Fernando Torres

Áhugaverðasti leikmaður Liverpool þessa dagana að mínu mati er súkkulaði-freknu-strákurinn Fernando Torres sem kom til félagsins i sumar fyrir metfé. Hann hefur verið að koma vel inn í Liverpool-liðið eftir leiðinleg meiðsli og spilaði frábærlega í gær í 4-1 sigri á Porto þar sem hann skoraði sín fyrstu mörk í Meistaradeildinni. Mig langar að renna yfir feril kappans sem er ótrúlegur miðað við það, að drengurinn er einungis 23 ára gamall.

Fernando José Torres Sanz fæddist 20. mars árið 1984 í úthverfi Madrid-borgar. Krókurinn tók snemma að beygjast í átt fótboltans en þegar Torres var tíu ára gamall spilaði hann með liði sem kallaði sig Rayo 13. Hann skoraði 55 mörk á leiktímabilinu en þess má geta að þetta var 11-manna bolti. Atletico Madrid tók eftir hæfileikum hans og buðu honum til æfinga hjá félaginu og árið 1995 gekk hann til liðs við Atletico. Torres vann svo sinn fyrsta titil með félaginu 14 ára gamall þegar hann var sendur með U-15 ára liðinu til þátttöku í Nike Cup Europe, en þar spiluðu þeir gegn drengjaliðum stórvelda í evrópskri knattspyrnu. Torres og félagar unnu mótið og hann var valinn besti leikmaður Evrópu í sínum aldurshópi stuttu síðar.

Árið 1999, þegar Torres var 15 ára gamall, skrifaði hann undir sinn fyrsta samning hjá Atletico. Heilladísirnar voru ekki með honum þegar hann fótbrotnaði árið 2000 og var lengi frá keppni. En hann kom tvíefldur til leiks og lék sinn fyrsta leik aðeins 17 ára gamall í lok tímabilsins 2000-2001, viku síðar skoraði hann sitt fyrsta mark fyrir félagið. Í maí fór hann með u-16 ára landsliði Spánar og á Evrópumótið sem þeir unnu. Torres var markahæsti maður mótsins og var einnig kjörinn besti leikmaður mótsins.

Tímabilið 2001-2002 spilaði Atletivo í Segunda División. Torres dalaði það tímabil og náði ekki að fylgja eftir væntingum þar sem hann spilaði 36 leiki og skoraði einungis 6 mörk, en hann var nú bara 17 ára „tittur“ sem átti margt ólært. Síðar á tímabilinu fór hann með spænska U-19 landsliðinu á Evrópumótið. Spánn vann, og Torres skoraði 4 mörk í 4 leikjum sem gerði hann að markahæsta og besta leikmanni mótsins. Það var alveg klárt mál að þarna var á ferðinni ótrúlegt efni sem bar höfuð og herðar yfir stráka sem voru tveimur árum eldri en hann.

Næsta tímabil bar að garði og Atletico hafði unnið sér sæti í La Liga; nú gat Torres séð hvernig hann var í samanburði við hákarlana í Barca og Real. Þetta tímabil endaði Atletico í 12. sæti og Torres skoraði 13 mörk, 18 ára gamall. Hann spilaði líka nokkra leiki með U-21 landsliði Spánar. Hann virtist meiðast lítið og var dýrkaður af stuðningsmönnum liðsins.

Fyrir tímabilið 2003-2004 var Torres gerður að fyrirliða liðsins, en hann var þá aðeins 19 ára gamall. Atletico komu öllum á óvart og bættu sig frá árinu áður. Þeir töpuðu Evrópusæti á síðasta leikdegi La Liga og lentu í 7. sæti, en voru með jafn mörg stig og Sevilla sem var með betra markahlutfall. Torres skoraði 19 mörk þetta tímabil. Atletico komst hins vegar í Intertoto Cup með þessum árangri þar sem þeir töpuðu í úrslitaleiknum gegn Villareal eftir vítaspyrnukeppni.

Hann lék sína fyrstu „derhúfu“ gegn Portúgal árið 2003 og var valinn í hópinn fyrir EURO 2004. Hann kom inn á í tveimur leikjum á Evrópumótinu en byrjaði gegn Portúgal og sýndi löndum sínum að hann væri framtíðarmaður í landsliðinu sem verðugur arftaki Raúl Gonzales.

