Arsenal eru frábærir, Liverpool ekki svo mjög

Nú er tveimur af þremur leikjum okkar manna í röð við Arsenal lokið, og það er skemmst frá því að segja að þessi lið virðast vera hnífjöfn í ár. Báðir þessir leikir hafa endað 1-1, eins og deildarleikurinn á Anfield endaði fyrir áramót, og því virðist lítið ætla að skilja þessi lið að þetta tímabilið.

Vandamálið er bara að ef þú lest umfjöllun fjölmiðla um þessi lið færðu talsvert aðra mynd af samanburði liðanna. Samkvæmt nær öllum fjölmiðlum – og ég get vart lýst því hvað þetta fer í taugarnar á mér – er Arsenal-liðið gott á allan þann hátt sem Liverpool-liðið er ekki, og það er nánast óskiljanlegt hvernig það getur verið að Arsenal er ekki enn búið að ná að niðurlægja Liverpool í þremur leikjum í vetur.

Ég ákvað að skoða nokkrar af þessum mýtum um Arsenal og Liverpool og sjá hvort þetta á í raun við rök að styðjast. Ég þurfti ekki að leita lengi til að finna holur í kenningunni um að Arsenal sé sókndjarfasta, skemmtilegasta, prúðasta og yngsta/efnilegasta félagslið enskrar knattspyrnu.

Númer eitt: Arsenal spila svo skemmtilegan fótbolta.

Mark Nicklas Bendtner í gær gegn Liverpool var hundraðasta mark Arsenal í öllum keppnum í vetur. Mark Peter Crouch gegn Arsenal í gær var 102. mark Liverpool í öllum keppnum í vetur, og það fimmtugasta og sjöunda í Úrvalsdeildinni. Látið það samt ekki á ykkur fá, við vitum öll að Arsenal-menn skora mest og sækja mest.

Já, og er Eboue ekki bakvörður að spila á kantinum hjá Arsenal? Við setjum allavega framherja á kantana hjá okkur í harðæri …

Númer tvö: Arsenal-liðið er svo ungt og efnilegt.

Ég tók saman tölfræðina yfir þá leikmenn sem hafa spilað þessa síðustu tvo leiki Arsenal og Liverpool og fann út meðalaldur þeirra. Ég notaðist við þá einföldu tölfræði að fara eftir því hvaða ár menn eru fæddir, ekki hvenær á árinu þeir eiga afmæli, til að leyfa öllum að njóta sanngirnis.

Hjá Arsenal hafa sextán leikmenn leikið þessa tvo leiki gegn Liverpool og eru þeir alls 395 ára. Þrír þeirra eru yfir þrítugu – Almunia, Gallas og Gilberto Silva. Meðalaldur Arsenal-liðsins sem hefur leikið þessa tvo leiki gegn Liverpool er 24,7 ár. Þá er vert að minnast á það að hjá Arsenal eru Eduardo (25), Rosicky (28) og Sagna (25) meiddir og Lehmann (39) ekki í liðinu, en ef ég hefði talið þá með væri meðalaldurinn talsvert hærri.

Hjá Liverpool hafa tuttugu leikmenn leikið þessa tvo leiki og eru þeir alls 532 ára. Þrír þeirra, eins og hjá Arsenal, eru yfir þrítugu – Carragher, Finnan og Hyypiä. Meðalaldur Liverpool-liðsins í þessum leikjum er 26,6 ár. Þá er vert að minnast á það að hjá Liverpool eru Kewell (30) og Agger (24) meiddir, en þeir eru sitt hvorum megin við meðaltalið og hefðu væntanlega ekki mikil áhrif á það.

Liverpool-liðið er sem sagt á besta aldri, með jafnmarga „gamlingja“ í liðinu og Arsenal-liðið, sem er á 25. aldursári þegar þetta er skrifað. Samt eru nær öll töp og allt sem aflaga fer hjá liði Arsene Wenger afskrifað með sömu, þreyttu afsökuninni: „Þetta eru ungir strákar og þeir munu læra af þessu.“ Þegar lið Rafa Benítez tapar er það hins vegar nær undantekningarlaust út af getuleysi hans.

Númer þrjú: Wenger er að byggja upp nýtt lið.

Nýtt lið? Fimm af þeim sextán leikmönnum sem hafa leikið gegn Liverpool voru í aðalliðshópi Arsenal þegar liðið vann síðast meistaratitilinn, vorið 2004, og rúmlega helmingur þessara sextán var í liðinu sem komst í úrslit Meistaradeildarinnar fyrir tveimur árum. Einn þeirra sem var í hvorugu þessara liða er William Gallas, sem er rúmlega þrítugur og búinn að upplifa tímana tvenna með Chelsea og franska landsliðinu.

