Sumarið Á Markaðnum (uppfært)

black_armband.jpgJæja, í dag er 1. september og það þýðir að sumarsýkin er loksins búin, lokað hefur verið á leikmannaskipti í efstu deildum Evrópuboltans og menn geta farið að einbeita sér að því sem skiptir mestu máli, að liðið leiki vel.

En fyrst langar mig aðeins til að fara yfir sumarið, taka smá stöðutékk á því hverjir fóru og hverjir komu og hvort maður getur verið sáttur við framvindu mála.

Í lok síðasta tímabils var öllum orðið ljóst að það yrði lykilatriði í sumar að bæta upp í það sem voru kallaðar vandamálastöðurnar þrjár: markmaður, miðvörður og hægri kantmaður, auk þess sem það yrðu einhverjir seldir og þá þyrfti að fá menn í staðinn. Þá var það fullljóst að til að styrkja liðið í heild þyrfti Rafa ekki aðeins að bæta breiddina með því að styrkja þessar þrjár stöður heldur einnig að kaupa menn sem að myndu koma til með að styrkja byrjunarliðið. Sem sagt, bæði varaskeifur uppá breidd og toppmenn fyrir toppbaráttuna.

Nú, þremur mánuðum síðar, er þetta niðurstaðan. Ég ætla ekkert að taka með menn sem voru á láni í fyrra, eins og t.d. Cheyrou og Diouf, heldur frekar einbeita mér að þeim leikmönnum sem léku fyrir okkur í fyrra og munu leika fyrir okkur í vetur. Eftirfarandi leikmenn komu/fóru til/frá Liverpool FC í sumar, en ég set feitletrun við nöfn þeirra sem voru/verða reglulega í 16-manna hópi hjá okkur:

FARNIR: Milan Baros, Igor Biscan, Chris Kirkland, Vladimir Smicer, Antonio Núnez, Salif Diao, og nokkrir á frjálsri sölu.

KOMNIR: Peter Crouch, Momo Sissoko, Pepe Reina, Bolo Zenden, Antonio Barragán, Ramón Calliste, Godwin Anti, Miki Roque, Jack Hobbs.

Þessu má síðan skipta niður á eftirfarandi hátt…

Sókn: Milan Baros yfirgaf okkur og í staðinn fengum við Peter Crouch.

Miðja: Igor Biscan, Vladimir Smicer og Antonio Núnez yfirgáfu okkur og í staðinn fengum við Momo Sissoko og Bolo Zenden.

Mark: Chris Kirkland fór á láni til W.B.A. og í staðinn fengum við Pepe Reina.

Varalið: Við létum 4-5 leikmenn sem voru ekki nógu góðir fara og fengum í staðinn 5 stráka á aldrinum 17-19 ára til að auka gæðin í varaliðinu.

Sem sagt, það er nokkuð borðleggjandi að fyrir hvern þann sem fór í sumar fengum við einn inn í staðinn. Hljómar auðvelt og virðist vera í góðu lagi, er það ekki? Eeeh … nei, ekki alveg … ef við rifjum upp hvert meginmarkmið kaupanna í sumar átti að vera þá sjáum við aðra mynd. Við ætluðum að kaupa markmann, miðvörð og hægri kantmann!

Og hvernig gekk?

MARKVÖRÐUR: Chris Kirkland fór og Pepe Reina kom inn. Kirkland væri sennilega orðinn aðalmarkvörður okkar fyrir löngu ef hann hefði getað haldið sér heilum lengur en í mánuð í einu, þannig að það var bara eðlilegt að við fengjum nýjan mann inn. Reina kemur beint inn sem markvörður #1 hjá félaginu og ef hann stendur undir væntingum hefur Rafa tekist að slá tvær flugur í einu höggi hér: að bæta úrvalið í markvarðahópnum og bæta byrjunarliðið einnig.

MIÐVÖRÐUR: Enginn. Zip. Nada. Skid og ingenting. Það er nú bara málið. Við vorum orðaðir við hátt í 20 miðverði yfir sumarið og skv. fréttum buðum við í þó nokkra – Milito, Andrade, Upson, Mexés og Bonera svo að nokkrir séu nefndir – en það gekk ekkert. Í einu tilfellinu vildi leikmaðurinn ekki fara (Milito) en í hinum tilfellunum var ákveðið mynstur ríkjandi. Við buðum ekki nógu háa upphæð til að sannfæra viðkomandi klúbb til að selja leikmanninn.

Hvað er þá til bragðs að taka? Ef Carra og/eða Hyypiä meiðast, eigum við þá bara að spila með engan í miðverði? Auðvitað ekki, en það verður að segjast að meiðist annar þessara tveggja eru valkostirnir ekki eins glæsilegir og maður myndi vilja hafa þá. Zak Whitbread er eini miðvörðurinn sem við eigum fyrir utan aðalliðið og hann gæti komið inn, en þrátt fyrir góða frammistöðu á undirbúningstímabilinu er hann enn óreyndur gegn þeim bestu. Josemi og Djimi Traoré geta síðan báðir spilað í miðverði ef á þarf að halda og Rafa hefur gefið í skyn að Josemi verið notaður þar, en hvorugur þeirra telur þó miðvörð sína sterkustu stöðu held ég. Á endanum hugsa ég að Josemi verið varaskeifa fyrir Carragher og Whitbread varaskeifa fyrir Hyypiä, enda eru þar svipaðir leikmenn á velli og slíkt, en það verður samt að segjast að þetta eru ekki þeir valkostir sem maður myndi vilja hafa. Því miður.

HÆGRI KANTUR: Hér er í raun erfitt að gagnrýna, en þó eitthvað hægt. Til að byrja með létum við tvo leikmenn sem gátu leikið hægri kantstöðuna fara í byrjun sumars – Núnez og Smicer – þannig að maður var 175% viss um að einhver kæmi inn í staðinn. Og það leit líka lengi vel út fyrir að Mark Gonzalez kæmi til okkar, allt í góðu með það. García getur spilað kantinn þótt það sé ekki hans besta staða og svo hefði Gonzalez komið inn sterkur í haust. En svo komu vonbrigði sumarsins – Gonzalez var neitað um atvinnuleyfi. Nú voru góð ráð dýr, Rafa hafði lítinn tíma til að finna annan kantmann en gerði þó sitt besta. Hann reyndi að fá Stelios en gekk ekki, þá reyndi hann Nolberto Solano en tókst ekki heldur og í gær var mjög hetjuleg barátta við klukkuna háð þegar við buðum allt að 10.5m punda í Simao Sabrosa – en allt kom fyrir ekki.

Þannig að á endanum sitjum við ekki aðeins eftir í jafnslæmum málum með þessa vandamálastöðu og við gerðum í vor, heldur erum við verr staddir!! Í fyrra gátum við þó notað Núnez og/eða Smicer þegar García gat ekki spilað, nú höfum við engan.

Þannig að ég sé fyrir mér að það muni mikið mæða á greyið García fram að áramótum, hann þarf enn að spila kantinn. Ef hann missir úr leiki finnst mér líklegt að Rafa muni biðja annað hvort Cissé eða Sinama-Pongolle um að kóvera á vængnum, auk þess sem Steve Finnan getur leyst þar af með Josemi fyrir aftan sig. En það er sama hvort við erum að tala um García, Finnan eða Cissé – enginn þeirra er hægri kantmaður af Guðs náð og því verður þjónustan við framherjana hægra megin frá sennilega áfram höfuðverkur í þessu liði.