Tímabilið 2004-2005 skoraði hann 20 mörk í öllum keppnum og ýmis stórlið í Evrópu voru farin að sýna áhuga. Engin almenninleg tilboð báru að garði fyrr en Chelsea opnaði veskið í lok tímabilsins 2005-2006 (þá skoraði hann 13 mörk) en Torres hafnaði að ganga til liðs við þá og sannaði fyrir sínu fólki að hann elskaði klúbbinn og vildi halda áfram að spila í Madrid.

Tímabilið 2006-2007 skoraði Torres 19 mörk í 40 leikjum. Þá hafði hann skorað 91 mark í 243 leikjum fyrir uppeldisfélagið sitt en nú var kominn tími fyrir breytingar. Fjölmiðlar voru duglegir við að orða hann við stórlið Evrópu, en bendluðu hann aðallega við stórlið á Englandi.

Sem betur fer endaði hann hjá Liverpool og nú hefur Torres spilað 16 leiki og skorað 10 mörk í öllum keppnum fyrir Liverpool. Að mínu mati hefur hann allt sem þessi svokallaði draumaframherji þarf að hafa. Hann er fljótur, sterkur, hávaxinn, góður skallamaður, með frábæra tækni, á auðvelt með að komast framhjá mönnum, fínn klárari, gráðugur, góður spilari og síðast en ekki síst með leiðtogahæfileika. Hann hefur verið að heilla mig síðan hann kom því að koma inn í enska boltann, tala enga ensku og meiðast í nokkrar vikur snemma á tímabilinu, er mjög erfitt. Ég var mjög óviss með Torres þegar hann kom upphaflega. Ég vissi að þarna væri frábær leikmaður á ferðinni, en hann þurfti að sanna nokkra hluti fyrir mér fyrst og hann hefur hingað til uppfyllt allar þær kröfur sem ég gerði til hans. Hann er harður af sér, berst fyrir liðið af harðfylgni og leggur sig 100% fram í hverjum einasta leik.

Nú ætla ég að renna yfir fyrirsætuferil hans, neiiiiiiii…

Liverpool hefur keypt marga framherja á síðustu árum og hafa verið að leita að þessum markahrók sem getur klárað leikina fyrir okkur eins og t.d. Ian Rush og Michael Owen gerðu hér áður fyrr. Nú er leitin á enda þvi við höfum fengið mann sem uppfyllir kröfur okkar. Það sem Torres hefur fram yfir þessa framherja sem Liverpool hefur keypt undanfarin ár er það að hann hefur gæðin. Hann er miklu heilsteyptari leikmaður sem er sérstakur á alla vegu. Hann á fáa sína líka í heiminum í dag.

Mín spá er sú, í ljósi þess sem Torres hefur sagt í fjölmiðlum á Englandi – þ.e.a.s að hann sé ánægður í Liverpool og elski að vera partur af klúbbnum – að þá á Torres eftir að slá enn meira í gegn. Hann mun að öllum líkindum ná völdum á enskunni eftir sitt fyrsta tímabil og aðlagast betur enskri knattspyrnu og á næstu tímabilum á hann eftir að vera einn af okkar mikilvægustu leikmönnum. Ég hlakka til að sjá til hans í vetur og á næstu árum, þarna fer frábær leikmaður sem við getum verið ánægðir með að hafa í okkar liði. Leikmaður sem getur breytt vonlausum leikjum í sigurleiki og líka glatt augað með færni sinni.

Hérna er flott myndband með Torres. Sýnir m.a. hans fyrsta leik með Atletico og fjölmörg tilþrif hans frá Spáni, og þarna eru líka nokkur mörk hans í Liverpool treyjunni.

Ég veit ekki með ykkur, en ég segi bara skál!

48 Comments

  1. neinei, þetta er bara ég að skreyta mál mitt, derhúfa=cap=landsleikur
    en ég studdist við wikipedia að sjálfsögðu, en hins vegar enskan mín er betri en þýðingarforrit.

  2. Hef horft á all marga leiki með honum og hann er maðurinn.
    Þetta virðist svo fáránlega auðvelt, rétt eins og annað markið hans í gær !
    En sjáum til í lok leiktíðar hvort maður fer að setja hann í sama klassa og Rush.

  3. Það er svo magnað að sjá hvað þessi “sykurstrákur” er líka rosalega líkamlega sterkur, það er virkilega að skila sér í því að hann er að aðlagast enka boltanum einsog raun ber vitni.

