West Ham 0 – Liverpool 4 (skýrsla)

0-1 Daniel Sturridge 35.mín
0-2 Coutinho 57.mín
0-3 Coutinho 61.mín
0-4 Divorck Origi 76.mín

BESTU LEIKMENN LIVERPOOL

Algerlega frábær frammistaða hjá öllum í liðinu, það er augljóst þegar þú ferð með lið á útivöll gegn liði sem hefur valdið þér vandræðum undanfarið að þegar þú slátrar leiknum svo 4-0 að þar hafa allir 11 skilað sínu. Mignolet þurfti að verja og grípa inní og það gerði hann vel, vörnin var fín utan við eitt horn og miðjan tikkaði vel í demantinum. Hins vegar er það alveg klárt að það voru tveir leikmenn sem báru af. Fyrst er að nefna Daniel Sturridge sem er auðvitað bara heimsklassa framherji þegar hann er heill. Þegar hann var kominn einn í gegn var ekki vafi í manns huga hvað væri að fara að gerast – hann einfaldlega klárar svona færi. Kvikur og líflegur og stanslaus hausverkur fyrir varnarmenn West Ham. Hann mun skipta miklu máli um næstu helgi gegn varnarmúr á Anfield.

Hinn er svo auðvitað maður leiksins Coutinho. Flott sending á Daniel í marki 1 og svo þvílík yfirvegun í mörkum 2 og 3. Þessi leikmaður vill vera í Meistaradeildinni á næsta ári og þar á hann auðvitað að vera. Þetta leikkerfi er auðvitað smíðað fyrir hann og í dag þegar vörn mótherjanna þurfti að vera aftarlega vegna láta Sturridge fékk hann það svæði og næði sem hann þarfnast til að gera sitt. Sem hann heldur betur gerði. Heimsklassa fótboltamaður!

VONDUR DAGUR

Sumir leikir gefa ekkert tilefni til að velja einhvern sem á vondan dag hjá Liverpool. Þessi var einn slíkur.

Kannski á maður að vera bara pínu kaldhæðinn og minnast á Swarbrick sem að sleppti augljósu víti á okkur og stoppaði ekki leik við höfuðmeiðsl í atvikinu sem leiddi svo til þess að við fengum skyndisókn og skoruðum mark númer þrjú. En það var bara fínt að fá ýmislegt til baka sem við höfum lent í þennan veturinn í flautumálunum.

UMRÆÐAN EFTIR LEIK

* Ótrúlegt gengi á erfiðum útivöllum að undanförnu. Stoke, WBA, Watford og West Ham verið lögð og það er bara ekki sjálfgefið neitt! Alveg ljóst að það er til að auka sjálfstraust til framtíðar að ná slíkum úrslitum og í fyrsta sinn töpuðum við engum leik í London á tímabilinu – aftur eitthvað til að byggja á til framtíðar.

* Leikkerfið. Á viku held ég að þjálfarateymið hafi lært margt. Upplegg leiksins síðast var að halda bolta og fókus og ákveðin varkárni í gangi með 4-2-3-1 kerfið en í dag kom 4-4-2 með aggressívum sóknarleik og hápressu. Það þýddi auðvitað opnari leik en áður og með menn eins og Sturridge og Coutinho í þessum gír steinliggur það. Að mínu mati er þetta a.m.k. plan B fyrir okkar menn til framtíðar, við vitum öll að Sturridge er tæpur en Mané er smíðaður í framherjann í þessu kerfi. Öflugur senter (sækjum bara Suarez krakkar)sem tekur til sín í hinni framherjastöðunni og við erum klár í slaginn.

* Hápressan. Velkomin aftur. Góður fyrri hálfleikur þar sem við náðum að vinna boltann nokkrum sinnum hátt en fyrstu 25 mínútur seinni hálfleiks var með því besta sem við höfum séð þetta tímabilið. Ofboðsleg óþreytandi pressa sem át orku West Ham upp.

* Daniel Sturridge. Hvernig værum við eiginlega stödd ef hann væri heill. Sennilega er hann að kveðja Anfield eftir næsta leik, sem er auðvitað mikil synd því þetta er frábær leikmaður. Þessi frammistaða í dag minnir vel á hann og verður a.m.k. til þess að við munum fá stórt tilboð í hann…kannski frá West Ham bara???

NÆSTU VERKEFNI

Fyrst við unnum þá erum við komin í úrslitaleik – og nú á heimavelli.