Þetta lið sem Arsene Wenger er með í höndunum núna er á 25. aldursári og hefur verið að leika saman núna í meira og minna þrjú tímabil. Á þessum þremur tímabilum, þegar þetta er skrifað, hefur þetta lið ekki unnið neitt. Síðasti titill þeirra kom vorið 2005 (FA bikarinn), á meðan síðasti titill Liverpool kom vorið 2006 (líka FA bikarinn). Þess utan hefur Rafa einnig unnið Meistaradeildina 2005 og er því með fleiri stóra titla frá árinu 2004, þegar hann kom til Englands, heldur en Wenger. Í þokkabót hefur Rafa endað með Liverpool-lið sitt örugglega ofar en Arsenal í Úrvalsdeildinni sl. tvö tímabil, en samt er hann sakaður um að kunna ekki að spila deildarkeppnina.

Arsenal eru að eiga það sem hefur verið kallað „frábært“ tímabil í Úrvalsdeildinni í vetur, en þó með einni jafnteflahrinu að undanförnu. Samt hefur Liverpool-liðið – sem til samanburðar þykir hafa valdið vonbrigðum í vetur – aðeins átta stigum minna, einum tapleik fleira, og hefur bæði skorað meira (í öllum keppnum) og fengið minna á sig í Úrvalsdeildinni.

Hversu lengi á Wenger að geta afsakað sig með því að vera að byggja upp nýtt lið? Liðið hans er búið að vera það lengi hjá Arsenal, og hann hefur ekki verið að gera miklar breytingar á því undanfarin sumur til að geta kallað þetta nýtt lið lengur. Þetta lið sem Arsenal-menn eru alltaf að bíða eftir að smelli er að verða komið nær þrítugu en tvítugu, er búið að spila saman í 2-3 tímabil núna, og það er raunveruleg hætta á því núna að liðið sé að klára sitt þriðja tímabil í röð án titils.

En látið það ekki á ykkur fá. Benítez er jú auli í samanburði við „prófessorinn“ Wenger – sem neitar að styrkja hópinn sinn þrátt fyrir að eiga pening til þess og kvartar svo yfir því að fámennur hópurinn sé þreyttur, á meðan Liverpool, Chelsea og Man Utd eru að enda tímabilið af fullum krafti með góða breidd í sínum hópum.

Númer fjögur: Arsenal-liðið spilar svo skemmtilegan fótbolta, á meðan Liverpool eru hundleiðinlegir

Enn og aftur: ég veit að Arsenal-liðið er mjög gott sendingarlið og spilar mjög hraða og fallega knattspyrnu. Ef það væri hins vegar eina viðmiðið fyrir fallega knattspyrnu myndi ég sleppa því að horfa á knattspyrnuleiki og fara í staðinn nokkrum sinnum í viku upp á Kaplakrika og horfa á FH-liðið spila reitabolta á æfingu.

Ég sagði við bróður minn yfir deildarleiknum í gær að Arsenal-liðið væri eins og flottur hver; heitir og kaldir til skiptis. Þegar þeir eru heitir geta þeir dottið í einhvern gír þar sem þeir senda boltann svo vel og hratt sín á milli að andstæðingarnir ná varla að snerta boltann svo mínútum skiptir. Þetta skilar þó oft glettilega litlu og ég hef séð ófáar Arsenal-síður kvarta yfir því að þetta lið spili boltanum allt of mikið á milli sín, í stað þess að leita stystu leið að góðu færi. Þess á milli á þetta lið svo til að verða ískalt og nánast gleyma því hvernig á að spila knattspyrnu. Við sáum þá útgáfu af Arsenal í fyrri hálfleiknum í gær, til dæmis.

Ef við tökum þessa tvo leiki sem eru búnir á milli liðanna, þá má segja að Liverpool hafi verið heppnir að ná jafntefli í fyrri leiknum á miðvikudag og svo óheppnir að vinna ekki leikinn í gær. Arsenal-liðið var meira með boltann og sótti á heildina meira í Evrópuleiknum, og þökk sé dómaranum og Bendtner töpuðu okkar menn þeim leik ekki. Samt hafði ég á orði yfir þeim leik að þótt Arsenal-liðið væri í nær stöðugri sókn allan seinni hálfleik, og mikið með boltann rétt fyrir utan teig okkar manna, sköpuðu þeir sér nánast engin færi. Getur einhver nefnt fleiri færi en bara Hleb- og Bendtner-atvikin? Hélt ekki.

Í gær, í deildarleiknum, mætti svo kalda Arsenal út á völlinn gegn okkar mönnum. Rafa Benítez róteraði liðinu sínu en var samt miklu betri aðilinn á útivelli gegn Arsenal í deildinni. Ekki það að hann fái kredit fyrir það, hann er bara gagnrýndur fyrir róteringu þegar illa gengur en svo þegja menn í stað þess að hrósa þegar róteringin gengur upp.

