Liverpool 1 – Atletico Madrid 1

Okkar menn tóku á móti Atletico Madrid í seinni viðureign liðanna í Meistaradeildinni í kvöld, og eins og í fyrri leiknum varð **1-1 jafntefli** niðurstaðan í fjörugum leik.

Rafa stillti upp eftirfarandi liði í kvöld:

Reina

Arbeloa – Carragher – Agger – Aurelio

Alonso – Mascherano
Kuyt – Gerrard – Riera
Keane

**Bekkur:** Cavalieri, Dossena, Degen, Lucas (inn f. Mascherano), Benayoun, Babel (inn f. Riera), Ngog (inn f. Keane).

Þessi leikur virtist lengst af ætla að verða klassískur Evrópu-útisigur Atletico Madrid. Fyrri hálfleikurinn var fjörugur en á meðan okkar menn stjórnuðu lengst af spilinu en gekk illa að skapa sér færi vörðust Atleti-menn vel og skipulega og beittu stórhættulegum skyndisóknum. Það var einmitt upp úr einni slíkri eftir um hálftíma leik sem **Maxi Rodriguez** skoraði frábært mark. Agger keyrði upp völlinn með boltann en liðið náði ekki að fylgja því eftir og missti knöttinn til Atletico-manna. Heitinga gaf boltann úr vörn þeirra beint upp kantinn á Raul García sýndist mér sem gaf boltann beint inná teiginn. Þar sem Agger var framarlega á vellinum og miðjumennirnir voru ekki komnir aftur nógu snemma til að kóvera var Carragher skyndilega staddur einn með bæði Diego Forlan og Rodriguez á sínum snærum og gat því ómögulega dekkað báða. Það fór svo að Rodriguez tók boltann, lék framhjá Carragher og setti boltann óverjandi í fjærhornið. Frábær sókn gestanna og staðan í hálfleik 0-1.

Seinni hálfleikurinn var pressusókn Liverpool-liðsins frá fyrstu til síðustu mínútu. Atleti-menn drógu sig enn aftar á vellinum og skildu Forlan lengst af eftir einan frammi, og svo Aguero þegar hann kom inná, og freistuðu þess að kála leiknum með annarri skyndisókn. Fyrir utan tvær eða svo skyndisóknir fór seinni hálfleikurinn meira og minna allur fram á vallarhelmingi Atleti og nánast inní vítateig þeirra en klaufaskapur, sköpunarleysi og léleg nýting okkar manna þýddi að þegar líða tók á leikinn var allt útlit fyrir að gestirnir myndu sleppa með frækinn útisigur og toppsætið í riðlinum frá Anfield.

Rafa setti þá Babel, Ngog og Lucas inná til að reyna að hressa upp á sóknarleikinn aðeins en aðeins Ngog náði að setja sitt mark á leikinn og var í þrígang nálægt því að koma sér í dauðafæri. Hann átti góða innkomu í dag og var sennilega okkar mest ógnandi maður í kvöld ásamt Daniel Agger, sem hefði getað skorað þrennu með smá heppni (og réttri dómgæslu er hann var togaður niður á markteig gestanna í upphafi leiks) og Steven Gerrard.

Það var svo á 94. mínútu leiksins, eða við lok uppbótartímans, að jöfnunarmarkið kom. Boltinn barst hátt inn á hægri hlið vítateigs Atletico og þar hlupu þeir Manuel Pernia, bakvörður gestanna, og Gerrard báðir að boltanum. Gerrard náði á undan í boltann og tók hann á bringuna, við það skullu þeir létt saman og fyrirliðinn lét sig falla með tilþrifum. Slakur dómari leiksins, sem hafði m.a. sleppt því að dæma tvær augljósar vítaspyrnur á Atleti-menn fyrr í leiknum, ákvað að dæma vítaspyrnu, gestunum til mikils ama.

Hvort þetta var víti eða ekki þori ég ekki alveg að segja um. Gerrard var á undan í boltann og það var klár snerting er þeir skullu saman, en hvort það samstuð var brot af hálfu Pernia get ég ómögulega sagt til um. Við hefðum þó ekki getað kvartað mikið ef dómarinn hefði ekki dæmt víti þarna, þetta var það mikið vafamál, og ég held að ef Gerrard hefði ekki gert mikið úr „brotinu“, og ef þetta hefði ekki verið Gerrard á 94. mínútu fyrir framan bandbrjálaða Kop-stúku á Anfield, hefði þetta líklega aldrei verið dæmt víti. En svo fór sem fór og **Gerrard** steig sjálfur upp og jafnaði með öruggri spyrnu.

Sem sagt, jafntefli og eftir leiki kvöldsins eru Liverpool og Atletico Madríd efst og jöfn í þessum riðli með 8 stig, á meðan Marseille og PSV Eindhoven sitja þar fyrir neðan með 3 stig hvort. Sem sagt, það bendir allt til að bæði okkar menn og mótherjar kvöldsins séu nokkuð örugglega á leið upp úr þessum riðli og að stigasöfnun og/eða markatala í síðustu tveimur umferðunum muni skera úr um hvort liðið nær efsta sætinu.