Middlesboro’ eru fallnir. Það þýðir tvennt. Þeir munu koma mótiveraðir til þess að kveðja deildina almennilega sem lið og leikmenn til að reyna að fá athygli liða í deild þeirra bestu án pressu. Það þýðir líka það að stress og neikvæðni vetursins gerir vart við sig þegar þeir verða fyrir mótlæti.

Þetta vita okkar menn og uppleggið klárt. Þess utan hefur nú verið sett pressa líka á ná 3.sæti. City eiga heimaleik við WBA í vikunni einu stigi undir okkur og með einu mark betra í markatölu og enda svo í Watford. Svo að þegar við leggjum af stað í þessa viku erum við á þeim stað að geta náð 3.sætinu og þar með beint í riðlakeppni CL en líka séns á að enda í 5.sæti og EL næsta vetur.

Stór vika framundan fyrir Klopp og félaga.

58 Comments

  1. Fór á leikinn og var mjög sáttir. Fannst sérstaklega Lovren og Matip mjög sannfærandi.

  2. Sælir félagar

    Með bakið upp við kaldan vegg úrslitaleiks stóð Liverpool loksins við það að vinna úrslitaleik. Að vísu voru andstæðingarnir ekki í neinum úrslitaleik og fyrri hálfleikur var gjörsamlega í járnum. En með Sturridge heilan fremst myndaðist sú ógn sem algerlega hefur vantað í framlínu liðsins okkar undanfarið.

    Mér fannst allir standa sig með prýði og þó Origi hafi verið einna slakastur okkar manna þá skoraði hann samt mark (óvart) og átti auðvitað sinn hlut í sigrinum. Nú þarf bara að vinna fallið lið Boro í lokaumferðinni áður en hægt verður að slaka á og fagna 3. Til 4. sætinu í lokaumferðinni. Gott væri að vinna þá stórt til að tryggja 3. sætið en sigur er auðvitað nóg.

    Það er nú þannig

  3. Tæknilega getum við enn þá lent í 6. sæti, en UTD er að tapa í augnablikinu þanngi að það er mjög ólíklegt 🙂

  4. Frábær leikur í dag og liðið sýndi stórkostlegan karaketer. Auðvitað er ekki hægt að horfa fram hjá því að West Ham liðið var mjög laskað í dag en að vinna með svona yfirburðum undir þessari pressu segir meira en mörg orð um JK og strákanna hans.

    Þetta er alls ekki búið og mjög erfiður leikur á sunnudaginn sem þarf að klára. Vil að liðið spili áfram með tígulmiðju (Diamond) og sæki strax frá byrjun leiks til sigurs. Er ekki viss um að Firminio verði í byrjunarliðinu þó hann verði orðinn leikhæfur.

    Svona í lokin þá held ég að ansi margir hér á þessari síðu megi skammast sín fyrir að tala liðið okkar svona niður fyrir þennan leik. Við þurfum, eins og JK hefur margoft sagt, að trúa!

    YNWA

  5. Andstæðingurinn laskaður, með bakið upp við vegg bla bla.
    Við erum bara drullusterkir og höfum verið það í allan vetur þrátt fyrir áföll og lítinn hóp.
    Verðum enn sterkari næsta vetur.
    Auðvitað þarf að vinna næsta leik en allir eru klárir í bátana.
    Ég er helsáttur.
    YNWA

  6. Það er langt síðan að maður gat setið og notið leiksins frá byrjun…. það var aldrei einhvern vegin hætta á að þessi leikur væri að detta í jafntefli eða tap… þrátt fyrir þetta magnaða klúður í fyrri hálfleik hjá west ham…. það var klárt frá fyrstu mínútu hvernig þessi leikur væri að fara enda….. og sigur verðskuldaður

  7. Og það er gaman að segja frá því að manutd getur ekki náð Liverpool að stigum.

  8. Arsenal menn hafa örugglega froðufellt af bræði þegar STURRIDGE setti fyrsta markið. Frábært alveg,margt sem þarf að laga að sjálfsögðu en Klopp reddar því Y.N.W.A !!!!

  9. Hvar eru allir yfirdrullaranir núna ?
    Innilega sammála þessu hjá no. 6

    “Svona í lokin þá held ég að ansi margir hér á þessari síðu megi skammast sín fyrir að tala liðið okkar svona niður fyrir þennan leik. Við þurfum, eins og JK hefur margoft sagt, að trúa!