Við hér á Kop.is erum duglegri við að gagnrýna, benda á og ræða galla í fari leikmanna, þjálfara og eigenda Liverpool FC en við fáum kredit fyrir. Oft erum við kallaðir heittrúarmenn eða sagðir blindir í trú okkar á klúbbnum, þegar skrif okkar á þessari síðu gefa raun um allt annað.

Það er hins vegar klárt mat mitt sem ritstjóra þessarar síðu að, þrátt fyrir galla Liverpool-liðsins og Benítez, er Liverpool-liðið lið sem kann að vinna í Evrópu. Við erum með þjálfara sem er búinn að búa til lið sem er ekki mikið eldra en Arsenal-liðið, hefur unnið tvo stóra titla á síðustu fjórum árum og farið einu sinni til viðbótar í úrslit Meistaradeildarinnar, hefur skorað meira og fengið minna á sig en Arsenal-liðið í vetur, er með fleiri stjörnur innanborðs og hefur þá taktísku kunnáttu sem þarf til að ná jafnteflum eða taktískum sigrum á útivelli í Evrópu og klára svo dæmið á Anfield.

Arsenal-menn eru til samanburðar með mann sem talar endalaust um unglinga, á sama tíma og þeim fækkar stöðugt í liðinu hans, mann sem segist ekki þurfa að auka breiddina í liði sínu en vælir svo á hverju vori yfir þreytu aðalliðsins síns, mann sem segir önnur lið vera allt of gróf en hefur fengið fleiri gul og rauð spjöld á sitt lið í sinni stjórnartíð en nokkurt annað lið í Úrvalsdeildinni á sama tíma, mann sem talar endalaust um morgundaginn þegar allir aðrir stjórar stóru liðanna tala um nútíðina, mann sem þykist vera stjóri „skemmtilegasta“ liðsins í Englandi þegar bæði United og Liverpool hafa bæði skorað meira og fengið á sig minna en hans lið.

Ég veit ekki með ykkur, en ég er orðinn hundleiður á þessu misræmi á milli staðreynda og umfjöllunar um Arsenal-liðið. Þetta er vissulega eitt skemmtilegasta liðið í boltanum, en að ætla að líkja Fabregas saman við Scholes, Gerrard eða Lampard þegar hann hefur ekki unnið neitt til jafns við þá menn, er ekkert annað en blind dýrkun í mínum augum. Það er kominn tími til að menn hætti að afsaka þetta Arsenal-lið og átti sig á því sem þetta lið er: skemmtilegt lið sem er að valda vonbrigðum, ár eftir ár.

En látið þennan pistil ekki hafa áhrif á ykkur. Það vita jú ALLIR að Arsenal-liðið er kornungt, glænýtt, langskemmtilegast og með bjarta framtíð fyrir sér, og að Wenger er besti þjálfari í heimi. Haldið áfram að kyrja þessa setningu þegar Rafa Benítez slær Arsenal-liðið út úr Evrópukeppninni á þriðjudaginn kemur. Haldið áfram að kyrja þessa setningu á meðan Chelsea og Man Utd hverfa yfir sjóndeildarhringinn í Úrvalsdeildinni.

„Já, en við erum SKEMMTILEGASTA liðið!“

Auðvitað eruð þið það. Svona, svona …

36 Comments

  1. Sæll og sáttur.
    Enda er umræðan á nokkrum vefsíðum og þá ekki síður tengdum Arsenal í þá átt að þrátt fyrir góð fyrirheit og falleg mörk hefur Arsenal nú ekki verið að raka inn titlum að undanförnu. Ef enginn titill endar í London er það þriðja titlalaus ár Wenger í röð og það sjöunda af ellefu í hans sögu.
    Við sáum fyrir deildinni þeirra um helgi, Evrópu vonandi á þriðjudaginn!

  2. Setja þetta á arsenal.is, þá myndi allt verða brjálað haha 😀 held að þessi ofsadyrkun á arsenal liðinu sé bara útaf þeir eru yfir okkur i deildinni og bunir að vera í 1. sæti nanast allt tímabilið, annars flottur póstur.

  3. Góður pistill Kristján og í tíma talaður.
    Ég vil bara bæta því við að mér finnst Liverpool ekki vera svo langt frá því að geta keppt um Enska titilinn, það er alltaf auðvelt að taka dæmi og segja ef við hefðum ekki þetta og ekki hitt en ég nenni því ekki.
    Liverpool er að verða alvöru contender í deildinni, það er mín tilfinning.

    Njótið þess sem lifir af helginni.

