Helvítis Real Madríd

Landslagið hefur breyst þó nokkuð á þeim skamma tíma sem er liðin frá því Liverpool mætti Real Madríd síðast í Meistaradeildinni. Hópur spænska liðsins samanstóð af leikmönnum með samanlagt yfir þúsund leiki í Meistaradeildinni á móti Liverpool liði sem var að mestu að stíga sín fyrstu skref í keppninni. Sá leikur fór eins og við þekkjum og Real Madríd vann sinn þriðja Meistaradeildartitil í röð og þann fjórða á fimm árum. Einfaldlega eitt af betri liðum sögunnar

Tilfinningin þá var engu að síður sú að stutt gæti verið í endalok valdatíma spænsku risanna sem annars drottnuðu yfir öðrum áratug aldarinnar. Stuðningsmenn Liverpool vonuðust auðvitað eftir því að þeirra valdatíma myndi ljúka í Kiev og óbragðið eftir þá viðureign er síður en svo farið. Ágætt dæmi um þetta óbragð er t.d. þegar að einum stuðningsmanni Liverpool var boðið að hitta fyrirliða Real Madríd er hann var með pabba sínum að skoða aðstæður hjá spænska risanum. Ungi strákurinn sem var á leiknum í Kiev hafnaði boðinu pent og sagðist ekki hafa líkað það sem hann gerði Salah. Þetta var þáverandi unglingaliðsmaður Fulham og eitt mesta efnið í heimsfótboltanum, Harvey Elliott.

Raunar skilur saga Real Madríd eftir sig óbragð líkt og tekið hefur verið rækilega á í upphitunum fyrir síðustu viðureignir liðanna. Árið 2014 skoðuðum við hvernig Franco lagði með beinum og óbeinum hætti grunninn að því veldi sem þeir urðu á stofnárum Evrópukeppni Meistaraliða, m.a. með sínum manni Santiago Bernabeu. Þjófnaður þeirra á Di Stefnao er sérstaklega lýsandi fyrir félagið þá og ekki bendir margt til þess að þetta sé eitthvað mikið betra nú.

Árið 2019 kynntum við okkur svo forseta félagsins Florentino Perez, langmikilvægasta mann félagsins. Hann endurvakti galaticos innkaupastefnu félagsins í kringum aldamótin. Perez stofnaði verktakafyrirtækið ACS sem er í dag alþjóðlegur risi, ekki síst einmitt þökk sé fjölmargra grunsamlega hagstæðra verkefna sem þeir fengu frá stjórnvöldum á Spáni. Besta dæmið er innkoma hans til Real Madríd um aldamótin er félagið var skuldum vafið. Verktakinn Florentino Perez seldi borgaryfirvöldum í Madríd æfingasvæði Real í miðborg Madríd á €480m sem var fullkomlega galin fjárhæð. Tæplega fjórum sinnum hærri fjárhæð en velta félagsins var þá. Real keypti í staðin land undir nýtt æfingasvæði fyrir brotabrot af þessari fjárhæð. Það var ekki allt heldur fór landið sem Real seldi í byggingu þriggja háhýsa sem ACS verktakafyrirtæki Florentino Perez var svo einstaklega heppið að fá. Hrein tilviljun auðvitað. Hið gríðarlega skuldsetta Real Madríd keypti þá um sumarið m.a. Figo frá Barcelona og Makalele.

Real Madríd og Barcelona hafa undanfarna tvo áratugi haft töluvert samkeppnisforskot á keppinauta sína, ekki bara heima á Spáni heldur líka í Evrópu sem hefur hjálpað þeim við að sannfæra bestu leikmenn í heimi að ganga til liðs við félögin. Þessi félög hafa raunar í gegnum söguna jafnan keypt bestu leikmenn í heimi en það var ekkert lögmál áður fyrr að þeir nánast yrðu að fara til Real Madríd eða Barcelona ef þau lið sýndu áhuga. Áhugi bestu leikmanna frá Suður-Ameríku á þessum liðum er ekkert bara vegna þess að þetta er kúltúr og veðurfar sem þeir tengja betur við eða vegna þess að La Liga var sýnd í þeirra heimalandi. Þau gátu boðið þeim miklu betri kjör (og auðvitað fylgdi velgengni oftar en ekki með).

