Liverpool 2 – 1 Chelsea

Það er nú ekki annað hægt en að henda í sérstakan póst í ljósi úrslitanna, en Liverpool vann Englandsmeistara síðustu 3ja ára 2-1 á Prenton Park. Leikurinn byrjaði hræðilega því Chelsea unnu vítaspyrnu í sinni fyrstu sókn á 2. mínútu, og Fran Kirby gerði engin mistök þegar hún skoraði úr spyrnunni. Leikurinn eftir það var í járnum, Emma Koivisto fékk úrvals færi til að jafna metin en náði ekki að leggja boltann fyrir sig og setti hann yfir með hnénu. Kiernan átti skot í stöng en reyndist hafa verið rangstæð í aðdraganda sóknarinnar (lítið vafamál þar). Sam Kerr skoraði mark en var dæmd rangstæð (og það var mjög tæpt), og komst aftur í gegn skömmu síðar en aftur rangstæð. Staðan 0-1 í hálfleik og það var líklega alveg sanngjörn staða. Í síðari hálfleik fengu hins vegar okkar konur víti þegar varnarmaður Chelsea fékk boltann í hendina, Katie Stengel fór á punktinn og skoraði af öryggi. Hún vann svo annað víti (og því það þriðja í leiknum) nokkrum mínútum fyrir leikslok eftir að hafa unnið boltann úti við hliðarlínu, og vaðið inn í teig en var þar felld. Aftur skoraði hún af punktinum við mikinn fögnuð viðstaddra. Uppbótartíminn var afar tens, og Bethany England var nálægt því að jafna alveg undir lokin, en náði ekki að pota í boltann eftir skalla frá Sam Kerr. Gríðarleg fagnaðarlæti hjá 3000 áhorfendum á Prenton Park þegar dómarinn flautaði til leiksloka.

Einu neikvæðu fréttirnar úr leiknum eru þær að Leanne Kiernan meiddist á ökkla um miðbik síðari hálfleiks og gæti verið frá í næstu leikjum, en við fréttum sjálfsagt af því á næstu dögum.

Þetta voru reyndar ekki einu áhugaverðu úrslit helgarinnar því Aston Villa unnu City 4-3. Arsenal unnu sinn leik á föstudaginn 4-0, og United unnu sinn leik í gær, Tottenham unnu sinn leik fyrr í dag. Jú og Dagny Brynjars og félagar í West Ham unnu Everton 1-0.

Næsti leikur er svo á Anfield eftir viku, en þá mæta Everton í heimsókn. Heldur betur gott að mæta inn í þann leik með þessi úrslit í farteskinu, og verður gaman að sjá hve margir mæta!

5 Comments

  1. Sælir félagar

    Mjög ánægjulegt ekki sízt á þessum leiðindatímum í enska fótboltanum.

    Það er nú þannig

    YNWA

    2
  2. Frábær leikur og veit vonandi á gott fyrir komandi tímabil að hafa þessa seiglu og sigla þessum sigri heim eftir að hafa lent 1-0 undir.

    1

Opnunarleikur tímabilsins hjá kvennaliðinu – Chelsea mæta á Prenton Park

Gullkastið – Lognið á undan storminum