    YNWA”

    Kannski þeir komi hér inn eftir Mboro leikinn. Vona samt ekki !

    Annars frábær leikur hjá okkar mönnum. Alltaf hægt að setja út á eitthvað en allan tíman öruggt. Nú er bara að klára næsta leik og þá eru við “happy chapps” eða þannig 😉

    YNWA

  10. Frábær leikur og geggjað að sjá Sturridge í byrjunarliðinu enda yfirburðarsóknarmaður í þessu liði.
    Coutinho var stórkostlegur.

  11. Takk fyrir skýrsluna, þetta var frábært í dag. Þegar maður lítur breytingarnar innann liðsins þá langar mig til að minnast á Simon sem kemur út í flesta há bolta, kýlir þá vel og örugglega frá og kemur boltanum fljótt og vel í leik. Maaaður taldi að eftir nöldur um þetta á þessari aðalsíðu að þá væri það fullreynt að þessir þættir löguðust hjá Símoni en það gerðist, meiri samkeppni um sætið í liðinu eða hvað, allavega mikil breyting.
    Takk fyrir mig.
    Björn

  12. Þetta var virkilega flottur sigur. Það væri vel hægt að spyrja sig “hvað ef”, ef t.d. Ayew hefði sett hann úr öðru hvoru stangarskotinu þarna rétt fyrir hlé, eða ef WH hefðu fengið víti á Winjaldum eins og þeir áttu að fá. Svo það má alveg segja að heppnin hafi verið með okkar mönnum. En hún hefur svosem líka verið með andstæðingunum áður, svo það jafnast sjálfsagt út á endanum.

    Mér fannst eiginlega merkilegast að WH menn virtust bara vera hættir á löngum köflum, og það kom örugglega fyrir í einhver 2-3 skipti, þar á meðal í mörkum 3 og 4, að ég var alveg viss um að dómarinn hefði flautað en okkar menn ekki heyrt það, því það var eins og hamrarnir væru búnir að kúpla sig út. Mjög undarlegt.

    Nú er bara að vona að liðið haldi ekki að þetta sé í höfn, því það er það svo sannarlega ekki. Jú, líkurnar eru ágætar, en það eru samt alveg 90+ mínútur eftir um næstu helgi. Ég fagna engu fyrr en okkar menn fagna sigri þar. Jú ok, ef Arsenal tapar í miðri viku, þá skal ég fagna.

  13. Það væri svo agalega gott ef staðan í fyrri hálfleik á móti middlesbro væri svona 3-0. Það síðasta sem maður vill er svona vesenis leikur þar sem hitt liðið er með rútu fyrir markinu og hjartað á manni að gefa sig úr stressi ? Wenger bikarinn er svo heillandi núna

  14. Já og kannski eitt enn: það er svosem ekkert útilokað ennþá að Wenger hirði Wengerbikarinn, en okkar menn komist samt í Meistaradeildina. City þurfa bara að tapa öðrum sínum leik, og Arsenal að vinna upp markamuninn. Líklegt? Ekkert svakalega, en alls ekki óhugsandi.

  15. Gaman að sjá besservissarana “drulla”yfir drullarana eftir sigurleiki hérna. Er engu að síður himinlifandi yfir sigrinum – en við vitum vel að þetta hefur verið basl eftir áramót og ef cl-sæti er framundan,þá þýðir ekkert að hafa eintóma kjúklinga á bekknum. Til hamingju,öllsömul. ?

    Tóku þið eftir móttökunni í fyrra markinu hjá PC – hvernig hann drepur boltann og leggur til árásar!? Magnað.

  16. Ég skal fyrstur viðurkenna að eftir að Arsenal vann Southampton þá spáði ég því að þeir myndu klára sína en við tapa stigum á móti WH. Þegar leið á vikuna léttist hjá mér brúnin og ég spáði 2-0 fyrir LFC.

    Þó að þetta liti vel út þá þarf að klára Mboro. Hef trú á að menn fari ekki að klikka úr þessu.

    Við áttum inni heppni í dag. Man.City voru heppnir í vítinu sem Mahrez tók og Arsenal voru mjög heppnir að vera ekki 2-0 undir í hálfleik á móti Southampton.