Sem sagt, breiddin er svipuð og í fyrra (en þó meiri gæði yfir það heila, tel ég) en aðeins ein af vandamálastöðunum þremur hefur fengið góða lausn. Hvað þá með okkar sterkasta lið, byrjunarlið þegar allir eru heilir?

Miðað við hverjir spiluðu í fyrra og það kerfi sem Rafa notar oftast myndi ég segja að okkar sterkasta lið hafi litið svona út:

Dudek

Finnan – Carra – Hyypiä – Traoré

García – Hamann – Alonso – Riise
Gerrard
(framherji)

Ég tiltek engan ákveðinn framherja þar sem Rafa er vanur að rótera þeim. En allavega, miðað við hvernig þetta er að spilast hjá okkur í byrjun tímabils gætum við sagt að eftirfarandi sé okkar sterkasta lið núna:

Reina

Finnan – Carra – Hyypiä – Warnock

García – Sissoko – Alonso – Zenden
Gerrard
(framherji)

Hér sjáum við strax að Rafa hefur styrkt byrjunarliðið verulega á tveimur stöðum. Reina er kominn í markið og það er vonandi að hann verði stöðugri en þeir markverðir sem við höfum haft undanfarin ár, og þá hefur Sissoko komið af miklum krafti inn í liðið og er þegar orðinn hreinlega aðalmaður á miðjunni. Hann kemur með nýja vídd inn í liðið samanborið við Hamann – hefur meiri yfirferð, betri sóknarmaður og fljótari að spila boltanum á samherja en sá þýski – og það hefur strax skilað sér að mínu mati í betra flæði á miðjunni.

Að öðru leyti er liðið ekkert óbreytt því sem það var í vor. Við erum núna með 3 góða markmenn til að velja úr; Warnock, Traoré og Riise geta spilað vinstri bakvörð; Zenden, Riise og Kewell geta spilað vinstri kant; Finnan, Josemi, Barragan og Raven geta spilað hægri bakvörð, Gerrard, Alonso, Sissoko, Hamann, Potter og García geta spilað miðju; Carragher, Hyypiä, Whitbread, Josemi og Traoré geta spilað miðvörð; Crouch, Morientes, Cissé, Sinama-Pongolle og Mellor geta spilað frammi … og loks geta García, Cissé, Sinama-Pongolle og Finnan spilað hægri kant.

MITT ÁLIT :: LOKAMAT

Ég held að Rafa hafi sinnt sínu vel í sumar. Ef Crouch nær að gera það sem til er ætlast af honum verður Rafa orðinn snillingur í mínum augum hvað leikmannakaup varðar, þar sem það hafði nánast enginn trú á þessum kaupum nema Rafa, og þá hefur hann verið sniðugur að fá unga stráka til sín sem og Zenden á frjálsri sölu. Hann var óheppinn með Mark Gonzalez en á móti kemur að hann og Rick Parry framkvæmdu hið ómögulega – annað árið í röð – með því að fá Stevie Gerrard til að framlengja.

Þó er eitt sem ég er alls ekki sáttur við og mér finnst ærin ástæða til að kvarta verulega undir – og það er David Moores eigandi Liverpool. Þegar við unnum Meistaradeildina í vor komu fréttir sem sögðu okkur að við hefðum grætt 25m punda bara á sjónvarpsútsendingum úr Evrópu. Það var talað um að Rafa myndi fá u.þ.b. 20-25 milljón punda til að kaupa leikmenn plús þann pening sem hann myndi fá í kassann fyrir selda leikmenn.

Hverju eyddum við svo? Jú, Baros fór út á tæpar 7 millur og Crouch kom fyrir 7 millur, segjum það á sléttu. Við seldum Núnez en létum Biscan og Smicer fara frítt og á móti keyptum við Pepe Reina fyrir 6m punda og Momo Sissoko fyrir 5,5m punda.

Þannig að lauslega reiknað vorum við að eyða einhverjum 10-12 milljónum punda í leikmannakaup í sumar og af þeim leikmönnum sem við keyptum borguðum við pening fyrir aðeins þrjá þeirra – Reina, Sissoko og Crouch (Zenden var frír).

Sko, 12 milljónir punda?!?!? Ég verð að viðurkenna að ég bara skil ekki hvaða vandamál þetta er með peningaeyðslu hjá okkur. Ég er ekki að segja að Moores þurfi að láta Rafa hafa jafn mikla peninga og Abramovitch lætur Mourinho hafa, en kommon … tólf millur?!?

Auðvitað á ekki að eyða bara eyðslunnar vegna, Rafa hefur alltaf sagt að hann bíði frekar eftir rétta aðilanum en að eyða peningum í næsta tiltæka mann, en það er samt ansi hart að vera meistarar Evrópu – sem allir flest allir vilja ganga til liðs við – og vera nýbúnir að eiga mettímabil hvað gróða hjá klúbbnum varðar, og geta svo ómögulega hækkað 6m punda tilboðið í Gabriel Milito upp í 8m punda, til að klófesta leikmanninn?

Það er allavega helvíti hart að horfa á þá leikmenn sem við vorum orðaðir við í vor – Joaquin, Galletti, Ramos, Daniel Alves, Milito, Upson, Bonera, Andrade, Mexes – í þessar tvær vandamálastöður, og sjá svo fram á að enginn sé keyptur í þessar tvær stöður? Ég bara skil ekki hvernig það gat gerst!

Þetta er svo sem engin ástæða til að örvænta. Finnan getur alveg gefið fyrir af kantinum og Cissé getur hlaupið með boltann framhjá hvaða bakverði sem er í heiminum, og kannski munu Whitbread eða Josemi slá í gegn í miðverðinum ef þörf er á. En engu að síður er erfitt að fara inn í tímabilið með svona áhættu á bakinu, miðað við þær milljónir punda sem við áttum að eiga í buddunni í vor er slappt að vita til þess að við eyddum aðeins 10-12m punda í leikmenn og áttum samt ekki nógan pening til að borga 8m fyrir Milito!

NIÐURSTAÐA: Ánægður með þá leikmenn sem komu inn og ánægður með að Rafa sé loksins búinn að losa okkur við öll “aukakílóin” sem Houllier skildi eftir sig (þ.e. stjörnur á háum launum í varaliðinu) en einfaldlega DRULLUÓSÁTTUR út í David Moores fyrir að láta Rafa ekki fá þann pening til kaupa sem hann átti skilið í sumar!

Vonum að níska eigandans komi ekki niður á okkur fyrir áramót. En ef Finnan er að skíta á sig á hægri kantinum í vetur og Josemi er glataður í miðverðinum, þá vitið þið hvern þið eigið að öskra á … ekki Rafa, ekki Rick Parry, heldur David Moores.