  4. Fínasta grein en mátt endilega breyta þessari derhúfu þinni samt Olli minn 🙂

    Að Torres, frábær leikmaður. Eina sem mér finnst hann þyrfti augljóslega að bæta eru langskot og finishing. Þá yrði hann stórkostlegur hjá okkur.

  5. Í sumar var ég ekkert alltof sannfærður um kosti Torres og möguleika hans í ensku deildinni. En sem betur er hefur komið á daginn að ég þekkti einfaldlega ekki kosti hans sem leikmanns almennilega. Hann er t.a.m. mun fljótari og líkamlega sterkari en ég hélt.

    Heilt yfir hefur mér þótt hann standa sig vel og með 10 mörk í lok nóvember og mánuð frá vegna meiðsla finnst mér mjög gott. Hann er líka sífellt að vinna fyrir liðið og atast í varnarmönnum. Þrátt fyrir að fara stundum illa með færin sín þá er hann alltaf að koma sér í þau og skapar þau mörg hver sjálfur.

  6. Ánægður með derhúfuna!
    En 10 mörk í lok Nov og hefur restina af tímabilinu til að ná 20 mörkunum, mér sýnist hann vera á góðri leið.

  7. Derhúfa eða ekki derhúfa, djö er ég ánægður með að GAURINN er loksins kominn til okkar!

    Held að ef hann sleppur við stórvægileg meiðsli þá erum við að horfa á núverandi stjörnu og framtíðarstórstjörnu í rauðu treyjunni!

  8. Ég hafði mínar efasemdir um hann áður en hann kom en hann hefur staðið sig mjög vel þrátt fyrir að hann mætti klára betur gjarnan en það er eitthvað sem ég vissi fyrir. Ég held að það að vera bara einn af 11 leikmönnum Liverpool í staðinn fyrir að vera fyrirliði og vonarstjarna heils liðs hafi á vissan hátt “liberate-að” hann (afsakið slettuna). Líka hluti af því að hann hefur staðið sig vel er að kanntarnir hjá Liverpool eru betri núna en í mörg, mörg ár með Babel, Benayoun og Kewell komna þarna inn. Vona bara að hann haldi áfam á þessari braut, hann er a.m.k. með hugarfarið í lagi og ætti bara að verða betri á næstu árum!

  9. Hefði einhver sagt við mig fyrir svona hálfu ári að Fernando Torres myndi koma til Liverpool, þá hefði ég sennilega kallað það draumóra. Mikið afskaplega er það yndislegt að sjá þennan strák spila fyrir okkar menn.

    Núna erum við með “ungan hrygg” í liðinu sem er 25 (Reina), 22 (Agger), 23 (Masche) og 23 (Torres), auk þess að vera svo með heimsklassa tvítuga stráka í Lucas og Babel. Ansi magnað.

    Og orðið derhúfa yfir landsleiki er komið til að vera. Þið munið hvar þið lásuð það fyrst 🙂

  10. Strákurinn er bara klassi – hreinræktaður framherji. Spennandi tímar framundan hjá Liverpool.

    Ég spái því að hann fari yfir 25 mörk þessa leiktíð.

    Takk fyrir góða umfjöllun um Fernando -El Nino- Torres.

  11. Orðið “cap” kemur upprunalega frá enska landsliðinu. Það var hefð fyrir því fyrir ca. öld síðan að leikmenn fengju einhverskonar derhúfur fyrir hvern spilaðan landsleik.
    Þannig að þessi þýðing er ekki einu sinni það langsótt.

  12. Og nú verður aldrei framar kvartað yfir landsleikjahléum á þessu bloggi – það verða helv. derhúfuhléin sem fara með mann! 🙂