  17. Magnaður leikur og virkilega gott að geta hallað sér aftur í sófamum og geta notið seinasta hálftímans í leiknum. Rólegur vitandi það að 3 stig væru í höfn. Það er orðið frekar lanvt síðan að það gerðist síðast.

  18. Glæsilegt, æði og frábært.
    Akkúrat það sem þurfti, og nú er bara að klára Middlesboro og maður fer skælbrosandi inn í sumarið.

  19. Svo er bara að vona að Klopp geti stillt upp sama liði og sama leikkerfi nema með einni breytingu og það væri Firmino inn fyrir Origi.
    Firmino er svo miklu meiri spilari en Origi og Sturridge gæti gert mikinn usla.

    Núna þarf að pa?ka Sturridge inn og helst ekki láta hann æfa nema létt í vikunni þannig að hann nái nú 2 leikjum í röð. Hvernar gerðist það eiginlega seinast ?

  20. Ég hef verið að skoða endaniðurstöðu í ensku deildinni undanfarin ár og mér er ekki minnistætt að lið hafi nokkurn tímann þurft svona mikinn stigafjölda til að tryggja sér meistaradeildarsæti og í ár.

    Þetta er sérstaklega undarlegt fyrir Arsenal, því þeir hafa oft tryggst sér meistaradeildarsæti á færri stigum en 70 stigum en næðu því marki ekki ár ár á 75 stigum ef Liverpool klárar síðasta leikinn sinn með sigri.

    Mér þykir það sérstaklega furðulegt því enska deildin í fyrra var vettvangur óvæntra úrslita en núna í ár er augljóst að sex lið bera af í gæðum.

  21. Sæl og blessuð.

    Þungu fargi er af manni létt! Liðið sem þarf alltaf að koma manni á óvart hélt sínu striki. Stöðugleiki, hvað er það? Óstöðugleiki, nafn þitt er Liverpool!

    Sitthvað ætti nú að fara að skýrast með leikmenn, leikkerfi og forsendur ýmsar fyrir sigrum og óförum. Sumt er skrifað á vegginn – annað verður ráðgáta. Hvað hið fyrra varðar, þá má nefna bakvarðarblúsinn sem heldur áfram enn eitt árið, ágæti demantamiðju og takmörk þess að Lúkas vinur okkar leggi upp spilið (þrátt fyrir tölfræðina sem er ekki alslæm þá eru þeir leikir í tómum hægagangi). Í rökkrinu bíða spurningar svara s.s. afleit frammistaða gegn smáliðum og sú staðreynd að ólíkt stóru liðunum gengur okkar mönnum illa að komast framhjá strætó.

    Svo eru það leikmennirnir. Origi fær á baukinn víða og ekki að ástæðulausu. Allt annað er að sjá hinn vakra Sturridge skeiða eftir vellinum, hnífskarpur eins og Wilkinson og Sword. Origi hefur einfaldlega ekki gert þetta í þessum leikjum. Southampton harðlífið skrifast því miður að miklu leyti á hann. Það að miðjan skyldi vera svo geld, var ekki síst vegna þess að hann, senterinn sjálfur, stóð grafkyrr og gerði ekkert til að fá boltann. Í þessum WHleik átti hann allmargar glefsur sem hefðu getað orðið að gylltum mómentum ef skeikað hefði nokkrum sentimetrum í rétta átt. Það leynir sér ekki hvað býr í kauða og það er ekki eins og menn haldi áfram í viðskiptafræðinni og taki við heildsölunni hjá pabba ef þetta plan gengur ekki upp. Sjáið Borini, Downing og fleiri gulldrengi sem kveðja nú efstu deild að óbreyttu. Brostnar vonir. Hver veit hvað bíður Origis, lærir hann að þreyta vörnina og nær hann sýnki með miðju (og mögulega öðrum senter)? Ef sú verður raunin erum við með dásamlegan leikmann í höndunum.

    En óstöðugleikinn er það eina sem er nokkurn veginn fyrirsjáanlegt. Útileikur gegn WH, þeim fornu féndum verður að menningarnæturflugeldasýningu. Heimaleikur gegn botnliðinu… hvað verður á boðstólnum þá?

    Staðreyndin er sú að við megum búast við hverju sem er í Boro leiknum. Þar gætum við litið grand-finale með tilþrifum. Svo er fjarri því útilokað að meltingin fari aftur í baklás og flæðið drabbist niður, enginn komist framhjá rútunni og við höldum kjökrandi inn í sumartíð og vonum að einhver vilji spila með þessum brothættu snillingum.