Uppfært: (Aggi) Ég verð að viðurkenna að ég var búinn að bóka að til okkar kæmu 2 leikmenn fyrir miðnættið. Kantmaður og varnarmaður og það toppleikmenn. Eitthvað virðist hafa farið úrskeiðis og á endanum kom enginn. Ég er sammála því sem Perry hefur sagt í dag en finnst samt undarlegt að ekki hafi verið hægt að ná í það minnsta 2 leikmenn af öllum þeim sem við eigum að hafa boðið í/gert fyrirspurn um í sumar. En hvað um það þá er þessum farsa lokið í bili og ef við gátum orðið Evrópumeistarar þá hljótum við að geta gert betur en í fyrra í deildinni. Bottomline: Meiðsli eru ekki velkominn hjá varnarmönnum okkar í vetur!

33 Comments

  1. Virkilega skemmtileg og fræðandi lesning, ég taldi mig vera Liverpool fan en hafði ekki þessa innsýn í Liðið, veit mun meira eftir þetta, virkilega Fræðandi lesning

  2. Þeir sem komu inn voru:
    Antonio Barragan (undisc)
    Ramon Calliste (free)
    Peter Crouch (£7million)
    Besian Idrizaj (undisclosed)
    Jose Reina (£6million)
    Mohamed Sissoko (£5million)
    Boudewijn Zenden (free)
    Þetta eru ca. 19 milljónir með öllum ungu gaurunum.

    Þeir sem fóru:
    Milan Baros (£6.5million)
    Igor Biscan (free)
    Bruno Cheyrou (loan)
    Alou Diarra (ca. £3million)
    Salif Diao (loan)
    El-Hadji Diouf (ca. £4million)
    Stephane Henchoz (free)
    Chris Kirkland (loan)
    Anthony Le Tallec (loan)
    Antonio Nunez (ca. £1.5million)
    Jon Otsemobor (released)
    Richie Partridge (released)
    Mauricio Pellegrino (released)
    Vladimir Smicer (released)
    Gregory Vignal (free)
    John Welsh (loan)
    Ég giskaði á verðið á Nunez, Diouf og Diarra.
    En þetta verður samt 15 millur. Segjum 13-15…

    Þannig að skv. þessu fæ ég út að við vorum að kaupa fyrir 6-4 milljónir punda. Sem er örugglega minna en Wigan er að gera…

    Bara pæling.

  3. Já er samála þessu, finnst alveg ótrúlegt að Evrópumeistararnir geti ekki keypt við lið eins og Newcastle á leikmannamarkaði, Ég held að allir Liverpool aðdáendur sé mjög ósáttir í dag, þetta virðist bara vera algjört metnaðaleysi. Getur vel verið að þetta sé David Moores að klikka, en þessi aulaskapur í Rafa á leikamannamarkaðinum og allri Liverpool stjórninni er til skammar, eru búnir að hafa marga mánuði til að kaupa leikmenn en ekkert gert…svo er vælt nokkrum klukkutímum áður en leikannaglugginn lokar…flokkast bara undir algjöran aulaskap og í raun óafsakanlegt….
    kv. Mjög ósáttur Liverpool stuðningsmaður…..áfram Liverpool

  4. jamm , verð bara að vera sammála þér með Moores. Þvílík nískurotta er þessi maður !!!! Ég lít eiginlega ekki á liðið okkar sem betra en í fyrra!!! Kannsli bara markmannstöðuna og Sissoko er fínn en annars er ekki að sjá að við séum evrópumeistarar !! Þetta er bara bull og ég vona bara að við náum þessa 4 sæti í vetur. Eikkern veginn finnst mér að lið eins Charlton og Tottenham ( sem hafa verslað vel í sumar ) séu að fara framm úr okkur varðandi leikmannahópinn . Niðustaða : Ég er mjög fúll eftir sumarið

  5. Við keyptum Gonzalez er það ekki ??? var ekki málið að hann fékk ekki atvinnuleyfi þar sem Chile er svo lágt rankað þannig að menn voru að vonast til að úr því rættist í september…

    kv/

  6. KLÚÐUR, er eina orðið sem kemur upp í hugann þegar litið er á leikmannakaup (eða freka ekki kaup) okkar í ágúst. Síðustu kaup Liverpool voru 20 júlí 2005 (Crouch), síðan þá hefur ekkert gengið.

    En hverjum er um að kenna? Ekki er það Benitez það er ljóst. það er hann biður um ákveðna leikmenn jú, en síðan er það Parry og stjórnarinnar að útvega þann/þá leikmann.

    Hvað höfum við klúðrað mörgum leikmannakaupum í ágúst, förum aðeins yfir það:

    FIGO, mér er sama hvað menn segja ég trúi því ekki að konan hans ráði því hvert hann fer. STELIOS, ákvað frekar að gera nýjan samning við Bolton en að ganga til liðs við Evrópumeistarana. (SOLANO, veit reyndar ekki hvort við gerðum tilboð, hef hann því í sviga). LUISAO, tilboði hafnað og ekki einu sinni reynt að hækka það. BAUMA, veit ekki með formlegt tilboð, var samt talað um að hann hefði verið í viðræðum við okkur og Villa + ódýr 3,5 millj punda. BONERA, buðum í hann og síðan ekkert meir. MEXES, buðum víst fjórum sinnum í hann, gaman væri að vita hversu mikið við vorum að bjóða. SIMAO, þessa sögu þekkja allir, tilboðið kom einfaldlega allt of seint.

    Svo OWEN sagan, ekki alveg okkur að kenna en þó að einhverju leiti því hann var margsinnis búinn að lýsa yfir áhuga á því að koma aftur.

    En klúður númer 1 átti sér stað í júlí, hvernig fóru menn að því að missa af Milito. Hann vildi koma:

    I want to leave because a proposition of this type is unique.. I have demanded a settlement with Zaragoza and I believe that the transfer is possible.
    Everybody will benefit from it and I don?t understand why Zaragoza are initially negative.?

    Því segi ég en og aftur klúður, klúður, klúður, klúður.

    Fyrir mér hafa Parry og stjórnin klúðrar þessu gjörsamlega, ekki Benitez. Það er Parry sem fer til viðræðna við félög út um allan heim til að sannfæra þau um að selja okkur leikmenn.

    Kristján varðandi kaup og sölur í sumar þá gleymdir þú að nefna söluna á Diarra á 2 millj punda, það gerir 10 millj punda í eyðslu með kaupum og sölum. Því ætti að vera nægur peningur eftir til.

    Einnig getur Zenden alveg spilað á hægri kanti, gerði það nokkrum sinnum með landsliði sínu.

    Kveðja
    Krizzi

  7. Ekki gleyma að allt var klárt til að eyða um 10 milljónum í Simao, það gekk ekki eftir og það voru ekki peningar sem voru vandamálið þar!

    Eins og Parry segir á Official síðunni þá er Rafa enginn auli. Hann lætur ekkert ginna sig í að borga uppsprengt verð fyrir leikmenn sem hann telur ekki þess virði. Annað en td Mourinho en það hafa ekki allir þann lúxus á að skipa að geta dælt ENDALAUSUM peningum eins og hann í leikmenn… því miður.

    ÞEssir leikmenn koma í janúar…

  8. Krizzi minn er ekkert að gera í vinnunni hjá þér? :biggrin: Ég er annars hjartanlega sammála þér.

    Hlutverk Rafa er að stjórna liðinu úr þeim mannskap sem hann hefur að moða. Leggur væntanlega fram tillögur um hvaða leikmenn hann vill fá.