Margt af þessu sem veitti spænsku risunum samkeppnisforskot á ekki lengur við, ekki í eins afgerandi mæli og líklega erum við nú þegar farin að sjá áhrifin. Enginn hefur talað meira fyrir sjálfstæðri Evrópskri Ofurdeild sem myndi tryggja enn meiri tekjur stærstu liðanna en Florentino Perez, ekki bara núna heldur undanfarin 20 ár. Aldrei meira en núna samt þegar Real Madríd hefur ekki það gríðarlega forskot á leikmannamarkaðnum sem það hafði.

Beckham Law 2003

Eitt af því sem hjálpaði La Liga að taka við keflinu af Seria A og Premier League sem heimavöllur stærstu stjarnanna á fyrsta áratug nýrrar aldar voru m.a. svokölluð Beckham lög sem sett voru á Spáni árið 2003. Lögin höfðu svosem ekkert með Beckham að gera beint utan þess að hann var fyrsta ofurstjarnan sem hagnaðist á þeim. Lögin voru sett til að laða erlenda ríkisborgara, helst vel efnaða til Spánar og gengu út á að þeir þurftu aðeins að greiða 23% skatt af tekjum sínum á Spáni fyrsta árið og svo í fimm á eftir það, samtals allt að sex ár. Þetta átti ekkert bara við um knattspyrnumenn en hafði auðvitað mikil áhrif fyrir lið eins og Real Madríd og Barcelona sem gátu samið á allt öðrum grundvelli en ensku, þýsku og ítölsku risarnir. Spænsku liðin höfðu fyrir forskot hvað tekjur á leikdegi og sjónvarstekjur varðar.

Árið 2010 í kjölfar fjármálakreppu voru gerðar breytingar á þessum reglum þar sem þak var sett á hversu háar launatekjurnar máttu vera sem féllu undir þessi lög, það útilokaði flestar stærstu stjörnunar. Árið 2015 var lögunum svo breytt aftur þannig að íþróttafólk var sérstaklega tekið út fyrr sviga þannig að það fellur ekki undir Beckham regluna lengur. Skattur á erlenda knattspyrnumenn er því í takti við önnur lönd núna.

Launatekjur stærstu stjarnanna eru reyndar ekki lengur eins mikilvægar og þær voru fyrir 15-20 árum, ímyndarrétturinn er öllu stærra mál í dag og eru þær tekjur jafnan meira í rekstrarfélögum og skattlagt sem rekstrarfélag (ekki einstaklingar). Spænski skatturinn hefur hjólað af hörku í stærstu stjörnurnar undanfarin ár enda kom á daginn að þeir voru flestir með tekjur sínar faldar í skattaskjólum utan spánar. Ronaldo og Messi voru t.a.m. báðir dæmdir fyrir slíka fjármálafimleika.

Jafnari skipting sjónvarpstekna

Árið 2015 var einnig gerð stór breyting á reglum La Liga sem hefur töluverð áhrif á Real Madríd og Barcelona. Spænsku risarnir höfðu fram að því réttinn á sínum leikjum og tóku auðvitað hagnaðinn af sjónvarpstekjum sinna leikja sem voru miklu hærri en minni liðin gátu aflað. Hin 18 liðin í deildinni höfðu lengi barist fyrir miklu jafnari skiptingu á sjónvarpstekjum og voru flest meira og minna í fjárhagserfiðleikum. Þau bentu á að án þeirra væri deildin lítið, krafan var svipað kerfi og þekkist á Englandi, sem hafðist loks árið 2015.

Núna dreifast 50% af sjónvarpstekjum deildarinnar jafnt á öll liðin en hinum helmingurinn fer eftir árangri. Real og Barcelona fá ennþá langmest en ekki nálægt því þrefalt eða fjórfalt á við næstu lið eins og tíðkaðist fyrir árið 2015.