  22. Það munar svakalega að hafa Sturridge heilan. Nú er bara að vona að hann meiki það fram að næsta leik. Líkurnar á því eru svona 50/50.
    Annars var þetta frábær pressu sigur. Coutinho í sólskininu er með betri leikmönnum í boltanum svo einfalt er það. Hvernig hann labbar framhjá mönnum er brasílía í hnotskurn.

  23. Þeir aðilar sem benda á heppni mega ekki gleyma því að Liverpool átti líka 3 skot í tréverkið (reyndar skoraði Coutinho eftir eitt þeirra). Vissulega voru menn full tæpir á köflum í leiknum, stangarskotin rétt fyrir hálfleik og vítið sem West Ham átti að fá í sókninni áður en Liverpool komst í 0:3.

    Frábær leikur og frábær úrslit.

    Boro-leikurinn verður allt annað en auðveldur þótt að Boro séu fallnir.

  24. Vona að forráðamenn KOP haldi áfram dómsdagsspám, því það er engin spámaður í sínu eigin “föðurlandi”:) Í alvöru, alltaf þegar spáin er slæm, þá gera okkar menn vel eða flott eins og á móti WH. Keep up the good work lads!
    YNWA

  25. Algjörlega frábær sigur í mjög mikilvægum leik. Klopp var nánast neyddur til að gera þessa breytingu en það var mjög jákvætt að sjá liðið loksins reyna tígulmiðju aftur, sérstaklega gegn varnarsinnuðu liði og hafa tvo sóknarmenn upp á toppi. Eins var mjög jákvætt að fá Coutinho aftur á miðjuna eftir þriggja ára bið. Hann á að vera potturinn og pannan í leik Liverpool og spila þar sem aðgengi að boltanum er hvað mest. Sáum afhverju í gær og við sáum það líka tímabilið 2013/14. Höfum talað fyrir þessu síðan þá með reglulegu millibili. Allt annað flæði á liðinu með hann eða Lallana á miðjunni og aðeins tvo af Can, Lucas og Wijnaldum inná. Can var btw frábær í þeirri stöðu sem hann ætti alltaf að spila og aldrei vera færður úr nema í ítrustu neyð.

    Þetta kerfi hentaði Sturridge einnig mikið betur og það hefur svosem enginn efast um hans gæði þegar hann er heill. Þetta er nákvæmlega það sem er óþolandi við hann, hvar væri Liverpool ef hægt væri að treysta á svona gæði fyrir framan markið í hverjum leik. Þarna er t.d. helsti munurinn á Liverpool og Tottenham núna. Þeirra Sturridge er mjög sjaldan meiddur.

    En aðeins að þessu:

    Svona í lokin þá held ég að ansi margir hér á þessari síðu megi skammast sín fyrir að tala liðið okkar svona niður fyrir þennan leik. Við þurfum, eins og JK hefur margoft sagt, að trúa!

    KJAFTÆÐI.
    Þetta er bloggsíða þar sem skiptst er á skoðunum um Liverpool, þetta er ekki haleljúa kirkja þar sem aðeins má útvarpa jákvæðum skoðunum og því síður segja frá áhyggjum sínum fyrir leiki. Þó að þetta Liverpool liði hafi þarna unnið frábæran sigur gegn West Ham er ekki þar með sagt að menn eigi að skammast sín fyrir að hafa ekki treyst þessu liði 100% fyrir leik. Þeir hafa bara alls ekkert unnið sér inn traust fyrir svona leiki og það á einnig við um Boro leikinn. Á meðan liðið fellur á nánast öllum stórum prófum sem fyrir það er lagt er allt í lagi að tala um það á bloggsíðu helgaðri Liverpool.

  26. Einhver póstaði þessari síðu og ég pósta henni aftur, því hún er svo upplýsandi hverjir eru að keppa um mögulegtu CL sæti.

    https://www.transfermarkt.com/premier-league/potentielleendplatzierung/wettbewerb/GB1

    Þrír að slást um tvö CL sæti.

    Möguleikarnir fyrir Liverpool eru 3. til 5 sæti.

    Ef Liverpool vinnur síðasta leikinn þá er 4. sæti öruggt.

    Þá er möguleiki á 3. sæti EF City að tapar amk. 2 stigum úr sínum tveimur leikjum.

