Kvennaliðið heimsækir Leicester

Núna kl. 13 er komið að næsta leik kvennaliðs Liverpool þegar þær heimsækja stúlkurnar í Leicester á Farley Way Stadium. Eins og fram kom í síðasta pistli eru okkar konur efstar í næstefstu deild, og ætla ekkert að sleppa því sæti enda er það eina sætið sem tryggir þær aftur upp í efstu deild. Leicester eru sem stendur í 5. sæti deildarinnar eftir 1 sigur og 2 jafntefli.

Í vikunni léku okkar konur reyndar einn leik í Continental Cup, sá leikur var gegn Manchester United á Prenton Park. Þær gerðu sér lítið fyrir og unnu öruggan 3-1 sigur, lentu undir um miðjan fyrri hálfleik eftir að United konur skoruðu mark sem var örlítil rangstöðulykt af, en Rachel Furness jafnaði úr víti skömmu síðar. Í síðari hálfleik vann svo Jess Clarke annað víti af gríðarlegu harðfylgi, og Rinsola Babajide skoraði úr því víti, en hún hafði komið inná í hálfleik. Það var svo að lokum téð Rachel Furness sem skoraði síðasta markið með glæsilegum skalla eftir hornspyrnu frá Missy Bo Kearns, sú hafði þá nýkomið inná sem varamaður. Að lokum fékk svo Lucy Parry aftur örfáar mínútur í lokin. Rylee Foster lék sinn fyrsta opinbera leik í markinu og stóð sig virkilega vel. Þess má svo geta að téð lið Manchester United var í efsta sæti í efstu deild í morgun, en þá áttu flest liðin eftir að leika sína leiki í umferðinni sem er í gangi þessa helgi svo eftir að bæði Arsenal og Everton unnu sína leiki duttu þær niður í 3ja sætið. Það má því leiða líkum að því að okkar konur eigi fullt erindi aftur upp í efstu deild og geti alveg verið að slást í efri hluta deildarinnar, og þangað stefna þær auðvitað.

Svona verður liðinu stillt upp núna kl. 13:

Laws

Roberts – Robe – Fahey – Hinds

Linnett – Bailey – Furness

Clarke – Thestrup – Lawley

Bekkur: Foster, Jane, Moore, Kearns, Babajide, Parry

Það er semsagt ennþá nauðsynlegt að spila leikmönnum út úr stöðu í hægri bakverði, þó að Rhiannon Roberts eigi það vissulega til að spila þessa stöðu með velska landsliðinu og stóð sig virkilega vel í þessari stöðu í leiknum gegn United í vikunni. Rachel Laws kemur aftur í markið, en annars er stillt upp eins og gegn United.

Þessi leikur verður sýndur beint á The FA Player, og eins og áður er krafist áskriftar til að horfa þar.

Við uppfærum svo færsluna síðar í dag með úrslitum og uppfærðri stöðu í deildinni.

2 Comments

  1. Hvernig fór leikurinn? Vonandi að okkar konur sníti þessari deild og komi sér strax í efri hlutann á efstu á næsta ári!

    1
    • Leikurinn tapaðist, því er nú verr og miður. Líklega sat aðeins í stelpunum að hafa spilað 2 leiki á 7 dögum áður en kom að þessum leik. Fór 2-1 fyrir Leicester, en þær máttu eiga það að berjast fram á síðustu sekúndu.

      2

Jurgen Klopp í fimm ár

Gullkastið – NBA / Project Big Picture / Meistaradeildin / Everton