Er enda von að forráðamenn Barcelona og Real Madríd eru meðal þeirra sem eru í fararbroddi um að stofna nýja ofurdeild í Evrópu, mjólkurkúin er hætt að gefa eins mikið. Skuldastaða beggja er þannig að núna tala þeir eins og Ofurdeild sé algjör nauðsyn fyrir framþróun fótboltans. Fögnum hverju ári meðan svo er ekki.

Tími Messi og Ronaldo er liðin

Einokun Barcelona og Real Madríd undanfarin áratug má að mjög miklu leiti rekja til Messi og Ronaldo sem eru báðir á topp fimm yfir bestu leikmenn sögunnar. Raunar erfitt að færa rök fyrir öðru en að þeir séu númer eitt og tvö á þeim lista. Messi þá að sjálfsögðu númer eitt.

Þeir hafa báðir auðvitað verið partur af frábærum liðum sem munu alveg halda áfram að vera partur af elítunni. En án þeirra eru tennurnar töluvert teknar úr báðum liðum og það er enginn beinn arftaki í sjónmáli eins og staðan er núna. Bæði lið þurfa raunar að endurnýja liðin töluvert, ekki bara fylla þeirra skörð.

Messi er vissulega ennþá hjá Barcelona, samningurinn rennur út í sumar og hann verður 34 ára í júní. Það er ágætt dæmi um hversu mikil bull hann og Ronaldo hafa verið að Messi er búinn að skora 23 mörk í deildinni í vetur og leggja önnur átta mörk upp í 24 leikjum. Samt er það í Barcelona liði sem er langt frá bestu Barca liðunum sem Messi hefur verið partur af. Guði hjálpi þeim sem ætlar að fylla þetta skarð. Hvorugur er partur af 8-liða úrslitum Meistaradeildarinnar í fyrsta skipti í 16 ár (samt spila þeir með Barcelona og Juventus).

Önnur veldi að rísa

Ef að Covid verður til þess að slakað verður ennfrekar á FFP eða því útrýmt alveg gefur það Olíufélögum eins og Man City, Chelsea og PSG auða flugbraut í að verða leiðandi næsta áratuginn. Þróun sem enginn vill sjá en er líklegri en ekki.

Liverpool hefur rokið upp frá því þeir mættu Real Madríd síðast og færu inn í þessa viðureign sem líklegri aðilinn ef öll vörnin og fyrirliðin væru ekki frá vegna meiðsla. 4-0 endurkoman gegn Barcelona með Messi, Suarez og Coutinho gat ekki verið sætari eða táknrænni fyrir nýja tíma. Það að vinna Meistaradeildina eftir ósanngjörnu vonbrigðin í Kiev var fullkomið og eins auðvitað að klára loksins ensku deildina í fyrra.

Man Utd hefur engu minni fjárráð en spænsku risarnir ef verið er að vængstífa þá líkt og farið er yfir hér að ofan.

Þá eru ótalin lið eins og FC Bayern, Juventus og Milan liðin. Það er alls ekkert víst að Real Madríd og Barcelona drottni yfir þessum áratug líkt og þau gerðu á þeim síðasta.

Það er t.d. ágætt að hafa í huga að áður en Ronaldo kom til Spánar höfðu ensk lið verið í 7 af 8 úrslitaleikjum Meistaradeildarinnar, Liverpool, Man Utd, Chelsea og Arsenal.

Covid

Covid hefur gríðarleg áhrif á öll íþróttafélög heimsins en gæti verið að hitta Real Madríd og Barcelona jafnvel verr en mörg hinna elítuliðanna. Stór hluti af tekjum beggja eru tekjur á leikdegi enda bæði með gríðarlega stóra velli og taka við gríðarlegum fjölda verslandi stuðningsmanna á hverjum leik. Real Madríd er ekki einu sinni með svona Galatico markaðsvél eins og Ronaldo lengur til að hjálpa til við sölu á varningi. Reyndar sleppa þeir á móti við launapakkann hans.

Um áramótin voru ársreikningar beggja félaga opinberaðir fyrir tímabilið 2019/20 og kom þar í ljós mjög alvarleg skuldastaða beggja félaga, Barcelona virðast vera í dýpri skít en Real Madríd en bæði lið máttu mjög illa við Covid. Venjuleg fyrirtæki væru á leið í gjaldþrot og satt að segja hefur það ekkert verið útilokað í tilviki Barcelona.