    Ég trúi….. en djö…. hefur reynt á þá trú frá áramótum!

  27. #31 OK. ok. “skammast sín” er kannski aðeins of gildishlaðið. Allavega vona ég að menn hafi smá regrets eða upplifi sig pínu aualalega fyrir að hafa haft svona litla trú á liðinu sínu í aðdraganda þessa gríðarlega mikilvæga leiks.

    Sko, ég er alls ekki manna bestur þegar kemur að gagnrýni á liðinu eða einstaka leikmönnum þess EFTIR leiki þó ég forðist yfirdrull og persónuníð gagnvart einstaka leikmönnum. Það sem mér finnst hins vegar fremur dapurt og á erfitt með að skilja er svona niðurbrot og svartsýnisraus í AÐDRAGANDA leikja. Veit að þetta fer ekki vel í Klopp og sendi hann m.a. Carragher tóninn í beinni á SKY-Sport ekki fyrir löngu fyrir að hafa ekki mikla trúa á liðinu. Þú þarft hins vegar ekkert að fræða mig um málfrelsi Einar Matthías. Þessir leikmenn í liðinu sem og þjálfarinn eru bara venjulegir menn og ég get ómögulega séð hvernig það er að hjálpa liðinu ef þeirra eigin stuðningsmenn eru að hrauna yfir liðið í aðdraganda leikja. En hey, þetta er bara mín skoðun.

    Klopp hefur líka talað um stemmninguna á Anfield þegar hlutirnir eru ekki að ganga upp, þ.e. taugaveiklunina og svekkelsið í áhorfendum. Er sammála honum þó auðvitað sé ekki hægt að stjórna þessu. Vissulega væri betra fyrir liðið og þjálfarann ef áhorfendur myndu gíra sig meira upp í að hvetja liðið allan leikinn þegar hlutirnir eru ekki að ganga alveg upp. En svona er þetta bara, margar ástæður fyrir því og nákvæmlega ekkert við því að gera.

    “Á meðan liðið fellur á nánast öllum stórum prófum sem fyrir það er lagt….”

    KJAFTÆÐI
    Bara benda þér á að liðið var með 59 stig eftir 37 umferðir á sama tíma í fyrra. Liðið er núna með 73 stig, þ.e. 14 stigum meira en á síðasta tímabili. Vissulega hefur liðið fallið á einhverjum prófum en það er vægast sagt “overstatement” að halda því fram að liðið sé að falla á nánast öllum stórum prófunum. Við erum 3 stigum frá meistaradeildarsæti for crying out lout!

    Áfram Liverpool!

  28. Það er ósk allra Liverpool aðdáenda að sjá liðið í Meistaradeildinni á næsta keppnistímabili. Áfram Liverpool.

  29. Frábær sigur og frábær spilamennska! Ég hlakka til að horfa á leikinn um helgina og það verður spennandi að sjá hvernig Klopp leggur leikinn upp.

    Í kjölfar umræðunnar hér að ofan ákvað ég að skoða athugasemdirnar sem komu inn fyrir leik og reyna að finna einhverja tölfræði. Í heildina voru þetta 52 athugasemdir, 39 úr upphitun og 13 úr leikþræði. Ég skipti þeim upp í jákvæðar, neikvæðar, kvörtun yfir neikvæðni og hlutlausar. Til að teljast sem jákvæð athugasemd, þurfti að koma fram spá um sigur Liverpool í leiknum gegn WH eða um að Liverpool komist í meistaradeildina. Neikvæð athugasemd inniheldur spá um annaðhvort jafntefli eða tap í WH leiknum, eða spá um að liðið komist ekki í meistaradeildina. Kvörtun yfir neikvæðni annarra í athugasemdum skýrir sig sjálf. Athugasemd frá Svavari Station #3 í upphituninni var tekin sem jákvæð. Í einhverjum tilvikum eru sami aðili skrifaður fyrir fleiri en einni athugasemd (einn afrekaði það reyndar að vera skrifaður fyrir tveimur neikvæðum og einni jákvæðri, geri aðrir betur). Það er auðvitað hægt að deila um hvað eigi að telja sem jákvæða eða neikvæða samantekt en ég reyndi að vera samkvæmur sjálfum mér í þessu. Auðvitað er þetta bara til gamans gert, en ef svo ólíklega vill til að einhver hefur áhuga á að fara yfir samantektina þá er sjálfsagt að senda excel skjalið á viðkomandi aðila.