    Hlutverk Parry og Moores er svo að sjá til þess að leikmennirnir komi, Moores leggur út peningana og Parry sér um framkvæmdina.

    Rafa hefur hingað til staðið sig vel í sínu hlutverki. Hinir tveir illa að mínu viti.

    En… ef við verðum heppnir í vetur með meiðslu getur allt gerst. Ég myndi segja að styrkur liðsins væri óvissuþáttur eins og er. Nú þurfa menn bara að ?Cowboy up? og þá getur allt gerst.

  9. Greiningin hjá Kristjáni ner góð en ef til vill aðeins of vinsamleg Parry og Rafa. Rafa á að hafa þá stöðu að geta sagt “ég krefst þess að éssi eða hinn leikmaður verði keyptur” ef hann getur það ekki ætti hann að fá sér aðra vinnu. Ef hann hefgur ekki þá stöðu í dag að geta sett fram skilyrðislausar kröfur í leikmannakaupum þá mun hann aldrei hafa þá stöðu og þá er eins gott að hætta þessu gaufi. Parry á svo auðvitað að styðja Rafa í því en það er erfitt ef Rafa veit ekki hvað hann vill, hvað sem það kostar. Það koma upp þær stöður á leikmannamarkaði að það verður að kosta því til sem til þarf. Efrópumeistarar með fullt af peningum geta ekki búist við að fá menn á útsölu. Önnur lið vilja láta þá borga og Evrópumeistarar verða að borga það sem kostar að vera meistari. Menn verða að taka súrt með sætu í því. Þetta er algjört klúður og það þýðir ekki að firra Rafa og Parry ábyrgð á því og kenna Moores. Auðvitað hefur hann legið á aurunum og verið þversum én þrekleysi Rafa og Parry er augljóst og þeim til skammar. Sökin er því þeirra allra þriggja og ef árangur tímabilsins verður eins og ég er hræddur um að hann verði þá mega þeir allir fara til He….. saman í einni spyrðu.
    Bless 😡 😡 😡 😡 😡

  10. Sko, nokkrir punktar…

    1. Ég er ekki að segja að þetta sé algjörlega David Moores að kenna, en maður hlýtur samt að spyrja sig af hverju það voru til 8m fyrir Owen en ekki fyrir Milito, af hverju það voru til 10m fyrir Sabrosa en ekki 2m fyrir Figo, og svo framvegis.

    2. Það er rétt hjá þér Örvar að ég gleymdi að taka með í reikninginn sölurnar á Diarra og Diouf, þar fengum við pening inn. Þannig að ykkar mat á að við höfum eytt fyrir aðeins 4-6m nettó í sumar er hárrétt og gerir þessa stöðu sem við erum í ennþá skrýtnari fyrir vikið.

    3. Ég er ekki svartsýnn á tímabilið, þvert á móti. Ég er sannfærður um að nú þegar glugginn er lokaður mun pressunni létta eilítið af framherjunum okkar, við erum með bestu miðjuna í Englandi og frábæra vörn. Við eigum að geta blandað okkur í toppbaráttuna strax í fyrstu umferðunum (erum reyndar 2 leikjum á eftir, en á sigurbraut) og vonandi byrjum við Meistaradeildina af krafti.

    4. Það sem ég hins vegar hef áhyggjur af er það að við erum að taka ákveðna áhættu með því að kaupa ekki hægri kantmann og/eða miðvörð. Jú, Finnan og Cissé geta spilað kantinn og Josemi og Whitbread geta spilað miðvörðinn en það skal enginn segja mér, ef t.d. Jamie Carragher meiðist, að Josemi geti komið þar inn og liðið haldið sínum styrk. Sama hvað Josemi spilar vel í miðverði þá er hann ekki Jamie Carragher. Það sama gildir um Darren Potter eða Steve Finnan, þeir geta gefið fyrir (og í tilfelli Cissé, hlaupið hratt) en þeir eru ekki jafn alhliða vængmenn og Luis García, skyldi hann meiðast. Og García er ekki jafn alhliða sem hægri kantmaður og t.d. Simao eða Figo, sem eru SÉRFRÆÐINGAR í þeirri stöðu.

    Þannig að þótt ég sé sáttur við þá leikmenn sem við höfum og bjartsýnn á framtíðina er ljóst að við erum að taka áhættu með þessu. Geri þó ráð fyrir að Rafa sé þegar á fullu á bak við tjöldin til að kippa einhverju í liðinn í janúar. Við munum að í fyrra fór Owen svo seint í ágúst að við náðum ekki að kaupa framherja í staðinn … þannig að það fyrsta sem Rafa gerði í janúar-glugganum var að kaupa Morientes. Held að hann vinni ötullega að því líka núna að redda vængmanni og miðverði strax í janúarbyrjun.

    Annars þurfti ég bara að gera svona samantekt til að koma öllu slúðrinu út úr líkamanum, svona eins og að æla á lyklaborðið 🙂 …nú bara hlakkar mig til eftir rúma viku – TOTTENHAM, með Jenas, Davids, Defoe, Lee og allar hinar hetjurnar þeirra. Get ekki beðið!!! :biggrin:

  11. Þakka þér Kristján fyrir frábæra umfjöllun yfir þetta mál – glæsilegt að hafa þetta svona!

    En ég verð að fá að vera hissa yfir því hvað fólk er tilbúið að firra Rafa mikilli ábyrgð. Þessi þrenning (parry, moores and benitez) er öll ábyrg!!! Það er Rafa sem hefur stjórnað því hverja hann vill bjóða í, og sem þjálfari Evrópumeistara þá trúi ég ekki öðru en hann hafi réttmæta kröfu um það fá að eyða ákveðnum upphæðum. 7 milljónir í Crouch og ég hef trú á því að það leiði gott af sér (þar til kannski annað kemur í ljós), en að sjá Villa fá t.d. Solano á 1,5 og vitandi að Bouhma búm búm fer til Villa á 3,5 og segir að Villa hafi staðið sig best í því að vilja sig … þá fer maður að hugsa: hvað í andsk…!!!!???? Á maður að trúa því að stjórnin vilji ekki eyða 1,5 milljón eða 3,5 milljónum í leikmann??

    Ég er bara alls ekki til í það að tala um Rafa sem snilling í leikmannakaupum ef úr rætist með Crouch en firra hann svo ábyrgð að mistökunum í því að fá fleiri menn til sín.

    Og var það eingöngu Rick Parry og Benitez að þakka að Steven Gerrard ákvað að vera lengur? Voru það þeir einir sem framkvæmdu hið ómögulega???? Þar finnst mér ekki hetjuskapur þeirra vera mikill, heldur frekar ringlandaháttur í Gerrard!

    Finnan “getur” gefið, Cisse “getur” hlaupið, “kannski” slá Josemi og Whitbread í gegn … þetta er bara alls ekki nógu gott! Sissoko eru þau kaup sem ég er hvað ánægðastur með, Crouch kemur í ljós og einnig Pepe. En heilt litið yfir … þá er þetta alls ekki ásættanleg staða fyrir Evrópumeistara – breiddin á að vera meiri.

    Og þessi aukakíló sem Houllier skildi eftir sig … var það hann sem ákvað launin þeirra eða var það stjórnin?