Vergar skuldir Real Madríd námu €901m og nettó skuldir námu €355m. Þar af nema skuldir vegna endurbóta á Bernabeu um €114m en aðrar skudir €241m. Real var loksins byrjað á €600m endurbótum á heimavellinum fornfræga sem létta ekkert á skuldastöðunni.

Til samanburðar eru vergar skuldir Barcelona €1,2b og nettó €488m. Stór hluti af skuldum Barcelona er á gjaldaga næstu 12 mánuði sem gerir þeirra stöðu öllu verri en erkifjendanna.

Önnur óbein áhrif sem Covid hefur á Real Madríd er að markaðir sem þeir hafa lengi getað treyst á er kemur að leikmannasölum eru flestir botnfrosnir líka. Eins eru engir risadílar lengur við Kínversk lið. Ekki heldur Rússnesk eða Tyrknesk. Það er mun erfiðara að losna við leikmenn á háum launum sem ekki er lengur not fyrir í hópnum. Þetta á auðvitað ekki bara við um Real en þeir hafa jafnan náð að losa leikmenn nokkuð vel þegar þess þarf.

Leikmenn Real Madríd tóku með fýlusvip á sig 10-20% launalækkun á síðasta tímabili og hafa verið beðnir um að taka á sig aðra svipaða lækkun í sumar (óvíst hvort hún gekk í gegn). Samningsviðræður við lykilmenn á háum samningum sem komnir eru á aldur hafa gengið illa og ekki var keypt neinn leikmann síðasta sumar sem er ævintýralegt í tilviki Real Madríd.

Florentino Perez og leikmannamarkaðurinn

Þó að fjárhagsstaðan sé slæmt er alls ekkert hægt að útiloka að Real Madríd nái vopnum sínum hratt eftir Covid. Florentino Perez er ennþá forseti félagsins en hann er einn áhrifamesti maður Spánar þó hann sé ekki mikið þekktur utan Spánar sem annað en forseti Real Madríd. Á Spáni er hann ekki síður þekktur sem gamall pólitíkus og eigandi eins stærsta verktakafyrirtækis Evrópu.

Perez tók við árið 2000 þegar Real var í ekkert minni skuldum (hlutfallslega) en þeir eru nú og margfaldaði eyðslu félagsins á leikmannamarkaðnum. Hann tók aftur við sem forseti félagsins árið 2009 þegar Real Madríd var aftur komið í töluverðar skuldir og byggði upp annað Galaticos lið með kaupum á Ronaldo, Kaká, Alonso, Benzema, Albiol, Negredo og Arbelona – Alla í sama leikmannaglugganum! Di Maria, Özil og Khedira komu árið eftir.

Real Madríd seldi Ronaldo til Juventus árið 2018 og sumarið eftir var keypt leikmenn í takti við að þeir þurftu að fylla hans skarð. Edin Hazard voru Galatico kaupin en með honum komu Luka Jovic á €63m, Eder Militao á €50m, Ferland Mendy á €48m, Rodrygo á €45m og Reiner á €30m. Það er því kannski ekki skrítið að rekstrarárið 2019/20 komi ekki vel út en þessir leikmenn hafa ekki verið neitt frábærir inná vellinum.

Það er svo kannski merki þess að Covid er í alvörunni farið að bíta hjá Real Madríd að þeir keyptu ekki neinn leikmann síðasta sumar. Flestir af bestu leikmönnum liðsins eru um og yfir þrítugt og ljóst að þeir voru ekki bara svona sáttir við hópinn að þeir ákváðu að gera ekki neitt.

Real seldi hinsvegar leikmenn fyrir €100m síðasta sumar og lánaði auk þess leikmenn eins og Luka Jovic, Gareth Bale, James Rodriguez og Martin Öderaard til að spara launakostnað.

Þrátt fyrir þetta er alltaf verið að orða Mbappe og Haaland við Real Madríd og jafnvel leikmenn eins og Salah og Mané. Sagan kennir okkur að útiloka ekki neitt, sérstaklega ekki meðan Perez er forseti félagsins.