**Maður leiksins:** Gerrard. Enn og aftur er staðreyndin sú að við hefðum tapað ef hann væri ekki Liverpool-leikmaður. Hversu oft hefur það gerst áður?

Næsti leikur liðsins í Meistaradeildinni er heimaleikur gegn Marseille en með sigri þar getum við tryggt okkur þátttöku í 16-liða úrslitunum í vor. Fyrst er þó á dagskrá að koma liðinu á beinu brautina í Úrvalsdeildinni eftir tap um síðustu helgi, en W.B.A. koma í heimsókn á Anfield um næstu helgi.

Vonum að Fernando Torres geti leikið þann leik.

46 Comments

  1. Guð minn almáttugur hvað þeir spiluðu illa. þetta var ömurlegt!
    enn skapið lyftist töluvert þegar Gerrard tókst að lemja Atleticó mann í hausinn og fá víti.. fallegt, en leiðilegt

  2. Guð minn almáttugur hvað þeir spiluðu illa.

    Atletico þá? Varst þú ekki að horfa á sama leik og ég? Leikinn þar sem að Liverpool var betra liðið í 90 mínútur af 94?

  3. Þetta var frekar döpur spilamennska hjá okkur. Ég tel það ekki að vera betri þegar menn eru með boltann fyrir utan varnarþriðjunginn hjá gestunum og keppast um að hitta á hausinn á varnarmönnunum þeirra.

  4. Mikið rosalega var sóknarleikurinn hugmyndasnauður, miðvörður Liverpool fékk flestu og bestu færi Liverpool í leiknum. Keane á ansi langt í land með að réttlæta verðmiðan á sér. Kuyt barðist vel að venju. Riera sást ekki. Aurilio átti stóra sök á markinu, langt útúr stöðu og var ekki skila boltanum vel frá sér. Í heild var þetta frekar slakt hjá Liverpool en úrslitin voru engu að síður sanngjörn þar sem Madrid gerði nákvæmlega ekki neitt nema elta í kvöld.

    Verður maður ekki að líta þetta jákvæðum augum. Liðið kom tilbaka með smá hjálp frá dómaranum og jafnaði leikinn. Það ætti að gefa liðinu sjálfstraust og staða liðsins í riðlinum er góð eftir úrslit kvöldsins.

  5. Jæja Og jæja já liv var ekki að spila góðan bolta. Hvernig dettur Rafa það í hug að vera með sama lið og tapaði síðast, og nú sést það að Keane er miðlungsmaður í þessu liði og við verðum að fá mann sem klárar dæmin. þettað lagaðstiðs þegar að Babel og ngog komu inná. Við vorum heppnir þettað var ekki víti eða þannig

  6. Slappur leikur hvað sóknarleik varðar og lítið um hættuleg færi en ofsalega sætt að fá stigið miðað við hvað það var lítið eftir. En vá var vítið ódýrt 😉
    Tek þó ekki af A.Madríd að þetta er hörkulið en við af sama skapi virðumst sakna Torres all svakalega og þessi leikur breytti litlu um þá skoðun mína miðað við umræðu i upphituninni. Ekki það að Babel hafi átt góða innkomu, hefði viljað sjá hann fara fram og með Riera með sér en ekki á kanntinn og í þá varnarvinnu sem því fylgir hjá okkur.

    Maður leiksins: Perea hjá gestunum

    meiri viska eftir skýrslu :p

  7. Betri vorum við en vorum samt að spila illa menn voru í því að missa boltann allt of langt frá sér þegar þeir fengu hann í lappirnar , og þegar við vorum verjast þá var bakkað of mikið í staðinn fyrir að pressa miklu framar,Þessi keane er alveg skelfilegur framlínumaður hvað þarf hann mörg færi til að skora?Hann er að nýta kannski 1 færi af hverjum 50 þetta er bara lélegur framherji.Svo til að gagnrýna framkvæmdastjórann tekur besta manninn útaf Riera, eini maðurinn sem missti boltann ekki frá sér þegar hann fékk hann og fyrir það að spila 4-4-1-1 en ekki með 2 framherja á eigin heimavelli.

  8. Nú er bara málið að hvíla Keane í nokkra leiki, leyfa honum aðeins að finna að hann þurfi að hafa fyrir því að vera í liðinu. Ngog gæti þess vegna blómstrað á meðan, hver veit? Eina sem er öruggt í þessu er að Keane þarf að fá hvíld, tíma til að hugsa sinn gang og koma þá vonandi tvíefldur til baka því ekki er hann að gera neinar rósir í dag.

    P.S. Ég sá svar í færslunni á undan þessari þar sem stóð: “Keane átti stoðsendingu á Kuyt á móti Tottenham”. Það er by the way kjaftæði, það sjá það allir sem vilja að hann sneri sér við og ætlaði að gera þetta sjálfur en heppnaðist ekki betur en svo að hann missti boltann frá sér og Kuyt kom og kláraði þetta vel.