    Ég örvænti ekki og segi: Púff, við dettum úr meistaradeildinni og komumst ekki í baráttuna um Evrópusætið í deildinni einu sinni….. – nei nei, ég mun hafa trú en um leið hef ég áhyggjur, og vona bara að Rafa sem þjálfari láti þær hverfa.

  12. Ég myndi segja að klúður nr. 1 hefði bara verið að láta Nunez fara! Nú fengi hann tækifæri til að sýna sig og sanna, e.t.v. slá í gegn…en neinei! 🙁

    …Svo væri nú líka voða gott að hafa Stepane Henchoz þarna í back-up! :confused:

  13. Það má reyndar líka minnast á það að Steven Gerrard getur vel spilað hægri kantinn ef að hinir covera miðsvæðið fyrir hann! 😉

  14. Ég er sammála öðrum um það að auðvitað er maður drullupirraður yfir því að ná ekki hægri kanti inn. Það er sú staða sem mér fannst vera númer eitt, tvö, þrjú, fjögur…og upp í 10.

    Ég verð samt enn og aftur að furða mig á þessu Figo tali ykkar. Þið eruð ennþá að tala um einhverjar 2 millur sem uppá vantaði að hann hefði komið til okkar. Figo er sjálfur búinn að segja það að það að hann færi ekki til Liverpool hafi ekki komið peningum við. Parry er búinn að segja slíkt hið sama. En áfram klifa menn um það að það hafi verið þessar 2 millur sem gerðu það að verkum að hann kom ekki.

    Það er enginn einn sökudólgur í þessu. Mér finnst persónulega það sem Parry segir í dag, meika fullkomið sens. Rafa segist ekki vilja láta ginna sig út í að borga uppsprengt verð fyrir leikmenn. Menn geta svo krítiserað það út í óendanleikann. Það virðast vera til peningar til að eyða, en eins og Parry sagði, þá vilja menn ekki kaupa leikmenn bara til að kaupa þá. Það er rétt að Milito vildi koma, en hvað vantaði uppá til að það gengi eftir. Jú, Zaragoza vildi ekki selja.

    Hvað gerðist með Benfica? Simao vildi koma, en Benfica vildi ekki selja. Það þarf þrjá til, til að kaup geti átt sér stað. Lið sem vill kaupa, leikmaður sem vill fara til liðsins og svo lið sem vill selja.

    Mér er eiginlega slétt sama með Owen. Hann hefði mátt koma ef rétt verð hefði verið á borðinu, en hann er fyrst og fremst að horfa til landsliðsins og því fór sem fór. Ef hann hefði virkilega viljað koma aftur, þá hefði hann getað þrýst það í gegn. Real beið eftir að geta keypt Ramos og þurftu að selja hann. Hann hefði getað sett ógnarþrýsting á þetta hefði hann viljað það. Hann ákvað að fara the easy way og því fór sem fór. Hann tapaði mest allra á þessu. Kominn aftur til Englands með skottið á milli lappanna.

    En ég tek undir með þér Sigtryggur, Bless. Ekki þó við Liverpool, heldur stuðningsmenn sem eru tilbúnir að snúa baki við liðinu.

    Það er búið að vera að vinna í þessum leikmannamálum í allt sumar og vor. Þó svo að við höfum bara heyrt af sumu nýlega, þá eru búnar að vera þreyfingar lengi. Eins og Parry sagði, þá hefði vel verið hægt að gera eitthvað í þessu ef Benfica hefðu snúist hugur eins og sólarhringi fyrr. En þeir gerðu það ekki og er ég feginn því að ekki var farið út í einhver panic kaup í staðinn. Það virtist allt orðið niðurneglt þar á bæ, en lítið hægt að gera þegar menn breyta svona um stefnu á síðasta sentimetranum.

    Engu að síður þá finnst mér liðið vera sterkara en á síðasta tímabili. Ég er bara nokkuð bjartsýnn á framhaldið og er dauðfeginn að nú þurfi enginn að spá meira í því hverji koma eða fara, fyrr en í janúar. Meira verður ekki gert í bili og nú ætla ég sem harður stuðningsmaður liðsins að einbeita mér að því að styðja núverandi leikmannahóp með ráðum og dáðum og setja traust mitt á Rafa sem stjóra. Næsti leikur takk og nú skal horft fram á veginn.

  15. Solano fór frá Villa til Newcastle – vildi ég sagt hafa áðan.

    Og ég er og verð alltaf Liverpool áhangandi – ekkert sem breytir því.

    En sem stuðningsmaður gerir maður kröfur og hefur skoðanir – það er akkúrat ekkert að því.

    SSteinn… það er eins og þú sért að þýða orð Benitez sjálfs varðandi málið á Owen. Hefði Owen getað þrýst meira?? Nei – Owen er ekki “sökudólgurinn” hér, heldur vissi hann það og Madrid hafði sagt það líka, að ef hann hefði neitað þá hefðu Madrid-ingar geta kyrrsett hann á bekknum fram til janúar – engin garantí fyrir því að eftir þá neitun hefðu þeir tekið tilboði frá Liverpool! “Easy way”??? Bull!!! Hann þurfti að taka fjandi erfiða ákvörðun og það var alveg ljóst að Liverpool vildi hann ekki nógu mikið aftur!

  16. Ég er gall harður stuðningsmaður Liverpool og hef verið það síðan ég man eftir mér (fæddur ’74). Það hefur ekkert breyst þó að vottur af óánægju vegna leikmannakaupa sé til staðar.

    Það leitt að sjá suma tala eins og þeir(hann) séu einu sönnu stuðningsmenn(maður) Liverpool á Íslandi, það er nú bara því miður fyrir þá(hann) ekki svo.

    Nú hef ég flakkað um allan vefinn og hvergi finn ég staðfestingu á því að Liverpool hafi boðið Real pening fyrir hann Figo. Getur einhver verið svo elskulegur að benda mér á þá síðu og frétt.

    Með fyrirfram þökk
    Krizzi

  17. Það var nú ekki alveg að marka siðasta tíma bil
    það voru nýjir menn að koma og það var hált
    liðið á hækjum 😯 það er ekki eins og við
    höfum verið í 1 deild í fyrra og seum að falla aftur
    við verðum bara að vona að við sleppum með
    svona meiðla hrinu eins og í fyrra og berjast í
    ÖLLUM leikjum 🙂

  18. Merkileg athugasemd um að einhver tali eins og hann/þeir séu einu stuðningsmenn LFC. ÉRg tel að allir styðji leikmenn og lið LFC en ekki endilega stjórn og stjóra. Og svo má benda á það að ekkert lið er sterkara en þeir stuðningsmenn sem standa á bak við það. Ef málum er hagað þannig hjá einhverju liði að stuðningmenn geta ekki fylgt sér á bak við það eru dagar þess taldir. Svo einfalt er það!!!

  19. Hvar í ósköpunum segi ég að ég telji mig meiri stuðningsmann en aðra? Ég sagði einfaldlega að sem harður stuðningsmaður liðsins þá ætlaði ég mér að styðja núverandi leikmannahóp með ráðum og dáðum og setja traust mitt á Rafa.