  13. Ef maður er pirraður út í landsleikjahléin, er það þá ekki “derringur”? (;

  14. Til að halda derhúfu-umræðum áfram tel ég rétt að benda á að það er ekki öld síðan sá siður var viðhafður að láta menn fá derhúfu fyrir að leika landsleiki. Enska knattspyrnusambandið heldur þessari hefð gangandi ennþá eftir því sem ég best veit. Þetta var alla vega ennþá gert fyrir ca. 10 árum síðan.
    Núna fá menn reyndar ekki húfu fyrir hvern leik heldur fyrir hverja leikjahrinu, svo sem mót eða leiki sem eru með nokkurra daga millibili.
    Húfurnar eru reyndar sérlega asnalegar í útliti, líklega óbreytt hönnun í næstum því 150 ár. Ef ég man rétt eru þær úr silki, með nöfn andstæðingsins (andstæðinganna) saumuð í og einstaklega asnalegan dúsk á toppnum.
    Pail Gascoigne hafði gaman af því að ganga með landsliðshúfu, enda var hann (og er sjálfsagt enn) mikill spaugari. Ég man eftir að hafa séð myndir af honum með þetta fáránlega höfulfat. Flestir enskir landsliðsmenn vilja hins vegar ekkiláta sjá sig með svona asnalegt höfuðfat. Það er samt sniðugt að mínu mati hjá enska knattspyrnusambandinu að halda þessari venju, enda er hún sjálfsagt frá tíma fyrstu landsleikjanna á þarsíðustu öld.
    Ég veit ekki til þess að nokkurt annað knattspyrnusamband láti menn fá derhúfur fyrir að leika með landsliðinu. Það er hins vegar orðin föst venja í ensku máli að tala ekki um hvað menn hafa leikið marga landsleiki heldur hvað þeir hafi fengið margar derhúfur. Það er að mínu mati skemmtileg nýbreytni í íslensku að tala um derhúfur í þessu sambandi.

  15. Kæru lesendur þessarar síðu, þið eruð ÆÐI! 🙂

    Ég skil ekki af hverju menn nota þessar húfur ekki lengur. Ég var einmitt að ræða um það við vini mína fyrir Porto leikinn hvort að engir leikmenn töluðu saman í liðsrútunum því það labba alltaf allir út með iPod heyrnartól í eyrunum.

    Það væri miklu skemmtilegra að sjá landsliðsmennina labba út í hrókasamræðum með svona lekkert derhúfur á hausnum.

  16. hehehe..það er ótrúlegt hvað menn geta talað um derhúfuna 😀

    þetta var einungis sett inn í færsluna sem smá krydd og bragðbætir..en gaman að því að það sé til mikil saga á bakvið derhúfuna 😉

  17. Annað umræðuefni sem ég er búinn að sjá (óviðkomandi þessari færslu um Torres sem er klárlega einn besti framherji í heiminum) er þetta mál með að Hicks sé hugsanlega að fara selja liverpool.

    Ég veit ekki með ykkur en ég fór alltieinu að fá uppí kollinn eina samsæriskenningu.

    Þegar Hicks og Giellette keyptu liðið þá var þessi olíufursti víst líka búinn að reyna kaupa liðið og bjóða vel í það en virtist ekki ganga í gegn að hann gæti keypt félagið. Gæti verið útaf því að fyrrverandi eigendur vildu ekki selja félagið til aðila eins og þessa olíufursta sem væri að fara í Championship Manager með klúbbinn. Þá komu til Hicks og Gielette sem fór betra orð af, höfðu átt íþróttalið og komið að slíkum rekstri.

    Nú eru síðan orð á lofti um að þeir (allavegana Hicks) séu að fara selja klúbbinn og það á nánast 4földu verði á við það sem þeir keyptu hann á. Getur verið að þetta hafi verið hugmyndin hjá þessum aðilum allann tímann? Notfæra sér það að fyrrverandi eigendur vildu selja einhverjum klúbbinn sem átti að hafa metnað fyrir honum, þekkti vel til reksturs íþróttafélaga, en frá sjónarhorni Hicks og Gielette hafi þeir einungis ætlað að eiga félagið í stuttann tíma og selja það síðan þessum olíufursta fyrir sand af seðlum?

    Til að draga þetta saman. Voru þeir einungis að notfæra sér þær hugmyndir sem fyrrverandi eigendur voru með um þá sem áttu skilið að eiga klúbb eins og Liverpool (þá kaupendur sem þeir vildu helst fá) til að geta grætt pening með því að selja hann strax aftur fyrir umtalsvert meiri pening?

    Í ofanálag að notfæra sér síðan eitthvað atvik eins og “erfiðleikar í samstarfi við Benites” til að selja klúbbinn aftur á 4földu verði.

    Ég veit ekki hvort einhver hafi pælt í þessu að þetta gæti hafa verið undirliggjandi hugsunin hjá þessum mönnum allann tímann. Hvað finnst ykkur um þetta? Er eitthvað til í þessu?