  9. það vantar þetta að klára seinustu sendinguna hjá okkar mönnum , hvort það er góður bolti fyrir eða klára helv…. færið þetta vantar, kemur vonandi fljótt þegar að Torres verður frískur..

  10. Er ennþá rólegur meðan Torres er með samning… en annars er fyrsta jólagjöfin komin í hús, en reyndar sú eina hingað til… bæði lið eiga að fara áfram

  11. Þórir …. já þetta er alveg hárétt hjá þér.

    Robbie Keane …. sá hinn sami og skoraði 80 mörk í 197 deildarleikjum fyrir lið Tottenham í deild sem margir segja hina bestu og erfiðustu í heimi ….
    er bara orðinn lélegur leikmaður og skelfilegur framlínumaður.

    Við hefðum kannski frekar átt að kaupa Darren Bent bara.

    Eigum við ekki aðeins að koma upp úr sandkassanum og færa umræðuna á hærra plan?

    En þá á ég að sjálfsögðu ekki við alla hér inni

    Áfram Liverpool!!!

  12. Ég geri mér grein fyrir að leikskýrslunar eru bara skoðanir skýrsluhöfunda en…
    Að segjast “ómögulega” geta dæmt um hvort þetta hafi verið víti eða ekki er svakalegt. Það er enginn að fara að taka af okkur markið ef við viðurkennum að þetta hafi ekki verið víti, sem það svo sannarlega var ekki, aldrei nokkurn tímann. Þessi dómari á náttúrulega aldrei að fá að koma nálægt Meistaradeildarleik, sleppti 4 klárum vítum, jafnt fyrir Liverpool og Atleti og dæmir svo þetta?!?
    Svo að velja Gerrard sem mann leiksins. Ok, það er mjög sterkt að stíga upp og taka þetta víti og klára það svona vel undir þessum kringumstæðum en fyrir utan dómarann þá var Gerrard sennilega slakasti maðurinn á vellinum í kvöld. Gat ekki tekið við boltanum til að bjarga lífinu og virkaði almennt búinn á því.

  13. Tek undir með Kjartani hér að ofan. Dómarinn var virkilega slakur og Madrid átti að fá allavega tvær vítaspyrnur ef Liverpool átti að fá vítaspyrnu fyrir hendi.
    Ég viðurkenni það fúslega að þetta var aldrei víti í restina en mér er sama, markið stendur. Skal staðfesta það að ég hefði alveg sturlast ef dæmt hefði verið víti á Liverpool fyrir sambærilega sakir hinum megin á vellinum. Hvernig sem litið er á þetta atvik er engan veginn hægt að réttlæta víti.

  14. Kjartan segir, Þessi dómari á aldrei að fá að dæma aftur í meistaradeildarleik. Ég spyr á Keane nokkuð að fá að spila með LIVERPOOL, þvíligt og annað eins. Strákar og stelpur, hann fær að koma á bekkin ef allir eru meiddir, ég held að Voronin verði bara að koma heim á meðan að Torres er ekki leikfær..

  15. Vil nú bara benda mönnum á að það var aðstoðardómarinn sem flaggaði og gaf merki um víti og dómarinn fór eftir honum!! Annars var þetta svona eins og dæmigerður leikur frá því í fyrra má segja, nema að við fengum eitt stig út úr þessum og er það framför !!!

  16. Get ekki sagt að ég sé sammála valinu á manni leiksins. Mér fannst Gerrard vera langt frá sínu besta. Ferkar Alonso..hann átti nokkrar mjög góðar sendingar meðan gerrard gerði mjög lítið gagn fram á við. Tók nokkur mjög fljófærnigsleg skot, sem enduðu fram hjá.
    Reyndar fannst mér Liverpool vera betra liðið, en ekkert sérstakir. Það er nefnilega spurning hvort þú sért betra liðið þótt liðið sé meira með boltann. Ef andstæðingurinn leggur upp planið sitt þannig að þeir ætla að liggja aftur og nota skyndisóknir.
    Planið hjá Atletico heppnaðist næstum því. Lágu til baka og vörðust vel. Munaði hársbreidd að þeir hefðu unnið leikin. Þeir fóru “underdogs” inn í leikinn og vildu að Liverpool héldi boltanum. Þá er ekkert skrýtið að Liverpool er meira með boltan…Er það?……

  17. Sendingar sem Gerrard var með voru ætlaða Torres,(sem var ekki með) en Keane gat ekki tekið við þeim, þess vegna fynnst manni Gerrard ekki vera góður. Og hættum að segja það að Keane sé að koma, Peter C (í fjarveru Torres)hefði klárað þessa tvo síðustu leiki fyrir Liv, og jafnvel Voronin, eða þannig

  18. Sindri ,,,,málið á betra plan….kanski var hann góður hann Keane en hann hefur ekki verið að sýna það í leik með Liverpool því á að setja hann á bekkinn og gefa öðrum tækifæri,t.d. Babel þegar að hann kom inná þá átti Keane að fara útaf.Ef þetta er slæmt plan þá hvað?