    Og ég sagði rétt áður að ég segði bless við stuðningsmenn sem væru tilbúnir í að snúa baki við liðinu. Það sagði ég vegna hluta sem ég hef séð skrifaða hérna mjög nýlega eins og þessa:

    “Það er spurning hvort maður nennir að vera í stuðningsmannaklúbbi svona liðs þó maður drullist til að fylgja þeim í laumi.”

    Og eins þegar menn eru farnir að segja mönnum að fara til helvítis af því að réttu leikmennirnir að þeirra mati eru ekki keyptir:

    “þá mega þeir allir fara til He?.. saman í einni spyrðu. Bless ”

    Því spyr ég. Hvar skrifa ég þannig að ég telji mig hinn eina sanna stuðningsmann? Finnst ykkur virkilega að þeir sem snúa baki við liðinu geti áfram talist til stuðningsmanna þess?

    Endilega skýrið þetta út fyrir mér.

  20. Var rétt í þessu að lesa afsökun Perry fyrir getuleysi LFC á leikmannamarkaðnum.

    Nokkrir punktar:

    Parry talar um það að í sumar hafi LFC eytt ca. 20 millj. punda í leikmenn. En ekki gleyma að einnig höfum við selt leikmenn fyrir ca. 12 millj.
    Hann líkir þessu við árið 2002 og talar um að við höfum eytt jafn miklu í leikmenn og þá, það getur verið rétt en þá seldum við ekki leikmenn fyrir jafn mikinn pening og nú.

    Svo kemur hann inn á Figo kaupin, enn og aftur auglýsi ég eftir frétt sem staðfestir það að LFC hafi boðið Real pening fyrir hann??????????

    Parry: Rafa krafðist þess að við myndum ekki borga of hátt verð fyrir leikmenn sem eru ekki þess virði. Við hefðum getað keypt miðverði í gær en vildum ekki gera það bara til þess að kaupa einhvern.

    Leikmenn sem ekki eru þess virði, í þann flokk hjá Rafa fellur ekki Milito það get ég lofað ykkur. Þetta komment á frekar við um þá leikmenn sem við vorum að reyna að kaupa á lokasprettinum.

    Fyrir þá sem ekki vita: það er ekki Rafa sem semur við lið um kaupverð á leikmanni og síðan laun og kjör hans, heldur er það hlutverk Parry og stjórnarinnar. Það voru þeir(Parry og stjórnin) sem stóðu sig ekki í stikkinu þetta sumarið, vonandi gerist það ekki aftur.

    Við getum vel náð árangri með þennan mannskap, ef menn gefa 100% í hvern leik þá er allt hægt (sjáið bara City).

    Kveðja
    Krizzi

  21. Tek undir með Krizza … það er allt hægt, og vísa bara í Evrópumeistaratitilinn okkar 🙂

    En þó svo að Rafa sjái ekki um samningsupphæðir þá er það hann sem ræður hverjir eru keyptir. Enda segir í viðtalinu, að “Rafa hafi krafist…” – það virðist hann ekki hafa gert nógu sterklega í sumum tilfellum. Þrenningin er öll ábyrg fyrir slökum leikmannakaupum upp á síðkastið (parry, moores og benitez). Þó svo að Sigtryggur hafi verið mjög harðorður í sínum pósti, þá var eitt sem ég tók eftir, og það er það að Evrópumeistarar eiga ekkert að búast við því að fá leikmenn ódýrt. Þessi afsökun Parry með 20 milljóna eyðsluna og ekki tekið fram peningurinn á bak við söluna líka, sýnir bara að það var ekki nógu mikið gert í sumum tilfellum til að fá spilarana.

    Sitt sýnist hverjum um hópinn og leikmannakaupin, og eflaust verður eitthvað rabbað um þau áfram, en aðalpunkturinn er auðvitað sá að það er spennandi tímabil framundan og öskrið breytist ekkert: “Áfram Liverpool!”

  22. Ummæli nr. 14 hér að ofan frá SSteini eru akkúrat ástæðan fyrir því afhverju ég nenni ekki orðið að skoða Liverpool.is. SSteinn ertu ekki til í að skrifa bara inná spjallborðið þar?

    Mér finnst allt í lagi að menn láti hörð gagnrýnisorð falla inná svona spjallborðum svo lengi sem það eru ekki barnalegar svívirðingar og persónulegt níð sem kemur fótbolta ekki við. Auðvitað er ekkert að marka sum af þessum gagnrýnisorðum og ber að taka tillit til þess að skrifað mál kemur yfirleitt allt öðruvísi út heldur en talað. Oft er eitthvað skrifað í hita leiksins og smellt á “staðfesta” án þess að hugsa málið til enda. Það sýnir bara að mönnum er ekki sama um gengi liðsins.

    Menn eru misjafnir eins og þeir eru margir. Sumir eru örgeðja og vilja gagnrýna þegar illa gengur (sem er fullkomlega eðlilegt), aðrir kjósa að vera dipló í öllu sem þeir segja varðandi liðið og eru því að mínu mati hundleiðinlegir að hlusta á og lesa.

  23. Gunnar Aron og aðrir – þið megið ekki misskilja það að SSteinn formaður Liverpool-klúbbsins sé hér að tjá sig um þessi mál. Hann er ykkur ósammála og kemur með rök fyrir sinni skoðun, þið á móti komið líka með rök fyrir ykkar skoðun. Um þetta snúast vitsmunalegar samræður og það er nákvæmlega það sem þessi vefsíða, Liverpool Bloggið, gengur út á. Við stofnuðum hana svo að við gætum sagt okkar skoðun á Liverpool-tengdum málefnum, og einnig til að þeir sem læsu síðuna okkar gætu skrifað sín eigin ummæli og sagt sína skoðun á málunum.

    Þótt SSteinn sé formaður klúbbsins hér heima er ekki þar með sagt að hann sé einhver harðstjóri sem vill ekki heyra að neinn sé ósammála sér. Hann er í sama rétti og aðrir til að skrifa sín ummæli hér inni ef hann telur sig hafa eitthvað til málanna að leggja.

    Þið lesendurnir eruð stundum ósammála mér, Einari eða Agga og eruð duglegir að segja okkur frá því – og við metum það MIKILS, því við vildum einmitt fá ummæli frá fólki sem sér hlutina frá ólíku sjónarmiði.

    Þannig að endilega ekki krossfesta Steina fyrir að hafa sína skoðun, jafnvel þótt hún sé ekki sú sama og ykkar skoðun, bara af því að hann er formaður klúbbsins hér heima.

    Annars vill ég bara taka það fram að ég er hæstánægður með þær umræður sem hafa skapast hér í kringum færslurnar undanfarna daga. Við höfum sjaldan séð jafna mörg og vel skrifuð ummæli við færslum okkar eins og síðustu 3-4 daga og megið þið lesendurnir þiggja hrós fyrir það. Ummæli ykkar gera það að verkum að það verður enn skemmtilegra fyrir okkur höfundana að skrifa færslur, vitandi að þið munið svara í sömu mynt með rökstuddu máli.