  4. Þetta arsenal lið er náttúrulega alveg rosalega gott. En það erum við líka. ef við værum með aðeins breiðari hópa og aðeins fleiri heimsklassaleikmenn værum við löngu búnir að gera út um þetta einvígi.

  5. Það er nú óþarfi að vera að benda á aðra framkvæmdastjóra þó að Benitez hafi ekki verið að standa sig.

    Hvar fannstu annars þessa tölfræði með skoruð mörk/fengið á sig? Þetta er ekki rétt.

    Skemmtilegar nálganir hjá þér með það hvort liðið spilar betri/skemmtilegri bolta. Ekki gleyma að Everton endaði fyrir ofar en Liverpool árið 2005, með markatöluna -1, talsvert lakari en Liverpool sem urðu svo Evrópumeistarar í kjölfarið þrátt fyrir mjög dapurt tímabil í deildinni (töpuðu 14 leikjum). Það er því endalaust hægt að rífast um tölfræði og annað því tengt án þess að fá almenna niðurstöðu í það en ég get þó sagt að frá því að Benitez tók við Liverpool hefur það alltaf skorað minnst af fjórum stóru liðunum, og það með yfirburðum.

  6. Já Arsenal eru með fleiri stig í deildinni, færri mörk fengin á sig og fleiri skoruð. Eru menn ekki líka að hampa Wenger fyrir góð kaup. Hann eyðir ekki miklu…
    Annars fínn pistill og vonandi að Liverpool klári seasonið hjá Wenger á þriðjudaginn.

  7. Biggi S., ég átti nú von á því að þið Andfótbolta (AndLiverpool) menn kæmuð hér inn og reynduð að malda í móinn, enda er það komið berlega í ljós að ykkur þykir það dauðasök að einhver reyni að gefa í skyn að Benítez sé (gasp!) jafnoki stjóra hinna þriggja liðanna.

    Staðreyndirnar tala sínu máli. Liverpool hefur skorað 102 mörk í vetur, Arsenal 100. Ég gerðist reyndar sekur um innsláttarvillu varðandi mörk í deildinni, en sú villa hefur verið leiðrétt og eftir stendur sú staðreynd að Liverpool hafa skorað fleiri mörk í vetur í öllum keppnum, og fengið færri á sig.

    Reyndu bara að taka það til þín að þú og þín síða eruð í fjölmennum hópi fjölmiðlunga af ýmsum toga sem notist ekki beint við allar staðreyndir málsins þegar þið gagnrýnið Benítez og/eða hefjið Wenger upp til skýjanna.

  8. Það sem mér finnst um þetta frábæra Wenger lið felst í fyrstu fjórum stöfum nafnanna þeirra (liðsins og þjálfarans). Annars ætti ég ekki að segja neitt … því Wenger er miklu betri en Rafa 🙂

    Frábær pistill Kristján … algjörlega frábær!

  9. Málið er bara að Liverpool er bara á svo miklu hærri stall en arsenal að væntingarnar eru miklu meiri gagnvart Liverpool en arsenal hjá þeim sem starfa við það að fjalla um fótbolta,því til stuðnings má benda á það sem kemur fram í pistlinum hér að ofann um stöðu liðanna í deildinni,Liverpool búið að drulla upp á bak en eina ferðina í deildinni en samt erum við ekki svo langt á eftir arsenal sem á að vera eitt allra mesta sóknarlið heimsins á meðan Liverpool spilar leiðinlegann og varnfærnislegann bolta EN samt búnir að skora fleirri mörk en arsenal á leiktíðinni???????????Wenger er snillingur en samt er Rafa með betri árangur en hann í deildinni síðann hann kom,samt á Rafa ekki að kunna á ensku deildina?????????????Wenger er snillingur en samt er Rafa með fleirri titla síðan hann kom til Liverpool……..arsenal er bara þvímiður fyrir þá ekki á sama stalli og Liverpool og því fá þeir meira hrós þrátt fyrir slakari árangur……..þ.En það verður samt sem áður aldrei tekið af wenger að maðurinn hefur gert frábæra hluti fyrir þetta arsenal lið,en samt ef maður pælir í því að það eina sem hann hefur gert er að flugvélum var leyft að fljúga yfir gamla heimavöllinn þeirra á meðan á leik stóð og lét liðið spila boltanum á jörðinni,en gerði það samt bísna vel,arsenal höfðu alltaf fyrir hanns tíma verið að berjast um titlana svo hann kom ekki lélegu liði á toppinn,bara flugvélarnar voru ekki í eins mikilli hættu eftir að hann kom. EN hann kann að spotta út unglinga og gera þá að góðum leikmönnum þótt svo að en sé verið að bíða eftir árangri hjá þessum leikmönnum..En wenger´s verður ávalt minnst sem mannsins sem gerði arsenal að áhorfanlegu fótboltaliði í mínum huga..