  19. Sammála mörgu í skýrslu KAR. Sérstaklega vali hans á manni leiksins, Gerrard var sá í liðinu sem langmest var að skapa, utan tveggja langra og fínna sendinga í fyrri hálfleik var Alonso lítt áberandi.
    Fyrirliðinn var að rífa sitt lið áfram, fiskaði vítið (sem ég ætla ekki að taka afstöðu til vegna þess að ég er ekki viss) og skoraði svo á fimmtu mínútu í uppbótartíma.
    Hins vegar er það sem pirrar mig mest að í síðustu tveimur heimaleikjum höfum við nú skv. tölfræðinni átt 42 skot að marki, þar af aðeins 10 á rammann og mörkin okkar í þeim báðum komið úr vítaspyrnum. Slík tölfræði segir mér bara eitt, við erum ekki að komast á bakvið varnir mótherja okkar. Á meðan það er ekki að gerast er HRIKALEGA erfitt að vera framherji. Þú ert nokkurn veginn alltaf að vinna með bakið í markið og eltast við sendingar á nærstöng úr dýpinu. Hins vegar er Torres akkúrat senter í slíkt og því þurfum við að fara að fá hann til baka. Ég ætla nú að gerast svo djarfur að segja Keane hafa gert meira í þessum leik en Kuyt, hann var nálægt því að skora í fyrri og lagði svo upp besta færi liðsins með þríhyrningsspili sem átti að enda með marki frá fyrirliðanum . Auðvitað eru það vonbrigði að hann skori ekki mörk, en það verður líka að líta á það hve mikið er skapað fyrir hann og í kvld var það nú ansi hreint rosalega lítið.
    En Keane umræðan á auðvitað rétt á sér í kvöld, eins og Kuyt og Aurelio líka held ég.
    En ég ætla nú samt mest að hafa áhyggjur af Javier karlinum Mascherano. Eftir flotta frammistöðu síðasta vetur þar sem hann meira að segja var farin að geta tekið þátt í sóknarleik liðsins hefur hann að mínu mati verið heillum horfinn á löngum köflum í vetur. Alltof oft er varnarvinna hans að klikka, síðast í marki Atletico í kvöld og sóknarlega er hann ekki að skila neinu. Skildi vel og var sammála því að skipta honum útaf í kvöld.
    Þennan leikmann þarf að fá almennilega í gang áður en langt um líður.
    En fyrst og síðast er orðið helv**** þreytandi að við klárum ekki leiki þar sem við stjórnum öllu úti á vellinum…… Laga það drengir mínir. Já, og það er alveg á hreinu að við förum uppúr þessum riðli.
    Semsagt, bara allt í lagi ennþá.

  20. Sindri þór….Þegar þú spilar fyrir Liverpool þá skiptir ekki máli hvað þú gerðir í fyrra ,það sem skiptir máli hvað þú ert að gera fyrir LIVERPOOL núna….

  21. Sammála að það á að dæma menn á núinu. Uppá síðkastið höfum við verið að fá alltof mörg mörk á okkur vinstra megin í vörninni. Aurilio og Dossena hafa gert sig seka um slæm mistök þar.
    Keane er einfaldlega ekki með sjálfstraust uppvið markið, álögin á treyju nr. 7 halda áfram. Sammála því að það væri allt í lagi setja hann á bekkinn, skil samt vel Benitez að láta hann spila þar sem menn fá ekki sjálfstraustið á því að sitja á bekknum. Crouch fékk mörg tækifæri þar til hann skoraði loks, fékk sjálfstraustið og nýttist liðinu vel.
    Babel virðist vera búinn að missa sjálfstraustið, kannski ekki skrítið þegar hann virðist ekki njóta 100% traust frá Benitez. Spilar fáar mínútur og yfirleitt tekinn fyrstur útaf.
    Mascherano á slatta inni. Vonandi að hann fari að rífa sig upp.
    Kuyt hefur staðið fyrir sínu undanfarið, vissulega enginn snillingur með boltann, en skorar mikilvæg mörk og sjálfsagt skárri kostur en Pennant.
    Riera búinn að vera mistækur, gerir sig sekan um að hanga aðeins of lengi á boltanum líkt og Babel. Samt nokkuð sáttur við innkomu hans so far.

    Það jákvæða við þetta allt saman er að liðið á greinilega nóg inni og þrátt fyrir smá strögl í leikjum undanfarið þá er liðið í góðri stöðu í deild og CL. Þessi staða í dag er eitthvað sem allir hefðu verið sáttir við í upphafi tímabilsins á þessum tímapunkti.

  22. Óttast að það sé að gerast sem að var í gangi s.l. vetur.
    Þjálfararnir eru búnir að lesa liðið í tætlur og vita upp á hár hvernig á að verjast. Þá vil ég að Rafa breyti og líka leikmenn stigi upp.
    Leikurinn í kvöld var ágætur á köflum, líka Spurs leikurinn.
    Núna þurfa skotin að vera vandaðri, hnitmiðaðri og það þarf að leysa upp kerfið betur.
    Vítið: frítt eins og margt í kreppunni.

  23. Þórir mér finnst samt fáránlegt að segja að hann sé orðinn lélegur leikmaður.