Liðið í dag

Síðast þegar liðin mættust var Real Madríd skipað sama kjarna og fór fjórum sinnum í úrslit Meistaradeildarinnar á fimm árum. Núna þremur árum seinna eru allir nema tveir sem spiluðu 2018 ennþá hjá félaginu en margir í mun minna hlutverki eða jafnvel á láni annarsstaðar.

Courtios er kominn í markið í stað Keylor Navas sem ætti að flokkast sem bæting. Dani Carvajal er ennþá hægri bakvörður en hefur reyndar verið meiddur undanfarnar vikur. Varane er hjartað í vörn liðsins með Sergio Ramos fíflinu. Ramos fíflið meiddist reyndar um helgina og er sagður vera úr leik fyrir leikina gegn Liverpool. Nacho hefur verið að leysa hans stöðu af og til í vetur en þeir eiga einnig Eder Militão. Ferland Mendy virðist vera búinn að eigna sér vinstri bakvörðinn framyfir Marcelo sem er þarna samt ennþá.

Luka Modric, Casimero og Toni Kroos sjá ennþá um miðjuna og Marco Asensio og Isco eru þarna ennþá. Nokkurnvegin sömu menn í aðalhlutverkum og 2018. Modric verður 36 ára á þessu ári en hefur nákvæmlega ekkert slegið af nema síður sé á þessu tímabili. Zidane var í upphafi síðasta tímabils með áform um að setja inn ferskari vinda á miðjuna (eins og Ödegaard) en enginn hefur í raun verið nálægt því að slá Modric úr liðinu. Toni Kroos (31 árs) og Casimero (29 ára) eru ennþá með honum líkt og árið 2018. Þeir hafa verið stöðugasti partur Real liðsins á þessu tímabili.

Fyrir þremur árum bjóst maður við að Marco Asensio yrði orðin miklu stærra nafn en hann er enda mjög góður leikmaður. Hann hefur í vetur verið að spila framar á vellinum og er líklegur sem einn af fremstu þremur.

Benzema hefur skorað 17 mörk og lagt upp 6 í vetur og verður líklega með annanhvorn af hinum tvítugu brössum Vinícius Júnior eða Rodrygo með sér upp á topp. Þeir eru reyndar báðir taldir gríðarleg efni sem gætu vel verið framtíðarstjörnur Real Madríd. Eins gæti Edin Hazard komið inn ef hann nær sér af meiðslum. Hann hefur verið mjög mikið meiddir síðan hann kom til Real og skugginn af þeim leikmanni sem við þekktum frá Englandi.

Af byrjunarliði Real Madríd í Kiev árið 2018 eru aðeins Ronaldo og Navas farnir frá félaginu, allir hinir eru ennþá hjá félaginu. Nacho, Bale og Asensio sem komu inná í þeim leik eru einnig ennþá samningsbundnir Real.

Fyrir utan Edin Hazard sem kom rúmlega 28 ára gamall hefur Real ekki gert nein svona stór galatico leikmannakaup síðan James Rodriguez og Toni Kroos komu sumarið 2014/15. Þeir voru auðvitað með frábært lið á mjög góðum aldri þá en getur verið að þessi tímasetning sé ekki tilviljun? Árið 2015 var endanlega afnumið þessa Beckham reglu fyrir íþróttafólk og sjónvarpstekjum spænskra liða var dreift jafnara á öll liðin. Ekki bara var Beckham reglan afnumin heldur hefur skatturinn verið að hamast í ofurríkum knattspyrnumönnum undanfarin ár. Barcelona hefur reyndar ekkert slegið af í ofurkaupum undanfarin ár en flest þeirra hafa misheppnast rosalega og þeir eru líka skuldugir upp fyrir haus í dag.

Það verður því áhugavert að sjá hvort Florentino Perez nái að sjóða bækur félagsins saman enn á ný næsta sumar og kaupa einhvern risabita eins og Mbappé, Haaland eða t.d. Salah. Fyrir 5-10 árum var nánast lögmál að svona leikmenn myndu enda hjá Real Madríd eða Barcelona.