  10. Gód samantekt. Kannski er Wenger bara betri ad markadssetja sig en Rafa. Svo er Rafa bara audvelt skotmark nùna vegna àgr vid eigendur à leiktídinni og hefur ekki komist nàlægt titlinum. Annars hefur arsenal àtt mun betri deild en lpool í àr: their eiga enn möguleika à adal dollunni en vid ekki.

  11. Algjörlega frábær pistill.

    Það má líka benda á að Wenger er maðurinn, sem að splundraði hinu ósigrandi liði Arsenal. Það er ekki einsog hann hafi neyðst til að byggja upp lið frá grunni einsog Rafa. Hann var með besta lið á Englandi, kaus að selja marga menn úr því liði og er nú með lið sem hefur ekkert unnið í þrjú ár og hefur síðustu tvö ár lent í fjórða sæti.

    Æ fyrigefið, ég gleymdi mér – Jú, Wenger er óskeikull snillingur og Rafa “Rotation” Benitez veit ekki neitt. 🙂

  12. United maður hérna og vona að Liverpool taki þennan leik á þriðjudag. Ég hef samt áhyggjur af því hvað þið teljið ykkur ósigrandi í meistaradeildinni. Ég er hræddur um að Arsenal taki leikinn og komi öllum á óvart. Þeim er jú spáð tapi af flestum.

  13. KLAPP KLAPP!! Frábær grein KAR, óaðfinnanleg! þetta tuðar maður við arsenal menn fram og aftur en nú þarf maður bara að segja. hey, tékkaðu á færslunni á http://www.kop.is og talaðu svo við mig. magnað hjá þér 🙂

  14. Hérna kemur smá viðbót við þennan pistill úr Daily Mail:

    Champions league statistics:

    Liverpool have hit the most long passes in this year’s Champions League, 698.
    Arsenal have been caught offside the most times, 33.
    Liverpool have scored the most goals, 22.
    Of the eight teams left Arsenal have attempted the fewest shots, 95.
    Liverpool have won their last three Champions League home games, scoring 14 goals
    Arsenal have kept nine clean sheets in their last 13 away games.
    But they have failed to score in four of their last seven CL games.
    However, they did win at Anfield in both English domestic cup competitions last season.

  15. Hér er t.d. ótrúlega týpísk og hlutdræg lesning um akkúrat þessi mál. Hinn “fullkomna” Fabregas og hinn “leiðinlega” spilastíl Liverpool. http://www.telegraph.co.uk/sport/main.jhtml?xml=/sport/2008/04/06/sfnfab106.xml

    Að einhverju leyti er þetta sálarstríð fyrir leikinn á þriðjudag en sýnir líka bara hvað sumir blaða og leikmenn eru naive um fótbolta. Þetta eru sömu mannvitsbrekkurnar og sögðu fullum fetum að Liverpool voru grísarar að koma tilbaka 0-3 undir gegn AC Milan. Uppþornaðar hvítflibba þurrkuntur frá London sem hafa aldrei lent í alvöru mótlæti né dýft litla fingri í kalt vatn alla sína rækjusamloku étandi ævi!

    Wenger hefur náttúrulega keypt sér mjög mikinn tíma og þolinmæði frá stjórn Arsenal með að nota sáralítið af þeim miklu peningum sem hann hefur haft til leikmannakaupa og nota unga leikmenn sem burðarása í sínu liði. Með því að kaupa ekki alvöru stórstjörnur heldur Wenger líka fullkominni stjórn á liðinu og stjórnar því eftir eigin “total football” hugmyndafræði frá a-ö.

    Enski boltinn og fjölmiðlar eru bara þannig að hroki og sjálfsupphafning eins og sú sem Wenger sýnir í nær öllum viðtölum svínvirkar í þessu landi hrokans, sérstaklega í höfuðborginni. Enskir blaðamenn voru t.d. eins og dúfur étandi úr lófanum á Jose Mourinho dag eftir dag. Rafa Benitez er hógværari og meiri pælari og það fíla menn ekki og líta á sem veikleika. Því röfla þessir blaðamenn stöðugt um “squad rotation og “zonal marking”.