    Hann var nú meðal betri manna úrvalsdeildarinnar á síðustu leiktíð og ég mun nú seint viðurkenna að hann verði að lélegum leikmanni á einu sumri.

  24. S.s. fínasti leikur hjá okkar mönnum og ekta okkar óheppni hjá okkur að drullast ekki til að klára þennan leik, en þetta vill því miður loða við liðið okkar.

    Ég verð þó að segja að mér fannst Mascherano klikka í markinu sem við fengum á okkur. Ekki í fyrsta skipti sem ég sé að hann er ekki að fylgja miðjumanni andstæðinganna inn í teig og hjálpa til við að dekka manninn. Ég er ekki að segja að maðurinn sé lélegur, finnst hann með betri varnarsinnuðum miðjumönnum í heiminum, en hann á það til að klikka á því að fylgja miðjumönnunum í svona hlaupum inn í teig. Hefði hann fylgt Maxi niður þá hefði Carra getað dekkað Forlan.

    En það eru alltaf þessi stóru ef og hefði, ágætur leikur hjá okkar mönnum en eins og svo oft þá erum við ekki að ná að klára færin okkar.

  25. Sammála þér Sindri ekki lélegur en á ekkiað vera 1 kostur á eftir torres þegar hann er ekki að nýta öll þessi færi sem hann fær.En vonandi kemur þetta hjá honum ,,þegar hann kemur inná í seinni hálfleik….

  26. Ok, ég hata liverpool, en þetta var 100% víti. Gerrard náði boltanum, Atletico Madrid gæinn náði Gerrard. Gott að þurfa ekki að pirra sig á því að liverpool hafi fengið óverskuldað víti 🙂

    nil satis nisi optimum

  27. Nú hef ég verið að velta einu fyrir mér undanfarið.

    — Hvernig ætli Daniel Agger myndi standa sig í vinstri bakverði ??

    Þegar Skertl kemur til baka úr meiðslum þá er alveg vert að athuga það. Agger er með mjög góða tækni, góða spyrnutækni (skilar sér í krossum) og svo er hann miklu betri varnarmaður en núverandi bakverðir okkar. Hann svona minnir mig hálfpartinn á Grosso, hávaxinn bakvörð með góða tækni, nema með minna hárgel.

  28. Slappur leikur að hálfu liverpool,

    Fyrirsjánalegir, já það vantaði alla greddu..
    Vonandi komum við sterkir til baka um helgina
    áfram LFC

  29. Er einhver kreppa komin inn á þessa síðu. Finnst menn óþarflega neikvæðir.
    Við vorum mun betri aðilinn í þessum leik og áttum að vinna hann örugglega.
    Auðvita vorum við ekki að spila fullkomnlega en leikplan Atletico var að verjast og beita skyndisóknum. Það var bara að ganga upp og það sem vantaði hjá okkur var að klára færin – sem jú, skiptir öllu og fer vonandi að koma.
    Koma svo – Er búinn að skera niður fréttir um 70% og fótboltinn er eitt af því fáa sem er jákvætt í dag 😉
    Ekki misskilja mig og hætta að gagnrýna en mér finnst þó sumir vera allt of neikvæðir.

  30. Við vorum bara heppnir að fá þá eitt stig úr annars lélegum leika okkar manna!!!!!!!!!!!

    ÁFRAM LIVERPOOL!!!!!!!!!!!!

  31. Flott skýrsla KAR, ætla að taka aðeins annan pól í hæðina.

    Mér finnst svolítið mikið eins og menn vanmeti hressilega hversu gott þetta Atletico Madrid lið er orðið. Hvort sem litið er á byrjunarliðið eða breidd þá eru þeir í það minnsta á pappírum ekki mikið síðri heldur en við.

    Bakverðirnir eru mjög öflugir og mun betri en okkar og hefur Riera því átt líklega sína verstu hjá Liverpool leiki gegn spánverjunum, hinumegin komst Kuyt ekki lönd né strönd á kanntinum, sem er svosem eðlilegt í ljósi þess að hann sækir mun meira inn að markinu og á í basli með að taka hvaða bakvörð sem er á hvort eð er. (þarna vantar svo gríska evrópumeistara bakvörðinn sem var hægra megin í síðasta leik)

    Í miðverðinum hafa þeir Perea sem er með fljótari miðvörðum í boltanum og því ekki svo óvænt að hann pakki ásamt Heitinga (sem er ekkert seinn heldur) lone striker týpu eins og Keane saman. Keane hefur ekki hraðan í að hlaupa þá af sér og sjálfstraustið virðist ekki vera í botni þessa dagana svo Perea átti frekar náðugan dag í þeirri baráttu. Alls ekki svo að skilja að Keane sé vonlaust case gegn þeim og á góðum degi gæti hann alveg klárað svona leik, en hraðari maður hefði valdið meiri usla og gerði það á endanum.