    Einnig finnst mér frábært að sjá að í gegnum þessa síðustu daga – þ.m.t. Owen-málið þar sem menn voru ekki á eitt sáttir – þá hefur ekki komið upp eitt einasta komment með einhvers konar skítkasti á þessari síðu. Mér finnst það magnað! 🙂

    Þannig að mig langar bara til að þakka ykkur lesendunum – SSteini, Dodda, Sigtryggi, Krizza, Hannesi og ykkur öllum sem hafið tjáð ykkur, fyrir frábær viðbrögð undanfarið. Það eruð þið sem gerið þessa síðu skemmtilega! 🙂

    Annars legg ég bara til að við öndum allir djúpt, látum hver þau vonbrigði sem kunna að sitja eftir frá því í gær bara líða hjá og svo snúa okkur að næsta leik. Þótt ég hafi orðið fyrir vonbrigðum með gærdaginn hef ég trú á liðinu og hlakka bara til næsta leiks! :biggrin:

  24. Ok Kristján, skil hvað þú átt við. Mér finnst bara SSteinn oft koma fram við aðra aðdáendur með yfirlæti, líkt og þeir viti ekkert um hvað þeir eru að tala. Tek stutt dæmi úr þessum pósti hér að ofan:

    SSteinn:
    “Ég verð samt enn og aftur að furða mig á þessu Figo tali ykkar. Þið eruð ennþá að tala um einhverjar 2 millur sem uppá vantaði að hann hefði komið til okkar. Figo er sjálfur búinn að segja það að það að hann færi ekki til Liverpool hafi ekki komið peningum við.”

    Hvar sagði Figo þetta? Hvernig veist þú þetta? 🙂

    “Það er enginn einn sökudólgur í þessu.”

    Hvernig veist þú þetta? Veist þú eitthvað meira en við hinir? Yfirlætisfyllska? 🙂

    “Hvað gerðist með Benfica? Simao vildi koma, en Benfica vildi ekki selja. Það þarf þrjá til, til að kaup geti átt sér stað. Lið sem vill kaupa, leikmaður sem vill fara til liðsins og svo lið sem vill selja.”

    Eeeee jú, víst vildi Benfica selja á 13,6 skildist manni á fréttum af Sky. Veist þú eitthvað betur þínu til stuðnings? Eða er þetta bara yfirlætisfyllska? Það þarf þrjá til að….blabla, það vita þetta allir, ekki tala við okkur eins og smákrakka. Yfirlæti aftur. 🙂

    “Það er búið að vera að vinna í þessum leikmannamálum í allt sumar og vor. Þó svo að við höfum bara heyrt af sumu nýlega, þá eru búnar að vera þreyfingar lengi.”

    Hvernig veist þú þetta? Þú ert ekki í stjórn LFC þótt að þú sért formaður Liverpoolklúbbsins á Íslandi. 🙂

    “Eins og Parry sagði, þá hefði vel verið hægt að gera eitthvað í þessu ef Benfica hefðu snúist hugur eins og sólarhringi fyrr.”

    Þá hefði jafnvel verið hægt að byrja samningaviðræður fyrr?? Er það ekki það sem menn eru að spá í og gagnrýna? 🙂

    Annars er ég alveg pollrólegur í þessu öllu saman, held þó að Liverpool verði að berjast um 4. sætið eins og í fyrra því miður. Mig grunar að Gerrard-dramað muni hefjast aftur á vormánuðum.

    Ég er ekki að þykjast vita eitthvað sem ég veit ekki, mér bara finnst þetta. 🙂

  25. Þakka þér sömuleiðis Kristján, fyrir frábær orð (og ásamt Einari og Agga fyrir frábæra síðu). Andinn hefur verið dreginn djúpt og víkur hratt fyrir tilhlökkun! 🙂

    Það verður frábært að rökræða við félagana hérna um frammistöður o.s.frv. á komandi sísoni – ég bara vildi að 10. sept. væri fljótari að koma!!

  26. Vakti athygli mína að þú minnist ekkert á Figo í umfjölluninni um hægri kant. Að mínu mati voru vonbrigði sumarsins þau að ekki skyldi takast að landa honum. Gonzalez á örugglega eftir að fá atvinnuleyfi að lokum en auðvitað ekki fyrr en eftir áramót úr þessu.

  27. Takk fyrir þetta Aggi. Frábær skrif!
    Og strákar hættið þessum kýtingum, ef það er eitthvað sem Liverpool FC má eiga þá eru það frábærir stuðningsmenn og þeir standa saman í gegnum súrt og sætt! Sérstaklega í gegnum súrt vegna þess að hitt kemur að sjálfu sér.
    YNWA!

  28. Takk fyrir það Kristján.

    Þú kannski lætur mig líka vita hvenær ég má skrifa inni á liverpool.is Gunnar?

    Þú klifar sífellt á yfirlæti, en biður mig svo um að skrifa annars staðar en hérna. Af hverju svaraðir þú bara ekki þessum atriðum. Þú talar um að þér “finnist” þetta bara. Mér finnst útúrsnúningar þínir vera með ólíkindum og hér á þessari síðu hefur sem betur fer aldrei verið neitt að ráði um persónulegt skítkast, en til lukku, þú gerir góða tilraun til að breyta því snarlega.

    Tökum þetta þá lið fyrir lið og best að útskýra mál mitt áður en ég hunskast aftur á liverpool.is svo þú fáir að vera hér í friði kallinn minn.

    Með Figo. Hann sagði það sjálfur í fjölmörgum viðtölum sem við hann voru tekin eftir að hann skrifaði undir við Inter, að það hafi ekki verið peningarnir sem réðu því hvert hann fór. Ef þú trúir því ekki og vilt frekari sönnur á því, þá er bara um að gera fyrir þig að leita að þeim á netinu. Þú getur bara líka ákveðið að trúa þessu bara alls ekkert, og þá verður það bara þannig. Ég er að skrifa þetta út frá því sem ég hef lesið úr viðtölum við Figo, Parry og Rafa.

    Með það að það sé ekki bara einhver einn sökudólgur, þá held ég að það dæmi sig sjálft. Stuttu seinna sakar þú mig enn og aftur um yfirlætisfyllsku þegar ég tala um að það þurfi 3 til að semja. Finnst þér ekkert skrítið ef það er bara einn sökudólgur, en það eru engu að síður lágmark 3 aðilar sem koma að þessum málum hjá liðinu (fyrir utan umboðsmenn og annað slíkt).

    Ég talaði um að Benfica vildu ekki selja. Þetta kemur fram í viðtalinu við Parry, þ.e. að það hafi allt orðið vitlaust í Lissabon þegar fréttirnar af þessari sölu láku út og því hafi Benfica skellt í lás. Enn og aftur er ég að skrifa út frá viðtölum og greinum sem ég les.

    Það getur vel verið að það sé réttur manna að drulla yfir mig vegna þess að ég gegni stöðu formanns klúbbsins. Engu að síður tel ég mig áfram hafa rétt á því að setja mína skoðun fram á opnum síðum. Ég skrifa ekki hérna fyrir hönd klúbbsins, heldur set ég fram mína persónulegu skoðun. Það hefur lengið loðað við suma að svara engu efnislega sem ég set fram, heldur frekar að fara út í persónulegt skítkast, saka mig um hroka og/eða yfirlæti. Hvers vegna í ósköpunum setja menn ekki frekar inn sína skoðun og reyna að koma með mótrök frekar en þessa vitleysu.