  18. LOL halló allir nær og fjær, þar sem að það eru svo margir sem lesa þetta blogg þá verð ég bara að láta þennann flakka sem ég fékk í dag, ef þetta er ekkileifilegt þá byðst ég forláts endilega þið ráðamenn látið mig vita :c)

    Tveir gaurar frá Íslandi dóu og vakna upp í helvíti.

    Daginn eftir tékkar Djöfullinn sjálfur á þeim og sér að þeir sitja í mestu makindum í úlpunum sínum, með vettlinga og húfur og orna sér við eldinn. Djöfullinn spyr þá hvað þeir séu eiginlega að gera? Er ekki nógu heitt í helvíti fyrir ykkur ?

    Gaurarnir svara, “Sko, þú veist, við erum frá Íslandi, landi snjós,íss og kulda. Við erum bara ánægðir að fá smá yl í kroppinn.”

    Djöfullinn ákveður að þeir séu nú ekki að þjást nóg svo hann skrúfar upp hitann.

    Morguninn eftir kíkir hann aftur á gaurana tvo og þarna sitja þeir ennþá í úlpum með húfurnar og vettlingana ennþá á. Það er nú ferlega heitt hérna, finnst ykkur það ekki?

    Aftur svara gaurarnir því til að þeir komi jú frá Íslandi, landi snjóa, íss og kulda, við erum bara fegnir að fá smá yl í kroppinn !

    Það fór nú að fjúka nett í Kölska og hann ákveður að jafna örlítið um þessa tvo gaura. Hann fer og setur hitann á “Fáránlegt”. Fólk fer að veina og væla út um allt helvíti. Hann fer svo og kíkir á gaurana tvo frá Íslandi og sér að þeir eru komnir á skyrtuna með upprúllaðar ermar og eru að grilla pylsur og þamba bjór.

    Djöfsi verður steinhissa ” Allir hérna inni þjást og veina, en þið virðist bara njóta ykkar?”

    Já sko, það er svo hrikalega sjaldan að við fáum svona gott veður heima á Íslandi, að við urðum bara að grípa tækifærið og grilla aðeins og súpa á öli.

    Alveg óður af bræði, strunsar Djöfsi í burtu og hugsar málið. Að lokum kemst hann að þeirri niðurstöðu að þessir gaurar hafi verið að krókna allt sitt auma líf á Íslandi, þess vegna eru þeir svona kátir yfir öllum hitanum. Djöfullinn ákveður að skrúfa fyrir allan hitann í öllu Helvíti.

    Daginn eftir er orðið ískalt í Helvíti og héla og grýlukerti allsstaðar. Fólki orðið svo kalt að það gat varla gert neitt annað en veinað og aumkað sér yfir kuldanum. Tannaglamur yfirgnæði samt að mestu veinin. Djöfullinn glotti með sjálfum sér og fór að kíkja á gaurana frá Íslandi.

    Þar eru þeir komnir í úlpuna, húfuna og með vettlingana á sér…en Djöfsa til mikillar furðu, eru þeir að hoppa og öskra Ole ole af mikilli gleði !?

    Ég skil ekki, sagði Djöfsi, ég skrúfaði hitann upp úr öllu valdi og þið voruð bara ánægðir og núna er bullandi frost hérna og þið bara öskrandi af gleði?? Hvað í fjárnaum er að ykkur tveim?

    Íslendingarnir líta á Djöfsa með spurn í augum, ” Ha, veistu það ekki? Ef það frýs í helvíti, þýðir það bara að Íslendingar hafa unnið Dani loksins á Parken!”

    þetta e bara létt upphitun fyrir næsta leik erþaggi :c)

    AVANTI LIVERPOOL

  19. Já ég er ekki að draga úr því að heimildin fyrir þessari tilteknu frétt er ekki traust. Hlutir eins og þessir eru hins vegar mjög algengir í viðskiptum þar sem seljandi hefur mjög persónuleg tengsl við starfssemina sem hann er að selja frá sér. 3ji aðili (sem telst heppilegur í augum seljanda) kaupir fyrirtækið í ákveðinn tíma og það selt aftur stuttu sinna og þá skiptir engum togum hver getur keypt, einunigs sá sem er hæstbjóðandi. Þessir menn eru umfram allt annað klókir buisness menn og ef maður hugsar aðeins útí það þá er þetta ekkert fjarlæg hugsun í heimi manna sem lifa fyrir það að græða peninga.