    Baráttuna um miðjuna unnum við svo nánast því að öllu leiti án þess að skapa okkur mikið af hættulegum færum, helst var það Agger sem var að gera sig líklegan. En djúpu miðjumenn þeirra eru langt frá því að vera einhverjir byrjendur í faginu, Assuncao og Maniche hafa verið í þessari keppni flest öll undanfarin ár og gott ef þeir urðu ekki báðir evrópumeistarar með Porto (man það ekki alveg) en þeir eru þræl reyndir og lokuðu nokkuð vel á Gerrard og kanntana okkar.

    Eins sáust bakverðir okkar ekki mikið í sóknarleiknum sem færir mig að næsta hluta Atletico Madrid liðsins. Ég tek það reyndar fram að mér fannst þeir vera að gefa okkur forgjöf með því að hafa Aguero á bekknum, en það segir sitthvað um þetta lið að hann er á tréverkinu í báðum viðureignum! Simao þekkjum við allt of vel og það var ástæða fyrir því að flestir okkar vildu fá hann til Liverpool, Maxi Rodriguez er ekkert síðri hinumegin á meðan Raul Garcia er með efnilegri leikmönnum spánar og heldur t.a.m hinum eina sanna Garcia á bekknum. Þetta er stórhættuleg og öskufljót sónarlína sem erfitt er að verjast skyndisóknum gegn eins og við fengum að kynnast í gær. Mark Atletico Madrid var fjandi vel gert hjá þeim verður bara að segjast og líklega alveg hrikalega mikið í takt við þeirra game plan fyrir leik.

    Frammi var svo Forlan, en um hann hef ég ekkert gott að segja í ljósi þess að þetta er United cunt…………okkur var gefin forgjöf með því að Aguero var á bekknum 😉

    Með þessu er ég auðvitað ekki að segja að Liverpool eigi að fara með einhverri minnimáttarkennd inn í leikinn. Liverpool á að vinna alla sína heimaleiki á Anfield. En í ljósi þess að við dómineruðum að mestu leiti báðar þessar viðureignir, ásamt því að önnur úrslit voru okkur í hag þá get ég ekki verið of ósáttur við okkar menn.

    Við erum að ná úrslitum trekk í trekk ÞRÁTT FYRIR takmarkaðan sóknarleik segi ég, á meðan Torres er frá, Keane er alls ekki kominn í gang og líklega í aðeins röngu hlutverki, Kuyt er stundum notaður sem lone striker o.s.frv. Ég hef áhyggjur af sóknarleiknum, klárlega, og yrði ekki hissa ef keyptur yrði nýr striker eða sóknarþenkjandi leikmaður í janúar sem jafnvel verði stærri en 1,85 á hæð. Í gær hefði Peter Crouch t.a.m. verið kominn inná snemma í seinni hálfleik held ég alveg örugglega og skapað mikinn usla.

    Af okkar mönnum í gær fannst mér vörnin góð og miðverðirnir hreinlega óheppnir að skora ekki, bakverðirnir fengu lítið sóknarleyfi með Simao og Maxi á móti sér. Mascherano var afar duglegur að vanda og mikið óskaplega væri þetta rosalegur leikmaður ef hann hefði snefil af sóknarhæfilekum!! Hann gerir fátt rétt þegar hann er kominn í 30 m landhelgi við mark andstæðingana. Alonso var einn af okkar bestu mönnum, dreifði spilinu vel þegar Liverpool náði undirtökunum og átti nokkrar hættulegar sendingartilraunir sem við höfum oft séð mark koma uppúr. Gerrard var fínn í gær, var í strangri gæslu og með frekar auðdekkanlega meðspilara með sér frammi sem sjaldan komu sér í góða stöðu. Riera átti ekki einn af sínum betri dögum og Kuyt var samur við sig hinumegin (samur við sig miðað við þetta tímabil). Keane gerði svo afar fátt frammi, fékk ekki mikla þjónustu og virkaði einmanna oft á tíðum.

    Innkoma Babel var svo ekki neitt sérstök, komst lítt áleiðis gegn þessum varnarmúr og ég segi enn og aftur, hættum að pína hann í of mikinn varnarleik á miðjum velli og nýtum hraða hans frekar í að stinga af miðverði. N´gog átti svo ágætis innkomu, hann er stór og fljótur og mjög efnilegur, en ég sé hann ekki fá mikið stærra hlutverk í ár en þetta.

    Minn maður leiksins var svo klárlega Perea hjá Atletico Madrid, dómarinn í öðru með því að þora ekkert að dæma í stóru atvikum venjulegs leiktíma (1,5 víti til okkar og 2 til þeirra, vegna handknattleiks og 0,5 vegna brots á Agger) og koma síðan með þessa fínu vítaspyrnu í lokin að tilstuðlan línuvarðarins. Besti leikmaður Liverpool set ég svo líklega á Alonso þó ég sé ekkert að mótmæla valinu á Gerrard á þeim forsendum að það var jú enn einu sinni vissulega hann sem bjargaði stiginu.