Afhverju í fjandanum ætti það lögmál ennþá að eiga við í dag?

Hvað leikinn gegn Liverpool varðar þurfum við að hafa í huga að 12 af 14 leikmönnum Real Madríd liðsins sem vann keppnina 2018 eru ennþá þarna. Megnið af því liði vann fjóra Evrópumeistaratitla og þetta lið eru ríkjandi meistarar á Spáni. Þeir eru í þriðja sæti í dag aðeins sex stigum frá toppliði Atleticho Madrid. Þeir hafa ekki tapað leik í síðustu tíu leikjum í öllum keppnum, eitthvað sem Liverpool hefur ekki komist nálægt að afreka í vetur. M.ö.o. þetta er ennþá Real Madríd sem Liverpool er að fara etja kappi við.

Liverpool

Það versta við viðureignir Liverpool gegn Real Madríd undanfarin ár er að við fáum aldrei að sjá Liverpool liðið í öllu sínu veldi mæta til leiks gegn þeim. Þeir spila núna í þriðja skipti í röð við afskaplega vængbrotna útgáfu af Liverpool.

Byrjunarliðið í Kiev var reyndar nokkurnvegin Liverpool liðið sem kom okkur til Kiev mínus Ox og svo auðvitað Mo Salah sem fram að því var búinn að vera langbesti leikmaður tímabilsins. Hann var tekinn út viljandi og án refsingar sem er ennþá ótrúlegt rétt eins og Ramos slapp líka með olnbogaskot í höfuðið á Karius. Liverpool var með yfirhöndina fram að meiðslum Salah sem var búinn að skora 44 mörk það tímabilið.

Liverpool hafði nákvæmlega ekkert á bekknum, Can var að stíga upp úr meiðslum og sama átti (alltaf) við um Lallana. Real setti Bale, Asensio og Nacho inná.

Árið 2014 fékk Real Madríd svo bara B-lið Liverpool á Bernabeu. Mignolet í marki, vörnina skipuðu Alberto Moreno, 49 ára gamall Kolo Toure, Skrtel sem var fyrirliði og Javier Manquillo af öllum mönnum. Léttleikandi miðja Liverpool var Emre Can þá 12 ára, Lucas Leiva, Lallana og okkar eigin Xavi, Joe Allen. Frammi voru svo bara án gríns Markovic og Borini. Á bekknum voru menn eins og Gerrard, Henderson, Coutinho, Sterling og Johnson.

Stóru nöfnin komu nú meira inn í liðið fyrir leikinn á Anfield en áttu ekkert í Real sem vann 0-3 í einu máttlausasta Evrópukvöldi á Anfield. Ef að Rodgers var ekki búinn að missa stuðningsmenn (og leikmenn) fyrir þá fór hann gríðarlega illa út úr þessum leikjum gegn Real Madríd. Liverpool sættir sig alls ekki við svona aumingjahátt í Evrópu.

Tíu af átján manna hópi Real Madríd í þessum leik árið 2014 eru btw ennþá á mála hjá félaginu.

Síðast þegar Real Madríd mætti fullskipuðu Liverpool liði í banastuði var Benitez liðið 2009. Liverpool vann 0-1 á Spáni og slátraði þeim á Anfield 4-0.

Vonandi erum við að sjá okkar menn ná vopnum sínum aðeins fyrir lokakafla tímabilsins, nógu mikið til að klára Real Madríd. Sama hvernig á það er litið þá er rosaleg blóðtaka að vera án Van Dijk, Gomez og Matip, hvað þá allra á sama tíma og eins má ekki vanmeta hvað fjarvera fyrirliðans er hroðalega slæm einmitt fyrir svona leik.

Miðvarðaparið er opið sár á byrjunarliði Liverpool, sérstaklega gegn svona mótherjum, Nat Phillips á allt hrós skilið fyrir sitt effort í vetur og Ozan Kabak verður alls ekki sakaður um að vera ekki að gera sitt besta. En þeir eru rosalega langt frá miðvörðum Liverpool gæðalega. Vonandi refsar Real Madríd okkur ekki eins svakalega og síðast þegar þeir sáu veikan blett á liði Liverpool í formi Loris Karius, guð minn góður!