    Um þetta hefur allavegna ekki mikið verið rætt hvort Hicks og Gielette ætli í raun að eiga klúbbinn sjálfir eða hvort þeir myndu selja hann fyrir rétt verð. (Annað en orð þeirra, sem menn í þeirra stöðum hafa nú alveg tekið til baka í gegnum tíðina)

    Fannst þetta allavegana áhugaverð pæling, þó hún slái nú varla út umræður um derhúfur.

  20. Ég hef bara enga trú á því að þeir ætli að selja þetta strax, það er svo mikið í gangi og bjart framundan hjá klúbbnum = hann gæti orðið MUN verðmætari. Þeir lögðu upp með sjö ára plan að mig minnir og ég hef trú á því að þeir standi við það. David Moores vandaði sig líka mjög við valið svo ég leyfi þeim að njóta vafans í bili. (þetta er samt ekkert óhugsandi neitt).

    En annars fínn pistinn hjá þér Olli, tveir svona í viðbót og þú verðskuldar jafnvel derhúfu. Torres er það mest spennandi sem komið hefur á Anfield síðan Gerrard og Igor Biscan voru að brjóta sér leið í liðið 🙂 Gaman t.d. að lesa pistilinn frá Sammaranum #11 frá því í sumar því ég hafði nokkuð svipaðar skoðanir sem ég hlæ að núna, ég myndi ekki einu sinni vilja íhuga það að skipta á Torres og Villa/Tevez núna, enda virðist gaurinn ekkert eiga í teljandi vandræðum með úrvalsdeildina, ekki frekar en CL sem hann hefur ekki spilað í áður (vil samt að hann fái meira að sýna sig þar á komandi mánuðum;))

    p.s. hvað mig varðar þá skaðar einn léttur brandari aldrei á flöskudegi (ef menn fara ekki að missa sig í því).

  21. Trúir einhver Parry lengur? Er hann ekki algerlega búinn að skíta upp á bak? Ráðinn til að gera klúbbinn nútímalegri fyrir rúmum 9 árum síðan, hvernig hefur það tekist hjá honum? Annars trúi ég öllu upp á Hicks, ekki merkilegur pappír þar á ferð.

  22. Það er nú eiginlega túlkunaratriði hvort Parry neiti þessu eða ekki.

    “I have seen the story, and as far as I am aware it is complete rubbish.”

    Mér finnst samt furðulega mikil lognmolla í kringum þessa kana. Þeir töluðu mikið rétt eftir kaupin og sögðust ætla að gefa Rafa fjármagn til að gera hópinn vel samkeppnishæfan. Peningurinn sem þeir eyddu í sumar var ekki það mikill eftir sölu leikmanna og CL peningana.

    Ég auðvitað vona að þeir standi sig vel og geri Rafa kleift að ná í þá menn sem hann telur nauðsýnlega, en ég er samt einhvernveigin með slæma tilfinningu fyrir þeim.

    Og btw, orðið “derhúfa” er klárelga komið til að vera hjá mér ….algjör snild!!!:-)

  23. 30 ég held nú að Parry hafi bara hreinlega gert þó nokkuð til að gera klúbbinn nútímalegri og eigi ekkert sérstaklega inni einhvað skítkast frá okkur, þó auðvitað megi alltaf gera betur. (sjá góðan gestapistil frá Daða Rafns frá því í haust)

    og #32 þá sé ég ekki alveg kostina í því að selja Crouch í janúar….ekki nema það sé ennþá stærra (en ekki stærri, buru búmm búmm dissh) nafn að koma í sóknarlínu félagsins. Mér finnst hann nánast alltaf hressa upp á leikina hjá okkur og skapa hættu.

  24. Já, nákvæmlega Babu. Rafa myndi aldrei selja Crouchy í janúar nema hann væri með einhvern til að taka við af honum . Ég sé ekki að það séu miklar líkur á að við getum keypt jafngóðan framherja fyrir Liverpool í janúar.