    Ef Wenger myndi kaupa fleiri stjörnur gæti hann vel misst stjórn á búningsklefanum og þurft að gera fleiri málamiðlanir. Málamiðlanir sem myndu sýna hvað hann er takmarkaður þjálfari og bara með 1 dúkkufótboltasýn á alla hluti. Flamini og Fabregas hafa virkað mjög vel saman í vetur en ég er 99% viss að Flamini er “one season wonder” sem slakar mikið á þegar hann fær nýjan samning. Þeim vantar líka alvöru kantmenn og þessir ungu leikmenn eins og Walcott, Eboue, Bendtner, Diaby o.fl. eru ekki nærri jafnefnilegir og af er látið.
    Uppá framtíðina held ég að Liverpool sé í miklu betri málum og með betra jafnvægi í sínu liði. Liverpool hafa mun betri beinagrind uppí gegnum liðið og þurfa aðeins að bæta við sig sóknarbakvörðum og á hægri genuine hægri kantara.

    Let them deny it…

  16. Mér leið undarlega þegar ég las þennan pistil. Finnst nefnilega sterk Paul Tomkins lykt af honum en hann er snillingur í að fegra stöðu Liverpool með góðu stílbragði en afleitri röksemdrarfærslu. Þó var þetta ekki nándar nærri jafn slæmt og hjá þeim enska og sumir punktarnir sem þú kemur með eru mjög fínir.

    Ég er til dæmis sammála þér með aldursmuninn. Arsenal er með ungt lið en einnig Liverpool. Ég man samt ekki eftir neinum fréttamiðli sem segir að Liverpool séu með einhverja ellismelli eins og mér finnst þú gefa í skyn. Hins vegar er hárrétt að Arsenal fær of mikið kredit þarna.

    Að hluta til er ég sammála þér með punkt númer þrjú. Wenger getur að sjálfsögðu ekki kennt neinum öðrum en sjálfum sér um skort á breidd í hópnum. Hins vegar gerir hann eitt betur en flestir aðrir, að selja leikmenn áður en ferillinn fer að dala. Því lendir hann í þeirri stöðu að meginstoðir liðsins er sífellt að breytast. Vissulega er þetta hans stefna og hann verður að svara fyrir hana en á móti er þetta frábært fyrir fjárhaginn. Arsenal er nýbúið að byggja stóran og dýran völl, gengið í gegnum allavega tvenn kynslóðaskipti og alltaf í meistaradeildinni. Það þarf kjark til þess að semja ekki til langs tíma við Pires og láta Petit, Viera, Henry og marga fleiri fara þegar ferillinn stendur sem hæst. Eins og áður sagði þá er ég sammála þér en fannst þennan punkt vanta hjá þér.

    Ég er hins vegar ósammála í punkti númer eitt hjá þér (sem er reyndar furðulíkur punkti númer fjögur). Þú færir tvö rök fyrir máli þínu; mörk skoruð og að Eboue spili á kantinum. Skemmtilegur fótbolti er smekksatriði og ætla ég ekki að fara þræta fyrir að þú hafir rangt fyrir þér. Hins vegar unnu Arsenal titilinn 1989 á því að skora fleiri mörk en Arsenal á tímabilinu. Arsenalliðið var alræmt á þessum árum undir stjórn George Graham sem boring boring Arsenal. Samt skoruðu þeir fleiri mörk en Liverpool undir stjórn Kenny Dalglish. Mér finnst fjöldi marka ekki vera ávísun á skemmtilegan fótbolta.

    Einnig minnir mig að þú hafir sagt að árangur Benitez yrði dæmdur út frá deildinni. Að Liverpool ættu að sækja fast að efstu liðunum. Það hefur ekki gerst og var titilbaráttunni í raun lokið í janúar. Á meðan hefur Arsenal verið á eða við toppinn allt tímabilið og eru, eins og þú bentir á, 8 stigum fyrir ofan Liverpool. Mér finnst þú heldur gera lítið úr þeirri staðreynd, sérstaklega í ljósi þess að deildin átti að vera no. 1 priority.

    Loks finnst mér Fabregas punkturinn hjá þér skelfilegur. Eusobio vann aldrei heimsmeistaratitilinn. Heldur ekki Zico. Ryan Giggs hefur hvorki spilað á EM né HM. Matthew Le Tissier vann ekki nokkurn skapaðan hlut en er samt goðsögn, ekki bara hjá Southampton. Vissulega á að telja mönnum til tekna þegar titlar vinnast en að mínu mati er ekki hæpið að segja að Fabregas verði að vinna titil áður en hann verður nefndur í sömu andrá og hinir þrír. Nóg er að dæma mennina á vellinum. Þar er ég reyndar sammála að Fabregas er síðri leikmaður en þeir ensku en röksemdin fyrir því byggist á smekk, ekki titlum.

  17. Hmmm…. Eg hefði beðið með þennan pistil þar til a Miðvikudaginn???

    Eru menn bunir að gleyma utreiðinni sem Liverpool fekk a ANFIELD i januar i fyrra…. TVISVAR með stuttu millibili. Og fekk menn til að ganga með veggjum i margar vikur a eftir??