Samvinna Phillips og Kabak er engu að síður mesti stöðugleikinn sem við höfum fengið í miðvarðastöðunni á þessu tímabili og hleypir Fabinho aftur á miðjunna sem er mikilvægast af öllu. Þeir eiga auðvitað allt hrós skilið fyrir nokkur clean sheet núna undanfarið. Reyndar eftir leiki eins og þennan á Emirates er ólíklegt að Van Dijk og Gomez komist svo glatt aftur í liðið…

Eyjólfur er annars að hressast í öllum hinum stöðum vallarins og ef Liverpool nær að spila sinn fótbolta og gegenpressa Real Madríd liðið gætum við alveg séð okkar menn hlaupa yfir þá. Ef að Real Madríd líkt og Leipzig leggur upp með að spila sinn fótbolta opnar það fyrir sóknarlínu Liverpool. Ef að Liverpool getur rústað Barcelona 4-0 með Milner í bakverði og án Firmino og Salah er alveg hægt að vinna þetta Real Madríd lið með Phillips og Kabak í vörninni.

Liverpool 2021 vs 2018

Liverpool liðið hefur þróast og vaxið mun meira undanfarin þrjú ár en Real Madríd liðið.

Alisson Becker inn fyrir Loris Karius er meiri bæting á Liverpool en Nat Phillips inn fyrir Van Dijk er mikil veiking á vörninni. Allavega nálægt því. Karuis reyndar þurrkaði hressilega út sitt annars ágæta tímabil í þessum bölvaða leik í Kiev. Eins efast ég hreinlega um að leikmenn Real Madríd hafi það í sér að reyna að skora á Alisson með þetta svakalega yfirvaraskegg, ekki höfðu leikmenn Arsenal það í sér.

Van Dijk og Lovren voru miðvarðaparið 2018 en Van Dijk kom til Liverpool fjórum mánuðum áður. Ozan Kabak sem er aðeins tvítugur er auðvitað veiking m.v. Lovren en það er spurning hversu mikill munurinn á þeim er? Kabak er byrjunarliðsmaður í sterku landsliði Tyrkja og það mikið efni að Liverpool fékk hann í þessi vandræði sem vörnin var komin. Phillips inn fyrir Van Dijk er það sem hræðir mig langmest auðvitað en það á við um allt tímabilið í heild. Takmarkaðri útgáfan af Stephane Henchoz hefur engu að síður staðið sig framar vonum undanfarið og nær vonandi að byggja ofan á það út tímabilið.

Trent Alexander Arnold var talinn einn af veikleikjum Liverpool fyrir viðureignina 2018 enda aðeins 19 ára gamall en átti frábæran leik. Hann er núna þremur árum eldri og búinn að endurskilgreina hlutverk hægri bakvarðar. Miklu betri leikmaður en hann var, sama hvað Gareth Southgate segir. Hversu illa lét Trent landsliðsþjálfarann líta út eftir þennan Arsenal leik? Einfaldlega ekki nógu góður stjóri til að vinna með leikmanni eins og Trent.

Andy Robertson var á sínu öðru ári hjá Liverpool síðast þegar liðin mættust en er í dag 27 ára fyrirliði skoska landsliðsins og almennt talinn meðal bestu vinstri bakvarða í heimi. Bæði hann og Trent koma inn í þessa leiki nú sem miklu reyndari leikmenn.

Miðjan í Kiev var iðnaðarmiðjan Henderson, Milner og Wijnaldum og átti í fullu tré við stjörnur Real Madríd fram að meiðslum Salah. Modric, Kroos og Casimero voru líka allir mun nær sínum peak árum hvað aldur varðar árið 2018.

Fabinho leysir Henderson núna af sem varnartengiliður og er töluverð bæting hvað þá stöðu varðar. Hann er okkar langbesti leikmaður í dag að mínu mati og algjör lykill gegn Real Madríd.