    Jákvæðar athugasemdir 20 (38%)
    Neikvæðar athugasemdir 8 (15%)
    Kvörtun yfir neikvæðri athugasemd 3 (6%)
    Hlutlausar athugasemdir 21 (40%)

    Ég ætla nú ekki að segja til um hvort þetta sé eðlileg dreifing en að mínu mati er engin sérstök ástæða til þess að kvarta yfir fjölda neikvæðra athugasemda. Það sem mér persónulega finnst standa upp úr eftir þessa samantekt er að fólk er almennt málefnalegt í athugasemdum þó það hafi mismunandi skoðanir á hlutunum. Það er ekki sjálfgefið!

    Fyrst að ég er byrjaður, þá vil ég bara nýta tækifærið og þakka ritsjórn, pistlahöfundum og virkum í athugasemdum fyrir frábæra síðu og fyrir samfylgdina í vetur! Áfram Liverpool!

  30. Frábær frammistaða…við klárum þetta á laugardag…mikið væri líka yndislegt ef Man City myndu misstíga sig og að við tækjum þriðja sætið. Why not??? Ég trúi…

  31. Sturridge verður held ég ekki seldur, heldur mun Klopparinn mun byrja að nota hann öðruvísi t.d. í svipuðum leikjum og síðast, þar sem reikna má með rútuparkeringu. Eins reikna ég með öðruvísi æfingum milli leikja. Ég spyr, hver selur djásnið sitt?

  32. Sælir félagar

    Vegna orða Einars Matthíasar og LFC Forever þá vil ég segja þetta. Sú skoðun EM að menn megi og eigi að tjá sig um gengi liðsins hér og miðar þá örugglega við að fólk sé málefnalegt er að mínu vitti hárrétt. Það að liðið hafi fallið á NÁNAST öllum STÓRU prófunum (undanfarið) er að mínu viti líka rétt (leturbr. mínar). Það er einfaldlega eitthvað sem við höfum horft á undanfarið og WH leikurinn er eina stóra prófið í nokkuð langan tíma sem liðið hefur staðist.

    Auðvitað hefur liðið gert mjög góða hluti líka eins og stigasöfnun gegn efstu 6 bendir til. En undanfarið hefur liðið verið með örlög sín í eigin höndum og klúðrað því þar til í WH leiknum. Því er ekki hægt að neita. CP leikurinn og S’oton leikurinn eru dæmi um skelfilegar frammistöður á ögurstundu.

    Ég hefi takmarkaðar áhyggjur af áhrifum okkar skrifa hér á KOP-inu á Jurgen okkar Klopp. Hann skilur ekkert af því sem hér er skrifað og er örugglega ekki með þýðendur í fullri vinnu að þýða fyrir sig misviturleg skrif stuðningsmanna í fjörrum löndum. Hitt er líka að stuðningur við liðið fer upp og niður eftir frammistöðum þess. Eftir áramót eru ekki margir leikir sem hafa glatt stuðningmenn eins og t. d. WH leikurinn gerði. Því miður.

    Það er því miður þannig að sumir stuðningmenn á KOP-inu hjóla í aðra stuðningmenn vegna skoðana þeirra á frammistöðum liðsins og einstakra leikmanna. Þeir telja sig þess umkomna að siða menn til vegna þess að þeir séu slæmir stuðningsmenn og ættu að skammast sín. Þetta er að mínu viti röng aðferð við umræður um liðið, leikmenn og leiki.

    Það á að skiptast á skoðunum og rökræða en ekki deila á menn persónulega því allir hafa rétt á skoðun sinni hversu ósammála sem aðrir eru henni. Þó LFC Forever hafi dottið í þá gryfju að skamma okkur hina fyrir skoðanir okkar þá er hann venjulega mjög málefnalegur og svarar EM málefnalega og með rökum og það er gott. Höldum okkur við þannig máflutning ef þess er nokkur kostur. Án þess að ég ætli að fara að skipta mér af hvernig menn haga sér hér og situr það síst á mér að gera það 🙂

    Það er nú þannig

    YNWA

  33. #40 eða kannski frekar: Fátt er gott í óhófi
    … en það er bara mín hóflega skoðun

    Ég ætla svo að spá því að Arsenal og City vinni ekki bæði í kvöld. Hef meiri trú á WBA en Sunderland.
    Ég hef svo fulla trú á að Liverpool vinni Boro um helgina og nái því 3.-4. sæti. Firmino kemur inn fyrir Origi og Studge helst heill. Þeir sýna fram á hversu hættulegur dúett þeir eru og verða báðir í lykilhlutverki á næsta ári ásamt Kútnum sem er of dýr fyrir Barcelona.