    Eg i það minnsta ætla að spara storu orðin i bili!!

  18. Ég ætla að vona að þessi pistill eigi ekki eftir að narta okkur í afturendann þótt hann hafi verið ágætur.

  19. Jón H. og eikifr – ég er alveg laus við þá hjátrú að eitthvað sem ég skrifa á vefsíðu á íslandi (á íslensku) geti haft áhrif á útkomu leiksins. Ef Liverpool tapa leik er það ekki af því að ég skrifaði fyrirfram að þeir myndu vinna eða af því að ég var ekki í happasokkunum mínum.

    Ég get alveg sagt mína skoðun án þess að það hafi áhrif á liðið. Ég geri t.d. fastlega ráð fyrir því að við sláum Arsenal út á þriðjudag, er nokkuð sigurviss fyrir leikinn, en veit þó að auðvitað er þetta bara fótboltaleikur og ekkert er öruggt fyrirfram.

    Makkari – það er gott að þú ert sammála mér í einhverju. 😉

    Varðandi George Graham-liðið frá því ’89, þá var ég ekki að spila pistil um þá. Bara þótt þeir hafi spilað „leiðinlegan“ bolta og skorað fleiri mörk en Liverpool þýðir ekki það sama gildi um öll lið þar á eftir. Við erum að ræða um Arsenal 2008, ekki Arsenal 1989.

    Benítez verður dæmdur af árangri sínum í deildinni. Ég sagði það síðasta sumar og ég stend við það. Hins vegar sá enginn okkar fyrir hvaða áhrif sápuópera eigendanna myndi hafa á Benítez og/eða liðið í vetur, og því er erfitt að ætla að afhausa kallinn þótt hann sé fjórum jafnteflum frá toppslagnum í ár. Við erum engu að síður nær en nokkru sinni fyrr undir stjórn Benítez. Svo var ég ekki að ræða um mitt mat á Benítez í þessari grein (nema rétt aðeins), heldur um ofmat annarra á Wenger.

    Ryan Giggs er í lélegu landsliði en hann er sigursælasti leikmaður enskrar knattspyrnu síðustu 2-3 áratugina. Mér finnst ekkert fáránlegt að gefa það í skyn að Fabregas verði að sýna að hann geti unnið titla áður en hann geti staðið jafnfætis Scholes, Lampard og Gerrard, sem hafa unnið titla. Það er ástæða fyrir því að Pelé er frægari en Eusébio – hann vann meira. Það er ástæða fyrir því að Maradona er frægari en Zico – hann vann meira. Það er ástæða fyrir því að Eric Cantona er frægari en Matt Le Tissier – hann vann meira. Það er ástæða fyrir því að Scholes, Lampard og Gerrard eru enn (réttilega) ofar í virðingarstiganum en Fabregas – þeir hafa unnið meira. Punktur. Basta.

  20. Þessi grein sem að Arnór bendir á er góð, sérstaklega er þetta graf hér alveg STÓRKOSTLEGT!

    Þetta graf sem sýnir að Liverpool lá aftar en Arsenal á að styðja það að Arsenal spili skemmtilegri bolta.

    Semsagt, lið sem er á útivelli í Meistaradeildinni liggur aftar á vellinum en heimaliðið! Þvílík stórkostleg uppgötvun!

  21. Já, sérstaklega þar sem það er ekki svo gígantískur munur á liðunum. Bakverðirnir þeirra leika aðeins framar, og svo eru Van Persie og Adebayor aðeins lengra inná vallarhelmingi okkar manna heldur en Torres og Gerrard hinum megin. Ég hefði skilið notkun þessa grafs ef það hefði sést greinilega að Liverpool-liðið væri að meðaltali rétt fyrir utan eigin vítateig og Arsenal-liðið að meðaltali inná vallarhelmingi Liverpool, en þegar það munar 2-3 metrum á hverri stöðu er það nú varla skýr sönnun þess að okkar lið sé varnarsinnað.

    Það er spurning hvort menn muni gæta samræmis og henda upp sams konar grafi eftir seinni leikinn annað kvöld. Ég efa það, enda þarf ekki graf til að sjá Arsenal-liðið liggja í vörn þegar allir vita að þeir verjast aldrei á útivelli. 😉

  22. Já það er mikill biturleiki í þessum pistli.Það er bara staðreynd að arsenal spilar skemmtilegri fótbolta en liverpool. Mjög oft þegar maður horfir á liverpoolleik þá er það leiðinlegt,enda er þetta lið frægt fyrir að eyðileggja tveggjaleikja einvígi með massívum varnarleik. AÐ lokum þá kostaði lið arsenal um 24m á meðan torres einn kostaði 26m og benites þarf að eyða svona 50-70 m til að komast nálgt titlinum. ‘Eg vona að benites verði áfram með liðið næstu árin,því meðan hann er vinnið þið ekki ensku dolluna,bara vonbrigði ár eftir
    ár