Wijnaldum verður á sínum stað að óbreyttu og er eins og aðrir töluvert sjóaðari á stóra sviðinu nú en hann var fyrir þremur árum.

Thiago fyllir svo væntanlega skarð Milner m.v. leikinn 2018, hann hefur ekki sýnt það nógu oft í vetur en þar er á ferðinni maður leiksins í síðasta úrsiltaleik Meistaradeildarinnar. Thiago hefur virkað eins og allt annar leikmaður með Fabinho með sér á miðjunni, mikið líkari þessum sem við héldum að við værum að kaupa. Hann er nota bene ekki eldri en svo að hann er tveimur árum yngri en Milner var í Kiev 2018.

Framlínan var nú í miklu meira stuði tímabilið 2017/18 en hún hefur verið á þessu tímabili. Þeir höfðu líka meira frelsi það tímabil sem kom niður á varnarleik Liverpool. Stóri munurinn nú er samt að Diogo Jota er búinn að bætast við hópinn og er líklega kominn framfyrir bæði Mané og Firmino í goggunarröðinni. Eina sem Klopp hafði til skiptana í Kiev var Dominic Solanke, án gríns. Jota er að skora svipað mikið miðað við spilaðar mínútur og Salah gerði á sínu fyrsta tímabili…Salah skoraði 44 mörk á því tímabili!

Klopp gæti haldið áfram með sína fremstu þrjá áfram, það er erfitt að skilja Jota eftir á bekknum samt enda okkar lang beinskeittasti sóknarmaður. Firmino gæti farið meira niður á miðju eins og gegn Arsenal þó erfitt sé að sjá Klopp byrja útileikinn í Madríd þannig.

Byrjunarliðið

Alisson

Trent – Kabak – Phillips – Robertson

Thiago – Fabinho – Wijnaldum

Salah – Jota – Mané

Skjótum á liðið svona og þar með Finmino og Keita á bekknum sem er öllu sterkara en Lallana og Can sem komu inná í Kiev 2018.

Spá:

Liverpool hefur jafnan kippt manni harkalega niður á jörðina á þessu tímabili eftir góða leiki en andskotinn hafi það erum við ekki farin að sjá glitta í hið frábæra Liverpool lið undanfarinna ára í undanförnum leikjum? Vonandi verða þeir með viðureignina í Kiev í huga fyrir þessa leiki.

Segjum 1-2 sigur Liverpool á Di Stefano æfingavellinum sem líklega verður spilað á.

Mo Salah með bæði.

9 Comments

  1. Takk fyrir frábæra upphitun, þetta stefnir í frábært einvígi. Liverpool vinnur þetta samanlagt, með marki á útivelli..

    6
  2. Sælir félagar

    Mæl þú manna heilastur Einar Matthías og takk fyrir frábæra upphitun. Hvað úrslitin varðar þá vona ég að þú hafi rétt fyrir þér og sjálfur þori ég ekki að spá. Látum verkin tala þegar þar að kemur.

    Það er nú þannig

    YNWA

    7
  3. Takk fyrir þessa upphitun. Samt er alger óþarfi að bölva andstæðingnum sama hve illa manni er við þá. Það sæmir varla pistlaritara að standa í slíku.

    3
  4. Takk Einar, flott upphitun!

    Þetta verður strembið og ætla að leyfa mér að skjóta á að Nat vinur okkar setji eitt skallamark sem verður mikilvægt þegar upp er staðið!

    Varðandi að bölva andstæðingum……… jú Full respect og allt það en sumir andstæðingar eru bara þannig að þeir beita öllum brögðum í bókinni til að klekkja á andstæðingnum sama hversu ógeðsleg þau eru! Slíkir andstæðingar eiga ekkert nema bölvun skilið!

    YNWA

    4
  5. Jæja það virðist sem að Real verði án bæði Ramos og Varane í kvöld og í seinni leiknum þar sem að Varane var að greinast með Covid19.
    Þá eru bæði þessi lið án sinna 2 bestu miðvarða í þessu einvígi.

    3

One Ping

  1. Pingback:

Leikir hjá kvennaliðinu og U23

Gullkastið – Frá höfuðborg Englands til höfuðborgar Spánar.