  32. Er sammála Babu hér að ofan með Liverpool-mann leiksins því Alonso var yfirburðarmaður að mínum dómi í fyrri hálfleik, dreifði spilinu vel og átti frábærar sendingar. Ég skil ekki þá sem sjá að Gerrard hafi verið að drífa sig áfram, því við vorum nokkrir að horfa á leikinn í gærkvöldi og fram að vítinu virtist Gerrard vera langt frá sínu besta. Í fyrri hálfleik sérstaklega voru sendingar hans og móttaka með því lélegra sem maður hefur séð frá fyrirliðanum!

    Er líka sammála með Pernia sem mann leiksins – mér fannst hann frábær.

    En innkoma varamannanna var slök, þó svo að Ngog hafi verið skástur. Keane virðist þurfa mann eins og Torres með sér til að virka betur, en samt fannst mér góð hætta af honum. Sendingin frá Alonso á hann í fyrri hálfleik og móttakan hjá Keane … þetta hefði getað orðið eitt flottasta markið í langan tíma. Persónulega þá finnst mér Keane ekki fá þá viðurkenningu sem hann á skilið, en auðvitað er það bara dæmi um mismunandi skoðanir. Ég er sannfærður um að í lok keppnistímabilsins munu Torres, Kuyt og Keane vera allir með um/yfir 20 mörkin.

    Fín leikskýrsla KAR – sammála henni að mestu.

    Áfram Liverpool!

  33. Það var reyndar Aurelio sem var farinn úr stöðu og Agger þurfti að fara í manninn sem fékk sendinguna út á kantinn. Og auðvitað eru það mistök hjá Mascherano eða Aurelio að detta ekki inn í stöðuna hans Agger þegar hann fór út á kant. Held að menn hafi ekki trúað að það yrði eitthvað úr þessu…..en snilldar móttaka hjá Maxi skapaði markið.

    Alonso var bestur að mínu mati og Keane var slakastur að vanda. Hins vegar fannst mér Mascherano vera að spila aðeins betur en vanalega….fyrir utan kæruleysið í markinu. Gerrard bætti upp miðlungsleik með vítinu og Carra var mjög góður.

    En þetta er nú í góðu lagi og ég er nokkuð viss um að við vinnum riðilinn.

    • Er líka sammála með Pernia sem mann leiksins – mér fannst hann frábær

    Pernia var mjög góður, en ég var að tala um Perea, kólumbíska miðvörðinn.

  34. Sælir félagar
    Það er ekki miklu við að bæta það sem sagt er í ágætri leikskýrslu og svo ýmsum ágætum athugasemdum. Aðrar mættu vera málefnalegri (sumar hverjar) en það er samt eðlilegt að mönnum blöskri frammistaða leikmanna LFC. Þeir stjórna leiknum 90% en ná ekki að skora sem heitið geti leik eftir leik. Það náttúrurlega gengur ekki að Torres sé nánast eini maðurinn sem getur skorað meira en eitt mark í leik (svona að jafnaði).
    Og svo gerðist það sem gerist í hverjum leik sem Fabio Aurelio spilar. Hann getur bókstaflega ekki blautan sk… Mikið yrði ég feginn ef hann yrði nú seldur í janúarglugganum. Hvert sem er og fyrir hvaða skítaverð sem er.
    Þetta kemur ef til vill einhverjum á óvart 😉 en svona er þetta. Um aðra leikmenn sem eru að valda vonbrigðum hefi ég áður rætt og nenni því ekki aftur en mér finnst ástæða til að nefna þetta með Fabio kallinn svona einu sinni.
    Það er samt gott að ná stiginu þarna og um leið með tveimur af AM. Þar með eru liðin jöfn og skilur bara eitt mark að.
    Skiptingar RB orkuðu tvímælis og ekki í fyrsta skipti en hann er stjórinn og stendur og fellur með ákvörðunum sínum.
    Nú vil ég að RB og liðið einhendi sér í deildina og láti annað liggja á milli hluta. Þar vil ég sigur og ekkert annað fram að jólum og helst fram á vor.
    Það er nú þannig.

    YNWA

  35. Það er naumast að skjótt skipist veður í lofti. Liðið er í topp málum í riðlinum, komið áfram í deildarbikarnum og deilir toppsætinu í úrvalsdeildinni. Ja hvur fjandinn segi ég ef tímabilið er búið og menn geta bara pakkað saman strax þegar staðan er þessi. Þetta er eitthvað annað en fuglasöngurinn eftir Chelsea leikinn. Hver sérfræðingurinn á eftir öðrum (misgáfaðir að vísu) lætur gamminn geysa yfir Keane og spilamennsku liðsins.

    Held að menn hérna séu ekki alveg að gera sér grein fyrir styrk liðs Atletico Madrid. Þeir búa yfir frábæru liði og þrátt fyrir að hafa yfirspilað þá á löngum köflum eru menn æfir. Er kreppan alveg að fara með menn hérna ? Keane finnst mér bara vera spila nokkuð vel. Lagði upp mark í síðasta leik, hleypur úr sér lungun í hverjum leik, átti þátt í öllum bestu sóknum Liverpool í kvöld. Hvað vilja menn eiginlega meir ? Aurelio finnst mér líka stöðugt vera að rísa, átti t.a.m. frábæran leik gegn Chelsea.