  23. Arsenal þetta og Arsenal hitt, það er hægt að setja upp gröf og súlurit með fyrrfram ákvðnum niðurstöðum. Sumir segja að lið sé svo gott vegna þess að það sæki mikið og spili flottan fótbolta gott og vel en gleimum ekki því að varnaleikur er einn þáttur leiksinns… Og Liverpool eru búnir að standa sig alveg ágætlega í þessum tveimur leikjum, að því undanskildu að ég vildi helst hætta þessari svæðisvörn og fara í maður á mann i hornspirnum ein ok með svæðisvörn í aukaspirnum, það þarf algerlega að dekka betur í föstum leikatriðum… En ég kvíð ekki seinni leiknum og þá skulum við gera graf þegar Torres er búin að setja 2 fyrir framan KOP og Wenger og félagar búnir að gera í buxurnar, spurningin er bara hvað Gallas situr lengi á vellinum eftir tapið, sannur fyrirliði þar á ferð… Nei kæru vinir LIVERPOOL vinnur þennan leik 3 – 0 og ég hef það á tilfinninguni að það verði alger stórleikur sem okkar menn eiga…Áfram Liverpool…

  24. Þetta graf er auðvitað stórfenglegt. 🙂

    Þetta hérna er síðan nokkurs konar preview á Soccernet síðunni fyrir leikinn á morgun. http://soccernet.espn.go.com/preview?id=238333&cc=5739

    “Few teams can survive an Arsenal onslaught for a whole match but that is probably what Liverpool will have to do to capitalise on their home advantage and reach a semi-final …”
    Vá!

    Hvernig er það pakkaði Liverpool ekki Arsenal saman á Anfield 4-1 í fyrra líka undir lok tímabilsins þegar Arsenal voru orðnir jafn dauðþreyttir og þeir eru núna?
    Ég segi ekki að Liverpool muni skora aftur 4 mörk eða meira gegn þeim en að Liverpool geti ekki hápressað og sótt duglega gegn þessu mistæka Arsenal liði sem hefur koðnað niður undanfarnar vikur er mjög undarleg speki. Við höfum alveg leikmenn til að virkilega meiða og drepa í þeim. Gerrard í stuði, Torres og kannski Crouch verði inná, hann sem virðist alltaf spila extra vel gegn Arsenal.
    Þetta verður samt jafnt held ég, ekki útilokað að þetta fari í vítaspyrnukeppni. Öll vitum við hvernig það myndi enda…

  25. Algjörlega frábær lesning.
    er bara ægilega lítill munur á liðunum aðalmunurinn er sá að arsenal er að sækja á fleiri mönum en liverpool því miður.

    Þar liggur munurinn en liverpool með sterkari vörn
    Takk

  26. Krisjan Atli … eg var nu ekkert að pæla i þvi að pistillinn þinn hefði ahrif a leikinn eða ekki!

    Eg var bara að pæla i þvi hvernig er að mæta Nöllurum eftir leik morgundagsins! Ef þeir skyldu vinna…. þa verður skitaglottið enn breiðara a þeim eftir að virðulegur og ma eg bæta við frabær penni Kop.is er buinn að “drulla” pent yfir goðum lika sannfæringu þeirra að þeir eigi lang skemmtilegasta liðið a Englandi…. 🙂

    Það var nu bara min pæling. Er ekki svo hjatruarfullur að halda það einhver orð upp a Klakanum setji leikinn i slæm alög.

  27. benitez segir að ef arsenal tapi í kvöld eigi þeir ekki möguleika á neinum titli. Sama á við um hann 😉 – tap í kvöld og ekkert útúr timabilinu.

    Liverpool hroki – hvað getur maður sagt annað en að ykkur er sannarlega vorkunn.

    Ps. You will never walk alone er lag Celtic stuðningsmanna – reynið að ná því í eitt skipti fyrir öll

  28. Til FIJ

    Gerry and the Pacemakers (peaking at number one in the singles chart for four consecutive weeks). It quickly became the anthem of Liverpool Football Club.

    The song was later adopted by the Scottish team Celtic.

    Get your facts straight.

  29. Benni, hann fij er að tala um eitthvað allt annað lag, okkar lag heitir You’ll Never Walk Alone. Hef ekki heyrt þetta lag sem hann er að vísa í og þrátt fyrir að ég Googli það, þá finnst ekki þetta You will never walk alone lag.

3 Pings & Trackbacks

  1. Pingback:

  2. Pingback:

  3. Pingback:

Arsenal 1 – Liverpool 1

Hyypia með nýjan samning