    Ég skal reyna að trufla þig ekki mikið meira kúturinn minn.

  29. Jæja kæru LFC menn. Til að kæta menn í bölsýninni yfir litlum leikmannakaupum langar mig til að setja inn skemmtilega “tilviljun” sem ég rakst á. …og til að minna enn og aftur á hver er Evrópumeistari.

    ************************
    Year 1981
    1. Prince Charles got married
    2. Liverpool crowned soccer Champions of Europe
    3. Pope Died.

    Year 2005
    1. Prince Charles got married (again)
    2. Liverpool crowned soccer Champions of Europe (again)
    3. Pope Died

    In future, if Prince Charles decides to re-marry or Liverpool needs another European crown … WILL SOMEONE PLEASE WARN THE POPE!!!

  30. Mig langar til að hrósa síðunni og umsjónarmönnum hennar. Alveg eins og ég vil hafa hana. Svo spillir ekki skemmtileg og málefnanleg umræða og að lang flestir skrifa undir nöfnum eða gælunöfnum sínum.

    SSteinn – í greininni þinni (ummæli 14) segirðu bless við þá sem eru tilbúnir að snúa baki við Liverpool.

    Ég skal ekki alhæfa, en vitna eins og þú gerir til stuðnings þínum rökum, í fjöldamarga pósta þína á Liverpool.is (þú getur svo bara flett þeim upp) þar sem þú gefur í skyn að þeir sem gagnrýna liðið séu ekki sannir stuðningsmenn Liverpool.

    Ég hef ekki tekið eftir því að nokkur hér á þessu spjalli eða annars staðar séu að fara að snúa baki við liðinu sínu. Þá held ég að hvort sem menn gefi sér tíma til að skrifa um liðið eða ekki séu allir jafn miklir stuðningsmenn Liverpool.

    Ég tel hins vegar að Moores og Parry séu ekki að standa sig. Kannski er Rafa líka að upplifa það sem hann gekk í gegnum hjá Valencia þegar hann sagðist hafa beðið um sófa en fengið lampa.

    Ég vil svo taka undir það sem Aggi sagði í pistlinum sínum að ?ef þessir stjórar hefðu verið að vinna hjá KB Banka þá væri búið að reka þá fyrir þessa ávöxtun/rýrnun!?.

    En… ég er samt bjartsýnn á veturinn og þessi sumarvonbrigði skyggja ekki á gleðina yfir sigrinum í Meistaradeildinni.

  31. Það er af og frá í mínum huga að það megi ekki gagnrýna liðið og þeir sem það geri séu minni stuðningsmenn fyrir vikið. Sjálfur gagnrýni ég liðið mikið, en geri það kannski á annan hátt en margur annar. Ég aftur á móti hef látið í mér heyra þegar mér finnst gagnrýnin fara út yfir velsæmismörk, og þá er ég að lýsa minni skoðun fyrst og fremst.

    Í ummælum mínum (nr. 14) þá sagði ég bless við þá sem snúa við liðinu baki. Ég stend við það, enda eru þeir sjálfir búnir að segja bless við liðið ef þeir kjósa að snúa baki við því. Gefur það ekki auga leið?

    Ég kom einnig með ummæli þau er Sigtryggur kom með til að ítreka þetta. Þar tala menn um að nenna ekki að styðja liðið og ætla að gera það í laumi og svo að menn eigi að fara til helvítis og þar fram eftir götunum.

    Gagnrýni er fín og veit ég fátt skemmtilegra en að rökræða Liverpool við aðra og ekki væri það skemmtilegt ef allir væru á sömu skoðun. Það er af og frá að ég telji þá ekki stuðningsmenn sem gagnrýna liðið, og ég tel mig geta staðið á því að hafa aldrei haldið því fram. Bottom line er þó það að það er munur á gagnrýni og yfirdrullun.

  32. SSteinn, þú segir hér fyrr:

    “Það hefur lengið loðað við suma að svara engu efnislega sem ég set fram, heldur frekar að fara út í persónulegt skítkast, saka mig um hroka og/eða yfirlæti.”

    Ef þú ert að lenda í þessu oft þá ættir þú kannski að skoða hvernig setur fram þitt mál.

    Annars hef ég ekkert á móti þér. Þú stendur þig vel að mínu mati sem formaður klúbbsins. :biggrin2:

  33. Gunnar Aron, ég skal ábyrgjast það að SSteinn þarf ekkert að athuga sín mál varðandi skrif á netið. Á liverpool.is er hann vissulega bundinn af því að vera formaður Liverpool-klúbbsins á Íslandi, og ég hef ekki orðið var við annað en að hann reyni að hegða sér sem slíkur. Það felur m.a. í sér:

    1. Ekkert skítkast, hvorki út í liðið og þjálfarann né aðra spjallara á liverpool.is, þar sem SSteinn er formaður Liverpool-klúbbsins og er á liverpool.is því að vissu leyti að skrifa fyrir hönd klúbbsins á spjallið. M.ö.o., ef hann er ómálefnalegur kastar það rýrð á klúbbinn.

    2. Sem formaður klúbbsins er liverpool.is hans síða, frekar en okkar, þar sem hann er einn af þeim nokkru sem eyða dýrmætum tíma sínum í að halda síðunni gangandi (án þess að fá borgað fyrir) og því er hann í fullum rétti til að segja mönnum hvað þeir mega og mega ekki segja á þeirri síðu. Ég, Einar Örn og Aggi erum t.d. þeir sem leggjum vinnu í þessa síðu, án þess að fá borgað fyrir (borgum m.a.s. fyrir hana) og sem slíkir áskiljum við okkur rétt til að banna þá sem eru með skítkast. (og bara svo þú vitir það, Gunnar, þá verður það raunin ef þú heldur áfram að snúa út úr öllu sem SSteinn segir hér á síðunni að þú verður bannaður).

    Sem sagt, SSteinn hefur ábyrgð að gegna gangvart liverpool.is. Hér inni hefur hann hins vegar enga ábyrgð og enga stöðu umfram aðra – hér er hann bara enn einn Púllarinn sem hefur sína skoðun á málunum, og sem slíkur má hann fyllilega setja hana fram. Ég hef ekki orðið var við að hann setji fram skoðanir án þess að rökstyðja þær, hann er málefnalegur í alla staði eins og (sem betur fer) flestir aðrir spjallarar hér og er ekki með skítkast. Um hann gilda sömu reglur og ykkur hina hér, ef þið eruð með skítkast eða sýnið óvirðingu þá munum við banna ykkur.

    Þú hefur sjálfur verið með góð og rökstudd svör hér á síðunni Gunnar Aron, og kann ég þér þakkir fyrir það, en vinsamlegast hættu nú að bölsótast og sjá í hillingum einhvern einræðisherra sem öskrar “af með hausinn!!!” við alla sem eru sér ósammála. Hann Steini er bara gaur útí bæ með skoðun á hlutunum eins og við hinir.

    Ég ætla að loka ummælum við þennan þráð núna, finnst rétt að þetta gangi ekkert lengra. Sé ykkur svo bara í nýjustu þráðunum! 🙂

Simao kemur ekki (staðfest)!

Fjárfestingar LFC síðasta áratuginn eða svo.