    Mér finnst allavega að menn sem hafa greinilega aldrei spilað fótbolta af einhverju viti eigi að þegja um ágæti þess og hins.

  36. Mér finnst ósanngjarnt hvernig menn taka Keane af lífi hér. Flest færin sem við fengum voru gegn um hann. Vorum satt best að segja ekki líklegir til þess að spila okkur í gegn um vörn AM eftir að hann fór af velli. Rb hefur ekkert sérstaklega verið að auka hjá honum sjálfstraustið fær aldrei að klára leiki og svo loks þegar hann skoraði og var ágætur er honum hent á bekkinn. Hefði miklu frekar viljað sjá Ngog koma inn fyrir Macerano. Því að skiptingin á honum og Lucasi var tilgangslaus að mínu mati og skilaði engu. En horfum á björtu hliðarnar við töpuðum ekki

  37. Inn í sama teig var dæmd aukaspyrna á Ngog fyrir nákvæmlega eins brot og var á Gerrard. Afhverju þarf brotið alltaf a vera meira svo það veri dæmd vítaspyrna ???? Hvar stendur það ?

    Það hefði verið dæmd aukaspyrna hvar sem er annarsstaðar á vellinum eins og Benítez benti á svo þetta er réttilega víti.

    En að segja að við höfum verið heppnir að fá eitt stig út úr þessum leik er hlægilegt. Teljum bara færin sem við fáum og svo færin sem þeir fá. Þetta er einfalt reikningsdæmi. En enn og aftur er það að koma í bakið á okkur að nýta ekki góð færi. Keane fékk tvö góð færi, Agger 3 mjög góð færi Gerrard fékk nokkur góð færi á hans mælikvarða. Heppni að fá eitt stig ??? pff segi ég nú bara.

  38. Já við nýttum ekki færin og hversvegna? jú frammherjinn eða frammherjarnir eru alls ekki nógu góðir, við verðum að gera eitthvað í því og mér yrði nokk sama þótt Keane færi og við fengum tja Eið Smára, Owen Henry, þessir menn eru betri en Keane til að klára sóknir. þið verðið að viðurkenna það að vandamálið er lélegir frammherjar, þegar að TORRES er ekki með. Miðjan og vörnin eru O K og gott betur, en hitt er vandamál, eða þannig

  39. Strákar, athugið þetta er ekki gagnrýni þar sem ég dýrka og dái þetta blogg og heimsóknir mínar hingað sem eru á bilinu 1-5 sinnum á dag benda til þess að ég veit ekki hvað ég gerði án hennar 😀 .. mange tak! .. en.. má ég koma með þá hugmynd að bæta við tveimur liðum hægramegin á síðuna þar sem fram kemur í öðru lagi, staðan í viðkomandi riðli sem Liverpool er í, í Meistaradeildinni í það og það skiptið, … og í öðru lagi, staða Liverpool í PL og kannski 4-5 lið í kring um sætið sem við sitjum i ? ..
    eins og ég segi , hugmynd sem vaknaði þegar ´þið skelltuð upp stöðunni þegar við skutumst á toppinn um daginn, .. það væri góð snilld ef þetta væri bara alltaf til staðar .. hvað segið þið ? 😉

  40. Ég held ég taki helst af öllu undir skýrslu Babú í dag. Liðið í heildina var að spila ágætlega gegn sterku og vel skipulögðu Atlético liði og fékk í sjálfu sér fullt af færum. Vandinn er sá að við erum ekki með stræker sem nýtir færin sín.
    Varnarlega erum við, líkt og einare segir erum við að fá á okkur allt of mikið af mörkum sem koma að verulegu leiti vinstra megin á okkur.
    Aurelio og Dossena eru einfaldlega ekki nógu sterkir bakverðir og ekki mikil bæting frá honum Riise okkar.
    http://www.knattspyrna.bloggar.is

  41. guð minn góður, vonandi kemur torres í liðið gegn wba. keane er hreint ekki á skotskónum þessa dagana og það vantar alla greddu og sjálfstraust fyrir framan rammann!

    gerrard kláraði þetta eins og svo oft áður, eða réttara sagt bjargaði okkur.
    mer fannst hins vegar alonso spila best okkar manna í gærkvöld. það vantar allan odd í sóknarleikinn, annars þarf ekkert að ræða annað að mínu mati. vörn og miðja í góðum málum, vantar bara torres á toppinn til að klára alla vinnuna sem miðja og vörn leggja í leikinn.

  42. Hvernig væri nú í staðinn fyrir að maður sé minntur á geldan sóknarleik okkar manna gegn Tottenham og Atletico. Þá komi stjórnendur þessarar frábæru síðu með einhvern skemmtilegan pistil varðandi það að Goðsögnin Diego Maradona hyggst gera Javier Mascherano að fyrirliða landsliðsins.

    Veit að Masch hefur sagt að hann vilji það ekki, en það væri engu að síður skemmtilegra að sjá það, en það væri skemmtilegra að tala um það, en þetta.

Liðið gegn Atletico

Verður Mascherano fyrirlið Argentínu?