  25. Eini sénsinn að Crouch verði seldur í Janúar er held ég, ef Crouch sjálfur fer á skeljarnar fyrir fram Benites og grátbiður um sölu. Vonandi er Crouch ekki á þeim buxunum. En ég skil hann vel að hann vilji spila meira. Ég er ekki viss um að hann vilji vera svona Solskjer týpa og ala sinn feril þannig hjá Liverpool. Lái það honum hver sem vill.

    Don Roberto… takk fyrir góðan brandara 🙂

  26. en getur samt ekki verið að gamli landsliðsþjálfarinn geti lokkað Crouchino til sín með loforðum um fast sæti í byrjunarliði og fleira?
    vonandi ekki þó enda er maðurinn að mínu mati annar helmingurinn af besta sóknarpari Liverpool síðan Owen og Fowler

  27. Torres er þá væntanlega hinn helmingurinn ef einhver skyldi þetta á einhvern annan hátt

  28. Crouch fer í janúar… hann verður að fá að spila reglulega til þess að tryggja sér sæti í enska landsliðinu á EM í sumar 🙂 🙂 🙂

  29. Crouch fer ekki. Við höfum 5 framherja og Rafa er ekki að leita að framherjum,enda hefur Crouch staðið sig vel, og hvað landsliðið varðar þá er það ekki svo sóknarvert að spila með þvi.Spyrjið Carr

  30. Það er kominn tími á að selja Kuyt enda hentar hann betur til smalastarfa. Ótrúlegt að Crouch fái ekki að spila meira miðað við þann árangur sem hann sýnir þegar hann loksins fær tækifæri. Hann á það skilið þó hann sé stór og ljótur. Annars mætti halda góða útsölu í janúar; Riise, Finnan, Sissoko og Pennant eru engan vegin nógu góðir til að klæðast treyjunni. Hyppia er orðin of hægur, en endist þó sennilega út tímabilið. Þá er nóg komið af meðalmennsku kaupum í anda Houlliers. Kaupa leikmenn sem hafa sannað sig. Sjáiði bara Torres.

    Stefán

  31. Mig langar að skora á annað hvort bloggar þessa síðu eða menn í ritstjórn til að gera svona hálfgerðan pistill um Meistara Benitez, hans afrek með liverpool,mun á liðinu í dag og þegar hann tók við því. Menn sem hann vildi fá til liðsins en fékk ekki útaf peningum. Aðeins um hans feril sem þjálfari og um hann sem persónu. Ég væri svo til að fá að lesa svona pistill. Þetta væri líka gott til að sannfæra menn um það að við erum með einn besta þjálfara í heimi og til að vita hvað maðurinn er búinn að gera fyrir liverpool. Maðurinn tók við liði á bullandi niðurleið.
    Ég vona hjartanlega að þessari áskorun verði tekið til að fræða fólk meira um hann og hans störf.

    Já það er nokkuð fyndið að mjög margir og þá meina ég mjög margir sögðu að hann væri einn ofmetnasti leikmaður í heimi, en segja að hann sé ein af bestu framherjum í heimi núna. Já fljótt skipast veður í lofti.
    F.Torres er búinn að vera einn af mínum uppáhalds leikmönnum í nokkur ár enda klassa maður á ferð.

  32. þetta er góð hugmynd ólafur og spurning hvort við skellum ekki í biography um meistara benítez á næstu dögum.

  33. Til að forvitnast aðeins um Benitez þá mæli ég líka með bókinni “A Season on the Brink” eftir Guillem Balague. Bókin fjallar þó að mestu um tímabilið 2004-2005 sem endaði auðvitað í eintómri hamingju í Istanbul. En líka er fjallað um brotthvarf Benitez frá Valencia, söluna á Owen og margt fleira athyglisvert sem allir Púllarar ættu að lesa. Nú þarf Guillem Balague eiginlega að fara að koma með framhald.

    Ef þið viljið kaupa bókina:
    http://www.amazon.co.uk/Season-Brink-Benitez-Liverpool-European/dp/0297852442

  34. Halló er einhver þarna úti.Bolton á morgun ,eitthvað er ekki í lagi.GET EKKI BLOGGAÐ

  35. Sama hér .. get ekki sett inn ummæli við Bolton leikinn.

  36. Ég er búinn að laga þetta. Kristján Atli lét mig vita um þetta í morgun, en ég var of þunnur til þess að laga þetta strax. KOmið í lag núna.

Allir vinir?

Bolton á morgun (uppfært – hægt að kommenta á færslu)