    Við fáum nýjan vinstri bakvörð í sumar þ.a. Milner spilar færri leiki og á miðjunni í flestum þeirra.

    Meira veit ég ekki.

    Hvernig sem þessar spár fara þá nýt ég vikunnar í botn við að stríða Utd og Ars-mönnum, og vonandi þarf ég ekki að éta þetta allt ofaní mig eftir helgi
    😮

  34. Ég ætla að ganga svo langt að spá því að meistaradeildarsæti LFC verði tryggt í kvöld. Og hana nú.

  35. Maður er svona að fæla við að City nái bara jafntefli gegn wba í kvöld og hæfni okkar menn þá á stigum og hafi þá þetta eina mark betra en við í markatölu. Okkar menn vinna svo Borð um helgina með 3 til 5 mörkum sem mun skila okkur því að við tökum þriðja sætið af city á markatölu…

    Eg hef enga trú á að arsenal klikki í kvöld gegn sunderland.. sunderland eru löngu hættir að spila þetta mót og eru líklega ekki betri í dag en liðin í pepsi deildinni gert heima

  36. Núna er afskaplega sérstök staða komin upp. Eg svi gríðarlega ólíklega fer að City gerir 3-3 jafntefli í lokaleiknum og við vinnum 3-0 að þá verða liðin að spila sérstakan úrslitaleik um þriðja sætið.

  37. Þvílík lokaumferð – Trúi þó ekki öðru en að við löndum þessu gegn Boro. YNWA

  38. Hvernig er það – eigum við 3 stig á Arsenal og 4 mörk? Treysti ekki alveg fotbolti.net töflunni.

  39. Þetta á ekki að vera flókið.

    Liverpool þarf 3 stig Og meistaradeildar sætið þeirra til þess þurfa þeir að spila gegn middlesbrough á anfield road…

    Ég þessir leikmenn sem spila fyrir liverpool í dag eru ekki menn til þess að klára þetta verkefni þá eru þeir ekki færir í neinn sjó! Og hafa svarað öllum okkar spurningum . Þeir hafa ekkert að gera í liverpool treyjuna..

    Svo einfalt er þetta….

  40. Spurning hvort hefði ekki verið betra að fá Arsenal í lokaumferðinni á Emirates í hreinum úrslitaleik um meistaradeildarsætið, frekar en fallið skítalið á heimavelli.
    Persónulega hefði ég kosið fyrri kostinn.
    YNWA

  41. Þetta er fáránlega jafnt fyrir lokaumferðina, ekki bara stigin heldur líka markatala og skoruð mörk. Öll liðin þrjú gætu lent í að spila aukaleik um þriðja eða fjórða sætið ef úrslit fara á ákveðinn veg. Flest svo sem ekkert rosalega líklegt, en samt alveg möguleiki… BBC fer yfir það hér: http://www.bbc.co.uk/sport/football/39944529

  42. Ég er nokkuð viss um að Everton muni ekki veita Arsenal mikla mótspyrnu einfaldlega vegna þess að þeim hugnast það ekkert allt of vel að vita af erkifjendum sínum í meistaradeildarsæti. Það er því bókað mál að ekkert annað en sigur kemur til greina gegn Middlesbrough.

  43. Það er kominn miðvikudagur og engar fréttir af meiðslum hjá Sturridge, ætli hann muni ná að byrja 2 leiki í röð.
    Hvernar gerðist það seinast.

    Segjum að við klárum þennan leik og förum i umspilið fyrir riðlakeppnina. Er Liverpool ekki það lágt rankað í cl að við gætum mætt toppliði ?

    Er einhver með það á hreinu ?
    Væri skelfilegt að mæta hörkuliði og detta kannski út í umspili líkt og Everton gerðu um árið.

  44. Fyrst að vinna Middlesbrough svo er hægt að hafa áhyggjur af eh umspili erum ekki búnir að vinna þá og City og Arsenal eru heldur ekki búnir að vinna sína leiki þó þeir séu mjög líklegir.

West Ham 0- Liverpool 4

Podcast: Hefðum tekið þessu fyrir tímabilið