonar maður að Muamba nái sér.

 11. Hryllilegt að frétta þetta með Muamba. Ef hann hefur ekki andað í +10mín og hjartahnoði beitt frá byrjun af vönum sjúkraliðum lítur þetta mjög illa út. Hann er 23 ára gamall.

  Það þarf nú að fara rannsaka betur hvað er í sumu af þessum fæðubótaefnum sem knattspyrnumenn og líkamsræktarfólk eru að láta ofan í sig til að halda skrokknum á fullu gasi. Borðandi ekkert nema kjúkling og hrísgrjón allan daga. Þónokkrir atvinnumenn í fótbolta sem hafa hnigið niður uppúr þurru undanfarin ár. Hvort sem menn eru með undirliggjandi hjartasjúkdóma eða ekki, þá er þetta aðalástæðan sem ég get séð útúr þessum andlátum. Hlýtur að vera eitthvað lífstílstengt líka á Vesturlöndum. Það er ekkert eðlilegt við að fólk í blóma lífsins og frábæru líkamlegu formi lendi í þessu trekk í trekk.

 12. Setti Gylfa sem fyrirliða í fantacy-deildinni fyrir þessa umferð. Hann er ekki að bregðast manni kallinn.

 13. Sæl öll.

  Ég veit að hugur okkar allra er hjá Bolton fólki og við vonum að allt fari vel.

  Ég má til með að benda öllum Liverpoolstuðningsmönnum á myndina Will hún er sko sannarlega mynd fyrir okkur. Þar sést út að hvað það gengur að vera Poolari.Myndin fæst á Amazon og er hreint út sagt dásamleg, að vísu þarf maður stórt handklæði eða risabox af þurrkum því maður grætur og hlær til skiptist og er svo stútfullur af stolti yfir því að tilheyra þessum ættbálk.

  Hverrar krónu virði þessi mynd og gott að eyða laugardagskvöldi í að horfa á hana.

  YNWA

 14. Þegar ég sá Henderson í fyrsta skipti af einhverju viti á EM u 21 í sumar þá var ég ekkert rosalega “impressed” ef maður má sletta!
  Og þessi inkoma Gylfa í E.P er rosalega flott og sýnir okkur það svart á hvítu hvers konar bull verð þessir innlendu efnilegu leikmenn Englands eru seldir á.
  En mál málanna í dag er Mumba kallinn og vonandi kemst hann þokkalega heill frá þessu, en 10 mín án andardrátts hlýtur að orsaka súrefniskort í toppstykkinu.
  En þettað var svona úr einu í annað og maður vonar það bara á Okkar menn droppi inn í fjögra liða úrslit á morgun og annan leik á Wembley Plís.

 15. Vonandi verður þessi leikur sýndur á morgunn vona það allavega og ég vil sjá sama byrjunarlið og á móti Everton nema að bellamy má koma inn fyrir Henderson af því að mínum þá er hann ekki kantmaður heldur pjúra miðjumaður. Og ég var að skoða myndband af því besta sem hann hefur gert og það er allt frá miðjunni fyrir utan það þegar hann tekur tvo chelsea menn illa út á kanti. http://www.youtube.com/watch?v=WAlT1e0hHrA.
  Ég vona líka innilega að muamba nái sér að fullu og þó að útlitið sé slæmt vona ég að hann komi aftur sterkari til baka.
  Y.N.W.A

 16. Athyglivert myndband með Henderson. Serstaklega fyrir þá fyrirsjáanlegu staðreynd að flest af því sem hann gerir ver, gerir hann af miðjunni en ekki af kantinum. Gætirðu nokkuð sent þetta á kingkenny@liverpool.is ?

 17. Þarna átti auðvitað að standa “flest af því sem hann gerir VEL”.
  En Dalglish finnur honum vonandi pláss á miðjunni í framtíðinni.

 18. Sky Sports have read out every players’ support for Muamba, but completely swerved Suarez.

 19. Ég held að það verði mjög erfitt fyrir FA að láta leiki fara fram á morgun útaf þessu hræðilega atviki. Það er mjög erfitt að hugsa eitthvað um fótbolta þegar einn af leikmönnum EPL er að berjast fyrir lífi sínu á sjúkrahúsi. Knattspyrnan er í öðru sæti hjá mönnum á dögum sem þessum.

  Vonandi nær Muamba sér að fullu aftur og verður komin á fullt fyrr en síðar.

  YNWA

 20. Auðvitað vonar maður að strákurinn nái sér að fullu. Mjög óhugnanlegt að sjá þetta í fréttunum.
  Hins vegar finnst mér óþarfi að fresta Liverpool leiknum í dag. Sé ekki alveg pointið með því.

 21. Klárlega ekki frsta leikjum dagsins, frekar spila þá til heiðurs stráknum og byrja á einhverju fallegu fyrir hann. En spái 2-0 fyrir Liverpool Gerrard og Bellers með mörkin

 22. Hvenær veit maður hvort leikurinn í dag fari fram eða ekki ? hefur FA ekkert staðfest neitt um það hvort það verði leikið eða ekki ?

  Annars vonar maður að sjálfsögðu að Muamba nái sér úr þessu og allt fari vel hja honum…

 23. Ekkert hefur verið minnst á það að fresta eigi leikjunum á opinberu síðunum sýnist mér. Veit ekki hvar þessi umræða um frestun leikjanna byrjaði enda skil ég ekki af hverju.

 24. Góðan dag gott fólk. Ég ætla að uppfæra síðuna með nýrri færslu en mér sýnist ekkert benda til annars en að leikurinn fari fram í dag. Í gærkvöldi var verið að ræða hvort leikjum yrði frestað en það varð augljóslega ekkert úr því þannig að það er nokkuð örugglega leikur á eftir.

Opinn þráður – Aquilani kemur ekki aftur

Stoke í dag + Muamba (Uppfært: Liðið komið)